Króatísk landsliðskona til liðs við Aftureldingu

nyrleikmadur

Króatíska landsliðskonan Ana María Gugic er gengin til liðs við Aftureldingu. Ana María er örvhent skytta sem spilaði síðasta tímabil með Octeville í Frakklandi og þar á undan með Gjerpen í Noregi.
Handknattleiksdeild Aftureldingar er gríðarlega ánægð með komu Önu og býður hana hjartanlega velkomna. Ana María er annar leikmaðurinn sem gengur til liðs við UMFA, því fyrir nokkru skrifaði litháíska landsliðskonan Roberta Ivanauskaide undir tveggja ára samning við félagið. Meistaraflokkur Aftureldingar leikur í Olís-deildinni á næstu leiktíð.

Öll blöð Mosfellings frá árinu 2002 aðgengileg á timarit.is

mosfellingur-forsíður2

Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings.

Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings.

Bæjarblaðið Mosfellingur hefur verið gefið út frá árinu 2002. Nú eru öll tölublöð frá upphafi aðgengileg á timarit.is en það er Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem rekur vefinn.
Mosfellingur gerði samning við Landsbókasafnið í vetur um varðveislu alls efnis á timarit.is og hefur sú vinna staðið yfir ásamt skönnun á elstu tölublöðunum.
Nú eru hátt í 300 blöð Mosfellings aðgengileg á stafrænu formi á vefnum.

Öflug leitarvél á vefnum
„Við erum að skrifa hina nýju sögu Mosfellsbæjar,“ segir Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings. „Það er ánægjulegt að blöðin séu komin í trausta varðveislu og aðgengileg öllum hvenær sem er. Þetta eru miklar og sögulegar heimildir bæði í texta og myndum síðastliðin 17 ár.“
Öflug leitarvél er á vefnum og hægt er að prenta út valdar síður. Notendur geta leitað í gagnagrunninum að efni sér til fróðleiks og skemmtunar.

Yfir 8.000 blaðsíður í stafrænu formi
„Blaðsíður Mosfellings á timarit.is telst okkur að séu komnar yfir 8.000 talsins þannig að það má alveg gleyma sér yfir þeim.
Auk frétta úr bæjarlífinu hverju sinni eru viðtöl Ruthar Örnólfsdóttur, Mosfellingurinn, nú orðin 200 og Heilsumolar Gaua, Guðjóns Svanssonar að verða 100 talsins. Þá eru gömlu myndirnar í umsjón Birgis D. Sveinsson orðnar óteljandi og allar myndirnar hans Ragga Óla ómetanlegar, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Hilmar.
Framvegis verða blöðin uppfærð á nokkurra mánaða fresti eftir því sem tækifæri gefst til. Einnig má minna á heimasíðu blaðsins www.mosfellingur.is þar sem finna má vefútgáfu af nýjasta tölublaði Mosfellings auk þess sem birtar eru helstu fréttir úr blaðinu á vefsíðunni.

—-

Tímarit.is er stafrænt safn sem veitir aðgang að milljónum myndaðra blaðsíðna á stafrænu formi af þeim prentaða menningararfi sem varðveittur er í blöðum og tímaritum. Aðgangur er öllum opinn og stuðst er við nýjustu tækni í geymslu og miðlun upplýsinga.

Ljósleiðaranum fagnað í Kjósinni

Eiríkur Sæmundsson Rafal með synina Kristófer og Sæmund, Hörður Úlfarsson Gröfutækni ehf, Jón Örn Ingileifsson – Jón Ingileifsson ehf, Bubbi Morthens, Guðmundur Daníelsson verkefnastjóri Ljós í Kjós, Jón Gunnarsson þingmaður, Karl Magnús Kristjánsson sveitarstjóri og stjórnarformaður Leiðarljóss ehf, Rebekka Kristjánsdóttir stjórn Leiðarljóss ehf, Regína Hansen Guðbjörnsdóttir stjórn Leiðarljóss og Sigríður Klara Árnadóttir framkvæmdastjóri Leiðarljóss.

Eiríkur Sæmundsson Rafal með synina Kristófer og Sæmund, Hörður Úlfarsson Gröfutækni ehf, Jón Örn Ingileifsson – Jón Ingileifsson ehf, Bubbi Morthens, Guðmundur Daníelsson verkefnastjóri Ljós í Kjós, Jón Gunnarsson þingmaður, Karl Magnús Kristjánsson sveitarstjóri og stjórnarformaður Leiðarljóss ehf, Rebekka Kristjánsdóttir stjórn Leiðarljóss ehf, Regína Hansen Guðbjörnsdóttir stjórn Leiðarljóss og Sigríður Klara Árnadóttir framkvæmdastjóri Leiðarljóss. Mynd/Jón Bjarnason

Kjósverjar, jafnt íbúar sem sumarhúsaeigendur, fögnuðu í blíðviðrinu á uppstigningardag að vera komnir með ljósleiðara í sveitina. Við það tæki­færi kynntu fjar­skipta­fyr­ir­tæk­in Hringdu, Sím­inn og Voda­fo­ne íbú­um til­boð í þjón­ustu.
Mikill kraftur er í Kjósinni en einungis eru þrjú ár síðan tekin var fyrsta skóflu­stungan að stöðvarhúsi nýrrar hitaveitu. Samhliða lagningu hitaveitunnar voru sett ídráttarrör fyrir ljósleiðara og nú er búið að blása ljósleiðaraþræði í rörin. Fyrsta áfanga af þremur er nú lokið.

Kristín Einarsdóttir hlýtur Gulrótina

Kristín tekur við viðurkenningunni úr höndum Ólafar Sívertsen verkefnisstjóra Heilsueflandi samfélags.

Kristín tekur við viðurkenningunni úr höndum Ólafar Sívertsen verkefnisstjóra Heilsueflandi samfélags.

Heilsudagurinn í Mosfellsbæ var haldinn 27. maí. Dagurinn hófst með morgungöngu og endaði með málþingi í Listasalnum.
Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður hélt fyrirlestur og Gulrótin var afhent.
Gulrótin er lýðheilsuviðurkenning sem ætlað er að hampa einstaklingi, hópi, fyrirtæki eða stofnun fyrir brautryðjendastarf í þágu heilsueflingar og bættrar lýðheilsu íbúa Mosfellsbæjar.
Það eru Heilsuvin og Mosfellsbær sem standa að baki viðurkenningunni sem felur í sér þakklæti fyrir frumkvæði og störf í anda lýðheilsu og á jafnframt að vera hvatning til allra á þessum vettvangi í bæjarfélaginu.

Leikur að læra og Morgunfuglar
Þetta er í þriðja sinn sem viðurkenningin er veitt en hana hafa hlotið Svava Ýr Baldvinsdóttir íþróttakennari sem hefur m.a. séð um Íþróttaskóla barnanna hjá Aftureldingu í fjöldamörg ár og hjónin Guðjón Svansson og Vala Mörk hjá Kettlebells Iceland.
Í ár það Kristín Einarsdóttir, íþróttakennari, sem hlýtur viðurkenninguna fyrir óendanlegan drifkraft og frumkvæði að aukinni hreyfingu barna og fullorðinna í gegnum kennsluaðferðina „Leikur að læra“ og skokkhópinn Morgunfuglana.
Í rökstuðningi með tilnefningunni segir að hún hafi unnið ötullega að því að innleiða kennsluaðferðina Leikur að læra í leik- og grunnskóla á Íslandi. Aðferðin nýtir hreyfingu og leik markvisst í námi barnanna og miðar að því að efla líkamlega, andlega og félagslega vellíðan þeirra. Hún hefur síðustu ár haldið úti námskeiðum í aðferðinni fyrir kennara á Spáni og eru þeir ófáir kennarnir sem hafa nýtt sé þau.
Ekki nóg með það heldur hefur hún einnig haldið úti hlaupahópnum Morgunfuglunum hér í Mosfellsbæ.

Það er best að búa í Mosó

svannimosfellingur

Svanþór Einarsson, eða Svanni eins og hann er ávallt kallaður, hefur starfað í sínum heimabæ nánast alla sína tíð og segir það mikil forréttindi. Hann byrjaði ungur í bókbandi hjá föður sínum en keypti síðan veitingastaðinn Pizzabæ þegar hann var á nítjánda ári.
Eftir að hafa selt sjóðheitar pizzur í ellefu ár breytti hann um gír og fór að selja bíla en færði sig svo yfir í fasteignabransann og stýrir í dag daglegum rekstri hjá Fasteignasölu Mosfellsbæjar.

Svanþór er fæddur í Reykjavík 20. september 1976. Foreldrar hans eru þau Halla Svanþórsdóttir starfsmaður í bókbandi og Einar Egilsson bókbindari. Svanþór á tvær systur, Svanhildi f. 1962 og Öglu Björk f. 1964.

Setti kettlinginn í húfuna
Svanþór flutti í Mosfellssveitina eins árs og bjó í Barrholtinu alla sína barnæsku í húsi sem foreldrar hans byggðu. „Sem barn var maður dekraður út í eitt því systur mínar voru 12 og 14 ára gamlar þegar ég fæddist svo það var vel hugsað um prinsinn á heimilinu,“ segir Svanni og skælbrosir.
„Þegar ég var pjakkur fór ég oft með pabba til að kaupa hey. Eitt skiptið gaf bóndinn á bænum mér kettling sem ég setti í húfuna mína. Pabbi komst ekki að því fyrr en við vorum komnir hálfa leiðina heim, ég fékk samt að eiga hann.“

Hentum verðmætum málverkum
„Það var frábært að alast hér upp, ég gekk í Varmárskóla og Gaggó Mos og mér fannst mjög gaman í skólanum. Ég eignaðist fullt af vinum sem eru ennþá vinir mínir í dag og ég var heppinn að vera með sömu bekkjarfélögunum í 1.−10. bekk. Kristín Sigsteinsdóttir var uppáhaldskennarinn minn en hún kenndi mér bróðurpartinn af þessum árum.
Margt var nú sjálfsagt í sveitinni á þessum tíma sem tíðkast ekki í dag. Til dæmis byrjuðum við krakkarnir í hverfinu strax eftir jól að safna í brennu fyrir gamlárskvöld sem var haldin á fótboltavellinum á milli Berg- og Barrholts. Þarna notaði fólkið í hverfinu tækifærið til að henda út úr bílskúrunum hjá sér. Eitt skiptið vorum við pabbi aðeins of duglegir að taka til og hentum talsverðu magni af málverkum sem væru mjög verðmæt í dag.“

Það var alltaf gaman á vaktinni
„Eftir útskrift fór ég í Iðnskólann í Reykjavík og fór svo að vinna í bókbandinu með pabba. Ég ákvað síðan að hefja nám í bókbandi en í miðju námi frétti ég að veitingastaðurinn Pizzabær í Mosó væri til sölu. Þetta hljómaði rosalega spennandi þar sem margir af mínum vinum voru að vinna þarna og líkaði vel. Ég ákvað að slá til, fann leið til þess að kaupa staðinn og rak hann í 11 ár eða til ársins 2007 en þá keypti Hrói höttur hann af mér.
Árin í pizzunum voru hrikalega skemmtileg og fjöldinn allur af Mosfellingum starfaði á staðnum. Þetta var í raun eins og félagsmiðstöð, viðskiptavinirnir að koma og fara og það var alltaf gaman á vaktinni, stutt í grín og gaman.“

Forréttindi að starfa í sínum heimabæ
„Eftir að ég hætti í pizzunum gerðist ég löggiltur bílasali og hóf störf hjá 100 bílum/Ísbandi hjá vini mínum Októ. Ég starfaði þar í eitt ár niður á Höfða eða þangað til að mér bauðst starf í Mosfellsbæ.
Ég hóf störf á Fasteignasölu Mosfellsbæjar 2008 og hef starfað þar í 11 ár. Fyrir þremur árum fór ég í nám til löggildingar fasteignasala. Ég verð nú að viðurkenna að ég var pínu stressaður að setjast aftur á skólabekk en allt gekk þetta eins og í sögu. Í dag stjórna ég daglegum rekstri fasteignasölunnar.“

Missir ekki af leik með Aftureldingu
Fyrir þremur árum kynntist Svanni Önnu Ragnheiði Jónsdóttur kennara frá Akureyri.
„Þetta eru búin að vera frábær þrjú ár hjá okkur Önnu og við höfum verið dugleg að ferðast erlendis. Þetta er engu að síður búið að vera pínu rask hjá okkur þar sem hún bjó fyrir norðan og við þurftum að ferðast mikið á milli en núna er Anna flutt til mín og er að fara kenna hér í Mosfellsbænum.“
Svanþór á einn son, Jason Daða f. 1999. „Við Jason minn höfum alla tíð verið mjög nánir og miklir vinir. Fótbolti er okkar aðaláhugamál og við eyðum miklum tíma saman í að horfa á hann. Við höfum farið saman á Old Trafford í Manchester og við fórum líka á EM í Frakklandi fyrir utan alla leikina sem við höfum farið á hér á landi.
Jason spilar knattspyrnu með Aftureldingu og ég missi ekki af leik með þeim.“

Hvíti Riddarinn og Fálkarnir
„Þann 14. ágúst 1998 komum við saman nokkrir vinir úr Mosó og stofnuðum knattspyrnuliðið Hvíta Riddarann. Ég er stoltur af því að vera í hópi stofnenda því liðið er enn til, 20 árum seinna.
Fyrir þremur árum stofnuðum við góðgerðafélag Hvíta Riddarans. Félagið hefur það að markmiði að aðstoða fjölskyldur og einstaklinga í bæjarfélaginu sem lent hafa í áföllum eða erfiðleikum. Allir geta rétt góðgerðafélaginu hjálparhönd í hvaða mynd sem er og þá er bara um að gera að hafa samband.
Ég hef gaman af því að vera í góðum félagsskap og er líka í góðra vina hópi sem heitir Fálkarnir. Við hittumst í líkamsrækt mjög reglulega og oft líka til þess að fá okkur bjór.
Ég er líka í þorrablótsnefnd Aftureldingar og finnst frábært að geta unnið góðgerðastarf fyrir félagið.“

Réði ekki við sig af kæti
Það fer ekki fram hjá neinum sem ræðir við Svanna að hann er stoltur Mosfellingur. „Já, það er best að búa í Mosó, það er bara þannig, hér búa yfir ellefu þúsund manns og bærinn er ört vaxandi. Ég held með Aftureldingu og öðrum íþróttafélögum í bænum, fyrirtækjunum og fólkinu.
Ég get sagt þér að þegar það kom í fréttum fyrir nokkuð mörgum árum að Mosfellingur hefði unnið stóran vinning í lottó þá varð ég svo glaður að ég réði ekki við mig,“ segir Svanni og brosir og bætir svo við: „Þótt ég hafi ekki haft hugmynd um hver hann er.“

Mosfellingurinn 13. júní 2019
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Heildarúttekt EFLU á Varmárskóla lokið

varmarskoliskyrla

Verkfræðistofan EFLA hefur lokið vinnu við heildarúttekt á öllu húsnæði Varmárskóla en verkfræðistofan hefur á síðustu tveimur árum unnið þrjár úttektir fyrir Mosfellsbæ á rakaskemmdum.
Niðurstöður sýnatöku EFLU gefa til kynna að almennt sé ástand húsnæðis Varmárskóla gott og jafnvel betra en sambærilegur húsakostur af sama aldri. Ekki er þörf á bráðaaðgerðum né lokun skólans en úrbóta er þörf og að hluta til umfram það sem þegar hefur verið ákveðið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ.
Lagt er til að unnið verði að því að fjarlægja á nokkrum afmörkuðum stöðum rakaskemmd byggingarefni innandyra samhliða endurbótum á ytra byrði yngri deildar sem boðnar voru út í vor. Framkvæmdir eru við það að hefjast.

Endurnýjun á elstu húshlutum
Áður en EFLA lauk við heildarúttektina lágu fyrir áform um endurbætur á elstu húshlutum Varmárskóla og hófust þær framkvæmdir við skólaslit Varmarskóla.
Endurnýja á hluta þakefna og glugga auk múrviðgerða og málunar. Innandyra þarf að fara í úrbætur sem Efla leggur til þar sem rakaskemmd byggingarefni verða fjarlægð, steinslípað, hreinsað og málað.
Miðað er við að verktakar með sértæka þekkingu á vinnubrögðum við viðgerðir á rakaskemmdu húsnæði verði fengnir í verkefnið. Stærri aðgerðum á veðurkápu húsanna hefur verið áfangaskipt og forgangsraðað til næstu þriggja ára í samræmi við niðurstöður fyrirliggjandi úttekta.
Við þessa vinnu er mikilvægt að horfa til framtíðar varðandi endingu hins endurnýjaða húshluta og mæta kröfum byggingarreglugerðar í dag.

Ástand húsnæðis Varmárskóla sambærilegt eða betra en búast mátti við
Í heildarúttekt EFLU kemur fram að það er helst eldri hluti skólans sem þarfnast endurbóta. Ráðgjafar EFLU taka fram í niðurstöðum sínum að alltaf megi búast við að finna svæði með rakaskemmdum í eldra húsnæði en nú sé hins vegar þekking til staðar til að greina slík svæði og því hægara um vik að bregðast við áður en í óefni er komið.
Að mati EFLU hafa þær aðgerðir og endurbætur sem farið hafa fram síðustu tvö ár skilað Varmárskóla betri húsakosti. Enn eru þó nokkur viðfangsefni til staðar og heildarúttektin er góð leiðsögn um æskileg næstu skref.
Niðurstöður EFLU má bæði nýta til forgangsröðunar aðgerða og til leiðbeiningar um verklag við endurbæturnar. Lagt er til að forgangur verði settur í að bæta innivist og aðstöðu nemenda og starfsfólks.

Kynning heildarúttektarinnar
Samkvæmt upplýsingum frá Mosfellsbæ voru helstu niðurstöður heildarúttektar EFLU kynntar fyrir skólastjórum Varmárskóla, starfsmönnum skólans og stjórnendum Mosfellsbæjar sl. föstudag.
Skýrsla EFLU verður kynnt í bæjarráði þann 13. júní og skólasamfélaginu í heild þann 19. júní kl. 18.00 á opnum fundi í Varmárskóla sem jafnframt verður streymt á YouTube rás Mosfellsbæjar.
„Mosfellsbær fagnar því að heildarúttekt EFLU staðfesti að ástand húsnæðis Varmárskóla er almennt gott og jafnvel betra en við mátti búast. Við sinnum okkar húsnæði af kostgæfni og fylgjum góðum ráðum EFLU um æskileg næstu skref.
EFLA hefur nú veitt okkur leiðbeiningar um áherslur næstu mánaða og Mosfellsbær mun bregðast við þessum niðurstöðum af festu og einurð og hér eftir sem hingað til tryggja nemendum og starfsmönnum heilsusamlegt starfsumhverfi,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Niðurstaðan skýr
„Við starfsmenn Varmárskóla fengum kynningu á niðurstöðum heildarúttektar EFLU síðasta föstudag og hlökkum til að vinna með þeim og umhverfissviði Mosfellsbæjar að endurbótum á húsnæði skólans nú í sumar. Niðurstaðan er skýr um að hvorki reyndist þörf á bráðaaðgerðum né lokun skólans og okkar verkefni er að bæta við þeim úrbótaverkefnum sem ekki eru á áætlun sumarsins. Ég vona eindregið að allir aðilar geti sammælst um þau mikilvægu verkefni,“ segir Þórhildur Elfarsdóttir skólastjóri Varmárskóla.

Ráðin skólastjóri Lágafellsskóla

lisaskolastjori

Lísa Greipsson hefur verið ráðin í starf skólastjóra Lágafellsskóla. Lísa er með B.Ed. gráðu í menntunarfræðum, kennsluréttindi í grunnskóla og lauk MBA námi frá Háskóla Íslands árið 2018. Lísa hóf sinn kennsluferil árið 1994 á Akranesi en hefur starfað nær samfellt við í Lágafellsskóla frá 2001. Síðustu þrjú árin hefur hún sinnt stöðu deildarstjóra við skólann. Auk kennslustarfa og stjórnunarstarfa í grunnskóla vann Lísa á skrifstofu Norðuráls. Lísa tekur við starfi skólastjóra Lágafellsskóla 1. ágúst.

Ærslabelgur á Stekkjarflöt og sleðabrekka í Ævintýragarð

ærslabelgur

Ærslabelgur mun rísa á Stekkjarflöt og búið verður til skíða- og brettaleiksvæði í Ævintýragarðinum í Ullarnesbrekkum í kjölfar íbúakosninga um verkefni í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó. Íbúar kusu einnig meðal annars að fá flokkunarruslafötur, merkja toppa bæjarfella og fjalla og bætta lýsingu á göngustígum.
Metþátttaka var í kosningum sem stóðu frá 17. til 28. maí eða 19,1% sem er mesta þátttaka sem hefur verið í sambærilegum kosningum á Íslandi.
Alls hlutu 11 hugmyndir brautargengi en 35 milljónum verður varið í framkvæmd verkefnanna. Framkvæmd þeirra hefst í sumar en lýkur haustið 2020.

Kosningaþáttaka aukist töluvert
Tæplega 1.800 manns tóku þátt í kosningunni sem er 19,1% Mosfellinga 15 ára og eldri. Um 61% þátttakenda voru konur, tæplega 39% karlar. Þegar reiknað er út hlutfall þátttakenda innan hvers aldursbils sem kaus kemur í ljós að þátttakendur á aldrinum 31−40 ára voru fjölmennastir eða 32%.
Síðast þegar kosið var í Okkar Mosó árið 2017 tóku 14% íbúa 16 ára og eldri þátt í kosningunum. Síðan hefur bæði fjölgað talsvert í bæjarfélaginu en einnig voru fleiri á kjörskrá í ár vegna lækkaðs kosningaaldurs. Þátttaka hefur því aukist talsvert.

11 hugmyndir kosnar til framkvæmda
1 – Ærslabelgur settur upp á Stekkjarflöt.
2 – Skíða- og brettaleiksvæði í Ævintýragarðinum í Ullarnesbrekkum
3 – Flokkunarruslafötur settar upp á þremur stöðum við göngustíga
4 – Merkingar á toppum bæjarfella og fjalla
5 – Betri lýsing á göngustíg milli Hulduhlíðar 30−32
6 – Miðbæjartorgið gert skemmtilegt með leiktækjum
7 – Ungbarnarólur fyrir yngstu börnin í Hagaland og Leirvogstungu
8 – Hvíldarbekkir og lýsing meðfram göngustígum við Varmá
9 – Kósý Kjarni – notalegri aðstaða til samvista
10 – Lýsing sett upp á malarstíg frá Álafosskvos að brú við Ásgarð
11 – Fræðsluskilti með sögu Álafossverksmiðjunar sett upp í Kvosinni

Nýr atvinnukjarni mun rísa á 15 hektara svæði í landi Blikastaða

Blikastaðalandið mun brátt glæðast lífi.

Blikastaðalandið mun brátt glæðast lífi.

Haraldur Sverrison bæjarstjóri og Friðjón Sigurðarson frá Reitum handsala viljayfirlýsingu.

Haraldur Sverrison bæjarstjóri og Friðjón Sigurðarson frá Reitum handsala viljayfirlýsingu.

Reitir fasteignafélag hf. og Mosfellsbær undirrituðu þann 6. júní viljayfirlýsingu um skipulag og uppbyggingu atvinnusvæðis í landi Blikastaða í Mosfellsbæ.
Um er að ræða 15 hektara svæði sem afmarkast af Vesturlandsvegi, Korpúlfsstaðavegi og sveitarfélagamörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar.
Samkvæmt aðalskipulagi Mosfellsbæjar er landnotkun svæðisins skilgreind sem blönduð landnotkun fyrir léttan iðnað, verslanir og þjónustustarfsemi. Svæðið liggur að fyrirhugaðri íbúðabyggð í Blikastaðalandi og gert er ráð fyrir að Borgarlínan liggi í gegnum svæðið í framtíðinni.

Af svipaðri stærð og Skeifan
„Í landi Blikastaða mun á næstu árum rísa nýr atvinnukjarni fyrir allt höfuðborgarsvæðið,“ segir Friðjón Sigurðarson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Reita.
„Þar verður skipulagt og byggt með umhverfi og sjálfbærni að leiðarljósi. Um er að ræða stórt svæði, aðeins lítillega minna en t.d. Skeifan í Reykjavík með þeim fjölbreytileika sem þar er að finna. Atvinnukjarninn mun njóta góðs af nálægð við gróin íbúðahverfi en ekki síður vegna góðra tenginga við gatnakerfið og öflugar almenningssamgöngur seinna meir.
Atvinnukjarni á Blikastöðum opnar nýjan möguleika í húsnæðismálum fyrir framsýn fyrirtæki og stofnanir. Viljayfirlýsingin rammar inn þá vegferð sem nú er hafin og hlökkum við til samstarfsins við Mosfellsbæ,“ segir Friðjón.

100 þúsund fm af atvinnuhúsnæði
„Við vitum að svæðið hefur marga kosti fyrir fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Þau áform sem nú liggja fyrir falla vel að áherslum Mosfellsbæjar á sviði umhverfismála og atvinnukjarninn mun geta mætt þörfum ólíkra fyrirtækja.
Þegar svæðið verður að fullu uppbyggt má gera ráð fyrir að húsnæði fyrir atvinnustarfsemi hafi tvöfaldast í Mosfellsbæ en aðalskipulag gerir ráð fyrir að þarna geti risið allt að 100 þúsund fm af húsnæði fyrir þjónustu og verslun.
Þetta svæði er afskaplega vel í sveit sett og vel staðsett og verður án efa mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf í Mosfellsbæ sem og höfuðborgarsvæðið allt,“ segir Haraldur.

Deiliskipulagsvinnu ljúki 2020
Í kjölfar undirritunarinnar verða fyrstu skrefin að hefja vinnu við deiliskipulag svæðisins og er miðað við að þeirri vinnu ljúki um mitt ár 2020. Samhliða deiliskipulagsvinnu verður uppbyggingin útfærð nánar og tímasett. Væntingar standa til þess að framkvæmdir við gatnagerð gætu þannig hafist strax á næsta ári og byggingaframkvæmdir í ársbyrjun 2021.

Anna Greta ráðin skóla­stjóri í Varmárskóla

annagretavarmarskoli

Anna Greta Ólafsdóttir hefur verið ráðin sem skólastjóri Varmárskóla tímabundið til eins árs. Anna Greta hefur kennaramenntun og leyfisbréf til kennslu á grunnskólastigi, hefur lokið meistaranámi á sviði stjórnunar og hefur þekkingu á áætlunargerð, fjármálstjórnun og stefnumótunarvinnu. Anna Greta hefur reynslu af stjórnun menntastofnana en hún hefur gegnt stöðu skólastjóra við tvo grunnskóla, starfað sem kennari og stýrt menningarviðburðum.

Anna Greta tekur við starfi skólastjóra yngri deildar Varmárskóla 1. ágúst nk. og mun gegna því starfi til 1. ágúst 2020. Þóranna Rósa skólastjóri Varmárskóla lætur af störfum í lok sumars og tekur við Rimaskóla.

Betri orka á göngu

gaui13juni

Ég hef skrifað nokkra pistla í flugvélum. Hér er einn í viðbót. Er núna í flugvél á leiðinni frá Róm til London, þaðan fljúgum við eftir mjög stutt stopp heim til Íslands. Höfum verið á ferðalagi í fimm mánuði. Það verður gott að koma heim í íslenska sumarið. Ferðalagið hefur verið frábært en Ísland er líka frábært.

Ég rakst á viðtal við hinn norska Erling Kagge í flugblaði British Airways. Erling vinur minn – þekki hann reyndar ekki en sé fyrir mér að hitta á hann fyrr en síðar – er rithöfundur sem elskar að labba. Hann var að gefa út bókina, „Walking: One Step at a Time“ og samkvæmt viðtalinu talar hann í henni um allt það góða við að labba. Labba í vinnuna, í búðina, á Norðurpólinn og allt þar á milli. Hann talar um hvað tíminn líður öðruvísi þegar maður gengur, hvað maður meðtekur umhverfið miklu betur, hvað maður eykur sköpunargáfuna og skilning á lífinu með því að labba. Ganga er frábært mótvægi við hraðann í lífi okkar í dag, segir Erling.

Ég er á hans línu. Elska að labba. Er síðustu vikur og mánuði búinn að labba marga kílómetra á hverjum degi og finn sterkt hvað það gerir mér gott. Mér og mínum. Mér hefur nefnilega tekist að draga fjölskylduna með í labbið, svona oftast. Það er margt rætt á göngunni, orkan er öðruvísi en þegar maður ferðast á meiri hraða. Það er reyndar aðeins öfugsnúið að skrifa um hvað það er dásamlegt að ganga og fara þannig á rólegum hraða á milli staða þegar maður situr í flugvél sem færir mann á ofurhraða milli landa. En það er erfitt að labba frá Róm til Íslands, eiginlega ógerlegt, og ég tími hreinlega ekki að missa af íslenska sumrinu við að reyna það. Sjáumst hress á röltinu!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 13. júní 2019

Metal-tónlistarhátíð í Hlégarði um helgina

Stephen og Edda skipuleggja hátíðina.

StephenLockhart og Gunnhildur Edda Guðmundsdóttir skipuleggja hátíðina.

Dagana 13.-15. júní fer fram metal-tónlistahátíðin Ascension MMXIX í Hlégarði í Mosfellsbæ. Á hátíðinni munu koma fram um 30 hljómsveitir, bæði erlendar og innlendar.
Það eru Mosfellingarnir Gunnhildur Edda Guðmundsdóttir og Stephen Lockhart sem standa fyrir viðburðinum. Þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin með þessu sniði en þau hafa þrisvar áður haldið sambærilega tónlistarhátíð undir nafninu Oration í Reykjavík við góðan orðstír.
Edda er menntaður hönnuður og hefur starfað mikið við verkefnastjórnun. Stephen starfar sem hjóðupptökumaður og rekur hljóðstúdíóið Studio Emissary í Mosfellsbæ.
„Upphafið að þessu tónleikahaldi má eiginlega rekja til þess að ég var að taka upp fyrir bæði erlendar og innlendar hljómsveitir og langaði að halda viðburð fyrir þær. Þetta var fjótt að vinda upp á sig og í ár koma um 30 hljómsveitir fram og við búumst við að það verði uppselt. Sérstaða okkar er að yfir 60% af tónlistargestum eru útlendingar,“ segir Stephen.

Hlégarður passar fullkomlega
„Við erum rosalega ánægð að halda tónlistahátíðina hér í Mosó. Hlégarður passar fullkomlega utan um viðburðinn. Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð bæði frá Mosfellsbæ og íbúum.
Við hlutum menningarstyrk frá Mosfellsbæ og það er okkar von að hátíðin setji skemmtilegan svip á bæinn. Það er mikið skipulag og utanumhald um viðburð sem þennan og til að mynda eru rútuferðir úr miðbænum alla dagana í tengslum við tónleikahaldið,“ segir Edda.

Miðasala í fullum gangi
Allar upplýsingar um tónlistarhátíðina má finna á heimasíðunni www.ascensionfestivaliceland.com og kaupa miða á tix.is.
„Það er enn hægt að fá miða en við hvetjum þá sem hafa áhuga að tryggja sér miða sem fyrst. Það verður ekki hægt að kaupa miða á einstaka tónleika, einungis er hægt að kaupa passa sem gildir alla dagana,“ segir Edda sem er spennt og þakklát.

—–

30 hljómsveitir komar fram:
• Above Aurora (PL/IS)
• Akhlys (US)
• Akrotheism (GR)
• Antaeus (FRA)
• Almyrkvi (IS)
• Aoratos (US)
• Auroch (CAN)
• BÖLZER (CH)
• Carpe Noctem (IS)
• Common Eider, King Eider (US)
• Drab Majesty (US)
• Gost (US)
• Jupiterian (BRA)
• Kaleikr (IS)
• Kælan Mikla (IS)
• King Dude (US)
• Misþyrming (IS)
• Mitochondrion (CAN)
• Naðra (IS)
• NYIÞ (IS)
• THE ORDER OF APOLLYON (FR)
• Rebirth of Nefast (IRL/IS)
• Sinmara (IS)
• SÓLSTAFIR (IS)
• Svartidauði (IS)
• Treha Sektori (FR)
• Tribulation (Official) (SE)
• Vástígr (AT/IS)
• Wolvennest (BE)
• Zhrine (IS)

Framkvæmdum við gervigrarsvöll lokið

stúka

Í ár spila bæði meistaraflokkur kvenna og karla Aftureldingar í Inkasso-deildinni í knattspyrnu og því reyndist nauðsynlegt að hefja endurbætur á aðstöðu fyrir áhorfendur við gervigrasvöllinn að Varmá.
Allir heimaleikir fara fram á þeim velli á yfirstandandi leiktímabili samkvæmt ósk knattspyrnudeildarinnar
Alfarið hefur verið unnið eftir þeim kröfum sem KSÍ setur í þessum efnum og gott samstarf hefur verið milli Mosfellsbæjar, Aftureldingar og KSÍ um þær breytingar sem farið var í enda þurfti að bregðast skjótt við.

Helstu framkvæmdir
– Útbúin hefur verið 300 sæta stúka á 6 pöllum við gervigrasvöllinn. Heildarlengd stúkunnar er 34 metrar og var hluti sætanna fluttur af Varmárvelli í hina nýju stúku.
– Núverandi varamannaskýli voru stækkuð með því að framlengja þau og bæta þannig við 4 sætum þannig að þau rúmi 14 manns eins og kröfur gera ráð fyrir.
– Nauðsynlegt reyndist einnig að stækka öryggissvæðið við völlinn, það þarf að vera 4 metrar en var eingöngu 2 metrar. Þeirri framkvæmd er nú lokið og er viðbótin lögð í sambærilegu efni sem er gervigras án innfyllingar.
– Þá var komið upp salernisaðstöðu fyrir áhorfendur sem búa við fötlun og var það leyst með leigu á fyrsta flokks salernisgámi meðan unnið er að framtíðarlausn.
– Í vor hefur einnig verið unnið að endurnýjun og stækkun búningsklefa í kjallara sundlaugarinnar sem breytir aðstöðu knattspyrnunnar til batnaðar.

Fjölnota knatthús í notkun í haust
„Afturelding hefur náð frábærum árangri í knattspyrnu á síðustu árum og Mosfellsbær leggur áherslu á að styðja vel við íþróttastarf og erum við auðvitað stolt af okkar afreksfólki.
Samstarf bæjarins og Aftureldingar er gott og það að komast í Inkasso-deildina kallaði á bætta aðstöðu. Þeim aðgerðum er nú lokið og það var einkar ánægjulegt að sjá nýju stúkuna fulla af áhorfendum á fyrsta heimaleiknum hjá körlunum.
Ég treysti því að Mosfellingar muni fjölmenna á leikina í sumar hjá bæði konunum og körlunum. Síðan verður fjölnota knatthúsið tekið í notkun í haust þannig að það er mikið að gerast í aðstöðumálum að Varmá um þessar mundir,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.

Ómar hlaut heiðursverðlaun foreldrafélags Varmárskóla

ómarviðurkenning

kór1Á 40 ára afmælishátíð skólakórs Varmárskóla veitti foreldrafélag Varmárskóla Guðmundi Ómari Óskarsyni kórstjóra og tónmenntakennara sérstök heiðursverðlaun fyrir ötult og óeigingjarnt starf við tónlistarkennslu og eflingu tónlistar í skólastarfinu.

Órjúfanlegur hluti af skólastarfinu
Guðmundur Ómar eða Ómar eins og flestir kalla hann hóf störf sem tónmenntarkennari við Varmárskóla árið 1979 og sama ár hófst reglubundið kórstarf sem hefur alla tíð síðan verið undir hans stjórn. Tónlist Ómars hefur verið órjúfanlegur hluti af skólastarfinu og hann komið að tónlistaruppeldi fjölda Mosfellinga.
Í gegnum árin hefur skólakórinn komið fram víða bæði innanlands og utan en tónleikarnir í Guðríðarkirkju voru síðustu opinberu tónleikar kórsins undir stjórn Ómars þar sem hann lætur nú af störfum eftir 40 ára farsælan feril. Síðasta verkefni Ómars verður að leiða kórinn í söngferð til Spánar í júní.

Farsæll og árangursríkur ferill
Inga Elín Kristinsdóttir leirlistarkona og einn af bæjarlistamönnum Mosfellsbæjar var fengin til samstarfs um hönnun á heiðursverðlaunum foreldrafélagsins sem veitt eru starfsmanni skólans sem á að baki langan, farsælan og árangursríkan starfsferil. Sigríður Ingólfsdóttir afhenti Ómari verðlaunin fyrir hönd foreldrafélagsins á afmælishátíð skólakórsins og henni til aðstoðar voru kórfélagarnir Valgerður Kristín Dagbjartsdóttir og María Qing Sigríðardóttir. Er þetta í fyrsta sinn sem heiðursverðlaun foreldrafélags Varmárskóla eru veitt og er Ómari óskað innilega til hamingju með heiðurinn.

Úthlutað í annað sinn úr Samfélags­sjóði KKÞ

KKÞ2

Laugardaginn 18. maí fór fram önnur úthlutun úr samfélagssjóði KKÞ og var alls úthlutað tæpum 17 milljónum.
Sjóðurinn var stofnaður eftir félagsslit Kaupfélags Kjalarnesþings og er stofnfé sjóðsins 50 milljónir.
Hlutverk sjóðsins er að úthluta fjámunum til æskulýðs- og menningarmála, góðgerðar- og líknarmála og annarrar starfsemi til almenningsheilla á fyrrum félagssvæði KKÞ sem nær yfir Mosfellsbæ, Kjalarnes og Kjósarhrepp.
Alls bárust 27 umsóknir vegna annarrar auglýsingar samfélagssjóðsins. Stjórn sjóðsins hafði ákveðið og auglýst að sjónum yrði að þessu sinni sérstaklega beint að menningarmálum.
Af þessum 27 umsóknum hlutu 21 styrk en 6 bíða næstu auglýsingar eða féllu ekki að úthlutunarskilmálum.
Úthlutað var til níu kóra, tveggja leikfélaga, tveggja sögufélags og tveggja einstaklinga svo eitthvað sé nefnt.
Stórn sjóðsins nýtti sér frumkvæðisúthlutanir til tveggja aðila, þ.e. til barna- og unglingastarfs Golfklúbbs Mosfellsbæjar og til Björgunarsveitarinnar Kjalar á Kjalarnesi.

Kirkjukór Lágafellssóknar – 1.000.000 kr.
Karlakórinn Stefnir – 1.000.000 kr.
Vorboðar, kór eldri borgara – 1.000.000 kr.
Karlakór Kjalnesinga – 1.000.000 kr.
Kirkjukór Reynivallaprestakalls – 1.000.000 kr.
Skólakór Varmárskóla – 750.000 kr.
Álafosskórinn – 750.000 kr.
Mosfellskórinn – 750.000 kr
Kammerkór Mosfellsbæjar – 750.000 kr
Kvenfélag Mosfellsbæjar – 600.000 kr
Björgunarsveitin Kjölur – 750.000 kr
Stormsveitin – 750.000 kr
Leikfélag Mosfellssveitar – 1.000.000 kr.
Skógræktarfélag Mosfellsbæjar – 1.000.000 kr.
Miðnætti Leikhús – 600.000 kr
Golfklúbbur Mosfellsbæjar – 500.000 kr
Sigfús Tryggvi Blumenstein – 250.000 kr
Sögufélag Kjalarnesþings – 750.000 kr
Menningarfélög í Fólkvangi – 1.000.000 kr.
Sögufélagið Steini – 1.000.000 kr.
Karl Tómasson –  400.000 kr