Forréttindi að starfa með eldri borgurum

Markmið félagsstarfs eldri borgara í Mosfellsbæ er að fyrirbyggja félagslega einangrun aldraðra og finna hæfileikum, reynslu og þekkingu þátttakanda farveg. Ferðalög, handmennt, hreyfing, kórstarf, listsköpun og spilamennska eru dæmi um starfsemina.
Forstöðumaður félagsstarfsins er Elva Björg Pálsdóttir tómstunda- og félagsmálafræðingur, hún segir að í félagsstarfinu sé ávallt stefnt að því að auka fjölbreytni bæði í námskeiðshaldi og hópstarfi þannig að sem flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

Elva Björg er fædd á Þingeyri við Dýrafjörð 7. mars 1975. Foreldrar hennar eru Jóhanna Ström húsmóðir og Páll Björnsson skipstjóri. Elva á þrjú systkini, Jónínu f. 1966, Viktor f. 1968 og Birnu f. 1980.

Heppin að eiga góðar minningar
„Ég er alin upp á Þingeyri við fallegasta fjörð landsins, Dýrafjörð. Það eru mikil forréttindi að hafa fengið að alast upp úti á landi, mikið frjálsræði og allir pössuðu vel hver upp á annan.
Á þessum árum bjuggu um 500 manns í þorpinu en það hefur verið talsverð fólksfækkun síðan þá. Snjóavetur voru miklir og við fórum ekki mikið á milli byggðarlaga en nú er búið að byggja bæði brýr og göng svo allt er þetta orðið auðveldara.
Ég er svo heppin að eiga bara góðar æskuminningar, ég á góða fjölskyldu og vini. Ég gat oft verið stríðin og var dugleg við að vera leiðinleg við yngstu systur mína sem fór oft í fýlu út í mig og fór þá út á kletta sem voru við húsið okkar og tók með sér ferðatösku og allt. Þetta fannst mér alltaf afar fyndið en það skal taka fram að við erum bestu vinkonur í dag,“ segir Elva og brosir.

Góður tími á Núpi
„Ég gekk í grunnskólann á Þingeyri, þar lék maður við krakka á öllum aldri því árgangarnir voru misstórir. Það voru um 100 krakkar í skólanum og í mínum bekk vorum við fimm.
Þegar ég var fimmtán ára þá urðum við að fara í heimavistarskólann á Núpi til að klára 10. bekkinn en skólinn er staðsettur hinum megin í firðinum. Það er auðvitað skrítið til þess að hugsa að hafa farið svona ung að heiman en mér fannst það aldrei neitt tiltökumál, það var ekkert annað í boði. Þarna var auðvitað margt brallað misgáfulegt eins og að fara í kökuslag í matsalnum eða vatnsslag á heimavistinni og eftir á að hyggja var þetta ekki gáfuleg iðja. Frá Núpi á ég mínar bestu æskuminningar, ég kynntist yndislegum krökkum og kennurum alls staðar að á landinu. Þar kynntist ég einnig eiginmanni mínum honum Finnboga og við höfum verið saman allar götur síðan.
Á sumrin vann ég í sjoppunni í Kaupfélaginu en ég starfaði einnig í saltfiskverkun og á sjúkrahúsinu á Patreksfirði.“

Ætlaði að verða gullsmiður
Ég spyr Elvu hvað hún hafi farið að gera eftir útskrift úr gagnfræðaskóla? „Ég flutti suður og fór í Iðnskólann í Reykjavík og hóf nám í grunndeild málmiðna því ég ætlaði í gullsmíði. Ég hætti svo í því og kláraði tanntækninám við Fjölbrautaskólann í Ármúla en varð svo stúdent af hönnunarbraut frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Leið mín lá síðan í Háskóla Íslands þaðan sem ég kláraði tómstunda- og félagsmálafræði og nú er ég hálfnuð í námi í öldrunarfræðum við sama skóla.“

Þetta var okkur þungbær reynsla
Eiginmaður Elvu Bjargar heitir Finnbogi Helgi Snæbjörnsson ættaður frá Patreksfirði. Hann er menntaður vélfræðingur og starfar sem vélstjóri á frystitogara. Þau eiga fjóra syni, Alexander Almar f. 1995, Ágúst f. 2001 l. 2001, Aron Atla f. 2002 og Alvar Auðun f. 2007.
„Ég var komin tæpa sjö mánuði á leið þegar ég þurfti að fæða son okkar en hann fæddist andvana, við skírðum hann Ágúst. Þetta var okkur hjónum erfið og þungbær reynsla en saman komumst við í gegnum þetta ásamt góðri aðstoð fjölskyldu og vina þó að þetta auðvitað grói aldrei. Við eigum einn engil á himninum sem passar okkur fjölskylduna vel og hefur kennt okkur hversu dýrmætt lífið er.
Við erum mjög samrýmd fjölskyldan og okkur finnst afar gaman að ferðast bæði innanlands sem utan og við sækjum mikið í heimahagana vestur á firði. Við erum líka dugleg að fara í göngutúra með hundana okkar og skoða hér nokkur fell í leiðinni.
Ég hef svo nýtt tímann vel í alls kyns handavinnu, mér finnst t.d ótrúlega gaman að renna leir og skapa í keramiki. Þess á milli skrepp ég á kaffihús höfuðborgarsvæðisins með systur minni og les gjarnan blöðin í leiðinni.“

Hjá okkur er gleði alla daga
Elva Björg hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina, afgreitt í sjoppu, verið verslunarstjóri, tanntæknir, dagmamma í Mosfellsbæ og var um tíma aðstoðarmaður iðjuþjálfa á Reykjalundi. Hún hóf störf sem leiðbeinandi í handavinnu í félagsstarfi aldraðra í Mosfellsbæ árið 2010 en tók svo við sem forstöðumaður árið 2013.
„Það eru sannkölluð forréttindi að vinna með eldri borgurum og ég nýt hvers dags,“ segir Elva brosandi. „Hér er ávallt stefnt að því að auka fjölbreytni bæði í námskeiðshaldi og hópstarfi þannig að sem flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.
Mitt starf er að vera fólkinu innan handar enda er ég fyrst og fremst að vinna fyrir þau. Þau eiga jafnan frumkvæði að því sem þau vilja gera og í sameiningu setjum við upp skemmtilega dagskrá og hjá okkur er gleði alla daga.
Við erum með góða aðstöðu á Eirhömrum en starfsemi okkar nær einnig út fyrir húsakynnin. Hreyfing er það langvinsælasta hjá okkur í dag enda kynslóðirnar að breytast, fjölbreytnin að aukast og kröfurnar í takt við tímann.“

Mosfellingur ársins 2021
Val á Mosfellingi ársins fer fram ár hvert þar sem lesendum Mosfellings gefst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykja verðugir að bera nafnbótina. Útnefningin er síðan kunngjörð í fyrsta tölublaði hvers árs.
Elva Björg var valin Mosfellingur ársins 2021 og var mjög snortin yfir þeim tíðindum enda átti hún alls ekki von á þeim. „Ég var fyrst og fremst mjög þakklát og tileinkaði öllum eldri borgurum í Mosfellsbæ þessa tilnefningu. Ég get sagt þér að það er ekki sjálfgefið að starfa við það sem gefur manni svona mikið í lífinu,“ segir Elva Björg brosandi er við kveðjumst.

Mosfellingum þykir vænt um Blik – Fengið frábærar viðtökur

Gulli, Grétar og Gústi hafa tekið við Blik Bistro í golfskálanum við Hlíðavöll.

Blik Bistro hefur nú opnað aftur eftir vel heppnaðar breytingar.
Nýir rekstraraðilar, þeir Ágúst Reynisson, Guðlaugur Frímannsson og Grétar Matthíasson, eða GGG veitingar, hafa tekið við staðnum og eru í skýjunum yfir frábærum móttökum eftir fyrstu dagana.
„Við opnuðum þann 1. desember eftir smá breytingar á staðnum. Við einblíndum á það að gera staðinn hlýlegri, hönnuðum nýtt barsvæði og fengum lýsingarhönnuð til að betrumbæta lýsinguna,“ segir Ágúst og tekur fram hversu mikið þeir félagar finna hvað Mosfellingum þykir vænt um Blik.

Fjölbreyttur matseðill
Þeir félagar hafa mikla reynslu úr veitingageiranum og hafa unnið lengi saman, þeir eru með skýra sýn á hvernig þeir vilja haga rekstri staðarins.
„Við erum með fjölbreyttan matseðil þar allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og á mjög samkeppnishæfu verði. Núna í desember bjóðum við upp á þriggja rétta jólaplatta með ýmsum réttum, plattarnir hafa hlotið alveg gríðarlegar góðar viðtökur. Við reynum að halda í „Blik-þemað“ sem Mosfellingar þekkja, léttur veitingastaður, kaffihúsafílingur yfir daginn og kokteilar á kvöldin,“ segir Guðlaugur.

Jólaglögg á aðventunni
Grétar sem er framkvæmda- og rekstrarstjóri segir að mikill metnaður ríki hjá þeim og margar hugmyndir í gangi.
„Við ætlum til dæmis að bjóða upp á jólaglögg á aðventunni, við viljum fá fólkið sem er að ganga hér um Blikastaðanesið inn í kaffi eða kakó og köku, við viljum að fólk geti komið hingað að horfa á íþróttaviðburði, á happy hour eða bara til að fá sér að borða.
Við munum líka hlusta á þörfina og reyna að verða við þeim óskum sem viðskiptavinirnir koma með. Þess má líka geta að við erum með flottan vínseðil og frábæran kokteilaseðil,“ segir Grétar sem er Íslandsmeistari barþjóna.
Þeir félagar bjóða Mosfellinga og nærsveitunga sérstaklega velkomna til að njóta staðarins í einstöku umhverfi og frábæru útsýni.

Gefa út bók um hersetuna í Mosfellssveit og á Kjalarnesi

Bandarískir hermenn gera við hitaveitulögn Helgafellsspítala við rætur Helgafells. Lögnin stóð á stöplum og var einangruð með sér­sniðn­um vikursteini sem bundinn var með vírneti.

Út er komin, á vegum Sögufélags Kjalarnesþings, bókin Hersetan í Mosfellssveit og á Kjalarnesi 1940-1944 eftir Friðþór Eydal.
Friðþór hefur ritað fleiri bækur um hernámsárin á Íslandi og þekkir mjög vel til aðbúnaðar hermanna á þessum tíma.
Mosfellssveit og Kjalarnes voru vettvangur mikilla umsvifa erlends herliðs á árum síðari heimsstyrjaldar. Herlið hafði með höndum strandvarnir og skyldi reiðubúið til sóknar gegn óvinaliði sem freistaði landgöngu á Vestur- eða Suðurlandi.
Víða um svæðið voru reistar búðir með fjölda bogaskála sem á ensku nefndust „barracks“ en landsmenn kölluðu bragga. Fáeinir braggar eru enn í notkun í Mosfellssveit og víða í sveitinni má sjá minjar um hersetuna.
Í bókinni er litið inn í vistarverur hermanna og aðbúnaði þeirra lýst; enn fremur eru verkstæði, spítalar og birgðageymslur skoðaðar. Einnig er komið inn á samskipti Íslendinga og hermanna. Í bókinni er dregin upp skýr mynd af umsvifum hersetunnar þegar um 10.000 hermenn höfðu aðsetur í Mosfellssveit.
Bókina prýða liðlega 170 ljósmyndir og nákvæm kort af herskálasvæðum. Margar ljósmyndanna hafa aldrei komið fyrir almenningssjónir.
Bókin varpar skýru ljósi á byggðir hermanna og skipulag varna landsins á þessum tíma. Bygging herskála hafði nokkur áhrif á skipulag Mosfellssveitar, ekki síst á Reykjalundarsvæðinu.
Bókin verður til sölu í Bónus og í Héraðsskjalasafninu.

HM og öflug liðsheild?

Þegar þetta er skrifað er ljóst að Argentína, Holland, England og Frakkland eru komin í 8-liða úrslit á HM. Ég er mikið að vinna í liðsheildarverkefnum þessa dagana, með vinnustöðum sem vilja efla fólkið sitt og fá það til að vinna enn betur saman undir stjórn hvetjandi leiðtoga.

HM kemur á allra besta tíma fyrir mig. Hver dagur á HM er krydd í liðsheildarvinnuna. Belgarnir eru eitt dæmi, rifrildi milli leikmanna í fjölmiðlum er ekki lýsandi fyrir öfluga liðsheild, enda eru þeir farnir heim með skottið milli lappanna, blessaðir. Portúgalir eiga möguleika á að komast í 8-liða úrslit með sigri á Sviss. Þeir eru taldir talsvert líklegri til sigurs, en leynivopn Sviss er hinn stórkostlegi portúgalski íþróttamaður Ronaldo – sem fyrir utan að vera mikill íþróttamaður er lítill liðsheildarmaður sem hugsar fyrst um sig og síðan um liðið. Og það á eftir að koma liði hans um koll, hvort sem það verður á móti Sviss eða í 8-liða úrslitunum. Mbappe, hins vegar, annar frábær íþróttamaður, virðist vera að njóta sín í botn með sterkri liðsheild Frakkana. Hann er einn af liðinu og spilar fyrir það, ekki sjálfan sig.

Vinnustaðir geta lært mikið af öflugum íþróttaliðum þegar kemur að því að byggja upp og viðhalda öflugri liðsheild. Íþróttalið geta sömuleiðis lært af góðum vinnustöðum þau gildi og aðferðir sem gefast best í daglegum samskiptum og samvinnu. Traust er alltaf lykilatriði. Grunnurinn sem allt annað byggir á. Ef ekki ríkir traust, er ómögulegt að byggja upp sterkt teymi og ná árangri saman. Og meira en það, skortur á trausti leiðir til vanlíðunar og óöryggis. Okkur líður best og gengur best í umhverfi þar sem allir treysta öllum. Þetta gildir um öll teymi. P.s. þakkir til þín góða kona á bílaplaninu fyrir utan JAKO á Krókhálsinum. Orðin þín hlýjuðu og eru mér hvatning.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 8. desember 2022

Huppa hefur opnað í Mosó

Kolfinna Rut verslunarstjóri Huppu í Mosfellsbæ. 

Á dögunum opnaði í Háholti 13 í Mosfellsbæ níunda ísbúð Huppu, en fyrsta útibú Huppu opnaði á Selfossi árið 2013.
„Við höfum lengi fundið fyrir eftirspurn eftir að opna Huppu í Mosfellsbæ. Þegar okkur bauðst svo þetta frábæra húsnæði þá slógum við til. Við erum að fá alveg ótrúlega góðar móttökur frá Mosfellingum og erum alsæl og þakklát fyrir það. Það er gaman að segja frá því að opnunardagurinn var sá stærsti frá upphafi Huppu,“ segir Telma Finnsdóttir, einn eiganda Ísbúðarinnar Huppu.

Níunda Huppubúðin
Ísbúðin Huppa er fjölskyldufyrirtæki sem hefur vaxið og dafnað frá opnun fyrstu Huppubúðarinnar. „Þegar við opnuðum fyrstu búðina þá ákváðum við að nefna hana eftir Huppu, frábærri mjólkurkú á bóndabæ ömmu og afa í fjölskyldu okkar. Við opnuðum svo fljótlega útibú í Álfheimunum í Reykjavík, ævintýrið hélt áfram og nú er svo komið að Huppa er á níu stöðum. Þar streymir einstakur Huppísinn kaldur og góður alveg eins og hann gerði í fyrstu Ísbúð Huppu á Selfossi.“

Frábært starfsfólk
„Við erum einstaklega heppin með mannauðinn hjá okkur. Þegar við auglýstum eftir starfsfólki voru viðbrögðin frábær, við héldum opinn viðtalsdag núna í október og það komu um 70 manns. Við erum komin með frábæran hóp af fólki sem við hlökkum til að vinna með og hlakkar jafnframt til að þjónusta Mosfellinga.
Takk Mosó fyrir viðtökurnar, Huppa er glöð að vera komin,“ segir Telma að lokum en opnunartími Huppu er kl. 14-22 alla virka daga og 12-23 um helgar.

Söngurinn mun alltaf fylgja mér

 

Diskódrottninguna Helgu Möller þarf vart að kynna enda löngu orðin ein ástsælasta söngkona þjóðarinnar. Ferill hennar hefur til þessa verið afar fjölbreyttur og lög hennar hafa átt miklum vinsældum að fagna.
Helga er hvað þekktust fyrir að syngja með dúettinum Þú og Ég ásamt Jóhanni Helgasyni en einnig fyrir að taka þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir Íslands hönd árið 1986 í Bergen í Noregi en þar söng Icy tríóið lagið Gleðibankinn eins og frægt er orðið.

Helga fæddist í Reykjavík 12. maí 1957. Foreldrar hennar eru þau Elísabet Á. Möller fv. framkvæmdastjóri Geðverndar og Jóhann Georg Möller fv. skrifstofustjóri hjá Johnson og Kaaber en þau eru bæði látin.
Helga á einn bróður, Árna Möller f. 1952.

Sá Surtsey byrja að gjósa
„Ég er alin upp á Sporðagrunni í Laugardalnum og það var yndislegt að alast þar upp. Dalurinn er nefnilega eitt stórt útivistarsvæði, hestar í haga, sundlaugin í göngufæri og alltaf eitthvað um að vera á fótboltavellinum. Á mínum uppvaxtarárum var mikið leikið úti við og það var farið í ýmsa leiki eins og yfir, fallin spýta, teygjó og snú snú.
Árið 1963 fórum við fjölskyldan í siglingu með Gullfossi til Kaupmannahafnar og Glasgow. Á heimleiðinni sigldum við fram hjá Vestmannaeyjum þar sem móðir mín er uppalin og við urðum vitni að því þegar Surtsey byrjaði að gjósa, þetta var stórkostleg sjón.“

Kom fram með kassagítarinn
„Ég gekk í Laugalækjarskóla og Laugarnesskóla og var í kór hjá Þóri Baldurssyni þegar ég var lítil, ég fékk að syngja einsöng með kórnum sem mér fannst mjög gaman. Ég kom síðar fram með kassagítarinn minn á skólaskemmtun og söng lög Janis Ian, Carol King og Joni Mitchell svo einhverjar séu nefndar. Það má eiginlega segja að ég hafi byrjað að syngja áður en ég gat talað, mamma sagði mér að ég hefði verið vön að syngja mig í svefn,“ segir Helga og hlær.
„Ég kláraði stúdentinn frá Verzlunarskóla Íslands og þar átti ég skemmtileg ár. Ég tók þátt í tónlistar-og leiklistarlífinu og var formaður nemendamótsnefndar í eitt ár. Á síðasta árinu mínu í menntaskóla var ég söngkona hljómsveitarinnar Celsíus.
Ég hef verið mjög ánægð með alla þá skóla sem ég hef gengið í, svo ég tali nú ekki um kennarana.“

Söng í flugfreyjubúningi
Það hefur löngum verið draumur ungra stúlkna að verða flugfreyjur og þar var Helga engin undantekning. Hún skellti sér á námskeið og fór í sitt fyrsta flug sumarið 1977.
Helga starfaði hjá Icelandair í 32 ár og var mest í áætlunarfluginu, bæði innanlands sem utan. Hún lét af störfum árið 2020 og hefur komist að því að það er líf eftir flugbransann og segist bíða spennt eftir því sem lífið hafi upp á að bjóða.
Ég spyr Helgu hvað standi upp úr á starfsferlinum? „Skemmtilegasta ferðin sem ég fór í var þegar ég fór sem kynnir til Norðurlandanna til að kynna Halifax í Kanada sem þá var að byrja. Við vorum viku í þessari ferð og sýningarnar voru haldnar að kvöldi til og þar voru flutt tónlistaratriði frá Nova Scotia. Þegar líða tók á ferðina þá veiktist einn söngvarinn, ég tjáði hljómsveitarmeðlimunum að ég væri söngkona og kynni orðið prógrammið og ég gæti mögulega hlaupið í skarðið sem ég og gerði. Þetta vakti mikla athygli, sérstaklega þar sem ég söng í flugfreyjubúningnum,“ segir Helga og brosir.

Þetta var töluvert átak
Eftir að Helga hætti að fljúga fór hún í nám við Háskólann á Bifröst sem nefnist Máttur kvenna, og útskrifaðist þaðan vorið 2021.
„Ég var að læra um stofnun og rekstur fyrirtækja því ég er að undirbúa mig vel til að geta látið drauma mína rætast, t.d ef mig langar til þess að stofna fyrirtæki,“ segir Helga.
„Það var töluvert átak fyrir mig að setjast aftur á skólabekk eftir svona langan tíma og fjarvinnan var mikil en allt hafðist þetta nú og þetta var skemmtilegt nám.“
Ég spyr Helgu hvort hún ætli að opna söngskóla í Mosó? „Mér finnst gott að hugsa til þess að geta farið út í sjálfstæðan rekstur og geta ráðið tíma mínum sjálf en það er jafnframt mikil binding en ætli ég svari þessu ekki með því að segja, það er bara aldrei að vita.“

Heilsuferðir til Póllands
Helga á þrjú börn, Maggý Helgu f. 1979, Gunnar f. 1987 og Elísabetu f. 1993 og þrjú barnabörn.
Helga nýtur þess að vera með fjölskyldu og vinum en hún er einnig dugleg að ferðast, fara á tónleika, spila golf, prjóna og lesa góðar bækur. Hún hefur einnig gaman af sjálfsrækt og er til dæmis búin að fara í margar Detox ferðir sem Jónína Benediktsdóttir bauð upp á. Nú er Helga sjálf að fara að leiða hópa í heilsuferðir til Póllands ásamt tveimur samstarfsfélögum og fyrsta ferðin verður farin í janúar 2023.

Þetta var ótrúleg upplifun
Helga á langan söngferil að baki og lög hennar hafa átt miklum vinsældum að fagna, svo ekki sé minnst á jólalögin. Við Helga rennum yfir ferilinn og ég spyr hana hvað standi upp úr? „Ætli það sé ekki þegar ég fór með þeim Eiríki Haukssyni og Pálma Gunnarssyni með Gleðibankann í Eurovision. Keppnin var haldin í Bergen í Noregi og við lentum í 16. sæti. Þetta var ótrúleg upplifun alveg hreint enda fyrsta lagið sem keppti í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir Íslands hönd.“

Alltaf til í að prófa eitthvað nýtt
„Ég hef verið að kenna söng í Söng­skóla Maríu Bjarkar sem mér finnst mjög skemmtilegt. Kenni nemendum 16 ára og eldri en áður kenndi ég aðallega krökkum. Auk þess að kenna söng þá er ég að koma fram sem söngkona. Ég syng á tónleikum, í brúðkaupum, við útfarir og í afmælisveislum og oft hef ég verið fengin sem leyni­atriði. Söngurinn mun alltaf fylgja mér,“ segir Helga og brosir sínu fallega brosi.
„Ég hef líka verið að taka að mér fararstjórn í ferðum erlendis og svo tek ég að mér ýmis önnur verkefni, er alltaf til í að prófa eitthvað nýtt.“
Ég spyr Helgu að lokum hvað sé fram undan? „Ég er að fara að koma fram á tónleikum Jóns Ólafssonar, Af fingrum fram, í Salnum í Kópavogi núna 24. nóvember.Þetta er svona bæði spjall og söngur og Elísabet Ormslev dóttir mín verður gestasöngvari. Jólahlaðborðin taka svo við og ég kem til með að syngja mest á Bryggjunni í Grindavík þetta árið. Þegar aðventan er gengin í garð, þá fyrst kemst maður í hátíðarskap,“ segir Helga og brosir.

 

Fjórir Mosfellingar í landsliðinu

Jason Daði, Róbert Orri, Ísak Snær og Bjarki Steinn.

Fjórir leikmenn, sem uppaldir eru hjá Aftureldingu, komu við sögu í tveimur vináttuleikjum A-landsliðsins Íslands í knattspyrnu á dögunum.
Fyrri leikurinn fór fram þann 6. nóvember þar sem Ísland tapaði 1-0 fyrir Saudi-Arabíu, síðari leikurinn var 10. nóvember við Suður-Kóreu en sá leikur tapaðist líka með einu marki.

Fyrstu skrefin á stóra sviðinu
Leikmennirnir, sem allir gengu í Lágafellsskóla, eru Jason Daði Svanþórsson, Róbert Orri Þorkelsson, Ísak Snær Þorvaldsson og Bjarki Steinn Bjarkason. Allir voru þeir að stíga sín fyrstu skref fyrir A-landsliðið nema Jason Daði.
Þessir efnilegu knattspyrnumenn eiga framtíðina fyrir sér en þess má geta að þeir Ísak Snær og Jason Daði eru nýkrýndir Íslandsmeistarar með Breiðabliki ásamt markmanninum Antoni Ara Einarssyni sem einnig var tilnefndur í landsliðshópinn en gaf ekki kost á sér að þessu sinni.

Atvinnumenn framtíðarinnar
Ísak Snær samdi nýverið við norska stórliðið Rosenborg, Róbert Orri leikur með Montreal í Kanada og Bjarki Steinn hefur verið í atvinnumennsku hjá ítalska liðinu Venezia síðastliðin tvö ár. Jason Daði er leikmaður Breiðabliks í Bestu deildinni og vitað er af áhuga erlendra liða á þessum efnilega leikmanni.

Fótbolti eða baksund?

Er fótboltinn að éta allar aðrar íþróttir? Eru of margir að æfa fótbolta og of fáir að æfa sund? Þetta eru góðar pælingar sem eiga rétt á sér og var kastað út í kosmósið af góðum Mosfellingi í síðustu viku. Ég hef sjálfur áhuga á mörgum íþróttum og hef prófað ýmsar. Byrjaði að æfa fótbolta, svo bættist körfuboltinn við og þessar íþróttir héldu mér uppteknum lengi vel. Ég hef prófað að æfa hokkí (á grasi), sjálfsvarnaríþróttir, klifur og alls konar líkamsrækt með misjöfnum árangri. Náði sem dæmi aldrei hokkíinu almennilega þrátt fyrir þokkalegustu viðleitni.

Mín skoðun varðandi vangavelturnar um að vinsældir fótboltans séu á kostnað annara íþróttagreina, er sú að krakkar og flestir fullorðnir sækja í að æfa það sem þeim finnst skemmtilegt. Flóknarara er það ekki. Og það er mikilvægara í þeirra huga að taka reglulega þátt í skemmtilegri hreyfingu í góðum félagsskap með jafningjum sínum en að verða Íslandsmeistari í íþrótt sem þau hafa ekki gaman af því að æfa.

Fótbolti er í dag vinsælasta íþróttagreinin hjá fjölgreinafélaginu Aftureldingu samkvæmt iðkendatölum félagsins fyrir árið 2021 en fimleikadeildin er ekki langt undan og virðist ef eitthvað er vaxa hraðar en fótboltinn. Aðrar greinar eins og t.d. körfubolti eru í hröðum vexti, sem er frábært. Það er jákvætt fyrir heilsueflandi bæjarfélag eins og Mosfellsbæ hversu margir vilja æfa íþróttir hjá aðal íþróttafélagi bæjarins. Það fjölgar líka í sunddeildinni, en fækkar milli ára í frjálsum íþróttum, karate og í hjóladeild Aftureldingar.

Það eru forréttindi að geta valið á milli ellefu skipulagðra íþróttagreina eins og krakkar í Mosfellsbæ geta í dag. Fyrir mér skiptir ekki máli hvaða íþróttagreinar krakkar vilja æfa, aðalmálið er að þau finni það sem þeim finnst skemmtilegast og að þau mæti reglulega. Það styrkir þau og eflir, líkamlega, andlega og félagslega.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 17. október 2022

Flottustu hrútarnir í sveitinni

Bergþóra á Kiðafelli með hreppaskjöldinn. Hafþór, Helgi og Jóhannes halda í hrútana.

Hrútasýning Sauðfjárræktarfélagsins í Kjós fór fram mánudaginn 17. október. Í félaginu eru sauðfjárbændur í Kjós, á Kjalarnesi og í Mosfellsbæ og kepptu þeir sín á milli um hver ætti besta hrútinn. Keppt var í nokkrum flokkum og fengu bændur stiguð og ómmæld lömb og veturgamla hrúta.
Sýningin fór fram á Kiðafelli og voru veitt verðlaun fyrir góðan árangur í sauðfjárrækt í fjórum flokkum. Sauðfjárdómarar frá RML sáu um mælingar og dóma á gimbrum og hrútum.
Með sigur af hólmi fór hrúturinn Gjafar frá Kiðafelli í eigu hjónanna Sigurbjörns Hjaltasonar og Bergþóru Andrésdóttur. Hreppaskjöldurinn eftirsótti verður því á Kiðafelli næsta árið.

Mislitir lambhrútar

Kollóttir hvítir lambhrútar
1. Lamb nr. 65 frá Kiðafelli. 88 stig
2. Lamb nr. 391 frá Kiðafelli. 87 stig
3. Lamb nr. 64 Kiðafelli. 85,5 stig

Mislitir lambhrútar
1. Lamb nr. 14 frá Miðdal, svartur og hyrndur. 88,5 stig
2. Lamb nr. 6 frá Miðdal, móflekkóttur og sívalhyrndur. 85,5 stig
3. Lamb nr. 268 frá Kiðafelli, svartflekkóttur og kollóttur. 86,5 stig

Hyrndir hvítir lambhrútar
1. Lamb nr. 25 frá Miðdal. 90 stig
2. Lamb nr. 15 frá Miðdal. 86,5 stig
3. Lamb nr. 136 frá Kiðafelli. 87,5 stig

Veturgamlir hrútar
1. 21-002 Gjafar frá Kiðafelli, grár og hyrndur. 90 stig
2. 21-004 Hallmundur frá Kiðafelli, hvítur og kollóttur. 87 stig
3. 21-011 Ylur frá Miðdal, hvítur og hyrndur. 88,5 stig

Útiveran heillar mig mest

Íslandsmótið í golfi fór fram á Vestmannaeyjavelli í sumar. Í karlaflokki fór Kristján Þór Einarsson úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar með sigur úr býtum en hann fór hringina þrjá á 204 höggum eða 6 undir pari vallarins.
Kristján Þór hefur notið mikillar velgengni á golfferli sínum en hann vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil aðeins 17 ára gamall.

Kristján Þór fæddist í Reykjavík 11. janúar 1988. Foreldrar hans eru þau Hrafnhildur Kristín Kristjánsdóttir aðstoðarkona tannlæknis og Einar Páll Einarsson rafvirki og flugvéla- og flugmódelasmiður. Hrafnhildur Kristín lést árið 1995.
Kristján Þór á fjögur hálfsystkini, Erlend Jón f. 1971, Steingrím Óla f. 1973, Hrefnu Sigurlaugu f. 1975 og Rakel Dögg f. 1979.

Rosa frægur fótboltakarl
„Ég ólst upp bæði í Kópavogi og í Mosfellsbæ og á ekkert nema góðar minningar frá báðum þessum stöðum. Maður var ævintýragjarn sem krakki og oftar en ekki var maður kominn langt í burtu frá heimilinu og stundum þurfti að leggja í leit til að finna mig.
Ég var einnig mikið í Vestmannaeyjum á mínum æskuárum en móðir mín er ættuð þaðan, ég á frábærar minningar frá þeim tíma.
Mér er minnisstætt þegar ég fór á Shellmótið 1998, þá spilaði ég með HK og við urðum Shellmótsmeistarar. Það sem stóð upp úr á þessu móti var að pabbi tók alvöru myndatökuvél með sér og hann tók upp alla leikina hjá öllum liðunum hjá HK. Hann setti síðan allt mótið á vídeóspólu til að gefa strákunum, þetta vakti mikla lukku.
Skyldmenni mín úr Eyjum komu og fylgdust með öllum leikjum hjá mér og mér leið eins og ég væri orðinn rosa frægur fótboltakarl,“ segir Kristján og brosir.

Þetta var mjög erfiður tími
„Þegar ég var sjö ára þá missti ég móðir mína úr krabbameini, hún lést rétt fyrir jólin og ég man hvað þetta var erfiður tími. Ég eyddi jólunum með fjölskyldu mömmu í Vestmannaeyjum, það var gott að vera þar því þá gat ég komið við hjá mömmu í kirkjugarðinum.
Að missa móður svona ungur hefur haft mikil áhrif á líf mitt en það hefur gert mig að þeim manni sem ég er í dag. Ég hef fengið mikinn stuðning bæði frá föður- og móðurfjölskyldum mínum í gegnum tíðina. Þau hafa í raun umvafið mig alla tíð og fyrir það er ég þakklátur.
Pabbi á mikið hrós skilið fyrir það að standa sig vel í uppeldinu, það er ekkert einfalt að vera einstætt foreldri. Hann hafði hæfilegan aga á heimilinu og studdi mig á allan hátt í öllu því sem mig langaði til að gera, í tónlistarnáminu, íþróttunum sem og öðru.“

Þetta tók ansi mikið á
„Ég gekk í Smáraskóla í Kópavogi fyrstu tvö skólaárin mín en fór svo í 3. bekk í Varmárskóla. Það var pínu erfitt að koma svona nýr inn í bekkinn þótt maður þekkti nokkra krakka því ég var svo feiminn. Í 4. og 5. bekk lenti ég í því að mér var strítt, mér var strítt á því að eiga enga mömmu, það tók ansi mikið á.
Heilt yfir var samt mjög gott að vera í Varmárskóla og maður eignaðist marga vini. Eftir útskrift fór ég í Verzlunarskóla Íslands í tvö ár en færði mig svo yfir í Borgarholtsskóla. Með skólanum starfaði ég í Snæland vídeó, pizzustað, Kaffi Kidda Rót og Hvíta riddaranum. Ég kenndi líka á golfnámskeiði barna hjá Golfklúbbnum Kili.
Á sumrin á skólaárunum starfaði ég sem grassláttumaður á Hlíðavelli. Eftir vinnu var maður svo í golfi og í fótbolta út í eitt og skreið seint heim á kvöldin.“

Verkefnin eru mörg og misjöfn
Kristján Þór á tvö börn, Hrafnhildi Lilju f. 2013 og Ými Annel f. 2014. Kristján hefur starfað hjá Byggingafélaginu Bakka ehf. frá 2014, fyrst sem verkamaður en fór síðan í smíðanám og kláraði sveinsprófið. Í dag er hann útlærður húsasmiður. Hann segir starfið sitt afar skemmtilegt því verkefnin séu mörg og misjöfn hverju sinni.
„Við fjölskyldan erum núna öll komin í golfið svo það verður gaman að spila saman næsta sumar. Við förum líka reglulega í sund, hjólatúra, bíltúra, bíó og fleira tilfallandi.“

Hófum allir æfingar hjá klúbbnum
„Íþróttir í heild sinni eru mín helstu áhugamál og þá fyrst og fremst golf og fótbolti,“ segir Kristján aðspurður um áhugamálin. „Ég byrjaði í golfi sumarið 1998, fór þá á golfnámskeið með tveimur æskuvinum mínum, Davíð Gunnlaugssyni núverandi íþróttastjóra Golfklúbbs Mosfellsbæjar og Kára Erni Hinrikssyni heitnum en hann lést árið 2016.
Eftir námskeiðið hófum við allir æfingar hjá golfklúbbnum, Árni Jónsson var okkar fyrsti golfkennari, ansi hress karl sem við höfðum mjög gaman af.“

Fór til Bandaríkjanna í nám
Árið 2002 tók Ingi Rúnar Gíslason við sem aðalþjálfari afreksstarfsins í klúbbnum. Kristján Þór var fljótlega valinn í landsliðshópa og fór í margar æfinga- og keppnisferðir með landsliðinu næstu sjö árin.
Kristján vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil þegar hann var 17 ára en þá varð hann Íslandsmeistari í holukeppni í flokki 16-18 ára, hann vann þetta sama mót ári seinna.
Tvítugur að aldri vann hann Íslands­mótið í höggleik í karlaflokki eftir mikla dramatík á síðasta keppnisdeginum. Árið 2009 varð hann aftur Íslandsmeistari er hann vann holukeppni í karlaflokki og 2014 vann hann sama mót og varð einnig stigameistari mótaraðarinnar sama ár.
Kristján fór til Bandaríkjanna í nám á árunum 2010-2012 og þar tókst honum að vinna þrjú mót á bandarísku háskólamótaröðinni og eru það flestir sigrar á mótaröðinni enn þann dag í dag hjá íslenskum kylfingi.

Þrautseigja skilaði tveimur titlum
Kristján Þór hefur notið mikillar velgengni á golfvellinum á sínum ferli og nú síðasta sumar skilaði þolinmæðisvinna og þrautseigja honum tveimur titlum í viðbót. Hann varð Íslandsmeistari í höggleik og tveimur vikum síðar sigraði hann í Korpubikarnum sem var síðasta mótið á mótaröðinni og tryggði sér um leið stigameistaratitilinn.
En hvað er það sem heillar hann mest við golfíþróttina? „Klárlega náttúran og útiveran, félagsskapurinn og svo er jú auðvitað alltaf gaman að vinna titla,“ segir Kristján Þór brosandi er við kveðjumst.

Síðasta úthlutun úr Samfélagssjóði KKÞ

19 styrkir voru veittir úr Samfélagssjóði KKÞ þann 22. október.

Laugardaginn 22. október fór fram þriðja og síðasta úthlutun styrkja úr Samfélagssjóði KKÞ.
Sjóðurinn var stofnaður eftir félagsslit Kaupfélags Kjalarnesþings og eftir þessa þriðju úthlutun verður sjóðurinn lagður niður. Sjóðurinn hefur alls úthlutað vel á sjöunda tug milljóna til hinna ýmsu samfélagsverkefna á fyrrum félagssvæði kaupfélagsins sem nær yfir Mosfellsbæ, Kjalarnes og Kjósarhrepp.
Um síðustu helgi var úthlutað um 30 milljónum en styrkir eru veittir hópum, sjálfseignarstofnunum og frjálsum félagasamtökum. Aðilar sem starfa með einum eða öðrum hætti í anda æskulýðs- og menningarmála, góðgerðar- og líknarmála eða hafa með höndum aðra þá starfsemi er horfir til almannaheilla á fyrrum félagssvæði Kaupfélags Kjalarnesþings höfðu rétt til þess að senda inn umsókn.

Fjármunir aftur heim í hérað
Ég vil þakka félagsmönnum kaupfélagsins fyrir að taka þá skynsamlegu ákvörðun um mitt ár 2016 að slíta félaginu, selja eignir þess og láta þær peningalegu eignir sem eftir stæðu renna inn í sjálfseignarstofnunina, Samfélagssjóð KKÞ. Því án þessarar ákvörðunar værum við ekki hér að færa hluta fjármunanna aftur heim í hérað, aftur til grasrótarinnar,“ segir Stefán Ómar Jónsson formaður Samfélagssjóðsins.
Með honum í stjórn sjóðsins eru þau Birgir D Sveinsson, Steindór Hálfdánarson, Sigríður Halldórsdóttir og Svanlaug Aðalsteinsdóttir.


Kaupfélag Kjalarnesþings var stofnað um miðja síðustu öld og starfaði fyrstu árin að Fitjakoti á Kjalarnesi en lengst af, eða frá 1956, í Mosfellssveit.
Kaupfélagið sjálft hætti verslunarrekstri um 1997 og leigði verslunarhúsnæði sitt út eftir það meðal annars til Krónunnar og fleiri aðila. Félaginu var slitið í júlí árið 2016 og samfélagssjóðurinn stofnaður í lok árs 2017. 

Upplýsingar um fyrri styrkþega og úthlutun Samfélagssjóðsins má finna á www.kaupo.is.


19 styrkir voru afhentir laugardaginn 22. október. 

Alexander Kárason
1.500.000 kr.
Viðurkenning á starfinu Finndu neistann, ungmennastarfi í samvinnu við skóla- og félagsmálayfirvöld. Verkefni sem snýst um að hjálpa krökkum sem mörg eru týnd í skólakerfinu, félagslega eða af öðrum ástæðum.

Andrastaðir á Kjalarnesi – Heimili í sveit
2.000.000 kr.
Kaup á húsgögnum í hið nýja sambýli að Andrastöðum á Kjalarnesi. Heimili fyrir einstaklinga með tvígreiningar eða fjölgreiningar.

Afturelding
5.500.000 kr.
Viðurkenning á mikilvægi barna- og ungmennastarfs allra deilda UMFA.

Afturelding – Aðalstjórn UMFA
1.700.000 kr.
Kaup á skrifstofuhúsgögnum og tækjabúnaði í nýja aðstöðu aðalstjórnar að Varmá.

Ásgarður
2.000.000 kr.
Endurnýjun á tækjabúnaði í vinnustofum Ásgarðs, verndaðs vinnustaðar í Álafosskvos. Ásgarður veitir þroskahömluðum einstaklingum vinnu og þjónustu í einstöku umhverfi.

Búnaðarsamband Kjalarnesþings
1.500.000 kr.
Gerð kvikmyndar um sögu og þróun landbúnaðar á svæði félagsins allt frá Suðurnesjum að Hvalfjarðarbotni.

Félag aldraðra í Mosfellsbæ
1.500.000 kr.
Endurnýjun á fótaaðgerðarstól, sem staðsettur er í þjónustumiðstöð aldraðra að Hlaðhömrum 2, og annarra áhalda til gagns í starfsemi félagsins.

Karlar í skúrum
2.000.000 kr.
Stækkun á vélasal og efnisgeymslu að Skálahlíð 7A. Í Skúrnum eru skapaðar aðstæður fyrir karla þar sem heilsa og vellíðan þeirra er í fyrirrúmi og þar sem þeir geta haldið sér við líkamlega, andlega og félagslega.

Kraftlyftingafélag Mosfellsbæjar
1.500.000 kr.
Endurnýjun á æfinga- og keppnis­búnaði vegna kraftlyftinga.
Í félaginu er lögð áhersla á tvær íþróttagreinar, ólympískar lyftingar og kraftlyftingar. Í félaginu fer fram öflugt barna- og unglingastarf.

Kvenfélag Mosfellsbæjar
250.000 kr.
Framlag til menningar- og samfélagsverkefna.

Kvenfélag Kjósarhrepps
500.000 kr.
Framlag til menningar- og samfélagsverkefna og matar­menningarhátíðar í Kjós.

Kvennakórinn Stöllurnar
750.000 kr.
Viðurkenning á kórstarfi og framlagi til menningarmála. Leiðarljós kórsins er að auðga menningar- og tónlistarlíf í Mosfellsbæ og hefur kórinn í þessu sambandi tekið þátt í nokkrum leiksýningum með Leikfélagi Mosfellsbæjar.

Lionsklúbbur Mosfellsbæjar
250.000 kr.
Framlag til líknar- og samfélagsverkefna á starfssvæði klúbbsins.

Samhjálp – Hlaðgerðarkot
2.500.000 kr.
Endurnýjun á húsgögnum og innanstokksmunum í Hlaðgerðarkoti í Mosfellsdal. Hlaðgerðarkot er elsta starfandi meðferðarheimili landsins. Þar er unnið með einstaklinga sem eiga við fíknivanda að stríða.

Sigfús Tryggvi Blumenstein
250.000 kr.
Viðurkenning á störfum við söfnun og varðveislu stríðsminja.

Skátafélagið Mosverjar
1.000.000 kr.
Endurnýjun eldhúss í skátaheimilinu í Álafosskvos.

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar
3.500.000 kr.
Endurnýjun á sexhjóli til nota á skógræktarsvæðum félagsins.

Soroptimistaklúbbur Mosfellssveitar
500.000 kr.
Átak í uppgræðslu og uppsetning á bekkjum í trjálundi klúbbsins í Mosfellsdal.

Vindáshlíð í Kjós
1.500.000 kr.
Endurnýjun á húsnæði og innanstokksmunum í sumarbúðunum að Vindáshlíð. KFUM og KFUK stendur fyrir faglegu barna- og æskulýðsstarfi en félagið starfrækir fimm sumarbúðir og þar á meðal Vindáshlíð.

 

Fjallað er um úthlutunina í nýjasta tölublaði Mosfellings sem má lesa hér.

 

 

 

 

Blakdeildin gefur 2.300 endurskinsmerki

Skólastjórar taka við gjöfinni.

Í síðustu viku voru afhent um 2.300 endurskinsmerki til leik- og grunnskóla Mosfellsbæjar. Þessi merki eru með Aftureldingarmerkinu á og eru gefin börnum í tveimur efstu árgöngum í leikskólum bæjarins og öllum grunnskólabörnum.
Blakdeild Aftureldingar hefur leitað til fyrirtækja í Mosfellsbæ og nágrenni til að styrkja þetta þarfa verkefni og er ákaflega þakklát þeim fyrirtækjum sem sáu sér fært að vera með í þessu þarfa verkefni.

Börn og unglingar beri merkin stolt
Vonast deildin til þess að börn og unglingar í bænum beri merkin stolt og sjáist þar af leiðandi betur í umferðinni og á bílastæðum bæjarins nú þegar dagurinn fer að styttast meira og meira.
Skólastjórar Krikaskóla og Varmárskóla, þær Þrúður Hjelm og Jóna Benediktsdóttir veittu merkjunum viðtöku fyrir sína skóla að Varmá. Skólastjórar hinna skólanna áttu því miður ekki heimangengt en fengu merkin afhent í skólana sína.

Tengsl og seigla

Ég hitti gamlan félaga í vikunni. Við höfum þekkst lengi. Ég man ekki alveg nákvæmlega hvernig við kynntumst, rámar í að það hafa verið í bekkjarpartýi í MS en þáverandi kærasta hans (og núverandi eiginkona – svo ég vitni í Leibba okkar gröfu) var með mér í ansi hreint skemmtilegum bekk. Þessi félagi er einn sá seiglaðasti sem ég þekki. Lætur ekkert koma sér úr jafnvægi og er ætíð trúr sínum hugmyndum og verkefnum.

Mér finnst þetta aðdáunarverður eiginleiki og ég hef fylgst með honum og einu af hans áhugaverðasta verkefni úr fjarlægð í mörg ár. Þetta verkefni og hugmyndafræðin á bak við það var langt á undan sinni samtíð og ég var svo heppinn að fá að taka þátt í því á sínum tíma að fá að vinna við það í nokkra mánuði. Hittingurinn í vikunni snérist einmitt um þetta verkefni og nú 30 árum eftir að ég kynntist því sé ég mikla möguleika á hvernig hægt er að nýta aðferðafræðina sem það snýst um í íþróttaheimum í dag.

Ég heyrði í öðrum góðum félaga í vikunni. Hann var að benda mér á áhugavert heilsueflandi framtak í bæjarfélagi á höfuðborgarsvæðinu og hvatti mig til að heyra í þeim af því mínar hugmyndir og þeirra færu svo vel saman.

Mér þykir ótrúlega vænt um þessa félaga mína og marga aðra sem ég hef kynnst í gegnum mitt ferðalag í gegnum lífið. Ef ég ætti að gefa yngstu kynslóðum þessa lands eitt ráð í dag væri það að koma vel fram við alla og hafa raunverulegan áhuga á því sem aðrir eru að fást við. Hlusta og fræðast um þeirra sýn á heiminn og þeirra viðfangsefni í lífinu. Það er bæði gefandi og áhugavert og er líklegt til þess að byggja upp góð tengsl sem endast út lífið.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 27. október 2022

Ungt fólk hefur alltaf heillað mig

Örlygur Richter fyrrverandi skólastjóri var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu.

Örlygur Richter var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf á vettvangi félags- og skólamála við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 17. júní sl.
Örlygur hefur starfað lengi við stjórnunarstörf, hann segir að í upphafi hafi það verið áskorun en hann hafi alla tíð reynt að vera sá leiðtogi sem ekki skipar fyrir, heldur sá sem kann að hlusta.

Örlygur er fæddur á Holtsgötu 41 í Reykjavík 7. september 1944. Foreldrar hans eru Margrét Hjaltested Richter húsmóðir og Ulrigh Richter afgreiðslustjóri hjá Flugfélagi Íslands.
Örlygur á tvö systkini, Sigurð H. Richter­ ­náttúrufræðing f. 1943 og Mörtu Hildi Richter bókasafnsfræðing f. 1949.

Ræktaði páfagauka í risinu
„Ég er alinn upp í Hlíðunum í Reykjavík, þetta var frábært hverfi og mikið af strákum á mínum aldri og ég eignaðist marga vini. Á þessum árum var maður í fótbolta og í skátunum.
Pabbi hafði alltaf mikinn áhuga á dýrum og í risinu ræktaði hann m.a. páfagauka. En þar var líka fullt af öðrum dýrum allt frá gullhömstrum til hettumáfs. Þarna glímdi maður við að kenna páfagaukum að sitja á putta og öxl og gera alls kyns kúnstir, mér fannst þetta æðislegt,“ segir Örlygur og brosir.

Leynifélagið Hrói höttur
„Í Hlíðunum hófst félagsstarf mitt ef svo má segja þegar við Baldur Marinósson og Steindór Hálfdánarson vinir mínir stofnuðum á barnaskólaaldri leynifélagið „Hróa hött“ og við tók smíði á trésverðum, skjöldum og bogum. Því fylgdu svo fundahöld í geymslu uppi á lofti hjá Baldri. Á loftinu bjó líka amma Baldurs og hún kenndi mér að prjóna.
Ég virkaði víst dálítið ábyrgur og hafði gott lag á börnum, svo sumar mömmurnar í götunni báðu mig stundum um að passa, ég hafði gaman af því.“

Félagsstarfið á næstu grösum
„Ég byrjaði í Ísaksskóla, fór þaðan í æfingadeild Kennaraskólans og svo í Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Mér fannst skemmtilegt í skólanum og á enn góða vini frá þessum tíma.
Í gaggó var maður orðinn unglingur, gekk í svörtum gallabuxum með hvítum saum, bússum og vatteraðri mittisúlpu. Félagsstarfið var alltaf á næstu grösum og ég komst í ritstjórn skólablaðsins Blyssins þar sem ég var seigur að teikna.
Á sumrin með skólagöngunni vorum við fjölskyldan mikið uppi í sumarbústaðnum okkar við Reynisvatn, plöntuðum trjám og fórum í útreiðartúra.“

Langaði að starfa með unglingum
„Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1964. Á árunum 1967-1971 starfaði ég í hálfu starfi sem framkvæmdastjóri Skátasambands Reykjavíkur. Næst kom stutt stans í Háskóla Íslands, nám í Kennaraskólanum þaðan sem ég útskrifaðist sem kennari 1968. Ég hafði nefnilega fundið út að mig langaði til að vinna með unglingum.
Utan þessa hafði ég mikinn áhuga á alls kyns myndlist og var svo heppinn að fá tilsögn hjá Halldóri Péturssyni teiknara og listmálara.
Á sumrin starfaði ég hjá Flugfélagi Íslands og það var virkilega gaman að kynnast þeim geira.“

Fannst þetta spennandi verkefni
Eftir útskrift úr Kennaraskólanum hóf Örlygur störf sem kennari við Álftamýraskóla þar sem hann starfaði í áratug. Við tók yfirkennarastaða í Ölduselsskóla og síðar skólastjórastaða í Fellaskóla 1985-2000. Frá árunum 2001-2014 starfaði Örlygur sem fjármálastjóri.
Í yfir 20 ár starfaði hann við skrautritun skjala o.þ.h. ásamt því að teikna grínmyndir af útskriftarnemum ýmissa skóla.
„Ég hef alltaf haft áhuga á fólki og ekki síður lífinu sjálfu. Ástæða þess að ég vildi starfa með unglingum í skóla var að mér fannst það spennandi verkefni. Að fá tækifæri til að kenna þeim á lífið í gegnum almenna kennslu og ekki síður í gegnum félagsstörf.
Ungt fólk er nefnilega svo hugmyndaríkt. Ef þú færð góða hugmynd þá er næst að kanna sjálfur hvort hægt sé að framkvæma hana. Nú ef hún gengur svo ekki upp, þá er bara að fá aðra góða hugmynd. Svo er líka gaman að rökræða við ungt fólk, það skilur svo vel rökrétta niðurstöðu.“

Að fara í stjórnunarstörf var áskorun
„Það sem stendur upp úr frá ferlinum er að ég hef borið gæfu til að eiga góða félaga, frábært samstarfsfólk og skemmtilega nemendur. Að fara í stjórnunarstörf var áskorun, ég hef alla tíð reynt að vera leiðtogi, ekki sá sem skipar fyrir, heldur sá sem kann að hlusta. Fá hópinn til að rökræða og finna með honum bestu lausnina og framkvæma hana.
Að fá fálkaorðuna fyrir störf á vettvangi félags- og skólamála bendir vonandi til þess að ég hafi gert eitthvert gagn,“ segir Örlygur og brosir.

Höfum gaman af að ferðast
Eiginkona Örlygs er Helga Richter fv. aðstoðarskólastjóri og fv. bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ. Börn þeirra eru Aðalsteinn f. 1974 og Rannveig f. 1978.
„Við hjónin höfum haft mjög gaman af því að ferðast, við leigðum stundum bíl í Kaupmannahöfn og ókum suður alla Evrópu og sváfum í tjaldi eða gistum á hótelum.
Í seinni tíð höfum við verið að fara í golfferðir og loks tóku Kanarí og Tenerife við, líklega ræður aldurinn þar nokkru.
Við skjótumst líka með börnunum okkar og fjölskyldum þeirra í ferðir erlendis.“

Hef sinnt alls kyns félagsstarfi
„Félagsstörf hafa alltaf átt stóran part í mínu lífi, konan mín segir gjarnan að ég sé félagsmálafíkill,“ segir Örlygur og hlær. Ég hef verið í alls kyns félagsstarfi, m.a Oddfellowreglunni, Rótarýhreyfingunni, Skarphéðingafélaginu og Skátahreyfingunni.
Á skátaskemmtunum í gamla daga lærði ég ýmislegt m.a um leikstjórn og að stjórna stórum skemmtunum sem kom sér vel við að efla félagslíf nemenda í grunnskólum og eins í félögum sem ég hef komið nálægt.“

Settu upp á annan tug revía
„Í Karlakórnum Stefni urðu líka til á sínum tíma tvær hljómsveitir af praktískum ástæðum. Þessar hljómsveitir spiluðu á skemmtunum hjá kórnum og víða á suðvesturhorni landsins. Þetta var skemmtilegur tími, þarna spiluðu með mér Grímur Grímsson, Hans Þór Jensson, Kristján Finnsson, Páll Helgason og fleiri.
Þegar þurfti að afla peninga vegna utanferða kórsins þá fórum við kórfélagarnir í það að halda skemmtikvöld. Þar gat ég orðið að örlitlu liði með uppsetningu skemmtiatriða og stjórnun skemmtana ásamt mörgum frábærum félögum.
Kórinn setti upp á annan tug revía og skemmtikvöld með balli á eftir. Þessar skemmtanir voru vel sóttar og við skemmtum okkur jafn vel og gestirnir,“ segir Örlygur og glottir að síðustu.

Bæjarblað í tvo áratugi

Bæjarblaðið Mosfellingur var stofnað haustið 2002 og fagnar því um þessar mundir 20 ára afmæli. Blaðið kemur út á þriggja vikna fresti og er dreift frítt í öll hús í Mosfellsbæ.
Mosfellingur er frítt, frjálst og óháð bæjarblað sem flytur jákvæðar og skemmtilegar fréttir af því helsta sem gerist í Mosfellsbæ.
Stofnandi blaðsins er Karl Tómasson og stýrði hann blaðinu fyrstu þrjú árin. Frá árinu 2005 hefur blaðið verið í umsjá Hilmars Gunnarssonar sem ritstýrt hefur blaðinu í 17 ár.

Skemmtilegast að fá viðbrögð
„Blaðið hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum tíðina og ávallt vegið þungt í menningarlífi og allri umræðu í sveitarfélaginu,“ segir Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings. Blaðið leysti fljótt af hólmi þau pólitísku blöð sem gefin voru út, hvert í sínu horni.
„Skemmtilegast hefur verið að fá viðbrögð bæjarbúa sem virðast njóta þess að fá fréttir úr heimabyggð beint í æð. Gallup gerði könnun á lestri blaðsins fyrir skömmu og kom þar bersýnilega í ljós sá áhugi sem Mosfellingar hafa á nærsamfélaginu en 90% bæjarbúa lesa blaðið. Það er virkilega ánægjulegt að sjá það svart á hvítu.“

Rekstur sem grundvallast af auglýsingatekjum
„Ég vil nota tækifærið og þakka því góða fólki sem hefur tekið þátt í þessari vegferð með okkur og þeim fyrirtækjum sem auglýsa í blaðinu og gera það að verkum að hægt er að halda úti bæjarblaði í Mosfellsbæ.
Mosfellingur er rekinn eingöngu af auglýsingatekjum. Karl Tómasson á þakkir skildar fyrir sinn drifkraft í blaðaútgáfu og fyrir að treysta mér fyrir framhaldinu.
Á síðustu árum höfum við auk prentmiðilsins haldið úti öflugu upplýsingaflæði til bæjarbúa í gegnum Facebook, Instagram og heimasíðu blaðsins. Það nýjasta er svo Mosfellingur í beinni, sem hóf göngu sína á Instagram fyrir kosningar. Samfélagsmiðlar koma og fara en prentað eintak Mosfellings viljum við halda í sem allra lengst.“

Gleðst yfir þessum tímamótum
„Eftir nokkurra ára stúss í blaðamennsku með heiðursmönnunum, Gylfa Guðjónssyni og Helga Sigurðssyni og síðar á hinum pólitíska vettvangi sem ritstjóri Sveitunga, sem var málgagn vinstri manna, ákvað ég að stofna mitt eigið blað, Mosfelling,“ segir Karl Tómasson.
„Lína mín var fljót að finna nafn á blaðið og kom með margar góðar hugmyndir að föstum liðum í blaðinu sem ég gleðst mikið yfir að eru sumir enn á sínum stað, 20 árum síðar. Ég gleðst innilega yfir þessum tímamótum og óska Hilmari Gunnarssyni og aðstandendum öllum til hamingju.“

Blað allra Mosfellinga
„Þegar ég stofnaði Mosfelling var alltaf ljóst að blaðið ætti að vera allra Mosfellinga, óháð öllum pólitískum flokkadráttum. Það gekk upp og er blaðið sannarlega allra.
Þegar ég tók svo slaginn á hinum pólitíska vettvangi í Mosfellsbæ gerði ég mér grein fyrir að á sama tíma gat ég ekki verið eigandi og ritstjóri slíks málgagns.
Minn helsti aðstoðarmaður og vinur kom strax upp í hugann sem arftaki minn og ég var alltaf viss um að betri mann gæti ég ekki fengið. Hilmar minn, nokkur persónuleg orð til þín kæri vinur. Þú ert engum líkur, fagmaður fram í fingurgóma, alltaf boðinn og búinn og gerir allt svo vel. Til hamingju með besta og flottasta bæjarblað á landinu,“ segir Karl Tómasson.