Mannvænt eða bílvænt skipulag?

Bjartur Steingrímsson

Í huga mínum er Mosfellsbær grænn og nútímalegur bær. Hér er góður aðgangur að óspilltri náttúru og grænum svæðum, byggðin fjölbreytt og í góðu samræmi við umhverfi sitt.
Þegar ég var í fæðingarorlofi með litlu stúlkuna mína var ég duglegur að ganga með hana í kerrunni sinni. Ég held að ég hafi á þessum sumarmánuðum gengið nokkurn veginn hvern einasta göngustíg bæjarins þrisvar, og fannst mér það nær alltaf jafn skemmtilegt og endurnærandi – með einni undantekningu. Það var ef þörf var á að gera krók á göngutúrnum til að skjótast í Bónus eða Krónuna. Umferðin, skarkalinn og breiðar göturnar fældu frá eftir rólega göngu upp með Varmánni eða niður í Leiruvog.

Sé horft á loftmynd af miðbæ Mosfellsbæjar kemur ein staðreynd í hug ofar öðrum. Það er að húsin eru smá og bílastæðin ógnarstór. Þegar við skipuleggjum umhverfi okkar og byggð er það augljóslega gert eftir þörfum mannfólksins sem þar býr. Þær þarfir eru þó síbreytilegar og þarf skipulagsvaldið að vera sveigjanlegt eftir því.
Þegar umhverfið í miðbæ Mosfellsbæjar er skoðað með það að sjónarmiði sjást glögglega þarfir fortíðarinnar.

Mosfellsbær er bæjarfélag í örum vexti og eftirsótt. Þessi sístækkandi hópur bæjarbúa hefur fjölbreyttari þarfir og væntingar en áður og eðlilegt að bæjarumhverfið breytist í takt við það.
Þótt einkabíllinn sé og verði áfram þarfur þjónn í þeim raunveruleika sem við búum við hér á landi þarf að gera öðrum samgöngumátum og áherslum jafnhátt undir höfði.
Við í Vinstri Grænum höfum þegar sýnt það í verki með stuðningi við Borgarlínu og uppbyggingu fjölþátta samgöngustíga hér í bænum. En við getum gengið enn lengra, sér í lagi í nærumhverfi okkar.
Breiðgata getur hæglega orðið að göngugötu, bílastæði að torgi eða almenningsgarði þar sem börn geta leikið og foreldrar setið og sötrað kaffi. Þannig gætum við svarað kalli nútímans um vistvænni samgöngur og lífshætti, en einnig gagnrýni þeirra sem kalla Mosfellsbæ svefnbæ.
Ég sé fyrir mér að hér muni rísa lífvænlegri, fjölbreyttari og grænni miðbær sem fólk mun vilja heimsækja og jafnvel eyða tíma í – hvort sem það komi gangandi, hjólandi, í strætó eða á bílnum. Það er bara að þora að taka af skarið.

Bjartur Steingrímsson
Höfundur skipar 3. sæti V-listans í kosningunum 14. maí.

Hvað er vinstri og hvað er grænt?

Ólafur Ingi Óskarsson

Um þessar mundir er leitun að stjórnmálaflokki sem á jafnt lítið erindi inn í stjórnmál og Vinstri græn. Hvort sem litið er til þátttöku þeirra í ríkisstjórn eða sveitarstjórn.
Flokkur sem málar sig upp í sterkum litum, en á bak við þá er ekkert vinstri og ekkert grænt lengur. Þetta sést hvað gleggst í stuðningi VG við spillingar­flokkana í ríkistjórn og nú síðast í tengslum við söluna á Íslandsbanka. Hann leggur fátt til og er aðgerðalítill í að koma stefnumálum sínum sem hann var stofnaður í kringum á framfæri. Passar bara upp á að stjórnin hangi.

Sextán ár
Þannig hefur það líka verið um enn lengri tíma hér í Mosfellsbæ eða í 16 ár. Eftir allan þann tíma sem flokkurinn hefur verið í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í Mosfellsbæ stendur lítið eftir nema lítið notað fuglaskoðunarhús við Leiruvoginn. Þvílíkt afrek!
Í hverju málinu á fætur öðru hefur fulltrúi VG stutt Sjálfstæðisflokkinn jafnvel þótt það hafi gengið gegn yfirlýstum meginmarkmiðum flokksins. Rétt eins og við höfum séð hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem hefur ekki þótt ástæða til að taka á spillingarmálum ráðherra ríkistjórnar sinnar og brotum þeirra á jafnréttislögum svo eitthvað sé nefnt.

Sunna Arnardóttir

Lokaorð bæjarfulltrúa VG í oddvitakappræðum á RÚV voru lýsandi fyrir þetta erindisleysi. Sagan endurtók sig síðan á fundi í Hlégarði sem boðað var til af félagi aldraðra í bænum. Enginn metnaður um úrbætur eða framtíðarsýn.
Sama var uppi á teningnum í umræðum á síðasta bæjarstjórnarfundi þar sem bæjarfulltrúinn tók þátt í að þvinga í gegn með íhaldinu áform um Blikastaðaland með samningi við banka sem ekki var unninn af kjörnum fulltrúum heldur embættismönnum í mikilli leynd.
Kjörnir fulltrúar fengu viku til að skoða málið og máttu ekki ráðfæra sig við neina aðra, þar sem málið var flokkað sem trúnaðarmál. Samningur sem varðar tugi milljarða króna.
Stóra og nánast eina áhyggjuefni bæjarfulltrúa VG var hvort einhver starfsemi yrði í gamla Blikastaðabænum því jú þar hefði aldrei fokið hey. Með fullri virðingu fyrir þeim bæ, þvílíkt erindi inn í pólitík!

Fólk með framtíðarsýn
Í aðdraganda þessara kosninga hefur orðið deginum ljósara að atkvæði greitt Vinstri grænum í Mosfellsbæ er atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum, enn einu sinni.
Gefum núverandi meirihluta frí og gefum fólki með framtíðarsýn og metnað fyrir góðri þjónustu við íbúa Mosfellsbæjar tækifæri. Tækifæri til að styðja betur við skólana okkar, til að hlúa betur að öldruðum og fötluðum, til að fjölga fjölbreyttum búsetukostum, til að skipuleggja bæinn í samstarfi við íbúa og til að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum.

Ef þú kjósandi góður ert til í þetta þá er það góður kostur að setja X við S á kjördag.

Ólafur Ingi Óskarsson, skipar 2. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar
Sunna Arnardóttir, skipar 6. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar

Hvers vegna eru fjármálafyrirtækin í forgangi?

Sveinn Óskar Sigurðsson

Tenging við börnin okkar á því aldursskeiði sem þau þurfa mest á okkur að halda er mikilvæg. Þegar dætur okkar hjóna voru kornungar starfaði með mér kona, alveg hreint einstök kona sem er fóstra. Hún sagði við mig, er hún sá mig með dætrunum eitt sinn, að við þyrftum að nýta tímann okkar vel með þeim því þessi tími yrði fljótur að líða. Nú er eldri dóttirin erlendis í námi og sú yngri á leiðinni á eftir systur sinni. Svona týnist tíminn en minningin lifir.
Já, þetta tók ekki langan tíma sé litið aftur. En búum við öll við það tækifæri sem ég gat gripið, þ.e. að vera til staðar heima sem faðir í hvert sinn sem þær komu heim úr skólanum? Nei, við búum ekki öll við það. Margir vinna baki brotnu og bæði hjón oft að heiman til að ná endum saman. Það dugir jafnvel ekki alltaf til. Einstæðir foreldrar berjast í bökkum og í sama mund hækkar húsnæðiskostnaður sem aldrei fyrr, skattar og aðrar álögur.
Hvers vegna hefur sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu ekki tekist að svara þessu með úthlutun lóða svo tryggja megi nægt framboð til að halda megi niðri verðlagi á húsnæði? Eftir hrun fjármálakerfisins 2008 hurfu eignir fólks og fyrirtæki inn í nýja banka og lóðir fyrirtækja eins og ÍAV sem missti Blikastaðaland í hendur banka. Bankar fá nánast óendanlegt ráðrúm að halda þessu í eignasafni sínu og í dótturfélögum og sjóðum. Það er í raun niðurgreiðsla frá ríkinu í formi laga til handa fjármálafyrirtækjum. Víða erlendis er bönkum gert að losa þetta út á markaðinn innan árs eða tveggja ára. Með því gæti komið leiðrétting rétt eins og gerist þar sem markaðir eru raunverulega virkir og ekki stjórnað af fjármálafyrirtækjum eins og á Íslandi. Þetta þýðir að íslenska húsnæðismarkaðnum er stýrt.
Þetta er kostnaður almennings og samfélaga, eins og sveitarfélaga, sem í raun og sann er færður í bækur banka og oftar en ekki þar á tekju- og eignahliðina. Mosfellsbær hefði hugsanlega getað keypt Blikastaði á sínum tíma og verið nú að úthluta hagkvæmum lóðum á markaðinn en ekki Arion banki. Svo eiga sveitarfélögin að sitja eftir með alla þjónustuna og kröfur um bættan aðbúnað fyrir aldraða, börn og barnafólk.
Í vikunni var ritað undir byggingu 44 nýrra hjúkrunarrýma að Hömrum í Mosfellsbæ. Þau 74 rými sem þá verða til staðar nægja ekki nema fyrir komandi kjörtímabil því árgangarnir, sem eru að koma inn í hópinn 80 ára og eldri, eru um eða yfir 50 til 65 einstaklingar árlega. Þá er aðeins teknir þeir með sem hér búa í dag. Því á það að vera fyrsta verk nýrrar bæjarstjórnar að stefna að enn frekari uppbyggingu hjúkrunarrýma og stórbæta stuðningsþjónustu bæjarins sem er afar döpur í dag.
Samhliða þessu verður að stórbæta þjónustu skólaskrifstofu bæjarins svo bæta megi í sálargæslu, geðrækt og stuðning við börn með fjölþættan vanda. Biðraðir fyrir börn í íþróttum, í greiningar hjá fagfólki er glötuð ævi rétt eins og hjá okkur sem erum eldri.

Sveinn Óskar Sigurðsson
Bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ fyrir Miðflokkinn og oddviti fyrir komandi sveitastjórnarkosningar

Takmörkuð aðkoma bæjarstjórnar að samningi um Blikastaðaland

Valdimar Birgisson

Á fundi bæjarstjórnar 4. maí sl. var samþykktur samningur Blikastaðalands ehf. sem er í eigu Arion banka og Mosfellsbæjar um uppbyggingu á Blikastaðalandi.
Samningurinn var samþykktur með 5 atkvæðum fulltrúa meirihlutans. Þar sem ég fulltrúi Viðreisnar í bæjarstjórn Mosfellsbæjar átti enga aðkomu að þessum samningi sat ég hjá við atkvæðagreiðsluna.

Samningurinn er líklega sá stærsti sem Mosfellsbær hefur gert til þessa og markar tímamót í uppbyggingu í Mosfellsbæ. Hann er að mörgu leyti okkur hagfelldur og í honum er kveðið á um að landeigendur greiði samtals 10 milljarða til uppbyggingar innviða á Blikastaðalandinu.

Það er vissulega fagnaðarefni að hafin sé uppbygging á Blikastaðalandi en það eru vonbrigði hvernig aðkoma kjörinna fulltrúa að samningnum var. Við bæjarfulltrúar fengum kynningu á honum rúmri viku áður en hann var samþykktur endanlega í bæjarstjórn. Það var sá tími sem við höfðum til þess að taka afstöðu til hans og vorum bundin trúnaði á þeim tíma.

Viðreisn vill ná breiðari samstöðu í stórum ákvarðanatökum sem þessi samningur sannarlega er. Eðlilegt hefði verið að bæjarstjórn, þar sem fulltrúar íbúa eiga sæti, hefði verið með í því að móta samningsmarkmið og verið upplýst að einhverju leyti um gang mála. Um svona samning þarf að vera trúnaður meðan á samningaviðræðum stendur en þegar við komum að borðinu var samningum lokið, og okkur boðið að samþykkja eða hafna honum.

Ég lýsti því meðal annars á fundinum að ég hefði viljað fá nánari greiningar á áhrifum þessarar uppbyggingar sem eru fyrirhuguð er á landinu. Við erum að tala um 9 þúsund manna byggð sem bætist við bæinn og það þarf að meta hvaða áhrif það hefur á bæjarfélagið í heild sinni. Einnig lét Viðreisn bóka að mikilvægt væri að uppbygging á Blikastaðalandi komi ekki í veg fyrir uppbyggingu á öðrum byggingarreitum í sveitarfélaginu.

Það bíður næstu bæjarstjórnar að fjalla áfram um þennan samning því lögum samkvæmt er skipulagsvaldið i höndum Mosfellsbæjar. Ég vona að þeim fulltrúum sem í henni munu sitja beri gæfa til þess að eiga betra samtal við íbúa um svona stór mál. Við í Viðreisn munum sannarlega beita okkur fyrir því.

Valdimar Birgisson
Bæjarfulltrúi Viðreisnar

Vöndum vinnubrögðin við stækkun bæjarins

Aldís Stefánsdóttir

Framsókn í Mosfellsbæ styður áframhaldandi uppbyggingu á íbúðarhúsnæði fyrir alla aldurs- og tekjuhópa. Annað væri óábyrgt miðað við stöðuna á húsnæðismarkaðnum í dag. Sú staða hefur áhrif á flest heimili meðal annars í gegnum vaxandi verðbólgu.
Margir finna fyrir skorti á húsnæði og þá sérstaklega unga fólkið en einnig þeir sem eldri eru. Húsum þar sem ungmenni fá aðstöðu í bílskúrnum hjá foreldrum sínum fjölgar enn í Mosfellsbæ og húsaleiga er gríðarlega há.

Fréttir af fyrirhugaðri uppbyggingu í Blikastaðalandi eru því löngu tímabærar. EN það er ekki sama hvernig hlutirnir eru gerðir. Þessi uppbygging mun hafa gríðarleg áhrif á núverandi íbúa Mosfellsbæjar. Það vita þau sem hafa búið hér á síðustu tveimur áratugum. Á þeim tíma hefur íbúafjöldinn tvöfaldast. Sú fjölgun hefur ekki verið án vaxtaverkja og við þurfum að læra af þeirri reynslu.

Við þurfum að horfa á þróun og rekstur bæjarins í samhengi. Það er ekki skynsamlegt að líta til stakra málaflokka og halda að rekstur á einum lið hafi ekki áhrif á annan. Ekkert frekar en í rekstri fyrirtækja eða heimila.
Staðan er sú að á sama tíma og núverandi bæjarstjórn hefur skuldbundið verðandi fulltrúa varðandi uppbyggingu á Blikastaðalandi, sem er gríðarlega stórt verkefni, stöndum við frammi fyrir stórum áskorunum á öðrum sviðum. Það eru samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu sem skipta okkur Mosfellinga miklu máli. Einnig munum við glíma við eftirköst heimsfaraldurs, endurskipuleggja málaflokk eldra fólks, taka á móti flóttafólki og efla starfsemi leik- og grunnskóla með hagsmuni barna að leiðarljósi svo eitthvað sé nefnt.
Að auki eigum við inni samtal um þróun á atvinnustarfsemi í Mosfellsbæ sem hefur ekki verið í forgrunni heldur mætt afgangi sem sést á stefnu- og áhugaleysi bæjaryfirvalda.

Þessi verkefni verða ekki leyst farsællega nema með samvinnu, samtali við íbúa, trausti og forgangsröðun. Þau verða heldur ekki leyst farsællega nema með því að styrkja stjórnsýsluna til að gera henni kleift að sinna sínum verkefnum.
Það er stjórnmálanna að leggja til framtíðarsýn og gera langtímaáætlanir. Fólki í stjórnmálum ber skylda til að gera það á gagnsæjan hátt og þannig að lýðræðið sé virt. Upplýsingagjöfin og samtalið á að fara stöðugt fram en ekki bara rétt fyrir kosningar. Það á heldur ekki að koma íbúum né kjörnum fulltrúum á óvart þegar verið er að gera stóra samninga um uppbyggingu í sveitarfélaginu. Það eru ekki vinnubrögð sem við getum boðið upp á.

Framsókn í Mosfellsbæ leggur áherslu á heiðarleg og gagnsæ vinnubrögð. Virkt samtal við hagsmunahópa og öflugt nefndarstarf í nefndum og ráðum bæjarins. Við viljum hugsa stórt og við viljum hugsa til lengri tíma.
Hvernig sveitarfélag verður Mosfellsbær í framtíðinni? Hvaða áherslur þarf að leggja í uppbyggingu bæjarins sem gerir hann aðlaðandi og ákjósanlegan til búsetu til framtíðar bæði fyrir börnin okkar og okkur sjálf á efri árum? Svarið við þessum spurningum liggur hjá okkur sem búum hér í dag og látum okkur málin varða. Hlutverk kjörinna fulltrúa er að hafa hugrekki til að hlusta og koma hlutunum í verk.

Munið X við B á kjördag

Aldís Stefánsdóttir
2. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Mosfellsbær er staðurinn …

Elín Anna Gísladóttir

… sem fokking ól mig upp!
Svo sagði í laginu hans Dóra DNA, Mosó, sem kom út árið 2004.
Það eru án efa fleiri en ég sem tengja við þennan texta, enda þarf samfélag til að ala upp börn. Ég fluttist í Mosfellsbæ eins árs og hef búið hér að stærstum hluta síðan en eins og er með flesta Mosfellinga þá byrjaði ég að búa í öðru sveitarfélagi.
Ég sagði oft að það væri eitthvað sem togaði mig til baka í Mosfellsbæ og þegar ég fór að velta fyrir mér hvað þetta ,,eitthvað” væri komst ég að því að það var samfélagið og fólkið sem skapaði umhverfið sem ég ólst upp í. Við eigum það til að taka samfélaginu sem sjálfsögðum hlut en þegar betur er að gáð þá blómstrar samfélagið ekki nema það sé fólk sem hlúir að því.

Skólarnir
Mikilvægur hlut samfélagsins eru skólarnir okkar. Fyrstu minningar marga eru úr skólakerfinu, bæði leikskóla og grunnskóla og að ógleymdri frístundinni.
Í þessum stofnunum starfar fólk sem er stór hlut af lífi barna og það er ekki sjálfgefið fá gott fólk til starfa í skólakerfinu. Ég var heppin og á góðar minningar frá þessum tíma hvort sem það er Gulla að hamra inn íslenskuna, Halldór í samfélagsfræði, Þyri með stærðfræðina, Árni Jón, Guðmundur, Hanna, Stefán, Malla, Úrsúla, Steinunn, Siggi Palli, Linda, Erna, Sesselja, Björg eða einhverjir af þeim sem ég er að gleyma að skrifa niður núna.
Til þess að öll börn njóti öryggis og eignist góðar minningar þá þarf starfsfólk skólanna vinnuumhverfi og stuðning til þess að geta veitt börnum tækifæri til þess að dafna og blómstra.
Við í Viðreisn viljum að áhersla verði lögð á að bæta stoðþjónustu í skólunum. Ég vil að við styðjum við starfsfólk skólanna til þess að tileinka sér nýja færni og þróast í starfi.
Ég vil að skólasamfélagið verði framúrskarandi og að starfsmönnum líði vel. Það skiptir framtíðina máli hvernig er staðið að þessum málaflokki.

Þú hefur áhrif
Ég vildi að allir sæju kosningar eins og þær raunverulega eru. Tækifæri til þess að hafa áhrif á umhverfið sitt, vegferðina sem sveitarfélagið er á og framtíð þess.
Því miður þá eru bara alltof margir sem virðast ekki trúa því að þeir raunverulega hafi áhrif. Ég held þó að nýliðnar Alþingiskosningar hafi sýnt það og sannað að einungis örfá atkvæði geta breytt öllu!

Á laugardaginn er þitt tækifæri til þess að ákveða hvert Mosfellsbær á að stefna næstu 4 árin. Þú ákveður hvaða fólk, hvaða hugsjón og hvaða flokkur fær þitt atkvæði og með því ert þú að móta hver framtíð bæjarins verður.
Með því að veita mér þitt atkvæði mun ég lofa því að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að halda í Mosfellsbæjarandann, að hér verði fyrirmyndar samfélag sem hlúir saman að öllum sínum íbúum og tengist þessum sterku böndum að vera Mosfellingar.

C-ykkur á kjörstað.
Veldu Viðreisn.

Elín Anna Gísladóttir skipar 3. sæti á lista Viðreisnar í Mosfellsbæ

Leitin að miðbænum

Anna Sigríður Guðnadóttir

Forsendubreytingar í skipulagsmálum
Mosfellsbær hefur verið í miklum vexti undanfarin ár og nú lítur út fyrir að á næstu árum muni eiga sér stað enn meiri uppbygging innan bæjarfélagsins.
Áætla má að fjöldi bæjarbúa verði kominn yfir 30.000 eftir um 20 ár. Þegar svona stendur á er nauðsynlegt að staldra við og spyrja hvort ekki hafi orðið forsendubreytingar hvað varðar miðbæjarskipulag bæjarins.
Hver er þörfin á næstu árum og hvað kemur fram í núverandi skipulagi? Tekur miðbæjarskipulagið á komandi innviðaþörfum og þjónustuóskum bæjarbúa? Hvar verður endastöð borgarlínunnar og er gert ráð fyrir skiptistöð fyrir innanbæjarvagn? Er ennþá gert ráð fyrir kirkju í miðbænum eins og um var talað á sínum tíma? Hvar endar og byrjar miðbærinn? Það eru margar spurningar sem brenna á fólki, en það stendur oft á svörunum.

Óljós uppbyggingarstefna
Þegar farið er inn í skipulagssjá koma í ljós fjögur deiliskipulög sem ná yfir það svæði sem mætti túlka sem miðbæ Mosfellsbæjar. Við þau skiplög eru síðan fjölmargar stakstæðar skipulagsbreytingar undir viðkomandi skipulögum, sem komið hafa til vegna breytinga og óska lóðarhafa. Þetta leiðir til þess að uppbyggingarstefnan er óljós, sundurslitin og missir marks.

Ómar Ingþórsson

Leitin að miðbænum mun því halda áfram um nokkurt skeið, nema við tökum þá stefnu að marka skýra og heildstæða sýn hvað varðar uppbyggingu til næstu ára.
Samfylkingin vill marka skýra stefnu hvað varðar skipulag miðbæjarins, uppbyggingaráform innan áhrifasvæðis hans og varða leiðina með áfangaskiptingu. Það að uppfæra stakstæð skipulög eftir óskum lóðarhafa kemur okkur ekki upp úr hjólförum gamalla skipulagshugmynda. Hér er ekki nóg að segja; er ekki bara best að gera eins og við höfum alltaf gert! Hér er þörf á breytingum.

Hvað þarf til – hvert er ferlið fyrir skipulagssamkeppni
Það er nauðsynlegt að endurskoða öll þau deiliskipulög sem ná til þess svæðis sem afmarkað er í aðalskipulagi sem miðbær Mosfellsbæjar. Í þessum deiliskipulögum er margt sem má halda í en annað er úr takti við óskir og þarfir íbúa og er nauðsynlegt að víki. Áður en þessi endurskoðun getur farið fram þarf að skilgreina hvaða þjónustu og starfsemi við Mosfellingar viljum sjá í miðbænum.

Samfylkingin telur það best gert með opnu samtali við þá sem nýta sér þá þjónustustarfsemi sem er í miðbænum og þeirra sem veita hana. Þetta væri best gert í gegnum opið íbúaþing sem og rýnihópa um uppbyggingu miðbæjarins og með aðkomu lóðarhafanna sjálfra.
Þegar þessar óskir og forsendur liggja fyrir er kominn grundvöllur til þess að fara í skipulagssamkeppni, sem við hjá Samfylkingunni teljum eina af meginforsendunum fyrir heildstæðri uppbyggingu á nýjum miðbæ.

