Fjölnota innkaupapoki á hvert heimili

Bæjarráð hefur samþykkt að verða við erindi Heilsuvinjar Mosfellsbæjar um framleiðslu og dreifingu fjölnota innkaupapoka á öll heimili í Mosfellsbæ. Ákveðið hefur verið að pokunum verði dreift helgina eftir dag íslenskrar náttúru þann 16. september næstkomandi. Með pokunum fara heilsueflandi skilaboð frá Landlæknisembættinu sem er samstarfsaðili Mosfellsbæjar og Heilsuvinjar
í verkefninu um Heilsueflandi samfélag. Einnig fer með pokunum kveðja frá Mosfellsbæ sem útskýrir markmiðið með verkefninu. Eitt helsta markmiðið með verkefninu er að stuðla að minni notkun plastpoka í Mosfellsbæ ásamt því að tengja umhverfisvernd við heilsueflingu.