30 dagar

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Ég er á degi fjögur í 30 daga áskorun þegar þessi Mosfellingur kemur út. Ég elska áskoranir, svo lengi sem þær eru líklegar til þess að gera manni gott. Þessi áskorun gengur út á mataræði, að borða ákveðnar fæðutegundir og sleppa öðrum á sama tíma.
Ég tek þátt í áskoruninni til þess að komast að því hvort mér líði enn betur ef ég sleppi því að borða fæðutegundir sem ég hef borðað talsvert mikið af undanfarið. Ég hef grun um það, eina leiðin til þess að komast að því er að prófa það á sjálfum mér.

Ráðleggingar um mataræði eru margar og mismunandi í dag. Ég er nýbúinn að lesa tvær bækur um mataræði. Önnur sannfærði mig um að ég ætti að fasta á hverjum degi, borða mikið af ávöxtum og grænmeti og helst láta allar dýraafurðir eiga sig. Hin sannfærði mig um að ég ætti að vera rólegur í ávöxtunum, borða mikið af grænmeti og talsvert mikið af dýraafurðum.
Höfundar beggja bóka rökstuddu sitt mál vel, ég trúði þeim báðum þótt þeir væru innilega ósammála hvor öðrum. Ég á vin sem fylgir þriðju leiðinni, hann er grjótharður á því að hún sé sú eina rétta. Hann hefur líka náð að sannfæra mig með rökum um það.

Staðan í dag er einfaldlega sú að það er enginn einn ótvíræður sannleikur með mataræði, það sem hentar einum þarf ekki að henta öðrum. Besta leiðin til þess að finna það mataræði sem hentar þér, kæri lesandi, er að prófa sig áfram. Velja eina leið og fylgja henni í 25-30 daga. Meta hvað gerir þér gott, hvað ekki.
Ekki láta aðra trufla þig á meðan. Fólk á eftir að freista þín, bjóða þér kökusneið eða kókosbollu. Segðu bara nei takk. Haltu svo áfram að prófa þig áfram. Finndu þína leið.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 31. mars 2016

Það er geðveikt að grínast í Mosó

midisland

Grínhópinn Mið-Ísland þarf vart að kynna en hann hefur ráðið lögum og lofum í íslensku uppistandi undanfarin ár. Mið-Ísland frumsýndi nýtt uppistand í byrjun árs og þann 31. mars næstkomandi ætlar hópurinn að troða upp í Hlégarði í Mosfellsbæ.
„Það er geðveikt að grínast í Mosó. Þar sleit ég grínbarnsskónum,“ segir Mosfellingurinn Dóri DNA, einn af meðlimum hópsins. Auk hans koma fram á sýningunni þau Ari Eldjárn, Björn Bragi, Jóhann Alfreð og Anna Svava, en hún kemur í stað Bergs Ebba sem er búsettur í Kanada um þessar mundir.
„Við höfum aðeins einu sinni áður verið með sýningu í Mosó og það eru mörg ár síðan. Ég hlakka mikið til,“ segir Dóri.

Uppistand sem slegið hefur í gegn
Óhætt er að segja að nýja uppistandið hafi slegið í gegn en sýningin fékk fimm stjörnur í DV á dögunum og hefur hópurinn sýnt fyrir fullum Þjóðleikhúskjallara fimm sinnum í viku frá því í byrjun árs. Fjöldi sýninga er að nálgast 50 og gestafjöldinn er kominn yfir átta þúsund. „Þetta er búið að ganga ótrúlega vel og við erum þakklát fyrir viðtökurnar,“ segir Dóri.
Síðustu tvær uppistandssýningar Mið-Íslands voru sýndar á Rúv og þá hafa meðlimir hópsins verið duglegir að koma fram á hinum ýmsu viðburðum. Dóri segir að á sýningunni í Hlégarði verði allir grínistarnir með nýtt efni. „Þetta verður ferskt svo það brakar. Ég lofa góðri skemmtun.“ Miðasala fer fram á Miði.is.

Fjölbreytileikinn í fyrirrúmi

fanneydogg

Fanney Dögg Ólafsdóttir snyrtifræðimeistari og eigandi snyrti-, nudd- og fótaaðgerðastofunnar Líkama og sálar segir ávinning af varanlegri förðun vera svipmeira útlit sem undirstrikar fegurð einstaklingsins.

Varanleg förðun eða förðun framtíðarinnar er byltingarkennd meðferð sem felst í innsetningu lita undir yfirborð húðar til þess að skerpa línur andlits og undirstrika fegurð. Meðferðirnar eru tiltölulega sársaukalitlar og eru ávallt gerðar í samráði við viðskiptavini bæði hvað varðar litaval og lögun.
Ein af þeim sem hefur ástríðu fyrir förðun sem þessari er Fanney Dögg Ólafsdóttir, snyrtifræðimeistari, en hún notar liti frá Nouveau Contour sem hafa verið prófaðir fyrir litastöðuleika, öryggi og útkomu og teljast þeir bestu á markaðnum í dag.

Fanney Dögg er fædd í Reykjavík 21. september 1981. Foreldrar hennar eru þau Hugrún Þorgeirsdóttir snyrti-, nudd- og fótaaðgerðafræðingur og Ólafur Sigurjónsson verslunarstjóri Kaupfélags Skagfirðinga. Fanney Dögg á eina systur, Jónu Björgu, sem er fædd 1979.

Alltaf líf og fjör hjá afa og ömmu
„Ég er alin upp í Mosfellsbæ og vil hvergi annars staðar eiga heima. Björg föðuramma mín og Sigurjón afi bjuggu í næstu götu við okkur og það var dásamlegt að fá að alast upp svona nálægt þeim.
Ansi oft fylgdi okkur systrum stór vinahópur sem mætti í Álmholtið til þeirra og þar var alltaf líf og fjör og vel tekið á móti öllum.“

Kafaði gjörsamlega niður á botn
„Á mínum yngri árum var maður mikið út að leika í hinum ýmsu leikjum eða að renna sér í brekkunni fyrir neðan Lágholtið.
Áður en Sorpa kom til sögunnar þá voru ruslagámar rétt hjá hesthúsahverfinu. Ég gekk gjarnan þangað, fór upp í gámana og kafaði gjörsamlega niður á botn og fann alltaf einhverja flotta hluti sem ég tók að sjálfsögðu með mér heim,“ segir Fanney Dögg og skellir upp úr.
„Foreldrar mínir voru lítt hrifnir af þessu uppátæki mínu, hvað þá að gjöfunum sem ég færði þeim eftir hverja ferð.“

Týpísk nútíma fjölskylda
„Ég gekk í Varmárskóla og fór síðan í Gaggó Mos. Við æskuvinkonurnar höfum haldið hópinn og ég er einstaklega heppin að eiga frábærar og traustar vinkonur.
Foreldrar mínir skildu þegar ég var fimmtán ára. Þau eignuðust síðan nýja maka og í kjölfarið eignaðist ég sjö stjúp­systkini svo mín nánasta fjölskylda stækkaði ansi mikið. Þetta er þessi týpíska nútíma fjölskylda,”“segir Fanney Dögg og brosir. „Allt er þetta dásamlega gott og skemmtilegt fólk og samband okkar er gott.“

Eyddi frítíma mínum í hestamennsku
„Allan minn tíma í grunnskóla æfði ég knattspyrnu með Aftureldingu og svo var ég líka í Skólakór Varmárskóla.
Við fjölskyldan vorum í hestunum og í hesthúsinu eyddi ég öllum mínum frítíma og á frábærar minningar þaðan. Hestamennskan er yndislegt fjölskyldusport og í Herði er mikið lagt upp úr barna- og unglingastarfi.
Við í unglingahóp Harðar vorum með hestasýningu í Vestmannaeyjum 1995 þar sem við sýndum m.a. skrautsýningu, fánareið, hlýðniæfingar, hindrunarstökk og fleira. Þessi ferð var afar vel heppnuð og rataði meira að segja í blöðin.“

Flutti til Danmerkur
„Eftir gagnfræðaskólann lá leið mín á Laugarvatn þar sem ég var í tvö ár en svo flosnaði ég upp úr skóla og fór að vinna.
Sumarið 1999 flutti ég til Danmerkur og fór að læra snyrtifræði í Cidesco cosmetologskolen í Kaupmannahöfn. Þetta var skemmtilegur tími og ég varð sjálfstæðari og þroskaðri við þessa dvöl mína. Ég flutti heim eftir námið og við tók nemasamningur á Snyrtistofunni Líkama og sál, sveinsprófið klárað ég árið 2002.
Ég kláraði stúdentinn og sjúkraliðann frá Menntaskólanum við Ármúla 2005 og svo tók ég meistararéttindin í snyrtifræði 2008 og bætti svo förðunarfræðingnum við 2011 svo það er búið að vera nóg að gera.“

Bestu stundirnar fólgnar í einfaldleika
„Ég kynntist eiginmanni mínum, Guðmundi Þór Sævarssyni, sölustjóra hjá Emmess ís, árið 2007. Það má segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn. Við giftum okkur 2009 í Lágafellskirkju og héldum veislu í Kjósinni, frábær dagur í alla staði.
Gummi gekk dóttur minni, Andreu Rós, í föðurstað þegar hún var fjögurra ára og samband þeirra er sterkt og gott. Árið 2008 eignumst við soninn Aron Þór, en yngst er Eva Dögg, hún er fædd 2010.
Hvað finnst fjölskyldunni skemmtilegast að gera saman? „Okkur finnst gaman að ferðast innanlands sem utan, fara í sumarbústaðaferðir, göngutúra, skíði og bara hverskyns samvera. Á planinu er svo að vera með tvo hesta í húsi fram á sumar.
Það er nú ekki mikill tími aflögu í þessu hraða þjóðfélagi sem við lifum í en við reynum að nýta vel þær stundir sem við eigum saman og njóta þeirra. Oft eru bestu stundirnar fólgnar í einfaldleikanum.“

Líkami og sál 20 ára
„Snyrtistofan Líkami og sál var stofnuð af móður minni árið 1996 svo fyrirtækið verður 20 ára í ár. Ég keypti stofuna árið 2011 og nú starfar mamma hjá mér og okkur finnst dásamlegt að vinna saman. Jóna Björg systir útskrifaðist sem fótaaðgerðafræðingur s.l. haust og nú hefur hún bæst í hópinn. Auk okkar starfa tveir aðrir starfsmenn á stofunni.“

Meðferðirnar henta báðum kynjum
Er boðið upp á margar meðferðir á stofunni? „Já, hjá okkur er fjölbreytileikinn í fyrirrúmi og meðferðirnar henta bæði konum og körlum. Það er gleðilegt að segja frá því að við sjáum mikla aukningu hjá körlum sem er frábært því þeir þurfa jafn mikið á meðferðunum að halda og konur.
Í byrjun árs 2015 klárað ég mastersnám í varanlegri förðun (tattú). Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri og þarna liggur mín ástríða. Við notum liti frá Noveau Contour sem eru náttúrulegir og endast lengi. Allt er þetta framkvæmt eftir óskum hvers og eins og útkoman er eðlileg og undir­strikar fegurð einstaklingsins.
Varanleg förðun getur breytt miklu t.d. fyrir manneskjur sem hafa gisnar augabrúnir og þurfa að fara í litun mjög ört eða hafa misst hárin vegna lyfjameðferðar. Það er vert að geta þess að Tryggingastofnun tekur þátt í kostnaði sem hlýst af svona meðferðum fyrir sjúklinga.
Þetta er sem sagt nýjasta viðbótin hjá okkur og ég er stolt að geta boðið upp á þessa meðferð,“ segir Fanney Dögg að lokum er við kveðjumst.

Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Fjölbreyttni hjá Rauða krossinum

Nemendur sinna heimanámi í Þverholtinu.

Nemendur sinna heimanámi í Þverholtinu.

Hulda Margrét Rútsdóttir hefur verið ráðin í 50% starf sem verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ.
Hulda er með meistarapróf í alþjóða samskiptum og þróunarlandafræði frá háskólanum í Amsterdam og hefur síðustu ellefu ár starfað sem upplýsingafulltrúi á Gljúfrasteini-húsi skáldsins auk þess sem hún starfar við þýðingar.
Hulda hefur m.a. umsjón með sjálfboðaliðaverkefnunum Heimsóknavinir, Föt sem framlag og Heilahristingur. Þá heldur hún utan um fleiri verkefni sem eru í þróun og hefur umsjón með móttöku nýrra sjálfboðaliða og tekur þátt í átaksverkefnum.
Það er ýmislegt í gangi hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ sem er til húsa í Rauða kross húsinu að Þverholti 7.

Heilahristingur á mánudögum
Heilahristingur er heimavinnuaðstoð fyrir grunnskólanemendur. Sjálfboðaliðar sjá um að aðstoða börn við lestur og heimanám frá klukkan 15-17. Það er upplagt fyrir krakkana að koma með námsbækurnar og klára heimanámið. Andrúmsloftið er afslappað og krakkarnir fá aðstoð eftir þörfum.

Föt sem framlag á miðvikudögum
Á miðvikudögum kl. 13-16 er hópur vaskra sjálboðaliða sem prjóna, hekla og sauma föt fyrir hjálparstarf innanlands og erlendis. Garn, prjónar og efni eru á staðnum og rjúkandi kaffi og með því.

Opið hús á fimmtudögum
Opið hús frá 13-16. Öllum er frjálst að mæta til skrafs og ráðagerða eða bara til að fá sér kaffibolla.

Íbúar í Mosfellsbæ ánægðir

mosoanægja

Þegar íbúar í Mosfellsbæ eru spurðir hversu ánægðir eða óánægðir þeir séu með Mosfellsbæ sem stað til að búa á eru 93% aðspurðra ánægðir eða mjög ánægðir.
Mosfellsbær er því enn eitt árið með ánægðustu íbúana í samanburði við önnur sveitarfélög og með hæstu einkunn. Þetta kemur fram í árlegri könnun Capacent þar sem mælt var viðhorf til þjónustu í 19 stærstu sveitarfélögum landsins.

Flestir ánægðir með íþróttaaðstöðu – fæstir við þjónustu við fatlað fólk
Alls eru 83% íbúa í Mosfellsbæ ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar og ánægja með þjónustu í leikskólum bæjarins mælist um 80%. Spurðir um þjónustu Mosfellsbæjar í heild eru 77% mjög eða frekar ánægðir.
Niðurstöður sýna að ánægja í Mosfellsbæ er í eða yfir landsmeðaltali í öllum málaflokkum sem spurt er um. Einn af helstu styrkleikum Mosfellsbæjar miðað við önnur sveitarfélög síðustu ár hefur verið ánægja íbúa með skipulagsmál og svo er einnig nú. Þegar spurt er um þjónustu við eldri borgara er ánægja í Mosfellsbæ einnig talsvert yfir landsmeðaltali enda hefur aðbúnaður vegna þeirra þjónustu í Mosfellsbæ verið stórbættur á síðustu misserum.

Vilja gera betur í sorphirðu
Viðhorf til þjónustu í tengslum við sorphirðu versnar marktækt á milli ára og stendur til að skoða það mál sérstaklega, segir í tilkynningu frá Mosfellsbæ. Þar gæti spilað inn í að könnunin var gerð í nóvember og desember en þá eykst þörfin fyrir sorphirðu talsvert ásamt því að veður og færð gera framkvæmd sorphirðunnar erfiðari, sérstaklega á dreifbýlli svæðum sveitarfélagsins. Einnig er eftirspurn eftir því að flokka sorp að aukast og sveitarfélagið hyggst leita leiða til að koma á móts við þá eftirspurn.

Stoltur af niðurstöðunni
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segist afar ánægður með útkomuna. „Það er gaman að enn eitt árið mælast Mosfellingar með ánægðustu íbúum landsins. Ég er afar stoltur af niðurstöðunni í heild og sérstaklega varðandi þjónustu við eldri borgara.
Hins vegar leggjum við metnað okkar í að viðhalda ánægju íbúa í öllum málaflokkum og ég hef sérstakan áhuga á að skoða viðhorf fólks varðandi þjónustu við barnafjölskyldur. Í Mosfellsbæ býr mikið af ungu fjölskyldufólki og við leggjum mikla áherslu á að veita þeim hópi framúrskarandi þjónustu hvort sem það snýr að leikskóla eða skólamálum, íþróttum eða tómstundum.“
Heildarúrtak í könnuninni er yfir 12 þúsund manns og þar af fengust svör frá 316 einstaklingum úr Mosfellsbæ.

Niðurstöður könnunarinnar í heild sinni er hægt að kynna sér á vef Mosfellsbæjar www.mos.is.

Ég er meiddur…

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Ég bögglaði hnéð á mér fyrir nokkrum vikum. Meiðsli eru algengasta afsökun fólks fyrir því að hreyfa sig ekki. Afsökun fyrir því að leggjast í kör og borða meira. Ég fann þetta hjá sjálfum mér þegar ég lenti í hnémeiðslunum. Ég vorkenndi sjálfum mér ægilega mikið og hugsaði um allt það sem ég gæti ekki gert en langaði mikið að gera. Ég leyfði mér að vera í þessu sjálfsvorkunnarástandi í 1-2 daga en reif mig svo upp úr því og minnti mig á það væri margt sem ég gæti gert þótt ég þyrfti að hvíla hnéð.

Ég tók erfiðar styrktaræfingar fyrir efri hluta líkamans, léttar liðleikaæfingar fyrir neðri hlutann. Fór í nudd, sjósund, rólega göngutúra og sitt hvað fleira. Hvíldi spretti, erfiðar styrktaræfingar fyrir neðri hluta líkamans og brasilíska jiu jitsuið. Hugsaði jákvætt, lét mig hlakka til að komast aftur í þessar æfingar og einbeitti mér að því að koma hnénu í lag.

Mín meiðsli voru bara smávægileg, en samt datt inn hjá mér vælupúkinn sem vildi henda mér upp í sófa og láta mig hanga þar og vorkenna sjálfum mér alla daga og nætur. Við verðum að taka á vælupúkanum þegar hann birtist, hálfglottandi og sigurviss. Henda honum strax af öxlinni og sem lengst í burtu frá okkur. Lesa í staðinn fréttir af fólki sem virkilega þarf að takast á við áskoranir og notar það sem hvatningu.

Ég las nýlega um Nikki Bradley. Hún er með sjaldgæft beinkrabbamein og þarf að nota hækjur alla daga. Lætur það ekki stoppa sig, langt því frá. Hún kom til Íslands í lok febrúar til að ganga á hækjum upp Hvannadalshnjúk. Ég hlakka til að lesa meira um það ævintýri. Tökum Nikki okkur til fyrirmyndar. Finnum leiðir til þess að hreyfa okkur og njótum þess að vera fersk og lifandi.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 10. mars 2016

Andlát: Páll Helgason tónlistarmaður og kórstjóri

Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2012. Mynd/RaggiÓla

Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2012. Mynd/RaggiÓla

Páll Helgason, tónlistarmaður og kórstjóri, lést laugardaginn 5. mars, á sjötugasta og öðru aldursári. Páll var fæddur á Akureyri 23. október 1944.
Foreldrar hans voru Helgi Pálsson, kaupmaður og bæjarfulltrúi, f. á Akureyri 14. ágúst 1896, d. 19. ágúst 1964, og Kristín Pétursdóttir húsmóðir, f. 8. janúar 1900 á Tjörn í Vindhælishreppi í Austur-Húnavatnssýslu, d. 5. desember 1989.
Páll spilaði á gítar og bassa m.a. með hljómsveit Ingimars Eydal á hótel KEA. Páll stundaði síðar nám við Tónlistarskóla Mosfellshrepps undir stjórn Ólafs Vignis Albertssonar og lauk þaðan 8. stigi í tónfræðum. Hann kenndi ennfremur tónlist við Klébergsskóla og Ásgarðsskóla um árabil.
Páll Helgason var valinn bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2012.

Páll var afkastamikill í tónlistarlífi landsins, þó mest í Mosfellsbæ, með þekktum útsetningum fyrir kóra og kom að stofnun fjölda kóra. Þar má nefna Álafosskórinn, Mosfellskórinn, Vorboða – kór eldri borgara í Mosfellsbæ, Landsvirkjunarkórinn og Karlakór Kjalnesinga auk endurvakningu kóra svo sem eins og Karlakórinn Svanir á Akranesi og Karlakór Stefnis í Mosfellsbæ. Einnig kom hann að fleiri kórum s.s. stjórnandi Strætókórsins áður en hann veiktist. Blómlegt söngstarf þrífst í öllum þessum kórum í dag.
Páll söng í Karlakórnum Stefni undir stjórn Lárusar heitins Sveinssonar um nokkra hríð. Þá var hann organisti í Brautarholtskirkju, Saurbæjarkirkju og Reynivallakirkju. Páll var félagi í Rótarýklúbbi Mosfellssveitar.
Eftirlifandi eiginkona Páls er Bjarney S. Einarsdóttir og eiga þau þrjú uppkomin börn.

Undirbúa byggingu Helgafellsskóla

Vinna við undirbúning á byggingu skóla í Helgafellslandi er komin á fulla ferð. Búið er að auglýsa hönnunarútboð og er áætlað að jarðvinna hefjist í nóvember. Gert er ráð fyrir að skólinn verði byggður í fjórum áföngum á tíu ára tímabili.
Eins og lög gera ráð fyrir er búið að gera mat á fjárhagslegum áhrifum byggingarinnar á rekstur og fjárhagsstöðu Mosfellsbæjar. Niðurstaða þess er sú að Mosfellsbær muni áfram geta sinnt lögbundnum skyldum sínum þrátt fyrir byggingaráformin.
Skólinn verður leik- og grunnskóli og byggður eftir ítarlega þarfagreiningu á starfinu sem mun fara þar fram. Áætlað er að skólastarf hefjist haustið 2018.

Opnar lögmannsstofu í Háholti

maggalog

Margrét Guðjónsdóttir, héraðsdómslögmaður og löggiltur fasteignasali, hefur opnað lögmannsstofu, MG Lögmenn ehf., á annarri hæð að Háholti 14, Mosfellsbæ.
Margrét hefur búið í Mosfellsbæ í 25 ár og er gift Kjartani Óskarssyni. Margrét hefur starfað á lögmannsstofu sem skrifstofustjóri til fjölda ára en tók sig svo til og skellti sér í laganám við Háskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist með fyrstu einkunn. Héraðsdómslögmannsréttindum lauk hún í apríl 2014.

Áratuga löng reynsla
Margrét hefur víðtæka þekkingu og áratuga reynslu í málum á sviði kröfuréttar og hefur í 25 ár haft yfirumsjón með löginnheimtu fyrir einstaklinga, fyrirtæki, banka og lífeyrissjóði. Margrét er með IL+ innheimtukerfi lögmanna og getur aðlagað innheimtuferlið eins og hverjum kröfuhafa hentar og tekið að sér kröfur á hvaða innheimtustigi sem er.
Hún leggur áherslu á kurteisi en jafnframt ákveðni við innheimtu en mikilvægt er að tryggja langtímahagsmuni og góða viðskiptavild kröfuhafans. Jafnframt hefur Margrét fengist við mál á sviði erfða- og skiptaréttar svo sem frágang á dánarbúum. Auk þess sem hún hefur mikinn áhuga á eignarétti og komið að hinum ýmsu jarðamálum.

Persónuleg og sanngjörn þjónusta
Með opnun skrifstofu hér í Mosfellsbæ vonast Margrét til að geta aðstoðað einstaklinga og fyrirtæki með hin ýmsu lögfræðimál og veitt þeim persónulega og sanngjarna þjónustu.
Skrifstofan er opin virka daga frá 9:00-12:00 og 13:00-16:00 en auk þess býður Margrét upp á að pantaðir séu viðtalstímar milli 17:00-19:00 á fimmtudögum fyrir þá sem eiga erfitt með að komast á hefðbundnum vinnutíma. Sími MG Lögmanna ehf. er 588 1400.

Ótrúlega mikil gróska í nýsköpun

kristrún

Kristrún Kristjánsdóttir, hagfræðingur og sérfræðingur á viðskiptasviði Kauphallarinnar sem nú heitir Nasdaq Iceland, hefur starfað innan kauphallargeirans bæði hérlendis og erlendis í um 15 ár. Í starfi sínu hefur hún upplifað tvö hrun á markaði, annars vegar þegar upplýsingatæknibólan sprakk árið 2000 og svo þegar stóra fjármálahrunið varð árið 2008, sem lék íslenskt efnahagslíf grátt eins og allir þekkja.
Nú hillir undir betri tíma í efnahagslífi sem og á markaði og Kristrún vonar að smærri fyrirtæki muni skipa nokkuð stóran sess í þeim efnum.

Kristrún er fædd í Hafnarfirði 25. maí 1971. Foreldar hennar eru þau Jóna Hafsteinsdóttir húsmóðir og Kristján Tryggvason flugvirki hjá WOW Air. Jóna lést árið 2013. Kristrún á tvö systkini, þau Steinunni og Hrannar.
„Ég bjó í Hafnarfirði þar til ég varð sex ára gömul, þá fluttist ég til Lúxemborgar þar sem pabbi minn hóf störf sem flugvirki en hann hafði áður unnið hjá Icelandair. Í Lúx bjuggum við í tæp fjögur ár og þaðan á ég mínar helstu æskuminningar.
Þessi ár voru mjög skemmtileg, ég eignaðist marga góða vini og í skólanum lærði ég lúxembúrgísku, þýsku og frönsku.“

Vorum saman í bekk
„Við nýttum tímann vel þegar við bjuggum úti og ferðuðumst um alla Evrópu. Við keyrðum oft um helgar yfir til Þýskalands en lengsta ferðin okkar var til Spánar. Ég held að ég hafi smitast af ferðabakteríunni á þessum árum því mér finnst fátt skemmtilegra en að ferðast.
Frá Lúxemborg lá leiðin í Breiðholtið. Ég gekk í Seljaskóla og þar kynntist ég manninum mínum, Gunnari Fjalari Helgasyni, en við vorum saman í bekk í unglingadeild og höfum verið óaðskiljanleg síðan.“

Fluttu til New York
„Á menntaskólaárunum flutti fjölskyldan í Hlíðahverfið. Ég fór í Menntaskólann í Reykjavík og þaðan í Háskóla Íslands og útskrifaðist með BS gráðu í hagfræði.
Ég var búin að starfa í eitt ár hjá Spron þegar við hjónin fengum tækifæri til að flytja til New York og taka þátt þar í spennandi verkefni.
Eitt leiddi að öðru og áður en ég vissi var ég komin í nám í Pace University á Manhattan þaðan sem ég útskrifaðist með MBA-próf með áherslu á fjármál og alþjóðaviðskipti.
Á meðan á námi mínu stóð fékk ég vinnu hjá kauphöllinni, American Stock Exchange. Eftir útskrift var ég ráðin í fullt starf í greiningardeild og þar vann ég í sjö ár eða þangað til við fluttum heim til Íslands vorið 2004. Gunni fékk draumastarfið sitt þarna úti en hann fékk vinnu í fjárfestingabanka.“

Veitingastaðirnir stóðu upp úr
„Árin okkar í New York voru æðisleg og við reyndum að nýta okkur það sem borgin hafði upp á að bjóða. Okkur fannst veitingastaðirnir standa upp úr og svo fannst okkur líka frábært að fara á tónleika.
Við eignuðumst frumburðinn okkar, Daníel Darra, árið 2001. Ég ákvað að segja upp í vinnunni og vera með hann heima fyrsta árið. Mér var síðan boðið að koma aftur og ég þáði það. Ég fékk inni í leikskóla fyrir Daníel Darra á Wall Street sem var bara næsta hurð við vinnustaðinn minn.
Ég varð ófrísk aftur þremur árum síðar og þá ákváðum við hjónin að flytja heim til Íslands. Það getur verið ansi flókið að vera með mörg börn í stórborg.“

Þrjú börn á fimm árum
„Eftir mikla leit á fasteignavefum landsins enduðum við í Mosfellsbæ. Margir voru hissa á okkur að velja Mosfellsbæ, komandi úr stórborg. En það sem Ísland hefur fram yfir stórborg er einmitt víðáttan og náttúrufegurðin og það er einmitt það sem Mosfellsbær hefur upp á að bjóða.
Oliver Orri fæddist stuttu eftir að við fluttum heim og þegar hann var eins árs þá var ég orðin ófrísk að þriðja barninu okkar, henni Söru Sól, en hún fæðist 2006. Það var því nóg að gera á heimilinu, þrjú börn á fimm árum,“ segir Kristrún og brosir.
Ég hóf störf hjá Kauphöll Íslands 2007 og hef því eingöngu unnið í kauphöllum frá því ég útskrifaðist.“

Gaman að ferðast með fjölskyldunni
„Ég er í hlaupahópi í Mosfellsbæ sem heitir Mosóskokk. Ég er búin að taka þátt í tveimur maraþonhlaupum og hver veit nema maður taki fleiri. Ég hef dregið börnin mín í hlaup líka, fórum til dæmis í Color Run, Miðnæturhlaupið og í Kvennahlaupið.
Það er líka alltaf gaman að fara á skíði, sund og ferðast með fjölskyldunni. Strákarnir okkar eru báðir að æfa knattspyrnu hjá Aftureldingu. Við höfum varið miklum tíma í það að elta þá um landið á mót. Dóttirin er hins vegar í ballett og fimleikum.“

Nasdaq Iceland
Kauphöllin var stofnuð 1985 fyrir tilstilli Seðlabanka Íslands. Viðskipti hófust ári síðar á íslenskum ríkisskuldabréfum og viðskipti með hlutabréf hófust 1991.
Árið 2006 keypti norræna OMX kauphallarsamstæðan (Svíþjóð, Danmörk, Finnland) íslensku kauphöllina og tveimur árum síðar kom Nasdaq til skjalanna sem keypti OMX og allar kauphallirnar þrjár í Eystrasaltsríkjunum. Var íslenska kauphöllin þá orðin hluti af stærstu kauphallarsamstæðu í heimi og heitir því nú Nasdaq Iceland.
Helsta hlutverk Kauphallarinnar er að halda utan um þá umgjörð sem við þekkjum sem verðbréfamarkað þar sem fyrirtæki og fjárfestar eru leiddir saman.“

Kröfur um samkiptahæfni
Kristrún starfar á viðskiptasviði en í því felast mikil samskipti við þá aðila sem eiga viðskipti á markaði, sem eru helstu fjármálafyrirtæki landsins. „Við veitum þeim upplýsingar um nýjungar á markaði og vinnum líka með þeim að úrbótum á ýmsum málum. Ég sinni einnig greiningum á markaði, er líka í tölulegum útreikningum á mörkuðum og vísitölum.
Við hittum margt fólk í hinum ýmsu geirum atvinnulífsins í gegnum starfið, það má því segja að starfið geri ekki síður kröfur um mikla samskiptahæfni en þekkingu.“

Kostur að vinna á litla Íslandi
„Ég hef verið dugleg að kynna mér nýsköpunarumhverfið og heimsótt fjölmörg fyrirtæki þar sem við kynnum Kauphöllina og hennar hlutverk í efnahagslífinu. Það er mikil gróska í nýsköpun.
Það er kostur að vinna á litla Íslandi miðað við erlendis í stærri fyrirtækjum, fjölbreytnin verður meiri. Við í Kauphöllinni njótum þess besta, að fá að vera hluti af stóru alþjóðlegu fyrirtæki sem Nasdaq er en vinna á litlum markaði sem Ísland er.“

Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Framúrskarandi fyrirtæki í Mosfellsbæ

Sveinn Vilberg Jónsson framkvæmdastjóri Matfugls

Sveinn Vilberg Jónsson framkvæmdastjóri Matfugls

Creditinfo hefur unnið ítarlega greiningu sem sýnir rekstur hvaða íslensku fyrirtækja telst til fyrirmyndar. Alls komust 682 fyrirtæki á listann af þeim tæplega 36 þúsund sem skráð eru á Íslandi.
Creditinfo hefur birt lista framúrskarandi fyrirtækja frá árinu 2010 en þá voru einungis 178 félög á listanum.
Þau félög sem fá viðurkenningu Creditinfo sem framúrskarandi þurfa að uppfylla viss skilyrði er varða rekstur og stöðu þeirra. Félögin þurfa að vera skráð hlutafélög, hafa skilað ársreikningum síðustu þriggja ára, einnig þurfa líkur á alvarlegum vanskilum að vera undir 0,5% og félögin þurfa að sýna fram á rekstrarhagnað síðustu þriggja ára. Jafnframt þarf eiginfjárhlutfall félaganna að vera 20% eða meira þrjú rekstrarár í röð og eignir yfir 80 milljónir þrjú ár í röð.
Hjálagt er að finna lista yfir þau fyrirtæki sem teljast framúrskarandi í Mosfellsbæ. Á listanum er að finna stór fyrirtæki, meðalstór og lítil. Fyrirtækin eru mörg búin að vera á listanum síðustu tvö ár en færri í fleiri ár en það. Nokkur fyrirtæki koma ný inn á lista líkt og Matfugl sem er í efsta sæti yfir meðalstór fyrirtæki.

framúr2„Við höfum náð góðum árangri”
Aðalstarfsstöð Matfugls er að Völuteig 2 og hóf þar rekstur árið 2003. Þar er slátrun, kjötvinnsla, fullvinnsla, lager og dreifing auk skrifstofu. Að auki er Matfugl með starfsstöðvar víða um land en hjá fyrirtækinu vinna að jafnaði um 140 manns.
„Við höfum eytt miklu púðri í að endur­nýja húsakost okkar, gert kjúklingahúsin bæði betri fyrir fuglinn og gagnvart sóttvörnum“, segir Sveinn Vilberg framkvæmdastjóri Matfugls. „Við höfum þannig náð góðum árangri og er kamfílóbakteríusýking orðin hverfandi.
Það var mikill skortur á kjúklingi þetta tiltekna ár, 2014, þannig að það voru ytri aðstæður sem gerðu árið mjög gott hjá okkur og salan gekk mjög vel.
Við erum stolt af þessari viðurkenningu og þetta sýnir að það er traust að eiga viðskipti við okkur.
Að Völuteigi höfum við afkastagetu upp á 21.000 kjúklinga á dag en erum ekki að nýta það dags daglega. Við eigum því ennþá inni möguleika á að stækka og dafna um ókomna framtíð,“ segir Sveinn Vilberg.

Trjádrumburinn

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Maður verður góður í einhverju með því að einbeita sér að því, gera það vel og oft. En fjölbreytnin er líka skemmtileg. Síðasta vika hjá mér var fjölbreytt. Ég fór með fersku fólki í ketilbjöllugöngu á Reykjafellið í hávaðaroki á laugardeginum, við tókum að sjálfsögðu nokkrar æfingar á toppnum. Daginn eftir labbaði ég á Esjuna með elsta syni mínum, frábær stund. Við duttum í þann leik að taka fram úr göngufólki og gekk vel, kannski vegna þess að þetta var snemma og bara rólega fólkið mætt í fjallið. Tók styrktaræfingu með sjálfum mér á mánudeginum, fór á jiu jitsu æfingu með ljúfmennum á þriðjudagskvöld og í sjósund með vinnufélögum á miðvikudeginum. Sjósundið var mikil upplifun, klakaskán á sjónum í glampandi sól. Ég fékk leiðsögn í jógateygjum í vikunni frá upprennandi jógakennara og stýrði sjálfur nokkrum styrktaræfingum – það er alltaf jafn gefandi. Ég endaði vikuna á því að fara í ævintýraferð á Hengilssvæðið með góðum vinum. Fjallaskíði, göngur og fleira skemmtilegt kom þar við sögu.

Fyrir mig var þetta mjög lifandi vika. Frábær hreyfing af ýmsum toga, félagsskapur með ólíkum hópum, mikil útivera og súrefni. Náði líka að lauma inn mikilvægum en afar orkuhlaðandi afslöppunarstundum, þær vilja oft verða út undan. Tveir stuttir síðdegislúrar, slökun í heitum pottum og finnsk fjallasauna standa þar upp úr. Morgunrútínan, nokkrar liðleikaæfingar og stuttur göngutúr, er sömuleiðis orkuhlaðandi afslöppun fyrir mig. Það erfiðasta við fjölbreytnina er egóið, maður getur ekki verið góður í því sem maður gerir sjaldan. Fjallaskíðaferðir eru til dæmis mjög skemmtilegar, en miðað við skíðafélaga minn er ég eins og trjádrumbur í brekkunum. Einhvern tíma ætla ég að einbeita mér að því að læra almennilega að skíða, en þangað til mun ég njóta þess að skíða eins og trjádrumbur, fá á meðan stóran skammt af súrefni, hörkuæfingu og adrenalínkikk.
Njótum lífsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 18. febrúar 2016

Kærleiksvikan haldin 14.-21. febrúar

kaerleiksvika

Kærleiksvikan í Mosfellsbæ verður haldin 14.-21. febrúar, frá Valentínusardegi til konudags.
„Þá viku hvetjum við alla til að brydda upp á einhverju skemmtilegu og helst óvenjulegu,“ segir Vigdís Steinþórsdóttir einn skipuleggjenda. „Vonandi verða allir vinnustaðir bæjarins með eitthvað kærleiksríkt á sinni dagskrá þessa viku.“
Vigdís skorar t.d. á karlmenn að sjá svipinn á elskunni sinni þegar þeir bjóðast til að lakka á þeim táneglurnar.
„Nefndin stendur fyrir nokkrum atriðum. Í ár ætlum við að heiðra Skógræktarfélag Mosfellsbæjar. Sú hefð hefur skapast að einhver í sveitarfélaginu er heiðraður fyrir frábær störf í þágu okkar allra. Í fyrra var það Leikfélagið. Skógræktarfélagið býður okkur upp á þetta dásamlega svæði í Hamrahlíðarskógi sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Koma þar og ganga, kaupa jólatré um jól eða grilla á sumrin. Svo er það nú þessi líka dásamlegi reitur norðanvert í Úlfarsfelli. Einnig vaxandi starfsemi í lundinum uppi í Teigahverfi.
Starfsmenn Ásgarðs eru svo elskulegir að smíða grip sem veittur er þeim sem heiðurinn hlýtur.
Þá verður spákaffi á Kaffihúsinu Álafossi sunnudagana 14. og 21. febrúar kl. 15.
Heilunarguðsþjónustu í Lágafellskirkju þann 18. febrúar kl. 20.
Ungmenni úr Lágafellsskóla og Varmárskóla setja falleg skilaboð á innkaupa­kerrurnar í Krónunni og Bónus.
Skógræktarfélagið verður svo heiðrað miðvikudaginn 17. febrúar kl. 16.30 í Kjarnanum.
Einnig verður Kærleikssetrið með dagskrá að vanda. Þar verður boðið upp á heilun, nudd, markþjálfun, miðlun, tarot­spá, stjörnuspeki og skyggnilýsingar svo eitthvað sé nefnt.“
Dagskrána má svo sjá í heild sinni er nær dregur á Facebook-síðu kærleiksvikunnar og á vef Mosfellsbæjar www.mos.is.

