Fékk snemma áhuga á undrum náttúrunnar

andresarnalds_mosfellingur

Umhverfismálin hafa verið fyrirferðarmikil bæði í leik og starfi hjá Andrési Arnalds fyrrverandi fagmálastjóra hjá Landgræðslunni og núverandi verkefnastjóra en hann hefur starfað hjá stofnuninni í 37 ár.
Undanfarin ár hefur hann komið að úrbótum vegna þeirra miklu áhrifa sem vaxandi fjöldi ferðafólks hefur á okkar viðkvæma land.
Andrés ætlar að láta af störfum um áramótin en hann segir að hugsjónin um að vernda landið verði ávallt á sínum stað.

Andrés er fæddur í Reykjavík 4. desember 1948. Foreldrar hans eru þau Ásdís Andrésdóttir og Sigurður Arnalds útgefendur bóka og tímaritsins Satt en þau eru bæði látin.
Andrés á fimm bræður, Jón, Ragnar, Sigurð, Einar og Ólaf en Jón og Einar eru látnir.

Glitrandi vorkvöldin við Húnaflóann
„Ég ólst upp í Reykjavík og að hluta til á Ósum á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu. Líklega tengjast æskuminningarnar mest mínu notalegu heimili á Stýrimannastígnum og fjölbreyttum útileikjum.
Dvölin á Ósum á einnig stóran sess, að gefa kindunum, þegar ég fékk að velja mér lamb, fyrsta sumarkaupið, móðurlausi sel­kópurinn Harpa, útreiðatúrar og glitrandi vorkvöldin við Húnaflóann.
Ég dvaldi fyrst á Ósum þegar ég var 3 ára og var þar síðan öll sumur til 16 ára aldurs auk vetrarins þegar ég varð sex ára.“

Mannskapurinn gat verið skrautlegur
„Ég gekk í Miðbæjarskólann og líkaði vel, ég fékk snemma áhuga á undrum náttúrunnar sem fylgt hefur mér mér æ síðan.
Eftir landspróf úr Gagnfræðaskólanum í Vonarstræti tóku við fjögur dýrðleg ár í Menntaskólanum í Reykjavík. Á menntaskólaárunum vann ég hins vegar fyrir mér á togurum, lengst af á síðutogaranum Ingólfi Arnarsyni.
Á togurunum gat mannskapurinn verið skrautlegur þegar komið var um borð á þeim aflalitlu árum en í ljós kom margt gullið þegar rann af þeim.“

Reyndi að komast á krabbaveiðar
„Leiðin lá á Hvanneyri, þar átti ég frábær ár í Bændaskólanum og framhaldsdeildinni og útskrifaðist 1971. Við tók nám í beitarstjórnun og stjórnun vistfræði beitilanda í Washington í Bandaríkjunum 1972-74.
Á sumrin var ég sjómaður í Alaska, fyrst á laxveiðum þar sem við fengum 19.000 laxa á nítján veiðidögum. Talið var upp í árnar og skipin fengu aðeins að veiða einn dag í viku.
Seinna sumarið fékk ég far með rækjubát frá Seattle til Alaska þar sem ég ætlaði að reyna að komast á krabbaveiðar en lenti í selarannsóknum.“

Kynntist húnvetnskri bóndadóttur
Skömmu eftir heimkomuna, síðasta vetrardag 1975, kynntist Andrés húnvetnskri bóndadóttur og hafa þau verið saman síðan. Hún heitir Guðrún Pálmadóttir og er dósent í iðjuþjálfunarfræði við Háskólann á Akureyri.
Þau eiga fjögur börn, Ásdísi Aðalbjörgu f. 1977, Ara Pálmar f. 1980, Ólaf Þór f. 1986 og Hólmfríði Ósk f. 1988. Fyrir átti Andrés Stefán f. 1972 með Ráðhildi Stefánsdóttur. Barnabörnin eru sjö.

