Eldri ökumenn í umferðinni

Hreiðar Örn Zoega Stefánsson

Hreiðar Örn Zoega Stefánsson

Í almennri umræðu er oft rætt um eldri ökumenn sem hættu í umferðinni. Jafnframt að þörf sé á að hafa meira eftirlit með þessum hópi ökumanna, meðal annars með því að skylda þá til að fara reglulega í akstursmat.
Í nýafloknu námi til ökukennslu skrifaði ég ritgerð um eldri ökumenn og spurði þeirrar spurningar: Eru eldri ökumenn hættulegri en yngri ökumenn í umferðinni?
Niðurstaðan var sú að aldur segir ekki til um getu hvers og eins til að aka bifreið, heldur koma þar fjölmargir aðrir þættir sem geta gert ökumenn mishæfa til að stjórna bifreið, má þar helst nefna heilsu hvers og eins. En hvað breytist þegar aldurinn hækkar?
Þegar við eldumst hrakar almennri heilsu, þar með sjón, heyrn, viðbragðstíma og almennri hreyfigetu. Þessir þættir tengjast oft vanda í umferðinni.

Sjón: Góð sjón er ein af grunnkröfunum í öruggum akstri. Sjónin breytist þegar aldurinn færist yfir og því er nauðsynlegt að láta kanna sjónina á nokkurra ára fresti og þá sérstaklega þegar árin færast yfir.

Heyrn: Góð heyrn er einnig mjög mikilvæg í akstri. Nauðsynlegt er að ökumenn heyri og geti þannig greint hættumerki í umferðinni. Eins og sjón þá hrakar heyrn einnig með aldrinum.

Hverjir eru styrkleikar og veikleikar eldri ökumanna? Styrkleikar eldri ökumanna liggja í meiri reynslu og dómgreind er oft betri en hjá yngri ökumönnum, en breytingar til dæmis á umferðarmannvirkjum, akstursleiðum og ökutækjum geta reynst þeim eldri erfiðari ásamt nýjum umferðarmerkjum. Reikna má með að eldri ökumenn eigi erfiðara með akstur í lélegu skyggni s.s. myrkri og misjafnri lýsingu. Oft eru eldri ökumenn á lyfjum sem einnig geta haft áhrif á akstursgetu.
Töluvert hefur verið rætt um þá þörf að setja upp ferla sem aðstoða eldri borgara til að meta hæfni sína til þátttöku í umferðinni. Slíkir ferlar gætu verið í formi akstursmats eins og notað er fyrir útgáfu fullnaðarskírteinis. Í því akstursmati væri kannað hvort mat viðkomandi ökumanns væri í samræmi við raunverulega getu viðkomandi. Markmið slíks mats er að ökumaðurinn geri sér fulla grein fyrir getu sinni og hæfni í umferðinni. Einnig er rík þörf á fræðslu fyrir eldri borgara í umferðinni.

Hvað gerist þegar aldurinn færist yfir?
Ég hef tekið saman örnámskeið sem verður í boði fyrir félög eldri borgara. Námskeið þetta tekur á eftirfarandi þáttum: Mannfjöldaspá, helstu orsökum umferðaslysa eldri ökumanna, kvíða, öldrun og athyglisskerðingu, gildistíma ökuskírteina, endurnýjun og akstursmat.
Hafir þú spurningar um þetta efni, næstu námskeið eða vilt bóka tíma í ökukennslu eða ökumat, hafðu þá samband í gegnum netfangið hzoega@gmail.com eða í síma 820 1616.

Hreiðar Örn Zoega Stefánsson, ökukennari