Hálfa leið eða alla leið?

Halla Karen Kristjánsdóttir

Mosfellsbær er Heilsueflandi samfélag og hefur verið leiðandi í þróun verkefnisins sem hefur verið innleitt víða um land.
Framsókn í Mosfellsbæ vill leggja áherslu á áframhaldandi forystu, innleiðingu og rekstur verkefnisins og þannig setja lýðheilsu í forgrunn við alla ákvarðanatöku á vegum bæjarins. Við viljum ekki láta staðar numið við fallegt plagg heldur þarf að fylgja því eftir með fjármagni og aðgerðum.
Íþrótta- og tómstundastarf hefur verið og verður mál málanna næstu árin. Af hverju ? Jú það eru allir orðnir sammála um hversu mikið gildi heilbrigt íþróttastarf og tómstundir eru. Í samfélagi þar sem er mikill hraði og áreiti verður sífellt mikilvægara að leita leiða til að spyrna gegn streitu, kvíða og vanlíðan með öflugu framboði af leiðum til hreyfingar og samveru.
Framsókn í Mosfellsbæ vill hugsa stórt. Við viljum búa til sameiginlega framtíðarsýn og vinna markvisst að því að hún verði að veruleika.

Við höfum allt til þess að vera fyrirmyndar Heilsubærinn Mosfellsbær og það á að vera eftirsóknarvert að vera hér bæði fyrir íbúa og gesti. Bærinn okkar á að vera í fremstu röð þegar kemur að heilsueflingu fyrir alla.
Mosfellsbær nýtur gríðarlegra forréttinda. Hér er ósnortin náttúra í bakgarðinum, fjöll, dalir, lækir og vötn. Ein af perlum okkar er Varmársvæðið sem er allsherjar íþrótta og útivistaparadís. En það er ekki nóg að vera með íþróttaaðstöðu, það þarf að hlúa að henni og sinna viðhaldi. Þegar kemur að framkvæmdum þarf að hugsa stórt og uppbygging íþróttamannvirkja á að vera metnaðarfull og þannig úr garði gerð að hún svari þörfum starfseminnar sem þar fer fram til framtíðar. Þannig verður hagur allra bæjarbúa hafður í fyrirrúmi.

Hvað er það sem nærir þig?
Jú svörin eru væntanlega eins misjöfn og þau eru mörg. Því það sem nærir þig, nærir ekkert endilega aðra. Það er eins með börnin okkar og okkur sjálf það hafa ekki allir áhuga á sömu íþróttagreininni eða bara að æfa íþróttir yfir höfuð. Sumir finna hjartað slá hjá Aftureldingu, aðrir brenna fyrir jaðaríþróttum enn aðrir velja að fara í tómstundir eins og t.d. skáta, vera í tónlistaskólanum eða í kórstarfi.
Framsókn í Mosfellsbæ vill að stofnað verði til samráðsvettvangs allra þeirra sem koma að hreyfingu og tómstundum hjá bæjarfélaginu. Vegna þess að það er mikilvægt að auka samtalið og samvinnuna. Þannig aukum við líkurnar á því að forsvarsmenn félaga verði frekar meðvitaðir um hvað er helst á dagskrá í bænum og geti hjálpast að við að efla kynningu á því góða starfi sem fer fram hér í bæjarfélaginu okkar. Því öll erum við að vinna að sama markmiðinu sem er að efla einstaklinginn andlega, líkamlega og félagslega.

Öflug sókn í íþrótta og tómstundastarfi er besta forvörn sem við getum veitt börnunum okkar. Við foreldrarnir sem og afar og ömmur megum samt ekki gleyma hlutverki okkar. Við erum fyrirmyndir. Eins og málshátturinn segir: „Það sem þú gerir hljómar svo hátt að það sem þú segir heyrist ekki.“

Halla Karen Kristjánsdóttir íþróttakennari og oddviti Framsóknar í Mosfellsbæ

Almenningssamgöngur og skipulagsmál

Ómar Ingþórsson

Í ört vaxandi bæjarfélagi eins og Mosfellsbæ vegur mikilvægi góðra almenningssamgangna þyngra með hverju árinu.
Mörg okkar hafa e.t.v. ekki mikinn áhuga á þessum málum enda hefur einkabílinn þjónað okkur vel þar sem leiðarkerfi strætó hefur verið stopult og ekki fallið að okkar þörfum. Hvers vegna er þetta yfir höfuð eitthvað sem skiptir okkur máli? Hér verðum við hins vegar aðeins að staldra við og spyrja okkur hverjar eru og hverjar munu okkar þarfir verða á komandi árum. Sérstaklega þegar við vitum að þensla gatnakerfisins verður ekki endalaus, að þungi umferðar mun aukast með tilheyrandi biðtíma, að boðaðar eru nýjar álögur á einkabílinn svo ekki sé talað um allan þann aukna kostnað og umhverfisáhrif sem af þessari þróun hefur hlotist.

Almenningssamgöngur og skipulagsmál eru og ættu að vera samtengd mál þar sem gott skipulag getur auðveldað flæði á milli íbúðahverfa og samtímis gert tengingar greiðfærari og hagkvæmari. Við gerum okkur grein fyrir að margt er hægt að bæta í Mosfellsbæ, þetta er í raun þroskaferli.
Ný hverfi hafa byggst upp stakstæð með lélegum tengingum inn í leiðakerfi strætó. Þetta þekkjum við frá fyrstu árum Leirvogstung- og Helgafellshverfis. Hins vegar hefði þetta ekki þurft að vera svona í upphafi því við skipulagningu nýrra íbúðahverfa skyldi ætíð horfa til þess hvernig samgöngur eru við önnur hverfi og hvernig almenningssamgöngur þróast næstu áratugina. Það er mun óhagstæðara að huga að þessum hlutum þegar þeir eru komnir í öngstræti og gera breytingar eftir á. En hvað þarf til?

Innanbæjarstrætó
Í fyrsta lagi þarf að tryggja tíðar samgöngur frá Reykjavík og til Mosfellsbæjar þar sem endastöðin er samgöngumiðstöð í miðbæ Mosfellsbæjar, kjarnastöð. Þessari kjarnastöð þarf að finna stað en hún er ekki nógu vel skilgreind í dag. Í öðru lagi þarf síðan að koma innanbæjarstrætó sem myndi ganga ákveðna innanbæjarleið frá kjarnastöðinni og tengja saman ólík íbúðahverfi innan bæjarins. Innanbæjarstrætó myndi t.d. stuðla að öruggari og auðveldari samgöngum yngri kynslóðanna milli skóla og íþróttasvæða. Hann væri límið sem myndi tengja saman íbúðahverfi bæjarins og draga úr þörf fyrir hið eilífa foreldraskutl.

Hringrásarskipulag
Við verðum að byggja upp almenningssamgöngur þannig að þær séu hugsaðar sem hringrás innan bæjarins, eins konar hringrásarskipulag sem tengir ólík íbúðahverfi, gerir flæðið milli þeirra auðveldara og samfélagið samheldnara, öruggara og umhverfisvænna. Við verðum líka að minna okkur á að Mosfellsbær er ekki úthverfi Reykjavíkur, þar sem almenningssamgöngur taki bara mið af því að komast til borgarinnar, heldur miklu fremur sjálfstætt hverfi á höfuðborgarsvæðinu með okkar eigin forsendur, þarfir og óskir um þjónustu innan okkar hverfis.
Við getum orðið mun sjálfbærari með tímanum ef við tökum ákvörðun um að verða það. Almenningssamgöngur innan bæjarins eru því mikilvægur stefnumótandi skipulagsþáttur í sjálfbærni bæjarins, sérstaklega þegar vitað er að Mosfellsbær mun meira en tvöfaldast á næstu 20 árum og mörg ný skólahverfi líta dagsins ljós.

Samfylkingin vill beita sér fyrir nýrri nálgun í skipulagi, framsýnni og sjálfbærri fyrir framtíðina.

Ómar Ingþórsson, skipar 3ja sæti framboðslista Samfylkingarinnar

Fjárfestum í ungu fólki

Hrafnhildur Gísladóttir

Undir forystu Framsóknar hefur Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, staðið að einu mesta átaki sem lagt hefur verið í varðandi velferð barna og ungmenna á Íslandi.
Slagorðið „fjárfestum í fólki” var eitt af megin stefum Framsóknar í síðustu Alþingiskosningum. Framsókn í Mosfellsbæ hefur sett það á stefnuskrá sína að halda þeirri stefnu á lofti að fjárfesta í ungu fólki þar sem að öll fjárfesting í fólki skilar sér margfalt til baka í framtíðinni.

Hvað felst í því að fjárfesta í ungu fólki?
Fjárfestingar eru fjármunir sem ráðstafað er til lengri eða skemmri tíma og þurfa að skila því að kostnaður verði ekki meiri en fjárfest var fyrir og helst að skila arði. Fjárfesting í ungu fólki þýðir það að halda þarf úti þjónustu og verkefnum sem stuðla að þroska, byggja upp reynslu, draga úr áhættu og auðvelda inngrip þegar á þarf að halda.
Kostnaður við að halda úti slíkri þjónustu er þá sú fjárfesting sem mun til lengri tíma litið leiða til þess að unga fólkið í dag verði kraftmiklir, hugmyndaríkir og heilbrigðir fullorðnir einstaklingar sem skapa verðmæti fyrir samfélag framtíðarinnar og verða þá jafnframt síður líkleg til að lenda út af sporinu síðar á lífsleiðinni. Með öðrum orðum, fjárfestingin skilar sér til framtíðar í auknum lífsgæðum einstaklinga, auknum tekjum fyrir samfélagið og lægri kostnaði.

Leifur Ingi Eysteinsson

Það eru fjölmörg verkefni sem sveitarfélög sinna sem snúa að ungu fólki. Í leikskóla og upp allan grunnskóla er börnum skapað umhverfi sem stuðlar að auknum þroska, námi og félagsfærni. Í félagsmiðstöðvum er skipulagt starf, í umsjá fagfólks, sem hefur mikið forvarnargildi. Þar fá ungmenni að spreyta sig á verkefnum í öruggu umhverfi.
Viðfangsefnin eru fjölbreytt, enda er ungt fólk margbreytilegt með mismunandi áhugasvið, mismunandi forsendur og mismunandi getu. Félagsmiðstöðvar sem reknar eru á faglegum forsendum með reyndu starfsfólki eru kjörinn vettvangur til að koma til móts við þær fjölbreyttu þarfir og áskoranir ungs fólks.

Félagsmiðstöðin Bólið er rekin á þremur starfsstöðvum, Lágafellsskóla, Kvíslaskóla/Varmárskóla og Helgafellsskóla. Opnunartími félagsmiðstöðva í Mosfellsbæ miðast við skólaárið. Það hefst um miðjan ágúst og lýkur í enda maí.
Það að tryggja samfellu í starfi félagsmiðstöðva allt árið hefði í för með sér að hægt væri að sinna því mikilvæga forvarnarstarfi, sem unnið er í félagsmiðstöðvum, einnig yfir sumartímann. Þá er ekki síður mikilvægt fyrir faglegt starf að geta boðið upp á fleiri heilsársstörf fyrir starfsfólk félagsmiðstöðva í Mosfellsbæ.

Framsókn í Mosfellsbæ vill að félagsmiðstöðin Bólið verði starfandi yfir sumartímann til að tryggja áframhaldandi velferð og utanumhald um unga fólkið okkar.
Framsókn vill fjárfesta í ungu fólki.

Hrafnhildur Gísladóttir tómstunda- og félagsmálafræðingur, 7. sæti á lista Framsóknar
Leifur Ingi Eysteinsson nemi í tómstunda og félagsmálafræði, 5. sæti á lista Framsóknar

Þjónusta við aldraða

Ólafur Ingi Óskarsson

Umræðan um skort á hjúkrunarrýmum hefur verið fyrirferðarmikil á undanförnum misserum og árum og þá einkum í tengslum við fráflæðisvanda Landspítalans. Það er dýrt úrræði að fólk sem lokið hefur sjúkrahússmeðferð dvelji á spítala og teppi háþróuð og dýr legurými.
Bæði þessi úrræði, sjúkrahús og hjúkrunarheimili, eru á ábyrgð og í umsjón ríkisins. Það vekur furðu að ríkisstjórnin sem að minnsta kosti í orði kveðnu gefur sig út fyrir hagkvæmni í rekstri geri ekki það augljósa þ.e. að fjölga hjúkrunarrýmum.

Hlutverk sveitarfélaga
Sveitarfélög geta líka komið að lausn þessa vanda og jafnvel seinkað því að fólk þurfi að flytja á hjúkrunarheimili. Þau geta boðið upp á valkosti í sinni þjónustu sem í raun flestir sem komnir eru á efri ár geta valið um. Einn möguleiki er að öldruðum sé gert kleift að búa og lifa á sínu heimili, eins lengi og kostur er, með þeim stuðningi sem þarf til og hentar hverjum og einum. Það er reyndar lögbundið hlutverk sveitarfélaga að annast þessa þjónustu og vissulega gera sveitarfélög það, en þó hvert með sínum hætti.

Elín Árnadóttir

Með því að bæta í og auka gæði stuðningsþjónustu sveitarfélaga með fjölbreyttum úrræðum og samfelldri þjónustu getum við seinkað verulega innlögnum á hjúkrunarheimili og þar með dregið úr kostnaði samfélagsins. Fyrir utan lægri kostnað þá stuðlar bætt stuðningsþjónusta að því að aldraðir hafi val og geti búið lengur í því húsnæði sem þeir helst kjósa.

Samþætt þjónusta
Til að aldraðir hafi þetta val er mjög mikilvægt að þjónustan sem í boði er, og er grundvöllur þess að aldraðir geti nýtt sér valfrelsi, sé samþætt undir einni stjórn. Hér í Mosfellsbæ er þessi þjónusta, stuðningsþjónusta og heilbrigðisþjónusta, á hendi þriggja aðila. Til að bæta þjónustu við aldraða Mosfellinga í heimahúsum svo þeir hafi raunverulegt val um búsetu og til auka yfirsýn og skilvirkni er samþætting nauðsynleg. Þessu ætlum við jafnaðarmenn breyta og stuðla þar með að aukinni farsæld þeirra sem þjónustunnar njóta.

Það þurfti jafnaðarmenn í ríkisstjórn á sínum tíma til þess að hjúkrunarheimili risi í Mosfellsbæ og það þarf jafnaðarmenn í meirihluta í bæjarstjórnar Mosfellsbæjar til þess að bæta þjónustu við eldri borgara í bænum.

Það skiptir nefnilega máli hverjir stjórna. Settu X við S á kjördag.

Ólafur Ingi Óskarsson, skipar 2. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar
Elín Árnadóttir, skipar 4. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar

Hver ákvað þetta eiginlega!

Lovísa Jónsdóttir

Fyrir 4 árum gaf ég í fyrsta skipti kost á mér í sveitarstjórnarkosningum í Mosfellsbæ. Það má svo sannarlega segja að á kjörtímabilinu sé margt sem hefur komið mér á óvart.
Þrátt fyrir að vera löglærð og telja mig vita nokkurn veginn hvernig skipulagi sveitarstjórnamála væri háttað, þá hvarflaði ekki að mér að það væri jafnmikill lýðræðishalli í bænum okkar og raun ber vitni.

Heilmikill kostnaður
Lögum samkvæmt ber öllum sveitarfélögum að vera með nefndir sem eiga að bera ábyrgð á sínum málaflokkum. Skóla- og leikskólamál eru hjá fræðslunefnd, velferðarmál hjá fjölskyldunefnd og svo framvegis. Skipting nefndarsetu á milli framboða fer eftir sömu reglu og úthlutun sæta í bæjarstjórn í kosningunum. Þannig er tryggt að í nefndunum sitji bæði fólk frá þeim flokkum sem mynda meirihluta og þeim sem eru í minnihluta. Þetta á að tryggja að lýðræðisleg umræða fari fram inni í nefndunum sem eiga að taka ákvarðanir um málefni bæjarins.

Allt nefndarfólk fær svo greidd laun, formaðurinn að lágmarki tvöfalt meira en aðrir nefndarmenn. Kostnaðurinn við nefndirnar er fastur, hvort sem nefndirnar funda eða ekki, þannig að nefndarfólk fær föst laun auk greiðslu fyrir hvern fund. Í lýðræðis- og mannréttindanefnd var ekki haldinn fundur frá því í september 2019 þangað til í maí 2020 en nefndarmenn fengu engu að síður föstu launin greidd.
Auðvitað er það eðlilegt að fólk fái greiðslur fyrir störf sín en það er þá líka eðlileg krafa íbúa Mosfellsbæjar sem borga fyrir þessa vinnu að nefndirnar virki eins og þær eiga að gera.

Reykfylltu bakherbergin
En hvað er það þá sem ekki virkar. Dagskrá nefndanna er ákvörðuð af formönnum í samstarfi við starfsfólk bæjarins. Áður en rætt er um málefnin í nefndunum þá er búið að halda svokallaða meirihlutafundi. Það er á þessum fundum sem ákvarðanir eru teknar.
Á þessum fundum, þar sem fulltrúar meirihlutans hittast og kryfja málin, stundum með aðstoð starfsmanna, er niðurstaðan ákveðin. Þetta þýðir að þegar formlegir nefndarfundir eru haldnir, þá er hluti nefndarfólks þegar búið að ræða málin og jafnvel fá meiri upplýsingar en aðrir. Í þessu felst lýðræðishallinn.

Almannahagsmunir umfram sérhagsmuni
Auðvitað er það eðlilegt að meirihlutinn taki ákvarðanir en jafnræðisreglan er sú að allir fulltrúar eiga rétt á sömu upplýsingum. Þegar staðan er hins vegar sú að fulltrúar minnihluta geta ekki treyst því að hafa allar upplýsingar og þurfa að hafa frumkvæði að því að biðja um upplýsingar, jafnvel að giska á hvaða upplýsingum á að óska eftir, ólíkt fulltrúum meirihluta sem fá allar upplýsingar bornar á borð fyrir sig þá verður til lýðræðishalli.
Þetta fyrirkomulag býður upp á vantraust og að sérhagsmunir séu teknir fram yfir almannahagsmuni.
Ef að það er ekki vilji til þess að virða leikreglur lýðræðisins betur en þetta þá er það í raun mun heiðarlegra að hreinlega spara bæjarbúum kostnaðinn við nefndir bæjarins.

Við í Viðreisn teljum það mjög mikilvægt að lýðræðið sé virt. Það þýðir jafna þátttöku allra fulltrúa, bæði frá meirihluta og minnihluta. Það þýðir jafnan aðgang að upplýsingum og starfsmönnum. Það þýðir gagnsæi í allri ákvarðanatöku.

Þannig viljum við í Viðreisn vinna.

Lovísa Jónsdóttir

Listir og menning

Bjarki Bjarnason

Hvað er LOMM?
Listir og menningarlíf auðga tilveru okkar allra, hvort sem um er að ræða hreint glens og grín eða viðfangsefni um hinstu rök tilverunnar.
Í Mosfellsbæ eru mörg félög og einstaklingar sem sinna menningu og listum: fjöldi söngkóra, leikfélag, myndlistarfólk, tónlistarfólk, rithöfundar og fleiri.
Í vetur stofnaði listafólk og áhugafólk um menningarlíf félag hér í bæ sem heitir „Lista- og menningarfélag Mosfellsbæjar“ – skammstafað LOMM. Dagsetning fundarins hljómar skemmtilega: 22.2.2022 og einhver hafði á orði: „Með slíka dagsetningu að vopni getur þetta ekki klikkað!“
Á stofnfundinum spunnust meðal annars samræður um þá umgjörð sem Mosfellsbær skapar gagngert fyrir lista- og menningarlíf innan sveitarfélagsins. Hér á eftir verður fjallað stuttlega um þá hlið málsins.

Hlégarður
Félagsheimilið Hlégarður, sem var vígt árið 1951, hefur lengi verið miðstöð menningar- og félagslífs í Mosfellssveit. Síðustu árin hefur það verið ljóst að ráðast þyrfti í umfangsmiklar viðgerðir og endurbætur á húsinu svo það geti risið undir blómlegri starfsemi. Húsinu var lokað á meðan framkvæmdir stóðu yfir en núna er jarðhæðin tilbúin til notkunar og um síðustu helgi hélt GDRN, einn af bæjarlistamönnum Mosfellsbæjar, tónleika í húsinu. Á næstu árum verður ráðist í endurbætur á efri hæð hússins.

Bryndís Brynjarsdóttir

Hlégarður á sér merkilega sögu og er vel í sveit sett í jaðri höfuðborgarsvæðisins. Eftir endurbæturnar aukast möguleikarnir á nýtingu hússins að miklum mun, það verður eitt ef verkefnum bæjarstjórnar á næsta kjörtímabili að taka ákvörðun um hvernig notkun hússins og rekstrarformi þess verður háttað.

Menningarhús í miðbænum
Þegar unnið var að skipulagi fyrir miðbæ Mosfellsbæjar á sínum tíma var ætlunin að byggja kirkju og menningarhús á lóð sem er við miðbæjartorgið. Efnt var til verðlaunasamkeppni um það verkefni og niðurstöður kunngjörðar árið 2009. Samkvæmt þeim var meðal annars gert ráð fyrir kirkju, sýningarsal og bóksafni á lóðinni.
Nú hafa mál þróast þannig að ljóst er að ekki verður byggð kirkja á þessum stað. Þess vegna opnast nýir möguleikar á nýtingu lóðarinnar sem er skilgreind fyrir menningarstarfsemi.

Stefna V-listans
Mosfellsbær hefur alla burði til þess að styrkja stöðu sína í lista- og menningarlífi höfuðborgarsvæðisins. Við teljum að það sé verkefni bæjaryfirvalda að móta metnaðarfulla umgjörð utan um hinar ýmsu listgreinar og menningarstarfsemi í bænum.
Í stefnuskrá V-listans fyrir komandi kosningar er lagt til að ráðist verði í heildarskoðun á nýtingu á þeim mannvirkjum sem ætluð eru fyrir lista- og menningarlíf hér í sveitarfélaginu. Einnig viljum við að teknar verði upplýstar ákvarðanir um hvaða byggingar muni rísa á lóðinni í miðbænum sem nefnd var hér að ofan.

Bjarki Bjarnason skipar 1. sæti V-listans í kosningunum 14. maí
Bryndís Brynjarsdóttir skipar 4. sæti listans

Skipulagsmál á mannamáli

Hjörtur Örn Arnarson

Orð eins og íbúalýðræði, þátttaka almennings og upplýsingaflæði eru mikið notuð og eru mjög jákvæð. En eru þetta bara orð sem notuð eru á tyllidögum? Sett í stefnuskrá og notuð af stjórnmálafólki sem sækist eftir atkvæðum?
Oft er það þannig en núverandi meirihluti D- og V lista hafa lagt áherslu á þessa þætti í skipulagsmálum sveitarfélagsins undanfarin ár. Við viljum gera enn betur á komandi kjörtímabili. En hvernig getum við aukið áhuga almennings enn frekar á t.d. skipulagsmálum?

Í nýlegri rannsókn sem gerð var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og fjallaði um samráð við almenning um skipulagsmál kemur margt áhugavert fram. Þar kemur fram að fólk eldra en fimmtugt er virkast og auðveldast að ná til þeirra en erfiðast er að ná til ungs barnafólks.
Fagaðilar voru margir hverjir sammála um að ungt fólk væri sá hópur sem einna eftirsóknarverðast er að eiga í samtali við um skipulags- og framkvæmdamál, því yngri kynslóðin væri oft opnari en þeir sem eldri eru. Hún væri oftar tilbúnari til að hlusta á rök en fólk á öðrum aldursskeiðum. Þá hefði ungt fólk margt mikilvægt til málanna að leggja. (Guðný Gústafsdóttir, Stefán Þór Gunnarsson og Ásdís A. Arnalds (2021). Samráð við almenning um skipulagsmál. Reykjavík: Félagvísindastofnun Háskóla Íslands).

Til að vekja áhuga almennings á m.a. skipulagsmálum þarf að setja efni fram á þann hátt að bæði sé auðvelt að sækja og skilja upplýsingar sem settar eru fram. Flestir hafa áhuga á því hvað framkvæmdir og skipulag hafa á sitt nærumhverfi.
Við á lista Sjálfstæðisflokksins viljum bæta enn frekar upplýsingaflæðið, setja upplýsingar um skipulag, verklegar framkvæmdir o.þ.h. fram á nútímalegan hátt og á „mannamáli“ til að auka áhuga og athygli fólks á þessum málum. Það skilar sér vonandi í meiri þátttöku almennings sem leiðir til meiri sáttar um bæjarmálin.

Hjörtur Örn Arnarson
Höfundur skipar 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar

Setjum börnin í forgang

Kolbrún Ýr Oddgeirsdóttir

Það eru forréttindi að búa í Mosfellsbæ, hér eru falleg græn svæði sem bæta lífsgæði bæjarbúa.
Það er VG ofarlega í huga að vernda og viðhalda bæjarbragnum og náttúrunni hér en það þarf jafnframt að horfa á grænu svæðin sem velferðar- og heilbrigðismál. Aðgengismál þurfa að vera í forgangi og tryggja þarf að allir bæjarbúar hafi aðgang að grænum svæðum, enda lýðheilsubætandi. Bæta þarf hjólastólaaðgengi og sjá til þess að aðgengi ólíkra hópa sé í fyrirrúmi.

Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag, hér er gott að búa með börn. Á síðastliðnu kjörtímabili hafa miklar framfarir orðið í bænum, leikskólaplássum var fjölgað, börn frá 12 mánaða aldri fá leikskólapláss ásamt því að leikskólagjöld hafa lækkað umtalsvert síðustu árin.
Vinstri græn vilja styðja enn betur við foreldra sem bíða eftir leikskólaplássi, við leggjum til að styrkur sem nemur brú milli dagforeldris og leikskóla geti farið beint til foreldra á meðan beðið er eftir plássi. Jafnframt viljum við halda áfram að lækka leikskólagjöld og að endingu verði leikskólar í Mosfellsbæ gjaldfrjálst skólastig.

Við viljum stuðla að því að öll börn sitji efnahagslega við sama borð, meðal annars með gjaldfrjálsum skólamáltíðum og hærri frístundastyrk. VG vill bæta velferðarkerfi Mosfellsbæjar og setja velferð barna í forgang.

Kolbrún Ýr Oddgeirsdóttir,
skipar 2. sæti V-listans í kosningunum 14. maí

Ímynd Mosfellsbæjar – Hver er sérstaðan?

Auður Sveinsdóttir

Þegar spurt er hver eru sérkenni Mosfellsbæjar geta svörin orðið með ýmsu móti, til dæmis:
Þjóðvegur nr. eitt og leiðin til Þingvalla liggja þvert í gegnum bæinn.
Mosfellsbær er „úthverfi Reykjavíkur“.
Mosfellsbær er svefnbær!
Svörin geta líka verið allt önnur, í samræmi við viðhorf og upplifun hvers og eins. En burtséð frá því er full þörf á því að við Mosfellingar spyrjum okkur hver ímynd og séreinkenni Mosfellsbæjar eigi að vera í bráð og lengd.

Hvað er staðarvitund?
Með sjö ára búsetu hér í bænum kynnist ég staðháttum sífellt betur og það styrkir jafnframt vitund mína um þá möguleika sem geta aukið lífsgæði okkar Mosfellinga.
Sérhver staður hefur sín sérkenni – eitthvað sérstakt/einstakt fram yfir aðra, þetta má kalla staðaranda og staðarvitund og tengist til dæmis:
• umhverfi – landslagi – (strönd – fell – dalir – stöðuvötn).
• sögu – menningarminjum – listum – gömlum atvinnuháttum.
Staðarandi/staðarsjálfsmynd geta aukið vellíðan íbúanna, þeir tengjast betur bæjarfélaginu og verða meðvitaðri um sérstöðu sinnar heimabyggðar. Sterkur staðarandi er einnig aðdráttarafl fyrir ferðamenn og fyrirtæki og eykur áhuga þeirra á sveitarfélaginu. Veikan staðaranda er hægt að styrkja með góðri og meðvitaðri hönnun og skipulagi þar sem sóknarfæri og aðstæður byggja meðal annars á sögu, menningu og umhverfi og geta orðið að ákveðinni sérstöðu.
Mosfellsbær hefur sérstöðu innan höfuðborgarsvæðisins með afar fjölbreytta náttúru, landslag og menningarminjar,innan sinna marka, til dæmis fellin, heiðarlandslag, strandlengju í Leiruvogi og stöðuvötn upp til heiða.
Í mínum huga eru ótal tækifæri til að byggja upp og efla enn frekar sterka staðarvitund/staðaranda í Mosfellsbæ, tæki til þess eru til dæmis:
• Orkuskipti síðustu aldar með nýtingu jarðhitans – það var framkvæmd á heimsvísu sem er jafnframt innlegg í loftslagsumræðu nútímans. Nýlega undirrituðu Mosfellsbær og Veitur viljayfirlýsingu um uppbyggingu jarðhitagarðs í Reykjahverfi til að halda þessari merku sögu á lofti.
• Uppbygging ullariðnaðar á Álafossi með nýtingu vatnsorkunnar var mikið og sögulegt frumkvöðlastarf.
• Margar merkar sögulegar staðreyndir tengjast Mosfellsbæ og fjöldi menningarminja er hér að finna. Þar má nefna þjóðleiðir á Mosfellsheiði, Hafravatnsrétt, hersetuna, ylrækt, gamla búskaparhætti
• Listsköpun af margvíslegum toga.
• Náttúruminjar og friðlýst svæði.
• Fjölbreytileiki landslagsins frá fjöru til fjalla og um leið fjölbreyttir útivistarmöguleikar.

Hafravatnssvæðið
Hafravatn og nágrenni þess í sunnanverðum Mosfellsbæ er útvistarsvæði sem auðvelt er að tengja við staðarvitund og hina metnaðarfullu umhverfisstefnu Mosfellsbæjar. Útivistarmöguleikar á Hafravatnssvæðinu eru fjölmargir, hér verða nokkrir nefndir til sögunnar:
• Gönguleiðir, hjóla- og reiðleiðir sem tengjast aðliggjandi svæðum, bæði fellum, Mosfellsheiði og þéttbýli bæjarins.
• Vegur („útivistarvegur“) meðfram vatninu með 30–40 km hámarkshraða, einnig leið fyrir gangandi og hjólandi umferð, auk reiðleiðar.
• Aukið aðgengi að vatninu.
• Siglingar (kajak, kanó, seglbátar o.fl.).
• Silungsveiði, sumar og vetur.
• Svifdrekar.
• Náttúruskoðun um fjölbreytt landslag: Skóglendi, votlendi og fjörur.
• Menningarminjar, til dæmis Hafravatnsrétt og gullnáman í Þormóðsdal.
• „Græni trefillinn“ er samheiti yfir útivistar- og skógræktarsvæði í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, þar á meðal Mosfellsbæjar.
• Baðaðstaða við Hafravatn sem samþykkt var í íbúakosningunni „Okkar Mosó“.
Mikilvægt er að fá skýra stefnu um nýtingu Hafravatnssvæðisins til að það geti orðið að „paradís“ útivistar á höfuðborgarsvæðinu og um leið hluti af sterkum staðaranda Mosfellsbæjar. Sú stefna myndi tengjast aðalskipulagi bæjarins og þeim markmiðum sem sett hafa verið fram í samræmi við heilsueflandi samfélag, útivist, lýðheilsu og loftslagsmál.
Ég legg til að tekið verði upp samtal milli ólíkra hagsmunaaðila við Hafravatn sem leiði til stefnumörkunar og verði grunnur að útivistardeiliskipulagi svæðisins. Í stefnuskrá V-listans fyrir komandi kosningar er lögð áhersla á að styrkja enn frekar staðarvitund Mosfellsbæjar og efla útivistarmöguleika Hafravatnssvæðisins með tengingu við fjöll og dali þar í grenndinni.

Auður Sveinsdóttir, skipar 8. sæti
V-listans í kosningunum 14. maí

Dýravelferð

Helga Diljá Jóhannsdóttir

Fjöldi fólks nýtur návist dýra og þess að eiga dýr. Fjölmargir umgangast dýr í tengslum við störf sín, eru bændur, ræktendur dýra eða starfa með dýrum, sbr. lögregla með sporhunda eða blindir í leik og starfi með leiðsöguhunda. Einnig eru margir með gæludýr sér til ánægju og yndisauka, fjölskyldumeðlim sem skiptir þá miklu.
Við sem dýrkum dýrin viljum tryggja velferð þeirra. Við viljum að þau lifi og dafni við hin bestu skilyrði. Um velferð dýra gilda ákvæði laga nr. 55/2013. Markmið laganna eru m.a. að dýr, sem og skyni gæddar verur, séu laus við: Vanlíðan; Hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsl og sjúkdóma.

Í Mosfellsbæ er einnig fjöldi einstaklinga sem stundar hestamennsku og eiga gæludýr. Í Mosfellsbæ er m.a. heimilt að halda allt að 6 hænur en hanar eru óheimilir. Slíkt leyfi er veitt til 5 ára í senn. Líkur eru á að hávaðinn í hönum valdi þessu.
Aðeins eitt hundagerði, um 1500 fermetrar, er í Ullarnesbrekkum í annars ágætu umhverfi Ævintýragarðsins hér í bænum. Ég vil sjá að fjölgað verði hundagerðum í Mosfellsbæ. Það mætti t.d. koma upp hundagerði við fallegt umhverfið á Leirvogstungumelum, á Blikastöðum og á gönguleiðum við Helgafellshverfi svo einhver dæmi séu nefnd. Mikilvægt er að hundar, sem annars eru mikið í bandi, fái hreyfingu og að eigendur geti leitað á svæði þar sem dýrin eru örugg. Það er hluti að dýravelferð.
Einnig þurfum við að gæta að því að ónæði verði ekki af dýrahaldi með því að tryggja að hundar gangi ekki lausir í þéttbýli eða séu eftirlitslausir. Í dag verða bæjarbúar í Mosfellsbæ að leita til Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness sem staðsett er í Hlíðarsmára 14 í Kópavogi til skráningar. Það kom til eftir að ákveðið var að leggja niður Heilbrigðiseftirlit Kjósasvæðis sem Mosfellsbær var aðili að og var áður staðsett hér í bænum. Sé ætlunin að skrá hunda hér í Mosfellsbæ skal því nú leitað til þessa eftirlits í Kópavogi.
Sérstakt fagráð, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra staðfestir skipun á, er Matvælastofnun til ráðuneytis um stefnumótun og einstök álitaefni er varða málefni á sviði velferðar dýra. Í þessu fagráði sitja fimm menn og skal það skipað fagfólki á sviði m.a. dýralækninga, búfræði og siðfræði.

Ég er sjálf hundaeigandi og mér þykir afskaplega vænt um dýr enda valdi ég mér starfsvettvang við umönnun dýra. Með því að umgangast dýr geta margir aukið lífsgæði sín til muna, aukið hreyfingu og heilsueflingu. Því er mér mikið í mun að í Mosfellsbæ verði komið upp „Degi dýranna“ þar sem skapaður yrði vettvangur fyrir dýraeigendur og almenning til að kynnast betur hvor öðrum og heim dýranna. Þar gætu fyrirtæki á sviði dýravelferðar, dýralæknar og aðrir, kynnt störf sín og þjónustu og jafnvel væri hægt að bjóða uppá fræðslu um umönnun og umgengni dýra. Einnig gætu bændur, sem starfa í bænum, kynnt starfsemi sína.
Með slíkum viðburði mætti einnig koma á framfæri upplýsingum til eigenda svo auka megi velferð dýra.

Helga Diljá Jóhannsdóttir, dýralæknir
Skipar 4. sæti á lista Miðflokksins fyrir næstkomandi sveitarstjórnarkosningar – Fyrir lifandi bæ

Erum við ekki öll Vinir?

Katarzyna Krystyna Królikowska

Ég heiti Katarzyna Krystyna Króli­kowska og skipa 3. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar.
Ég er kölluð Kata og er af pólskum uppruna, flutti til Íslands og í Mosfellsbæ 2006 og fékk íslenskan ríkisborgararétt 2013.
Ég er gift Piotr Kólikowski, sem er smiður, og við eigum við eitt barn og búum í Grundartanga.
Ég er verkfræðingur að mennt og starfa sem þjónustustjóri hjá Sólar ehf. en var áður starfsmaður hjá íslenskum textíliðnaði, Ístex hf., í Mosfellsbæ í 13 ár.
Áhugamálin eru að ganga á fjöll, og tek ég hundinn minn iðulega með í þær ferðir, og svo spila ég blak með Aftureldingu.
Mín helstu áherslumál í sveitarstjórnarmálum eru félags- og velferðarmál.
Saman getum við gert meira. Erum við ekki öll Vinir?
Nazywam sie Katarzyna Krystyna Krolikowska i jestem 3 na liscie w Przyjaciolach Mosfellsbær do samorzadu w Mosfellsbær. Moimi zamierzeniami sa kwestie socjalne spolecznosci obcego pochodzenia w naszym miescie.
Razem mozemy zrobic duzo wiecej.

Katarzyna Krystyna Królikowska

Lítur Mosfellsbær undan?

Anna Sigríður Guðnadóttir

Í Úkraínu geisar stríð. Stríð sem fylgir eyðilegging, hörmungar, sorg, dauði og fólksflótti. Flóttafólk streymir inn í nágrannaríkin í Evrópu, aðallega konur og börn.
Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum koma að meðaltali 20 flóttamenn á dag hingað til lands frá stríðshrjáðri Úkraínu. Nú þegar eru komin vel á sjötta hundrað manns og þann 31. mars höfðu 520 sótt um vernd á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum UNICEF, hafa 60% barna í Úkraínu flúið heimili sitt, 60 prósent!

Tillagan
Undirrituð lagði fram tillögu í bæjarráði Mosfellsbæjar í byrjun marsmánaðar um að bærinn snéri sér til Flóttamannanefndar og byðist til að taka þátt í að taka á móti flóttamönnum frá Úkraínu enda hafði nefndin biðlað til sveitarfélaga í fjölmiðlum.
Með þessari tillögu vildi ég gera mitt til að Mosfellsbær skipaði sér í fremstu röð sveitarfélaga í landinu þegar kemur að varðstöðu um mannúð og mannréttindi. Að Mosfellsbær axlaði sína samfélagslegu ábyrgð þegar þjóðin stendur frammi fyrir stórum úrlausnarefnum á sviði mannúðar og mannréttinda.

Afgreiðslan
Afgreiðsla bæjarráðs fólst í að óska eftir minnisblaði um málið. Svar meirihlutans við þessari tillögu var að fá minnisblað um að Mosfellsbær sé að móta sér stefnu í málaflokknum. Engin leið er að skilja þessa afgreiðslu öðru vísi en svo að flóttafólk, stríðshrjáð heimilislaust fólk, konur og börn verði bara að bíða eftir að þeirri stefnumótun ljúki áður en Mosfellsbær getur ákveðið hvort, hvernig eða hvenær hann tekur þátt.
Það er verst að rússneska innrásarliðið veit ekki af þessari stefnumótunarvinnu svo það geti hægt á árásaraðgerðum sínum.

Nágrannasveitarfélög
Nokkur fjöldi íslenskra sveitarfélaga hafa lýst sig viljug til að taka við fólki, til lengri og skemmri tíma, og standa viðræður yfir milli þeirra og ríkisvaldsins og Rauða krossins um fyrirkomulag.
Þegar þessi grein er skrifuð eru tvö sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sem skera sig úr og eru ekki í þessum hópi sem er verið að semja við. Annað þeirra er heimabær okkar.

Af hverju?
Hvað veldur þessari afstöðu Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins? Tvær skýringar koma upp í hugann. Fyrri er sú að það sé hvaðan þessi tillaga kom sem valdi þessu sinnuleysi Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins.
Hin skýringin er að meirihlutinn telji sér bara ekki koma við hvað verður um konur og börn sem flúið hafa grimmdarlega innrás í heimaland sitt og leitað hingað til Íslands eftir skjóli.
Ég held að það sé fyrri skýringin en mikið ósköp er hún fáfengileg.

Anna Sigríður Guðnadóttir,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Nýir vendir sópa best

Stefán Ómar Jónsson

Framboðslisti Vina Mosfellsbæjar var samþykktur á fundi félagsins þann 28. mars síðastliðinn.
Kynslóðaskipti verða í forrystusveit Vina Mosfellsbæjar þar sem undirritaður oddviti listans síðustu fjögur ár færir sig lítið eitt aftar á framboðslistanum að eigin ósk. Reynsla mín í sveitarstjórnarmálum hverfur ekki á braut heldur mun ég veita nýjum Vinum Mosfellsbæjar stuðning og tryggja yfirfærslu þekkingar.

Það er nauðsynlegt að þeir sem gegna forystu í pólitísku starfi þekki hvenær tími er kominn til endurnýjunar. Breytingar á forrystusveit Vina Mosfellsbæjar á þessum tímapunkti eru að mínu viti skynsamlegar og liður í því að Vinir Mosfellsbæjar verði góður valkostur til framtíðar.

Ólafur heitinn Jóhannesson fyrrum forsætirráðherra var inntur eftir því við myndun sinnar fyrstu ríkistjórnar hverju það sætti að innan borðs í ríkisstjórninni væru nýir og ungir ráðherrar. Svar Ólafs var á þessa leið „Nýir vendir sópa best”. Það voru orð að sönnu og nýju ráðherrarnir stóðu sig með prýði.
Vinir Mosfellsbæjar ganga nú til sveitarstjórnarkosninga með sterkan og endurnýjaðan lista. Vinir Mosfellsbæjar munu kappkosta að reka kosningabaráttuna nú sem fyrr af heiðarleika þar sem farið verður í boltann en ekki manninn.
Erum við ekki öll Vinir?

Stefán Ómar Jónsson,
bæjarfulltrúi vina Mosfellsbæjar

Tökum samtalið

Sævar Birgisson

Sem íbúar í bæjarfélagi þá höfum við öll skoðanir á einhverjum málefnum er varða bæinn okkar. Hvort sem það tengist skipulaginu á nýjum stíg í hverfinu eða útdeilingu á leikskólaplássi fyrir barnið þitt.
Ef þú sem íbúi hefur skoðun sem þú telur að geti komið að gagni þá skaltu láta í þér heyra. Eins frá sjónarhóli þess frábæra fólks sem starfa hjá sveitarfélaginu og sinna daglegri starfsemi í bænum okkar má gera ráð fyrir að þau hafi skoðanir á ýmsu sem hægt væri að gera betur. Það sama gildir um aðra hagsmunaaðila sem sjá tækifæri til úrbóta. Látið rödd ykkar heyrast.
Við viljum að á okkur sé hlustað og að við upplifum okkur sem mikilvæg. Við búum öll saman í bæjarfélaginu og viljum auðvitað að okkur og öðrum íbúum líði vel og allir þrífist eins og best verður á kosið. Við þurfum að eiga samskipti og stuðla að því að þau séu uppbyggileg og jákvæð og til þess fallin að gera bæinn okkar að enn betri stað til að búa á.
Þegar kemur að góðri stjórnun, samstarfi og samvinnu almennt eru markviss og uppbyggileg samskipti lykilatriði. Í sumum málum getur það beinlínis hamlað framþróun að hunsa eða leitast ekki eftir skoðunum hagsmunaaðila. Það getur oft á tíðum fært mál í verri farveg og jafnvel sett þau aftur á byrjunarreit.
Það er til að mynda ekki skynsamleg ákvörðun að leggja hjólastíg og reiðstíg hlið við hlið, það er ekkert sjálfsagt mál að allir sjái vandamálið við það en þeir sem stunda hestamennsku væru fljótir að benda á það væri ekki ákjósanlegt.

Bæjarfulltrúar starfa jú í umboði kjósenda, sem eru íbúar bæjarins. Þeim ber því skylda til að vinna ætíð með hagsmuni íbúa að leiðarjósi. Til þess að það geti gengið sem best þurfum við að vera dugleg að taka samtalið.

Sævar Birgisson
3. sæti á lista Framsóknar í Mosfellsbæ

Friðlýsing Leiruvogsins

Úrsúla Jünemann

Eitt af mest spennandi svæðum í Mosfellsbænum er Leiruvogurinn. Í hann renna 4 ár: Leirvogsá, Kaldakvísl, Varmá og Úlfarsá. Þetta svæði býður upp á skemmtilega útivist við allra hæfi: göngu, skokk, hjólreiðar, golf og hestamennsku.

Góðir stígar gera fólki með hreyfihömlum einnig kleift að njóta útiverunnar. Áhugamenn um fuglalíf finna varla betri stað til skoðunar því þar eru fuglar allan ársins hring, bæði mismunandi stórir hópar og sjaldgæfar tegundir. Leirurnar eru mikilvæg fæðuuppspretta fyrir staðfugla, farfugla og umferðafugla sérlega vor og haust.
Svona náttúruperlur ber að varðveita og vernda fyrir ágengi manna sem kann að valda raski og mengun.

Núna liggja fyrir drög að friðlýsingu Leiruvogs sem nær bæði yfir landið í Mosfellsbæ og Reykjavík. Samstarfshópur um friðlýsingu Blikastaðakróar og Leiruvogs fundaði þann 1. mars. Vonandi er að koma skrið á þetta ferli og sátt um útfærslu þess. Í fundargerð Umhverfisnefndar Mos. frá 24. mars 2022 má fræðast um þetta nánar.

Og svo að fyrirhugaða friðlýsta svæði er að mestu leyti fjara og sjávarbotn þá ber einnig að gæta þess að mengun berst ekki í voginn utan frá. Sem dæmi ætla ég að nefna hrauka af efni sem féllu til við götusópun að vori til sem einu sinni voru sturtað niður mjög nálægt friðlandinu að Varmárósum.
Hestaskítur á ekki að fara í grennd við fjöruna heldur frekar á landsvæði sem menn ætla að græða upp og nota til skógræktar. Og fjúkandi plasttætlur frá heyböggunum ættu að heyra sögunni til. Auðvitað á að vakta reglulega árnar sem renna í voginn.

Ég vona að Mosfellsbær muni bera gæfu til þess að vinna með heilum hug í samstarfi við Reykjavíkurborg að friðlýsingu Leiruvogsins.

Úrsúla Jünemann