Standa vörð um sérstöðu náttúrunnar
Á árunum 1981-1984 stunduðu hjónin nám í Colorado í Bandaríkjunum og börnin fylgdu með. „Við fluttum svo í Mosfellssveit skömmu eftir að við komum til baka. Það var ári fyrir breytinguna úr sveit í bæ og trúlega var það sveitablærinn og nálægðin við fellin og fjöllin sem réði mestu.
Við höfum verið dugleg að stunda útivist og fara í ferðalög og víða farið bæði innanlands og utan. Ég hef komið á fjölmarga fallega staði erlendis, en því oftar sem ég fer til annarra landa þeim mun fegurra finnst mér Ísland. Við þurfum að standa vörð um sérstöðu náttúrunnar og landslagsheilda.“

Tónlistin er allra meina bót
„Áhugamál mín eru mörg og hefur tónlistin verið fyrirferðarmikil. Börnin voru í tónlistarnámi hér í bænum og Guðrún hefur lengst af sungið í kórum. Ég var alltaf í klappliðinu og er enn dyggur stuðningsmaður á tónleikum sem eru nokkuð tíðir hjá þessari fjölskyldu. En svo kom loks að mér, ég gekk í Vorboðana, kór aldraðra, nú í vetur. Tónlistin er allra meina bót.
Ég hef verið í Lionsklúbbi Mosfellsbæjar í mörg ár sem er skemmtilegur félagsskapur. Ég hef séð það í gegnum tíðina, allt frá mínum sjómennskuárum, hve stuðningur við þá sem orðið hafa á mistök í lífinu skiptir miklu máli, ekki bara fyrir þá sjálfa, heldur ekki síður fyrir samfélagið.“

Samskiptin breyttust til hins betra
Umhverfismálin hafa verið fyrirferðarmikil bæði í leik og starfi hjá Andrési. Sveinn Runólfsson fyrrverandi landgræðslustjóri fékk hann „að láni“ frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins sumarið 1981, en svo fór að honum var aldrei skilað.
„Mér líkaði starfið hjá Landgræðslunni vel. Á mínum langa ferli hef ég komið að beitar- og landgræðslumálum um land allt. Það reyndi oft á, einkum vegna skilningsleysis á áhrifum beitar. Með tilkomu farsælla samstarfsverkefna, eins og „Bændur græða landið“, breyttust samskiptin við grasrótina mjög til hins betra.“

Í túninu heima
Andrés hefur haft mikinn áhuga á umhverfismálum í Mosfellsbæ og tók þátt í stofnun og starfi samtakanna Mosa sem voru mjög öflug á sínum tíma.
Í samstarfi við Mosfellsbæ var haldin fjölsótt ráðstefna í Hlégarði árið 1994 sem bar heitið „Í túninu heima“ þar sem fjallað var um umhverfismál, útivist og mannlíf. Samtökin hlutu viðurkenningu Mosfellsbæjar fyrir framlag til umhverfismála 1996. Árið 2016 var Andrési veitt viðurkenning frá bænum fyrir störf á sviði umhverfismála.

Sæmdur fálkaorðunni
Árið 2011 var Andrés sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf á vettvangi landgræðslu og jarðvegsverndar. Hann hefur verið virkur í alþjóðlegu samstarfi um landgræðslumál, m.a. sótt fundi erlendis og komið að undirbúningi alþjóðlegra ráðstefna.
„Við hér á Íslandi höfum nýtt okkur vel reynslu annarra þjóða, meðal annars til að stuðla að auknu landlæsi og þátttöku bænda jafnt sem almennings í vernd og endurreisn landkosta. Landverndarstarfið í Ástralíu hefur verið þar góð fyrirmynd. Jafnframt höfum við af mikilli þekkingu og reynslu að miðla til annarra þjóða sem eru að stríða við svipuð landeyðingarmál og við höfum verið að fást við hér frá því að skipulagt landgræðslustarf hófst fyrir 110 árum. Á þessum grunni starfar hér Landgræðsluskóli háskóla Sameinuðu þjóðanna og hef ég verið þar bæði í fagráði og sem kennari frá upphafi.“

Laus við meginskyldur
„Síðustu árin hef ég komið talsvert að úrbótum vegna þeirra miklu áhrifa sem vaxandi fjöldi ferðafólks hefur á okkar viðkvæma land. Ástand gönguleiða og staða er víða slæmt og efla þarf fagmennsku í því sem gert er.
Nú er ég að draga saman seglin, laus við meginskyldur sem fylgdu því að vera fagmálastjóri Landgræðslunnar og læt af störfum um áramót eftir að hafa starfað í 37 ár hjá þessari merku stofnun. Vissulega tímamót en hugsjónin um að vernda landið verður ávallt á sínum stað,“ segir Andrés er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 17. maí 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs