Áætlað að opna ungbarnadeildir á Hlíð og Huldubergi

leikskolafrett

Í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar sem nú liggur fyrir bæjarstjórn er gert ráð fyrir talsverðu fjármagni til að auka þjónustu við börn á aldrinum 1 til 2 ára.

Ungbarnadeildir á Hlíð og Huldubergi
Verið er að leggja til að boðið verði upp á fjölbreytt form á vistun fyrir ung börn og að þjónustan verði þríþætt.
Það er í fyrsta lagi pláss hjá dagforeldrum bæjarins. Í öðru lagi hefur Mosfellsbær gert samninga við einkarekinn ungbarnaleik­skóla um að 10 pláss verði frátekin fyrir börn frá Mosfellsbæ og fleiri samningar eru í skoðun. Í þriðja lagi verði starfræktar tvær ungbarnadeildir á leikskólum bæjarins þar sem tekið verður inn eftir innritunarreglum leikskóla Mosfellsbæjar. Önnur deildin verður á Huldubergi og hin á Hlíð. Þær taki samtals á móti 28 börnum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Samræming á gjaldtöku
Auk þessa er gert ráð fyrir breytingum á aldri barna þegar kemur að úthlutun í leikskóla. Sá aldur yrði færður frá 24 mánaða niður í 18 mánaða, tekið inn eftir innritunarreglum leikskóla. Einnig er lagt til að öll gjöld verði samræmd á þann hátt að fram að 18 mánaða aldri barns greiði foreldrar sama gjald fyrir ungbarnaþjónustu, óháð þjónustuformi, en eftir það almennt leikskólagjald.
Lagt er til að verkefnið verði þróunarverkefni til eins árs. Staða verkefnis verður metin annan hvern mánuð og í heild sinni við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2018. Viðbótarkostnaður við þessa þjónustubreytingu er áætlaður um 40 milljónir króna.

Útfærsla sem felur í sér val
„Ánægjulegt er að geta svarað kalli foreldra um hærra þjónustustig við yngstu íbúana,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Þetta tímabil er viðkvæmt hjá flestum fjölskyldum og mikilvægt að hlúa vel að því. Ég er sérlega ánægður með að útfærslan feli í sér sveigjanleika, fjölbreytni og ekki síst valfrelsi.“

Undirbúningur hafinn fyrir næsta tímabil

Frá undirritun leikmannasamninga í herbúðum Aftureldingar. Wentzel Steinarr, Sigurður Hrannar og Magnús Már ásamt Ásbirni Jónssyni formanni meistaraflokksráðs og Úlfi Arnari Jökulssyni þjálfara. Mynd/RaggiÓla

Frá undirritun leikmannasamninga í herbúðum Aftureldingar. Wentzel Steinarr, Sigurður Hrannar og Magnús Már ásamt Ásbirni Jónssyni formanni meistaraflokksráðs og Úlfi Arnari Jökulssyni þjálfara. Mynd/RaggiÓla

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu hefur hafið undirbúning fyrir næsta keppnistímabil. Í sumar var liðið einungis tveimur stigum frá því að tryggja sæti í Inkasso-deildinni að ári eftir harða toppbaráttu allt tímabilið.
Liðið hefur verið byggt upp að langmestu leyti af heimamönnum, bæði ungum sem og reyndari leikmönnum. Það er því gleðiefni að tveir af reyndari máttarstólpum liðsins hafa skrifað undir áframhaldandi samning við félagið.
Fyrirliðinn Wentzel Steinarr R. Kamban og Magnús Már Einarsson eru staðráðnir í að taka baráttuna áfram með liðinu næsta sumar.
Við sama tilefni gekk nýr markvörður frá samningi við Aftureldingu. Hinn 23 ára gamli Sigurður Hrannar Björnsson kemur til liðsins frá Víkingi en hann var á láni hjá Fram á síðustu leiktíð. Það er mikill fengur fyrir félagið að fá Sigurð en hann mun einnig koma að markmannsþjálfun yngri markvarða félagsins.

Stolt

heilsumolar_gaua_1des

Fimm ára guttinn minn fór á sitt fyrsta fótboltamót um síðustu helgi. Stoltur af því að klæðast rauðu Aftureldingartreyjunni. Það eru 14 ár síðan elsti guttinn minn fór í fyrsta skipti í búning Aftureldingar og hann var jafn glaður og sá fimm ára um síðustu helgi. Strákarnir mínir fjórir hafa æft fótbolta, handbolta, frjálsar, karate og taekwondo hjá félaginu okkar og eins og margir foreldrar í Mosfellsbænum eigum við skápa og skúffur af alls konar æfinga- og keppnisbúningum merktum Aftureldingu.

Ég er Fylkismaður í grunninn, ólst upp í Árbænum og hef sterkar tengingar við gamla hverfisfélagið. Árbærinn var til að byrja með blanda af fólki sem kom úr öðrum hverfum Reykjavíkur. Þarna voru KR-ingar, Framarar, Valsarar og Þróttarar. Menn héldu lengi í gömlu félögin, sendu krakkana sína á æfingar til þeirra. Fylkir verður 50 ára á næsta ári. Ungt félag með marga stolta félagsmenn. Þeir sem eru stoltastir af Fylki í dag eru akkúrat þeir sem áður höfðu sterkustu taugarnar til gömlu félaganna.

UMFA er 107 ára, stofnað 1909. Samt er eins og Afturelding sé yngri en Fylkir. Mosfellsbærinn er enn stútfullur af Stjörnumönnum, ÍR-ingum, KR-ingum og fulltrúum annarra félaga. Menn sem hafa búið í Mosó í áratugi eru enn að tengja sig við gamla félagið sitt. Fara frekar á leiki með því, eru jafnvel að senda krakkana sína á æfingar til þess.

Nú breytum við þessu. Strax. Þjöppum okkur saman um félagið OKKAR og styðjum það í blíðu og stríðu í öllum íþróttagreinum. Hættum að hugsa hvað Afturelding getur gert fyrir mig og mína og förum að hugsa: „Hvað get ég gert fyrir Aftureldingu?“ Hverfisfélagið okkar með allar sínar deildir er byggt upp af sjálfboðaliðum og styrktaraðilum. Án þín verður engin Afturelding. Ekkert hverfisfélag. Verum stolt af rauðu treyjunni, af merkinu, laginu, félaginu okkar. Stöndum upp fyrir U-M-F-A!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 1. desember 2016

Komu færandi hendi í Reykjadal

kjosarkonur

Kvenfélagskonur úr Kjósinni komu færandi hendi í Reykjadal um síðustu helgi. Þá afhentu þær glænýja þvottavél að gjöf sem hefur bráðvantað á staðinn.
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra rekur sumar- og helgardvalarstað í Reykjadal fyrir fötluð börn og ungmenni. Árlega dveljast þar um 250 börn á aldrinum 8-21 árs.
Konurnar í Kvenfélagi Kjósarhrepps hafa dáðst af starfinu sem fram fer í Reykjadal og ákvaðu því að styrkja starfsemina að þessu sinni.

Hjartastuðtæki til Kjósarhrepps
Á haustdögum færðu þær einnig Kjósarhreppi tvö hjartastuðtæki en lengi hefur staðið til að eiga slík tæki í sveitinni. Kjósarhreppur mun mun festa kaup á þriðja tækinu og ákveða í framhaldinu staðsetningu tækjanna í samvinnu við fagaðila.
Í kvenfélagi Kjósarhrepps eru 18 öflugar konur sem með krafti sínum hafa stutt við verðug verkefni í samfélaginu. Þær halda árlegt þorrablót, selja kaffi á Kátt í Kjós og á jólamarkaði, standa fyrir kosningakaffi og ýmsum viðburðum sem falla til.
Síðasta árið hefur kvenfélagið gefið á aðra milljón til ýmissa góðra málefna og vilja þær koma á framfæri sérstökum þökkum til allra þeirra sem hafa stutt við félagið.

Undirbúningur fyrir Þorrablótið í fullum gangi

thorrablot2017

Undirbúningur fyrir Þorrablót Aftureldingar 2017 stendur nú sem hæst en blótið verður sem fyrr haldið í Íþróttahúsinu að Varmá, laugardaginn 21. janúar.
Þetta er í tíunda sinn sem blótið er haldið með þessu sniði en í fyrra voru um 700 manns á blótinu og komust færri að en vildu.
„Stór hluti nefndarinnar hefur verið sá sami frá upphafi. Það hafa orðið einhverjar breytingar en það er svo gaman að standa í þessu að það vill engin hætta. Það hefur skapast ákveðin hefð fyrir góðri verkaskiptingu en mitt aðalhlutverk er að sjá til þess að miðasala og borðapantanir gangi vel,“ segir Anna Ólöf.

Breytingar á fyrirkomulagi
Búið er að ráða veislustjóra og hljómsveit, en einhverjar nýjungar verða á dagskránni í tilefni 10 ára afmælis sem verða kynntar síðar. Breytingar verða á miðasölu en ekki mun fara fram forsala á blótið sjálft en þó verður hægt að kaupa miða á ballið í forsölu.
„Nú í ár mun miðasala fara fram um leið og borðapantanirnar og einungis verður hægt að taka frá borð gegn keyptum miða. Í fyrra var uppselt og mikil aðsókn. Nú gildir bara fyrstir koma fyrstir fá. Nánari upplýsingar um hvar og hvenær miðasala mun fara fram verður vel auglýst síðar.
Nú er um að gera fyrir fólk að fara að undirbúa sig og sína hópa en við búumst við að það verði fljótt uppselt.“

Er bjartsýn á framtíðina

larabjork_mosfellingurinn

Lára Björk Bender starfsmaður hjá Orkuveitu Reykjavíkur greindist með MS sjúkdóminn árið 2012. 

MS sjúkdómurinn er langvinnur sjúkdómur sem einkennist af endurtekinni bólgu í miðtaugakerfinu. Orsökin er óþekkt, en bólgan er talin vera vegna truflunar í ónæmiskerfinu. Sjúkdómurinn er ólæknandi en til eru lyf sem geta tafið framgang og eins eru í boði einkennatengdar meðferðir sem hafa jákvæð áhrif á líðan.

Lára Björk Bender sem er 24 ára greindist með sjúkdóminn árið 2012. Lára segir greininguna vissulega hafa verið mikið áfall en henni hafi verið létt að vissu leyti.

Lára Björk er fædd í Reykjavík 30. ágúst 1992. Foreldrar hennar eru þau Linda H. Hammer viðskiptafræðingur og Haraldur Þór Grétarsson Bender sjálfstæður atvinnurekandi í ferðaþjónustu. Lára á eina systur, Helgu Þóru, fædda 1988.