Skipulagssamkeppni er því aðferð til þess að móta heildstæða sýn en samtímis draga fram þau tækifæri sem kunna að skapast við þær forsendubreytingar sem verða með fjölgun bæjarbúa. Um leið er mörkuð stefna og tekin frá svæði fyrir ákveðna innviðaþjónustu, menningarstarfsemi og verslun í bland við nýjar miðbæjaríbúðir.
Nauðsynlegt er að ná fram heildstæðu skipulagi að nýjum miðbæ, skipulagi sem kallar fram staðaranda Mosfellsbæjar og gerir okkur stolt af miðbænum okkar.

Anna Sigríður Guðnadóttir og Ómar Ingþórsson, skipa 1. og 3. sæti á lista Samfylkingarinnar.

Nokkur orð um leikskóla

Dagný Kristinsdóttir

Nú þegar kosningabaráttan er að líða undir lok langar mig að nefna eitt málefni sem hefur ekki fengið mikla umræðu – leikskólamálin.
Í Mosfellsbæ komast flest börn inn í dagvistun við 12 mánaða aldur, það er vel gert og má segja að bærinn standi sig betur þar en sum önnur sveitarfélög.
Það sem við þurfum að skoða á komandi misserum eru starfsaðstæður inni í leikskólunum, hvernig búið er að börnunum og hvernig hægt er að fjölga menntuðum leikskólakennurum.
Einnig þarf að skoða sérstaklega varanlega lausn á leikskólahúsnæði í Leirvogstungu – við getum ekki talið það lausn við hæfi að hafa einn leikskóla í færanlegum kennslustofum.

Það er erfitt að nálgast tölur um fagmenntaða leikskólakennara sem starfa hjá bænum en eftir því sem ég kemst næst er hlutfallið um 20-25%. Í samningum leikskólakennara er kveðið á um tiltekna tíma í starfi með börnum og aðra tiltekna tíma sem fara í faglegt starf, eins og undirbúning.
Deildarstjóri á leikskóla fær, svo dæmi sé tekið, 10 tíma í undirbúning á viku. Aðrir kennarar fá 5 tíma og eiga að skila sömu útkomu í faglegu starfi.
Það að starfa í skóla er hópvinna, ef einn veikist þarf að leysa hann af og þá stíga samstarfsmenn inn í. Þann tíma taka þeir af sínum undirbúningstíma sem aftur þýðir að þeir mæta óundirbúnir til að sinna sínum hópi. Það hefur bein áhrif á faglegt starf í skólum.
Stytting vinnuvikunnar hefur haft gríðarleg áhrif inn í leikskólum. Tökum sem dæmi, 20 starfsmenn taka út styttingu, færri eru að störfum, börnin eru jafnmörg og þeim þarf að sinna.
Það á að veita sömu þjónustu, með sama opnunartíma en með færra starfsfólki.
Aðstæður leikskólabarna í bænum eru mismunandi. Nýrri leikskólar ná að bjóða upp á rými barna til athafna samkvæmt leiðbeiningum frá Félagi leikskólakennara en í eldri leikskólum er þrengra um hópinn.
Sérstaklega vil ég benda á húsakost Leirvogstunguskóla, en skólastarfið þar fer fram í færanlegum kennslustofum.
Við getum ekki horft á aðstæður skólans, húsnæðislega séð með öðrum gleraugum en þeim að þetta sé tímabundið úrræði. Við hjá Vinum Mosfellsbæjar teljum afskaplega mikilvægt að farið sé í þá vinnu að byggja upp varanlegt skólahúsnæði í hverfinu.

Til að hlúa faglega að leikskólastarfinu í bænum þarf að taka tillit til mikils álags vegna veikinda starfsfólks og styttingar vinnuvikunnar.
Við þurfum að skoða hvernig við getum gert starfsumhverfið hjá leikskólum bæjarins aðlaðandi og eftirsóknarvert. Til að það geti gerst þurfum við að fara í naflaskoðun og fá liðsinni stjórnenda leikskólans.

Við þurfum að standa við bakið á stjórnendum og létta af þeim ákveðnum verkefnum svo þeir geti verið faglegir leiðtogar í sínu húsi.
Það þarf að jafna aðstöðumun barnanna í bænum, öll okkar börn eiga að vera í góðu, varanlegu húsnæði, með jafnmikið rými til athafna. Þá horfum við sérstaklega til eldra skólahúsnæðis og skólahúsnæðis Leirvogstunguskóla.
Börn eru best – hlúum að þeim eins vel og við getum, þar sem allir sitja við sama borð.

Dagný Kristinsdóttir skipar 1. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar

Blikastaðir

Bjarki Bjarnason

Árið 2005 tók ég blaðaviðtal við Sigstein Pálsson sem var síðasti bóndinn á Blikastöðum, hann var þá tíræður en enn mjög ern. Í viðtalinu kemur fram að þess yrði ekki langt að bíða að íbúðabyggð risi á Blikastaðatúnum.
Síðan eru liðin 17 ár og Blikastaðaland hefur verið eins og óbyggð eyja milli Reykjavíkur og þéttbýlisins vestast í Mosfellsbæ. Á sama tíma hefur ríkt mikill lóða- og húsnæðisskortur á höfuðborgarsvæðinu. Það er þess vegna mikið fagnaðarefni að nú sjái til lands og uppbygging hefjist á þessum slóðum.

Stórfelld uppbygging
Á síðustu misserum hafa rýnihópar verið að störfum, meðal annars til að skilgreina þá miklu innviðauppbyggingu sem er nauðsynleg á Blikastöðum, samfara þéttri íbúðabyggð þar. Einnig hófust viðræður milli Mosfellsbæjar og Arion banka sem er eigandi landsins. Eftir langar og strangar viðræður var viðamikill samningur um stórfellda uppbyggingu á Blikastöðum samþykktur á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 4. maí síðastliðinn.
Blikastaðaland verður byggt upp í áföngum á næstu áratugum og fram undan er mikil skipulagsvinna hjá Mosfellsbæ vegna þessa viðamikla verkefnis. Gert er ráð fyrir fjölbreyttri og blandaðri íbúabyggð, íþróttamannvirkjum, skólabyggingum og öðru sem fjölmenn íbúabyggð kallar á.
Uppbygging á Blikastöðum mun draga úr lóðaskorti á höfuðborgarsvæðinu og flýta því að Borgarlínan verði lögð upp í Mosfellsbæ.
Samkvæmt samningnum mun Arion banki leggja fram verulega fjármuni til uppbyggingar á innviðum, þar er m.a. um að ræða gatnagerð og skóla- og íþróttamannvirki.
Að þessu leyti er samningurinn einsdæmi, það er einnig fátítt að svo stórt íbúasvæði sé skipulagt frá grunni, í því felast mörg spennandi tækifæri.