Vinna gegn afleið­ingum beinþynningar

halldora

Beinvernd eru landssamtök áhugafólks um beinþynningu, jafnt leikra sem lærðra. Samtökin voru stofnuð 12. mars 1997 í Reykjavík og var aðalhvatamaður um stofnun þeirra Ólafur Ólafsson þáverandi landlækir.
Síðastliðin átta ár hefur Beinvernd haft skrifstofu að Háholti 14, sem er vel staðsett í heilsubænum Mosfellsbæ. Starfsmaður Beinverndar, Halldóra Björnsdóttir, heimsækir gjarnan vinnustaði, félagasamtök aldraðra og önnur samtök með fræðsluerindi. Varmárskóli, Lágafellsskóli, Lionsklúbbinn Úa, Reykjalundur og félagsstarf aldraðra hér í bæ hafa öll verið heimsótt á undanförnum árum.

Beinagrindin lifandi vefur
En hvers vegna að stofna félag eða landssamtök um beinþynningu?
„Beinagrindin er lifandi vefur sem alla ævi er brotinn niður og um leið endur­byggður,“ segir Halldóra. „Heilbrigði beinanna er háð margvíslegum þáttum, sem tengjast fæðu, hreyfingu og aldri. Beinþynning verður til, þegar kalk í beinum minnkar og styrkur þeirra þar með. Hin harða og þétta skurn, sem jafnan umlykur beinin, þynnist og frauðbeinið sem fyllir hol þeirra gisnar. Þau verða stökk og hætta á brotum eykst við minnsta átak. Þessar breytingar eru því miður einkennalausar og uppgötvast oft ekki fyrr en við beinbrot.“

Fræðsla skipar stóran sess
Beinvernd hefur sett sér fjögur markmið til að vinna gegn afleiðingum beinþynningar, þar sem vitundarvakning og fræðsla skipa stóran sess. Markmið félagsins eru:
1. Að vekja athygli almennings og stjórnvalda á beinþynningu sem heilsufarsvandamáli
2. Að miðla hverju sinni nýjustu þekkingu á þessum vanda og vörnum gegn honum til almennings og heilbrigðisstétta.
3. Að stuðla að auknum rannsóknum á eðli, orsökum og afleiðingum beinþynningar og forvörnum gegn henni.
4. Að eiga samskipti við erlend félög, sem starfa á svipuðum grundvelli.
Beinvernd hefur gefið út fjölmarga fræðslubæklinga og fréttabréf, og heldur úti heimasíðunni www.beinvernd.is og síðu á Facebook. Á þessum síðum er að finna mikinn fróðleik um beinþynningu, orsakir, áhættuþætti, greiningu og meðferð.

Mosfellingar áfram áberandi í Eurovision

gretagummi

Mosfellingarnir Greta Salóme og Gummi Snorri taka þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins.
Mosfellingar hafa verið áberandi í Euro­vision undanfarin ár, bæði í undankeppnunum og sem fulltrúar okkar Íslendinga í keppninni sjálfri, og það er engin undantekning þar á í ár.
Tólf lög taka þátt í undankeppninni og fer hún fram laugardaginn 6. febrúar og sú seinni viku síðar, úrslitakeppnin fer svo fram í Laugardalshöll 20. febrúar.
Guðmundur Snorri Sigurðarson flytur lagið Spring yfir heiminn ásamt Þórdísi Birnu Borgarsdóttur. Júlí Heiðar Halldórsson samdi lagið en þeir Guðmundur sömdu textann saman.
Greta Salóme Stefánsdóttir á tvö lög í undankeppninni í ár og samdi einnig textana við lögin. Greta Salóme flytur sjálf lagið Raddirnar en Elísabet Ormslev sem vakti mikla athygli í The Voice flytur lagið Á ný.

Euro-stemningin í Mosfellsbæ
Mosfellingurinn María Ólafsdóttir sigraði Söngvakeppni Sjónvarpsins eftirminnilega í fyrra með laginu Unbroken og keppti fyrir Íslands hönd í Vín í Austurríki.
Greta Salóme hefur áður tekið þátt og fór með sigur af hólmi með Jóni Jósepi Snæbjörnssyni árið 2012. Þau fluttu lagið Mundu eftir mér.
Þá hafa fleiri Mosfellingar getið sér gott orð í keppninni að undanförnu og má þar nefna Stefaníu Svavars, Jógvan Hansen, Írisi Hólm og Hreindísi Ylvu.

Hér hægt að hlusta á lagið sem Greta Salóme flytur 6. febrúar:

Hér hægt að hlusta á lagið sem Gummi Snorri flytur ásamt Þórdísi Birnu 13. febrúar: