Eva kveður stjórn­málin í Mosfellsbæ

evamagnusdottir

Eva Magnúsdóttir varabæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar til margra ára hefur beðist lausnar. „Ég stofnaði fyrir um ári síðan ráðgjafarfyrirtækið Podium ehf. Það hefur farið mjög vel af stað sem þýðir að ég sé mér ekki fært að sinna starfi mínu sem varabæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar,“ segir Eva. „Ég verð því miður að biðjast lausnar frá því að vera varabæjarfulltrúi í Mosfellsbæ. Á næstu vikum og mánuðum mun ég vinna í því að þróa enn frekar framtíðarstefnu fyrir fyrirtækið mitt.“
Eva hefur starfað til fjölda ára í þágu Mosfellinga sem varabæjarfulltrúi, formaður fræðslunefndar og formaður fimleikadeildar og hefur starfið gefið henni mikið. „Ég vil þakka núverandi meirihluta og minnihluta fyrir farsælt og afar skemmtilegt samstarf og óska þeim alls hins besta í framtíðinni. Kjósendum mínum vil ég einnig þakka traustið og nota tækifærið að segja að þó það sé kannski gott að búa í Kópavogi þá er samt best að búa í Mosfellsbæ,“ segir Eva.
Podium sérhæfir sig í almannatengslum, markaðsmálum, stefnumótun og breytingastjórnun. Eva hefur margra ára reynslu af þessum málaflokkum en hún sat í framkvæmdastjórn Mílu og starfaði sem forstöðumaður samskipta og talsmaður hjá Símanum í alls 14 ár. Hún starfaði auk þess sem ráðgjafi í markaðs- og almannatengslum hjá KOM og var blaða- og fréttamaður um langt skeið.