„Fermetrar með þaki“ eða byggingarlist

Gunnlaugur Johnson

Gunnlaugur Johnson

Undanfarin misseri hefur mikið verið byggt í Mosfellsbæ. Ný hverfi hafa risið í Helgafellslandi og Leirvogstungu, íbúðabyggingar af ýmsum stærðum og gerðum. Sömuleiðis hefur atvinnuhúsnæði verið byggt við Desjamýri, og víða eru framkvæmdir inni í eldri hverfum bæjarins.
Undirritaður hefur setið síðastliðin 3 ár í skipulagsnefnd sem fulltrúi Íbúahreyfingarinnar og fylgst með þessari framkvæmdasemi á ýmsum stigum og reynt að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að beina þeim í farsælan farveg.
Við hönnun byggingar er að ýmsu að hyggja. Hún þarf að uppfylla kröfur og þarfir húsbyggjandans en jafnframt að falla vel inn í umhverfi sitt, og vera augnayndi fyrir nágranna og aðra. Hún þarf að samræmast fyrirliggjandi deiliskipulagi og uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar.
Rétt eins og við aðrar athafnir mannanna eru margir sem koma að svona verki; hver fagmaður veit hvar hans hæfileiki og þekking nýtist best og sinnir sínu hlutverki af kostgæfni og alúð.
Eða hvað?
Við uppskurð koma ýmsir að verki, skurðlæknir, hjúkrunarfræðingar, svæfingarlæknir, lyfjafræðingar og fleiri. Allir vita hvað til síns friðar heyrir og engum dettur í hug að sinna öðru en sínu hlutverki.
Við hönnun bygginga ætti sama verklag að gilda. Arkitektinn hannar bygginguna með tilliti til rýmisuppbyggingar og flæðis, stýrir birtu og litavali og nýtir listfengi sitt til að byggingin sé prýðileg umhverfinu. Verkfræðingurinn sér um að húsið sé traust og öruggt og uppfylli fagurfræðilegar væntingar arkitektsins, og tækni- og byggingarfræðingurinn tryggja að húsið hvorki leki né mygli eða sé tæknilega ófullnægjandi. Síðan eru gerðar lagnateikningar fyrir rafmagn og hitaveitu, vatnslagnir og fráveitu og ýmislegt annað. Oft kemur landslagsarkitekt að hönnun umhverfis hússins, veranda og garðs. Allir vita hvað til síns friðar heyrir og engum dettur í hug að sinna öðru en sínu hlutverki.
Því miður er veruleikinn annar í raun. Löggjafinn lítur svo á að allir sem eiga tölvu með teikniforriti hljóti að geta gert það sama, og því skuli þeir allir hafa sömu réttindi. Allmargir bygginga- og tæknifræðingar gefa sig út fyrir að vera jafn hæfir arkitektum við húsahönnun, þótt uppbygging náms þeirra sé á engan veg sambærileg, og taka að sér að gera aðalteikningar af húsum.
Þessu hefur verið líkt við að gefa slátrara læknisleyfi. Húsbyggjendur eru grandalausir og treysta sínum hönnuði í blindni. Þegar svo byggingin er risin og mistökin og klúðrið blasa við er of seint að iðrast.
Vitaskuld er ekkert mál að búa í vondu húsi. Maður getur sofið víðast, salernið virkar yfirleitt og gegnumsneitt kemst maður af fyrirhafnarlítið. En þó skynja allir á eigin skinni muninn á „fermetrum með þaki“ og góðri byggingarlist, og oftast er byggingarlistin ódýrari þegar til kastanna kemur, og ánægjulegri, bæði fyrir eigandann og umhverfið.
Sem nefndarmaður í skipulagsnefnd hef ég því miður horft upp á hvernig húsbyggjendur í Mosfellsbæ hafa látið vanhæfa aðila hanna sín hús og þannig klúðrað þeim möguleikum sem spennandi lóðir hafa boðið upp á.
Ég hef margoft lýst eftir byggingarlistarstefnu Mosfellsbæjar, sem boðuð er í núverandi aðalskipulagi en hefur ekki enn séð dagsins ljós. Gildandi byggingarreglugerð er mjög yfirgripsmikil varðandi byggingartækni og öryggismál, en þar er hvergi tæpt á fagurfræði eða formskyni, sjónmenntun eða öðru sem gæti hjálpað byggingarfulltrúum landsins til að verjast verstu smekkleysunni.
Ég hvet alla sem hyggja á húsbyggingar að vanda val sitt á ráðgjöfum og muna að vel skal til þess vanda sem lengi á að standa.

Gunnlaugur Johnson
Höfundur er arkitekt og fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í skipulagsnefnd Mosfellsbæjar