mosoanægja

Íbúar í Mosfellsbæ ánægðir

mosoanægja

Þegar íbúar í Mosfellsbæ eru spurðir hversu ánægðir eða óánægðir þeir séu með Mosfellsbæ sem stað til að búa á eru 93% aðspurðra ánægðir eða mjög ánægðir.
Mosfellsbær er því enn eitt árið með ánægðustu íbúana í samanburði við önnur sveitarfélög og með hæstu einkunn. Þetta kemur fram í árlegri könnun Capacent þar sem mælt var viðhorf til þjónustu í 19 stærstu sveitarfélögum landsins.

Flestir ánægðir með íþróttaaðstöðu – fæstir við þjónustu við fatlað fólk
Alls eru 83% íbúa í Mosfellsbæ ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar og ánægja með þjónustu í leikskólum bæjarins mælist um 80%. Spurðir um þjónustu Mosfellsbæjar í heild eru 77% mjög eða frekar ánægðir.
Niðurstöður sýna að ánægja í Mosfellsbæ er í eða yfir landsmeðaltali í öllum málaflokkum sem spurt er um. Einn af helstu styrkleikum Mosfellsbæjar miðað við önnur sveitarfélög síðustu ár hefur verið ánægja íbúa með skipulagsmál og svo er einnig nú. Þegar spurt er um þjónustu við eldri borgara er ánægja í Mosfellsbæ einnig talsvert yfir landsmeðaltali enda hefur aðbúnaður vegna þeirra þjónustu í Mosfellsbæ verið stórbættur á síðustu misserum.

Vilja gera betur í sorphirðu
Viðhorf til þjónustu í tengslum við sorphirðu versnar marktækt á milli ára og stendur til að skoða það mál sérstaklega, segir í tilkynningu frá Mosfellsbæ. Þar gæti spilað inn í að könnunin var gerð í nóvember og desember en þá eykst þörfin fyrir sorphirðu talsvert ásamt því að veður og færð gera framkvæmd sorphirðunnar erfiðari, sérstaklega á dreifbýlli svæðum sveitarfélagsins. Einnig er eftirspurn eftir því að flokka sorp að aukast og sveitarfélagið hyggst leita leiða til að koma á móts við þá eftirspurn.

Stoltur af niðurstöðunni
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segist afar ánægður með útkomuna. „Það er gaman að enn eitt árið mælast Mosfellingar með ánægðustu íbúum landsins. Ég er afar stoltur af niðurstöðunni í heild og sérstaklega varðandi þjónustu við eldri borgara.
Hins vegar leggjum við metnað okkar í að viðhalda ánægju íbúa í öllum málaflokkum og ég hef sérstakan áhuga á að skoða viðhorf fólks varðandi þjónustu við barnafjölskyldur. Í Mosfellsbæ býr mikið af ungu fjölskyldufólki og við leggjum mikla áherslu á að veita þeim hópi framúrskarandi þjónustu hvort sem það snýr að leikskóla eða skólamálum, íþróttum eða tómstundum.“
Heildarúrtak í könnuninni er yfir 12 þúsund manns og þar af fengust svör frá 316 einstaklingum úr Mosfellsbæ.

Niðurstöður könnunarinnar í heild sinni er hægt að kynna sér á vef Mosfellsbæjar www.mos.is.

Heilsumolar_Gaua_10mars

Ég er meiddur…

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Ég bögglaði hnéð á mér fyrir nokkrum vikum. Meiðsli eru algengasta afsökun fólks fyrir því að hreyfa sig ekki. Afsökun fyrir því að leggjast í kör og borða meira. Ég fann þetta hjá sjálfum mér þegar ég lenti í hnémeiðslunum. Ég vorkenndi sjálfum mér ægilega mikið og hugsaði um allt það sem ég gæti ekki gert en langaði mikið að gera. Ég leyfði mér að vera í þessu sjálfsvorkunnarástandi í 1-2 daga en reif mig svo upp úr því og minnti mig á það væri margt sem ég gæti gert þótt ég þyrfti að hvíla hnéð.

Ég tók erfiðar styrktaræfingar fyrir efri hluta líkamans, léttar liðleikaæfingar fyrir neðri hlutann. Fór í nudd, sjósund, rólega göngutúra og sitt hvað fleira. Hvíldi spretti, erfiðar styrktaræfingar fyrir neðri hluta líkamans og brasilíska jiu jitsuið. Hugsaði jákvætt, lét mig hlakka til að komast aftur í þessar æfingar og einbeitti mér að því að koma hnénu í lag.

Mín meiðsli voru bara smávægileg, en samt datt inn hjá mér vælupúkinn sem vildi henda mér upp í sófa og láta mig hanga þar og vorkenna sjálfum mér alla daga og nætur. Við verðum að taka á vælupúkanum þegar hann birtist, hálfglottandi og sigurviss. Henda honum strax af öxlinni og sem lengst í burtu frá okkur. Lesa í staðinn fréttir af fólki sem virkilega þarf að takast á við áskoranir og notar það sem hvatningu.

Ég las nýlega um Nikki Bradley. Hún er með sjaldgæft beinkrabbamein og þarf að nota hækjur alla daga. Lætur það ekki stoppa sig, langt því frá. Hún kom til Íslands í lok febrúar til að ganga á hækjum upp Hvannadalshnjúk. Ég hlakka til að lesa meira um það ævintýri. Tökum Nikki okkur til fyrirmyndar. Finnum leiðir til þess að hreyfa okkur og njótum þess að vera fersk og lifandi.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 10. mars 2016

pallhelgason

Andlát: Páll Helgason tónlistarmaður og kórstjóri

Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2012. Mynd/RaggiÓla

Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2012. Mynd/RaggiÓla

Páll Helgason, tónlistarmaður og kórstjóri, lést laugardaginn 5. mars, á sjötugasta og öðru aldursári. Páll var fæddur á Akureyri 23. október 1944.
Foreldrar hans voru Helgi Pálsson, kaupmaður og bæjarfulltrúi, f. á Akureyri 14. ágúst 1896, d. 19. ágúst 1964, og Kristín Pétursdóttir húsmóðir, f. 8. janúar 1900 á Tjörn í Vindhælishreppi í Austur-Húnavatnssýslu, d. 5. desember 1989.
Páll spilaði á gítar og bassa m.a. með hljómsveit Ingimars Eydal á hótel KEA. Páll stundaði síðar nám við Tónlistarskóla Mosfellshrepps undir stjórn Ólafs Vignis Albertssonar og lauk þaðan 8. stigi í tónfræðum. Hann kenndi ennfremur tónlist við Klébergsskóla og Ásgarðsskóla um árabil.
Páll Helgason var valinn bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2012.

Páll var afkastamikill í tónlistarlífi landsins, þó mest í Mosfellsbæ, með þekktum útsetningum fyrir kóra og kom að stofnun fjölda kóra. Þar má nefna Álafosskórinn, Mosfellskórinn, Vorboða – kór eldri borgara í Mosfellsbæ, Landsvirkjunarkórinn og Karlakór Kjalnesinga auk endurvakningu kóra svo sem eins og Karlakórinn Svanir á Akranesi og Karlakór Stefnis í Mosfellsbæ. Einnig kom hann að fleiri kórum s.s. stjórnandi Strætókórsins áður en hann veiktist. Blómlegt söngstarf þrífst í öllum þessum kórum í dag.
Páll söng í Karlakórnum Stefni undir stjórn Lárusar heitins Sveinssonar um nokkra hríð. Þá var hann organisti í Brautarholtskirkju, Saurbæjarkirkju og Reynivallakirkju. Páll var félagi í Rótarýklúbbi Mosfellssveitar.
Eftirlifandi eiginkona Páls er Bjarney S. Einarsdóttir og eiga þau þrjú uppkomin börn.

helgafell

Undirbúa byggingu Helgafellsskóla

Vinna við undirbúning á byggingu skóla í Helgafellslandi er komin á fulla ferð. Búið er að auglýsa hönnunarútboð og er áætlað að jarðvinna hefjist í nóvember. Gert er ráð fyrir að skólinn verði byggður í fjórum áföngum á tíu ára tímabili.
Eins og lög gera ráð fyrir er búið að gera mat á fjárhagslegum áhrifum byggingarinnar á rekstur og fjárhagsstöðu Mosfellsbæjar. Niðurstaða þess er sú að Mosfellsbær muni áfram geta sinnt lögbundnum skyldum sínum þrátt fyrir byggingaráformin.
Skólinn verður leik- og grunnskóli og byggður eftir ítarlega þarfagreiningu á starfinu sem mun fara þar fram. Áætlað er að skólastarf hefjist haustið 2018.

maggalog

Opnar lögmannsstofu í Háholti

maggalog

Margrét Guðjónsdóttir, héraðsdómslögmaður og löggiltur fasteignasali, hefur opnað lögmannsstofu, MG Lögmenn ehf., á annarri hæð að Háholti 14, Mosfellsbæ.
Margrét hefur búið í Mosfellsbæ í 25 ár og er gift Kjartani Óskarssyni. Margrét hefur starfað á lögmannsstofu sem skrifstofustjóri til fjölda ára en tók sig svo til og skellti sér í laganám við Háskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist með fyrstu einkunn. Héraðsdómslögmannsréttindum lauk hún í apríl 2014.

Áratuga löng reynsla
Margrét hefur víðtæka þekkingu og áratuga reynslu í málum á sviði kröfuréttar og hefur í 25 ár haft yfirumsjón með löginnheimtu fyrir einstaklinga, fyrirtæki, banka og lífeyrissjóði. Margrét er með IL+ innheimtukerfi lögmanna og getur aðlagað innheimtuferlið eins og hverjum kröfuhafa hentar og tekið að sér kröfur á hvaða innheimtustigi sem er.
Hún leggur áherslu á kurteisi en jafnframt ákveðni við innheimtu en mikilvægt er að tryggja langtímahagsmuni og góða viðskiptavild kröfuhafans. Jafnframt hefur Margrét fengist við mál á sviði erfða- og skiptaréttar svo sem frágang á dánarbúum. Auk þess sem hún hefur mikinn áhuga á eignarétti og komið að hinum ýmsu jarðamálum.

Persónuleg og sanngjörn þjónusta
Með opnun skrifstofu hér í Mosfellsbæ vonast Margrét til að geta aðstoðað einstaklinga og fyrirtæki með hin ýmsu lögfræðimál og veitt þeim persónulega og sanngjarna þjónustu.
Skrifstofan er opin virka daga frá 9:00-12:00 og 13:00-16:00 en auk þess býður Margrét upp á að pantaðir séu viðtalstímar milli 17:00-19:00 á fimmtudögum fyrir þá sem eiga erfitt með að komast á hefðbundnum vinnutíma. Sími MG Lögmanna ehf. er 588 1400.

kristrún

Ótrúlega mikil gróska í nýsköpun

kristrún

Kristrún Kristjánsdóttir, hagfræðingur og sérfræðingur á viðskiptasviði Kauphallarinnar sem nú heitir Nasdaq Iceland, hefur starfað innan kauphallargeirans bæði hérlendis og erlendis í um 15 ár. Í starfi sínu hefur hún upplifað tvö hrun á markaði, annars vegar þegar upplýsingatæknibólan sprakk árið 2000 og svo þegar stóra fjármálahrunið varð árið 2008, sem lék íslenskt efnahagslíf grátt eins og allir þekkja.
Nú hillir undir betri tíma í efnahagslífi sem og á markaði og Kristrún vonar að smærri fyrirtæki muni skipa nokkuð stóran sess í þeim efnum.

Kristrún er fædd í Hafnarfirði 25. maí 1971. Foreldar hennar eru þau Jóna Hafsteinsdóttir húsmóðir og Kristján Tryggvason flugvirki hjá WOW Air. Jóna lést árið 2013. Kristrún á tvö systkini, þau Steinunni og Hrannar.
„Ég bjó í Hafnarfirði þar til ég varð sex ára gömul, þá fluttist ég til Lúxemborgar þar sem pabbi minn hóf störf sem flugvirki en hann hafði áður unnið hjá Icelandair. Í Lúx bjuggum við í tæp fjögur ár og þaðan á ég mínar helstu æskuminningar.
Þessi ár voru mjög skemmtileg, ég eignaðist marga góða vini og í skólanum lærði ég lúxembúrgísku, þýsku og frönsku.“

Vorum saman í bekk
„Við nýttum tímann vel þegar við bjuggum úti og ferðuðumst um alla Evrópu. Við keyrðum oft um helgar yfir til Þýskalands en lengsta ferðin okkar var til Spánar. Ég held að ég hafi smitast af ferðabakteríunni á þessum árum því mér finnst fátt skemmtilegra en að ferðast.
Frá Lúxemborg lá leiðin í Breiðholtið. Ég gekk í Seljaskóla og þar kynntist ég manninum mínum, Gunnari Fjalari Helgasyni, en við vorum saman í bekk í unglingadeild og höfum verið óaðskiljanleg síðan.“

Fluttu til New York
„Á menntaskólaárunum flutti fjölskyldan í Hlíðahverfið. Ég fór í Menntaskólann í Reykjavík og þaðan í Háskóla Íslands og útskrifaðist með BS gráðu í hagfræði.
Ég var búin að starfa í eitt ár hjá Spron þegar við hjónin fengum tækifæri til að flytja til New York og taka þátt þar í spennandi verkefni.
Eitt leiddi að öðru og áður en ég vissi var ég komin í nám í Pace University á Manhattan þaðan sem ég útskrifaðist með MBA-próf með áherslu á fjármál og alþjóðaviðskipti.
Á meðan á námi mínu stóð fékk ég vinnu hjá kauphöllinni, American Stock Exchange. Eftir útskrift var ég ráðin í fullt starf í greiningardeild og þar vann ég í sjö ár eða þangað til við fluttum heim til Íslands vorið 2004. Gunni fékk draumastarfið sitt þarna úti en hann fékk vinnu í fjárfestingabanka.“

Veitingastaðirnir stóðu upp úr
„Árin okkar í New York voru æðisleg og við reyndum að nýta okkur það sem borgin hafði upp á að bjóða. Okkur fannst veitingastaðirnir standa upp úr og svo fannst okkur líka frábært að fara á tónleika.
Við eignuðumst frumburðinn okkar, Daníel Darra, árið 2001. Ég ákvað að segja upp í vinnunni og vera með hann heima fyrsta árið. Mér var síðan boðið að koma aftur og ég þáði það. Ég fékk inni í leikskóla fyrir Daníel Darra á Wall Street sem var bara næsta hurð við vinnustaðinn minn.
Ég varð ófrísk aftur þremur árum síðar og þá ákváðum við hjónin að flytja heim til Íslands. Það getur verið ansi flókið að vera með mörg börn í stórborg.“

Þrjú börn á fimm árum
„Eftir mikla leit á fasteignavefum landsins enduðum við í Mosfellsbæ. Margir voru hissa á okkur að velja Mosfellsbæ, komandi úr stórborg. En það sem Ísland hefur fram yfir stórborg er einmitt víðáttan og náttúrufegurðin og það er einmitt það sem Mosfellsbær hefur upp á að bjóða.
Oliver Orri fæddist stuttu eftir að við fluttum heim og þegar hann var eins árs þá var ég orðin ófrísk að þriðja barninu okkar, henni Söru Sól, en hún fæðist 2006. Það var því nóg að gera á heimilinu, þrjú börn á fimm árum,“ segir Kristrún og brosir.
Ég hóf störf hjá Kauphöll Íslands 2007 og hef því eingöngu unnið í kauphöllum frá því ég útskrifaðist.“

Gaman að ferðast með fjölskyldunni
„Ég er í hlaupahópi í Mosfellsbæ sem heitir Mosóskokk. Ég er búin að taka þátt í tveimur maraþonhlaupum og hver veit nema maður taki fleiri. Ég hef dregið börnin mín í hlaup líka, fórum til dæmis í Color Run, Miðnæturhlaupið og í Kvennahlaupið.
Það er líka alltaf gaman að fara á skíði, sund og ferðast með fjölskyldunni. Strákarnir okkar eru báðir að æfa knattspyrnu hjá Aftureldingu. Við höfum varið miklum tíma í það að elta þá um landið á mót. Dóttirin er hins vegar í ballett og fimleikum.“

Nasdaq Iceland
Kauphöllin var stofnuð 1985 fyrir tilstilli Seðlabanka Íslands. Viðskipti hófust ári síðar á íslenskum ríkisskuldabréfum og viðskipti með hlutabréf hófust 1991.
Árið 2006 keypti norræna OMX kauphallarsamstæðan (Svíþjóð, Danmörk, Finnland) íslensku kauphöllina og tveimur árum síðar kom Nasdaq til skjalanna sem keypti OMX og allar kauphallirnar þrjár í Eystrasaltsríkjunum. Var íslenska kauphöllin þá orðin hluti af stærstu kauphallarsamstæðu í heimi og heitir því nú Nasdaq Iceland.
Helsta hlutverk Kauphallarinnar er að halda utan um þá umgjörð sem við þekkjum sem verðbréfamarkað þar sem fyrirtæki og fjárfestar eru leiddir saman.“

Kröfur um samkiptahæfni
Kristrún starfar á viðskiptasviði en í því felast mikil samskipti við þá aðila sem eiga viðskipti á markaði, sem eru helstu fjármálafyrirtæki landsins. „Við veitum þeim upplýsingar um nýjungar á markaði og vinnum líka með þeim að úrbótum á ýmsum málum. Ég sinni einnig greiningum á markaði, er líka í tölulegum útreikningum á mörkuðum og vísitölum.
Við hittum margt fólk í hinum ýmsu geirum atvinnulífsins í gegnum starfið, það má því segja að starfið geri ekki síður kröfur um mikla samskiptahæfni en þekkingu.“

Kostur að vinna á litla Íslandi
„Ég hef verið dugleg að kynna mér nýsköpunarumhverfið og heimsótt fjölmörg fyrirtæki þar sem við kynnum Kauphöllina og hennar hlutverk í efnahagslífinu. Það er mikil gróska í nýsköpun.
Það er kostur að vinna á litla Íslandi miðað við erlendis í stærri fyrirtækjum, fjölbreytnin verður meiri. Við í Kauphöllinni njótum þess besta, að fá að vera hluti af stóru alþjóðlegu fyrirtæki sem Nasdaq er en vinna á litlum markaði sem Ísland er.“

Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Sveinn Vilberg Jónsson framkvæmdastjóri Matfugls

Framúrskarandi fyrirtæki í Mosfellsbæ

Sveinn Vilberg Jónsson framkvæmdastjóri Matfugls

Sveinn Vilberg Jónsson framkvæmdastjóri Matfugls

Creditinfo hefur unnið ítarlega greiningu sem sýnir rekstur hvaða íslensku fyrirtækja telst til fyrirmyndar. Alls komust 682 fyrirtæki á listann af þeim tæplega 36 þúsund sem skráð eru á Íslandi.
Creditinfo hefur birt lista framúrskarandi fyrirtækja frá árinu 2010 en þá voru einungis 178 félög á listanum.
Þau félög sem fá viðurkenningu Creditinfo sem framúrskarandi þurfa að uppfylla viss skilyrði er varða rekstur og stöðu þeirra. Félögin þurfa að vera skráð hlutafélög, hafa skilað ársreikningum síðustu þriggja ára, einnig þurfa líkur á alvarlegum vanskilum að vera undir 0,5% og félögin þurfa að sýna fram á rekstrarhagnað síðustu þriggja ára. Jafnframt þarf eiginfjárhlutfall félaganna að vera 20% eða meira þrjú rekstrarár í röð og eignir yfir 80 milljónir þrjú ár í röð.
Hjálagt er að finna lista yfir þau fyrirtæki sem teljast framúrskarandi í Mosfellsbæ. Á listanum er að finna stór fyrirtæki, meðalstór og lítil. Fyrirtækin eru mörg búin að vera á listanum síðustu tvö ár en færri í fleiri ár en það. Nokkur fyrirtæki koma ný inn á lista líkt og Matfugl sem er í efsta sæti yfir meðalstór fyrirtæki.

framúr2„Við höfum náð góðum árangri”
Aðalstarfsstöð Matfugls er að Völuteig 2 og hóf þar rekstur árið 2003. Þar er slátrun, kjötvinnsla, fullvinnsla, lager og dreifing auk skrifstofu. Að auki er Matfugl með starfsstöðvar víða um land en hjá fyrirtækinu vinna að jafnaði um 140 manns.
„Við höfum eytt miklu púðri í að endur­nýja húsakost okkar, gert kjúklingahúsin bæði betri fyrir fuglinn og gagnvart sóttvörnum“, segir Sveinn Vilberg framkvæmdastjóri Matfugls. „Við höfum þannig náð góðum árangri og er kamfílóbakteríusýking orðin hverfandi.
Það var mikill skortur á kjúklingi þetta tiltekna ár, 2014, þannig að það voru ytri aðstæður sem gerðu árið mjög gott hjá okkur og salan gekk mjög vel.
Við erum stolt af þessari viðurkenningu og þetta sýnir að það er traust að eiga viðskipti við okkur.
Að Völuteigi höfum við afkastagetu upp á 21.000 kjúklinga á dag en erum ekki að nýta það dags daglega. Við eigum því ennþá inni möguleika á að stækka og dafna um ókomna framtíð,“ segir Sveinn Vilberg.

Heilsumolar_Gaua_18feb

Trjádrumburinn

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Maður verður góður í einhverju með því að einbeita sér að því, gera það vel og oft. En fjölbreytnin er líka skemmtileg. Síðasta vika hjá mér var fjölbreytt. Ég fór með fersku fólki í ketilbjöllugöngu á Reykjafellið í hávaðaroki á laugardeginum, við tókum að sjálfsögðu nokkrar æfingar á toppnum. Daginn eftir labbaði ég á Esjuna með elsta syni mínum, frábær stund. Við duttum í þann leik að taka fram úr göngufólki og gekk vel, kannski vegna þess að þetta var snemma og bara rólega fólkið mætt í fjallið. Tók styrktaræfingu með sjálfum mér á mánudeginum, fór á jiu jitsu æfingu með ljúfmennum á þriðjudagskvöld og í sjósund með vinnufélögum á miðvikudeginum. Sjósundið var mikil upplifun, klakaskán á sjónum í glampandi sól. Ég fékk leiðsögn í jógateygjum í vikunni frá upprennandi jógakennara og stýrði sjálfur nokkrum styrktaræfingum – það er alltaf jafn gefandi. Ég endaði vikuna á því að fara í ævintýraferð á Hengilssvæðið með góðum vinum. Fjallaskíði, göngur og fleira skemmtilegt kom þar við sögu.

Fyrir mig var þetta mjög lifandi vika. Frábær hreyfing af ýmsum toga, félagsskapur með ólíkum hópum, mikil útivera og súrefni. Náði líka að lauma inn mikilvægum en afar orkuhlaðandi afslöppunarstundum, þær vilja oft verða út undan. Tveir stuttir síðdegislúrar, slökun í heitum pottum og finnsk fjallasauna standa þar upp úr. Morgunrútínan, nokkrar liðleikaæfingar og stuttur göngutúr, er sömuleiðis orkuhlaðandi afslöppun fyrir mig. Það erfiðasta við fjölbreytnina er egóið, maður getur ekki verið góður í því sem maður gerir sjaldan. Fjallaskíðaferðir eru til dæmis mjög skemmtilegar, en miðað við skíðafélaga minn er ég eins og trjádrumbur í brekkunum. Einhvern tíma ætla ég að einbeita mér að því að læra almennilega að skíða, en þangað til mun ég njóta þess að skíða eins og trjádrumbur, fá á meðan stóran skammt af súrefni, hörkuæfingu og adrenalínkikk.
Njótum lífsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 18. febrúar 2016

kaerleiksvika

Kærleiksvikan haldin 14.-21. febrúar

kaerleiksvika

Kærleiksvikan í Mosfellsbæ verður haldin 14.-21. febrúar, frá Valentínusardegi til konudags.
„Þá viku hvetjum við alla til að brydda upp á einhverju skemmtilegu og helst óvenjulegu,“ segir Vigdís Steinþórsdóttir einn skipuleggjenda. „Vonandi verða allir vinnustaðir bæjarins með eitthvað kærleiksríkt á sinni dagskrá þessa viku.“
Vigdís skorar t.d. á karlmenn að sjá svipinn á elskunni sinni þegar þeir bjóðast til að lakka á þeim táneglurnar.
„Nefndin stendur fyrir nokkrum atriðum. Í ár ætlum við að heiðra Skógræktarfélag Mosfellsbæjar. Sú hefð hefur skapast að einhver í sveitarfélaginu er heiðraður fyrir frábær störf í þágu okkar allra. Í fyrra var það Leikfélagið. Skógræktarfélagið býður okkur upp á þetta dásamlega svæði í Hamrahlíðarskógi sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Koma þar og ganga, kaupa jólatré um jól eða grilla á sumrin. Svo er það nú þessi líka dásamlegi reitur norðanvert í Úlfarsfelli. Einnig vaxandi starfsemi í lundinum uppi í Teigahverfi.
Starfsmenn Ásgarðs eru svo elskulegir að smíða grip sem veittur er þeim sem heiðurinn hlýtur.
Þá verður spákaffi á Kaffihúsinu Álafossi sunnudagana 14. og 21. febrúar kl. 15.
Heilunarguðsþjónustu í Lágafellskirkju þann 18. febrúar kl. 20.
Ungmenni úr Lágafellsskóla og Varmárskóla setja falleg skilaboð á innkaupa­kerrurnar í Krónunni og Bónus.
Skógræktarfélagið verður svo heiðrað miðvikudaginn 17. febrúar kl. 16.30 í Kjarnanum.
Einnig verður Kærleikssetrið með dagskrá að vanda. Þar verður boðið upp á heilun, nudd, markþjálfun, miðlun, tarot­spá, stjörnuspeki og skyggnilýsingar svo eitthvað sé nefnt.“
Dagskrána má svo sjá í heild sinni er nær dregur á Facebook-síðu kærleiksvikunnar og á vef Mosfellsbæjar www.mos.is.

halldora

Vinna gegn afleið­ingum beinþynningar

halldora

Beinvernd eru landssamtök áhugafólks um beinþynningu, jafnt leikra sem lærðra. Samtökin voru stofnuð 12. mars 1997 í Reykjavík og var aðalhvatamaður um stofnun þeirra Ólafur Ólafsson þáverandi landlækir.
Síðastliðin átta ár hefur Beinvernd haft skrifstofu að Háholti 14, sem er vel staðsett í heilsubænum Mosfellsbæ. Starfsmaður Beinverndar, Halldóra Björnsdóttir, heimsækir gjarnan vinnustaði, félagasamtök aldraðra og önnur samtök með fræðsluerindi. Varmárskóli, Lágafellsskóli, Lionsklúbbinn Úa, Reykjalundur og félagsstarf aldraðra hér í bæ hafa öll verið heimsótt á undanförnum árum.

Beinagrindin lifandi vefur
En hvers vegna að stofna félag eða landssamtök um beinþynningu?
„Beinagrindin er lifandi vefur sem alla ævi er brotinn niður og um leið endur­byggður,“ segir Halldóra. „Heilbrigði beinanna er háð margvíslegum þáttum, sem tengjast fæðu, hreyfingu og aldri. Beinþynning verður til, þegar kalk í beinum minnkar og styrkur þeirra þar með. Hin harða og þétta skurn, sem jafnan umlykur beinin, þynnist og frauðbeinið sem fyllir hol þeirra gisnar. Þau verða stökk og hætta á brotum eykst við minnsta átak. Þessar breytingar eru því miður einkennalausar og uppgötvast oft ekki fyrr en við beinbrot.“

Fræðsla skipar stóran sess
Beinvernd hefur sett sér fjögur markmið til að vinna gegn afleiðingum beinþynningar, þar sem vitundarvakning og fræðsla skipa stóran sess. Markmið félagsins eru:
1. Að vekja athygli almennings og stjórnvalda á beinþynningu sem heilsufarsvandamáli
2. Að miðla hverju sinni nýjustu þekkingu á þessum vanda og vörnum gegn honum til almennings og heilbrigðisstétta.
3. Að stuðla að auknum rannsóknum á eðli, orsökum og afleiðingum beinþynningar og forvörnum gegn henni.
4. Að eiga samskipti við erlend félög, sem starfa á svipuðum grundvelli.
Beinvernd hefur gefið út fjölmarga fræðslubæklinga og fréttabréf, og heldur úti heimasíðunni www.beinvernd.is og síðu á Facebook. Á þessum síðum er að finna mikinn fróðleik um beinþynningu, orsakir, áhættuþætti, greiningu og meðferð.

gretagummi

Mosfellingar áfram áberandi í Eurovision

gretagummi

Mosfellingarnir Greta Salóme og Gummi Snorri taka þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins.
Mosfellingar hafa verið áberandi í Euro­vision undanfarin ár, bæði í undankeppnunum og sem fulltrúar okkar Íslendinga í keppninni sjálfri, og það er engin undantekning þar á í ár.
Tólf lög taka þátt í undankeppninni og fer hún fram laugardaginn 6. febrúar og sú seinni viku síðar, úrslitakeppnin fer svo fram í Laugardalshöll 20. febrúar.
Guðmundur Snorri Sigurðarson flytur lagið Spring yfir heiminn ásamt Þórdísi Birnu Borgarsdóttur. Júlí Heiðar Halldórsson samdi lagið en þeir Guðmundur sömdu textann saman.
Greta Salóme Stefánsdóttir á tvö lög í undankeppninni í ár og samdi einnig textana við lögin. Greta Salóme flytur sjálf lagið Raddirnar en Elísabet Ormslev sem vakti mikla athygli í The Voice flytur lagið Á ný.

Euro-stemningin í Mosfellsbæ
Mosfellingurinn María Ólafsdóttir sigraði Söngvakeppni Sjónvarpsins eftirminnilega í fyrra með laginu Unbroken og keppti fyrir Íslands hönd í Vín í Austurríki.
Greta Salóme hefur áður tekið þátt og fór með sigur af hólmi með Jóni Jósepi Snæbjörnssyni árið 2012. Þau fluttu lagið Mundu eftir mér.
Þá hafa fleiri Mosfellingar getið sér gott orð í keppninni að undanförnu og má þar nefna Stefaníu Svavars, Jógvan Hansen, Írisi Hólm og Hreindísi Ylvu.

Hér hægt að hlusta á lagið sem Greta Salóme flytur 6. febrúar:

Hér hægt að hlusta á lagið sem Gummi Snorri flytur ásamt Þórdísi Birnu 13. febrúar:

jonadis

Sendum fullskipað lið á landsmót

jonadis

Jóna Dís Bragadóttir framhaldsskólakennari og formaður Harðar segir stórt ár framundan í hestamennskunni.
Þann 26. febrúar 1950 kom saman hópur manna úr Mosfellssveit, Kjalarnesi og Kjós. Sameiginlegt áhugamál þeirra var íslenski hesturinn og ræktun hans. Þessir menn stofnuðu Hestamannafélagið Hörð og var fyrsti formaður félagsins Gísli Jónsson í Arnarholti á Kjalarnesi.
Hörður er í dag fjórða stærsta hestamannafélag landsins með um 800 félaga. Formaðurinn, Jóna Dís Bragadóttir, segir mikinn uppgang hjá félaginu og að þau leggi mikla áherslu á barna- og unglingastarfið.

Jóna Dís er fædd í Reykjavík 4. apríl 1963. Foreldrar hennar eru þau Edda Hinriksdóttir hárgreiðslumeistari og fv. framhaldsskólakennari og Bragi Ásgeirsson tannlæknir. Jóna Dís á tvö yngri systkini, þau Hinrik og Guðrúnu Eddu.

Gott að alast upp í Borgarnesi
„Ég ólst upp í Borgarnesi frá sjö ára aldri til tvítugs, fyrir utan menntaskólaárin. Þar var gott að alast upp og ég átti yndislega æsku. Foreldrar mínir hafa alltaf verið í hestamennsku og mín fyrsta bernskuminning er þegar pabbi fór með mig á hestbak og sat með mig fyrir framan sig en þannig byrjaði ég að ríða út. Það var mikil gróska í hestamennskunni á þessum tíma og við fjölskyldan ferðuðumst mikið á hestum.
Nú eigum við sumarbústað á þessum slóðum með foreldrum mínum og erum dugleg að fara þarna í hestaferðir því umhverfið er hvergi fallegra,“ segir Jóna Dís og brosir.

Flutti til Reyjavíkur í nám
„Úr Borgarnesi flutti ég í Stykkishólm þar sem ég bjó í nokkur ár. Þar var líka gott að vera, gaman að koma úr landbúnaðarhéraði yfir í samfélag þar sem allt snérist um fisk, gaman að kynnast því. Þar byggði ég hesthús og reið mikið út.
Ég flutti svo til Reykjavíkur árið 1988 og fór í Háskóla Íslands og lauk þaðan BA-prófi í uppeldis- og menntunarfræðum. Síðar eða árið 2001 lauk ég kennsluréttindanámi og M.Ed.-prófi í stjórnun menntastofnana. Eftir að ég flutti í bæinn stundaði ég hestamennsku með foreldrum mínum og fjölskyldu í Fáki.“

Sameiginlegt áhugamál að ferðast
„Árið 1989 kynntist ég eiginmanni mínum, Helga Sigurðssyni, dýralækni og sagnfræðingi og fljótlega flutti ég í Mosfellsbæinn. Við Helgi eigum samtals sex börn og sjö barnabörn þannig að fjölskyldan er orðin ansi stór. Eygerður er fædd 1978, Fjóla Dögg fædd 1980, Bragi Páll fæddur 1984, Marel fæddur 1987, Anna Jóna fædd 1993 og Hinrik Ragnar fæddur 1994.
Fljótlega eftir að ég flutti fengum við okkur hesta. Á þessum tíma var mikið að gera hjá okkur en ég fann alltaf tíma til að ríða út, það algjörlega bjargar sálartetrinu,“ segir Jóna Dís og hlær.
Í dag hefur þetta breyst, Helgi ríður ekki eins mikið út, hann sinnir hestum í sinni vinnu og hans áhugamál er að skrifa bækur. Sameiginlegt áhugamál okkar hjóna í gegnum árin hefur verið að ferðast og höfum við komið til rúmlega 70 landa og allra heimsálfa nema einnar. Auðvitað höfum við komið oft til sumra landa oftar en einu sinni en reynum að komast öðru hverju á nýjar slóðir.
Ég vann hjá Mosfellsbæ í sautján ár, fyrst á leikskólanum Reykjakoti og kenndi síðan í Varmárskóla í fjórtán ár. Nú kenni ég í Tækniskólanum í Reykjavík sem er mjög skemmtilegt en þar kenni ég útlendingum íslensku.“

Reiðhöllin er hornsteinninn okkar
„Fyrir rúmum þremur árum var ég beðin um að taka að mér að vera formaður Hestamannafélagsins Harðar og ég tók þeirri áskorun.
Hörður er fjórða stærsta hestamanna­félag á landinu með um 800 félaga og er jafnframt fyrirmyndarfélag innan ÍSÍ.
Stjórn Harðar vinnur vel saman en við erum níu í stjórn. Við vorum heppin þegar við tókum við, en þá var nýbúið að byggja reiðhöllina en hún er hornsteinninn í okkar félagsstarfi á veturna. Hún er mjög mikið notuð og mikið skipulag þarf til að koma öllum þeim námskeiðum fyrir sem við bjóðum upp á. Helmingur af höllinni er svo ávallt opinn almenningi. Einnig leigjum við FMOS reiðhöllina undir hestabrautina sem þar er kennd.“

Öflugt starf fyrir fatlaða
„Í Herði er rekið öflugt starf fyrir fatlaða en þeir koma á hestbak sex daga vikunnar frá september fram í maí. Öll sú starfsemi er rekin af sjálfboðaliðum og hefur það starf hlotið margar viðurkenningar. Starfið við fatlaða er unnið í samstarfi við skólana í Mosfellsbæ, en krakkarnir koma og aðstoða og fá einingar fyrir.
Við leigjum líka út reiðhöll sem er í einkaeign á svæðinu svo að við getum boðið upp á enn fjölbreyttari námskeið. Reiðkennar­arnir okkar eru allir menntaðir og við leggjum mikla áherslu á barna- og unglingastarfið. Þau fara í hinar ýmsu ferðir, fá fyrirlesara og fleira fyrir utan námskeiðin sem eru vel sótt.“

Félagsheimilið stækkað um helming
„Síðastliðið ár höfum við verið að byggja við félagsheimilið okkar, Harðarból. Það var karlaklúbbur Harðar, Áttavilltir, sem stóð að þeirri byggingu og var öll sú vinna unnin í sjálfboðavinnu og félagsmennirnir lögðu til efni og annað sem til þurfti.
Það er ótrúlegt hvað félagsmenn eru tilbúnir til að leggja mikla vinnu á sig fyrir félagið.
Félagsheimilið var stækkað um helming og er nú orðið hið glæsilegasta. Salurinn tekur 180 manns í sæti og næsta vers er að safna fyrir stólum, borðum og borðbúnaði. Salurinn er líka leigður út til almennings.“

Landsmót framundan að Hólum
„Framundan er stórt ár í hestamennskunni, landsmót verður haldið að Hólum í Hjaltadal og verður það mjög spennandi. Við sendum fullskipað lið og erum þegar farin að undirbúa það.
Sumarið 2015 var mjög ánægjulegt fyrir okkur Harðarmenn en þá eignuðumst við heimsmeistara í Herning í Danmörku. Það var Reynir Örn Pálmason sem vann þann titil ásamt því að fá tvö silfur.“
Reynir Örn hlaut á dögunum titilinn íþróttamaður Mosfellsbæjar.

Landsbyggðin hefur alltaf heillað mig
„Fyrir rúmu ári var ég kosin í stjórn Landssambands hestamannafélaga og er þar varaformaður. Þar kynnist maður landsbyggðinni sem hefur alltaf heillað mig. Stjórn LH hefur farið víða í heimsóknir til hestamannafélaga og er ótrúlega gaman að sjá hvað grasrótin vinnur mikið og gott starf.
Það er mikið að gerast í hestamennskunni, t.d. viðamikið markaðsverkefni sem stjórnað er af Íslandsstofu og styrkt af ráðuneytum. Að þessu verkefni koma öll fag­félög hestamennskunnar ásamt háskólunum.
Við héldum ráðstefnu í haust þar sem rætt var um framtíð landsmóta og eru hestamenn mjög sammála um hvernig landsmót eiga að vera. Nú erum við að fara að ákveða hvar landsmótin 2020 og 2022 eiga að vera og það verður sannarlega áhugavert,“ segir Jóna Dís er við kveðjumst.

Myndir og texti: Ruth Örnólfs

íþróttamennmos

Íþróttamenn Mosfellsbæjar

Íris Eva Einarsdóttir skotfimikona og Reynir Örn Pálmason hestaíþróttamaður.

Íris Eva Einarsdóttir skotfimikona og Reynir Örn Pálmason hestaíþróttamaður.

Kjör íþróttakonu og íþróttakarls Mosfellsbæjar var tilkynnt við hátíðlega athöfn sem fram fór í Íþróttamiðstöðinni að Varmá á dögunum.
Alls voru tilnefndar níu konur til kjörs íþróttakonu Mosfellsbæjar frá fimm íþróttafélögum og var Íris Eva Einarsdóttir, skotfimikona úr Skotfélagi Reykjavíkur, kjörin íþróttakona Mosfellsbæjar 2015.

Íris náði í gull á Smáþjóðaleikunum
Íris varð hlutskörpust í öllum innanlandsmótum í loftriffli kvenna sem haldin voru á árinu. Hún náði meistaraflokksárangri á öllum mótum sem og Ólympíulágmörkum í þessari grein.
Hún fékk gullverðlaun á Reykjavíkurleikunum 2015 og vann til gullverðlauna á Smáþjóðaleikunum sem haldnir voru í Reykjavík. Þá varð hún Íslands- og bikarmeistari á árinu. Íris er númer 241 á styrkleikalista Alþjóðaskotsambandsins.

Reynir landaði heimsmeistaratitli
Alls voru tilnefndir átta karlar til kjörs íþróttakarls Mosfellsbæjar frá fimm íþrótta­félögum og var Reynir Örn Pálmason, hestaíþróttamaður úr Hestamannafélaginu Herði, kjörinn íþróttakarl Mosfellsbæjar 2015.
Árið 2015 var besta keppnisár Reynis frá upphafi. Þar bar hæst heimsmeistaratitill á gríðarsterku móti í Herning í Danmörku og tvenn silfurverðlaun sem var besti árangur á öllu mótinu.
Reynir var tvöfaldur Íslandsmeistari í samanlögðum fimmgangsgreinum og í slaktaumatölti, þar sem hann hlaut hæstu einkunn 8,88. Reynir er mjög ofarlega á heimslistum FEIF Worldranking 2015 sem eru heimssamtök Íslandshesta.

Fjöldi viðurkenninga veittur
Einnig voru veittar 105 viðurkenningar fyrir Íslands-, bikar-, landsmóts og deildarmeistaratitla og 96 viðurkenningar fyrir þátttöku og æfingar með landsliðum Íslands í fjölmörgum íþróttagreinum ásamt því að efnileg ungmenni 16 ára og yngri í hverri íþróttagrein voru heiðruð.
Við sama tækifæri hlaut Sigrún Þ. Geirsdóttir sundafrekskona viðurkenningu fyrir þann frábæra árangur að vera fyrst íslenskra kvenna til að synda yfir Ermarsundið, þ.e. 62,7 km á 22 og hálfri klukkustund. Ótrúlegt afrek.

Hanna Samsted og Sveinbjörg Pálsdóttir frá Biskupsstofu taka við undirskriftalistunum frá Mosfellingunum Helgu, Hilmari, Systu, Þorbjörgu og Jakobi litla. Hópurinn hefur staðið fyrir söfnun síðustu daga.

Undirskriftarlistar afhentir

Hanna Samsted og Sveinbjörg Pálsdóttir frá Biskupsstofu taka við undirskriftalistunum frá Mosfellingunum Helgu, Hilmari, Systu, Þorbjörgu og Jakobi litla. Hópurinn hefur staðið fyrir söfnun síðustu daga.

Hanna Samsted og Sveinbjörg Pálsdóttir frá Biskupsstofu taka við undirskriftalistunum frá Mosfellingunum Helgu, Hilmari, Systu, Þorbjörgu og Jakobi litla. Hópurinn hefur staðið fyrir söfnun síðustu daga.

Rúmlega þriðjungur sóknarbarna í Lágafellssókn hefur skrifað undir áskorun um að prestskosning fari fram. Sr. Skírnir Garðars­son lét af störfum um áramótin og hefur biskup Íslands auglýst laust til umsóknar embætti prests í Mosfellsprestakalli frá 1. mars. Þeim presti er ætlað að starfa við hlið sr. Ragnheiðar Jónsdóttur sóknarprests.
Stuðningshópur Arndísar Linn hefur staðið fyrir söfnun undirskriftanna og skilað þeim á tilsettum tíma til Biskupsstofu.
Umsóknarfrestur um starfið rennur út 9. febrúar og má ætla að framkvæmd kosninga verði ákveðin í framhaldinu.

Jákvæðni meðal bæjarbúa
„Undirtektirnar voru mjög góðar,“ segir Helga Kristín Magnúsdóttir talsmaður stuðningshóps Arndísar Linn. „Greina mátti mikla jákvæðni meðal íbúa bæjarins og þökkum við kærlega fyrir móttökurnar og auðveldlega náðist í tiltekinn fjölda undirskrifta. Þá viljum við einnig koma á framfæri þakklæti til þeirra sem hjálpuðu okkur að safna undirskriftunum, án þeirra hefði þetta ekki tekist.
Með kosningu í embættið er verið að dreifa valdi og ábyrgð meðal íbúa bæjarins og taka ákvörðun um embættið á friðsamlegan máta.
Það er því okkar von að á næstunni verði boðað til kosninga og Mosfellingar hafi um það að segja hver muni gegna stöðunni,“ segir Helga Kristín að lokum.

fyrstimosfellingurarsins

Fyrsti Mosfellingur ársins

Fjölskyldan í Bjargslundi með litlu prinsessuna. Mynd/RaggiÓla

Fjölskyldan í Bjargslundi með litlu prinsessuna. Mynd/RaggiÓla

Þann 4. janúar kl. 18:58 fæddist fyrsti Mosfellingur ársins 2016. Það var stúlka sem mældist 14 merkur og 52 cm. Foreldrar hennar eru þau Lovísa Rut Jónsdóttir og Björn Ingi Ragnarsson. Stúlkan er þriðja barn þeirra Lottu og Binga en fyrir eiga þau drengina Ragnar Inga 8 ára og Arnór Logi 5 ára. Fjölskyldan býr í Bjargslundi.

Fær nafn um páskana
„Ég var gangsett og allt gekk eins og í sögu. Við erum alveg í skýjunum með dömuna og hún er svakalega vær og góð. Við fengum að vita kynið á meðgöngunni og ætluðum varla að trúa því að við værum að fá stelpu. Bingi var sérstaklega montinn að þetta gæti hann,“ segir Lotta og hlær.
„Við ætlum að skíra hana um páskana en þeir bræður eru alveg með skoðun á því hvað hún á að heita.“
Mosfellingur óskar fjölskyldunni til hamingju með stúlkuna.