Fjölbreyttar gönguleiðir við allra hæfi

Ævar Aðalsteinsson í hlíðum Helgafells.

Ævar Aðalsteinsson í hlíðum Helgafells en búið er að stika um 90 km af gönguleiðum í Mosfellsbæ.

Farsælt samstarf á milli Mosfellsbæjar og skátafélagsins Mosverja, um að auðvelda Mosfellingum að nýta sér útivistasvæði í kringum bæinn til útivistar og gönguferða, hefur staðið yfir í nokkurn tíma. „Þetta byrjaði á árunum 2004-2005 en þá fengu skátarnir fyrirspurn frá Íþrótta- og tómstundanefnd þar sem óskað var eftir hugmyndum að útivistaverkefnum,“ segir Ævar Aðalsteinsson sem hefur haft yfirumsjón með þessu verkefni frá byrjun. „Stikaðar gönguleiðir um fellin og dalina í kringum Mosfellsbæ var ein af þeim hugmyndum. Það var svo árið 2008 sem undirritaður var samstarfssamningur milli þessara aðila en þá lá fyrir bæði verkefnaáætlun og kostnaðaráætlun fyrir þetta verkefni.“ Góð verkáætlun í byrjun „Landsvæðið var skipulagt þannig í byrjun að við hefðum yfirsýn yfir svæðið. Fyrsta sumarið fór í skipulagningu og meðal fyrstu verkefna var að ræða við landeigendur og fá heimild til að fara yfir þeirra eignalönd. Hannað var göngukort fyrir heildarsvæðið, hönnuð voru skilti, vegprestar, girðingastigar og göngubrýr. Sótt var um leyfi fyrir bílastæðum og fleiru sem fylgdi verkefninu. En sumarið 2009 voru fyrstu 10 km stikaðir,“ segir Ævar og vill meina að ein af ástæðunum fyrir að fólki finnst gott að búa í Mosfellsbæ sé nálægðin við ósnerta náttúru. Stikaðar gönguleiðir 90 km „Þetta verkefni hefur gengið mjög vel og ég held að allir séu sammála um að það er aukin umferð göngufólks á svæðinu. Staðan er þannig í dag að búið er að stika um 90 km af gönguleiðum, útbúa um 10 bílastæði, fjöldan allan af girðingastigum og göngubrúm.“ „Á svæðinu eru um 30 vegprestar og 30 upplýsinga- og fræðsluskilti. Á þessum skiltum eru staðarheiti, vegalengdir og ýmsar fróðlegar upplýsingar, bæði landfræðilegar og sögulegar. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar og því ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Við skipulögðum göngurnar með það í huga að teyma göngufólkið á fallega staði á svæðinu.“ Úlfarsfellið fjölfarnasta útivistarsvæðið „Verkáætluninni, eins og hún var gerð í upphafi, fer að ljúka og nú tekur við viðhaldsstig. Svo er það spurningin hvert viljum við fara með þetta verkefni og það eru þegar komnar nokkrar hugmyndir að næstu skrefum.“ „Nú í sumar ætlum við að leggja stíg á gönguleiðina frá Skarhólabraut upp á Úlfarsfellið, sem er að verða eitt fjölsóttasta útivistarsvæðið á höfuðborgarsvæðinu. Reykjvíkingar eru að hugsa um að gera svipað sín megin og skógræktin í Hamrahlíðarskógi ætlar að gera stíg frá sínu svæði. Þetta er jákvæð þróun og við höfum fengið mikinn meðbyr frá almenningi,“ segir Ævar að lokum og tekur fram að umgengnin á gönguleiðunum sé alveg til fyrirmyndar og hvetur Mosfellinga til að nýta sér gönguleiðirnar í kringum bæinn okkar. Hér er hægt að skoða kort af stikuðum gönguleiðum í Mosfellsbæ. (Einnig er hægt að nálgast göngukort í þjónustuveri Mosfellsbæjar, sundlaugunum, bókasafninu og víðar)