Félagsskapur er lýðheilsumál

Silja Ingólfsdóttir

Manneskjan er félagsvera. Fólki sem býr við langvarandi félagslega einangrun er hættara við ýmsum líkamlegum kvillum og verri heilsu en öðrum. Félagsskapur, má því segja, er því lýðheilsumál. Félagsleg einangrun á sér gjarnan erfiðan fylgifisk: Einmanaleikann.
Nú á tímum COVID-19 eru margir að upplifa einangrun í fyrsta sinn og eiga erfitt með að takast á við tilfinningarnar, streituna og þá vanlíðan sem getur fylgt því. Sjálfsefi, kvíði og erfiðar hugsanir geta leitað á fólk. Það er eðlilegt að eiga erfitt með að takast á við aðstæðurnar, við höfum fæst þurft að gera þetta áður.
Einmanaleiki er ekkert til að skammast sín fyrir, við getum öll upplifað hann. Til allrar hamingju er ástandið tímabundið fyrir flesta. Því miður er það þannig að sumir þekkja aðstæðurnar alltof vel og hafa glímt við slíkt í lengri tíma. Félagsleg einangrun og einmanaleiki eru allt of algeng og fylgja fólki á öllum aldri í öllum kimum samfélagsins.

Á meðan við sjáum fólk fjalla um áskoranir sem fylgja því að vinna heima með alla fjölskylduna og börnin í kringum sig þá eru margir sem búa einir og hafa ekki þann félagsskap í kringum sig. Að búa einn og vinna að heiman, hafa lítil sem engin tengsl við vinnufélagana eða fólkið sem maður hittir annars oft í viku í líkamsrækt eða öðrum tómstundum. Þarna skiptir miklu máli að átta sig á því að það er eðlilegt að finna fyrir erfiðum tilfinningum í einangrun og þessum óeðlilegu aðstæðum.
Það skiptir öllu máli að átta sig á því að þetta ástand tekur enda og á meðan getum við öll leitað eftir aðstoð, tengt okkur við félagsskap, leitað til Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og fengið síma- eða gönguvin hjá Rauða krossinum til að spjalla við.

Við berum öll ábyrgð á því að gera það sem við getum til að sýna náunganum kærleik og eftirtekt. Við eigum öll erindi og skiptum öll máli í samfélaginu. Fólk sem fer nú út að ganga: Takið hvert eftir öðru, horfið á fólk, heilsið, brosið hvert til annars. Allir þessir litlu hlutir sem kosta okkur ekki neitt gera samt svo ótrúlega margt til að bæta samskipti og samfélagið. Rétt eins og við erum öll almannavarnir og öll barnavernd, þá erum við öll mikilvægur hluti af samfélaginu sem við byggjum saman.
Á meðan faraldurinn er enn viðloðandi eru margir kvíðnir, hræddir og smeykir við að fara út úr húsi. Á meðan býður Rauði krossinn fólki að fá símavin eða gönguvin. Símavinir eru sjálfboðaliðar sem hringja daglega, eða tvisvar í viku, í fólk sem þess óskar.
Á nokkrum vikum hefur fjöldi þátttakenda í símavinunum margfaldast, margir eru tímabundið í einangruðum aðstæðum á meðan aðrir glíma við það til lengur. Rauði krossinn kemur til móts við þarfir hvers og eins. Fólk sem vill gjarnan fara út að ganga, en vill síður gera það eitt eða þarf smá hvatningu til að fara, getur fengið gönguvin. Þá miðast samveran við að farið sé í göngutúr einu sinni í viku og spjallað.
Hægt er að óska eftir tímabundnum göngu- og/eða símavin á kopavogur@redcross.is og það má líka halda því opnu hvort maður vill e.t.v. halda áfram að hitta sjálfboðaliða þegar COVID-19 takmörkunum verður aflétt.

Silja Ingólfsdóttir,
deildarstjóri Rauða krossins í Kópavogi.