Leiguíbúðir í Mosfellsbæ

Ólafur Ingi Óskarsson

Eitt af meginverkefnum sveitafélaga eru skipulagsmál. Á vettvangi sveitarstjórnarmála er oft rætt af miklum þunga um mikilvægi þess að skipulagsvaldið sé hjá sveitafélögunum til þess að undirstrika sjálfstæði þeirra við að móta samfélagið eftir vilja þeirra sem það byggja. Samt veltum við skipulagsmálum sjaldnast fyrir okkur nema kannski þegar kemur að því að gera eigi breytingar í okkar næsta umhverfi.
Einn veigamikill þáttur í skipulagi er að móta umhverfið þannig að það stuðli að fjölbreyttu og mannvænu umhverfi. Ein leið að því markmiði er að góð blöndun sé í hverfum með tilliti til aldurs og efnahags þeirra sem þar búa. Þetta getum við gert með því að skipuleggja mismunandi húsagerðir á nýjum byggingarreitum og að bjóða upp á mismunandi búsetuform sem henta mismunandi hópum.

Hamraborgarreitur
Nú er í skipulagsferli svokallaður Hamraborgarreitur sem afmarkast af Langatanga, Bogatanga og bensínstöð Olís. Í þeim tillögum sem liggja fyrir er gert ráð fyrir blandaðri byggð af einbýlishúsum, raðhúsum og fjölbýlishúsum.
Umræddur byggingarreitur er gæddur mörgum kostum m.a. hvað varðar staðsetningu þar sem öll helsta þjónusta og verslun er í göngufæri og stutt er í góðar samgöngur, hver sem ferðamátinn er. Einnig mun fyrirhuguð Borgarlína liggja nálægt skipulagsreitnum. Mikill skortur hefur verið á ódýru og öruggu leiguhúsnæði hér í bæ eins og víðar á landinu fyrir tekjulága einstaklinga og fjölskyldur á vinnumarkaði.

Bjarg íbúðafélag
Í kosningastefnu Samfylkingarinnar fyrir kosningar 2018 lagði flokkurinn áherslu á að samstarf yrði tekið upp við óhagnaðardrifin leigufélög um uppbyggingu leiguíbúða.
Í samræmi við þá áherslu flokksins lagði undirritaður fram tillögu í skipulagsnefnd um að bæjaryfirvöld settu sig í samband við Bjarg íbúðafélag og ræddu hvort hér væri ekki á ferðinni vænlegur kostur til að byggja fjölbýli á þeirra vegum þar sem þeir kostir sem ég hef tiltekið falla mjög vel að hugmyndum félagsins.
Skipulagsnefnd samþykkti einróma að vísa tillögunni til bæjarráðs til skoðunar. Bæjarráð samþykkti að vísa tillögunni til bæjarstjóra til afgreiðslu í tengslum við þau samskipti sem nú eiga sér stað á milli Mosfellsbæjar og Bjargs íbúðafélags varðandi mögulega uppbyggingu í Mosfellsbæ.
Vonandi veit það á gott og áður en langt um líður verði hafist handa við uppbyggingu á góðu og öruggu leiguhúsnæði á vegum Bjargs íbúðafélags fyrir tekjulága íbúa í Mosfellsbæ.

Ólafur Ingi Óskarsson,
áheyrnarfulltrúi S-lista í skipulagsnefnd.

Vinir Mosfellsbæjar bjóða fram í sveitarstjórnarkosningum í vor

Stefán Ómar Jónsson

Það var skömmu fyrir sveitarstjórnarkosningar vorið 2018 sem hópur fólks með ýmsar stjórnmálaskoðanir og ólíkan bakgrunn kom saman og ákvað að stofna hreyfingu með það eina markmið að beita sér fyrir hagsmunum íbúa Mosfellsbæjar og gera þannig góðan bæ betri.
Þetta var fólk en ekki flokkur og þannig varð L-listi Vina Mosfellsbæjar til.

Þrátt fyrir mjög skamman fyrirvara fékk framboðið góðar viðtökur eða tæp 11% atkvæða og einn bæjarfulltrúa af níu. Vinir Mosfellsbæjar hafa starfað í bæjarstjórn og í nefndum bæjarins af ábyrgð og yfirvegun, tekið þátt í mörgum góðum ákvörðunum fyrir bæjarfélagið og bæjarbúa alla, staðið vörð um góða stjórnsýsluhætti og starfað af heiðarleika og gegnsæi.

Vinir Mosfellsbæjar eru sannfærðir um að óháður bæjarlisti þar sem aðeins hagsmunir íbúa bæjarins ráði för, eigi fullt erindi í Mosfesllsbæ og hafa því ákveðið að bjóða fram við komandi bæjarstjórnarkosningar þann 14. maí nk.
Innan skamms munu Vinir Mosfellsbæjar kynna undirbúning og tilhögun framboðsins nánar. Vinir Mosfellsbæjar telja það mjög mikilvægt að vanda til alls undirbúnings og að allir þeir sem þátt taka á framboðslistanum séu meðvitaðir um að störf sem þeim eru falin sem kosnir eru til starfa fyrir bæjarfélagið, eru samfélagsstörf í þágu allra bæjarbúa.

