Bjarki Bjarnason

Heimsbyggð – heimabyggð

Bjarki Bjarnason

Bjarki Bjarnason formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar. 

Nú í sumarbyrjun er ástæða til að horfa um öxl til nýliðins vetrar og einnig fram á veginn til sumarsins sem bíður okkar handan hornsins.
Um þessar mundir standa vorverkin yfir, fólk sinnir görðum sínum og sveitarfélagið hefur sett upp gáma þar sem íbúum gefst kostur á að koma með garðaúrgang. En um leið og við hugum að nánasta umhverfi okkar hér og nú er rétt að hafa í huga að umhverfismál snerta allar árstíðir og heimsbyggð og heimabyggð í senn. Hér á eftir verður drepið á nokkur umhverfismál sem hafa verið á dagskrá á nýliðnum vetri.

Vistgerðarkort
Fyrir skemmstu kynntu fulltrúar frá Náttúrufræðistofnun Íslands svokallað vistgerðarkort í umhverfisnefnd bæjarins. Um er að ræða heildstætt yfirlit og lýsingu á náttúrufari alls landsins þar sem notast er við nýja aðferðafræði við flokkun og kortlagningu lífríkisins. Kortið sýnir útbreiðslu 105 vistgerða og er öllum opið á kortasjá NÍ. Landið og náttúran taka breytingum og er ætlunin að kortasjáin verði uppfærð eftir því sem ástæða þykir til.

Örn Jónasson varaformaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Örn Jónasson varaformaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar.

Stígar og slóðar
Undanfarin þrjú ár hefur sérstakur starfshópur unnið að kortlagningu vegslóða í landi Mosfellsbæjar og er lokamarkmiðið að skilgreina betur hvar má aka á vélknúnum ökutækjum og hvar ekki. Stíga- og slóðakerfi bæjarins er mjög víðtækt, einkum á Mosfellsheiði þar sem finna má margar fornar leiðir. Starfshópurinn hefur nú lokið starfi sínu og sent lokaskýrslu sína til bæjarráðs sem vísaði málinu til skipulagsnefndar til frekari úrvinnslu.

Okkar Mosó
Nýlega fór fram íbúakosningin „Okkar Mosó“ þar sem bæjarbúum gafst kostur á að leggja fram tillögur að verkefnum sem unnið yrði að á þessu ári. Þátttaka var einstaklega góð, margar athyglisverðar hugmyndir komu fram og var kosið á milli þeirra. Þau verkefni sem bæjarbúar veittu brautargengi tengjast öll umhverfinu á einn eða annan hátt og má þar nefna útivistar­paradís á Stekkjarflöt við Varmá, bekki fyrir eldri borgara við Klapparhlíð og fuglafræðslustíg meðfram Leiruvogi.

Opinn fundur umhverfisnefndar
Síðustu ár hefur það verið árlegur viðburður hjá umhverfisnefnd að halda opinn fund í samræmi við lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar. Fundurinn verður að þessu sinni haldinn fimmtudaginn 11. maí kl. 17 í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ og mun fjalla um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og sjálfbæra þróun. Frummælendur verða Andri Snær Magnason rithöfundur og Lúðvík Gústafsson verkefnisstjóri, síðan verða almennar umræður um þennan viðamikla málaflokk.
Við hvetjum bæjarbúa til að fjölmenna á fundinn og taka þátt í samræðum um mál sem snerta í senn heimsbyggð og heimabyggð.

Gleðilegt sumar, kæru Mosfellingar.

Bjarki Bjarnason, formaður umhverfisnefndar Mosfellsbæjar. Örn Jónasson, varaformaður.

Signý Björg Laxdal

Fyrsta hjálp – er þín fjölskylda tilbúin?

Signý Björg Laxdal

Signý Björg Laxdal

Oft eru það aðstandendur og almenningur sem eru fyrstu viðbragðsaðilar á slysstað og börn eru ekki síður líkleg til þess.
Í fyrra var skyndihjálparmaður ársins hjá Rauða krossinum Unnur Lísa Schram, sem bjargaði lífi eiginmanns síns þegar hann fór í hjartastopp. Árið þar á undan var það hin 7 ára gamla Karen­ Sæbjörg Guðmundsdóttir, sem bjargaði lífi móður sinnar. Slys eða veikindi gera ekki boð á undan sér.
Í dag er fræðsluefni um skyndihjálp ótrúlega aðgengilegt. Hægt er að heimsækja www.skyndihjalp.is og taka stutt próf um þína þekkingu. Það er mælt með því að fara á skyndihjálparnámskeið á tveggja ára fresti að jafnaði, svo ef það er lengra liðið frá því að þú sóttir síðast námskeið, þá er tími til að huga að endurnýjun.
Ég veit, ég veit – ótrúlega margendurtekin mantra um mikilvægt málefni sem allir ætla að gera, bara ekki einmitt núna. En það er gott að hafa þessa hluti á hreinu, mæta í nokkra klukkutíma, drekka lítilfjörlegt kaffi og bjarga kannski lífi einn daginn. Skyndihjálparnámskeið eru haldin reglulega á höfuðborgarsvæðinu en allar upplýsingar má nálgast á heimasíðu Rauða krossins á Íslandi: raudikrossinn.is.
Þar að auki gaf RKÍ út skyndihjálpar-app fyrir nokkrum árum þar sem hægt er að rifja upp helstu bjargráð og jafnvel grípa til í neyð, þótt auðvitað sé best að þurfa þess ekki. Auðvelt er að sækja appið (eða fá börnin til þess) og kynna sér efnið.
Krakkar eru merkilega snjallir og læra hraðar en amma og afi vilja kannski viðurkenna. Það er því ekki síður mikilvægt að leyfa börnunum að vera með og fara saman yfir helstu viðbrögð.
Að lokum vil ég minna á að námskeiðið Börn og umhverfi verður haldið hjá Rauða krossinum okkar í Mosfellsbæ 8. – 11. maí næstkomandi. Námskeiðið er ætlað ungmennum 12 ára og eldri (fædd 2005 og fyrr) og fer vel í umgengni barna og slysavarnir.
Þetta er tilvalið fyrir þau sem ætla að sjá um og passa börn í sumar og síðar. Frekari upplýsingar má finna hjá deildinni okkar á Facebook eða hjá starfsmanni okkar hulda@redcross.is

Allra bestu sumarkveðjur, Signý Björg Laxdal,
varaformaður Mosfellsbæjardeildar RKÍ.

Katrín Sigurðardóttir

Áfallasjóður Rauða krossins

Katrín Sigurðardóttir

Katrín Sigurðardóttir

Áfallasjóður Rauða krossins er samstarfsverkefni deilda á Stór-Reykjavíkursvæðinu, það er Mosfellsbæjar-, Kópavogs-, Reykjavíkur-, Hafnarfjarðar- og Garðabæjardeildar.
Áfallasjóðurinn var stofnaður í árslok 2015. Stofnun hans kom til þar sem ljóst var að margir sem lenda í tímabundnum vanda vegna ófyrirsjáanlegra áfalla eiga í engin hús að venda ef þeir þurfa stuðning til að yfirstíga vanda sem hlýst af áfallinu. Tilgangur sjóðsins er að aðstoða fólk sem verður fyrir skyndilegu fjárhagslegu áfalli, oft vegna sjúkdóma eða slysa, og fær enga eða mjög litla aðstoð annars staðar. Ætlunin er að brúa bil og með því hjálpa fólki að ná sér aftur á strik eftir ófyrirséð fjárhagslegt áfall. Markmiðið er að forða fóki frá að lenda í aðstæðum sem það nær ekki að vinna sig úr án stuðnings.
Þeir sem sótt geta um stuðning eru einstaklingar og fjölskyldur með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu.
Á síðasta ári var veittur stuðningur til 44 einstaklinga og fjölskyldna.
Viðbrögð þeirra sem fengu aðstoð hafa verið ákaflega hjartnæm eins og sjá má af dæmunum hér fyrir neðan og sýna þau okkur að stuðningur getur gert gæfumun í slíkum aðstæðum.
Hér eru tvö dæmi sem tekin eru úr þakkarbréfum frá þeim sem fengið hafa stuðning:
„Það munar rosalega að fá svona aðstoð… það léttir rosalega á manni andlega, það verður léttara yfir manni, og maður fær smá von í hjarta um að kannski muni þetta nást á endanum, þetta gefur manni von.“
„Ég get aldrei fullþakkað Rauða krossinum fyrir þá aðstoð sem mér var veitt í september 2016. Hún gerði það að verkum að ég gat flutt í húsnæði sem er öruggt og þar sem ég þarf ekki að flytja aftur nema ég þurfi og vilji, er loksins komin í öruggt skjól.“
Það sem af er þessu ári hefur umsóknum um stuðning fjölgað til muna og eru orðnar svipað margar og allt árið 2016. Því er ljóst að þörfin er mikil og fer vaxandi.
Til þess að Rauði krossinn geti haldið áfram að veita þennan mikilvæga stuðning þurfum við nú á aðstoð ykkar að halda. Það er von okkar að velviljaðir einstaklingar og fyrirtæki veiti fjárhagslegan stuðning svo að við getum haldið áfram því mikilvæga starfi sem stuðningur úr áfallasjóðnum er.
Hægt er að leggja inn á bankareikning 0315-22-000499. Kennitala 551082-0329 og merkja greiðsluna: Áfallasjóður

Katrín Sigurðardóttir, stjórnarmaður Rauða krossins í Mosfellsbæ og í stjórn áfallasjóðs

Ólöf Kristín Sívertsen

#mosoheilsa

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Nú er vorið að nálgast og segja þeir allra jákvæðustu að það hafi nú verið meira og minna vor í allan vetur! Menningarvorið er allavega gengið í garð og var okkur boðið upp á mannbætandi og heilsueflandi samverustundir á bókasafninu síðustu tvo þriðjudaga.
Krókusarnir eru komnir upp í görðum á víð og dreif og lóan er meira að segja komin – yndislegt. Til að toppa þetta þá er ýmislegt spennandi fram undan í heilsubænum Mosfellsbæ.

#mosoheilsa
Til að vekja unglingana okkar til ábyrgðar og vitundar um mikilvægi eigin heilsu þá munum við blása til samfélagsmiðlaleiks meðal nemenda í 8.-10. bekk sem hefst í dag, fimmtudaginn 6. apríl, og stendur til 30. apríl nk.
Við höfum fengið nemendafélögin í Lágafells- og Varmárskóla til liðs við okkur og er hugmyndin sú að nemendur taki myndir af hverju því sem þeir tengja við heilsu og merki myndirnar #mosoheilsa.
Allir geta leitað í hugmyndabanka sem verður inni á www.heilsuvin.is til að finna tillögur að myndefni – hvernig myndar maður t.d. kyrrð og gleði? Glæsileg verðlaun verða í boði fyrir bestu/skemmtilegustu myndirnar eins og sjá má í auglýsingu á öðrum stað í blaðinu.

Okkar Mosó
Við hvetjum ykkur eindregið til að taka þátt í kosningum um verkefni í Okkar Mosó og hafa þar með bein áhrif á umhverfið og samfélagið hér í bænum.
Kosning um tillögur stendur núna yfir á heimasíðu Mosfellsbæjar www.mos.is og eru þær hver annarri betri. Það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu heilsuþenkjandi íbúar Mosfellsbæjar eru og ég verð að játa að ég sjálf á í stökustu vandræðum með að kjósa á milli og langar að velja allar tillögurnar!

Lýðheilsuverðlaun Mosfellsbæjar
Við höfum, fyrst allra sveitarfélaga, ákveðið að efna til samkeppni um Lýðheilsuverðlaun Mosfellsbæjar og mun verðlaunaafhending fara fram á Heilsudeginum okkar núna í vor.
Verið er að setja saman dómnefnd og þau viðmið sem farið verður eftir og mun Mosfellingum gefast kostur á að tilnefna verkefni og/eða einstaklinga sem koma að lýðheilsu og heilsueflingu á einn eða annan hátt.
Nánari upplýsingar um fyrirkomulag og tilhögun verða birtar í næsta Mosfellingi en farið endilega að hugsa hverjir ætti skilið að hljóta Lýðheilsuverðlaun Mosfellsbæjar 2017.

Það eru sem sagt spennandi tímar fram undan­ og nú er það bara áfram veginn!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Bryndís Haraldsdóttir

Lattelepjandi mosfellsk lopapeysa

Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Ég elska Mosfellsbæ, mér finnst yndislegt að búa í smá sveit þar sem stutt er í náttúruna og samkennd einkennir mannlífið. En ég væri líka til í smá miðbæ, geta sótt kaffihús eftir kl. 18 og farið út að borða með vinkonum eða fjölskyldu og geta valið milli staða sem ekki flokkast undir skyndibita.
Miðbær í Mosfellsbæ verður aldrei eitthvað á við miðbæinn í höfuðborginni. En hér ætti að geta skapast mannlíf á við það sem nú er að skapast í kringum miðbæ í nágrannasveitarfélögum okkar. Við ættum að geta haft Kaffi Mosó, eins og kaffihús í Vesturbænum eða Laugalæknum. Kannski er þess ekki langt að bíða að þetta geti orðið að veruleika.
Byggingaverktakar hafa nú sýnt miðbænum aukna athygli og vænta má þess að á næstu misserum byggist upp bæði verslun, þjónusta og íbúðir í miðbænum okkar.
Skipulagsnefnd er einhuga um mikilvægi þess að fjölga þurfi íbúðum í miðbæ Mosfellsbæjar enda er ein af forsendum þess að Borgarlínan (framtíðar almenningssamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins) nái upp í Mosfellsbæ sú að í miðbænum sé nægjanlega mikill fjöldi fólks fyrir slíka þjónustu.

Miðbæjaruppbygging
Nú á næstu vikum verður auglýst breyting á lóðum sem ná frá framhaldsskólanum og að Krónubyggingunni. Þar á að byggja upp íbúðir og verslunar- og þjónusturými. Áhersla er á uppbrot bygginga og fallega götumynd.
Ekki er ólíklegt að lóðirnar á móti sem lengi hafa verið í eigu Kaupfélags Kjalarnesþings muni jafnframt fara í skipulagsferli fljótlega þar sem gert er ráð fyrir uppbygginu íbúða. Þetta er jákvætt enda ljóst að þörf er á miklum fjölda íbúða inn á markað á næstu misserum.
Í síðasta Mosfellingi var fjallað um áhuga fjárfesta á mögulegri hóteluppbyggingu í Sunnukrika. Þegar Krikahverfið var skipulagt á sínum tíma var gert ráð fyrir verslun og þjónustu neðst í hverfinu. Þótti það skynsamlegt til að skýla íbúðabyggð fyrir Vesturlandsveginum og til að stækka miðbæjarsvæðið sem er skilgreint beggja vegna Vesturlandsvegar. Lóðirnar hafa verið auglýstar til sölu á vef Mosfellsbæjar svo árum skiptir en það er ekki fyrr en nú sem áhugi hefur skapast fyrir uppbyggingu þar. Ef af þessari uppbyggingu verður er það til mikilla bóta fyrir miðbæ í sveitarfélaginu okkar enda ljóst að í kringum hótel þrífst betur verslun og veitingastarfsemi.
Það er ánægjulegt til þess að hugsa að mikill áhugi er fyrir uppbyggingu í Mosfellsbæ, bæði íbúðir og verslunar- og þjónusturýma. Enda er gott að búa í Mosfellsbæ.

Bryndís Haraldsdóttir
Formaður skipulagsnefnar

Úrsúla Jünemann

Að rækta skóg

Úrsúla Jünemann

Úrsúla Jünemann

Að rækta skóg er eins og að gefa nýtt líf. Þú setur fræ í mold, fylgist með að sjá það spíra og verða að pínulítilli plöntu. Mörg ár munu líða þangað til þessi litlu kríli verða að tjám.
Við sem ræktum skóg lítum á tré sem vini. Þetta eru lifandi verur sem vinna fyrir okkur á margan hátt, t.d. búa til súrefni, veita okkur skjól, gefa næringar- og byggingarefni, jafna úrkomu og draga þar með úr flóðahættu og margt fleira. Ekki síst eru skógar með eftirsóttustu útivistarsvæðum.
Tré eru lengi að vaxa úr grasi og okkur skógarvinum þykir miður hve kæruleysislega sumir haga sér. Má þá til dæmis nefna utanvegaakstur (bæði jeppar, vélsleðar og fjórhjól) þar sem litlar plöntur troðast undir og skaddast. Klukkutímaskemmtun á torfærutækjum getur valdið tjóni sem verður ekki bætt á mörgum árum.
Skógræktarfélögin á landinu hafa lyft grettistaki í að koma upp dásamlegum skógarsvæðum víða um land. Árum saman hafa menn einbeitt sér að pota niður trjáplöntum, en nú þegar vöxtulegir skógar hafa myndast verða verkefnin smám saman önnur.
Nú þarf að búa til stíga, grisja, hafa upplýsingar aðgengilegar og sinna umönnun í þessum „gömlu“ skógum þannig að þetta verkefni megi áfram dafna og vaxa, mönnum til gagns og gamans.
Nú er í auknum mæli verið að opna eldri skóga og gera þá aðgengilega fyrir almenning. Þörf er á að fagmenn komi að umsjón og umhirðu skógarsvæðanna og sem betur fer fjölgar menntuðum skógfræðingum frá ári til árs.
Markviss umönnun og umhirða skógarsvæða gerist ekki án þess að ríkið og sveitarfélögin komi að þessu með auknu fjármagni. Skógræktarfélögin hafa hvorki peninga né vinnuafl til að geta sinnt þessu.
Við og okkar afkomendur þurfum að læra að umgangast náttúruna af alúð og virðingu. Að rækta skóg er mannbætandi. Skólarnir ættu að fá svigrúm og fjármagn til að sinna þessu mikilvæga uppeldisverkefni. Börn sem fá viðeigandi uppeldi og fræðslu munu kenna foreldrum sínum þegar heim er komið.

Úrsúla Jünemann.
Höfundur starfar í umhverfisnefnd fyrir Íbúahreyfinguna.

Rósa Jósefsdóttir

Hvernig líður þér í fótunum?

Rósa Jósefsdóttir

Rósa Jósefsdóttir

Að fara reglulega til fótaaðgerðafræðings ætti að vera jafn mikilvægt og að fara til tannlæknis.
En hverjir eru það sem ættu að fara til fótaaðgerðafræðings? Svarið er einfalt – ALLIR. Þeir sem hafa farið til fótaaðgerðafræðings hafa fundið fyrir hversu mikil vellíðan fylgir slíkri heimsókn. Allir ættu að huga vel að fótum sínum því þeir leika stórt hlutverk í því að halda líkama okkar uppi og koma okkur frá einum stað til annars.
Til fróðleiks má geta þess að með hverju skrefi sem við tökum setjum við 1,5 x eigin þyngd okkar á fótinn í hverju skrefi. Manneskja sem vegur 70 kg setur þannig 105 kg á fótinn í hverju skrefi.

Þeir sem hafa einhvern tíma glímt við einhvers konar fótamein vita hversu hvimleitt það er að finna fyrir sársauka í hverju skrefi og þurfa jafnvel að beita líkamanum á annan hátt til að minnka fótverki. Slík líkamsbeiting getur í sumum tilvikum haft slæmar afleiðingar, til dæmis verki upp í bak. Þegar óþægindi láta á sér kræla til dæmis niðurgróningur á nögl eða jafnvel sprungur á hælum er mikilvægt að leita til fótaaðgerðafræðings svo hægt sé að koma í veg fyrir frekara mein.
Fótaaðgerðafræðingar ráðleggja einnig þeim sem eru sykursjúkir um mikilvægi umhirðu fóta, hvað beri að varast og ekki síst mikilvægi þess að láta fylgjast reglulega með fótunum svo sem skynjun, húðbreytingar og margt fleira.