Kennileiti
Náttúruperlur og útivistarsvæði eru í seilingarfjarlægð frá Blikastaðalandi, til dæmis Úlfarsfell, Úlfarsá og Leiruvogur. Á síðustu öld var eitt stærsta kúabú landsins á Blikastöðum, þar voru allt að hundrað nautgripir þegar mest lét. Útihúsin standa enn, þau verða endurgerð, þeim fengið nýtt hlutverk og munu mynda „hjartað“ í þeirri íbúabyggð sem rís á Blikastaðalandi.
Í áðurnefndu blaðaviðtali við Sigstein Pálsson var hann spurður að því hvernig honum litist á að byggja á þessari gömlu bújörð, hann svaraði með þessu orðum: „Mér líst bara vel á það. Þetta er þróunin og mér hefur alltaf þótt gaman að fylgjast með framkvæmdum og framförum hér í sveitarfélaginu.
Það verður gott að byggja á Blikastaðatúnum. Þar fauk aldrei hey og fólki kemur til með að líða vel þarna.“

Bjarki Bjarnason, skipar 1. sæti V-listans í kosningunum 14. maí.

Hlégarð heim!

Elín Árnadóttir

Félagsheimili okkar Mosfellinga, Hlégarður, á sér orðið rúmlega 70 ára sögu. Félagsheimilið er eitt kennileita bæjarins og hefur verið okkar stolt.
Í húsinu hafa lengi verið ýmsir viðburðir haldnir og félagasamtök í bænum til dæmis haft þar athvarf og aðstaðan hefur verið ómetanleg til stuðnings ýmsu félagsstarfi og íbúar og fyrirtæki í bænum hafa í gegnum tíðina getað nýtt húsið til veisluhalda. Síðustu átta ár eða svo hefur rekstur Hlégarðs verið í höndum einkaaðila og Mosfellingar ekki haft sama aðgang að húsinu og áður. Félagsstarfið á ekki lengur neitt athvarf og hafa hin ýmsu félög því verið á hrakhólum og hefur það án efa dregið úr þeirra starfsemi.
Hafist var handa við endurbætur á húsinu fyrir nokkru síðan og er nú endurbótum að hluta til lokið og neðri hæðin tilbúin. Þar er því hægt að halda viðburði og er mjög mikilvægt að nýta aðstöðuna vel fyrir menningarstarfsemi í bæjarfélaginu. Þar eru möguleikarnir óteljandi. Þá þarf að klára endurbætur á annarri hæðinni og skapa þar aðstöðu fyrir félagsstarfsemi. Einnig mætti nýta útisvæðið betur og jafnvel byggja við.

Hvað vilja bæjarbúar?

Jakob Smári Magnússon

Samfylkingin vill efna til hugmyndasamkeppni meðal bæjarbúa um uppbyggingu á svæðinu og hvernig Hlégarðssvæðið getur nýst íbúum sem best.
Hlégarður eins og hann er í dag er ekki nógu stór til að standa undir nafni sem menningarhús án þess að einhver uppbygging eigi sér stað. Listaskólinn þarf til dæmis varanlegt húsnæði og leikfélagið þarf húsnæði, svo eitthvað sé nefnt. En einhvers staðar þarf að byrja.
Samfylkingin vill fyrst og fremst fá Hlégarð aftur heim, að rekstur hússins verði í höndum bæjarins og bæjarbúar fái aftur aðgang að húsinu. Það er orðið löngu tímabært að hlúa að menningu og listum í Mosfellsbæ. Listafólk þarf að fá aðstöðu til að sinna list sinni, halda sýningar, efna til tónleika og leiksýninga og leyfa íbúum bæjarins að njóta allrar þeirrar listar og menningar sem kraumar í Mosfellsbæ.
Fyrsta skrefið er að fá Hlégarð aftur í hendur bæjarins og hefja uppbyggingu saman.

Settu x við S á kjördag og við hefjum menningarlífið til vegs og virðingar saman!

Elín Árnadóttir og Jakob Smári Magnússon, skipa 4. og 5. sæti á lista Samfylkingarinnar

Hvers vegna XD í Mosó á laugardag?

Ásgeir Sveinsson

Mosfellsbær er fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag þar sem er gott og eftirsóknarvert að búa.
Samkvæmt könnunum eru íbúar með þeim ánægðustu á landinu og hér hefur orðið ein mesta hlutfallslega fjölgun íbúa undanfarin ár. Samfara þessari þróun hefur verið í gangi mesta framkvæmdaskeið í sögu sveitarfélagsins í uppbyggingu innviða auk þess sem þjónusta við bæjarbúa er sífellt að aukast. Mosfellsbær stendur vel fjárhagslega, þökk sé ábyrgri stjórn fjármála og á líðandi kjörtímabili hafa framkvæmdir í Mosfellsbæ aldrei verið meiri. Sú uppbygging mun halda áfram með miklum framkvæmdum á íþróttamannvirkjum að Varmá og nýjum leikskóla í Helgafellshverfi svo eitthvað sé nefnt.
Sjálfstæðisflokkurinn í Mosfellsbæ hefur haft það að leiðarljósi að halda álögum á íbúa eins lágum og best getur við rekstur bæjarins. Við erum stolt af því að hafa lækkað álögur á íbúa á líðandi kjörtímabili m.a. með lækkun fasteignaskattaprósentu á íbúða- og atvinnuhúsnæði. Þá hafa álögur á barnafólk lækkað verulega þegar leikskólagjöld lækkuðu um 20% á líðandi kjörtímabili og nú býðst 12 mánaða börnum í Mosfellsbæ dagvistarpláss.

