Ertu fáviti?

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Ertu fáviti? spurði markalaus og pirraður framherji 4. flokks Selfoss varnarmanninn son minn um síðustu helgi. Bætti svo við: Á ég að lemja þig? Minn maður bauð honum að gjöra svo vel, brosti og hélt áfram að spila leikinn. Stórkostleg viðbrögð, ég var ekki lítið ánægður með hann þegar hann sagði mér frá þessu eftir leikinn. Það er mun algengara að leyfa öðrum koma sér úr jafnvægi. Kenna svo um að hafa gert mann reiðan eða pirraðan og „látið mann“ gera hitt eða þetta. Minn maður hefði getað vaðið í sóknarmanninn eða öskrað á hann á móti og þannig látið hann koma sér úr jafnvægi. Kennt honum svo um að hafa reitt sig til reiði. En hann valdi að gera það ekki. Hann valdi að brosa, halda áfram að spila fótbolta og koma áfram í veg fyrir að nýi vinur hans skoraði mark.

Þegar maður nær að stýra tilfinningunum er maður mun hæfari í því sem maður gerir. Líklegri til þess að ná árangri. Líklegri til þess að klára það sem maður byrjaði á. Líklegri til þess að mæta á æfingu, fara að sofa á skikkanlegum tíma, leika við börnin, hafa gaman af lífinu. Líklegri til þess að líða betur, vera heilsuhraustari á líkama og sál.

Pirraði gaurinn, sem við höfum öll einhvern tíma verið, er líklegri til að taka rangar ákvarðanir, gera mistök, hætta við góðu vanana og gefast upp á því sem hann byrjaði. Næst þegar einhver spyr þig hvort þú sért fáviti, býður þér upp á barsmíðar, kallar þig feitan, mjóan, ljótan, sveitalubba eða pirrar þig á einhvern annan hátt, kallaðu fram mynd í huganum af brosandi varnarmanni í rauðum búningi Aftureldingar og taktu þér hann til fyrirmyndar þegar þú bregst við. Þér á eftir að líða miklu betur og hinn lærir vonandi af mistökum sínum.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 28. janúar 2016