Stefán Ómar Jónsson
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Lærum að lesa, reikna, leika og lifa

Sara Hafbergsdóttir

Við getum gert svo ótrúlega margt. Sem barn vildi ég gera svo ótrúlega margt og lifa lífinu, leika mér og sjá heiminn, helst allan í einu.
Það voru ekki allir á því að þetta væri leiðin en ég var alveg með það á tæru hvað ég vildi gera. Það var ekki hægt að vera með eitthvað múður við mig. Það sem ég sá að aðrir vildu var ekki endilega það sem ég vildi og alls ekki vildi ég þrýsta á aðra að gera það sem ég vildi gera. Ég tel alveg fullvíst að börn hafi ekkert breyst hvað þetta varðar.

Hvað hefur þá breyst? Krafan er hugsanlega meiri bæði á börn í skólum og aðstandendur þeirra, foreldra. Hvað ef mamma og pabbi hafa ekki húsnæði? Hvað með vörumerkjasamkeppnina? Hvað með eineltið og þau börn sem hafa ekki sama aðbúnað, öryggi og umhyggju? Hvað er það sem veldur því að tölur Embættis landlæknis sýna að sjálfsvígum ungs fólks á aldrinum 18-29 ára rýkur upp á milli áranna 2019 og 2020? Hvað veldur því að um 17,9 karlar af hverjum 100.000 íbúa á Íslandi völdu sjálfsvíg að meðaltali árlega frá 2011 til 2020 en 5,1 kona? Hvað getum við gert til að búa fólk undir lífið svo það velji ekki að yfirgefa það?

Skólar eru skjól. Því þurfum við að tryggja í framtíðinni að starfsfólk þessara stofnana geti tekist á við vandann, sé með aukna þekkingu á þessu sviði og að umbúnaður skólanna verði bættur til að tryggja að þeir sýni enn betur að þar séu allir velkomnir eins og við vitum að er. Hér í Mosfellsbæ þarf að skoða það alvarlega að búa til fleiri úrræði og bæta við starfsfólki með sérþekkingu. Við búum nú þegar að því að eiga í Mosfellsbæ frábæra kennara og aðra starfsmenn sem gera sitt allra, allra besta. En hvernig getum við bætt í með skynsömum hætti?

Það er spurning hvort samtakamáttur bæjarbúa geti leitt til þess að hér verði sett á laggirnar greiningarmiðstöð fyrir ungmenni og fleiri leiðir verði boðnar börnum í skólakerfinu en aðeins þessi hefðbundna. Í bænum okkar eru fjölmörg fyrirtæki sem starfa á mörgum sviðum. Þar gætu gefist tækifæri til verklegrar kennslu og nýlega hafa framhaldsskólar fengið heimildir til að sjá um kennslu iðngreina og nú jafnframt geta þeir stuðlað að því að koma t.a.m. nemendum í starfsgreinum á samning. Þetta eigum við að kynna í skólum enn meira en áður. Við eigum að dekra meira við börnin okkar og hjálpa forráðamönnum þeirra að gera það líka, auka samveru foreldra og barna í skólunum og sýna virkilega fram á að börn, hvernig sem þau eru af Guði gerð séu velkomin nú sem fyrr. Skólinn er og á að vera börnum skjól. Kennum börnum því að lesa, reikna, leika og lifa.

Sara Hafbergsdóttir, varafulltrúi Miðflokksins
í fræðslunefnd Mosfellsbæjar

Mér finnst eins og ég muni…

Jana Katrín Knútsdóttir

Mér finnst eins og ég muni eftir því þegar Mosfellssveit varð að Mosfellsbæ. Sem er í raun ómögulegt því ég var ekki nema árs gömul og hef tæplega orðið vör við eða skilið breytinguna.
Líklega man ég þó eftir umræðunni þegar ég eltist því ég minnist þess að hafa sýnt nokkurn mótþróa og heitið því að kalla bæinn Mosfellssveit um ókomna tíð. Lengst af kallaði ég hann þó Músabæ og gerði ég mitt allra besta til að kalla hátt og snjallt „velkomin í Músabæ“ um leið og við fjölskyldan keyrðum inn fyrir bæjarmörkin hvort heldur sem var eftir ferð til Reykjavíkur eða Norðurlandið.
Að baki „Músabæjar“ stóð sú allra hlýjasta merking sem ég gat hugsað mér. Eitthvað sem var fallegt og gott enda einmitt sú tilfinning sem ég bar til heimabæjarins og geri svo sannarlega enn. Hér ólst ég upp og hér er ég svo lánsöm að ala börnin mín upp. Mosfellsbær hefur nefnilega svo marga góða kosti og sinn einstaka sjarma sem sveit í borg með náttúruna, fjöllin og fuglalífið allt um kring. Það skiptir mig miklu máli að hér sé og verði áfram gott að búa og sé ég ótalmörg tækifæri til þess að svo megi vera. Huga þarf að þeim þáttum sem snerta velferð fjölskyldna og íbúa bæjarins beint, t.a.m. aðgengi að þjónustu og afþreyingu, aðgengi að öflugu og vönduðu íþrótta- og tómstundastarfi og viðeigandi stuðningi fyrir þá nemendur sem þurfa á sértækum úrræðum að halda á öllum skólastigum.
Jafnframt er mikilvægt að horfast í augu við stöðu drengja í menntakerfinu sem farið hefur versnandi síðustu ár og sporna við þeirri þróun með stuðningi við bæði skóla og kennara. Við þurfum að huga að þjónustu í heimahúsum fyrir aldraða og fatlaða svo að fólki sé gert kleift að búa á eigin heimili og njóta þannig mannréttinda og aukinna lífsgæða.
Margt hefur verið gert í gegnum tíðina og mikilvægt að styðja enn frekar við innviði og grunnstoðir í samfélagi sem er í örum vexi. Þannig verður Mosfellsbær, bærinn okkar, að „stórasta“ bæ í heimi.

Jana Katrín Knútsdóttir,
frambjóðandi í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ.

Bætum íþróttaaðstöðu í Mosfellsbæ

Valdimar Birgisson

Það birtist frétt fyrir nokkru af krökkum í Reykjabyggð í Mosfellsbæ að spila fótbolta með höfuðljós á óupplýstum fótboltavelli.
Þau höfðu sent bæjarráði handskrifað bréf þar sem þau óskuðu eftir lýsingu á völlinn og helst gervigras líka. Þessi frétt barst víða og var meira að segja sýnd í sjónvarpinu í Danmörku. Þessu erindi þeirra var vel tekið í bæjarráði og vísað til umsagnar í stofnunum bæjarins. Það er aðdáunarvert þegar ungir krakkar taka sig til og fara með mál til bæjarráðs og biðja um úrbætur eins og þau gera.

En við ættum öll að biðja um úrbætur því að aðstaða til íþróttaiðkunar er alls ekki nógu góð í Mosfellsbæ og við eigum að gera betur. Það er nokkuð ljóst.

Það er á fjárhagsáætlun fyrir næsta ár að hefja byggingu á félagsaðstöðu við Varmá. Löngu tímabær bygging því það hefur skort félagsaðstöðu og búningsklefa í langan tíma. Það vantar líka ýmislegt annað. Það eru tvær sundlaugar í Mosfellsbæ og hvorug er lögleg keppnislaug. Aðstaða fyrir frjálsar íþróttir hefur drabbast niður vegna þess að viðhaldi hefur ekki verið sinnt. Fótboltinn hefur ekki almennilegan keppnisvöll og vantar svæði til þess að æfa.
Helsta afrek meirihlutans á síðasta kjörtímabili er viðhald á íþróttasal á Varmá sem sami meirihluti hefur látið sitja á hakanum. Það sem var gert á kjörtímabilinu fyrir utan viðhald var bygging á knattspyrnuhúsi sem er mun minna en önnur sveitarfélög hafa verið að byggja og uppsetning á bráðabirgða áhorfendastæði við fótboltavöllinn. Áhorfendasvæðið er sunnan meginn við völlinn þar sem áhorfendur eru með vindinn í fangið og sólina í bakið.
Þetta eru þessi stórkostlegu afrek sem meirihlutinn getur státað sig af. Jú og reddað fjárhag golfklúbbsins. Löngu fyrirséður vandi sem golfklúbburinn var kominn í vegna byggingar golfskálans.

Við þurfum að gera betur. Það þarf að skipuleggja Varmársvæðið til framtíðar. Fjölga völlum á svæðinu og byggja upp aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að byggja löngu tímabæra félagsaðstöðu og hefst vinna við það á þessu ári. Það verður verkefni næstu bæjarstjórnar sem og að byggja íþróttahús við Helgafellsskóla.

Við þurfum líka að gera betur við að byggja göngu og hjólastíga í nágrenni Mosfellsbæjar. Það er leyndur fjársjóður sem við eigum í náttúrunni í kringum Mosfellsbæ. Þannig opnum við fellin fyrir útivist. Við þurfum að tryggja að aðstaða til hreyfingar og íþrótta fyrir börn, fullorðna, eldri borgara og allra annarra íbúa sé til fyrirmyndar og standa þannig undir nafni sem heilsueflandi samfélag.

Valdimar Birgisson
bæjarfulltrúi Viðreisnar í Mosfellsbæ

Jesús minn hvað gott er að búa í Mosfellsbæ

Sveinn Óskar Sigurðsson

Í síðustu grein minni fjallaði ég um loforð sem sett var í málefnasamning Sjálfstæðisflokks (XD) og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs (VG) eftir sveitastjórnarkosningarnar 2018. Þar var því lofað að leikskólagjöld yrðu lækkuð, án tillits til verðlagshækkana.
Sé litið á þróun leikskólagjalda fyrir börn yngri en 12 til 13 mánaða, fyrir 4 klukkustunda dvöl, var nýlega afgreidd gjaldskrá þar sem gjaldið fyrir þennan tíma kr. 9.787 en sú gjaldskrá tekur gildi frá og með 1.8.2022. Þetta var tillaga meirihlutans í Mosfellsbæ, XD og VG. Þetta er lækkun um 14,27% en ekki 25% lækkun í samræmi við gefið loforð. Rétt tala, sé staðið við loforðið væri kr. 8.562 fyrir sama tíma. Hér er því verið að „snupra“ barnafólk í Mosfellsbæ um kr. 1.224 krónur fyrir þessa dvöl á mánuði, a.m.k. þá sem treystu þessum flokkum fyrir atkvæði sínu. Fyrir 9 klst. dvöl er verið að „snupra“ með sama hætti sömu kjósendur um 3 þúsund á mánuði. Það munar um minna enda nemur þetta tugum til hundraða þúsunda á fjölskyldur í Mosfellsbæ á því kjörtímabili sem er að líða og inn á það næsta, sbr. nýsamþykkta gjaldskrá og tillögu XD og VG. Þessi gjaldskrá er þeirra pólitíska útspil og á henni bera þeir ábyrgð. Yrði lögð fram tillaga um að leiðrétta þetta yrði ég fús til að styðja hana komi hún fram nú fyrir kjördag en það þarf þá meirihluta til.
Er hægt að styðja framangreind framboð sem standa ekki við loforð? Þetta voru þeirra loforð. Líkur eru á að prófkjör og val á lista þessara framboða sýni fram á nýja sýn og endurnýjun. Því ber að fagna.
Annað mun eldra loforð var ekki aðeins gefið okkur kjósendum heldur einnig almættinu. Í grein fráfarandi bæjarstjóra Mosfellsbæjar og oddvita Sjálfstæðisflokksins, sem birt var í Morgunblaðinu 27. maí 2006, segir: „Á stefnuskrá okkar Sjálfstæðismanna fyrir komandi kosningar er að byggð verði kirkja í miðbæ Mosfellsbæjar.“
Á nýliðnum bæjarráðsfundi nr. 1520 þann 27. janúar sl., kom fram tillaga frá þessum sama meirihluta að byggja ekki kirkju í miðbæ Mosfellsbæjar. Þetta 16 ára afmælisár loforðsins var nýtt í að brjóta 8. boðorðið: „Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.“ Eru þá þegar einnig nokkur önnur af boðorðunum fokin út í veður og vind hjá þessum meirihluta.
Um þessar mundir má sjá myndbönd og auglýsingar um hve gott er að búa í Mosfellsbæ og það kyrja þeir sem hafa gengið í gegnum hverjar kosningar af fætur öðrum segjandi ósatt eða boða hálfsannleik. Það er fagnaðarefni ef miklar breytingar verði á listum framangreindra flokka enda ekki þörf á. Því er skorað á kjósendur Sjálfstæðisflokksins í komandi prófkjöri að taka hressilega til enda ekki vanþörf á kæru gömlu félagar. Við í Miðflokknum viljum starfa að heilindum með hugdjörfu fólki.
Guð minn góður hve gott er að búa í Mosfellsbæ.

Sveinn Óskar Sigurðsson
bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ

Tölum saman um menntamálin

Valgarð Már Jakobsson

Það vill oft verða þegar tekist er á í stjórnmálum að þeir sem takast á eru í raun ekki að tala hver við annan.
Maður sér þetta oft á Alþingi Íslendinga að pólitíkusar eru ekki að reyna að sannfæra hver annan um eigin málstað heldur eru þeir sem tala í raun bara að tala við kjósendur. Ekki er verið að miðla málum til að finna bestu lausnina heldur er áherslan lögð á að klekkja á andstæðingnum. Menntamál eru fyrirferðarmikil í pólitískri umræðu í öllum sveitarfélögum.
Allir hafa skoðun á skólakerfinu og eru umræður oft fyrirferðarmiklar á samfélagsmiðlum og Mosfellsbær er engin undantekning í því. Fræðslunefnd Mosfellsbæjar hefur starfað með ágætum þetta kjörtímabil og málefnaleg umræða verið um öll þau mál sem koma fyrir nefndina. Auðvitað hafa flokkarnir stundum mismunandi áherslur en það er augljóst á því góða fólki sem nú skipar nefndina að allir bera hag skólanna fyrir brjósti. Því hefur andrúmsloft samvinnu og virðingar svifið yfir vötnum á fundum nefndarinnar.
Eitt af stóru verkunum nú undir lok kjörtímabilsins hefur verið að smíða nýja menntastefnu Mosfellsbæjar. Skipuð var fagleg nefnd með fulltrúum allra skólastiga til að vinna þessa vinnu og haldnir hafa verið fjölmargir rýnifundir með hagaðilum til að fá sem flestar raddir til að hljóma. Fundað hefur verið með starfsfólki skóla, með skólabörnum og sérstakur opinn fundur var haldinn með íbúum bæjarins, þar sem allir gátu fengið að tjá sig og koma með hugmyndir. Upp úr þessum fundum hefur nú verið smíðuð menntastefna sem er á lokastigum og verður frábært leiðarljós fyrir skólastarf í bænum.
Á þessu kjörtímabili hefur mikið áunnist í skólamálum. Frábært þróunarstarf í leikskólamálum og fjölgun plássa. Við höfum verið að taka í notkun glæsilegasta skólahús landsins í áföngum og endurbætur á eldra skólahúsnæði hefur verið með þeim hætti að önnur sveitarfélög eru að taka það til fyrirmyndar. Þrátt fyrir það heyrast oft raddir sem reyna að rífa niður þetta ágæta starf og tilgangurinn virðist ekki vera að bæta skólastarfið heldur einungis að koma höggi á stjórnmálamenn. Það er mikilvægt að friður sé um skólastarf á öllum stigum og að ekki sé verið að nota skólamál til að koma pólitísku höggi á andstæðinga með þeim hætti að það bitni á skólunum.
Höldum áfram góðu og uppbyggilegu samtali um skólamál þar sem allar raddir fá að hljóma en hættum skítkasti og skotgrafahernaði.