Grýtti hrísgrjónum í gestina
„Ég er alin upp í Mosfellsbænum og á margar góðar æskuminningar. Ég ferðaðist mikið um landið með fjölskyldu minni og kynntist því vel. Við fórum í útilegur eða fjalla- og sleðaferðir.
Mér er minnisstætt eitt sinn er við vorum að pakka niður fyrir útilegu þá var ég beðin um að taka með mér fín föt ef við skyldum fara út að borða. Ég var nýbúin að vera með gubbupest og var kannski ekki alveg upp á mitt besta. Ferðinni var heitið í Hrísey en þangað fórum við gjarnan á sumrin. Grunlausar tókum við systurnar fínu kjólana okkar eins og okkur var sagt að gera. Í Hrísey var svo komið við í kirkjunni því mamma og pabbi ákváðu skyndilega að gifta sig og við systur vorum brúðarmeyjarnar.
Eftir athöfnina áttum við að kasta hrísgrjónum yfir mömmu og pabba þegar þau gengu út en ég var eitthvað utan við mig út af veikindunum og grýtti grjónunum í gestina í staðinn.“

Átti erfitt vegna eineltis
„Ég gekk í Varmárskóla og átti erfitt vegna eineltis á tímabili en mér gekk vel námslega séð. Ég stundaði einnig píanónám við Listaskóla Mosfellsbæjar, söng í skólakórnum og æfði badminton í rúm 10 ár.
Unnusta mínum, Aroni Braga Baldurssyni, kynntist ég í Gaggó Mos. Aron starfar hjá Raftækjalagernum en hann er menntaður fjölmiðlatæknir og starfar einnig sem kvikmyndatökumaður.“

Útskrifuðust frá sama skóla
„Eftir útskrift hóf ég nám í Borgarholtsskóla þaðan sem ég útskrifaðist af viðskipta­- og hagfræðibraut. Ég hef alltaf átt auðvelt með að læra og fékk viðurkenningar í ensku, frönsku, viðskiptum og hagfræði þegar ég útskrifaðist. Ég hélt útskriftarræðu fyrir hönd stúdenta en við Aron útskrifuðumst bæði á sama tíma og frá sama skóla.
Ég hélt einnig áfram í tónlistarnámi, á rhythmísku píanói og í einsöng.“

Hægri hlið andlitsins lak niður
„Einn daginn árið 2010 lamaðist ég í andlitinu. Ég var í skólanum og allt í einu fann ég hvernig hægri hlið andlitsins lak hægt og rólega niður. Ég gat ekki brosað og átti erfitt með að halda auganu opnu og fann líka fyrir dofaeinkennum í fæti. Ég fór til læknis og var greind með Bell´s Palsy eða andlitstaugalömun. Lömunin gekk svo til baka.
Í lok árs 2011 lenti ég í árekstri. Ég fékk sjóntaugabólgu sem olli því að ég var rúm­liggjandi með stöðugan svima og brenglaða­ sjón. Einkennin gengu yfir á þremur vikum.“

Allt hringsnerist í kringum mig
„Í byrjun árs 2012 eða á sama tíma og við Aron vorum að flytja saman í okkar eigin íbúð veikist ég aftur. Ég fékk versta höfuðverk sem ég hef upplifað og vaknaði með náladofa í hendi. Ég bjóst við að ég hefði legið eitthvað einkennilega en svo var ekki.
Ég gekk völt og allt hringsnerist í kringum mig. Ég reyndi allt til að koma blóðflæðinu af stað en ekkert gekk. Ég skellti mér líka í bað til að slaka á vöðvunum en það gekk ekki heldur.
Ég var á leið í fermingu hjá frænda mínum og þegar ég kom þangað tóku allir eftir því að eitthvað var ekki í lagi. Dofinn í líkamanum færðist yfir á maga, bak og höfuð vinstra megin og ég var hætt að finna fyrir snertingu og geta framkvæmt ákveðnar hreyfingar. Farið var með mig á bráðamóttökuna þar sem ég gekkst undir alls kyns rannsóknir. Eftir þær var mér tjáð að sérfræðingur myndi bóka viðtalstíma þar sem farið yrði yfir niðurstöðurnar.“

Greiningin veitti mér ákveðna ró
„Í viðtalstíma hjá lækninum fékk ég staðfestingu á að ég væri með MS sjúkdóminn. Ég var búin að ímynda mér allt það versta áður en ég fór í viðtalstímann en greiningin veitt mér ákveðna ró. Mér var tjáð að það besta sem ég gæti gert væri að hreyfa mig reglulega og passa vel upp á mataræðið.
Systir mín dró mig með sér í nokkra tíma í polefitness og ég fann að í þeirri íþrótt var allt sem ég þurfti á að halda, þ.e.a. s. blanda af styrk, þoli og liðleika. Með þessum æfingum get ég haldið sjúkdómseinkennunum niðri. Ég byrjaði að æfa á fullu hjá Eríal Pole í Reykjavík þar sem ég æfi enn og kenni.
Ég er einnig í fullorðinsfimleikum hjá Aftureldingu.“

Bjartsýn á framtíðina
„Ég hef tekið sjúkdómnum sem áskorun, á að sjálfsögðu mína slæmu daga og hef fundið fyrir einkennum. Með aðstoð minna nánustu og þá sérstaklega Arons hefur mér tekist að sættast betur við veikindin.
Í dag líður mér einstaklega vel, er í fullu starfi hjá Orkuveitu Reykjavíkur ásamt því að starfa sem bílstjóri í kvikmyndaverkefnum á vegum True North, Pegasus og Sagafilm. Ég er bara bjartsýn á framtíðina,“ segir Lára Björk að lokum er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 10. nóvember 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Þolinmæði kennara á þrotum

kennarar

Kennarar í Mosfellsbæ afhentu í vikunni bæjarstjóra ályktun frá öllum grunnskólakennurum bæjarins.
Þar lýsa þeir yfir óánægju sinni með ákvörðun kjararáðs um launahækkanir, nú þegar samningar grunnskólakennara eru lausir. Úrskurður kjararáðs sé kornið sem fylli mælinn og ríki og sveit­ar­fé­lög geti ekki leng­ur vikið sér und­an ábyrgð.
Hljóðið í kennurum er þungt og segjast þeir ekki hafa þolinmæði lengur gagnvart samn­ingaviðræðum við sveit­ar­fé­lög­in. Það sé óháð því hvort kjararáð dragi úrskurð sinn til baka.

Sinna ábyrgðarmiklu starfi
Fram kemur í ályktuninni að kennarar telji sig sinna jafn ábyrgðarmiklu starfi og alþingismenn. Auk þess er grunnskólakennurum skylt að vera með fimm ára háskólanám að baki. Kominn sé tími til að laun grunnskólakennara verði jöfn launum framhaldsskólakennara og annarra háskólamenntaðra stétta.

Fara fram á aðgerðir tafarlaust
„Það er gjörsamlega ólíðandi að finna fyrir þeirri þrúgandi tilfinningu að við getum ekki lifað af launum okkar.“
Kennarar spyrja hvort það geti samrýmst skólastefnu Mosfellsbæjar að bjóða grunnskólakennurum lausa samninga, engar viðræður, lág laun og mikið vinnuálag. „Við höfum fengið nóg og förum fram á aðgerðir tafarlaust af hálfu sveitarfélagsins Mosfellsbæjar til að koma í veg fyrir flótta grunnskólakennara í önnur störf. Skólastarf í Mosfellsbæ er í húfi.“
Að baki ályktuninni standa kennarar í Lágafellsskóla, Krikaskóla og Varmárskóla en tveir af stærstu skólum landsins eru í Mosfellsbæ.
Þá hafa kennarar rætt sín á milli um að taka þátt í hópuppsögnum á verkalýðsdaginn 1. maí.

Þjónusta bætt og skattar lækkaðir

mosfjarhags

Fjárhagsáætlun fyrir árin 2017-2020 var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn síðastliðinn miðvikudag.
Áætlunin gerir ráð fyrir að rekstrarafgangur næsta árs verði 201 m.kr. Áætlað er að framkvæmdir að frádregnum tekjum af gatnagerðargjöldum nemi 746 millj. kr. og að íbúum fjölgi um 3,4% milli ára. Þá er gert ráð fyrir að tekjur nemi 9.542 millj. kr., gjöld fyrir fjármagnsliði nemi 8.331 millj. kr. og fjármagnsliðir 653 m.kr.
Gert er ráð fyrir að skuldir sem hlutfall af tekjum muni lækka og að skuldaviðmið skv. sveitastjórnarlögum verði 106% í árslok 2017 sem er töluvert fyrir neðan hið lögbundna 150% mark skv. sveitarstjórnarlögum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Átak í viðhaldi Varmárskóla
Stærsta einstaka framkvæmdin er bygging Helgafellsskóla en gert er ráð fyrir að um 500 m.kr. fari í það verkefni á árinu 2017 og að fyrsti áfangi skólans verði tekinn í notkun haustið 2018.
Einnig verður auknu fjármagni varið í viðhald eldri húsa. Þar má nefna að sérstakt átak verður gert í viðhaldi Varmárskóla verði áætlunin samþykkt.

Aukin þjónusta við barnafjölskyldur
Stefnt er að því að veita verulegum fjármunum til að auka þjónustu við börn 1-2ja ára m.a. með því að stofnaðar verði sérstakar ungbarnadeildir við leikskóla bæjarins.
Auk þessa er gert ráð fyrir því að tónlistar­kennsla Listaskólans inni í grunnskólunum verði efld til að fleiri nemendur eigi þess kost að stunda tónlistarnám.
Lagt er til að grunnur frístundaávísunarinnar hækki um 5 þúsund krónur og að stofnun Ungmennahúss verði veitt brautargengi í samstarfi við Framhaldsskóla Mosfellsbæjar.

Fasteignagjöld lækki
Lagt er til að álagningarhlutföll fasteignagjalda lækki til að koma til móts við þá auknu eignarmyndun sem átt hefur sér stað hjá íbúum með hækkun fasteignamats. Almennt er ekki gert ráð fyrir gjaldskrárhækkunum, t.a.m verða leikskólagjöld óbreytt annað árið í röð.
Áætlunin verður nú unnin áfram og lögð fram í fagnefndum bæjarins. Seinni umræða fer fram miðvikudaginn 7. desember.

Grunn- og velferðarþjónusta ofarlega
„Hugmyndir um aukna þjónustu við yngstu börnin hefur verið okkur ofarlega í huga í nokkurn tíma og ánægjulegt að geta sett fram áætlun um að setja þær hugmyndir í framkvæmd,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Þar verður um nokkrar leiðir að ræða og lögð áhersla á valfrelsi. Þessi fjárhags­áætlun ber þess merki að hagur sveitarfélaga er að einhverju leyti að vænkast eftir mörg erfið ár að undanförnu. Ánægjulegt er að gert er ráð fyrir mörgum nýjum verkefnum í þessari áætlun sem ekki hefur verið svigrúm fyrir að undanförnu.
Ég legg þó áherslu á að helsta verkefni fjárhagsáætlunar 2017 er að gera enn betur í grunn- og velferðarþjónustu bæjarins. Því til stuðnings má nefna að rúmlega 80% af heildarútgjöldum Mosfellsbæjar er varið í rekstur skólastofnana, íþrótta- og tómstundamál og félagsþjónustu.“

Kvöld- og næturvakt Heilsugæslunnar færist í Kópavog

heilsugaeslan

Frá og með 1. febrúar 2017 mun Læknavaktin á Smáratorgi sinna allri vaktþjónustu í Mosfellsumdæmi eins og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt upplýsingum frá Heilsugæslunni er breytingin liður í að samræma vaktþjónustu heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar í Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjósarhreppi hafa eins og aðrir á höfuðborgarsvæðinu haft aðgang að vaktþjónustu Læknavaktarinnar en að auki hafa læknar á heilsugæslustöðinni í Mosfellsbæ verið með vaktþjónustu fyrir íbúa svæðisins utan dagvinnutíma og um helgar.

Ekki gert ráð fyrir vaktþjónustu
Í nýrri kröfulýsingu velferðarráðuneytisins fyrir rekstur heilsugæsluþjónustu, sem tekur gildi um áramótin, er ekki gert ráð fyrir að rekin sé vaktþjónusta heimilislækna á næturnar. Vaktþjónusta Læknavaktarinnar er opin á kvöldin og um helgar.
Samkvæmt kröfulýsingunni og nýju greiðslukerfi heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu, sem einnig tekur gildi um áramótin, standa heilsugæslustöðvar framvegis straum af kostnaði við kvöld- og helgarþjónustu fyrir skjólstæðinga sína. Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við Læknavaktina ehf. um að taka rekstur þessarar þjónustu yfir á öllu svæðinu.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur í framhaldinu tilkynnt læknum á heilsugæslustöðinni í Mosfellsbæ að vaktþjónusta á vegum heilsugæslustöðvarinnar um nætur og helgar muni falla niður.

Læknarnir ekki sáttir
„Við fengum að vita þetta fyrir viku síðan en lögunum var breytt á mánudeginum eftir kosningar“, segir Þórdís Oddsdóttir yfirlæknir á Heilsugæslunni. „Það er póli­tík í þessu öllu og auðvitað snýst þetta um krónur og aura. Þá getur maður líka spurt sig hvers virði er eitt mannslíf? Við erum auðvitað langt frá því að vera sátt við þessar breytingar og ekkert samráð hefur verið haft við okkur læknana.
Heimilislækningar snúast í grunninn um samfellda þjónustu og að geta fylgt sjúklingnum eftir, það er það mikilvægasta.“
Sjálf mun Þórdís láta af störfum næsta vor en tekur þó fram að það tengist ekki beint breytingu á vaktþjónustunni. Um áramót mun Gríma Huld Blængsdóttir taka við stöðu yfirlæknis. „Ég hef áhyggjur af starfsfólkinu hér á Heilsugæslunni og hef sterkan grun um að fólk sé að hugsa sér til hreyfings.“

——
Almennur þjónustutími á Heilsugæslunni í Mosfellsbæ er frá 8 til 16 virka daga og verður boðið upp á síðdegisvakt milli kl. 16 og 18 virka daga.

Öldur

oldur

Fyrir nokkrum vikum velti ég því fyrir mér hvort ég væri inni í bandarískri bíómynd þar sem allt gengi upp hjá söguhetjunum. Lífið var þannig að mér næstum fannst það of gott. Einkennileg tilfinning því auðvitað getur lífið ekki verið of gott. Síðan byrjuðu áskoranir af ýmsu tagi að detta inn á mitt borð, of margar fyrir minn smekk þótt engin þeirra væri háalvarleg. Ég datt í þann gír að vorkenna sjálfum mér, fannst ekki að ég ætti skilið að þurfa að kljást við allar þessar áskoranir.

Ég náði mér fljótlega upp úr þessum gír, fyrst og fremst með því að bera saman mínar aðstæður og áskoranir við þeirra sem virkilega eru að kljást við erfiðar aðstæður. Fór svo að hugsa þetta í kjölinn og komst að því, hugsanlega ekki fyrstur manna, að lífið er ekkert annað en endalausar bylgjur eða öldur. Stundum er maður á öldutoppnum, sér yfir hafið, nýtur þess að vera til. Stundum er maður í öldudal og þarf að hafa sig allan við til þess að halda sér á floti.

Mér fannst gott að sjá þetta svona myndrænt fyrir mér. Gat tengt þetta við sjósundið sem ég stunda reglulega með góðu fólki. Það er geggjað að synda í spegilsléttum sjónum í sól og blíðu, svamla áhyggjulaus um og njóta fegurðarinnar. En það er sömuleiðis magnað að fara í sjóinn í brjáluðu veðri. Tilfinningin er allt öðruvísi. Maður þarf að passa sig betur, hafa meira fyrir hlutunum. Hugsa öðruvísi. Stilla orkuna rétt. Ef maður berst sem óður maður á móti straumnum, klárar maður sig fljótt. Það sigrar enginn náttúruöflin. Ef maður hins vegar andar rólega, syndir með öldunum og velur réttu leiðirnar fær maður aukinn kraft og orku. Skilaboðin, það er alltaf leið og öldurnar lægir alltaf aftur, sama hvað þær eru kraftmiklar. Njótum lífsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 10. nóvember2016

Góð heilsa skiptir öllu máli

valagaui

Guðjón Svansson ráðgjafi og Vala Mörk Jóhannesdóttir Thoroddsen iðjuþjálfi eru eigendur Kettlebells Iceland.

Hjónin Guðjón og Vala stofnuðu fjölskyldufyrirtækið Kettlebells Iceland árið 2006 sem er óhefðbundin æfingastöð með samtengdri úti- og inniaðstöðu.
Í starfi sínu leggja þau áherslu á að fólk byggi upp alhliða styrk, úthald og liðleika á þann hátt að það nýtist vel í daglegu lífi. Eins veita þau ráðleggingar varðandi svefn og mataræði. Þau segja góða heilsu skipta öllu máli og og mikilvægt sé að viðhalda henni með reglulegri hreyfingu og heilbrigðum lífsstíl.

Vala er fædd í Reykjavík 3. desember 1970. Foreldrar hennar eru þau Dóra Thoroddsen bókasafnsfræðingur og Jóhannes Hörður Bragason flugvirki og flugvélstjóri. Vala á fjögur hálfsystkini samfeðra, Odd fæddan 1976, Loga fæddan 1985, Daisy fædda 2002 og Bo fæddan 2004.
Guðjón er fæddur í Reykjavík 21. september 1969. Foreldar hans eru þau Steinunn­ Guðjónsdóttir fjármálastjóri og Svanur Ingimundarson málarameistari. Guðjón á eina systur, Hrafnhildi, fædda 1974.

Eftirminnilegustu æskuminningarnar
Vala er alin upp í Vesturbænum en bjó í tvö ár í Bandaríkjunum á sínum yngri árum. Guðjón bjó sín fyrstu ár í Sæviðarsundinu en er alinn upp í Árbænum.
Ég spyr þau hver sé þeirra helsta æskuminning? „Líklega í flugvélinni á leið til Bandaríkjanna en ég man þó einnig eftir að hafa séð vörubíl velta á hringtorginu þar sem Þjóðarbókhlaðan er núna. Þannig var að ég var á leið heim úr leikskólanum með mömmu. Bíllinn var með fullan farm af möl sem dreifðist yfir stórt svæði. Man hvað mér fannst þetta svakalegt og ég vorkenndi bílnum ógurlega en ég pældi hins vegar ekkert í bílstjóranum,“ segir Vala og hlær.
„Ég man eftir því hvað það tók rosalega langan tíma að fara í sveitina þegar ég var gutti, sérstaklega á Strandirnar,“ segir Guðjón. „Í minningunni var þetta margra daga ferðalag á holóttum og hlykkjóttum malarvegum. Í dag er þetta nokkra tíma skreppur á malbiki.“

Fluttu til Danmerkur
Vala byrjaði skólagöngu sína í Tulsa í Oklahoma, þar sem allir dagar byrjuðu á fánahyllingu með hönd á hjarta. Eftir dvölina úti tók Vesturbæjar- og Hagaskóli við og svo Menntaskólinn í Reykjavík. Guðjón byrjaði sína skólagöngu í Langholtsskóla, Árbæjarskóla og fór svo í Menntaskólann við Sund.
En hvar skyldu þau hjón hafa kynnst? „Við hittumst árið 1991 á Hressó, sveitagaurinn úr Árbænum og borgargellan úr Vesturbænum og höfum verið saman síðan,“ segir Guðjón.
„Við fluttum til Odense í Danmörku árið 1993 og bjuggum þar til ársins 1999. Vala lærði þar iðjuþjálfun og starfaði við það líka. Ég starfaði í prentsmiðju bæjarblaðsins, Fyens Stiftstidende, en lærði svo alþjóðasamskipti og kláraði það fag með mastersgráðu.“

Okkur leið vel í Byggðunum
„Við eignuðumst tvo af fjórum sonum okkar í Danmörku. Viktor Gauta 1996 og Arnór Ingimund 1998. Við fluttum í Mosfellsbæinn árið 2000 og ég fékk vinnu á Reykjalundi,“ segir Vala.
Við leigðum hús á Neðribraut við Reykjalund og bjuggum þar til ársins 2004 en þá fluttum við í Krókabyggðina. Við eignuðumst þriðja strákinn okkar, Patrek Orra, 2002 og þann fjórða, Snorra Val, í ársbyrjun 2011.
Okkur leið vel í Byggðunum en fórum samt fljótlega að líta í kringum okkur eftir stærra húsnæði því fjölskyldan var orðin svo stór.“

Yndislegt að búa rétt fyrir utan höfuðborgina
„Eftir að hafa búið í Mosfellsbæ í 16 ár erum við orðin miklir Mosfellingar. Okkur hefur verið vel tekið og fólkið hér er frábært. Það er yndislegt að búa rétt fyrir utan höfuðborgina en vera samt svona nálægt.
Strákarnir okkar hafa allir æft með Aftur­eldingu, fótbolta, Taekwondo, frjálsar íþróttir, karate og handbolta. Þeim hefur alla tíð liðið ótrúlega vel hér og eiga góða vini.
Elsti sonur okkar flutti nú í haust til Kaupmannahafnar ásamt Elísu kærustu sinni, næstelsti er í MS, sá þriðji í Varmárskóla og stubburinn er í leikskólanum á Reykjakoti.“

Góður andi í gamla húsinu
„Árið 2006 stofnuðum við hjónin Kettlebells Iceland,“ segir Guðjón. „Við byrjuðum með æfingar í bardagaklúbbnum Mjölni, fluttum okkur svo á Ylströndina í Nauthóls­vík 2011 en enduðum svo með fyrirtækið upp í Mosfellsbæ árið 2012.
Við byrjuðum fyrst með útiæfingar við Dælustöðuna. Eftir að við keyptum okkur hús við Engjaveginn árið 2012 þá bjóðum við upp á æfingar þar bæði inni og úti en við breyttum stórum bílskúr í æfingasal. Það er góður andi í gamla húsinu sem var byggt árið 1955 fyrir bormeistara Orkuveitunnar.“
Fyrir utan að þjálfa fólk bæði á morgnana og seinnipartinn þá sinna þau hjónin öðrum verkefnum líka. Guðjón starfar við fyrirtækjaráðgjöf hjá Hagvangi og Vala starfar hjá Postura.is tvo daga í viku þar sem hún aðstoðar Jóhannes Sveinbjörnsson við stoðkerfismeðferð. Sameiginlegt áhugamál þeirra snýr að hreyfingu og heilsu ásamt því að ferðast með börnunum sínum.

Skyndihjálp ætti að vera kennd í skólum
„Ég verð Völu ævinlega þakklátur en hún bjargaði lífi mínu þann 13. septem­ber s.l. Við vorum í afmælismat hjá tengdó og ég var að steikja þykkar nautalundir. Ég skar smá bita af til að smakka og þá vildi ekki betur en svo að bitinn sat pikkfastur í hálsinum á mér og kom í veg fyrir að ég gæti andað.
Vala, sem er vel að sér í skyndihjálp, tók nokkur hressileg Heimlich tök á mér og bankaði á bakið. Bitinn kom ekki strax en hún gafst ekki upp og hélt áfram. Að lokum spýttist bitinn út og ég náði andanum aftur.
Þetta var sterk upplifun fyrir okkur því maður hefur ekki margar mínútur í svona aðstæðum. Þetta fær mann til að meta lífið enn meira og hætta að láta smáatriði fara í taugarnar á sér.
Skyndihjálp ætti að vera skyldufag í öllum skólum og jafnvel kennd á vinnustöðum. Maður veit nefnilega aldrei hvenær maður þarf á þessari kunnáttu að halda.
Rauði krossinn er með námskeið allt árið, við hvetjum alla til að skella sér.“

Mosfellingurinn 20. október 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

 

Hreppaskjöldurinn á Morastaði

hrutasyningkjos

3) Efstir í flokki veturgamalla hrúta.

Sameiginleg hrútasýning fyrir Mosfellsbæ, Kjalarnes og Kjós var haldin að Kiðafelli á mánudaginn.
Þar gefst bændum kostur á að fá stiguð og ómmæld lömb og veturgamla hrúta. Sauðfjár­ræktarfélagið Kjós stendur fyrir sýningunni sem jafnframt er vettvangur til að verða sér út um gripi til kynbóta.
Lárus og Torfi sauðfjárdómarar frá RML sáu um mælingar og dóma á gimbrum og hrútum.

Verðlaun voru veitt fyrir góðan árangur í sauðfjárrækt í þremur flokkum.
1) Mislitir/kollóttir lambrútar
Fyrsta sæti hlaut hrútur frá Kiðafelli í eigu Bergþóru Andrésardóttur. Í öðru sæti lenti hrútur frá Andrési á Hrísbrú og í þriðja sæti hrútur frá Kiðafelli sem Maggi heldur í.
2) Í flokki lambrúta voru það allt hrútar frá Kiðafelli sem röðuðu sér í efstu þrjú sætin.
3) Í flokki veturgamalla hrúta var keppt um hinn eftirsótta hreppaskjöld. Hrúturinn Partur var þar hlutskarpastur en hann er í eigu Orra og Maríu á Morastöðum. Annað sætið hlaut hrútur frá Kiðafelli sem Nonni heldur í. Í þriðja sæti er svo hrútur í eigu Harðar Bender á Hraðastöðum.

1) Mislitir/kollóttir  2) Lambhrútar

1) Mislitir/kollóttir 2) Lambhrútar

„Þakklát fyrir að vera á lífi“

siggasveinbjorns

Mosfellingurinn Sigríður Sveinbjörnsdóttir lenti í alvarlegu bílslysi á Þingskálavegi í Rangárvallasýslu þann 20. ágúst.
Slysið var með þeim hætti að bíll sem kom úr gagnstæðri átt fór yfir á rangan vegarhelming og lenti framan á bíl Sigríðar. Bílstjóri hins bílsins lést samstundis.
„Við hjónin erum að byggja sumarbústað í Heklubyggð, ég skaust í Húsasmiðjuna og var á leið til baka þegar slysið varð. Ég var sem betur fer á stórum bíl og er ekki í neinum vafa um að það, loftpúðarnir og bílbelti björguðu því að ekki fór verr,“ segir Sigríður.

Var send með þyrlu á Landspítalann
„Ég man nú ekki alveg atburðarásina á slysstað en það var björgunarsveitamaður sem kom að slysinu og tilkynnti það. Ég náði að hringja í Frímann manninn minn og þegar hann kom á vettvang voru lögreglan, sjúkraflutningamenn og læknir kominn á staðinn.
Slysið var tilkynnt um kl. 13:30 og þyrlan lenti með mig á Landspítalanum um kl. 14:30, ótrúlegur viðbragðsflýtir.“
„Þegar ég kom á spítalann fór í gang ferli með ítarlegri skoðun og myndtökum. Í kjölfarið fór ég í fjögurra tíma aðgerð á fótunum. Áverkarnir sem ég hlaut voru miklir, ég var með opin beinbrot á báðum ökklum, hægri hnéskelin margbrotnaði en sú vinstri fór bara í tvennt. Auk þess brákaðist beinið sem er utan um hægri mjaðmakúlu, bringubein brákaðist, rifbein brotnaði, áverkar á hægri hendi og svo fékk ég stórt brunasár og mikið mar eftir bílbeltið.
Þrátt fyrir alla þessa áverka þá er ég svo þakklát að bakið á mér og hálsinn er í lagi,“ segir Sigríður af æðruleysi.

Byrjuð í endurhæfingu á Reykjalundi
„Ég var 11 daga á spítalanum, fékk að fara heim 31. ágúst eftir að fagaðilar höfðu tekið heimilið út og gefið grænt ljós á að ég gæti athafnað mig. Ég var með gifs á báðum fótum og við þurftum að gera lítilsháttar breytingar til að auðvelda mér lífið.
Það var yndislegt að koma heim og vera umvafinn sínum nánustu. Ég losnaði við gifsið þann 5. október, það var mikill léttir þó að ég þurfi enn að notast við hjólastólinn. Ég er byrjuð í endurhæfingu á Reykjalundi, er þar í góðum höndum frábærs fagfólks. Ég sóttist eftir því komast að þar enda stutt að fara og yndislegt að vera þar.“

Þakklæti er mér efst í huga
„Þetta hefur gengið vel og ég er þakklát fyrir hvert lítið skref sem ég næ í bataferlinu. Ég er endalaust þakklát fyrir fjölskylduna, vini mína og lífið. Ég ætla að taka þessu verkefni með jákvæðni og brosi á vör og sigrast á þessu.
Svona slys hefur mikil áhrif á fjölskylduna og vini. Við Frímann eigum 6 börn og öll upplifum við þetta á misjafnan hátt. Við höfum notið stuðnings sr. Arndísar Linn til að takast á við þetta og kann ég henni mínar bestu þakkir fyrir frábær og fagleg vinnubrögð. En það sem er mér efst í huga er þakklæti,“ segir Sigríður að lokum.

Aldrei jafn margar íbúðir byggðar á sama tíma

helgafellshverfi

Yrki arkitektar ehf. annast hönnun Helgafellsskóla.

Yrki arkitektar ehf. annast hönnun Helgafellsskóla.

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfissviði Mosfellsbæjar hafa aldrei verið byggðar jafn margar íbúðir samtímis í sögu bæjarins.
Bara í Helgafellshverfi einu er búið að gefa út byggingarleyfi fyrir ríflega 400 íbúðum en í aðalskipulagi er gert ráð fyrir samtals um 1.050 íbúðum í hverfinu. Auk þessa er búið að úthluta lóðum fyrir um 150 íbúðir í miðbænum, þ.e. við Þverholt og Háholt.

Frumhönnun Helgafellsskóla kynnt
Þessari hröðu uppbyggingu fylgir aukin þjónusta leik- og grunnskóla. Verið er að kynna frumhönnun Helgafellsskóla fyrir kjörnum fulltrúum, fræðslunefnd og stjórnendum Mosfellsbæjar þessa dagana.
Hönnunin er byggð á þarfagreiningu sem unnin var meðal annars með rýnihópum úr skólasamfélaginu ásamt leik- og grunnskólabörnum. Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur nú þegar samþykkt að bjóða út jarðvegsframkvæmdir við 1. áfanga skólans.
Upplýsingar um byggingaráform og hönnun verða aðgengilegar á heimasíðu Mosfellsbæjar innan tíðar.
Helgafellsskóli verður leik- og grunnskóli fyrir börn á aldrinum 1-15 ára. Gert er ráð fyrir að skólinn rísi í fjórum áföngum. Áætlað­ er að fyrsti áfangi verði tekinn í notkun haustið 2018 og að kostnaður við hann verði um 1.245 milljónir.

Hafa áhuga á hóteli í Sunnukrika
Í Mosfellsbæ er einnig öflug uppbygging á atvinnuhúsnæði. Samkvæmt upplýsingum frá Mosfellsbæ hefur verið sótt um lóðir í Sunnukrika. Svæðið er á aðalskipulagi skilgreint sem miðsvæði fyrir verslun og þjónustu. Lóðirnar hafa verið auglýstar til úthlutunar frá árinu 2005 en þær voru skipulagðar samhliða uppbyggingu hverfisins.
Bæjarráð hefur til umfjöllunar umsóknir um lóðirnar frá aðilum sem hafa áhuga á því að byggja upp hótel og/eða aðra starfsemi tengda ferðaþjónustu. Engar ákvarðanir hafa þó verið teknar að svo komnu máli.

Eflir þjónustu og atvinnumöguleika
„Að mati sérfræðinga í skipulagsmálum fer rekstur hótela vel saman við íbúabyggð,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Til dæmis er mun minni og dreifðari umferð við hótel en við íbúðarhúsnæði eða verslunarkjarna auk þess sem umhverfi þeirra er yfirleitt snyrtilegt ásýndar.
Að mínu mati myndi slík uppbygging auk þess að efla þjónustu og atvinnumöguleika í bænum gefa kost á frekari uppbyggingu á verslun og þjónustu í miðbænum,“ segir Haraldur.

Skrifar sjónvarpsþætti sem gerast í Mosfellsbæ

doriumfa

Þessa dagana stendur yfir undirbúningur að sjónvarpsþáttaröð sem nefnist Afturelding. Þættirnir sem verða níu talsins munu að mestu gerast í Mosfellsbæ.
Það er Mosfellingurinn Halldór Halldórsson eða Dóri DNA sem skrifar handritið í samstarfi við Hafstein Gunnar Sigurðsson, Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur og Jörund Ragnarsson.
„Upphaflega hugmyndin var að gera gamanmynd en svo þróaðist þetta í þá átt að gera sjónvarpsþætti. Þetta er dramasería með glettnu ívafi og sögusviðið er handboltaheimurinn.
Við ákváðum að nota Mosfellsbæ, íþróttahúsið að Varmá og Reykjalund svo eitthvað sé nefnt, þar sem ég er með góða þekkingu á þessum stöðum. Svo komumst við að því að þessir staðir hafa verið lítið notaðir í kvikmyndaheiminum, svolítið eins og óplægður akur,“ segir Dóri DNA.

Þjálfar kvennalið Aftureldingar
Verkefnið hefur hlotið styrki frá Menningamálanefnd, Kvikmyndasjóði Íslands og RÚV. „Þættirnir fjalla um Skarphéðinn, sem var leikmaður í sigurliði Íslands á B-keppninni í Frakklandi árið 1989. Hann er að snúa heim eftir veru erlendis og fær það starf að þjálfa kvennalið Aftureldingar. Honum finnst það langt fyrir neðan sína virðingu og það gengur á ýmsu,“ segir Dóri.
Næsta ár mun fara í fjármögnun en stefnt er að tökum árið 2018.