Heilsumolar_Gaua_28sept

Neil Warnock

Heilsumolar_Gaua_28sept

Ég las viðtal á fotbolti.net um daginn við Neil Warnock, knattspyrnustjóra Cardiff, liðsins sem Aron Einar fyrirliði íslenska landsliðsiðsins spilar með dags daglega. Neil er grjótharður og hefur alltaf verið, þess vegna var einmitt mjög áhugavert að lesa þetta viðtal. Þar sagði kappinn að hann hefði engan áhuga á að stýra liði í ensku úrvalsdeildinni (Cardiff er í næstefstu deild), pressan þar væri ómanneskjuleg. Hann sagði að aðrir hlutir væru mikilvægari, til dæmis heilsan og fjölskyldulífið.

Ég er sammála Neil Warnock. Við verðum að passa okkur á að láta ekki vinnu og verkefni taka allan okkar tíma og láta fjölskylduna, vinina og heilsuna mæta afgangi. Það gengur bara ekki upp til lengdar, eitthvað mun undan láta. Heilsan, fjölskyldan og/eða vinnan.

Ég er undanfarið búinn að vera að ræða við fólk sem vinnur mjög mikið. Fólk sem er nánast í vinnunni allan sólarhringinn, alla daga, og finnst það næstum því bara vera allt í lagi. Af því álagið sé svo mikið og það þurfi að klára verkefnin. Annars liggi verkefnin bara ókláruð. Og, stundum líka, af því það fær svo há laun. Því hærri laun, því meiri pressa. Alveg eins og í enska fótboltanum. Launin eru hæst í úrvalsdeildinni.

Fólk sem er á mjög háum launum á erfitt með að segja nei þegar vinnuveitandinn hringir á miðnætti á laugardagskvöldi og pantar skýrslu sem verði að vera tilbúin snemma á mánudagsmorgni. Þá er bæði svefn og samvera með fjölskyldunni sett í annað sæti. Vinnan alltaf í það fyrsta. Sama hvað.

Hamingjan felst ekki alltaf í hærri launum. Stundum er betra að hafa lægri laun og meiri lausan tíma. Hafa lífið í betra jafnvægi. Endum þetta á beinni tilvitnun í Neil, nýja besta vin minn: „Þú getur ekki sett verðmiða á góða heilsu, hamingju og fjölskyldu. Sama hver þú ert.“

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 28. september 2017

Arnar Hallsson og Ásbjörn Jónsson.

Arnar Hallsson ráðinn þjálfari meistaraflokks

Arnar Hallsson og Ásbjörn Jónsson.

Arnar Hallsson nýr þjálfari meistaraflokks karla og Ásbjörn Jónsson formaður meistaraflokksráðs.

Arnar Hallsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu. Liðið leikur í 2. deild og hefur gert síðustu ár. Afturelding endaði í 4. sæti í sumar undir stjórn Úlfs Arnars Jökulssonar. Síðast fór liðið upp um deild árið 2008.
„Ég er búinn að hafa augastað á þessu félagi í talsverðan tíma,“ segir Arnar Hallsson sem hefur unnið sem þjálfari yngri flokka síðustu ár. „Mig hefur langað til að þjálfa meistaraflokk hjá félagi sem hefði rætur og efnivið til að vinna úr. Það freistaði mín þegar ég sóttist eftir þessari stöðu.
Sjálfur var ég leikmaður hjá Víkingi og ÍR þangað til ég fótbrotnaði og fór í langa pásu. Ég byrjaði að þjálfa 2010 sem aðstoðarþjálfari hjá ÍR. Svo var ég yfirþjálfari hjá Víkingi og síðustu þrjú ár hef ég verið hjá HK.“

Í Pepsi-deild eftir fjögur ár
„Þetta verður frumraun mín sem meistaraflokksþjálfari og þá má kannski segja að sem betur hafi tækifærið ekki komið fyrr.
Ég er búinn að vera undirbúa mig síðustu 6 ár, læra fullt af hlutum og gera aragrúa af mistökum. Þannig að ég held að þetta komi á hárréttum tíma.
Ég er tilbúinn að gefa mikið og hjálpa þessum strákum að verða betri í fótbolta. Niðurstaðan verður sú að við munum fara upp um deild og gera okkur gjaldgenga í næstu deild fyrir ofan. Ég vil fara upp í Pepsi-deild eftir 4 ár og held ég að efniviðurinn sé til staðar hjá okkur.
Nú er bara verkefni fyrir alla Mosfellinga að aðstoða okkur við að skapa umgjörð sem verður skemmtileg og glæsileg.
Okkar í hópnum bíður svo að leggja hart að okkur og skemmta fólki með góðum fótbolta og góðum úrslitum. Svo er mikilvægt að aðstöðumál hér í Mosfellsbæ fylgi í kjölfarið, þau þarf að bæta.
Mikilvægustu leikmennirnir eru þeir sem eru til staðar hjá félaginu. Svo er hægt að bæta í hópinn einni til tveimur skrautfjöðrum, eins og flestir þjálfarar vilja. Bæta þá við leikmönnum sem eru nógu góðir fyrir næstu deild fyrir ofan.“

Ætlum okkur stóra hluti
„Ég þekki Arnar frá því ég spilaði með honum í ÍR,“ segir Ásbjörn Jónsson formaður meistaraflokksráðs. „Hann er besti maðurinn til að koma mönnum í réttan gír fyrir leiki. Alla vega sem leikmaður og ég efast ekki um að það verði eins sem þjálfari.
Svo hef ég séð til hans sem þjálfara og liðin hans spila yfirburðabolta. Nafnið hans kom strax upp í hugann á mér þegar leitin að þjálfara hófst.
Án þess að gera nokkuð lítið úr fyrri þjálfurum erum við í talsvert betri málum í dag í rekstri klúbbsins og ætlum okkur stóra hluti.
Ég er sammála Arnari að við ætlum okkur upp um deild á næsta ári.“

Frátekin stæði fyrir 
rafbíla við Varmárlaug og Lágafellslaug.

Tvær hleðslustöðvar teknar í notkun

Frátekin stæði fyrir  rafbíla við Varmárlaug og Lágafellslaug.

Frátekin stæði fyrir rafbíla við Varmárlaug og Lágafellslaug.

Settar hafa verið upp tvær hleðslustöðvar fyrir rafbíla í Mosfellsbæ. Önnur er staðsett við íþróttamiðstöðina Lágafell og hin við íþróttamiðstöðina að Varmá. Sú þriðja verður sett upp innan skamms við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ.
Stöðvarnar eru merktar Mosfellsbæ og Ísorku, sem er í eigu Íslenska gámafélagsins. Þær eru snúrulausar og af gerðinni ­Circontrol eVolve og eru 2×22 kW AC.
Mosfellsbær og Íslenska Gámafélagið undirrituðu í sumar samning til þriggja ára um að Íslenska Gámafélagið setji upp og reki þrjár hleðslustöðvar sem geta hlaðið allar gerðir rafbíla á Íslandi. Áætluð verklok voru í janúar 2018 en uppsetning stöðvanna hefur gengið framar vonum og því var verklokum flýtt um nokkra mánuði. Mosfellingar geta nú hlaðið rafbíla sina á helstu viðkomustöðum í bæjarfélaginu.

xxx x

Bæjarleikhúsinu breytt í jazzklúbb

xxx x

Allt önnur Ella verður frumsýnd í Bæjarleikhúsinu föstudaginn 29. september.

Nú eru hafnar æfingar í Bæjarleikhúsinu á sýningu sem er samstarfsverkefni tónlistarskólans og leikfélagsins. Sýningin kallast „Allt önnur Ella“ og er að mestu byggð á tónlist Ellu Fitzgerald.
Leikhúsinu verður breytt í jazzklúbb á sjöunda áratugnum og tónlistaratriði fléttast saman við leikin atriði. Leikhúsgestir sitja við borð í salnum og upplifa kvöldstund þar sem þeir ferðast aftur í tímann, njóta góðrar tónlistar og verða vitni að ýmsum fyndnum og skemmtilegum atvikum.
Leikstjóri er Ingrid Jónsdóttir og um tónlistarstjórn sjá Sigurjón Alexandersson og Heiða Árnadóttir. Frumsýning verður föstudaginn 29. september kl. 20 og sýningar verða á föstudögum. Miðasala er í síma 566-7788. Áhugasamir eru hvattir til að fylgjast með undirbúningi á Facebook, Instagram og Snapchat.

Greta Salóme stendur fyrir 
hrollvekjandi rokktónleikum.

Setur upp rokktónleikasýningu

Greta Salóme stendur fyrir hrollvekjandi rokktónleikum.

Greta Salóme stendur fyrir hrollvekjandi rokktónleikum.

Greta Salóme stendur í stórræðum þessa dagana ásamt góðum hópi af hæfileikaríku fólk en þau eru að setja á svið tónleikasýningu sem nefnist Halloween Horror Show.
„Þessi hugmynd er búin að blunda lengi í mér. Þegar ég var að vinna með Disney þá kynntist ég því hvernig hægt væri að blanda saman alls konar tilefnum og tónlist. Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Halloween og mér hefur fundist vanta alvöru viðburð í kringum hrekkjavökuna á Íslandi. Fólk er í auknum mæli farið að halda Halloweenpartý en nú gefst öllum tækifæri á að koma á alvöru hryllings rokktónleikasýningu,“ segir Greta Salóme sem er framleiðandi sýningarinnar.

Öllu tjaldað til í Háskólabíói
Auk Gretu Salóme koma fram á sýningunni Eyþór Ingi, Salka Sól, Stebbi Jak, Andrea Gylfa, Selma Björns, Sirkus Íslands, Ólafur Egill, stórsveit Todmobile, kór og dansarar.
„Ég myndi segja að þetta sé 70% söngur og 30% dans en við leggjum rosalega mikið í þessa sýningu. Ég fullyrði að þessi tónleikasýning á sér enga hliðstæðu á Íslandi. Við munum flytja lög eins og Highway to Hell, Zombie, Thriller, lög úr Litlu Hryllingsbúðinni og Rocky Horror og margt fleira.“

Vegleg verðlaun fyrir flottustu búningana
Sýningin verður í Háskólabíó 28. október og á undan verður boðið upp á fordrykk í samstarfi við Partýbúðina með alls kyns ­uppákomum. „Það er sýning kl. 20 en það er eiginlega uppselt á hana þannig að við vorum að bæta við sýningu kl. 22:30 og fer miðasala fram á Tix.is. Ég hvet alla til mæta í búningum en það verða vegleg verðlaun fyrir þá flottustu,“ segir Greta Salóme.

bæjarlistamaður2017

Veiðimaður og bóndi í hjarta mínu

bæjarlistamaður2017

Davíð Þór er meðal fjölhæfustu tónlistarmanna landins, jafnvígur á píanóleik, spuna, tónsmíðar og hljómsveitarstjórn auk þess sem hann leikur á ógrynni hljóðfæra. Hann hefur leikið með flestum tónlistarmönnum landsins og spilað á tónlistarhátíðum um allan heim.
Mosfellsbær útnefndi Davíð Þór bæjarlistamann Mosfellsbæjar 2017 á dögunum en viðurkenningin var afhent við hátíðlega athöfn í Hlégarði.

Davíð Þór Jónsson er fæddur á Seyðisfirði 27. júní 1978. Foreldrar hans eru þau Jenný Ásgerður Magnúsdóttir listakona, húsfreyja og skautritari og Jón Þórir Leifsson vélsmiður og lögreglumaður. Davíð á þrjá bræður, Daníel, Leif og Arnar.

Fékk að vera frjálst barn
„Ég flutti frá Seyðisfirði til Akraness þegar ég var þriggja ára gamall. Þegar ég hugsa til æskuáranna á Skaganum þá er það brimið við Traðarbakkakletta, rauðmagi, hrogn og lifur, mamma syngjandi og þríhjólareiðtúr á Kothúsatúninu sem stendur upp úr.
Frá unga aldri sinnti ég heimilis- og ­bústörfum ásamt því að leggja net með föður mínum.
Ég fékk að vera frjálst barn þar sem ég gat leikið lausum hala um götur og fjörur bæjarins. Ég fór líka mörg sumur í sveit í Andakíl í Borgarfirði og átti það mjög vel við mig í alla staði.
Ég gekk í Brekkubæjarskóla og fór þaðan í Fjölbrautaskóla Vesturlands.“

Starfið hefur margar birtingamyndir
„Tónlist var hluti af daglegu lífi þar sem var sungið, spilað á gítar eða leikið á potta og pönnur. Ég var níu ára þegar ég fór í fyrsta píanótímann í Tónlistarskóla Vesturlands. Ég fékkst ekki til að fara fyrr en ég frétti að Sveinn Rúnar æskuvinur minn ætlaði að skella sér í tíma, þá fór ég líka. Í kjölfarið lærði ég svo á saxafón í 10 ár. Þarna var ekki aftur snúið því líf mitt hefur meira og minna snúist um tónlist síðan.
Ég byrjaði að vinna fyrir mér sem tónlistarmaður þegar ég var 14 ára gamall og hef starfað við það síðan. Starf mitt hefur margar birtingarmyndir, allt frá því að leika á harmonikkuballi í Dölunum yfir í það að leika í kvikmynd í Úkraínu.“

Gaf út sína fyrstu sólóplötu
Davíð Þór stundaði nám í Tónlistarskóla FÍH og fór í skiptinám til Þrándheims á vegum skólans og útskrifaðist vorið 2001. Árið eftir gaf hann út sína fyrstu sólóplötu, Rask.
Hann hefur gert tónlist og hljóðmyndir fyrir fjölda leiksýninga, Tengdó, Hrærivélina, söngleikinn Leg, Baðstofuna, Héra Hérason, Manntafl, Mýs og menn, Dagbók djasssöngvarans og síðast Húsið sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu. Hann hefur einnig tónsett útvarpsleikrit og sjónvarpsverk af ýmsu tagi auk þess að semja tónlist fyrir dansverk.
Davíð Þór hefur frá unga aldri leikið með flestum þekktari tónlistarmönnum landsins. Hann hefur einnig unnið náið með sviðslistafólki og myndlistarmönnum og mætti þar helst nefna Ragnar Kjartansson, en saman sköpuðu þeir tónlistar- og myndbandsverkin „The End“, framlag Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2009 og „Guð“. Davíð samdi og útsetti tónlistina og flutti ásamt Ragnari og hljómsveit.
Davíðs Þór hefur hlotið margvísleg verðlaun, til dæmis Íslensku tónlistarverðlaunin og Grímuverðlaunin, auk þess sem tónlist hans úr kvikmyndinni Hross í oss hefur verið verðlaunuð á kvikmyndahátíðum í Evrópu.

Nýtur lífsins í Álafosskvosinni
Davíð Þór er kvæntur Birtu Fróðadóttur arkitekt og saman eiga þau dótturina Silfru sem er átján mánaða gömul. Ég spyr Davíð út í föðurhlutverkið. „Það er bæði stærsta verkefnið og jafnframt það dásamlegasta í lífi mínu og kemur manni sífellt á óvart.“
Fjölskyldan er búsett í Álafosskvosinni þar sem Davíð er einnig með vinnustofu. Davíð segir Kvosina vera dásamlegt lítið þorp þar sem fólk talar mannamál, verkar fugl og fisk á víxl og tekur einn dag í einu.
„Við Birta erum forvitnir eldhugar og elskum að ferðast og nema ný lönd, kynnast nýju fólki og læra af því. Við höfum mikið dálæti á að vera undir Snæfellsjökli og þar höfum við átt töfrastundir. Aðráttaraflið þar er það sama og á við um tónlist, það er hið ósýnilega. Við göngum einnig til rjúpna saman í leit að kyrrðinni.“
Minnir mann á að halda áfram að skapa
Mosfellsbær útnefndi Davíð Þór bæjarlistamann Mosfellsbæjar 2017 á dögunum en viðurkenningin var afhent við hátíðlega athöfn í Hlégarði. En hvaða þýðingu hefur það að vera bæjarlistamaður Mosfellsbæjar? „Það er mikill heiður og vissulega hefur það jákvæða þýðingu í hvívetna. Þetta minnir mann á að halda áfram að skapa og gefa af sér eins og kostur er á.
Ég mun láta gott af mér leiða áfram og munu nokkrir viðburðir líta dagsins ljós hér í bæ nú í vetur á hinum ýmsu vel völdu stöðum. Nánari staðsetning og tími kemur í ljós síðar.“

Kona fer í stríð
Um þessar mundir er Davíð Þór að vinna að tónlist fyrir nýjustu kvikmynd Benedikts Erlingssonar sem ber heitið Kona fer í stríð, en hún er um konu sem vill bjarga heiminum og hefur fundið lausnina til þess. Tónlistin er meðal annars unninn í Sundlauginni, hljóðveri í Álafosskvos, en þar vinnur Davíð mikið að listsköpun sinni.
„Þrátt fyrir allt þetta hafarí þá er ég samt veiðimaður og bóndi í hjarta mínu og tel að æðsta markmiðið sem maður hefur í lífinu sé að verða góð manneskja,“ segir Davíð að lokum.

Mosfellingurinn 7. september 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Anna Ólöf gefur út 6 vikna ódagsetta dagbók með áherslu á bættar lífsvenjur.

Gefur út heilsudagbók

Anna Ólöf gefur út 6 vikna ódagsetta dagbók með áherslu á bættar lífsvenjur.

Anna Ólöf gefur út 6 vikna ódagsetta dagbók með áherslu á bættar lífsvenjur.

Anna Ólöf Sveinbjörnsdóttir hefur gefið út dagbók sem hún nefnir Heilsudagbókin mín. Í vor hlaut Anna Ólöf þróunar- og nýsköpunarviðurkenningu Mosfellbæjar fyrir það verkefni.
„Ég var búin að ganga með þessa hugmynd í maganum í langan tíma og var búin að gera margar útfærslur af bókinni áður en endanleg útkoma varð til. Heilsudagbókin er heildræn nálgun á bættar lífsvenjur, þar sem lögð er áhersla á hreyfingu, mataræði og ekki síst huglæga eða andlega vinnu,“ segir Anna Ólöf en heilsudagbókin er 6 vikna ódagsett dagbók.

Hlaut þróunar- og nýsköpunarviðurkenningu Mosfellsbæjar
„Það skipti mig miklu máli að hljóta þessa viðurkenningu, þá aðallega að fá jákvæð viðbrögð á bókina. Ég hannaði bókina í rauninni sem verkfæri fyrir mig til að öðlast betri heilsu og þannig aukin lífsgæði. Það er því ánægjuleg viðbót ef bókin getur hjálpa öðrum.
Bókin er einföld í notkun og hentar í raun öllum sem langar að bæta líf sitt. Lögð er áhersla á að fólk fari aðeins inn á við og finni hvað það er sem það vill fá út úr lífinu og hvað það er sem raunverulega veitir meiri hamingju.“

Frábærar viðtökur
„Ég ákvað til að byrja með að selja bókina í gegnum Facebook-síðuna Heilsudagbókin mín, en svo stefni ég á koma henni í sölu á einhverjum útsölustöðum. Bókin kostar kr. 2.900 en verður á kynningartilboði til 15. september á aðeins 2.500 kr.
Ég er eiginlega orðlaus yfir viðtökunum sem bókin hefur fengið. Ef einhverjir hafa áhuga á að vita meira eða jafnvel verða sér út um Heilsudagbók þá endilega hafið samband við mig,“ segir Anna Ólöf að lokum.

anitar

Nýjung í lestri örmerkja í dýrum

anitar

Nýsköpunarfyritækið Anitar er komið langt með þróun á örmerkjalesara til að auðvelda skráningu og utanumhald húsdýra. Lesarinn ber heitið The Bullet og er notaður samhliða snjallsímaforriti.
Með þessari samsetningu á lesaranum og snjallsímaforritum verður hægt að skanna og vinna með upplýsingar um fjölda dýra, svo sem hesta, hunda og svín.

Byggt á eigin reynslu
Mosfellingurinn Karl Már Lárusson er stofnandi Anitar: „Ég var úti í haga að sækja hest og sá þá menn sem voru í erfiðleikum með að finna réttan hest.
Mér þótti fyndið að fylgjast með þessu en karmað bítur mann yfirleitt í bakið og ég rölti í burtu með rangan hest þennan sama dag. Í ljósi reynslunnar ákvað ég að setja saman hóp fólks og reyna að finna einfalda lausn á vandamálinu.“

Hópfjármögnun komin langt
Nú stendur yfir hópfjármögnun á vefsíðunni Kickstarter.com og vonast Karl til að safna 40.000 dollurum svo hægt sé að hefja framleiðslu. Hægt er að styðja við verkefnið og forpanta eintak af örmerkjalesaranum til 8. september.
Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á www.anitar.is en Anitar stendur fyrir Ani­mal Intelligent Tag Reader.

Frá afhendingu viðurkenninga. Hjörtur Þór, Bára og Valdimar frá Flugklúbbi Mosfellsbæjar, Erla Þorleifsdóttir Arnartanga 25 og María og Erich Hamarsteigi 5.

Umhverfisviðurkenningar veittar Í túninu heima

Frá afhendingu viðurkenninga. Hjörtur Þór, Bára og Valdimar frá Flugklúbbi Mosfellsbæjar, Erla Þorleifsdóttir Arnartanga 25 og María og Erich Hamarsteigi 5.

Hjörtur Þór, Bára og Valdimar frá Flugklúbbi Mosfellsbæjar, Erla Þorleifsdóttir Arnartanga 25 og María og Erich Hamarsteigi 5.

Umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar voru afhentar við hátíðlega athöfn í Hlégarði á bæjarhátíðinni „Í túninu heima“. Umhverfisviðurkenningarnar eru veittar þeim aðilum sem taldir eru hafa skarað fram úr í umhverfismálum á árinu.
Flugklúbbur Mosfellsbæjar fær viðurkenningu fyrir snyrtilegt svæði þar sem umgengni og umhirða eru til fyrirmyndar. Erla Þorleifsdóttir og Sævar Arngrímsson fá viðurkenningu fyrir fallegan garð að Arnartanga 25 þar sem blandað er skemmtilega saman gróðri og hönnun, garðurinn er vel sýnilegur vegfarendum. María Hákonardóttir og Erich Hermann Köppel fá viðurkenningu fyrir fjölskrúðugan og fallegan garð að Hamarsteigi 5 sem sinnt hefur verið af mikilli natni um árabil.

xxxx

Tungubakkaflugklúbbur við Leirvog í Mosfellsbæ. 

ccc

Fallegur garður í Arnartanga 25.

ddd

María og Erich í Hamarsteig 5.

gaui7sept

Hvíld

gaui7sept

Ég hef skrifað um svefn og hvíld áður, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Hugsanlega ætti ég alltaf að skrifa um mikilvægi þess að hvíla sig, það er svo mikilvægt. Sérstaklega á þessum árstíma þegar allt fer á flug.

Vinna, skóli, áhugamál, lífið. Ég fíla kraftinn í haustinu og finnst gaman að takast á við spennandi verkefni en ég finn líka að ég þarf að passa vel upp á mig. Ég svaf til dæmis ekki of vel síðustu nótt, hausinn vildi ekki slaka á, hann var of upptekinn við að velta fyrir sér komandi dögum. Hvað ég væri að að fara að gera og hvernig ég ætlaði að gera hlutina. Ástæðan fyrir þessu er sú að ég var ekki búinn að undirbúa mig nógu vel, leggja línurnar þannig að hausinn þyrfti ekki að standa í þessu næturbrölti.

Ég hefði betur fylgt eigin ráði, að skrifa nákvæmlega niður allt það sem er fram undan hjá mér og hvernig ég ætla að gera hlutina. Ég fór langt með það, en kláraði ekki verkefnið og því fór sem fór. En það þýðir ekki að velta sér upp úr þessari miður góðu hvíld, ég klára þennan dag eins vel og ég get, reyni að ná mér í einn lúr einhvers staðar yfir daginn og passa mig svo á að koma betur undirbúinn inn í nóttina í kvöld.

Hreyfing og líkamleg áreynsla skiptir sömuleiðis miklu máli varðandi góðan svefn, við sofum best þegar við erum búin að taka þokkalega vel á því yfir daginn. Nóg er af tækifærunum til þess hér í Mosfellsbæ. Að lokum langar mig að hvetja unga og efnilega íþróttakrakka í Mosfellsbæ að nýta sér til fullnustu þau frábæru tækifæri sem bjóðast í bænum. Gera enn betur í túninu heima áður grasið græna hinu megin við lækinn er skoðað.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 7. september 2017

evita

Opna ævintýralega gjafavöruverslun

evita

Hjónin Ágústa Pálsdóttir og Haukur Hafsteinsson opnuðu í byrjun ágúst gjafa- og lífsstílsverslunina Evíta að Háholti 14.
„Evíta er falleg búð þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Við erum með fjölbreytta og árstíðbundna gjafavöru og búðin er aldrei eins.
Mikið úrval er hjá okkur af kertum, kertastjökum, luktum og allskyns dúllerí og fínerí fyrir falleg heimili. Svo reynum við alltaf að vera með góð tilboð í gangi,“ segir Ágústa en Evíta hefur verið starfrækt á Selfossi síðustu 7 ár.

Ævintýraleg Evíta
„Evíta er ævintýraleg búð þar sem fólk þarf að gefa sér góðan tíma til að skoða og njóta. Ég er búin að reka búðina í eitt ár en áður var hún á Selfossi.
Viðskiptavinahópurinn okkar er stór og fjölbreyttur. Við búum hér í Mosfellsbæ og fannst því tilvalið að opna hér og færa okkur nær okkar helsta kúnnahóp. Við flytjum sjálf inn allar vörurnar í Evítu og reynum að bjóða upp á gott og sanngjarnt verð.
Móttökurnar hafa verð hreint úr sagt æðis­legar. Mosfellingar er greinilega glaðir að fá okkur í bæinn, það er búið að vera mikið að gera síðan við opnuðum.“

Kynningarafsláttur af ilmkertum
„Í tilefni af bæjarhátíðinni Í túninu heima ætlum við að vera með sérstakan kynningarafslátt af ilmkertunum okkar. Þetta eru dásamleg kerti og eru afar vinsæl hjá okkur. Við vonumst eftir að sjá sem flesta Mosfellinga á hátíðinni.
Við erum svo ánægð með staðsetninguna á búðinni og hvað plássið er bjart og fallegt, svo ég tali nú ekki um útsýnið úr öllum gluggum,“ segir Ágústa að lokum.
Opnunartími Evítu er alla virka daga kl. 11-18 og kl. 11-16 á laugardögum.

Mengun í Varmá rakin til klórvatns úr setlaug sundlaugarinnar á Reykjalundi

Frárennsliskerfi laugarinnar á Reykjalundi verður breytt

Mengun í Varmá rakin til klórvatns úr setlaug sundlaugarinnar á Reykjalundi

Mengun í Varmá er rakin til klórvatns úr setlaug sundlaugarinnar á Reykjalundi.

Eins og kunnugt er varð fiskidauða vart í Varmá um miðjan júlí og er nú orðið ljóst að ástæðu hans megi rekja til klórvatns í setlaug við sundlaug Reykjalundar sem tæmd var vegna nauðsynlegra skipta á sandi í sandsíum laugakerfisins þann 13. júlí.
Gerðar verða breytingar á frárennslismálum sundlaugar Reykjalundar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjalundi.

Mengunarslys endurtaki sig ekki
Þegar sundlaug og setlaug Reykjalundar voru byggðar á sínum tíma voru frárennslismál laugarinnar hönnuð með þeim hætti að affall er leitt í ofanvatnskerfi bæjarins í stað fráveitu þess.
Á starfstíma sundlaugarinnar, sem tók til starfa árið 2000, hefur ekki verið skipt um sand í síum lauganna fyrr en nú og var stjórnendum Reykjalundar ekki ljóst að atvik sem þetta gæti átt sér stað vegna viðhalds á laugakerfinu.
Nú liggur fyrir að gera þarf ráðstafanir til að breyta fráveitumálum laugarinnar til að slíkt mengunarslys endurtaki sig ekki. Að því verkefni verður nú unnið í samstarfi Reykjalundar og bæjaryfirvalda sem unnið hafa mikið starf í því skyni að rekja uppruna mengunarinnar síðan atvikið varð.

jogvan_mosfellingur

Hugsar um tónlist alla daga

jogvan_mosfellingur

Jógvan Hansen tónlistarmaður segir það forréttindi að starfa við það sem honum þykir skemmtilegast að gera.

Færeyingurinn Jógvan Hansen vann íslensku X-Factor söngvakeppnina árið 2007. Markmið keppninnar var að laða fram í sviðsljósið hæfileikaríkt söngfólk sem unnið gat hug og hjörtu þjóðarinnar með söng sínum og persónutöfrum. Það gerði Jógvan svo sannarlega enda hefur hann verið einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar síðan.
Jógvan er fæddur í Klaksvík í Færeyjum 28. desember 1978. Foreldrar hans eru Ása Hansen og Helgi Hansen. Jógvan á eina systur, Guri Mörköre.

Fór alltaf með aukaföt að heiman
„Ég lék mér mikið við Levi frænda minn í Klaksvík en hann er árinu eldri en ég. Við þvældumst í klettunum og eltumst við kindur. Ég man enn í dag hvað ég var svekktur þegar hann byrjaði í skóla því þá missti ég besta leikfélagann.
Hjá afa í Klaksvík lærði maður að vinna, ég slátraði rollunum, rúði og meira til. Ég dvaldi líka mikið í Árnafirði sem er ekki langt frá Klaksvík en þar búa um 70 manns. Amma mín og afi í föðurætt bjuggu þar og voru með búskap. Ég gat dundað mér endalaust úti í náttúrunni við að veiða krabba eða fiska á bryggjunni.
Ég fór alltaf með aukaföt með mér að heiman því það klikkaði eiginlega ekki að ég varð alltaf rennblautur.“

Frændi var mikill áhrifavaldur
„Ég var lengi í skátunum og við vorum dugleg að fara í útilegur um helgar.
Ég gekk í Viðósánna skóla frá sex til fimmtán ára aldurs og mér fannst alltaf gaman í skólanum. Þegar ég var 9 ára þá byrjaði ég að læra á fiðlu og lærði á hana í mörg ár. Málið var að frændi minn, Hans Hjalti, spilaði í hljómsveit og þeir spiluðu mikið af írskum lögum og hann leyfði mér stundum að spila með.
Ég leit mikið upp til hans og eflaust er það honum að þakka að ég lærði á fiðlu öll þessi ár,“ segir Jógvan brosandi. „Ég byrjaði síðan að spila með Færeysku sinfóníuhljómsveitinni þegar ég var 13 ára og var yngsti meðlimur sveitarinnar.
Ég eignaðist líka gítar og glamraði á hann en mér fannst það ekki eins gaman, mér fannst miklu skemmtilegra að syngja.“