Valgarð Már Jakobsson, varaformaður
fræðslunefndar Mosfellsbæjar fyrir hönd VG.

Stjórnmál eru hópíþrótt

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Ég hóf afskipti af bæjarmálum hér í Mosfellsbæ í upphafi árs 2010 en þá gaf ég kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningar.
Ég hafði áður hrifist af stjórnun bæjarins og þeim breytingum sem urðu á ímynd og rekstri hans eftir að Sjálfstæðisflokkurinn varð leiðandi afl í bæjarstjórn. Ég tók eftir stefnumótunarvinnunni sem unnin var árin 2008-2009 og framtíðarsýninni sem kom út úr þeirri vinnu. Ég tók eftir samheldninni í hópnum og þeim jákvæðu straumum sem frá honum stafaði. Mig langaði að vera hluti af þessum hóp því þarna sá ég mig geta blómstrað og vaxið með því að taka þátt í því að gera samfélagið sem ég brenn svo fyrir, enn betra. Þess vegna ákvað ég að taka þátt í prófkjörinu.

Ég náði 5. sætinu og fannst það góð byrjun. Strax eftir prófkjörið var hafist handa við að undirbúa stefnuskrá okkar sjálfstæðisfólks fyrir kosningarnar þá um vorið. Skipaðir voru málefnahópar og opnir málefnafundir auglýstir fyrir alla bæjarbúa þar sem safnað var hugmyndum og ábendingum hvernig við gætum gert góðan bæ enn betri. Í þeirri vinnu fengu allar raddir að njóta sín og öll sjónarmið voru gild undir stjórn oddvitans og leiðtogans.
Með afrakstur þessarar vinnu fórum við svo af stað í kosningabaráttuna, full af eldmóði, glöð í fasi og með bjartsýni í hjarta. Þetta gat ekki klikkað og við unnum kosningarnar með glæsibrag. Sjálfstæðisflokkurinn var aftur kominn með hreinan meirihluta í bæjarstjórn. Ég man hvað ég var glöð yfir þátttöku minni og fannst ég hafa verið þátttakandi í ævintýri og lagt mitt af mörkum til að gera samfélagið betra.

Leiðtoginn skiptir máli
Ég hef lært mikið á þessum árum mínum í bæjarmálunum ásamt því að hafa menntað mig í stjórnunar og leiðtogafræðum. Enginn fæðist fullnuma leiðtogi, leiðtogafærni ávinnst með reynslu, menntun og þjálfun. Franklin Covey segir í sínum fræðum frá fjórum hlutverkum leiðtoga sem eru:
1. Byggja upp traust
2. Skapa sýn
3. Framkvæma stefnu
4. Leysa hæfileika úr læðingi

Ég vil sjá leiðtoga sem hefur skarpa sýn og hlýtt hjarta, manneskju sem tekur ábyrgar ákvarðanir á grundvelli þekkingar. Sagt hefur verið að algengustu mistök leiðtoga séu fólgin í því að ofmetnast, fyllast drambi, fyllast oftrú á sjálfan sig og eigin visku og getu. Leiðtoginn sem ber sér á brjóst og hrósar sjálfum sér, leiðtoginn sem stendur í stafni og baðar út öngum verður fljótlega bara leiðtogi yfir sjálfum sér, aðrir farnir burt. Mosfellsbær er þekkingarfyrirtæki og þar þarf leiðtoginn að vera leiðbeinandi og hvetjandi.
Ég veit að menntun mín og reynsla munuhöfða til breiðari hóps Mosfellinga, nýrra Mosfellinga og eldri Mosfellinga, til foreldra sem þurfa öruggt umhverfi fyrir börnin sín í skólum og frístund bæjarins.
Ég vil verða næsti leiðtogi sjálfstæðisfólks í Mosfellsbæ og leiða flokkinn til sigurs í kosningunum í vor. Þess vegna býð ég mig fram í 1. sætið í prófkjörinu 5. febrúar. Munum að stjórnmál eru hópíþrótt, gerum þetta saman og höldum áfram að gera Mosfellsbæ að besta bæ fyrir alla.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir bæjarfulltrúi
Frambjóðandi í 1. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins

Vertu með

Elín Anna Gísladóttir

Fyrir fjórum árum síðan tók ég þátt í því að koma á laggirnar stjórnmálaflokk hér í Mosfellsbæ, Viðreisn í Mosfellsbæ.
Þátttaka mín í þeirri vegferð kom ekki til af því ég skilgreindi sjálfa mig sem manneskju sem hefði brennandi áhuga á pólitík, heldur kom hún til af einlægri ást minni á bænum mínum – Mosfellsbæ.
Ég var ekkert endilega þeirrar skoðunar að hér væri allt ómögulegt, meira þeirrar skoðunar að það væri hægt að gera betur. Og jafnvel ennþá betur en hafði verið gert.
Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart í þessari vegferð sem þetta hefur verið frá síðustu sveitarstjórnarkosningum er hversu ótrúlega gaman þetta hefur verið. Ég hef í gegnum stjórnmálin kynnst ótrúlega fjölbreyttum hópi fólks, en einnig hef ég eignast dýrmæta vini í félögum mínum í Viðreisn.
Það er nefnilega þannig að þátttaka sem þessi getur gefið manni svo margt. Vináttu, reynslu, tækifæri til þess að hafa áhrif, innsýn inn í hið dýrmæta samfélag sem við eigum hér í Mosfellsbæ og margt fleira. Ég er þakklát fyrir þetta og langar til þess að fleiri sem kannski eru núna á sama stað og ég var fyrir fjórum árum taki skrefið og taki þátt.
Ef þú hefur áhuga á því að vera með okkur í málefnavinnunni, ef þú vilt bjóða þig fram á lista hjá okkur, ef þú vilt deila af reynslu þinni, ef þú vilt vita eitthvað meira um félagið, ef þú vilt taka þátt í þessari vegferð með okkur þá hvet ég þig til þess að setja þig í samband við okkur á mosfellsbaer@vidreisn.is, í gegnum facebook síðuna okkar eða í gegnum einhvern af okkar fulltrúum.
Saman getum við nefnilega ennþá gert betur!

Elín Anna Gísladóttir
Formaður stjórnar Viðreisnar í Mosfellsbæ

Blanda af safngötu og húsagötu fyrir ungar fjölskyldur

Kári Sigurðsson

Þannig er mál með vexti að ég er nýfluttur í Langatangann með fjölskylduna. Við færðum okkur ekki langt um set þar sem áður bjuggum við í Gerplustræti í Helgafellshverfinu.
Ég velti því fyrir mér hversu margar ungar fjölskyldur í Mosfellsbæ eru að kljást við sömu áhyggjur og við. Langitanginn er flokkaður sem blanda af safngötu og húsagötu. Þetta þýðir það að þarna fara í gegn bílar úr hverfum allt í kring en einnig snúa innkeyrslur beint út á götu.
Umferðarþunginn og hraðinn á þeim bílum sem keyra hér í gegn er gífurlegur. Fyrir framan innkeyrsluna hjá okkur er hraðahindrun. Þessi hraðahindrun þjónar engum tilgangi, hvorki til að hægja á hraða né sem gangbraut. Frekar virkar þessi hraðahindrun sem lítill rampur fyrir bíla þar sem þeir geta prófað fjöðrunina á bílunum.
Vefarastrætið er að mínu mati einnig gata sem býður upp á hættu frá umferðarþunga og hraða þar í gegn. Húsin eru byggð mjög nálægt veginum og það má ekki mikið út af bregða til að börn séu komin út á götu.
Einnig má nefna Reykjaveginn í þessu samhengi og eflaust fleiri götur.
Hinsvegar má ekki gagnrýna án þess að benda á það sem vel er gert, og finnst mér nýtt skipulag á Skeiðholti (framhjá Holtunum) til algjörrar fyrirmyndar og mætti yfirfæra slíkt skipulag á fleiri hverfi.

Ég held að við sem Mosfellingar verðum að fara að setja öryggi almennings og barnanna okkar í fyrsta sætið þegar það kemur að skipulagsmálum í Mosfellsbæ.

Kári Sigurðsson
– Gefur kost á sér í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ.

Lýðræðisveislan heldur áfram

Bryndís Haraldsdóttir

Sjálfstæðisflokkurinn heldur prófkjör hér í Mosfellsbæ um komandi helgi.
Sjálfstæðisflokkurinn var eina stjórnmálaaflið sem hélt fjölmenn prófkjör í öllum kjördæmum fyrir síðustu alþingiskosningar. Í þeim tóku yfir 20.000 félagsmenn þátt í að stilla upp á lista sem boðnir voru fram í kosningum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn náði áfram þeim árangri að vera stærsti flokkurinn á þingi og burðarafl í ríkisstjórn sem hélt velli. Ekkert annað stjórnmálaafl stillir framboðslistum sínum upp með jafn lýðræðislegum hætti og með aðkomu svo stórs hluta kjósenda landsins.
Nú heldur veislan áfram og þér gefst kostur á að velja milli 17 frambærilegra einstaklinga sem allir vilja vinna fyrir þig að því að gera sveitarfélagið okkar framúrskarandi. Að prófkjörinu kemur fjöldi fólks. Auk þeirra 17 sem bjóða sig fram, fjölskyldna þeirra og stuðningsmanna, eru fjölmargir sjálfboðaliðar sem koma að framkvæmd prófkjörsins. Ég þakka ykkur öllum fyrir ykkar framlag.

Kosið um nýjan oddvita
Sitjandi oddviti Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjóri Mosfellsbæjar til margra ára, Haraldur Sverrisson, hefur ákveðið að stíga til hliðar. Frá árinu 2007 hefur Haraldur leitt sveitarfélagið og meirihlutasamstarf Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna í gegnum margvíslegar áskoranir. Mosfellsbær er vel rekið sveitarfélag þar sem þjónusta sveitarfélagsins mælist með því besta sem gerist á landinu.
Ég vil nota tækifærið og þakka Haraldi fyrir vel unnin störf en honum, ásamt bæjarstjórn og ómetanlegum starfsmönnum bæjarins, hefur tekist að gera þjónustufyrirtækið Mosfellsbæ að því sem það er. Sveitarfélagi sem ávallt kemur vel út í mælingum, sveitarfélagi og samfélagi sem í búar geta verið stoltir af því að tilheyra.
Nú gefst okkur tækifæri til að kjósa nýjan oddvita og vonandi með því nýjan bæjarstjóra beri Sjálfstæðisflokknum áfram gæfa og traust til að stýra sveitarfélaginu okkar. Tækifærið er þitt, íbúi góður, til að taka þátt í að stilla upp öflugum lista sjálfstæðisfólks, fólks sem vill vinna fyrir þig að því að gera bæinn okkar enn betri.
Mættu og taktu þátt í lýðræðisveislunni!

Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Mosfellinga og fyrrverandi bæjarfulltrúi.

Er Mosfellsbær bær fyrir ungt fólk?

Ragnar Bjarni Zoëga

Á hátíðarstundum er gjarnan rætt um mikilvægi þess að ungt fólk komi að uppbyggingu samfélagsins. Með þessi orð í eyrum hefur ungt fólk víða um land tekið þeirri áskorun og boðið sig fram til verka í bæjarstjórnum. Oftar en ekki hefur því ekki gengið nægilega vel til að ná kjöri í sæti bæjarfulltrúa.
Í Mosfellsbæ eru nú rúmlega 40% bæjarbúa undir þrítugu. Þá mætti ætla að a.m.k einn bæjarfulltrúi væri á þessum aldri eða hvað? Nei, svo er nú raunin ekki. Allt frá aldamótum hefur enginn kjörinn bæjarfulltrúi í bæjarstjórn verið undir þrítugu.

Kjósum ungt fólk til ábyrgðar
Frá jafnréttissjónarmiði er þetta ekki ásættanlegt, 40% bæjarbúa eru án talsmanns í stjórn bæjarins. Fyrir mér ætti bæjarstjórn að endurspegla landslagið í sínu bæjarfélagi og þá er ég ekki endilega að segja að 40% af þeim sem sitja í bæjarstjórn ætti að vera undir þrítugu. En þeir sem eru undir þrítugu ættu nú allavega að hafa einn eða mögulega tvo fulltrúa.
Mosfellsbær er bær unga fólksins, það sést á tölum ef skoðað er hlutfall fólks undir þrítugu af heildarfjölda bæjarbúa. Fólk undir þrítugt er um 40% íbúa bæjarins, hvað segir það okkur? Þetta segir mér að hér vill unga fólkið eiga heima, hér vill ungt fólk stofna fjölskyldur. Það er vegna þess að það sér hvað Mosfellsbær hefur upp á að bjóða.
Í Mosó eru góðir skólar, glæsilegt tómstundalíf, flott íþróttaaðstaða og ekki skemmir nálægð bæjarins við náttúruna sem við Mosfellingar elskum svo mikið. Ætíð koma nýjar hugmyndir með nýju fólki, ungt fólk býður sig fram til áhrifa ekki til þess að vera skraut á tyllidögum. Við höfum skoðanir, hugmyndir og viljum svo gjarnan vera hluti af því að byggja upp og skapa betra samfélag fyrir okkur og fjölskyldur okkar til framtíðar.
Þess vegna óska ég eftir stuðningi í 4. sætið í komandi prófkjöri Sjálfstæðismanna þann 5. febrúar næstkomandi. Ég hef óþrjótandi áhuga á félagsmálum og samfélaginu okkar hér í Mosfellsbæ. Ég sit í stjórn Viljans, félags ungra Sjálstæðismanna í Mosó. Ég var formaður nemendafélags FMOS og stunda núna nám til atvinnuflugmanns.
Ég væri þakklátur fyrir stuðning í 4. sætið í prófkjörinu. Kjósum ungt fólk til ábyrgðar!

Ragnar Bjarni Zoëga

Mosfellingar – ykkar er valið

Ásgeir Sveinsson

Sjálfstæðisflokkurinn í Mosfellsbæ heldur prófkjör 4.-5. febrúar þar sem kosið verður á lista fyrir bæjarstjórnarkosningar sem fara fram þann 14. maí.
Alls eru 17 glæsilegir frambjóðendur á öllum aldri í boði, 9 konur og 8 karlar. Þetta fólk er hlaðið hæfileikum, með fjölbreyttan bakgrunn, reynslu og þekkingu í farteskinu.
Þessi hópur á það sameiginlegt að hafa brennandi metnað fyrir velferð Mosfellsbæjar og vill leggja sitt af mörkum að gera ánægju íbúa enn meiri og halda áfram þeim fjölmörgu jákvæðu og spennandi verkefnum sem eru í gangi í sveitarfélaginu.

Meirihlutasamstarf D- og V-lista hefur gengið ákaflega vel á þessu kjörtímabili þrátt fyrir ýmsar krefjandi áskoranir. Við höfum náð að uppfylla allflest okkar markmið sem komu fram í málefnasamningi flokkanna og er það gríðarlega ánægjulegt miðað við þær krefjandi aðstæður sem komu upp m.a. tengdar faraldrinum.
Ég er stoltur að vera hluti af þessum öfluga hópi sem hefur myndað meirihlutann á þessu kjörtímabili og hlakka til að halda áfram að sinna mikilvægum verkefnum það sem eftir er þessa kjörtímabils og á næsta kjörtímabili.

Sterkur leiðtogi skiptir máli
Að prófkjöri loknu fer fram vinna við uppstillingu listans fyrir kosningarnar í maí og að því loknu hefst kosningabaráttan. Við munum ganga til kosninga stolt af verkum okkar og bjartsýn á framtíðina og hlökkum til að kynna fyrir Mosfellingum lista flokksins og stefnu, sem mun tryggja að bærinn okkar haldi áfram að blómstra og dafna til lengri og skemmri framtíðar.
Það þarf sterkan reynslumikinn leiðtoga til að leiða það verkefni áfram. Hann þarf að hafa skýra sýn, höfða til sem flestra, vera heiðarlegur og traustur, hafa góða ímynd og orðspor. Víðtæk reynsla mín og þekking sem stjórnandi og leiðtogi í viðskiptalífinu, auk mikillar reynslu af mannauðs- og félagsmálum hafa reynst mér vel í minni vinnu í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og munu gera áfram.
Ég er tilbúinn í það hlutverk og að axla þá ábyrgð að leiða listann til sigurs í næstu kosningum og þess vegna býð ég mig fram í 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri 4.-5. febrúar næstkomandi og treysti á þinn stuðning í 1. sætið.

Ásgeir Sveinsson
Frambjóðandi í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ.

Það vantar alls konar fólk í bæjarstjórn Mosfellsbæjar

Helga Möller

Kæru Mosfellingar!
Ég vildi bara láta ykkur vita hvað mér líður vel hér í Mosfellsbæ. Mér finnst bæjarmálin ganga mjög vel og dáist að margs konar uppbyggingu í mörgum málum.
Ég dáist að umhverfinu í kringum Álafosskvosina og Stekkjarflötina með ærslabelgnum, þar sem krakkarnir geta leikið sér … ratleikjunum í kringum Varmá, merkingunum sem segja mér allt um Álafoss og fleira … uppáhaldsfossinum mínum og svo mætti lengi telja.
Ég fæ styrk frá öllum trjánum í kringum Varmá og eitt af því sem ég geri er að faðma tré til að mér líði betur. Þið ættuð bara að prófa það.

Ég dáist að Álafosskvosinni og vildi óska að næsta bæjarstjórn myndi gera hana að gamla bænum í Mosfellsbæ.
Þarna er mikil saga Mosfellsbæjar og mér finnst að þarna ætti allt að iða af lífi. Tónlist á nýju sviði við Ullarbrekkuna frábæru, þar sem ætti að hljóma tónlist, leikþættir, tónleikar með kórunum okkar í Mosfellsbæ, leikrit frá Leikfélagi Mosfellsbæjar. Börnin í skólunum og tónlistarskólanum gætu komið þarna fram og útskrifast á sviðinu sem fer alveg að rísa og svona mætti lengi telja. Í Mosfellsbæ býr stór hópur frábærs listafólks sem við þurfum að hlúa að og við eigum að búa til undursamlega stemningu með þeim á sviðinu … bæta við miklu fleiri viðburðum en bara á bæjarhátíðinni okkar „Í túninu heima”.
Eins sakna ég kaffihúsins sem var í kvosinni og vildi óska þess að Álafossbúðin yrði aftur eins og hún var en þangað gerði ég mér ferð á meðan ég bjó í Reykjavík til að að kaupa mér garn.

Kæru þið öll!
Það vantar alls konar fólk í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. T.d. konu eins og mig … 64 ára flugfreyju og söngkonu, íþróttakonu, móður, ömmu, vinkonu og bara svo margt fleira. Ég er ekki gallalaus og ég kann ekki allt, en með lífsreynslu og samvinnu með góðu fólki, alls konar fólki, verða góðir hlutir til, það er mín trú.
Ég býð mig því fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins því ég veit að ég get lagt eitthvað til og vonast eftir stuðningi ykkar í 3.-4. sætið.

Ykkar Helga Möller

Gerum góðan bæ enn betri

Helga Jóhannesdóttir

Framtíðin er björt í Mosfellsbæ, tækifærin mörg og það er okkar sem verðum í framboði í sveitarstjórnarkosningunum að marka leiðina með bæjarbúum.
Okkur ber sem fyrr að hlusta á og taka mið af ábendingum og athugasemdum bæjarbúa, endurskoða gildandi stefnur og meta hvernig gengið hefur hverju sinni og hverju þarf að breyta og bæta.

Verkefni sveitarfélagsins eru mörg, málaflokkarnir margir og fjölbreyttir og ekki hægt að taka eitt verkefni eða einn málaflokk fram yfir annan. Góð fjármálastjórn og skýr markmið eru forsenda góðs reksturs og þjónustu við bæjarbúa.

Gerum góðan bæ enn betri, gerum góða þjónustu Mosfellsbæjar til bæjarbúa enn betri og aukum lífsgæði og lýðheilsu Mosfellinga. Ég er tilbúin í þetta verkefni og sækist eftir öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins 5. febrúar.

Helga Jóhannesdóttir