Mosfellingar nýta sér án efa þá náttúruperlu sem nánasta umhverfi þeirra býður upp á og eru það mikil forréttindi. Gönguferðir eru eflaust vinsælar og er þá mikilvægt að vera vel skóaður og ekki síður í góðum sokkum. Þessir þættir eru ekki síður mikilvægir þegar kemur að umhirðu og heilbrigði fóta.
Of þröngir skór og sokkar geta leitt til fótameina sem væri hægt að komast hjá ef við erum meðvituð um hvað gerir okkar fætur heilbrigða og hvað við getum gert til að viðhalda því.
Sá sem nýtir sér þjónustu fótaaðgerðafræðings fær einnig fræðslu um hvernig best sé að hugsa um fæturna og veita fótaaðgerðafræðingar góð ráð varðandi umhirðu fóta, val á skóm, sokkum, innleggjum og hlífum.

Rósa Jósefsdóttir fótaaðgerðafræðingur
Fótaaðgerðastofu Mosfellsbæjar

Hilmar Bergmann

Skipulag Rauða Krossins

Hilmar Bergmann

Hilmar Bergmann

Rauði krossinn í Mosfellsbæ er ein af 42 deildum eða aðildarfélögum sem saman mynda Rauða krossinn á Íslandi. Rauði krossinn á Íslandi er síðan eitt af 190 landsfélögum Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem saman mynda Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans.
Einungis má vera eitt Rauða kross félag í hverju landi og er það víðast hvar staðfest með lögum viðkomandi lands, þar á meðal hér á landi. Einnig eru ákvæði um Rauða krossinn og sérstöðu hans í Genfarsamningunum sem 196 ríki, þar á meðal Ísland, hafa undirritað.

Rauði krossinn er frjáls félagasamtök í þeim skilningi að hver sem er sem er sammála markmiðum félagsins getur gerst félagi. Hins vegar hafa félagar ekki algert frelsi til að ákveða hvernig félagið vinnur eða hvaða verkefni það tekur að sér. Hver deild hér á landi er bundin af lögum og stefnu Rauða krossins á Íslandi sem aftur er bundinn af lögum og stefnu Alþjóða Rauða krossins. Samkvæmt Genfarsamningunum ber Rauða krossinum í hverju landi að vinna með stjórnvöldum en þó þannig að hann heldur sig alltaf við grundvallarmarkmið sín.

Uppbygging Rauða kross hreyfingarinnar gerir það að verkum að stuðningur á að vera til staðar þegar áföll verða. Félagið í hverju landi styður deildir sínar og Alþjóðahreyfingin styður landsfélögin. Fyrstu viðbrögð við áföllum eru nánast alltaf staðbundin. Það eru þeir sem búa eða staddir eru á viðkomandi stað sem hjálpa flestum. Þetta er ein af ástæðum þess að Rauði krossinn hefur frá upphafi lagt áherslu á að sem flestir kunni skyndihjálp því ekkert okkar veit hvenær við verðum fyrst á vettvang. Þetta er einnig grundvallaratriðið í uppbyggingu neyðarvarna Rauða krossins á Íslandi en samkvæmt íslenskum lögum er Rauði krossinn hluti af viðbúnaðarkerfi almannavarna.

Aðild að alþjóðlegri hreyfingu felur einnig í sér þá skyldu að ef að þrengir að í einu landi þá ber Rauða kross félögum í öðrum löndum að koma til aðstoðar. Sem betur fer búum við Íslendingar svo vel að við erum fær um að aðstoða aðra og Rauði krossinn á Íslandi hefur ekki þurft að leita aðstoðar annars staðar. Sá möguleiki er þó alltaf fyrir hendi og einu sinni hefur Rauði krossinn á Íslandi fengið slíka aðstoð frá öðrum löndum þó að ekki hafi verið beðið um hana en það var 1973 þegar eldgosið varð á Heimaey. Þá bárust Rauða krossinum á Íslandi stór framlög til hjálparstarfs sem félagið nýtti í þágu Vestmannaeyinga.
Ákvörðunin um hvernig þessir fjármunir voru nýttir var tekin hér á landi og þannig vinnur Rauði krossinn alls staðar, þ.e. að hjálparstarf er alltaf undir stjórn félagsins í viðkomandi landi. Aðstoðin felst því sjaldnast í því að fólk frá öðrum löndum fari til annars lands heldur í því að senda fjármagn sem fólk á staðnum nýtir á sínum forsendum til að hjálpa sér sjálft.

Við hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ hvetjum þá sem vilja vinna að grundvallarmarkmiðum Rauða krossins til að koma til liðs við okkur með sjálfboðnu starfi eða öðrum stuðningi. Verkefnin geta legið víða, bæði hér heima og að leggja lið í öðrum löndum.

Fyrir hönd Rauða krossins í Mosfellsbæ,
Hilmar Bergmann, formaður stjórnar.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Um áramót

sparkler on gold bokeh background macro close up

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Kæru Mosfellingar!

Um áramót er gott að staldra aðeins við, líta um öxl og jafnframt horfa fram á veginn. Höfum við gengið til góðs og hvernig blasir framtíðin við okkur?
Árið 2016 var að mörgu leyti mjög viðburðaríkt og merkilegt ár hér á landi sem og úti í hinum stóra heimi. Íslendingar kusu nýjan forseta sem er kominn vel á veg með að ávinna sér traust og virðingu þjóðarinnar. Það sama er ekki hægt að segja um nýkjörinn forseta Bandaríkjanna, voldugasta ríkis heims. Þar er ekki sama sáttin um niðurstöðuna, enda var mjótt á munum og málflutningur hins nýkjörna forseta ekki beinlínis til þess fallinn að miðla málum eða skapa sátt.
Þetta finnst mér vera í andstöðu við þá þróun sem átt hefur sér stað á okkar góða landi. Ég skynja meiri sáttahug í samfélaginu og meiri vilja til samvinnu og málamiðlana. Það eru atriði sem mér finnst hafa skort töluvert á síðustu ár í kjölfar fjármálahrunsins og þeirra sára sem hrunið bjó til.
Kosið var til Alþingis á árinu og voru niðurstöður kosninganna að mörgu leyti merkilegar í sögulegu samhengi. Fleiri flokkar hlutu brautargengi inn á Alþingi en áður sem gert hefur stjórnarmyndun flóknari. Nú eru gerðar meiri kröfur til málamiðlana en þegar þetta er skrifað virðist ný ríkisstjórn vera í burðarliðnum. Ríkis­stjórn sem ég hef fulla trúa á að verði góð ríkisstjórn sem getur haldið áfram þeim góðu verkum sem unnin hafa verið og leitt okkur áfram til enn meiri hagsældar á landinu okkar góða.

Kjarasamningar settu svip sinn á árið
Rekstrarumhverfi Mosfellsbæjar fór batnandi á árinu 2016 samfara aukinni hagsæld í þjóðfélaginu. Tekjur hafa aukist þó að kostnaður hafi líka hækkað töluvert vegna nýrra kjarasamninga. En kjarasamningagerð setti töluverðan svip á rekstur sveitarfélaga á árinu 2016.
Kjaradeila við grunnskólakennara var erfið. Kennarar felldu í tvígang samninga milli samninganefndar sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara og það var ekki fyrr en í lok árs sem þriðji samningurinn var samþykktur. Það var fagnaðarefni að samningar skyldu nást en ekki verður vikist undan því að þessi erfiða kjaradeila skilur eftir sig einhver sár sem við sveitarstjórnarfólk, kennarar og skólastjórnendur þurfum að leggja okkur fram um að græða á næstu mánuðum og misserum.
Sátt verður að nást til framtíðar um kjör og vinnufyrir­komulag kennara. Að öðrum kosti mun hið mikilvæga starf sem fer fram í skólunum okkar líða fyrir það. Það er einnig áhyggjuefni að ekki hefur tekist að leysa kjaradeilu milli tónlistarskólakennara og sveitarfélaga en langur tími er síðan sá samningur rann út. Það er verkefni nýs árs að leysa þessa deilu og er það mín skoðun að til þess að það sé gerlegt þurfi báðir samningsaðilar að gefa eftir svo málmiðlun sé möguleg.

Mikil uppbygging í Mosfellsbæ
Betra efnahagsástand hefur í för með sér aukna eftirspurn eftir lóðum. Um 400 nýjar íbúðir eru í uppbyggingu í Helgafellshverfi einu. Auk þess eru íbúðir í byggingu í Leirvogstungu og víðar í bænum. Líklegt er að á nýju ári hefjist uppbygging um 200 íbúða í miðbænum. Það mun setja nýjan svip á miðbæinn okkar og gera hann samkeppnishæfari um verslun, þjónustu og ýmis konar menningu. Svona mikil uppbygging kallar einnig á fjárfestingar í innviðum.
Framkvæmdir við gatnagerð verða því áberandi á nýju ári, einkum í nýjum hverfum. Eins fer fram endurnýjun á gangstéttum og öðru viðhaldi í eldri hverfum. Framkvæmdir eru hafnar við nýjan skóla í Helgafellshverfi en það verður langstærsta einstaka framkvæmd sveitarfélagsins á næstu árum. Gert er ráð fyrir að fyrsti áfangi skólans verði tekinn í notkun haustið 2018.
Það er einnig ánægjulegt að greina frá því að uppbygging á atvinnuhúsnæði verður talsverð á næstu árum. Lóðum hefur verið úthlutað í Desjamýri og uppbygging þar hafin. Samningur hefur verið gerður um uppbyggingu á lóðum við Sunnukrika sem einnig er hluti af miðsvæði bæjarins. Þar hefur lóðum verið úthlutað til mögulegrar hótelbyggingar og ferðaþjónustu.
Samningur hefur verið gerður milli landeiganda og Mosfellsbæjar um uppbyggingu á verslun og þjónustu á svæði syðst á Blikastaðalandi en þar gerir aðalskipulag ráð fyrir að geti byggst um allt að 100 þúsund fm atvinnuhúsnæðis. Þetta eru allt góðar fréttir fyrir íbúa Mosfellsbæjar og afkomu sveitarfélagsins.

Þjónustuaukning samkvæmt fjárhagsáætlun
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 felur í sér ákvörðun um aukna þjónustu sveitarfélagsins ásamt lækkun skatta og gjalda. Má nefna að grunnfjárhæð frístundaávísunar hækkar um rúm 18% og stofnun Ungmennahúss verður veitt brautargengi í samstarfi við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ.
Auknum fjármunum verður veitt til leikskóla bæjarins svo hægt verði að taka á móti 1 – 2ja ára börnum með sem bestum hætti. Auk þessa er gert ráð fyrir að tónlistarkennsla Listaskólans inni í grunnskólunum verði efld svo fleiri nemendur eigi þess kost að stunda tónlistarnám.
Bæjarstjórn hefur samþykkt að lækka álagningarhlutfall útsvars sem og álagningarhlutföll fasteignagjalda. Þannig er tryggt að allir njóti með einhverjum hætti góðs af betra rekstrarumhverfi sveitarfélagsins. Ekki er gert ráð fyrir hækkun gjaldskráa almennt fyrir veitta þjónustu, s.s. leikskólagjalda og eru gjaldskrár því að lækka að raungildi.

Framtíðin er björt í Mosfellsbæ og með gildin okkar góðu VIRÐINGU – JÁKVÆÐNI – FRAMSÆKNI og UMHYGGJU að leiðarljósi eru okkur allir vegir færir. Mosfellsbær á 30 ára kaupstaðarafmæli í ágúst og verður haldið upp á það með veglegum hætti.
Af áhugaverðum verkefnum má einnig nefna lýðræðisverkefnið Okkar Mosó sem ég bind vonir við að fái góðar móttökur hjá bæjarbúum. Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf, samskipti, vináttu og stuðning á árinu 2016 og megi nýrunnið ár verða okkur öllum gæfuríkt og gleðilegt.

Haraldur Sverrisson
bæjarstjóri

Ólöf Kristín Sívertsen

Heilsuárið framundan

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Gleðilegt ár kæru Mosfellingar og nærsveitungar!
Um áramót eru margir sem setja sér markmið fyrir komandi ár og líta margir á þessi tímamót sem nýtt upphaf þar sem framundan eru 365 óskrifaðir dagar og þar með ótal tækifæri til að efla eigin vellíðan og annarra.
Ég sjálf ætla t.d. að temja mér að hrósa meira, hugsa jákvætt, vera þakklát, sjá og grípa tækifærin og bara að vanda mig almennt við það að vera glöð og gefandi manneskja.

Lífsgæði
Fjórði áhersluþátturinn í uppbyggingu Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ ber yfirskriftina Lífsgæði. Hugtakið er ansi vítt enda margt sem hefur áhrif á lífsgæði okkar. Það sem eru lífsgæði fyrir einn þurfa ekki endilega að vera lífsgæði fyrir annan. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) skilgreinir lífsgæði á þann hátt að þau séu huglægt mat á aðstæðum einstaklinga eða hópa sem verða fyrir áhrifum frá ýmsum þáttum, þáttum sem ákvarða m.a. heilsu og hamingju, menntun, félagslega og vitsmunalega fullnægju, frelsi og réttindi.

Hvað skapar lífsgæði?
WHO hefur gefið út staðlaða lista til þess að mæla lífsgæði. Þessir listar eru þvermenningarlegt mælitæki sem hafa verið notaðir víða um heim og eru margprófaðir. Það vill svo skemmtilega til að á listunum eru 26 fullyrðingar þar sem spurt er um líkamlega heilsu, andlega heilsu, félagsleg sambönd og umhverfi en þetta eru einmitt þeir áhrifaþættir heilsu og vellíðunar sem við höfum verið að fást við í vegferð okkar að heilsueflandi samfélagi.

Verkefnin fram undan
Við munum að sjálfsögðu halda áfram öllum þeim góðu verkefnum sem verið hafa í gangi varðandi næringu og mataræði, hreyfingu og útivist og geðrækt undanfarin ár enda erum við sífellt að byggja ofan á það sem fyrir er, að treysta grunninn. Á árinu munum við til viðbótar þessu m.a. beina sjónum okkar að öryggi, orkustjórnun og umhverfi svo fátt eitt sé talið. Þá er heldur ekki loku fyrir það skotið að Lýðheilsuverðlaun Mosfellsbæjar verði afhent í fyrsta skipti með hækkandi sól.

Við hlökkum sem fyrr til að starfa áfram með ykkur að uppbyggingu heilsueflandi samfélags hér í Mosfellsbæ og þökkum kærlega fyrir samvinnuna hingað til. Góðar hugmyndir eru að sjálfsögðu vel þegnar á netfangið heilsuvin@heilsuvin.is.

Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Kolbrún Þorsteinsdóttir

Gas- og jarðgerðarstöð rís á Álfsnesi

Kolbrún Þorsteinsdóttir

Kolbrún Þorsteinsdóttir

Nýlega var undirritað samkomulag um tæknilausn fyrir nýja gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi.
Forsaga þess máls er að árið 2013 gerðu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að frumkvæði Mosfellsbæjar, eigendasamkomulag um ráðstafanir varðandi meðhöndlun úrgangs og byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi. Ástæða þessa samkomulags var fyrst og fremst sú að urðunarstaðurinn í Álfsnesi hefur verið okkur Mosfellingum til mikilla ama sl. ár. Lyktarmengun hefur verið frá staðnum og kvartanir borist frá íbúum. Við það var auðvitað ekki unað.
Með þessu samkomulagi skuldbundu eigendur SORPU bs. sig til að vinna sameiginlega að heildarsýn til lengri framtíðar í úrgangsmálum og að úrgangur og förgun hans yrði ekki nærumhverfinu til ama. Niðurstaðan var að reisa gas- og jarðgerðarstöð á Álfsnesi.

Stórt skref í umhverfismálum – urðun í Álfsnesi hætt
Mosfellsbær hefur lagt sig fram við að gæta hagsmuna íbúa gagnvart málefnum Sorpu bs. allt frá því að Reykjavíkurborg ákvað að leggja niður urðunarstaðinn í Gufunesi og finna honum nýjan stað á Álfsnesi.
Bygging gas- og jarðgerðarstöðvarinnar er stórt skref í umhverfismálum á höfuðborgarsvæðinu og afar mikilvægt fyrir Mosfellsbæ. Með tilkomu hennar verður hætt að urða heimilisúrgang en í stað þess verðmæt gas- og jarðgerðarefni unnin úr honum. Áætlað er að bygging stöðvarinnar hefjist á þessu ári og miðað við að hún verði tekin í notkun síðari hluta árs 2018.

Hafsteinn Pálsson

Hafsteinn Pálsson

Stefnt er að því að yfir 95% af heimilissorpi verði endurunnið þegar stöðin er komin í gagnið. Um 70% af því sem fer í venjulega heimilistunnu í dag er lífrænt efni sem nýtist til framleiðslu metans og jarðvegsbætis. Samkvæmt eigendasamkomulaginu verður urðun í Álfsnesi hætt fyrir árið 2021

Kostir gas – og jarðgerðarstöðvar
Gas- og jarðgerðarstöðin mun geta tekið við um 35 þúsund tonnum af blönduðum heimilisúrgangi á ári. Hægt verður að stækka stöðina þegar þörf verður á því. Stefnt er að því að auka endurvinnsluhlutfall þessa hluta úrgangsins einnig.
Samkvæmt Landsáætlun er stefnt að því að árið 2020 verði einungis 15% af þessum úrgangi urðaður, árið 2021 verður ekki lengur mögulegt að urða lífrænan og/eða brennanlegan úrgang og árið 2025 er markmiðið að undir 5% af öllum úrgangi sem berst SORPU verði ekki endurnýttur.
Meginástæða fyrir byggingu stöðvarinnar er að:
• endurnýta lífrænan úrgang.
• draga úr lyktarmengun.
• minnka urðun á blönduðum heimilisúrgangi.
• nýta innlenda orku í stað innflutts eldsneytis.
• minnka sótspor íbúa með því að nýta metanið sem ökutækjaeldsneyti.

Betri tímar
Með nýrri gas- og jarðgerðarstöð SORPU verður nánast allur lífrænn úrgangur sem til fellur frá heimilum á svæðinu endurunninn. Hér er því um mjög metnaðarfullt verkefni að ræða sem mun gjörbylta vinnslu úrgangs hérlendis og stuðla að aukinni endurvinnslu á öðrum tegundum úrgangs.
Við Mosfellingar megum því eiga von á betri tímum og njóta sumars án lyktar og tilheyrandi óþæginda og því ber að fagna

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, stjórnarmaður í Sorpu og bæjarfulltrúi
Hafsteinn Pálsson, varamaður í stjórn Sorpu og bæjarfulltrúi

Hilmar Bergmann

Kæru bæjarbúar og nærsveitungar

Hilmar Bergmann

Hilmar Bergmann

Rauði krossinn í Mosfellsbæ óskar bæjarbúum og landsmönnum öllum gleðilegs og farsæls nýs árs.
Við viljum þakka kærlega þeim fjölmörgu sem hafa ljáð okkur hluta af því dýrmætasta sem við öll eigum, þ.e. tíma, við að skapa betra samfélag á starfssvæði okkar.
Starfssvæði Rauða krossins í Mosfellsbæ er nokkuð stórt og byggðin dreifð. Við störfum því ekki aðeins í Mosfellsbæ, heldur einnig á Kjalarnesi og í Kjósinni. Verkefnin eru fjölmörg og fjölbreytileg. Sum þeirra ná út fyrir starfssvæði deildarinnar, auk þess sem við tökum þátt í ýmsum verkefnum á vegum RkÍ og alþjóða Rauða krossins. Einnig vinnum við að ýmsum verkefnum með öðrum Rauða-krossdeildum á höfuðborgarsvæðinu s.s. að neyðarvörnum og málefnum hælisleitenda.
Eftir að Útlendingastofnun tók Víðines á leigu má ætla að stór hluti hælisleitenda á Íslandi búi á starfssvæði deildarinnar, en fyrir var töluverður fjöldi hælisleitenda í Arnarholti á Kjalarnesi. Við erum einnig þannig staðsett að stór hluti erlendra ferðamanna fer í gegnum bæinn okkar á leið sinni um Gullna hringinn, uppsveitir Árnes­sýslu og Hringveginn til norðurs.
Deildin hefur því tvisvar á síðasta ári og nú þegar einu sinni á þessu ári, þó nýhafið sé, þurft að opna Fjöldahjálparstöð fyrir erlenda ferðamenn sem hafa lent í hrakningum eða slysum. Það er því í mörg horn að líta.
Deildin stóð fyrir nokkrum fjáröflunum á síðasta ári, þar sem aflað var tekna til verkefna deildarinnar. Tilgangurinn með þessum fjáröflunum var ekki síður sá að hitta íbúa svæðisins og eiga við þá samtal. Sem dæmi má nefna að deildin var með skottsölu á bæjarhátíðinni „Í túninu heima“, auk þess sem ungir og upprennandi listamenn söfnuðu fyrir deildina með tónleikum á hátíðinni.
Nú stendur yfir rúðusköfusala, þar sem fólk getur stutt við starfið og eignast í leiðinni handhæga rúðusköfu í bílinn merkta Rauða krossinum og með áletruninni „Byggjum betra samfélag“ á nokkrum tungumálum. Hægt er kaupa rúðusköfuna á skrifstofu deildarinnar í Rauðakrosshúsinu að Þverholti 7, auk þess sem hún hefur verið seld á fjölfjörnum stöðum.
Þeir fjármunir sem safnast hafa í þessum fjáröflunum renna óskiptir til verkefna deildarinnar. Einnig er hægt að styrkja starfið með því að gerast félagsmaður í deildinni. Félagsgjaldinu er mjög í hóf stillt. Deildin er svo lánsöm að vera með þónokkurn fjölda félagsmanna, en félagsgjaldið rennur óskipt til deildarinnar að frádreginni innheimtuþóknun. Að gerast félagsmaður og greiða félagsgjaldið er því góð leið til að styðja við deildina hér í Mosfellsbæ með einni hóflegri greiðslu á ári.
Vilji fólk styðja enn betur við starf RkÍ er hægt að gerast Mannvinur, en þeir greiða mánaðarlegt framlag. Það framlag rennur ekki beint til deildarinnar hér, heldur fer til ýmissa verkefna RKÍ.
Um leið og Rauði krossinn í Mosfellsbæ þakkar kærlega fyrir allan þann stuðning sem hann hefur fengið með beinum fjárstuðningi og í formi dýrmæts tíma sjálfboðaliða, þá viljum við einnig þakka fyrir allar ábendingarnar og hlý orð í okkar garð. Við hvetjum fólk áfram til að hafa samband og láta vita hvar þrengir að. Leita upplýsinga um starfið og taka þátt. Hér gildir að betur sjá augu en auga og margar hendur vinna létt verk.
Það er einnig ómetanlegt fyrir okkur sjálfboðaliðana og verkefnastjóra að heyra að fólk kunni að meta það sem vel er gert og eftir því tekið sem við gerum til að byggja betra samfélag.

Fyrir hönd Rauða krossins í Mosfellsbæ,
Hilmar Bergmann, formaður stjórnar.

Harald S. Holsvik

Kæru FaMos félagar

Harald S. Holsvik

Harald S. Holsvik

Gleðilegt nýtt ár til ykkar allra með þökk fyrir liðin. Fram undan er mikil og stórbrotin dagskrá á döfinni í samvinnu við Félagsstarfið og Elvu Björgu að Eirhömrum.
Við skulum gera allt sem við getum til að njóta þess sem í boði er. Þjóðsagnanámskeið mun byrja þann 17. janúar n.k. ef næg þátttaka fæst. Enn eru örfá sæti laus. Skráið ykkur hjá famos@famos.is sendið inn nafn, og símanúmer ásamt kennitölu.
Við erum að byrja fjórðu önnina í Módelsmíðinni og þar er svo til fullbókað. Listmálun er að hefjast á nýjan leik. Síðan eru tréútskurður, bókband, glervinnsla og hugsanlega kennsla á spjaldtölvur ef næg þátttaka fæst ásamt að venju hannyrðum.
Allar ýtarlegri upplýsingar fást hjá Félagsstarfinu að Eirhömrum. Tekið verður í spil og spilað bingó ásamt félagsvist sem mun verða auglýst nánar.

Eitt atriði fyrir aldraða og eldri borgara er að hafa eitthvað fyrir stafni og láta sér ekki leiðast.
Í mínum síðasta pistli fyrir áramót setti ég fram spurninguna: „Erum við á réttri leið?“ Ýmis lög hafa síðan verið samþykkt á Alþingi. Þar á meðal Lög um breytingu á lögum um almannatryggingar. Ég vil því skoða málið betur.
Þegar ég tók að mér formennsku í stjórn FaMos, fyrir nærri þremur árum síðan, varð mér ljóst að ein besta kjarabót fyrir þá aldurshópa sem eru í félaginu og sem hætt hafa atvinnuþátttöku, væri að knýja á um skatta­tilslakanir. Þegar á hólminn var komið var það deginum ljósara að nær útilokað væri að óska eftir tilslökun og vægari skattlagningu á eldri borgara.
Ein fyrsta ábendingin sem kom frá þingmanni úr kjördæminu var sú, að hendur alþingismanna væru svo bundnar við stjórnarskrá Íslands, sérstakleg 65. gr. um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum. Nýlega samþykkt ofannefnd lög bera því miður með sér m.a. eftirtalin atriði sem spurningar vakna um.
1. Enn er ekki búið að samhæfa lögin við eldri útgáfu laganna. Hvers vegna ekki?
2. Ef ákvæði um jafnrétti á að gilda, ættu einhleypingar að hafa sérstakar bætur vegna húsnæðis umfram gifta? Er verið að stuðla að aukinni skilnaðartíðni?
3. Sagt er manna á milli að um 4.200 einstaklingar verði af svokölluðum grunnlífeyri sem var á bilinu 40-47.000 á mánuði, ef þeirra sparnaður og ráðdeild gefur þeim meira en 531.406 kr. á mánuði. Upphæðin kemur hvergi fram í lögunum. Hvers vegna ekki? Er talan fengin fram með reiknilíkönum? Sumir segja að hér sé um eignaupptöku að ræða. En hver hefði trúað því á fráfarandi ríkisstjórn?
4. Líklegt er að sumir njóti einhverra lagfæringa með þessum nýju lögum. Það er í góðu lagi.