Var of ungur til að muna eftir Bítlunum
„Þegar ég var fimmtán ára þá var ég að leika í áhugamannaleikhúsi ásamt frænku minni. Einn daginn tók ég gítarinn með og söng fyrir hana lagið „Leaving on a Jet Plane.“
Það voru hljómsveitagaurar í næsta herbergi sem heyrðu til mín. Þeir tjáðu mér að þá vantaði söngvara í hljómsveitina þeirra sem hét Aria og hvort ég væri til í að prófa. Ég sló til og mætti á æfingu hjá þeim. Þeir spurðu mig hvort ég gæti sungið Bítlana en ég var svo ungur að ég vissi ekki hverjir þeir voru en allt hafðist þetta nú. Ég spilaði síðan með þeim á böllum og ég man að ég þurfti sérstakt leyfi til að fá að vera inni á stöðunum vegna aldurs.
Þegar ég var 16 ára söng ég í fyrsta sinn í stúdíói á vegum hljómsveitarinnar. Þar tókum við upp lag sem síðar varð vinsælasta lagið í Færeyjum.“

Flutti til Íslands árið 2004
„Ég fór í verslunarskóla í eitt ár, vann í fiski, fór á sjóinn og fór til Danmerkur í tónlistarnám. Ég fór svo aftur til Færeyja og fór að læra hárgreiðslu og útskrifaðist úr því fagi.
Einn daginn árið 2004 kom Elísabet vinkona mín til mín og spurði mig hvort ég hefði áhuga á að koma með henni að læra förðunarfræði á Íslandi. Ég hafði mikinn áhuga á því og við fórum saman til Íslands og bjuggum á Færeyska sjómannaheimilinu. Elísabet var ófrísk á þessum tíma og vildi ekki vera mjög lengi í burtu þannig að hún fór aftur til Færeyja en ég varð eftir á Íslandi og hef verið hér síðan. Ég fékk starf á hárgreiðslustofu og leist bara vel á framtíðina hér.“

Vann X-Factor söngvakeppnina
„Árið 2006 söng ég í brúðkaupi hjá vinkonu minni. Eftir brúðkaupið skráðu hún og vinkona hennar mig í X-Factor söngvakeppnina sem átti að byrja um haustið.
Ég hafði ekki hugmynd um eitt eða neitt en fékk síðan tölvupóst um hvar ég ætti að mæta. Ég var nú ekki á því að fara fyrst en lét tilleiðast og vann keppnina. Þetta var mikið ævintýri.“

Skerpukjöt og hákarl í veislunni
Sama ár og Jógvan tók þátt í söngvakeppninni kynntist hann Hrafnhildi Jóhannesdóttur stærðfræðingi. Þau gengu í hjónaband í Hallgrímskirkju árið 2014 og veislan fór fram á Hilton hótelinu þar sem gestum var meðal annars boðið að smakka skerpukjöt frá Færeyjum og hákarl frá Íslandi. Þau eiga tvö börn, Jóhannes Ara fimm ára og Ásu Maríu þriggja ára.
„Við keyptum okkur hús í Mosfellsbæ árið 2010 og hér finnst okkur frábært að vera. Hrafnhildur er alin hér upp svo hún þekkir hér hvern krók og kima. Ég er mikill sveitastrákur og útsýnið hér heiman frá okkur er bara mjög svipað því sem ég hafði í Færeyjum svo þetta er bara frábært.“

Skemmtilegast að sjá viðbrögð fólks í salnum
Ég spyr Jógvan út í sönginn en hann hætti í hárgreiðslunni árið 2008 og hefur starfað eingöngu við söng síðan. „Það eru algjör forréttindi að starfa við það sem manni finnst skemmtilegast að gera.
Það hefur alltaf verið þannig með mig að það er sama hvaða starf ég hef tekið að mér, ég hugsa alla daga til tónlistar. Hún er alltaf efst í huga mér og ég er glaður þegar ég fæ að taka þátt í tónlist í hvað formi sem er. Skemmtilegast við sönginn er að sjá viðbrögð fólks í salnum. Það er ekki hægt að útskýra það, það þarf að upplifa það.
Ég er óendanlega þakklátur Íslendingum fyrir hvað þeir hafa tekið mér vel.“

Græna herbergið
„Við Friðrik Ómar Hjörleifsson opnuðum saman skemmtistaðinn Græna herbergið í fyrra. Við höfðum gengið með þessa hugmynd lengi því okkur langaði að opna stað sem einblínir á tónlist út í eitt.
Við lögðum upp með að geta boðið tónlistar- og listafólki upp á vandaðan aðbúnað til að koma fram. Við erum með allan helsta búnað á staðnum sem eykur þægindi listamanna.
Við störfum báðir á staðnum en erum einnig að syngja út um allt land. Þetta er auðvitað mikil vinna en hún er endalaust skemmtileg og henni fylgir mikil gleði. Er það ekki einmitt það sem lífið snýst um?“ segir Jógvan að lokum.

Mosfellingurinn 22. ágúst 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Forsetahjónin komu í opinbera heimsókn á afmælisdegi Mosfellsbæjar 9. ágúst.

Bæjarhátíðin Í túninu heima á 30 ára afmælisári bæjarins

Forsetahjónin komu í opinbera heimsókn á afmælisdegi Mosfellsbæjar 9. ágúst.

Forsetahjónin komu í opinbera heimsókn á afmælisdegi Mosfellsbæjar 9. ágúst. Mynd/RaggiÓla.

Afmælisdagskrá sem hófst á opinberri heimsókn Forseta Íslands þann 9. ágúst lýkur nú með okkar vinsælu bæjarhátíð. Íbúar koma saman eftir gott sumarfrí, sýna sig og sjá aðra. Dagskrá helgarinnar er glæsileg að vanda og þar ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Að venju eru það íbúar bæjarins sem bjóða heim og bera veg og vanda af hátíðinni. Sífellt bætast nýir garðar við þar sem boðið er upp á skemmtanir. Að bjóða í garðinn sinn er sérstaða Túnsins en auk þess verður boðið upp á þekkta dagskrárliði eins og Ullarpartí og markaðsstemningu í Álafosskvos, flugvéla- og fornbílasýningu á Tungubökkum, kjúklingafestival, stórtónleika á laugardagskvöld, götugrill og Pallaball.
Frítt verður í leið 15 allan laugardaginn þannig að það er tilvalið að skilja bílinn eftir heima.

Hilmar s. 6946426

Heilsueflandi hátíð
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og íþróttatengdir viðburðir eru nokkrir. Fyrst ber að nefna Tindahlaup Mosfellsbæjar sem er samstarfsverkefni bæjarins og Björgunarsveitarinnar Kyndils. Blakdeild Aftureldingar hefur einnig slegist í hópinn og mun starfa við mótið í ár.
Nýverið var gerður samningur við Jeep sem verður aðalstyrktaraðili hlaupsins. Enn er stefnt að því að fjölga þátttakendum og gaman að segja frá því að Guðni Th. Jóhannesson mun taka þátt í ár. Lagt er upp úr því að hafa umgjörðina veglega og markmiðið er að hlaupið verði eitt af vinsælustu náttúrhlaupum ársins. Fellin í kringum Mosfellsbæ, nálægðin við náttúru og þéttbýli gera hlaupið einstakt og aðlaðandi fyrir metnaðarfulla hlaupara bæði byrjendur og lengra komna.
Nýjung í íþróttatengdum viðburðum er fjallahjólakeppnin Fellahringurinn sem fer fram á fimmtudagskvöld. Skipulagning þess er í höndum heimamanna og byggir að sjálfsögðu einnig á náttúru Mosfellsbæjar og einstakri aðstöðu til útivistar.

Margir sem leggja sitt af mörkum
Síðustu vikur hefur bæjarbúum staðið til boða að njóta þess besta sem bærinn hefur upp á að bjóða. Frábær þátttaka hefur verið í afmælisdagskránni og ljóst að Mosfellingar kunna vel við að skemmta sér saman.
Mosfellsbær vill koma á framfæri sérstökum þökkum til allra þeirra sem lögðu hönd á plóg við að gera forsetaheimsóknina þann 9. ágúst eftirminnilega.
Einstaklingar, félagasamtök og forsvarsmenn fyrirtækja sem hafa lagt hönd á plóg við að gera bæjarhátíðina Í túninu heima að þeirri stóru hátíðarhelgi sem hún er orðin ár hvert eiga líka skilið miklar þakkir. Verum stolt af bænum okkar og njótum samverunnar um helgina.

Smelltu hér til að skoða dagskrá hátíðarinnar (pdf)

dagskramynd

Í túninu heima 2017 – DAGSKRÁ

dagskramynd

Bæjarhátíðin, Í túninu heima, verður haldin helgina 25.-27. ágúst. Dagskráin er glæsileg að vanda og þar ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hátíðin hefur fyrst og fremst verið byggð upp á framtaki íbúa bæjarins og þátttöku þeirra.
Mosfellsbær fagnar 30 ára afmæli um þessar mundir og hafa viðburðir verið á dagskrá frá afmælisdeginum 9. ágúst.
Um helgina verður boðið upp á þekkta dagskrárliði eins og Ullarpartí og markaðsstemningu í Álafosskvos, flugvéla- og fornvélasýningu á Tungubökkum, kjúklingafestival, stórtónleika á Miðbæjartorgi, götugrill og Pallaball. Frítt verður í leið 15 allan laugardaginn þannig að það er tilvalið að skilja bílinn eftir heima.

Smeltu hér til að skoða dagskrá hátíðarinnar 2017 (pdf)

 

MIÐVIKUDAGUR 23. ÁGÚST

20:00 – 22:00 UNGLINGADANSLEIKUR Í HLÉGARÐI
Upphitun fyrir bæjarhátíðina. Unglingaball fyrir 8.-10. bekkinga.
Fram koma: Rapparinn GKR og DJ. Aðgangseyrir: 800 kr.

 

FIMMTUDAGUR 24. ÁGÚST

BÆJARBÚAR SKREYTA HÚS OG GÖTUR Í HVERFISLITUM
GULUR – Hlíðar, Höfðar, Tún og Mýrar
RAUÐUR – Tangar, Holt og Miðbær
BLEIKUR – Teigar, Krikar, Lönd, Ásar, Tungur og Mosfellsdalur
BLÁR – Reykja- og Helgafellshverfi

19:00 FELLAHRINGURINN – FJALLAHJÓLAKEPPNI 
Hjólakeppni um stíga innan Mosfellsbæjar. Keppnin hefst við Íþróttahúsið að Varmá. Tvær vegalengdir, 16 km og 30 km. Sjá nánar á netskraning.is/fellahringurinn.

18:00 – 20:00 SUNDLAUGARKVÖLD Í LÁGAFELLSLAUG
Fjölskyldan skemmtir sér saman. Leikhópurinn Lotta kíkir í heimsókn með sína vinsælu söngvasyrpu. Blöðrulistamenn sýna listir sínar og gera skemmtileg blöðrudýr. Wipe-Out brautin verður á sínum stað, frír ís í boði. Frítt inn fyrir alla fjölskylduna.

20:15 BÍLAKLÚBBURINN KRÚSER Í HÁHOLTI
Bílaklúbburinn Krúser safnast saman við Kjarnagrill í Háholti. Keyrður verður rúntur um Mosfellsbæ og svo stilla allir sér upp á planinu. Tilvalið að kíkja á flottar drossíur og klassíska bíla frá liðinni tíð. Fjöldi glæsivagna verður á svæðinu ef veður leyfir.

21:00 STEBBI OG EYFI Í HLÉGARÐI
Frábær kvöldstund með þessum einstöku listamönnum. Gamanmál og gleðisöngvar úr ýmsum áttum. Miðasala á www.midi.is.

 

FÖSTUDAGUR 25. ÁGÚST

10:00 og 11:00 BÓKASAFN MOSFELLSBÆJAR
Leikhópurinn Lotta: Söngvasyrpa fyrir öll 5 ára börn í Mosó.
Dagskrá í samstarfi við leikskólana.

10:00-11:00 AFMÆLISGJÖF TIL SKÓLAKRAKKA
Friðrik Dór mætir í grunnskólana og tekur nokkur lög.
Leikkonurnar Agnes Wild og Sigrún Harðar þræða leikskóla bæjarins með skemmtiprógram í farteskinu.
Allir krakkar fá buff í hverfalitunum í afmælisgjöf frá Mosfellsbæ.

13:00 – 17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM Í MOSFELLSDAL
Geitur, refur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, naggrísir og mörg önnur húsdýr. Aðgangur 600 kr.

15:00 ARION BANKI
Krakkar frá Leikfélagi Mosfellssveitar syngja nokkur lög. Andlitsmálun fyrir börnin og Bíbí, Blaki og Ari verða á svæðinu.

18:00 – 19:00 KYNNINGARTÍMI Í GOLFI Á HLÍÐAVELLI
Opinn kynningartími fyrir nýja kylfinga í Mosfellsbæ. Komið og kynnist golfíþróttinni og lærið helstu tökin. Victor Viktorsson golfkennari verður á æfingasvæðinu við gamla skálann á Hlíðavelli. Gott er að koma með kylfur, en einhverjar kylfur verða á staðnum fyrir þá sem það vilja. Frítt er í tímann og fríir golfboltar til að slá.

19:00 – 23:00 VINNUSTOFUR OPNAR Á ÁLAFOSSVEGI
Vinnustofur ljósmyndaranna Bjarkar Guðbrandsdóttur og Guðbjargar Magnúsdóttur og myndlistarkonunnar Ólafar Oddgeirsdóttur verða opnar á neðri hæð Álafossvegar 20.

19:30-22:30 KAFFIHÚS MOSVERJA
Skátafélagið Mosverjar opnar kaffihús í Skálanum í Álafosskvos. Boðið upp á heitar vöfflur, kaffi og kakó.

19:30 – 22:30 ÚTIMARKAÐUR Í ÁLAFOSSKVOS
Markaðstjöld full af fjölbreyttum varningi.

20:00 BMX BROS Á MIÐBÆJARTORGINU
Snillingarnir í BMX bros hita upp á Miðbæjartorginu áður en skrúðgöngurnar leggja af stað. Þeir munu sýna listir sínar með glæsilegri sýningu og bjóða upp á kennslu fyrir þá sem það vilja.

20:30 ÍBÚAR SAFNAST SAMAN Á MIÐBÆJARTORGI
GULIR, RAUÐIR, BLEIKIR og BLÁIR – Allir hvattir til að mæta í lopapeysu.

20:45 SKRÚÐGÖNGUR LEGGJA AF STAÐ Í ÁLAFOSSKVOS
Hestamannafélagið Hörður leiðir gönguna með vöskum fákum.
Göngustjórar frá Leikfélagi Mosfellssveitar ræsa einn lit af stað í einu.

21:00 – 22:30 ULLARPARTÝ Í ÁLAFOSSKVOS 
Brekkusöngur og skemmtidagskrá.
Skólahljómsveit Mosfellsbæjar tekur á móti skrúðgöngu.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri setur hátíðina.
Gummi og Felix taka lagið
Hilmar og Gústi stýra brekkusöng.
Björgunarsveitin Kyndill kveikir í blysum.

Rauðakrosshópurinn sinnir gæslu ásamt Björgunarsveitinni Kyndli.

22:00 – 23:30 UPPISTAND Á HVÍTA RIDDARANUM
Uppistand.is heldur sitt mánaðarlega uppistand með úrvals grínistum. Frítt inn.

23:30 – 03:00 – PAPAR Í HLÉGARÐI
Hinir ómótstæðilegu Papar slá upp dansleik í tilefni bæjarhátíðarinnar. Tryllt stemning í Hlégarði, höfuðvígi Papanna á höfuðborgarsvæðinu. Miðasala er hafin á tix.is.

 

LAUGARDAGUR 26. ÁGÚST

  •  Frítt í leið 15 í strætó allan daginn  •  Frítt í Varmárlaug og Lágafellslaug í dag  •  Frítt á Gljúfrastein

7:00 – 22:00 BAKKAKOTSVÖLLUR – Frítt í golf
Golfklúbbur Mosfellsbæjar býður Mosfellingum að spila frítt á Bakkakotsvelli í Mosfellsdal. Bóka þarf rástíma á golf.is eða í afgreiðslu GM og er nauðsynlegt að viðkomandi hafi þekkingu og getu til að leika á vellinum og fari eftir öllum þeim reglum sem þar gilda.

8:00 – 18:00 MOSFELLSBAKARÍ
Mosfellsbakarí í hátíðarskapi alla helgina og býður gestum og gangandi upp á  ilmandi  ferskt brauð, bakkelsi og frábæra stemningu. Litríkar hverfamúffur, hátíðarkaka og frábærar hátíðarvöfflur.

09:00 – 12:00 BEIN ÚTSENDING Á RÁS 2
Fjölmiðlafólkið Kolbrún Björnsdóttir og Gunnar Hansson verða í beinni útsendingu frá bæjarhátíðinni á Rás 2.

9:00 – 17:00 FRÍTT Á GLJÚFRASTEIN
Gljúfrasteinn – hús skáldsins opnar dyrnar að safninu í Mosfellsdal. Gljúfrasteinn var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness og fjölskyldu hans um hálfrar aldar skeið. Nýlega opnaði safnið á nýjan leik eftir miklar framkvæmdir. Frítt verður inn á safnið og munu starfsmenn glaðir skeggræða við gesti um nýafstaðnar framkvæmdir og hvaðeina sem snertir Gljúfrastein.

9:00 – 17:00 ÍÞRÓTTASVÆÐIÐ Á TUNGUBÖKKUM
Fótboltamót Aftureldingar og Weetos, 6. og 7. flokkur karla og kvenna.

9:00 – 16:00 TINDAHLAUP MOSFELLSBÆJAR
Náttúruhlaup sem hefst við Íþróttamiðstöðina að Varmá. Ræst kl. 9:00 og kl. 11:00. Fjórar vegalengdir í boði, 7 tindar (37 km), 5 tindar (35 km), 3 tindar (19 km) og 1 tindur (12 km). www.mos.is/tindahlaup og www.hlaup.is.

9:30 KETTLEBELLS ICELAND – ENGJAVEGUR 12
Opin Ketilbjölluæfing fyrir hrausta Mosfellinga. Gengið með ketilbjöllur upp á Reykjafell þar sem æfing verður tekin á toppnum. Lagt af stað frá Engjavegi.

11:00 WORLD CLASS – MOSFELLSBÆ
Opinn tími í World Class fyrir alla Mosfellinga. Skemmtileg blanda af þol- og styrktaræfingum ásamt góðum teygjum. Kennarar eru Þorbjörg og Árni. Tökum á því í hverfalitunum!

10:00 – 16:00 MOSSKÓGAR Í MOSFELLSDAL
Útimarkaður: Sultukeppni, grænmeti frá Mosskógum, silungur frá Heiðarbæ, rósir frá Dalsgarði o.fl. Úrslit í sultukeppni kl. 15:00. Skila þarf inn sultum í keppnina fyrir kl. 12.

11:00 GALLERÍ HVIRFILL Í MOSFELLSDAL – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Bjarki Bjarnason les úr væntanlegri ævisögu Guðrúnar Tómasdóttur söngkonu.

13:00 – 17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM Í MOSFELLSDAL
Geitur, refur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, naggrísir og mörg önnur húsdýr.  Aðgangur 600 kr.

12:00 – 17:00 ÍS-BAND FRUMSÝNIR JEEP COMPASS
Íslensk-Bandaríska frumsýnir nýjasta Jeep fjölskyldumeðliminn Jeep Compass í Þverholti 6. Stórglæsilegur og öflugur jeppi sem vert er að kíkja nánar á. Boðið verður upp á reynsluakstur á öllum Jeep jeppum. Kaffibarþjónar frá Lavazza galdra fram ítalskt eðalkaffi og gos og sælgæti verður í boði fyrir krakkana.

12:00 – 17:00 WINGS AND WHEELS – Tungubakkaflugvöllur
Fornvélasýning: Gamlar flugvélar, dráttarvélar úr Mosfellsbæ, mótorhjól, fornbílar og flugsýning. Heitt á könnunni fyrir gesti og karamellukast fyrir káta krakka.

12:00 HÓPAKSTUR UM MOSFELLSBÆ
Ferguson-félagið stendur fyrir hópakstri dráttarvéla og fornbíla.
Lagt er af stað frá Tungubakkaflugvelli og keyrður hringur um Mosfellsbæ.

12:00-17:00 KAFFIHÚS MOSVERJA
Skátafélagið Mosverjar opnar kaffihús í Skálanum í Álafosskvos. Boðið upp á heitar vöfflur, kaffi og kakó.

12:00 – 17:00 ÚTIMARKAÐUR Í ÁLAFOSSKVOS
Markaðstjöld full af fjölbreyttum varningi og ýmsar uppákomur á sviði.
12:00 Blaðrarinn mætir á svæðið með blöðrudýr fyrir börnin
12:30 Skósveinar (Minions) á vappi um svæðið
13:00 Krakkar úr Krikaskóla syngja
13:30 Kammerkór Mosfellsbæjar
14:00 Brassbandið Búbbert
14:30 Mosfellskórinn
15:00 Leikgleði flytur lög úr „Besta sýning ársins“.
15:30 Hljómsveit Ready (úr Tónlistardeild Listaskólans)
16:00 Hljómsveitin Piparkorn (úr Tónlistardeild Listaskólans)

13:00 – 17:00 VINNUSTOFUR OPNAR Á ÁLAFOSSVEGI
Vinnustofur ljósmyndaranna Bjarkar Guðbrandsdóttur og Guðbjargar Magnúsdóttur og myndlistarkonunnar Ólafar Oddgeirsdóttur verða opnar á neðri hæð Álafossvegar 20.

13:00-15:00 EIRHAMRAR – FÉLAGSSTARF ALDRAÐRA
Mosfellingar, FaMos-félagar og aðrir gestir velkomnir í heimsókn í þjónustumiðstöðina á Eirhömrum. Fjölbreytt vetrar­dagskrá kynnt. Kaffi á könnunni og Vorboðarnir taka lagið um kl. 13:00.

13:00-13:30 BARNADAGSKRÁ Á TÚNINU VIÐ HLÉGARÐ
Bíbí og Björgvin syngja töfrandi lög ævintýranna. Björgvin Franz mætir ásamt hinni heimsfrægu óperusöngkonu Bíbí Markan. Dans, söngur og grín fyrir alla fjölskylduna. Aðgangur frír.

13:00 – 16:00 SKOTTMARKAÐUR VIÐ KJARNA
Mosfellingum gefst kostur á að koma með alls kyns gull og gersemar úr skápum og bílskúrum og bjóða gestum og gangandi til sölu. Einnig er handverksfólk velkomið. Nánari upplýsingar um viðburð á Facebook. Skráning hjá Elísabetu  í síma 898 4412.

14:00 ÁLAFOSS – STÁLÚLFUR AÐ VARMÁ
Knattspyrnuliðið Álafoss mætir Stálúlfi á gervigrasinu að Varmá. Leikurinn er partur af Íslandsmótinu í 4. deild.

14:00 – 24:00 TÍVOLÍ VIÐ MIÐBÆJARTORG

13:30 AMSTURDAM 6 VIÐ REYKJALUND – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Kvennakórinn Stöllurnar og María Guðmundsdóttir bjóða til árlegrar garðveislu.

14:00 – 17:00 LISTASALUR MOSFELLSBÆJAR
Sýning Rögnu Fróða í Listasal. Listamaðurinn verður á staðnum, spjallar við gesti og gangandi um sýninguna og fremur gjörning kl. 15.00.

14:00 – 16:00 KJÚKLINGAFESTIVAL – KJÚKLINGARÉTTIR FYRIR ALLA
Stærstu kjúklinga- og matvælaframleiðendur landsins kynna afurðir sínar og gefa smakk við íþróttamiðstöðina að Varmá. Matur og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Ýmis skemmtiatriði, Biggi Haralds, harmonikkuleikur, Mas Wrestling, uppistand og fleira.

14:00 – 16:00 ÍÞRÓTTAMIÐSTÖÐIN AÐ VARMÁ – AFTURELDING KYNNIR VETRARSTARFIÐ
Kynning á vetrarstarfi Aftureldingar. Fulltrúar deilda verða á svæðinu og kynna starfsemi sína. Aftureldingarbúðin verður opin.

14:00 – 17:00 VÖFFLUKAFFI Í FMOS
Nemendafélag Framhaldsskólans í Mosfellsbæ verður með vöfflukaffi í skólanum og rennur ágóðinn til Reykjadals þar sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra rekur sumar- og helgardvöl fyrir fötluð börn og ungmenni.
Kammerkór Mosfellsbæjar syngur kl. 14:30.

14:00 – 17:00 STEKKJARFLÖT – HOPPUKASTALAR
Frítt fyrir káta krakka.

14:00 NJARÐARHOLT 10 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Létt og lifandi tónlist í garðinum í Njarðarholti 10. Allir velkomnir á garðtónleika Í túninu heima.

15:00 – 16:00 STEKKJARFLÖT – HESTAFJÖR
Teymt undir börnum í boði Hestamannafélagsins Harðar.

15:00 – 18:00 OPIÐ HÚS Á REYKJAVEGI 84
Opið hús á leirvinnustofu Helgu Jóhannesdóttur, Reykjavegi 84. Kaffi á könnunni og snapsakynning frá Eimverk Distillery, í stuðlabergsstaupum. Allir hjartanlega velkomnir.

15:00 AKURHOLT 21 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Siggi Hansa og fjölskylda bjóða upp á tónleika í garðinum í Akurholti. Hljómsveit hússins leikur og fær til sín góða gesti.

16:00 HAMARSTEIGUR 9 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Hjónin Sigríður Stephensen og Pálmar S. Ólafsson bjóða til tónleika við heimili sitt að Hamarsteigi 9. Þar mun 18 manna „Big-band“ stórsveit Öðlinga spila ásamt söngkonunni Hjördísi Geirsdóttur.

16:00 VARMÁRVÖLLUR – AFTURELDING – MAGNI
Knattspyrnulið Aftureldingar tekur á móti Magna frá Grenivík. Leikur í Íslandsmótinu í knattpyrnu – 2. deild karla.  Baráttuleikur í efri hluta deildarinnar.

16:00 DALATANGI 15 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Ari Brimar býður til tónleika með Kallabandinu. Bandið skipa: Brynjar Þór Jakobsson gítar, Hjörleifur Ingason hljómborð, Ari Brimar bassi/söngur og Brynjólfur Pétursson trommur. Framreidd verða lög eftir CCR, Santana og fleiri.

16:00 ÁLMHOLT 10 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Davíð Ólafsson óperusöngvari býður til útitónleika í garðinum heima. Meðal gesta verða Einar Dagur tenór, Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Fjölnir Ólafsson baritón og Óperukór Reykjavíkur undir stjórn Garðars Cortes. Davíð og Stefán taka svo fjöldasöng í lokin ásamt Helga Hannessyni píanóleikara.

16:30 KARMELLUKAST Á FLUGVELLINUM TUNGUBÖKKUM

16:30 SKÁLAHLÍÐ – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Útitónleikar í garðinum heima. Tríóið Kókos skemmtir í brekkunni fyrir neðan Skálahlíð. Dægurlög sem allir þekkja.

17:00 – 21:00 GÖTUGRILL Í MOSFELLSBÆ
Íbúar í Mosfellsbæ halda götugrill í vel skreyttum götum bæjarins

21:00 – 23:00 STÓRTÓNLEIKAR Á MIÐBÆJARTORGI
Skemmtun fyrir alla fjölskylduna þar sem Mosfellsbær býður öllum upp á tónleika á Miðbæjartorginu. Kynnar verða þeir Steindi Jr. og Dóri DNA.
Fram koma: Skólahljómsveit Mosfellsbæjar, Jógvan Hansen, Diddú, Stefanía Svavars, Stormsveitin, Stefán Hilmars, Páll Óskar, Biggi Haralds, Áttan og Stuðlabandið.
Rauðakrosshópurinn sinnir gæslu ásamt björgunarsveitinni Kyndli.

23:00 BJÖRGUNARSVEITIN KYNDILL MEÐ FLUGELDASÝNINGU

22:30 – 01:00 EINAR ÁGÚST Á HVÍTA RIDDARNUM
Hinn eini sanni Einar Ágúst mætir með gítarinn og syngur fyrir hressa sveitunga. Frítt inn.

23:30 – 04:00 STÓRDANSLEIKUR MEРPÁLI ÓSKARI AÐ VARMÁ

 

SUNNUDAGUR 27. ÁGÚST

7:00 – 22:00 HLÍÐAVÖLLUR – FRÍTT Í GOLF
Golfklúbbur Mosfellsbæjar býður Mosfellingum að spila frítt á Hlíðavelli. Bóka þarf rástíma á golf.is eða í afgreiðslu GM og er nauðsynlegt að viðkomandi hafi þekkingu og getu til að leika á vellinum og fari eftir öllum þeim reglum sem þar gilda.

8:00 – 17:00 MOSFELLSBAKARÍ
Mosfellsbakarí í hátíðarskapi alla helgina og býður gestum og gangandi upp á  ilmandi  ferskt brauð, bakkelsi og frábæra stemningu. Litríkar hverfamúffur, hátíðarkaka og frábærar hátíðarvöfflur.

9:00 – 17:00 ÍÞRÓTTASVÆÐIÐ Á TUNGUBÖKKUM
Fótboltamót Aftureldingar og Weetos, 6. og 7. flokkur karla og kvenna.

13:00 – 17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM Í MOSFELLSDAL
Geitur, refur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, naggrísir og mörg önnur húsdýr. Aðgangur 600 kr.

11:00 GUÐSÞJÓNUSTA Í MOSFELLSKIRKJU
Fögnum og höldum hátíð. Guðsþjónusta í dal skáldanna, Mosfellskirkju í Mosfellsdal kl.11:00. Sr. Arndís Bernhardsdóttir Linn þjónar fyrir altari og prédikar. Karl Tómasson, Jóhann Helgason og Guðmundur Jónsson annast tónlistarflutning ásamt Kjartani Ognibene organista og kirkjukór Lágafellskirkju. Hjartanlega velkomin!

14:00 – 17:00 STEKKJARFLÖT – HOPPUKASTALAR
Frítt fyrir káta krakka.

14:00 HLÉGARÐUR – HÁTÍÐARDAGSKRÁ
Umhverfisnefnd veitir umhverfisviðurkenningar Mosfellsbæjar 2017.
Útnefning bæjarlistarmanns Mosfellsbæjar 2017.
Verðlaunaafhending vegna ljósmyndasamkeppni í tilefni 30 ára afmælis Mosfellsbæjar.
Karlakórinn Stefnir flytur nokkur lög. Heitt á könnunni og allir velkomnir.

16:00 GLJÚFRASTEINN- STOFUTÓNLEIKAR
Tónlistarkonan Sóley flytur lög af nýjustu plötu sinni, Endless Summer, í bland við gömul lög. Meðleikarar hennar verða Albert Finnbogason á bassa og Katrín Helga Andrésdóttir á hljómborð. Aðgangseyrir: 2.000 kr.

17:00 BESTA SÝNING ÁRSINS Í BÆJARLEIKHÚSINU
Afrakstur fjögurra vikna námskeiðs hjá Leikgleði í Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ. Söngleikur sem var saminn af leikhópnum í samstarfi við Elísabetu Skagfjörð. Miðaverð 1.000 kr. Miðapantanir í síma 5667788.