Af hverju hreyfum við okkur!

Berta Þórhalladóttir

„Ef hreyfing væri til í pilluformi þá væri það mest ávísaða lyf í heimi“
Hreyfing snýst um svo miklu meira en að líta vel út. Hreyfing er verkfæri og tól sem getur hjálpað okkur að stuðla að bættri vellíðan. Hreyfing á ekki að vera kvöð og er ég talsmaður þess að maður eigi að finna sér þá hreyfingu sem veitir ánægju og tilhlökkun. Það er vissulega mikilvægt að styrkja sig og iðka þolæfingar, en númer eitt, tvö og þrjú er það að finna sér afþreyingu sem þú hefur gaman af. Þegar við höfum gaman þá verður hreyfingin auðveldari og einfaldar það fyrir okkur að koma hreyfingunni í fasta venju!

Það ættu allir að geta fundið skemmtilega afþreyingu við sitt hæfi í dag, þar sem úrvalið hjá okkur á klakanum er svo fjölbreytt og svo margt flott í boði. Þegar hreyfingin er svo orðin að fastri venju, þá má gjarnan fara að huga að hvað við getum gert til að bæta hana og okkur í leiðinni.
Þegar við stundum heilsusamlega hreyfingu þá stuðlum við að bættri heilsu, vellíðan og betri lífsgæðum. Við getum í kjölfarið minnkað líkur á kvíða og þunglyndi, verndað okkur frá hinum ýmsum sjúkdómum.
Einu sinni hélt ég að maður yrði að fá blóðbragð í munninn til þess að ég gæti kallað mína hreyfingu æfingu. En sem betur fer þá veit ég betur í dag!
Öll hreyfing er af hinu góða og númer eitt, tvö og þrjú er einfaldlega að hreyfa sig. Það skiptir ekki jafn miklu máli hvernig við hreyfum okkur eða hversu mikið við náum að svitna á meðan á æfingu stendur! Og æfingin þarf ekki standa yfir langan tíma í senn, þar sem talið er að 30 mínútna hreyfing á dag, 5 daga vikunnar geti skipt sköpum fyrir okkur. Ef þú átt ekki hálftímann, brjóttu hann þá niður í þrisvar sinnum 10 mín., hér og þar yfir daginn. Hugsum í lausnum, því jú, öll hreyfing skiptir okkur máli.
Munið að líkaminn okkar spyr ekki um aldur og fyrri störf þegar hreyfing er annars vegar, heldur mun hormónakerfið okkur losa um vellíðunarhormón um leið og við byrjum að hreyfa okkur.
Hvernig væri að hreyfa sig í dag og sjá hvort það losni ekki úr læðingi.
Þú hefur engu að tapa, en þú gætir haft margt að vinna!

Hvatningarkveðja,
Berta Þórhalladóttir.

Brotin loforð gagnvart barnafólki í Mosfellsbæ

Sveinn Óskar Sigurðsson

„Brotin loforð alls staðar, brotin hjörtu á dimmum bar, brotnar sálir biðja um far, burt, burt heim.“
Texti Bubba Morthens í samnefndu lagi lýsir stöðu fjölmargra sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér, átta sig ekki á hvers vegna minna er á milli handanna og ekki sé hægt að bjóða börnum sínum betra viðurværi. Verst er þegar aðilar í samfélagi okkar gefa sig út fyrir að vera bestir til að veita bjargirnar og þeir langbestu til að gæta fjárhags ríkis og sveitarfélaga án innstæðu. Hefur það verið raunin? Já, svo sannarlega. Flestir stjórnmálamenn, þ.á m. öll vinstri stjórnin 2009-2013, voru tilbúnir að láta almenning borga verðbætur langt umfram það sem eðlilegt var. Aðeins einn aðili kom þarna til móts við fólkið í landinu, þ.e. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ásamt þeirri ríkisstjórn sem hann stýrði eftir kosningarnar 2013.
Á tímabili eftir hrun fjármálakerfisins 2008 mátti sjá fulltrúa margra flokka ganga gegn hagsmunum almennings og voru tilbúnir, jafnvel sem þingmenn og ráðherrar, að ganga ansi langt í að brjóta bæði loforð og lög í landinu gagnvart þeim sem þá áttu um sárt að binda og misstu eignir sínar og lífsviðurværi.
Nýlega kom ég í pontu í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og gerði athugasemd við brotin loforð meirihlutans í Mosfellsbæ þegar kemur að leikskólagjöldum. Á fundi bæjarstjórnar númer 795, þann 8. desember 2021, vitnaði ég í loforð meirihlutans sem lesa má í málefnasamningi V- og D-lista frá 5. júní 2018 en þar segir orðrétt: ,,Við viljum: að leikskólagjöld lækki um 25% á kjörtímabilinu án tillits til verðlagshækkana.“
Þess ber að geta að undir þennan málefnasamning ritar oddviti VG og Sjálfstæðisflokksins. Hver er raunin. Jú, raunin er sú að lækkunin nam aðeins 14,3% en ekki 25% eins og lofað var. Í ræðu bæjarstjórans á fundi nr. 795 í bæjarstjórn segir aftur orðrétt (feitletrun mín):
,,Sko, varðandi þetta síðasta, lækkun leikskólagjalda þá…þá…he…þá er mér ljúft að svara því. Það vill svo bara til ágæti bæjarfulltrúi að…að það er búið að gera meira en loforðið segir til um. Loforðið segir til um það að lækka leikskólagjöld um 25% að…að…án tillits til verðlags. Það er að segja að þetta þýðir það að 25 prósentin eru ekki…eru með verðlagsbreytingum inn í. Við erum búin að lækka þau um 5% á ári og sem þýðir þá það að við erum búin að lækka þau meira og sennilega töluvert meira heldur en…heldur en þetta sem stendur í málefnasamningnum segir. Þannig að það sé nú á hreinu.“
Undir þetta tók oddviti VG og botnaði ekkert í athugasemd minni, þrátt fyrir að hafa lesið og vitnað sjálfur beint í framangreindan málefnasamning.
Hvað gengur þessu fólki til? Þess ber að geta að þeir sem keppa nú um oddvitasætið í Sjálfstæðisflokknum, formaður bæjarráðs og formaður fræðslunefndar, gerðu enga athugasemd við málflutning þennan. Hvers vegna?
Fólk sem gefur sig út fyrir að vera í stjórnmálum verður að taka ábyrgð. Þetta fólk sem að framan er getið er ekki að taka ábyrgð og beinlínis stunda það að ganga gegn eigin samningum og gera illt verra með því að svíkja loforð til kjósenda og reyna að draga fjöður yfir eigin villur, mistök og vanþekkingu.
Hér er verið að brjóta loforð á barnafólki í Mosfellsbæ. Vilja bæjarbúar kjósa slíkt fólk til framhaldandi valda.