Bestu félagskveðjur.
Harald S. Holsvik, formaður stjórnar FaMos.

Anna Sigríður Guðnadóttir

Nokkur orð um fjárhags­áætlun og kaffisopa

Anna Sigríður Guðnadóttir

Anna Sigríður Guðnadóttir

Hin árlega afgreiðsla fjárhagsáætlunar Mosfellsbæjar er eiginlega boðberi hækkandi sólar og jóla ár hvert. Áætlunin var afgreidd á fundi bæjarstjórnar þann 7. desember síðastliðinn.
Reksturinn hefur gengið vel eins og hjá flestum öðrum sveitarfélögum landsins enda efnahagsumhverfið nokkuð hagfellt. Enn skortir þó á að ríkisvaldið komi til móts við sveitarfélögin hvað varðar t.d. málefni fatlaðs fólks og tekjur af ferðamennsku.
Ýmislegt gott er að finna í áætlun næsta árs og sumt af því byggist á tillöguflutningi okkar Samfylkingarfólks fyrr á kjörtímabilinu, s.s. hækkun frístundaávísunar og væntanleg starfsemi Ungmennahúss. Þá eru ýmis atriði sem mikill samhljómur hefur verið um í bæjarstjórninni eins og t.d. aukin þjónusta við fjölskyldur ungbarna hvað varðar dagvistun og lækkun fasteignagjalda hjá tekjuminni eldri borgurum svo fátt eitt sé nefnt.
Við fyrri umræðu um fjárhagsáætlunina lögðum við Samfylkingarfólk fram nokkrar tillögur sem því miður var hafnað af meirihluta Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks þótt einni væri hleypt breyttri áfram til skoðunar á næsta ári. Þannig virðist sá samstarfsvilji sem við höfum séð við fyrri fjárhagsáætlanir kjörtímabilsins ekki vera enn fyrir hendi, hvað sem lesa má út úr því. Af þessum orsökum sat Samfylkingin hjá við afgreiðslu áætlunarinnar. Tillögur okkar má finna á Facebooksíðunni „Samfylkingin í Mosfellsbæ“ sem og í fundargerð á vef sveitarfélagsins.

Ólafur Óskarsson

Ólafur Óskarsson

Má bjóða þér tíu dropa?
Áherslur í fjárhagsáætlun endurspegla pólitíska afstöðu þeirra stjórnmálaflokka sem hana leggja fram, þ.e. Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. Þannig er lækkun útsvarsprósentu um 0,04 prósentustig frekar pólitísk yfirlýsing en aðgerð sem skiptir sköpum fyrir íbúa hvað varðar heimilisbókhald þeirra.
Þessi lækkun þýðir um 120 krónur aukalega á mánuði í vasann hjá launþega með 300 þúsund kr. á mánuði en 800 krónur mánaðarlega í vasa þess sem er með 2 milljónir á mánuði. Með öðrum orðum, þeir tekjuhæstu geta farið á kaffihús og fengið sér tvöfaldan cappuccino mánaðarlega en hinir ná líklega tíu dropum af uppáhellingi. Þessi lækkun útsvars er sýndargjörningur sem missir marks.
Útsvarið er grunnur að þjónustu sveitarfélagsins og meðan enn er þörf á að bæta þjónustuna er ekki tilefni til lækkunar útsvars. Þær 14,4 milljónir sem með þessari ákvörðun eru teknar út úr bæjarsjóði hefðu nýst bæjarbúum mun betur í samfélagslegum verkefnum, t.d. í lækkun leikskólagjalda eins og við gerðum tillögu um, til meira samræmis við það sem gerist í nágrannasveitarfélögum. Þannig hefði Mosfellsbær orðið enn fjölskylduvænni bær, öllum bæjarbúum til hagsbóta.
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar munu á nýju ári halda áfram að vinna að góðum málum með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.
Framundan er hátíð ljóss og friðar sem alltaf er jafn kærkomin í amstri skammdegisins. Við sendum bæjarbúum bestu óskir um gleðilega jólahátíð og farsæld á komandi ári.

Anna Sigríður Guðnadóttir
Ólafur Ingi Óskarsson
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar

thorgerdurkatrin

Jólakveðjur

thorgerdurkatrin

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Haustið hefur verið viðburðaríkt. Eftir snarpa kosningabaráttu náði Viðreisn 7 fulltrúum á þing úr fimm kjördæmum af sex. Samtals féllu 10,5% atkvæða í skaut Viðreisnar. Bestur árangur náðist hér í Suðvesturkjördæmi, tæp 13% atkvæða og tveir þingmenn.
Fyrir þetta mikla traust erum við þakklát og munum leggja okkur fram um að standa undir væntingum kjósenda okkar. Auðvitað berum við hag landsmanna allra fyrir brjósti en gerum okkur góða grein fyrir sérstökum skyldum okkar við kjósendur og íbúa í kjördæmi okkar.

Þegar þetta er ritað liggur ekki fyrir hvaða ríkisstjórn tekur við stjórnartaumum og ekki heldur hvort Viðreisn á aðild að henni. Viðreisn hefur á hinn bóginn lagt sig fram í tilraunum til stjórnarmyndunar bæði til hægri og vinstri. Málefnin hafa ráðið för hjá okkur í þeim öllum en við erum að sjálfsögðu meðvituð um nauðsyn málamiðlana þegar margir koma að samningaborði.
Okkar mat er að allar þessar viðræður hafi skilað vissum árangri og við erum vongóð um að þessi samtöl geti leitt til aukinnar samvinnu og betri vinnubragða á Alþingi. Það yrði til hagsbóta fyrir fólkið í Kraganum sem annars staðar. Viðreisn og Björt framtíð hafa átt farsælt samstarf í þessum viðræðum. Þótt flokkarnir séu ólíkir þá hafa menn sammælst um að ýta undir og styrkja frjálslyndið með nánu samstarfi í gegnum stjórnarmyndunarviðræður. Það er ný nálgun.
Við horfum bjartsýn fram á veg og hlökkum til þess að láta til okkar taka og eiga við ykkur gott samstarf á komandi ári.

Jón Steindór Valdimarsson

Jón Steindór Valdimarsson

Með ósk um gleðileg jól og farsæld á komandi ári.

Þorgerður Katrín og Jón Steindór