Jana Katrín Knútsdóttir

Það er sterkt og faglegt skólasamfélag í Mosfellsbæ sem við ætlum að styrkja enn frekar og veita meiri stuðning fagfólks inn í skólana. Við ætlum að opna stafræna Fab Lab smiðju og viljum opna Þróunar- og nýsköpunarsmiðju sem veitir ótal tækifæri fyrir alla aldurshópa.

Skipulagsmálin eru stór þáttur í vaxandi samfélagi og uppbygging í Mosfellsbæ heldur áfram. Búið er að ná samningum um uppbyggingu á Blikastaðalandi þar sem rísa mun glæsilegt vistvænt hverfi með fjölbreyttu íbúðamynstri fyrir alla aldurshópa. Í Blikastaðalandi sem mun rísa í áföngum til næstu 20-25 ára mun einnig verða fyrsta flokks þjónusta þegar litið er til skóla- og íþróttamannvirkja auk hágæða samgangna. Uppbygging mun einnig halda áfram á öðrum stöðum í bænum.
Við munum áfram standa vörð um sérkenni Mosfellsbæjar sem „sveit í borg“ og huga vel að dýrmætri náttúrunni allt í kringum okkur.
Málefni fatlaðra er mikilvægur málaflokkur sem nauðsynlegt er að veita verðskuldaða athygli. Á líðandi kjörtímabili höfum við aukið þjónustu s.s. með opnun úrræðis fyrir geðfatlaða. Við munum halda áfram þeirri þróun, meðal annars með úthlutun lóðar undir nýjan íbúðakjarna í 5. áfanga Helgafellshverfis fyrir fatlað fólk og með áherslu á samþættingu þjónustu.
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag með Aftureldingu sem hornstein í okkar frábæra bæjarfélagi. Við munum leggja mikla áherslu á að samþykktri uppbyggingu á Varmásvæðinu verði flýtt eins og aðstæður leyfa auk þess sem uppbygging á íþróttamannvirkjum muni hefjast á Blikastaðalandi, þar á meðal fjölnota knatthús í fullri stærð.
Eldri borgurum fer fjölgandi og á þessu kjörtímabili höfum við lagt mikla áherslu á lýðheilsumál eldri Mosfellinga og munum halda því áfram. Í samstarfi við Eir mun íbúðum fyrir eldri borgara fjölga auk mikillar stækkunar á rýmum fyrir félagsstarf. Jafnframt er búið að samþykkja aðkallandi stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra sem verður með 75 rými eftir stækkun.
Ábyrgur og traustur rekstur undanfarinna ára gerir það að verkum að framtíðin er björt í Mosfellsbæ. Sjálfstæðismenn hafa verið við stjórnvölinn á þessum uppgangstímum þar sem þjónusta og rekstur sveitarfélagsins hefur tekið miklum og jákvæðum breytingum og bærinn eflist og dafnar.
Við ætlum að sjá til þess að rekstur bæjarfélagsins verði áfram ábyrgur og traustur, álögur á íbúa muni halda áfram að lækka og að áfram verði best að búa í Mosfellsbæ. Til þess að ná þeim markmiðum okkar þurfum við þinn stuðning, hvert atkvæði skiptir máli.

Ásgeir Sveinsson og Jana Katrín Knútsdóttir skipa 1. og 2. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar 14. maí.

Kosningaloforðin

Rakel Baldursdóttir

Flokkar í framboði keppast við að koma sínum metnaðarfullu stefnum á framfæri, stefnum sem taka mið af menntamálum, skipulagsmálum, velferðarmálum, loftslagsmálum og svo lengi má telja og eru þegar upp er staðið alls ekki ólíkar.
Allar þessar tilkynningar um fögur loforð eru margar hverjar löngu tímabærar og flestar íbúum öllum til hagsbóta. En dugar þetta til?
Stefnur flokkana eru ekki svo ólíkar síðustu kjörtímabilum, þá einna helst stefnur um loftslagsmál sem hveða við nýjan tón enda erum við öll í kapphlaupi við tímann að bæta þar úr.
Það er ekki nóg að setja sér metnaðarfull markmið, það þurfa að vera mælanleg langtímamarkmið til að ná árangri í stefnumálum, það þurfa allir að fá að koma að borðinu og með raunverulegum hætti, markmið þurfa að vera sýnileg, tímasett og eftirfylgni þarf að vera til staðar. Reglulega þarf að taka stöðu mála og með upplýstum hætti. Óháðir ólíkir fagaðilar með sérþekkingu þurfa að koma að málum og styðjast þarf við niðurstöður rannsókna.
Allt þetta þarf að vera sýnilegt til að tryggja heiðarleika og með rafrænni, gagnsærri stjórnsýslu, auknu og opnu samtali við íbúa, faglegum vinnubrögðum undir stjórn óháðs stjórnanda náum við betri árangri.
Höfum ekki sömu stefnur á næsta kjörtímabili.
Náum árangri núna.

Rakel Baldursdóttir, skipar 10. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar

Við viljum bara það besta fyrir börnin okkar

Sævar Birgisson

Fyrsta skólastig, eða leikskólar, er einhver mikilvægasta þjónusta sem sveitarfélög veita. Í Mosfellsbæ er heimilt að sækja um leikskólavist fyrir börn frá 12 mánaða aldri. Gott og vel. Það sem er mikilvægast í umsóknarferlinu er að óvissu um hvenær og hvar barnið fái leikskólapláss sé eytt eftir fremsta megni.
Það er nógu stórt verkefni fyrir nýbakaða foreldra að sinna uppeldinu, án þess að þurfa að bæta öðrum áhyggjum ofan á það. Vissulega hafa verið ákveðnir vaxtarverkir í takti við vaxandi íbúafjölda í sveitarfélaginu og því krefjandi verkefni að mæta aukinni þörf í þessum málum. Ekki er hægt að verða við öllum óskum um tiltekinn skóla og getur fæðingarmánuður barns haft mikið að segja í þeim efnum. Aðalatriðið er að við veitum foreldrum hugarró. Við í Framsókn Mosfellsbæ viljum að þjónustan við börn sé veitt um leið og fæðingarorlofi foreldra lýkur, það þarf að sjá til þess að bilið sé brúað.
Það er gríðarlega krefjandi starf að vera starfsmaður á leikskóla og mikil ábyrgð sem felst í því að sjá um börnin okkar á þessum mest mótandi tíma á þeirra ævi. Við sem foreldrar gerum ríkar kröfur á leikskólastarfið, alveg eins og starfsfólkið gerir kröfur á okkur sem foreldra. Það þarf að sjá til þess að búið sé þannig um að við sem sveitarfélag séum einmitt að veita bestu þjónustu sem völ er á, framúrskarandi þjónustu. Hærra hlutfall fagmenntaðra leikskólakennara er stór þáttur í því að efla góða þjónustu enn frekar. Sem dæmi má nefna að ófaglærðir starfsmenn leikskóla eru oft á tíðum einstaklingar sem vilja sækja sér menntunina en vantar hvatningu til að taka skrefið.
Við hjá Framsókn viljum beita okkur fyrir því að efla það mikilvæga starf sem unnið er í leikskólum sveitarfélagsins, meðal annars með því að mæta því frábæra fólki sem þar starfar og auðvelda því að sækja sér viðeigandi menntun til að styrkja stöðu sína. Eru fjölmargar leiðir færar í þeim efnum. Á sama tíma erum við að bæta þjónustuna og gera vinnustaðina enn eftirsóknarverðari.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur unnið mjög gott starf fyrir farsæld barna og fjölskyldna í landinu. Mikið framfaraskref var stigið þegar Alþingi samþykkti frumvarp til nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þau ganga út á að tryggja aukna samvinnu og samfellu í þjónustu við börn, eitthvað sem mikilvægt er að verði innleitt sem fyrst. Hér í Mosfellsbæ eigum við að vera framúrskarandi þegar kemur að málefnum barna, því við viljum bara það besta fyrir börnin okkar.

Setjum málefni barna í forgang og merkjum X við B á kjördag.
Höfundur er faðir tveggja barna á leikskólaaldri.

Sævar Birgisson
3. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Þakklæti að lokum

Margrét Guðjónsdóttir

Það er gefandi að taka þátt í sveitarstjórnarmálum. Það er líka mikil ábyrgð sem fylgir því að taka þátt í sveitarstjórnarmálum.
Þegar á mig var skorað fyrir sveitarstjórnarkosningar á árinu 2018, að starfa með hópi fólks sem hafði það eitt að markmiði að koma að uppbyggingu og þjónustu við Mosfellinga með lýðræði, heiðarleika og þekkingu að vopni, var áhugavert að vera með. Hópi sem nefnir sig Vini Mosfellsbæjar en í nafninu felst í raun allt sem segja þarf.
Þessi þátttaka mín hefur gefið mér mikið. Ég hef fengið aukna þekkingu á hvað í starfi þeirra sem starfa á þessum vettvangi felst. Ég hef kynnst hópi fólks, fólki sem hefur gefið sig fram til að starfa á pólitíska sviðinu, mörgu því frábæra fólki sem starfar hjá sveitarfélaginu og ég hef kynnst mörgum íbúum sem ég hefði kannski annars ekki kynnst. Fyrir þetta vil ég þakka.
Ég vil hvetja alla sem áhuga hafa á sveitarstjórnarmálum, ekki síst unga fólkið, að gefa kost á sér til starfa og nýta þekkingu sína til að koma að góðum verkum því ég veit að ef íbúar standa saman, ræða málin, hvort sem er í skólamálum, skipulagsmálum eða hverjum öðrum málum sem okkur öll varða, leyfum öllum þeim mannauði sem Mosfellsbær býr yfir að njóta sín og koma að málum, þá þurfum við ekki að kvíða framtíðinni.
Það er líka tímafrekt að taka þátt í sveitarstjórnarmálum sé þeim sinnt af heilindum og með sóma og hef ég nú ákveðið að beina kröftum mínum og tíma á annað svið.
Ég kveð þennan vettvang með miklu þakklæti í huga, bæði fyrir það traust sem mér var sýnt svo og þakklæti til þeirra sem ég hef átt í samskiptum við.

Margrét Guðjónsdóttir
Höfundur er varabæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar 2018-2022

11 bæjarstjórar

Michele Rebora

Í kosningum á laugardaginn gefst okkur Mosfellingum í fyrsta skipti kostur á að velja 11 einstaklinga til að stýra bænum okkar.
Þessir 11 einstaklingar eru fulltrúar ólíkra hreyfinga, með mismunandi áherslur og stefnumál, en við það að taka sæti í bæjarstjórn verða þeir um leið líka fulltrúar okkar allra. Ábyrgð á stjórnun bæjarins liggur nefnilega hjá bæjarstjórn sem slíkri, ekki hjá flokkum eða listum.

Bæjarstjórn og nefndir bæjarins eru það sem kallast fjölskipað stjórnvald, þ.e. fyrirbæri þar sem stjórnsýsluákvarðanir eru teknar saman. Ákvarðanir verða ekki teknar nema á fundum.
Við hjá Vinum Mosfellsbæjar trúum því að þar eigi að gefast tækifæri til að ræða málin og skoða þau út frá mismunandi sjónarmiðum, til að finna bestu lausnina og niðurstöður sem þóknast flestum, með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Að sjálfsögðu er ekki hægt að ræða málin endalaust og er hin almenna regla lýðræðisins að meirihlutinn ræður en sá meirihluti þarf ekki að vera fyrirfram ákveðinn, heldur endurspegla upplýsta ákvörðun, eins og í öllum vinahópum.
En hvernig er það, ræður bæjarstjóri ekki öllu? Nei, alls ekki. Bæjarstjóri er framkvæmdastjóri sveitarfélagsins og ber því eingöngu ábyrgð á að framkvæma það sem bæjarstjórn hefur ákveðið. Þess vegna teljum við hjá Vinum Mosfellsbæjar að fagráðinn bæjarstjóri, sem er ekki bæjarfulltrúi og situr þannig ekki báðum megin borðsins, sé heppilegast leiðin til að halda hlutverkum skýrum og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.
Veljum breytta stjórnarhætti, verum Vinir.

Michele Rebora skipar 4. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar