Alvarleg réttindabrot framin á hverjum degi

birgir

Birgir Grímsson iðnhönnuður og eigandi V6 Sprotahúss er formaður félags um foreldrajafnrétti. Birgir hefur lengi barist fyrir réttindum skilnaðarbarna eftir að hafa kynnst því af eigin raun eftir skilnað hve staða þeirra er bágborin. Hann hefur ríka réttlætiskennd og hefur mikla þörf fyrir að bæta það sem er brotið í samfélaginu.
Birgir tók við formannsstöðu félags um foreldrajafnrétti árið 2014 en meginstefna félagsins er að tryggja jafnrétti foreldra bæði til forsjár og umönnunar, með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.

Birgir Grímsson er fæddur í Reykjavík 26. apríl árið 1973. Foreldrar hans eru þau Sigríður Ágústsdóttir skrifstofukona og Grímur Heiðar Brandsson skriftvélavirki. Sigríður lést árið 2013. Systkini Birgis eru þau Nína Margrét fædd 1965 og Páll fæddur 1968.
„Ég bjó fyrstu árin á Háaleitisbraut eða til sex ára aldurs en þá fluttum við yfir í Hvassaleitið. Á þessum tíma var einungis búið að steypa upp Hús verslunarinnar en restin af Kringlusvæðinu var mói, þar lék ég mér oft þegar ég var lítill.“

Fór utan í nám
„Skólaskylduna kláraði ég í Álftamýrarskóla og stúdentinn frá MH. Ég hafði alltaf stefnt að því að fara utan í í nám. Ég valdi iðnhönnun og til að undirbúa mig fór ég í húsasmíðina hér heima og kláraði sveinsprófið.
Ég sótti um nám í Danmörku og fann þar íbúð fyrir mig og kærustuna mína. Ég komst ekki inn í skólann um haustið svo ég ákvað að fara á námskeið í Árósum. Það er eitt af því eftirminnilegasta sem ég gerði þarna því þar kynntist ég Dönunum, lærði tungumálið og á danska menningu.“

Frumkvöðlabransinn á vel við mig
„Mér var bent á skóla á Jótlandi, Design Seminariet í Hojer sem ég ákvað að fara í.
Á þessum tíma ákváðum ég og kærasta mín að gifta okkur og eignuðumst við okkar fyrsta barn í framhaldi af því, dóttirin Arney Íris fæddist 2001.
Eftir að námi mínu lauk 2003 fluttum við til Svíþjóðar og um svipað leyti vann ég í samkeppni um viðskiptaáætlanir á Íslandi. Þarna sá ég að frumkvöðlabransinn átti vel við mig. Árið 2004 eignuðumst við svo soninn Hrafnar Ísak.
Á síðasta ári mínu í skólanum ákváðum við hjónin að skilja, ég var þá búinn að finna nám í frumkvöðlafræði í Malmö sem mér fannst mjög spennandi.“

Með fimm háskólagráður
„Konan fór heim til Íslands með börnin og ég varð því að fara á milli landa á meðan ég lagði stund á námið til að geta verið með börnunum mínum.“
Ég spyr Birgi hvað hann hafi lokið við margar háskólagráður? „Ég spaugast oft með það að ég sé búinn að ljúka fimm háskólagráðum rétt eins og frægur karakter í Næturvaktinni hélt fram forðum og finnst það alltaf jafn fyndið, en það er staðreynd.
Eftir að ég kom heim, stofnaði ég heimasíðuna Frumkvöðull.com þar sem ég bauð upp á ráðgjöf.“

Mikil lukka að kynnast Björgu
„Ég kynntist konunni minni, Björgu Helgadóttur, árið 2007. Hún vinnur sem verkefnastjóri hjá Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Það var mér og börnunum mikil lukka að fá Björgu inn í líf okkar. Við keyptum okkur hús í Mosfellsbæ og giftum okkur árið 2013.“

Stofnaði fyrirtæki
„Árið 2010 stofnaði ég ásamt félögum mínum V6 Sprotahús hér í Mosfellsbæ. Markmið okkar var að bjóða upp á ráðgjöf og þjónustu fyrir nýstofnuð fyrirtæki. Svona verkefni er þess eðlis að það nær ekki að lifa nema með stuðningi ríkis eða sveitarfélags en þann stuðning þraut á endanum. Ég keypti félaga mína út og flutti fyrirtækið heim til mín. Ég býð enn upp á ráðgjöf og vinn einnig að eigin hönnunarverkefnum.
Ég tek líka þátt í málefnum sem eru mér hugleikin. Ég stofnaði ásamt öðrum Stjórnarskrárfélagið árið 2011. Þessi hópur fólks telur grundvallarþörf á að Ísland fái notið nýrrar og betri stjórnarskrár því það sé undirstaðan að því að gera þetta samfélag betra.“

Réttarfarsleg staða barna er bágborin
„Ég gekk til liðs við Foreldrajafnrétti árið 2006 eða eftir að ég skildi. Ég sá að réttarfarsleg staða barna eftir skilnað er afar bágborin og alvarleg réttindabrot eru framin á hverjum degi.
Ég byrjaði sem aðstoðarmaður í stjórn en tók við formennsku 2014. Við höfum náð að koma þessum málflokki á kortið í samfélaginu þótt margt sé enn óleyst. Við finnum fyrir meiri áhuga frá kvenfólki, sem upplifir þessa ranglátu stöðu sem skilnaðarbörn eru í.
Við heyrum ýmsa vinkla þar sem fólk almennt áttar sig ekki á hlutunum og sýnir hversu víðtæk áhrif það hefur ef ekki er gætt að réttindum barnanna eftir skilnað, sambúðarslit, eða þeirra barna sem eru rangfeðruð.
Við erum t.d. með eina ömmu í stjórn sem vill leggja sitt af mörkum en hún upplifði að réttur ömmubarnsins til hennar var ekki virtur, óháð deilum foreldranna.“

Mæður borga dagsektir
„Við erum með stjúpmæður í stjórn sem sjá óréttlætið sem börn maka þeirra mæta, gagnvart fyrri barnsmæðrum. Við höfum heyrt sögur af mæðrum sem vilja að feður sinni börnum sínum en skilja með engum hætti ábyrgð sína og taka til sín það verkefni sem felst í því að eiga börn.
Börn lenda í tilfinningaklemmu vegna tálmunarmála þar sem annað foreldrið heldur börnum frá hinu foreldrinu með því að beita andlegu ofbeldi og oft líka brjóta á lögum og rétti barna samkvæmt lögformlegum samningum.
Mæður borga dagsektir svo mánuðum skiptir bara til að koma í veg fyrir að börn fái að hitta feður sína, þótt ekki sé neitt sýnt fram á að þeir séu á einhvern hátt ekki hæfir til þeirrar ábyrgðar.“

Viljum stofna fjölskyldudómstól
„Við viljum að stofnaður verði sérstakur fjölskyldudómstóll. Sá dómstóll væri sérhæfður í öllum félagslegum og fjölskyldulegum málefnum í samfélaginu og hefði á sínum snærum sérhæft starfsfólk, sálfræðinga og félagsfræðinga.
Þessi dómstóll gæti brugðist við innan viku ef beiðni kemur um úrskurð vegna brota og komið til aðstoðar með sérfræðiaðstoð eða aðgerð sem tekur mið af að koma í veg fyrir átök, brot eða óásættanlegar aðstæður.
Á þann hátt væri hægt að koma í veg fyrir flest vandamál án þess að þau verði að óleysanlegum vandamálum með slæmum afleiðingum fyrir alla aðila, þó sérstaklega börnin.“

Myndir og texti: Ruth Örnólfs

14 stúdentar brautskráðir frá FMOS

fmos2

Útskriftarhátíð Framhaldsskólans í Mosfellsbæ fór fram við hátíðlega athöfn í sal skólans föstudaginn 18. desember. Jón Eggert Bragason skólameistari útskrifaði 14 stúdenta.
Efri röð: Þorgeir Leó Gunnarsson, Guðjón Leó Guðmundsson, Friðgeir Óli Guðnason, Geir Ulrich Skaftason, Örn Bjartmars Ólafsson, Pétur Karl Einarsson, Óskar Þór Guðjónsson
Neðri röð: Guðrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólameistari, Sesselja Líf Valgeirsdóttir, Guðlaug Harpa Hermannsdóttir, Heiða Hrönn Másdóttir, Steinunn Svavarsdóttir, Kristrún Kristmundsdóttir, Hugrún Þorsteinsdóttir, Halla Björk Ásgeirsdóttir, Jón Eggert Bragason skólameistari.
Nokkrir nemendur fengu viðurkenningar fyrir góðan námsárangur:
Spænska: Heiða Hrönn Másdóttir
Sálfræði: Heiða Hrönn Másdóttir
Knattspyrna: Sesselja Líf Valgeirsdóttir
Raungreinar: Örn Bjartmars Ólafsson
Danska: Heiða Hrönn Másdóttir,
Óskar Þór Guðjónsson og
Sesselja Líf Valgeirsdóttir
Hæsta einkunn á stúdentsprófi:
Örn Bjartmars Ólafsson

Uppbygging í miðbæ Mosfellsbæjar

Tölvugerð mynd af fjölbýlis- húsum við Bjarkarholt.

Tölvugerð mynd af fjölbýlishúsum við Bjarkarholt.

Uppbygging í miðbæ Mosfellsbæjar er að hefjast af fullum krafti. Auglýstar hafa verið lóðir fyrir fjölbýli við Þverholt og svo núna síðast við Bjarkarholt og Háholt.
Í Þverholti stendur til að byggja 30 leiguíbúðir í bland við 12 íbúðir á almennum sölumarkaði. Til úthlutunar eru lóðir við Bjarkarholt og Háholt þar sem áætlað er að byggja að minnsta kosti 52 íbúðir í fjölbýli.
Ásýnd og þéttleiki byggðar í miðbænum mun því breytast talsvert á næstu misserum í takt við nýlegt deiliskipulag miðbæjarins. Sérstaklega mun verða breyting í Háholti þar sem húsið sem stendur þar númer 23, og hefur hýst margvíslega starfsemi, verður endurbyggt frá grunni í samræmi við núgildandi skipulag. Í útboðsskilmálum er kveðið á um uppkaup á húsinu og endurbyggingu eða niðurrif.

Auðugra mannlíf
„Það er okkar von að fleiri íbúðir miðsvæðis í Mosfellsbæ muni skila sér í enn auðugra mannlífi og aukinni verslun og þjónustu í bænum,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
Hann upplýsti jafnframt að verið væri að leggja lokahönd á samninga við fyrirtæki á vegum verktakafyrirtækisins Ris vegna uppbyggingar í Þverholtinu og að framkvæmdir þar muni líklega hefjast í sumar.

Þorrablót Aftureldingar fer fram 23. janúar

systur

Undirbúningur árlegs þorrablóts Aftureldingar stendur nú sem hæst, en það fer fram í íþróttahúsinu að Varmá laugardaginn 23. janúar. Miðasala er þegar hafin á Hvíta Riddaranum, en borðapantanir fara fram fimmtudaginn 14. janúar kl. 19:30 – 20:30, einnig á Hvíta Riddaranum.
„Undanfarin tvö ár hefur verið uppselt hjá okkur og í ár ætlum við að stækka salinn aðeins og vera bæði með hring- og langborð. Við ætlum að bjóða upp á 10 manna hringborð sem eru seld í heilu lagi ásamt fljótandi veigum og hægt er að velja þessi borð strax þegar þau eru keypt,“ segir Ásgeir Sveinsson varaforseti þorrablótsnefndar.

Lambalæri fyrir þá sem ekki vilja þorramat
„Ég er mjög spenntur fyrir því að skemmta í Mosó,“ segir Sóli Hólm sem verður veislustjóri kvöldsins. „Þetta er þorrablót sem ég hef heyrt talað um sem eitt af þeim allra skemmtilegustu. Hef heyrt að þangað mæti bara fólk með góðan húmor og söng í hjarta. Umhverfi sem ég og gítarinn minn pössum vel inn í,“ segir Sóli en Ingó Veðurguð ásamt Sverri Bergmann munu svo sjá um fjörið á dansgólfinu.
Tríóið Kókos mun taka vel á móti veislugestum og Geiri í Kjötbúðinni sér um veitingarnar og býður upp á hefðbundinn þorramat ásamt lambalæri og Bearnaise fyrir þá sem ekki treysta sér í þorrann.
„Sú hefð hefur skapast að hópar komi og skreyti borðin sín. Mikill metnaður er í skreytingum og góð stemning í salnum þegar þetta fer fram. Skreytingarnar fara fram kl. 12-13:30 á blótsdegi,“ segir Ásgeir og hvetur alla til að fylgjast með framgangi mála á Facebook-síðu þorrablótsins.
Þorrablót Aftureldingar verður nú haldið í 9. skipti í þeirri mynd sem það er nú og er ein stærsta fjáröflun félagsins.

