Fékk áskorun um að skrifa spennandi bók

peturoghalla_inga

Ingibjörg Valsdóttir gaf nýverið út sína fyrstu bók, barnabókina Pétur og Halla við hliðina – Fjöruferðin. Ingibjörg lærði sjúkraþjálfun og lauk mastersnámi í ritstjórn og útgáfu árið 2014. Hún hefur síðan starfað sjálfstætt við þýðingar, ritstörf og yfirlestur.
„Ég fékk áskorun frá vinkonum mínum um að skrifa spennandi bók fyrir krakka. Ég hef skrifað eitt og annað sem situr fast í skjölum í tölvunni minn en ekkert sem hefur komið út. Ég tók þessari áskorun og vissi svosem ekki að þessir krakkar væru þarna í höfðinu á mér fyrr en ég byrjaði að skrifa. Fyrst kom Pétur og svo Halla og áður en ég vissi af voru þau lent í smá veseni,“ segir Ingibjörg og segir alveg jafn líklegt að bækurnar um Höllu og Pétur verði fleiri.

Hentar yngri lesendum
Bókin er gefin út af Bókabeitunni og er í seríu sem kallast Ljósaserían. Bækurnar í seríunni henta elstu börnum í leikskóla og yngri stigum grunnskóla. Allar bækur Ljósaseríunnar eru með þægilegu letri, myndskreyttar og auðveldar aflestrar.
„Ég hef fengið góð viðbrögð frá lesendum á öllum aldri. Halla og Pétur eru skemmtilegir en ólíkir krakkar sem lenda í ævintýrum í fjörunni.
Sagan gæti gerst svo til hvar sem er en það er óneitanlega hægt að segja að umhverfið í Mosfellsbæ sé kveikjan að sögunni. Ég er alin upp í Arnartanganum. Túnin þar fyrir neðan og Leirvogurinn voru leikvöllur æskunnar.“

Útgáfuboð næsta fimmtudag
Bókin fæst í öllum helstu bókaverslunum en einnig er hægt að nálgast hana á Heimkaup. Þann 16. nóvember verður haldið útgáfuboð í Eymundsson í Smáralind og vonast Ingibjörg eftir að sjá sem flesta Mosfellinga.