Einn eða tveir skólar?

Foreldar barna í Varmárskóla fengu rafræna kynningu á niðurstöðum HLH ráðgjafar um stjórnskipulag Varmárskóla og tillögu hans um að skipta skólanum í tvo skóla.
Fámennt var á fundinum og því ákvað stjórn foreldrafélgsins að varpa spurningunni yfir til foreldra/forráðamanna um álit þeirra á fyrirhugaðar breytingar stjórnskipulagsins. Á heimasíðu foreldrafélagsins var einfaldlega spurt; einn eða tveir skólar?
Alls svöruðu 147 foreldar/forráðamenn könnuninni. Rúmlega helmingur eða 51% af þeim voru sammála tillögum HLH ráðgjafar um að betra væri að skipta skólanum upp í tvo sjálfstæða skóla. Það voru 26.5% sem svöruðu neitandi og 22.4% voru hlutlaus. Foreldrum/forráðamönnum gafst einnig kostur á að svara spurningunni: „Viltu koma einhverju á framfæri?”. Tæplega þrjátíu manns svöruðu og komu með ýmis konar ábendingar og tillögur. Það sem helst kom stjórn foreldrafélagsins á óvart við úrvinnslu gagnanna var hversu mikill fjöldi foreldra/forráðamanna hafði ekki vitneskju um fyrirhugaðar aðgerðir og skildi því ekki ástæðu könnunarinnar. Það er því ljóst að upplýsingaflæði varðandi skýrslu HLH ráðgjafar til foreldra/forráðamanna hefði mátt vera ýtarlegra og með meiri fyrirvara.

Hér er að neðan er samantekt úr þeim ábendingum sem barst frá foreldrum/forráðamönnum:
Jákvæð viðhorf: Eins og fram hefur komið var meirihluti forráðamanna jákvæður fyrir því að skólanum yrði skipt upp í tvo sjálfstæða skóla. Nokkrir þeirra tóku fram að tilvalið væri að skipta skólanum upp í smærri einingar. Fram kom að skólinn væri sprunginn og að með skiptingunni fengist eflaust meiri yfirsýn yfir skólastarfið.
Nýir skólastjórnendur: Algengasta ábend­ingin sem kom fram var ósk forráðamanna um að ráðnir yrðu nýir skólastjórnendur fyrir nýja skóla og mikilvægt væri að auglýsa báðar stöðurnar. Foreldrafélagið tekur undir þessar ábendingar foreldra.
Ónægar upplýsingar: Margir höfðu spurningar um hvaða breytingar þetta myndi í raun hafa í för með sér. Hvort mötuneyti yrði í báðum skólum? Hvort stoðþjónustan myndi eflast? Hvort tvö foreldrafélög yrðu starfrækt? Skýr ósk kom fram um að nauðsynlegt væri að hafa ýtarlega kynningu fyrir foreldra/forráðamenn.
Annað: Aðrir voru sáttir við stöðuna eins og hún er í dag. Fram kom að kosturinn við óbreytt fyrirkomulag væri samnýting ýmissa starfsmanna. Einnig var bent á að ef einungis væri um stjórnarfarslega breytingu að ræða myndi þetta í raun skipta litlu fyrir nemendur og foreldra/forráðamenn.
Stjórn foreldrafélags Varmárskóla mun senda fræðslunefnd Mosfellsbæjar niðurstöður könnunarinnar í von um að ábendingar foreldra reynist gagnlegar og að mark verði tekið af þeim í komandi skipulagningu skólanna.

Fh. stjórn foreldrafélags Varmárskóla
Ólafía Bjarnadóttir