Sigrún valin Mosfellingur ársins


sigrunmosfellingur

mosfellingurarsinsSigrún Þ. Geirsdótti hefur verið valin Mosfellingur ársins 2015. Bæjarblaðið Mosfellingur stendur fyrir valinu en Sigrún er sú ellefta til að hljóta titilinn.
Sigrún vann það þrekvirki á árinu 2015 að synda fyrst íslenskra kvenna yfir Ermarsundið. Sigrún sem hefur stundað sjósund undanfarin ár og hafði áður synt boðsund í tvígang yfir Ermarsundið sem varð kveikjan að því að hana langaði að gera þetta ein.
Ermarsundið er stundum kallað „Mount Everest sundmanna,“ en að synda yfir sundið er eitt og sér mikið afrek, en þrekvirki Sigrúnar verður líklega seint leikið eftir. Bakgrunnur Sigrúnar í íþróttum er enginn og lærði hún skriðsund fyrir þremur árum síðan. Þetta afrek hennar er því ótrúlegt.

Ótrúlegur heiður
„Þetta er æðislegt, ég var tilnefnd sem maður ársins af ýmsum fjölmiðlum en það er ótrúlegur heiður að hljóta nafnbótina Mosfellingur ársins, það er svakalega skemmtilegt,“ segir Sigrún og bætir við að hún sé alltaf endurnærð þegar hún komi upp úr sjónum, skilji áreiti og áhyggjur eftir og finni fyrir meiri jarðtengingu.
„Þegar ég ákvað að fara í þetta sund átti ég ekki von á allri þessari athygli, ég er nú frekar feimin og því er þetta bæði gaman og erfitt. Þetta var ótrúlegt ævintýri og ég er mjög stolt af sjálfri mér að hafa klárað sundið og ekki gefist upp þrátt fyrir mikið mótlæti á leiðinni.“

Samsvarar 1.254 ferðum í Lágafellslaug
Vegalengdin beint yfir sundið er 33 km en ég synti 62,7 km á 22 klukkustundum og 34 mínútum.
„Ég byrjaði vel en eftir rúmlega þrjá klukkutíma varð ég sjóveik og kastaði upp eftir hverja matargjöf í sjö tíma. Þegar ég var búin að synda í 10 klukkutíma komst ég þó yfir sjóveikina, þá var brugðið á það ráð að gefa mér súkkulaði, kók og Jelly Babies að borða. Það er líklega einsdæmi að einhver hafi synt yfir Ermarsundið á þessu fæði.“
Vegalengdin sem Sigrún synti samsvarar 1.254 ferðum fram og til baka í Lágafells­laug og það í gríðarlega miklum straumum, öldum og að hluta til í svarta myrkri.

Snýst um rétta hugarfarið
Sund Sigrúnar hefur vakið mikla athygli. „Ég hef haldið þónokkra fyrirlestra og mér finnst það voða skemmtilegt. Ég fjalla þá um undir­búninginn en hann er rosalega mikilvægur, bæði æfingarnar og ekki síst hugarfarið.
Ég segi frá lífi mínu áður en ég byrjaði að stunda sjósund og þá aðalega heilsufarslega. Sýni svo myndband af sundinu en fólk gerir sér ekki alveg grein fyrir því hvað þetta er fyrr en það sér myndbandið og verður svolítið slegið þegar það sér myrkrið, öldurnar og líkamlegt og andlegt ástand mitt,“ segir Sigrún að lokum.

Farið fram á prestskosningu

disalinn

Sr. Skírnir Garðarsson hefur látið af störfum í Lágafellssókn en hann hefur starfað við hlið Ragnheiðar Jónsdóttur sóknarprests síðastliðin tæp sjö ár. Staða prests í Mosfellsprestakalli er því laus til umsóknar og ljóst þykir að brauðið verði eftirsóknarvert.
Talsvert hefur verið fjallað um málefni sóknarinnar á síðustu vikum en bæði Skírnir og Ragnheiður hafa verið í leyfi frá störfum síðustu vikur vegna óánægju innan sóknarinnar. Tveir afleysingaprestar hafa þjónað Mosfellingum yfir hátíðarnar.

Kosningar færast í vöxt
Samkvæmt starfsreglum um val á presti fer almenn prestskosning fram, riti þriðjungur atkvæðisbærra sóknarbarna undir viljayfirlýsingu þess efnis. Það þýðir að safna þarf um 2.000 undirskriftum.
Stuðningshópur Arndísar G. Bernhardsdóttur Linn er farinn af stað með undir­skriftasöfnun en færst hefur í vöxt að sóknarbörn leiti þessarar leiðar og fari fram á prestskosningu í stað þess að valnefnd velji prest.

Mosfellingar hafi val
„Við vonumst til þess að Mosfellingar taki þessari áskorun vel og vilji hafa um það að segja hver muni gegna stöðu prests í sókninni,“ segir Helga Kristín Magnúsdóttir talsmaður stuðningshóps Arndísar Linn.
„Við erum ekki í neinum vafa um það hver er best til þess fallin að verða prestur í Lágafellssókn. Það er hún Arndís Linn sem starfað hefur við sóknina í fjölda ára. Hún er rótgróinn Mosfellingur og vel liðin meðal sóknarbarna. Okkur finnst vega þyngra að viðkomandi sé í sterkum tengslum við sína heimabyggð heldur en starfsreynsla í árum talið innan þjóðkirkjunnar.
Við erum vongóð um að við náum tilteknum fjölda undirskrifta og kosningar fari fram. Með undirskrift um prestskosningu er þó ekki verið að lýsa yfir stuðningi við einn frambjóðanda frekar en annan. Heldur er verið að fara fram á að Mosfellingar hafi val og láti sig málefni sóknarinnar hér í bæ varða,“ segir Helga Kristín.
Á næstu dögum verður gengið í hús og safnað undirskriftum en listi mun einnig liggja frammi í Fiskbúðinni Mos.

—–

Stuðningshópur Arndísar Linn hefur stigið fram og vill prestskosningu. Arndís hefur starfað við Lágafellssókn á annan áratug. Hún útskrifaðist sem guðfræðingur 2008 og var vígð til prestsþjónustu í Kvennakirkjunni 2013.

Borða, sofa, æfa

eat

Grunnurinn er mikilvægastur. Í öllu sem við gerum. Ef grunnurinn er ekki sterkur, getur það sem á honum er byggt aldrei verið sterkt. Hús er skýrt dæmi. Heilsa er nákvæmlega eins. Þú þarft að byggja sterkan heilsugrunn til að vera fullkomlega heilsuhraust/ur.

Heilsugrunnurinn byggir á þremur meginstólpum: næringu, svefni og hreyfingu. Ef þú vanrækir einhvern af þessum stólpum, er heilsugrunnur þinn ekki sterkur. Svo einfalt er það. Það skiptir ekki máli þótt þú mætir á æfingu fimm sinnum í viku, ef mataræðið eða svefninn er ekki í lagi vantar sterka stólpa í grunninn. Sama gildir ef þú sefur í átta tíma á hverri nóttu en sinnir ekki líkamanum. Allir stólparnir eru mikilvægir og við þurfum að sinna öllum vel.

Þetta er alls ekki flókið, í raun sáraeinfalt. Málið er bara að við erum svo ótrúlega góð í að búa okkur til afsakanir og selja sjálfum okkur þá vondu hugmynd að við þurfum að leyfa okkur allt, gera vel við okkur, að allt sé gott í hófi. Afleiðingin af þannig hugsunarhætti er að við vökum allt of lengi yfir einhverju sem skiptir litlu máli, borðum allt of mikið rusl og nennum ekki að hreyfa okkur. Leiðin út úr þessu er sjálfsagi.

Aga sjálfan sig til að hætta að gera það sem fer illa með okkur. Hætta að leyfa sér allt og falla fyrir öllum freistingum. Horfa þess í stað fram á veginn. Hugsa sex mánuði fram í tímann. Setja sér einföld markmið sem skila þér árangri, láta þér líða miklu betur, líkamlega og andlega. Gefa þér hámarksorku. Prófaðu þetta: Sofa í 7-8 tíma á sólarhring, borða mat en sleppa ruslfæði, nammi og gosi, labba úti á hverjum degi og mæta þrisvar sinnum í viku í styrkjandi hreyfingu. Hlustaðu á líkamann, finndu orkuna flæða og njóttu þess að vera heilsuhraust/ur.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 7. janúar 2016

Þrettándagleði á laugardaginn

13brenna

Hin vinsæla þrettándabrenna fer fram laugardaginn 9. janúar. Blysför leggur af stað frá Miðbæjartorgi kl. 18 og gengið að brennunni sem verður á sama stað og áður, neðan Holtahverfis við Leirvoginn. Skólahljómsveitin leikur, Grýla og Leppalúði og þeirra hyski verður á svæðinu, Stormsveitin syngur og Kyndill verður með glæsilega flugeldasýningu. Um kvöldið heldur svo rokkkarlakórinn Stormsveitin sína árlegu þrettándatónleika í Hlégarði og hefjast þeir kl. 21.

Mikið hefur mætt á snjó­moksturstækjum bæjarins

steinimæló

Vetur konungur hefur heldur betur látið að sér kveða í desember. Í byrjun mánaðarins kyngdi niður snjó í miklu magni á stuttum tíma. Þegar slíkar aðstæður skapast mæðir mikið á snjómoksturstækjum og þeim mannskap sem þeim stýra en Þjónustustöð Mosfellsbæjar ber ábyrgð á snjómokstri í bænum.
Mosfellingur hafði samband við Þorstein Sigvaldason sem stýrir Þjónustustöðinni. „Við vinnum bæði á eigin vélum bæjarins og eins eru ráðnir verktakar til starfsins þegar á þarf að halda.
Skipulega er gengið til verks og liggur fyrir snjómokstursáætlun sem forgangsraðar verkefnum. Þar er í fyrsta forgangi að ryðja stofngötur, strætóleiðir og fjölfarnar safngötur. Áhersla á að ryðja stígakerfi bæjarins hefur aukist síðustu ár. Stígakerfi til og frá skólum og þau sem tengja saman hverfi eru í fyrsta forgangi.“

GPS sendar í moksturstækin
Þorsteinn sagði einnig frá nýjung í starfseminni sem snýr að því að nýverið voru settir GPS sendar í moksturstækin. Þannig er hægt að fylgjast betur með þeim svæðum sem búið er að ryðja. Markmiðið með þessu er að gera vinnuna við snjómokstur og önnur verkefni skilvirkari og þjónustuna betri.
„Þessi tækni mun jafnvel geta falið í sér að íbúar gætu farið inn á netið og séð hvar vélarnar eru í rauntíma. Það bætir upplýsingaflæði og gerir þjónustuna gegnsæa,“ segir Þorsteinn bjartsýnn áður en hann þurfti að snúa sér aftur að þeim mörgu verkefnum sem fylgja vetrinum og jólunum hjá Þjónustustöðinni.

 


HÁLKUVARNIR
Hálka er nú mjög víða og eru bæjarbúar hvattir til að fara varlega. Hjá Þjónustustöð bæjarins við Völuteig 15 geta íbúar fengið sand til að bera á plön og stéttir við heimahús. Aðgengi er opið að sandinum og er bæjarbúum velkomið að taka það sem til þarf (muna að taka með sér poka eða ílát). Hægt er að senda ábendingar um það sem betur má fara á mos@mos.is eða hringja í þjónustumiðstöð 566 8450.

Erfitt að horfa upp á barnið sitt svona veikt

mosfellingurin_orri1

Orri Freyr Tómasson greindist með afar sjaldgæfan erfðasjúkdóm fljótlega eftir fæðingu. Einungis einn einstaklingur hefur greinst áður hér á landi með þennan sjúkdóm svo vitað sé.

Orri Freyr hefur á sinni stuttu ævi barist við afar sjaldgæfan erfðasjúkdóm sem nefnist Osteo­petrosis. Fljótlega eftir fæðingu kom í ljós að hann var með lágt kalk og D-vítamín í líkamanum. Nokkrum mánuðum síðar mældist höfuðmál hans óvenju stórt og við nánari rannsókn kom í ljós að hann var með vatnshöfuð, einnig hafði milta hans stækkað óverulega.
Í einlægu viðtali við Ruth Örnólfsdóttur ræða foreldrar Orra um sjúkrasöguna, dvölina ytra og ástand sonar síns í dag.

Orri Freyr fæddist 6. ágúst 2012. Foreldrar hans eru þau Agnes Ósk Gunnarsdóttir og Tómas Pétur Heiðarsson. Hann á eina systur, Fanneyju Emblu, sem er sex ára.

Ventli komið fyrir í höfðinu
Fljótlega eftir fæðingu Orra Freys kom í ljós að hann var með lágt kalk og D-víta­mín í líkamanum. Hann fékk viðeigandi lyf og dafnaði vel. „Þegar við fórum með hann í fimm mánaða skoðun kom í ljós að höfuð­mál hans var orðið óvenju stórt og í ljós kom að hann var með vatnshöfuð,“ segir Agnes Ósk, móðir Orra Freys.
Daginn eftir fór hann í aðgerð þar sem ventli var komið fyrir í höfðinu eins og vant er í slíkum tilfellum. Eftir aðgerðina virtist allt vera í lagi nema hann þyngdist hægt og lengdist mjög lítið. Hann var seinn í hreyfiþroska og var sendur til sjúkraþjálfara.“

Grunur vaknaði hjá læknunum
„Orri Freyr var oft mjög veikur og virtist fá hverja umgangspestina á fætur annarri. Þrátt fyrir það fannst okkur hann sýna framfarir en hann vildi alls ekki stíga í fæturna og það fannst okkur skrítið.
Við fórum með hann til læknis sem fann fyrir einhverju óvenjulegu í kviðnum á honum sem reyndist vera stækkað milta. Þegar öll einkenni barnsins voru tekin saman þá vaknaði grunur hjá læknunum. Teknar voru blóðprufur og röntgenmyndir til að sannreyna hvort grunurinn væri á rökum reistur, það er að segja að hann væri með sjúkdóm sem nefnist Osteopetrosis, og það reyndist rétt. Greininguna fengum við í kringum eins árs afmælið hans.“
Ákveðinn léttir að
fá greininguna
Sjúkdómurinn er genagalli og er Orri sá eini sem hefur greinst með þennan sjúkdóm á Íslandi í 40 ár, þetta er samt annað tilfellið sem vitað er um hér á landi.
Hvernig varð ykkur við? „Að fá greininguna var ákveðinn léttir en svo fórum við að gera okkur grein fyrir alvarleika sjúkdómsins og þá kom upp mikið stress. Okkur var ráðlagt að hitta sjúkrahúsprestinn og það hjálpaði okkur mikið að geta talað við hann.“

Beinin verða stökk og brothætt
Hvernig lýsir sjúkdómurinn sér? „Það eru tvær gerðir af beinfrumum í beinmergnum. Önnur byggir upp beinin en hin sér um að brjóta þau niður svo þau endurnýi sig og formist rétt.
Í Orra tilfelli eru niðurrifsfrumurnar ekki virkar og þar af leiðandi formast beinin hjá honum ekki rétt og verða kubbsleg í laginu. Beinin verða stökk og brothætt og það þrengist mjög að beinmergnum sem gerir það að verkum að starfsemi hans minnkar. Ástæða fyrir stækkun miltans er sú að miltað hefur tekið við stórum hluta starfsemi beinmergsins.“
Fóru til Svíþjóðar í aðgerð
„Eina lækningin við þessum sjúkdómi eru beinmergsskipti en ef genagallinn er stökkbreyttur þá er ekkert hægt að gera og lifa þá flest börn sem bera þennan sjúkdóm yfirleitt ekki lengur en til 6-10 ára aldurs.
Það var ljóst að við þyrftum að fara með Orra Frey til Svíþjóðar í aðgerð. Strax var farið að leita að merggjafa fyrir hann og var Fanney Embla systir hans fyrsti kostur en því miður gekk það ekki eftir. Það var vitað fyrirfram að við foreldrarnir gætum ekki gefið honum merg svo fljótlegasta leiðin var að leita í evrópskum gagnagrunni.“

Merggjafinn fannst á Englandi
„Þann 1. desember 2013 eða um leið og merggjafi fannst þá fórum við fjölskyldan út og reiknuðum með að dvelja í þrjá mánuði en það er yfirleitt tíminn sem þetta ferli tekur en sá tími átti eftir að lengjast töluvert.
Inga hjúkrunarfræðingur tók á móti okkur en hún aðstoðar fjölskyldur í aðstæðum eins og okkar. Hún sýndi okkur hús sem við gátum búið í og er ætlað fyrir aðstandendur sjúklinga sem koma langt að og þurfa að dvelja lengi á staðnum.
Fyrsta vikan fór í rannsóknir en svo fór Orri Freyr í einangrun þar sem beinmergur hans var brotinn niður. Þann 18. desember fékk hann svo nýja beinmerginn sinn sem kom frá gjafa á Englandi.
Aðgerðin við að fá nýja merginn er tiltölulega einföld en mergnum er sprautað í æð. Mesta áhættan var ef líkami Orra myndi hafna nýja mergnum. Hann var hafður á höfnunarlyfjum til að stjórna höfnuninni en á þeim þurfti hann að vera í eitt ár.“

mosfellingurin_orri2Þurftum að fara í einangrun
„Orri var mjög kvefaður og slappur eftir aðgerðina og var settur í rannsókn. Þá kom í ljós að hann var með svínaflensu. Það þurfti að setja okkur í einangrun og við máttum ekki nota eldhúsið eða neitt af sameiginlegu rýmunum vegna smithættu.
Við fengum svo að vita að nýju frumurnar væru farnar að vinna og næstu daga stigu öll blóðgildi hratt. Allt stefndi í það að við myndum losna úr einangrun fljótlega en svo stoppaði allt og gildin fóru að falla. Nokkrum dögum seinna kom svo í ljós að Orri hafði hafnað mergnum og ekkert annað að gera en að byrja upp á nýtt.“

Var eingöngu á sondunæringu
„Það þurfti að hafa samband við merggjafann til að fá frá honum stofnfrumur og við biðum í mánuð eftir þeim en þá tók við önnur lyfjameðferð. Það leið ekki nema rúm vika þar til þær frumur tóku við sér. Tölurnar fóru hratt upp en fljótlega var hann komin með höfnunareinkenni á húðinni frá nýju frumunum. Orri var eingöngu á sondunæringu því hann var svo slæmur í maganum út af höfnuninni. Í lok mars var hann svo útskrifaður af sjúkrahúsinu og var þá farinn að borða aðeins sjálfur.“

Fengum þjálfun í að gefa honum lyf
„Við vorum flutt á íbúðarhótel í miðbæ Stokkhólms, læknarnir vildu ekki leyfa okkur að búa áfram í húsinu þar sem Orri mældist ennþá með svínaflensu.
Við fórum í apótekið og leystum út fjórtán mismunandi lyf sem Orri þurfti að taka tvisvar á dag og sum lyfin fjórum sinnum en við fengum þjálfun í að gefa honum lyfin áður en að útskrift kom. Það var að mörgu að hyggja, það fylgdi heil A4 síða með stundatöflu yfir lyfjagjöfina. Við þurftum að mæta á sjúkrahúsið tvisvar í viku í blóðprufur og lyfjagjafir.
Þá daga sem við þurftum ekki að mæta áttum við fyrir okkur og þá var reynt að lifa eðlilegu lífi. Það var nú ekki alltaf auðvelt þar sem Orri mátti ekki vera innan um fólk. Við gátum t.d. ekki farið með hann í lest, strætó eða í búðir vegna smithættu.“