Sveinn Óskar Sigurðsson,
bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ.

Setjum Kolbrúnu kennara í fyrsta sætið hjá Sjálfstæðisflokknum!

Ólöf Guðmundsdóttir

Það eru spennandi kosningar fram undan til bæjarstjórnar hér í Mosfellsbæ. Ég hef ákveðið að beita mér örlítið í baráttunni því ein öflugasta manneskja sem ég hef verið svo lánsöm að kynnast, hún Kolbrún G. Þorteinsdóttir, er að berjast um toppsætið í stærsta stjórnmálaaflinu í bæjarfélaginu, Sjálfstæðisflokknum.
Fyrir vinstri manneskju eins og mig hefur verið kvalafullt að fylgjast með pólitíkinni undanfarið. Máttlausri kosningabaráttu Samfylkingarinnar og ósigrum svo og stuðningi VG við persónulega viðskiptahagsmuni útgerðarfurstanna. Og þá vaknar spurningin um hvort atkvæði manns sé dæmt til að vera alltaf kastað á glæ.
Í framhaldi af þessu hef ég velt fyrir mér hvernig ég geti haft áhrif á samfélag mitt. Því hef ég ákveðið að beita mér fyrir því að koma Kolbrúnu í fyrsta sætið hjá Sjálfstæðisflokknum í þeirri von að fá öfluga framsækna konu í bæjarstjórastólinn. Hér er gott að búa og ala upp börnin sín og það hefur verið haldið vel utan um bæjarmálin hér með Sjálfstæðisflokkinn í meirihluta í bæjarstjórn. Nokkuð sem ég verð að viðurkenna hvar svo sem pólitískar línur mínar liggja.
En hvað er ég að velja fyrir mig og bæinn minn þegar ég set Kolbrúnu í 1. sætið?
Ég er að velja konu sem lýsir sjálfri sér sem „skólamanneskju“ fyrst og fremst. Ég er að velja framsækna manneskju sem vill tala við fólk til að komast að góðri niðurstöðu.
Og ekki síst þá er ég að velja formann fræðslunefndar Mosfellsbæjar til frekari áhrifa. Sjálf er ég kennari og á 3 börn í tveimur skólum í Mosó og vinn í þeim þriðja. Ég þekki marga frábæra kennara og duglegt starfsfólk innan skólanna og ég vil manneskju til frekari áhrifa sem skilur og styður þetta mikilvægasta verkefni bæjarins.
Sjáðu til lesandi góður. 60% af fé Mosfellsbæjar fer í að reka skólana og 80% af þeim sem eru á launaskrá hjá bænum eru að vinna í skólunum. Og Kolbrún er kennari sem brennur fyrir einmitt þessu langstærsta verkefni allra bæja; velferð barnanna, skólunum þar sem þau ala manninn flesta virka daga ársins og starfsfólki bæjarfélagsins sem heldur uppi þessu mikilvæga starfi. Þetta er það sem skiptir máli. Samfélög snúast fyrst og síðast um að ala upp börnin okkar. „It takes a village to raise a child“ eins og sagt er. Því er svo mikilvægt að fá manneskju í fyrsta sæti í stærsta stjórnmálaflokknum sem leggur áherslu á einmitt þetta risamál.
Þau sem sækjast eftir 1. sætinu eru hvort úr sinni áttinni.
Annars vegar er framsækinn og mælskur kennari og lýðheilsufræðingur sem vill slá skjaldborg um skólana í bænum. Hún þekkir þá út og inn sem formaður fræðslunefndar og hefur líka áratuga reynslu af bæjarpólitíkinni. Hún er skarpgreind og raunsæ með báða fætur á jörðinni en hefur aldrei gleymt að láta hjartað ráða för. Hins vegar er maður sem hefur ekki reynslu af skólamálum.
Hvar sem þú ert á hinu pólitíska litrófi, getur þú haft áhrif. Það er mikilvægt að manneskjan sem leiðir lista stærsta stjórnmálaflokksins sé með puttann á púlsinum í málaflokknum sem er svo mikilvægur fyrir okkur öll. Skelltu þér í prófkjör Sjálfstæðisflokksins og settu Kolbrúnu G. Þorsteinsdóttur í fyrsta sætið. Fyrir skólana og fjölskyldurnar. Gleðilegt ár og gleðilegar kosningar!

Ólöf Guðmundsdóttir
Mosfellingur og kennari í Varmárskóla

Breytingar á lyfjaendurnýjunum á Heilsugæslu Mosfellsbæjar

Ívar Marinó Lilliendahl

Kæru Mosfellingar
Hinn 1. janúar næstkomandi verða breytingar á ákveðnum lyfjaendurnýjunum hjá Heilsugæslu Mosfellsbæjar. Ávanabindandi sterk verkjalyf (svo kölluð ópíöt) og ávanabindandi róandi lyf (benzódíasepín) verður ekki hægt að endurnýja nema í bókuðum tíma hjá lækni. Ekki verður hægt að endurnýja lyfin á vaktinni, gegnum síma eða rafrænt gegnum Heilsuveru. Hægt verður að skrifa út lyfin til að hámarki þriggja mánaða í senn, en að þeim tíma liðnum þarf nýtt mat læknis til að ákvarða þörf á frekari meðferð.
Mikil aukning hefur verið á ávísunum slíkra lyfja á síðustu árum (sjá grein í Læknablaðinu 10. tbl. 107. árg. 2021. „Þróun lyfjaávísana á ópíóíðalyf í heilsugæslu á árabilinu 2008 til 2017“ eftir Sigríði Óladóttur og félaga). Mikilvægt er að ávísun lyfjanna sé byggð á reglubundinni skoðun og þörf á lyfjunum endurmetin reglulega. Lyfin geta valdið þreytu, minnisleysi, ávanabindingu, hægðatregðu og ógleði svo fátt sé nefnt. Einnig skerða lyfin færni fólks til aksturs í umferðinni. Þá hefur verið sýnt fram á það að lyfin séu sjaldnast gagnleg í langvinnum verkjavandamálum. Aldraðir eru í sérstakri hættu m.t.t. þessara lyfja þar sem þau auka byltu- og beinbrotahættu og auka hættu á óráðsástandi.

Hörður Ólafsson

Með þessum breytingum á ávísanakerfinu er það von okkar á Heilsugæslu Mosfellsbæjar að auka öryggi okkar skjólstæðinga og veita betri meðferð en áður.
Rannsókn frá Danmörku (Jorgensen VR. An approach to reduce benzodiazepine and cyclopyrrolone use in general practice : a study based on a Danish population. CNS Drugs. 2007;21(11):947-55) og reynsla frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Borgarnesi hafa sýnt fram á að dregið hefur úr notkun þessara lyfja með svipuðum aðgerðum.

Dæmi um lyf sem fara undir breytingarnar eru:
Ópíöt: Parkodin, Parkodin forte, Tramol, Tradolan, Oxycontin, Oxynorm, Contalgin.
Benzódíasepín: Sobril, Albrazolam, Stesolid.

Með von um góðar viðtökur og góða samvinnu.
F.h. Hg Mos

Ívar Marinó Lilliendahl læknir
Hörður Ólafsson heimilislæknir og fagstjóri lækninga

Verkefnið Járnfólkið – Rótarýhreyfingin

Sveinn Óskar Sigurðsson

Fyrir nokkrum árum hvatti viðskiptafélagi minn mig til að mæta á fund hjá Rótarýklúbbnum Þinghól sem starfræktur er í Kópavogi.
Frá þeim tíma hef ég verið meðlimur í Rótarýhreyfingunni og tek heilshugar undir orð frú Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, sem líkti Rótarý við „opinn háskóla“. Samhliða frábærum fyrirlestrum um allt milli himins og jarðar stuðlar Rótarý á Íslandi að fræðslu og samfélagsverkefnum sem koma öllum til góða.
Eftir að hafa séð hve öflug þessi hreyfing er, hve virkir og velviljaðir meðlimir hennar eru við að bæta samfélag sitt og koma góðu til leiðar fann ég mig innan Rótarý. Fyrir 2 árum lagði ég fyrir klúbbfélaga mína hugmynd að samfélagsverkefni. Hafði ég þá greinst með erfðasjúkdóm sem nefnist járnofhleðsla (e. Hemochromatosis) sem í eðli sínu er auðvelt að greina og meðhöndla en getur valdið miklum skaða og leitt til ótímabærra dauðsfalla sé hann ekki meðhöndlaður.
Til að greina sjúkdóminn þarf að fara í blóðpróf á næstu heilsugæslustöð og meðhöndlunin felst m.a. í því að tappa blóði reglulega af viðkomandi þar til að hlutfall járns í blóði er orðið viðunandi að mati læknis. Ef ekki er brugðist við getur þessi sjúkdómur valdið lifrarbólgu, skorpulifur og hugsanlega lifrarkrabbameini, sykursýki, skjaldkirtilssjúkdómum, getuleysi, ófrjósemi, vöðva- og liðverkjum, þunglyndi, Alzheimer, Parkinsons og aukið á gigtareinkenni.
Ég var beðinn um að halda fyrirlestra um sjúkdóminn og að loknum þeim var samþykkt samhljóða að taka upp verkefnið og vinna bækling sem dreift yrði um allt land. Verkefnahópur var settur á laggirnar og markmiðið sett um að auka vitundarvakningu á meðal almennings. Síðar kom í ljós að fjöldi félaga minna þekktu einstaklinga með þennan sjúkdóm, ættingja eða vini. Nokkrir félagar mínir í klúbbnum eru með sjúkdóminn og einn félagi minn greindist nýlega. Fyrir ári var sótt um styrk fyrir verkefnið hjá Verkefnasjóði Rótarý á Íslandi og hlaut verkefnið hæsta styrkinn sem í boði var. Vil ég þakka stjórn sjóðsins innilega fyrir þennan velvilja sem lýsir vel hugsjónum Rótarý.
Á næstu vikum munum við í Rótarý dreifa bæklingi sem ber yfirskriftina ,,Járnofhleðsla, hvað er það?“ Með þessari vitundarvakningu er ætlunin að hvetja fólk á öllum aldri, sem finnur til einkenna, að leita til síns heimilislæknis og óska eftir blóðprófi svo skera megi úr varðandi hlutfalls járns í blóði. Rétt er að benda fólki, sem á ættingja með þennan erfðasjúkdóm, á að fara í blóðpróf og fá ráðgjöf hjá sínum heimilislækni.
Við í Rótarýklúbbnum Þinghól viljum með þessu vekja fólk til vitundar en samkvæmt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna nr. 3.4 segir : „Eigi síðar en árið 2030 hafi ótímabærum dauðsföllum af völdum annarra sjúkdóma en smitsjúkdóma verið fækkað um þriðjung með fyrirbyggjandi aðgerðum og meðferð og stuðlað að geðheilbrigði og vellíðan.“ Með þessu vil ég upplýsa þig og vekja athygli þína á þessu verkefni Rótarý.
Fjórpróf Rótarý: Er það satt og rétt? Er það drengilegt? Eykur það velvild og vinarhug? Er það öllum til góðs?
Gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Sveinn Óskar Sigurðsson
Verkefnastjóri verkefnisins Járnfólkið hjá Rótarý og bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ

Grænn Mosfellsbær í fremstu röð

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Í Mosfellsbæ hefur íbúafjölgun orðið hvað mest á meðal allra sveitarfélaga á landinu enda kostirnir við að búa í Mosfellsbæ augljósir.
Hér er gott að ala upp börn því Mosfellsbær heldur vel utan um börnin sín. Hér eru framúrskarandi leik- og grunnskólar, fjölbreytt og gott íþrótta – og tómstundastarf og síðast en ekki síst mikil tenging við náttúruna.
Fólk sem flytur í Mosó veit að hér svífur sveita­rómantíkin yfir vötnum í þessu heimilislega samfélagi þar sem nær allir þekkjast. Bærinn hefur í áraraðir verið meðal þeirra sveitarfélaga sem mælast í könnunum með mesta ánægju íbúa og hefur þessi hraða íbúafjölgun ekkert dregið úr ánægjunni.

Blómstrandi mannlíf
Með þéttingu byggðar á miðbæjarsvæði og í nýjum miðbæjargarði vonumst við til þess að geta laðað til okkar veitingahús og fleiri fyrirtæki því blómstrandi mannlíf, íbúafjölgun, fjölgun fyrirtækja og bætt þjónusta haldast í hendur. Mosfellsbær er grænn bær í sókn sem vill fá til sín fyrirtæki sem veðja á græna nýsköpun og þjónustu.
Framtíðartækifærin felast í sterkri tengingu við náttúruna og er Mosfellsbær þar fremstur í flokki sveitarfélaga hvað þau tækifæri varðar. Tækifæri í sjálfbærri matvælaframleiðslu eru hér allt í kringum okkur og er draumurinn að hér verði öflugur bændamarkaður í bland við matarupplifun, jafnvel í mathöll sem enga á sér líka. Matarupplifun í bland við menningu og listir er eftirsóknarverð upplifun fyrir alla fjölskylduna.

Græna byltingin er hafin
Vitað er að tækniþróun og COVID-19 hafa breytt hugmyndum okkar um það hvar störfin eiga að vera staðsett. Í dag skiptir fjarskiptasambandið meira máli en staðsetning starfsins. Tæknibyltingin fæðir af sér nýsköpun og leiðir okkur á nýjar brautir til þess að sjá tækifæri í að nýta það sem náttúran gefur á sjálfbæran hátt.
Það er von okkar að fyrirtækjaeigendur og frumkvöðlar vilji taka þátt í að byggja upp öflugt hringrásarhagkerfi til framtíðar. Mosfellsbær er rétti staðurinn til að vinna, búa og njóta, allt á sama stað. Græna byltingin er hafin og er Mosfellsbær virkur þáttakandi í henni. Þetta styður umhverfisstefna og framtíðarsýn Mosfellsbæjar.

Komdu út að leika
Mosfellsbær og náttúran er stórt leiksvæði fyrir fólk á öllum aldri. Hér er allt til að njóta hreyfingar og öll aðstaða hin besta hvort sem fólk vil hlaupa, ganga eða synda í sundlaugum eða Hafravatni. Mosfellsbær vill verða miðja hjólreiðafólks sem hjólar frá Gróttu til Esjuróta. Við viljum bjóða til okkar hlaupurum, göngufólki og golfurum á öllum aldri til æfinga á fellum, völlum og opnum svæðum. Þetta smellpassar inn í nútímafjölskylduna því lífsstíll fólks hefur breyst mikið á fáum árum og hefur græna byltingin haft sitt að segja en einnig leit fólks að afþreyingu á tímum heimsfaraldurs.
Rafmagnsbílar, hjólastígar, góðar almenningssamgöngur ásamt styrkingu hringrásarhagkerfisins eru hluti af verndun umhverfis og eftirsóknarverður lífsstíll fyrir nútíma fólk. Mosfellsbær vill verða í forystu í þessum flokki og verða fyrsta val fólks sem kýs heilsusamlegan og nútímalegan lífsstíl. Þetta er m.a. mín framtíðarsýn og býð ég mig fram til að leiða Mosfellsbæ áfram til forystu.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
Bæjarfulltrúi og frambjóðandi í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins

Lista- og menningarfélag Mosfellinga

Davíð Ólafsson

Menning er hluti af hinu daglega lífi og skilgreiningar á menningu eru margar og jafnvel ólíkar.
Menning er mjög vítt hugtak sem tekur til nær allra þátta samfélagsins. Í okkar huga er menning þeir þættir sem einkenna samfélag okkar.

Hér í Mosfellsbæ eru margir kórar þar sem fólk kemur saman og syngur, hér eru göngu- og hlaupahópa, hópar eldri og yngri sem hittast, lesa, prjóna eða föndra saman. Starfandi félagasamtök eru mörg og ólík og hér búa og starfa margir og ólíkir listamenn og þessir hópar einkenna Mosfellsbæ.

Hópur Mosfellinga hefur áhuga á stofnun Lista- og menningarfélags Mosfellinga.
En áður en við stofnum félagið viljum við fá ykkur með okkur til að móta tilgang og hlutverk félagsins. Til að byrja með ætlum við að vera með hugarflugsfund fimmtudaginn 20. janúar og í framhaldi er fyrirhugaður stofnfundur félagsins þann 02.02.2022. Upplýsingar um staðsetningu hugarflugsfundarins verða í næsta Mosfellingi.

Okkar hugmynd með Lista- og menningarfélaginu, sem er ópólitískt, er að efla menningar- og listastarfsemi í Mosfellsbæ og stuðla að auknu framboði og fjölbreytileika í menningar- og listalífi bæjarins.
Kæru Mosfellingar við vonum að þið takið vel í þessa tillögu okkar og verðið með í að efla til muna lista- og menningarlíf okkar Mosfellinga í Mosfellsbæ.

Davíð Ólafsson

Mosfellsbær – uppbygging á miðbæjarsvæði

Ásgeir Sveinsson

Mosfellsbær er ört stækkandi sveitarfélag enda eftirsóknarverður búsetukostur fyrir margra hluta sakir.
Byggðakjarnar sveitarfélagsins eru skipulagðir með það að leiðarljósi að auðvelda aðgengi íbúanna að hvers kyns þjónustu og áhersla lögð á fjölbreytt búsetuform. Uppbyggingin mun halda áfram jafnt og þétt á komandi árum, meðal annars í miðbæ Mosfellsbæjar sem er í uppbyggingu og er að taka á sig skýrari mynd.
Til þess að skapa gott fjölbreytt miðbæjarlíf þarf að vera til staðar öflug og fjölbreytt verslun, þjónustufyrirtæki auk íbúðarhúsnæðis og fallegt umhverfi sem laðar að sér íbúa og gesti bæjarins.

Almenningsgarður í miðbæ Mosfellsbæjar
Í miðbæ Mosfellsbæjar er samkvæmt gildandi deiliskipulagi gert ráð fyrir 5.000 fermetra svæði í Bjarkarholti í miðbæ Mosfellsbæjar fyrir almenningsgarð sem hugsaður er sem grænt svæði til útivistar og upplifunar fyrir íbúa Mosfellsbæjar og gesti þeirra. Ásýnd svæðisins er ætlað að verða aðlaðandi og spennandi kostur til að njóta samveru í fallegu umhverfi. Samþykkt var nýlega í bæjarráði að efna til opinnar hugmyndasamkeppni í janúar á næsta ári um miðbæjargarðinn. Samkeppnisferlið mun taka nokkrar vikur og er áætlað að kynna niðurstöður úr samkeppninni á sumardaginn fyrsta eða 21. apríl 2022.

Bryndís Brynjarsdóttir

Í fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu fyrir garðinn er gert ráð fyrir byggingu og útisvæði fyrir veitingasölu/kaffihús. Þessi garður verður frábær viðbót við miðbæ Mosfellsbæjar og tilvalinn vettvangur fyrir íbúa og gesti þeirra til að njóta útiveru og hreyfingar í fallegu og lifandi miðbæjarumhverfi. Hugmyndasamkeppninni er ætlað að kalla fram skapandi og skemmtilegar hugmyndir um útfærslur garðsins.

Áframhaldandi uppbygging við Bjarkarholt
Uppbygging húsnæðis í miðbænum við Bjarkarholt heldur áfram og ber þar hæst að nefna fyrirhugaða byggingu þjónustuíbúða fyrir eldri borgara sem tengjast munu núverandi byggingum og þeirri starfsemi sem fyrir er á Hlaðhömrum. Auk þjónustuíbúðanna verður einnig byggt rými fyrir félagsþjónustu eldri borgara í Mosfellsbæ. Eldri borgurum fjölgar og þessi viðbót er því kærkomin og mun hún auka þjónustuna til muna fyrir þennan aldurshóp í Mosfellsbæ.

Uppbygging á fleiri svæðum á miðsvæði Mosfellsbæjar
Á miðbæjarsvæði Mosfellsbæjar er einnig fyrirhuguð áframhaldandi uppbygging í Sunnukrika. Gert er ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæðum og að skrifstofur eða íbúðir verði á efri hæðum eins og þekkist í Sunnukrika 3 sem búið er að byggja. Einnig mun Mosfellsbær úthluta lóðum á næstu misserum í landi Hamraborgar fyrir neðan Olís þjónustustöðina. Þar er verið að þétta byggð og á því svæði verða byggð tvö fjölbýlishús auk einbýlis- og raðhúsa.
Að lokum ber að nefna að samningar um stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra milli ríkis og Mosfellsbæjar eru í vinnslu og kveða þeir á um að byggð verði 44 ný rými við hjúkrunarheimilið og leysa þau úr brýnni þörf fyrir fleiri slík rými. Það er ljóst að uppbygging á miðsvæði Mosfellsbæjar mun halda áfram af krafti næstu misseri sem tryggir fallegan, lifandi og skemmtilegan miðbæ með fjölbreyttri þjónustu, og fallegu umhverfi með miðbæjargarðinn sem hjarta svæðisins.

Ásgeir Sveinsson, formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar Mosfellsbæjar.
Bryndís Brynjarsdóttir, varaformaður skipulagsnefndar Mosfellsbæjar.

Jólakveðja frá Framsókn

Halla Karen Kristjánsdóttir

Hógværð, mildi og mannúð
Dýrmætustu gjafirnar
sem þú getur gefið
eru falleg orð og gjörðir
samúð og fyrirgefning
þakklæti, skilningur
viðurkenning og kærleikur

Steinunn Valdimarsdóttir

Kæru Mosfellingar
Lífið er dýrmæt gjöf. Hver dagur hefur sín ævintýri. Enginn dagur er eins, sumir eru mjög venjulegir, aðrir kannski smá öfugsnúnir og erfiðir og enn aðrir spennandi með fullt af skemmtilegum uppákomum. En allir þessir dagar eru lífið okkar og móta okkur. Við þurfum þó alltaf að vera að minna okkur á að staldra aðeins við, njóta lífsins og muna eftir smáu atriðunum. Vöndum líka alla framkomu og hvað við segjum við aðra sem og okkur sjálf. Umhyggja og hlýleg orð geta skipt sköpum. Hafið það sem allra best núna, í gær, á morgun, um jólin og bara alltaf.
Við óskum ykkur gleðilegra jóla, hamingju og hreysti á nýju ári.

Með jólakveðju, Framsókn í Mosfellsbæ.

Halla Karen Kristjánsdóttir formaður

Vetrarsólhvörf

Bjarki Bjarnason

Þessi dægrin liggur sól lægst á lofti, skammdegið er mikið en um leið er eitt fullvíst: „Dagarnir lengjast og dimman flýr í sjó“ svo vitnað sé í þekkt vorkvæði. Orðið „sólhvörf“ getur bæði merkt þau tímamót þegar daginn tekur að lengja og stytta, hvorttveggja minnir okkur á hverfulleika lífsins og hringrás tímans. Jól og áramót eru einmitt sá tími þegar við lítum í senn til ársins sem er á förum og þess nýja sem mætir okkur.
Árið sem kveður brátt hefur verið einstakt fyrir margra hluta sakir, heimsfaraldur geisar enn og aldrei mikilvægara en núna að gæta hvert að öðru og okkur sjálfum. Íslenskt samfélag hefur borið gæfu til að bregðast skjótt við breyttum sviðsmyndum sem blasa sífellt við okkur. Oft þarf að taka íþyngjandi og umdeildar ákvarðanir fyrir ýmsar starfsstéttir og almenna borgara sem hafa sýnt mikla þrautseigju og sveigjanleika í baráttunni við hinn skæða vágest.
Á þessu miklu óvissutímum hefur Mosfellsbær lagt allt kapp á að skila hallalausum rekstri og um leið að verja grunnþjónustuna við íbúa. Sá mannauður sem Mosfellsbær býr yfir hefur skipt sköpum við þessar óvenjulegu aðstæður og starfsfólk bæjarins hefur þurft að endurskipuleggja starfshætti sína.

Bryndís Brynjarsdóttir

Náttúruöflin létu líka að sér kveða á árinu 2021 og „hin rámu regindjúp“ létu rækilega í sér heyra. Nú er gosinu í Geldingadölum „formlega“ lokið en um leið vitum við að jörðin okkar sefur aldrei – aldrei alveg – og minnir okkur á að það er skylda okkar allra að hlúa betur að móður Jörð, já miklu betur.
Kæru Mosfellingar. Vetrarsólhvörf eru nýgengin hjá, hækkandi sól blasir við. Við viljum þakka bæjarbúum góð samskipti á árinu sem kveður senn og óskum ykkur öllum gleðilegra friðarjóla og farsældar á nýju ári.

Bjarki Bjarnason, bæjarfulltrúi V-lista.
Bryndís Brynjarsdóttir, varabæjarfulltrúi V-lista.

Konur eru líka öflugar

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Undirbúningur sjálfstæðismanna til sveitastjórnarkosninga í vor eru nú í fullum gangi. Margir ólíkir einstaklingar með ólíkar skoðanir gefa kost á sér sem mér finnst mjög jákvætt því það leiðir til fjölbreyttra hugmynda um hvernig hægt sé að gera Mosfellsbæ að betri bæ til að búa í, þótt gott sé að búa þar í dag og óvíða betra.

Ég hef alltaf haft áhuga á bæjarmálum, hef í fjögur ár verið varaformaður Umhverfisnefndar fyrir Mosfellsbæ á þessu kjörtímabil, þessi tími hefur verið lærdómsríkur og bara eflt minn áhuga á að taka áframhaldandi þátt með því að gefa aftur kost á mér fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Ég hélt að ég hefði ekki nægjanlega reynslu eða þekkingu að starfa í bæjarmálum en það lærist hvernig stjórnsýslan virkar og þau sem reyndari eru hafa verið mjög hjálpsöm. Það er nefnilega með okkur konurnar að við erum oft sjálfar duglegastar að draga úr okkur kjarkinn og höldum að við séum ekki nægilega hæfar.

Við þurfum ekki að kunna allt eða hafa þekkingu á öllu til að taka áskorunum heldur lærum við af öðrum reynsluboltum sem hafa starfað á þessum vettvangi, mér finnst að við konur ættum að vera duglegri að ögra okkur sjálfum og sýna hver annari meiri stuðning í daglegu lífi, hvort sem það er innan veggja heimilisins, í vinnu eða komandi kosningum.

Við getum gert bæinn okkar enn betri, bæ sem fólk vill búa í til frambúðar og það er svo sannarlega gott að búa í Mosfellsbæ. Hér er frábært að ala upp börnin sín og einnig fyrir börn að alast upp, fullyrðir dreifbýlistúttan ég, Kristín Ýr, sem naut þess að alast upp í litlu þorpi út á landi. Mér finnst Mosfellsbær einmitt vera eins og lítill bær út á landi, stutt er í náttúruna, frábærar gönguleiðir, frábært íþróttastarf fyrir alla og nánd við nágrannana. Nú hvet ég allar konur til að velta þessum hlutum fyrir sér, skrá sig í flokkinn og flykkjast á kjörstað og sýna í verki að við konur getum líka gert gagn, við sjáum oft hlutina í öðru ljósi, við erum kröftugar, við erum sannar, þó svo að ég geri ekki lítið úr karlmönnunum sem starfa í bæjarmálunum hér.

Það er mín skoðun að konur ættu að fá meira vægi í stjórnmálum almennt. Ég tók ákvörðun fyrir nokkuð mörgum árum að ég ætla aldrei að hallmæla öðrum konum, ég ætla að ögra sjálfri mér, hafa þor til að taka ákvarðanir, þor til framkvæmda, kynnast nýju fólki og taka fólki eins og það er og mynda mér skoðanir um fólk þegar ég hef kynnst því en halda samt sem áður áfram að vera ég sjálf.
Ég er nefnilega mamma, eiginkona, vinkona og mig langar að geta gert gagn í bæjarmálum hér í Mosfellsbæ. Þess vegna býð ég mig fram í þriðja sæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn þann 5. febrúar næstkomandi.

Kristín Ýr Pálmarsdóttir

Jólakveðja

Anna Sigríður Guðnadóttir

Bæjarstjórn er nú komin í jólafrí og lítið að frétta úr bæjarpólitíkinni. Búið að afgreiða fjárhagsáætlun og komin tími á jólaundirbúning og jólagleði.
Sveitarstjórnarkosningar verða haldnar í maí og ef að líkum lætur færist fjör og líf í bæjarmálin og stjórnmálaumræðu þegar kemur fram á nýja árið. Það eru mörg verkefnin sem sinna þarf í sveitarstjórn og margs konar stefnumótun sem þarf að fara fram eða endurskoða.
Skólamálin eru og eiga alltaf að vera efst á baugi enda leggur það starf sem þar er unnið grunninn að framtíð og farsæld unga fólksins okkar. Getur við gert betur í skólamálum? Já, það teljum við. Við þurfum að leggja aukna áherslu á að búa vel að skólunum okkar og gera allt sem í okkar valdi stendur til að efla það faglega starf sem þar er unnið. Getum við gert betur í fjölskyldumálum? Já, það teljum sannarlega. Við þurfum að búa betur að þeim sem eiga undir högg að sækja, við þurfum að fjölga félagslegum íbúðum til að standast samanburð við nágrannasveitarfélög okkar og við þurfum að sinna betur eldri borgurum. Getum við gert betur í skipulagsmálum? Já, það teljum við. Við verðum að gæta þess að jafnvægi haldist í uppbyggingu bæjarins okkar, að ímyndin um sveit í bæ glatist ekki. Getum við gert betur í umhverfismálum? Já, sannarlega getum við það, t.d. með því að leggja áherslu á loftslagsmál sem eru mikilvægustu mál framtíðarinnar. Getum við gert betur í íþrótta- og tómstundamálum, menningarmálum, lýðræðis- og mannréttindamálum? Já, við getum það.

Ólafur Ingi Óskarsson

Við eigum að gera betur í öllum þessum málaflokkum. Efla faglegt starf nefnda bæjarins og efla tækifæri bæjarbúa til þátttöku í stefnumótun og samtali um framþróun í bæjarmálunum. Alla þessa þætti þarf að ræða í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.
En núna er tími til að njóta samveru og helgi jólanna. Vonandi auðnast okkur öllum að halda gleðileg jól með fjölskyldu og vinum óáreitt af veiruskömminni. Bestu óskir um gleðiríka jólahátíð.

Anna Sigríður Guðnadóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
Ólafur Ingi Óskarsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Jólagjöfin í ár

Ólöf Kristín Sívertsen

Nú er sá árstími þar sem margir eru að brjóta heilann um hvað skuli gefa í jólagjafir. Slíkt getur stundum verið þrautin þyngri þar sem mörg okkar eiga nóg af alls konar.
Fæstir vilja hvorki gefa né fá óþarfa og þá er bara að leggja höfuðið í bleyti.

Loftslagsvænar jólagjafir
Sífellt fleiri eru orðnir meðvitaðir um náttúruvernd og loftslagsmálin ber oft á góma. Fyrir síðustu jól kom loftslagshópur Landverndar með margar snilldarhugmyndir að loftslagsvænum jólagjöfum.
Það er t.d. hægt að gefa eitthvað matarkyns eins og heimagert konfekt, sultur, smákökur, uppskrift og allt sem í hana þarf o.fl. List eða handverk á alltaf við, s.s. eitthvað prjónað eða heklað, ljóð og/eða lag, teikning, málverk o.s.frv. Upplifun og samvera er að sjálfsögðu á listanum ásamt áskriftum að blöðum, menningarkortum o.fl.
Þeir sem vilja kynna sér hugmyndir þessa hóps geta kíkt í á þessa slóð á vefsíðu Landverndar: https://landvernd.is/grasrot-loftslagsvaenar-jolagjafir/

Samvera í jólapakkann
Því ekki að gefa samveru í jólagjöf? Rannsóknir hafa einmitt sýnt að það að eiga í góðum félagslegum samskiptum sé einn mikilvægasti þátturinn þegar kemur að því að lifa löngu, heilbrigðu og gleðiríku lífi. Slíkt rímar sannarlega við orðatiltækið um að maður sé manns gaman! Hægt er að gefa alls kyns samveru, miseinfalda og í öllum verðflokkum.
Hvernig væri t.d. að bjóða í mat, kaffi eða/og göngu, brydda upp á spilakvöldi, heimsækja safn, elda eða baka saman, fara í ísbíltúr eða hvaðeina sem ykkur dettur í hug?
Þeir sem vilja fara alla leið geta líka gefið samverudagatal sem nær til lengri tíma, jafnvel fram til næstu jóla. Hægt væri t.d. að fara í göngutúr í janúar, hafa spilakvöld í febrúar, kaffiboð í mars o.s.frv. Ég get allavega lofað ykkur því að hvers kyns samvera mun alltaf slá í gegn!

Þegar fólk hefur verið spurt hvað sé það allra besta við jólin þá eru langsamlega flestir sammála um að það sé einfaldlega samveran með fólkinu sem stendur þeim næst. Góður matur, stemmingin, kærleikurinn, gleðin og þakklætið sem einkennir þessa hátíð ljóss og friðar koma þarna einnig við sögu.

Að þessu sögðu þá óskum við, sem stöndum að Heilsueflandi samfélagi í Mosfellsbæ, ykkur gleðilegra jóla og vonum að þið njótið þeirra vel í faðmi þeirra sem ykkur þykir vænst um.

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Eilíf hækkun launa íslensku elítunnar – Æðstu embættismannanna

Sveinn Óskar Sigurðsson

Á ensku talað um „conflict of interest,“ þ.e. þegar atvik valda því hagsmunir aðila rekast á. Einn aðilinn getur verið sá sem hefur umboðið (e. agent) og hinn umboðsveitandinn (e. principal). Það kann að vera að hagræðing sé því að veita einhverjum umboð. Hvað getur gerst þegar umboðsveitandinn er ekki viðstaddur, farið er út fyrir umboðið og svik eru í tafli?
Í dómum sem hafa fallið frá hruni íslenska fjármálakerfisins, sem skall á 2008, hefur verið dæmt í umboðssvikamálum. Þá hafa fallið dómar sem varða refsingu ef sá sem umboðið hafði, umboðsþeginn, fór út fyrir umboðið. Með störfum margra er fólgið umboð, þ.e. stöðuumboð. Einnig eru menn með umboð í tengslum við störf sín, sbr. störf lögmanna, starfsmanna í stjórnkerfinu sem innan fjármálakerfisins og víðar.
Í kosningum veitum við kjörnum fulltrúum umboð. Þá er um að ræða pólitískt umboð og leggja stjórnmálamenn og flokkar fram stefnu sína fyrir hverjar kosningar og eru svo dæmdir af verkum sínum síðar í næstu kosningum. Þar sæta stjórnmálamenn sinni pólitísku ábyrgð. Margir ákveða reyndar að þeirra staða sé orðin það veik að þeir ákveða fyrir fram að yfirgefa pólitíska sviðið og tilkynna í tíma að þeir bjóði sig ekki aftur fram.
Þegar kjörnir fulltrúar eru ráðnir til starfa stöðu sinnar vegna, þ.e. þegar þeir ná meirihluta, eru þeir orðnir hluti stjórnkerfisins, þ.e. framkvæmdastjórnar í sveitarfélögum eða innan framkvæmdavaldsins, ráðherrar. Framkvæmdastjórar sveitarfélaga, oft nefndir bæjarstjórar, eru þá orðnir bæði stjórnmálamenn og starfsmenn, þ.e. embættismenn. Vandinn við slíkt fyrirkomulag hefur m.a. leitt til þess að félagar þeirra, sem síðar vænta þess að ná sömu vegsemd, eru þeir hinir sömu og samþykkja ráðningarsamning viðkomandi bæjarstjóra. Þar eru laun oft mjög há og eins og fyrir hrun fjármálakerfisins er það réttlætt með því að annan eins snilling sé ekki að finna í bæjarfélaginu, nú eða í landinu.
Einnig er fullyrt að viðkomandi sæti svo mikilli ábyrgð að háu launin réttlæti það, eftir atvikum kaupréttir og önnur vildarkjör. Einhverjir sækjast eftir að fá einhvern í starfið sem hentar, einhvern sem spilar með. Í upphafi þessa kjörtímabils í Mosfellsbæ samdi meirihlutinn við bæjarstjórann um laun sem eru miðuð við laun ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu. Hvað hékk á spýtunni?
Á kjörtímabili sitjandi sveitarstjórna á Íslandi í dag féllu brott lög um kjararáð. Laun ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu hækkuðu skömmu síðar, og þar með bæjarstjórans í Mosfellsbæ, um sem nemur 114.510 krónur eftir áramótin 2019 og 2020 og fóru þá í 1.932.203 á mánuði. Varð forseta lýðveldisins þá svo um að hann ákvað að afþakka hækkun sína en um það má lesa í frétt í Fréttablaðinu 8. apríl 2020.
Talnakönnun gaf út skýrslu fyrir Félag forstöðumanna ríkisstofnana, sem birt var í mars sl. Þar kom fram að launaþróun ráðuneytisstjóra hefur hækkað umtalsvert umfram forstöðumenn og nokkuð umfram launavísitölu. Sjá má samkvæmt þessu að skattgreiðendur eru að hanna hér á landi nýja elítu embættismanna og kjósa yfir sig kostnað ár frá ári. En sæta þessir aðilar ábyrgð?
Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins 24. ágúst sl. er fullyrt að laun bæjarstjórans í Mosfellsbæ séu komin í um eða yfir 2.141.000,- krónur á mánuði. Regluleg mánaðarlaun, skv. Hagstofu Íslands, námu árið 2020 um kr. 480 til 749 þúsund, regluleg laun í fullu starfi að meðaltali um kr. 670 þúsundum.
Umboðsvandinn leynist víða og veldur skattgreiðendum tjóni ár eftir ár þar sem frændhygli, vinavæðing og undirlægjuháttur óbætanlegu tjóni. Breytum þessu í næstu kosningum.
Gleðileg jól og farsælt komandi ár. Kjósum rétt á komandi ári.

Sveinn Óskar Sigurðsson
Bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ

Sá elsti og virtasti

Kjartan Helgi Ólafsson

Kæru Mosfellingar. Nú hefur Framsóknarflokkurinn legið í dvala hér í bænum okkar svo árum skiptir sem er afar miður fyrir okkar bæjarfélag.
Það fer nefnilega ekkert á milli mála að grunngildi flokksins, sem skilað hafa þjóðinni þessum mikla árangri á landsvísu, hafa átt undir högg að sækja hér í Mosfellsbæ.

Þetta sést bersýnilega á morgnana þegar umferðarteppan er hvað mest, þar sem flest allir flykkjast í Reykjavík eða nærumhverfi til að sækja atvinnu. Erfitt hefur reynst fyrir ungt fólk að setjast hér að vegna skorts á húsnæði fyrir fyrstu kaupendur. Lítil fjölbreytni er í atvinnustarfsemi. Stórar ákvarðanir hafa verið teknar í tráss við vilja lykilaðila. Framtíðarsýn skortir í skipulagsmálum. Hér er einfaldlega tækifæri til að gera betur.

Við í unga armi Framsóknar fáum ekki betur séð en að rótgróin stefnumál elsta og virtasta flokksins eigi töluvert erindi hér, ­þ.e.a.s. skynsöm byggðastefna og bættar samgöngur, metnaðarfull atvinnusköpun og loks virkt samráð.

Leifur Ingi Eysteinsson

Til þess að stuðla að atvinnusköpun verða svo auðvitað að vera til staðar skilyrði svo einkaframtakið geti fært út kvíarnar, í þeim efnum eru uppi mörg tækifæri til að gera betur með ýmsum ívilnunum til að laða að fyrirtæki.

Framsóknarflokkurinn vann stórsigur í nýafstöðnum kosningum á landsvísu og við ætlum okkur að sjálfsögðu að fylgja fast á eftir í komandi sveitarstjórnarkosningum. Nú er undir okkur bæjarbúum komið að tryggja veru sáttasemjarans í miðjunni hér í Mosfellsbæ.

Kjartan Helgi Ólafsson og Leifur Ingi Eysteinsson.
Höfundar eru ungir Framsóknarmenn og stjórnarmenn í Framsóknarfélagi Mosfellsbæjar