Veitti okkur frelsi að hafa bíl
„Við tókum bíl á leigu og það veitti okkur mikið frelsi. Það fór eftir heilsu Orra hversu mikið við gátum farið.
Fanney Embla var hjá okkur af og til en hún varð að fá að komast heim inn á milli til að fara í leikskólann og losna undan þessu læknaumhverfi. Það var jafn mikil vinna að sinna henni og veita henni þá athygli sem hún þurfti á meðan á öllu þessu stóð.“

Undirbreiðslur voru staðalbúnaður
„Orri var á sondunæringu en þá nærist hann í gegnum slöngu sem fer í gegnum nef og ofan í maga en hann borðaði aðeins sjálfur með. Fljótlega fór að bera á magavandamálum og matarlystin var lítil og endaði með því að hann hætti alveg að borða.
Um miðjan maí kom bakslag þegar Orri greindist með nóróveiru og það fór alveg með magann. Hann fékk mikinn niðurgang og það þurfti að skipta á honum 15-17 sinnum á sólarhring.
Undirbreiðslur voru orðin staðalbúnaður, þær voru í bílstólnum, í barnakerrunni og í rúminu þar sem bleyjan hafði ekki undan öllum þessum ósköpum.“

Fékk stera í æð
„Þegar komið var fram í júní var Orri ennþá mjög slæmur, það endaði með því að hann var lagður inn. Hann mátti ekki taka inn nein lyf eða fæðu í gegnum munn, allt fór í gegnum æð.
Hann fékk stera sem áttu að hjálpa maganum að ná sér en við það hækkaði blóðþrýstingurinn og var kominn í 210 í efri mörkum sem er margfalt meira en eðlilegt þykir. Það endaði með því að hann var lagður inn á gjörgæsludeild þar sem starfsfólkið á almennri deild réð ekki við ástandið. Á gjörgæslunni þurfti hann að fá mjög öflug blóðþrýstingslyf og var undir ströngu eftir­l­iti. Þaðan fór hann svo á barnadeild og útskrifaðist tveimur vikum seinna.“

Pöntuðu flug eftir tíu mánaða dvöl
„Sondunæringin var tekin og næring í æð kom í staðinn og fengum við þá heimahjúkrun þegar þurfti að tengja og aftengja næringuna. Eftir tvær vikur máttum við svo fara að gefa honum vatn og epladjús.
Ástandið hélst óbreytt alveg þangað til við fórum heim til Íslands hvað varðar magann, næringuna og það að vilja ekki borða neitt sjálfur. Læknarnir vildu ekki senda okkur heim fyrr en öll blóðgildi hjá Orra væru búin að vera stöðug í ákveðinn tíma en þau voru búin að vera rokkandi. Það kom svo að því og við gátum pantað okkur flug heim eftir tíu mánaða dvöl.“

Við sáum strax batamerki
„Það var mikil gleði að komast heim og hitta ættingja og vini. Það var samt langt því frá að við værum að koma heim í einhverja slökun. Við lærðum á allt í sambandi við næringu í æð og lyfjagjafir og svo voru tíðar sjúkrahúsferðir, sjúkraþjálfun og talmeinafræðingur, allir dagar voru í raun þéttskipaðir.
Ennþá voru magavandræði á Orra og ákváðu læknarnir hér heima að byrja aftur á núlli með sondunæringuna. Næring í æð var aukin og sondunæringin var sett á sídreypi. Þarna fóru hlutirnir að gerast og við sáum strax batamerki. Tæpum þremur mánuðum seinna var hann farinn að borða sjálfur.“

Lífið er töluvert rólegra núna
„Lyfin sem Orri var búinn að vera að taka tíndust út eitt og eitt, sterarnir voru trappaðir niður og í kjölfarið duttu blóðþrýstingslyfin út líka. Steraútlitið hvarf og Orri byrjaði svo að lengjast aftur en hann hafði ekki lengst í rúm tvö ár.
Hann byrjaði í sjúkraþjálfun og byrjaði svo að ganga í maí s.l. þá tæplega þriggja ára gamall.
Orri byrjaði í leikskólanum Huldubergi í ágúst og hefur tekið miklum framförum bæði hvað varðar hreyfiþroska og tal.
Lífið er töluvert rólegra hjá okkur núna, við mætum með hann einu sinni í mánuði á Barnaspítalann, svo mætum við í sund en það hjálpar honum mikið með styrk og samhæfingu.“

Þakklæti efst í huga
Orra líður vel í dag, hann unir sér vel í leik og starfi og það er mikill léttir fyrir okkur foreldrana að þurfa ekki að vera með hann umvafinn í bómull. Tómas vinnur við jarðgangagerð í Noregi og ég hóf störf aftur á leikskólanum Hlíð núna í desember,“ segir Agnes.
Við viljum fá að nota tækifærið til að koma fram þökkum til allra þeirra Mosfellinga og annarra sem studdu okkur í gegnum allt þetta ferli með því að leggja inn á styrktarreikning Orra sem góðir vinir stofnuðu til. Einnig viljum við þakka World Class í Mosfellsbæ fyrir þeirra framlag.
Við erum með opna Facebook-síðu á nafninu hans Orra ef fólk vill fylgjast með honum.
Það hefur verið ómetanlegt að lesa allt það sem fólk hefur sett þar inn, það veitti okkur mikinn styrk að vita til þess að fólk heima hugsaði til okkar, algjörlega ómetanlegt.“

Myndir og texti: Ruth Örnólfs

 

Endurnýjanleg orka

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Þjóðir heims gerðu með sér sögulegt samkomulag í París í síðustu viku. Það snýst um að hugsa betur um jörðina á margvíslegan hátt, meðal annars með því að einblína á endurnýjanlega orkugjafa. Vindorku frekar en olíu, til dæmis. Vonandi munu allir standa sig í stykkinu svo sett markmið náist.

Ég er mjög mikið að velta fyrir mér orku núna. Mér fannst ég sjálfur óvenjulega orkulítill í seinni hluta nóvember, tók sjálfan mig í greiningu og ákvað að gera breytingar. Fyrsta skrefið var kaffið. Mér finnst gott kaffi mjög gott. En ég á erfitt með að halda mér innan skynsamlegra kaffimarka og þarna í nóvember var ég farinn að drekka ansi marga kaffibolla á hverjum degi. Ég ákvað að hætta alveg að drekka kaffi og sjá hvaða áhrif það hefði.

Fyrstu tveir dagarnir voru erfiðir, hausverkur og önnur fráhvarfseinkenni, magnað hvað kaffið slær mann þegar maður hættir að drekka það. Er núna á þriðju viku, sakna svarta vökvans lítið. Breytti líka aðeins til í mataræðinu, borða núna sem dæmi bara ávexti fyrir hádegi. Þessar tvær breytingar eru að gera mér gott, ég finn það, sef betur og er allur einbeittari. Fyrir mér er líkaminn eins og jörðin, við eigum að hugsa jafn vel um okkur sjálf og jörðina. Jörðin hefur sinn ryðma, við okkar. Við eigum að vakna úthvíld eftir góðan nætursvefn, borða passlega og rétt, hreyfa okkur sem mest og styrkja okkur líkamlega.

Þetta er grunnurinn að góðu lífi, góð líkamleg orka. Góð líkamleg orka gefur okkur kraft til þess að sinna verkefnum og áskorunum dagsins og gott betur. Við fáum aukaorku til þess að gera eitthvað skemmtilegt með okkar nánustu og sinna skapandi og gefandi hlutum. Við höfum eina jörð og verðum að fara vel með hana. Þú hefur bara einn líkama, farðu vel með hann.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 17. desember 2015

Bæjarbúar geta kosið Mosfelling ársins

12395235_10208246843876931_306067238_n

Val á Mosfellingi ársins 2015 stendur yfir. Lesendum gefst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykja verðugir að bera nafnbótina. Allir Mosfellingar koma til greina í valinu og er öllum frjálst að senda inn tilnefningar í gegnum heimasíðu blaðsins www.mosfellingur.is. Er þetta í ellefta sinn sem valið fer fram á vegum Mosfellings. Íbúar eru hvattir til að taka virkan þátt og senda inn tilnefningar. Gjarnan má fylgja með stuttur rökstuðningur fyrir tilnefningunni og hvað viðkomandi hefur lagt til samfélagsins. Áður hafa hlotið nafnbótina: Sigsteinn Pálsson, Hjalti Úrsus Árnason, Jóhann Ingi Guðbergsson, Albert Rútsson, Embla Ágústsdóttir, Steindi Jr., Hanna Símonardóttir, Greta Salóme, Kaleo og Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir. Útnefningin verður kunngjörð í fyrsta blaði næsta árs, fimmtudaginn 7. janúar.

 

Það verður að vera gaman að því sem maður gerir

simmimosfellingur

Simmi Vill eins og hann er oftast kallaður hefur víðtæka reynslu af atvinnulífinu og hefur ávallt mörg járn í eldinum. Hann er maðurinn við stjórnvölinn í Keiluhöllinni í Egilshöll en nýjasta verkefni hans og viðskiptafélaga hans er að opna lúxushótelsvítur á efstu hæð Turnsins við Höfðatorg í Reykjavík og eru framkvæmdir hafnar.
Sigmar segir mikinn vöxt í ferðatengdri þjónustu hérlendis og nú sé rétti tíminn til að hrinda af stað gömlum draumi.

Sigmar er fæddur í Reykjavík 3. janúar 1977. Foreldrar hans eru þau Gerður Unndórsdóttir og Vilhjálmur Einarsson skólastjóri. Sigmar á fimm bræður, Rúnar fæddur 1958, Einar fæddur 1960, Unnar fæddur 1961, Garðar fæddur 1965 og Hjálmar fæddur 1973.
Fjölskyldan flutti frá Reykholti í Borgarfirði til Egilsstaða þegar Sigmar var þriggja ára en faðir hans var fyrsti skólastjóri Menntaskólans á Egilsstöðum.

Íþróttahúsið var okkar annað heimili
„Ég á hlýjar og góðar æskuminningar að austan, á sumrin var alltaf troðfullt af ferðamönnum og því var mikið líf og fjör.
Við félagarnir æfðum allar íþróttir sem í boði voru og á veturna var íþróttahúsið okkar annað heimili. Ég keppti reglulega á mótum enda fátt annað sem komst að.
Við höfðum frjálst aðgengi að veiðistöðum og veiddum reglulega í Eyvindará og vötnum í Skriðdal og Eiðaþingá.
Eftirminnilegar eru líka ferðir okkar fjölskyldunnar í Mjóafjörð þar sem við dvöldum alltaf að sumri. Þá var farið á trillu og veitt á handfæri, svo var farið í berjamó og unnið úr aflanum á kvöldin.“

Flutti til Svíþjóðar
„Þegar ég var 13 ára fluttum við fjölskyldan til Svíþjóðar og bjuggum þar í þrjú ár þar sem faðir minn fór í endurmenntunarnám.
Ég fermdist í Svíþjóð ásamt öðrum Íslendingi í norsku sjómannakirkjunni í Gautaborg. Við þurftum að kunna trúarjátninguna upp á hár því það var engin leið að mæma þar sem við vorum bara tveir í fámennri athöfn en allt gekk þetta nú eftir,“ segir Sigmar og glottir.

Það besta sem gat komið fyrir mig
„Flutningur okkar til Svíþjóðar er sennilega ein mikilvægasta breytingin á mínum unglingsárum. Ég flutti úr vernduðu umhverfi þar sem ég var öruggur með mitt. Ég þekkti alla og allir þekktu mig. Ég var að einhverju leyti leiðtogi því ég stýrði því hverjum var strítt og hverjum ekki. Ég hafði það orðspor hjá eldri strákunum á Egilsstöðum að vera eitt leiðinlegasta barn á Íslandi en ég átti það til að standa verulega upp í hárinu á þeim.
Þegar ég flutti út þá var ég akkúrat í hinu hlutverkinu, mér var strítt og átti mjög erfitt fyrsta árið. Þegar ég náði svo tökum á sænskunni fór lífið að brosa við mér aftur.“

Einlæg afsökunarbeiðni
„Við fluttum svo aftur heim og lífið gekk sinn vanagang. Einn daginn var ég að horfa á þátt með Opruh Winfrey í sjónvarpinu um einelti og varð hugsað til baka. Ég áttaði mig á því hvað ég hafði gert, ég lagði manneskju í ljótt einelti án þess að gera mér grein fyrir því. Ég sá að mér og ákvað að setja mig í samband við viðkomandi og biðjast afsökunar á framkomu minni, það var mikilvæg stund.
Síðan þá hef ég hvatt alla sem hafa gert eitthvað á hlut annarra í æsku að gefa sig á tal og biðjast afsökunar. Maður veit nefnilega ekki hvað maður hefur mögulega lagt á fólk, einlæg afsökunarbeiðni getur breytt lífi og líðan,“ segir Sigmar alvarlegur.

Flutti snemma að heiman
„Ég flutti að heiman 17 ára, mér þótti Egilsstaðir ekki bjóða upp á nægilega mörg tækifæri. Það má því segja að ég hafi snemma þurft að sjá fyrir sjálfum mér og ég gerði það sem þurfti að gera hverju sinni.
Ég starfaði um tíma við ræstingar á nóttunni með námi, sinnti dyravörslu á skemmtistöðum, var pítsubílstjóri, vann í saltfiski, afgreiðslumaður í verslun og allt voru þetta störf sem gáfu mér mikið.“
Alltaf náð að skipuleggja fjölskyldulífið
Sigmar er giftur Bryndísi Björgu Einarsdóttur og saman eiga þau synina Einar Karl 13 ára, Vilhjálm Karl 9 ára og Inga Karl 6 ára og hundinn Bola Karl.
Við Bryndís höfum verið saman síðan 1998 og gift í 10 ár. Bæði höfum við haft mikið fyrir stafni, verið í rekstri fyrirtækja og virk í félagsstörfum en alltaf náð að skipuleggja fjölskyldulífið. Bryndís heldur samt traustataki utan um þetta allt saman því það er ekki mín sterka hlið.“

Leiðin lá í fjölmiðla
„Fjölmiðlar hafa alltaf heillað mig, snemma fékk ég tækifæri í útvarpsmennsku á Rás 2. Ég færði mig yfir á frjálsa stöð sem hét Mono en þaðan lá leiðin í sjónvarp þar sem ég og félagar mínir tókum við stöð sem hét PoppTíví. Í kjölfarið lá leiðin á Stöð 2 þar sem ég var einn stjórnenda Idol stjörnuleitar og fleiri þátta, samhliða þessu sinnti ég markaðsfulltrúastöðu.
Ég hóf störf hjá Landsbankanum en færði mig svo yfir til IP fjarskipta, sem framkvæmdastjóri sölu-og markaðssviðs.
Árið 2010 stofnaði ég ásamt félaga mínum veitingastaðinn Íslensku Hamborgara­fabrikkuna, staðirnir eru í dag orðnir þrír talsins. Árið 2013 tók ég þátt í stofnun Lava sem er eldfjalla- og jarðskjálftasýning sem opnuð verður árið 2017 á Hvolsvelli.“

Skapa fjölskylduvæna stemningu
Ég spyr Sigmar út í Keiluhöllina en hann starfar þar sem framkvæmdastjóri. „Við erum fjórir eigendur, ég, Jóhannes Ásbjörnsson, Snorri Marteinsson og Jóhannes Stefánsson og fjölskylda í Múlakaffi.
Okkar markmið eru að auka veg og vanda keiluíþróttarinnar ásamt því að auka þjónustu við einstaklinga, hópa og fjölskyldur í leit að afþreyingu og góðum mat.
Keila er afþreying þar sem allir geta tekið þátt, amma og afi geta keppt við barnabörnin og allt þar á milli. Við ætlum okkur að skapa fjölskylduvæna stemningu hérna.“

Opna lúxushótelsvítur
„Næsta verkefni okkar er að opna lúxus­hótelsvítur efst í Höfðatorgsturni. Það verður hægt að leigja stök herbergi og eins verður möguleiki á að sameina svíturnar og leigja þannig stærri gistipláss. Hótelið er fyrir fólk sem vill láta lítið fyrir sér fara en mikið fyrir sér hafa.“
Það er ekki hægt að sleppa Sigmari nema að spyrja hann út í sjónvarpsstöðina Miklagarð og hvað fór úrskeiðis þar. Rúmum mánuði eftir að stöðin hóf útsendingar leituðu eigendurnir að nýju hlutafé til að styrkja reksturinn en á sama tíma var öllum starfsmönnum stöðvarinnar sagt upp störfum. „Það var einfaldlega lagt af stað með of lítið hlutafé en dýrmæt reynsla að baki og skemmtilegur tími er ég hugsa til baka,“ segir Sigmar að lokum.

Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Innbrotum og þjófnuðum fækkar í Mosfellsbæ

loggan

Nýlega komu forsvarsmenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á fund bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ. Fundurinn er árlegur og þar er meðal annars farið yfir tölfræðiupplýsingar um þá þjónustu sem lögreglan veitir í sveitarfélaginu.
Innbrotum og þjófnuðum í Mosfellsbæ fækkar á milli ára á meðan meðaltal á höfuð­borgarsvæðinu hækkar. Tilkynningum um ofbeldisbrot og heimilisofbeldi hefur hinsvegar fjölgað talsvert milli ára. Að mati lögreglunnar og starfsmanna Fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar er það ekki endilega vegna fleiri ofbeldisbrota heldur má tengja það átaki lögreglunnar og barnaverndaryfirvalda um breytt verklagi í þeim málum, betri skráningu og almennri vakningu í samfélaginu um að slík mál beri að tilkynna.

Áhyggjur af afbrotum
Í könnun sem lögreglan gerir meðal íbúa kemur í ljós að 94% aðspurðra íbúa í Mosfellsbæ telja sig örugga í sínu hverfi. 62% íbúa segjast hafa haft áhyggjur af því að verða fyrir afbroti á síðasta ári.
Lögreglustöðin á Vínlandsleið í Grafarvogi hefur umsjón með þjónustu í Mosfellsbæ og 33% íbúa hefur haft samband við lögregluna með einhverjum hætti það sem af er ári. Það er lægra hlutfall en á höfuðborgarsvæðinu í heild. Flestir nýta sér samfélagsmiðla eða 71% til að hafa samband.
Lögreglan leggur mikla áherslu á sýnileika og góða þjónustu við íbúa í Mosfellsbæ og hvetur íbúa til að nýta sér allar færar leiðir til að hafa samband við sig sé óskað eftir aðstoð eða þjónustu lögreglunnar.

Jólasýning fyrir yngstu kynslóðina

töfratárið2Í nógu er að snúast hjá Leikfélagi Mosfellssveitar. Viðtökur á leikritinu Mæðrum Íslands fóru fram úr björtustu vonum, Leikgleði námskeiðin eru í fullum gangi og sýningar á nýju jólaleikriti fyrir yngstu kynslóðina eru hafnar.
Leikritið heitir Töfratárið og er eftir Agnesi Wild og í leikstjórn hennar. Töfratárið fjallar um stúlkuna Völu sem þykir fátt skemmtilegra en að leika sér með bangsann sinn. Það er aðfangadagur og móðir Völu sem er læknir þarf að fara í vinnuna. Völu þykir það ósanngjarnt, grætur og bangsi huggar hana. En það sem Vala vissi ekki er að allir bangsar eru gæddir töframætti og þegar barn grætur tárum sem það á alls ekki að gráta, geta bangsar lifnað við.
Töfratárið er fjörug, falleg og fræðandi sýning fyrir börn frá 3 ára aldri og fjölskyldur þeirra. Sýningar verða á sunnudögum til jóla og er hægt að panta miða í síma 566-7788.
Einnig er hægt að fylgjast með leikfélaginu á Facebook, Instagram og Snapchat undir nafninu leikmos.