SIGRAR

heilsa24okt

Við fórum 25 manna hópur til Barcelona fyrir stuttu að taka þátt í skemmtilegri keppni sem kallast Spartan Race. Fyrir suma var þetta fyrsta keppnin, aðrir voru búnir að taka þátt í nokkrum keppnum frá því að við kynntumst henni fyrst í desember 2018. Það var kjarnakona í æfingahópnum okkar sem stakk upp á því að við myndum taka þátt í Spartan Race í Hveragerði 2018 og vorum við nokkur sem stukkum á þá hugmynd. Hún var sjálf reyndar fjarri góðu gamni þá, en löglega afsökuð og kemur sterk inn í næstu keppni sem við förum í.

Spartan Race er magnað fyrirbæri, það geta allir tekið þátt í sömu keppninni en á sínum forsendum og í flokki sem hentar viðkomandi. Afreksíþróttamenn, atvinnumenn í greininni, keppa á sama stað og fólk sem hefur aldrei tekið þátt í utanvegarþrautahlaupi. Munurinn er vegalengdin sem er hlaupin, erfiðaleikastig þrautanna sem þarf að leysa á leiðinni og hvort þú mátt fá aðstoð frá öðrum eða ekki.

Við sem tókum þátt í Hveragerði urðum strax heilluð af keppninni, passlega löng hlaup, erfiðar en skemmtilegar þrautir og óvæntar aðstæður til að takast á úti í náttúrunni. Fólkið okkar hefur síðan þá tekið þátt í Kaliforníu, Búdapest, Skotlandi og svo núna í Barcelona. Mér finnst skemmtilegast að upplifa alla litlu en samt stóru sigrana í kringum keppnina. Til dæmis þegar sá 55 ára gat í keppni klifrað upp drulluskítugan og sleipan kaðallinn, eitthvað sem hann hefur dreymt um að gera síðan hann komst aldrei upp kaðal í grunnskólaleikfimi. Það var líka gaman að upplifa hvað konurnar í hópnum voru sterkar, hreinlega pökkuðu saman styrktarþrautunum í Barcelona, þrautum sem heimasæturnar áttu margar í erfiðleikum með. Samstaðan, þrautseigjan, samveran og gleðin við að klára erfiða en gefandi þrautabraut telur líka mikið.

Við erum rétt að byrja, kemur þú með næst?

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 24. október 2019

90 ára afmæli Klébergsskóla

Sölvi Sveinbjörnsson (nýútskrifaður úr Klébergsskóla), Sigrún Anna Ólafsdóttir skólastjóri Klébergsskóla, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Brynhildur Hrund Jónsdóttir aðstoðarskólastjóri Klébergsskóla.

Sölvi Sveinbjörnsson (nýútskrifaður úr Klébergsskóla), Sigrún Anna Ólafsdóttir skólastjóri Klébergsskóla, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Brynhildur Hrund Jónsdóttir aðstoðarskólastjóri Klébergsskóla.

Afmælishátíð var haldin í Klébergsskóla á Kjalarnesi laugardaginn 19. október en þá voru liðin 90 ár frá því að hann var vígður. Á afmælisdaginn var opið hús í skólanum og mættu fjölmargir gestir í heimsókn.
Nokkur félagasamtök á Kjalarnesi stóðu að byggingu hússins árið 1929 sem var einnig hugsað sem samkomuhús sveitarinnar og var Klébergsskóli í röð fyrstu heimavistarskóla á landinu.
Klébergsskóli er því elsti grunnskólinn í Reykjavík en það sýnir að það var framsýnt fólk í skólamálum á Kjalarnesi og er enn í dag. Á Kjalarnesi er starfræktur leikskóli, grunnskóli, tónlistarskóli, frístundaheimili og félagsmiðstöð ásamt íþróttamiðstöð undir einum hatti.
Í tilefni stórafmælisins var afmælisþema í skólanum vikuna fyrir afmælið þar sem nemendur unnu að ýmsum verkefnum tengdum 90 ára afmælinu, fræðsla í bland við skemmtun. Gestir og gangandi gátu skoðað afrakstur þemavinnunnar og upplifað margt skemmtilegt í öllum stofum skólans. Að sjálfsögðu var glæsileg afmælis­terta í boði fyrir alla.

Náttúran og blómin eru minn heimur

júlí

Júlíana Rannveig Einarsdóttir eða Júlí eins og hún er ávallt kölluð var ung að árum er hún byrjaði að starfa í blómaverslun en áhugi á blómum og blómaskreytingum hefur lengi verið í hennar stórfjölskyldu, langt aftur í ættir. Hún útskrifaðist úr Garðyrkjuskóla ríkisins árið 1996 og tók síðar að sér starf þar sem brautarstjóri blómaskreytingabrautar og starfaði við það í mörg ár.
Í dag unir Júlí sér vel í sínu eigin gróðurhúsi í Mosfellsdalnum þar sem hún hefur komið sér upp góðri vinnuaðstöðu meðal annars til námskeiðshalds en hún byrjar með haustkransanámskeið núna í október.

Júlíana Rannveig er fædd í Reykjavík 29. desember 1958. Foreldrar hennar eru þau Hafdís Jóhannsdóttir verslunarkona og Einar M. Guðmundsson járnsmiður, leikari og kennari. Hafdís lést árið 2001.
Systkini Júlíönu eru þau Jóhann, Gunnlaugur og Heiða. Júlí er yngst systkinanna sem fædd eru á sex árum en móðir þeirra var 25 ára þegar hún eignaðist Júlí.

Frumbyggjar í Kópavogi
„Ég er alin upp í vesturbæ Kópavogs, foreldrar mínir voru frumbyggjar þar sem kom ekki til af góðu því það var enga lóð að fá í Reykjavík á þessum tíma en foreldrar mínir eru þaðan. Þau byggðu fyrst bílskúrinn og fluttu þangað inn þegar ég var 2 ára og í honum bjuggum við þangað til ég varð 12 ára, sem sagt 6 manna fjölskylda í 40 fm. Mér fannst fínt að búa í Kópavogi enda þekkti ég ekkert annað. Það voru krakkar í hverju húsi og í stærstu fjölskyldunni voru 17 börn.
Vor, sumar og haust lékum við okkur í snú snú og brennóbolta en á veturna var farið á skauta og svo renndum við okkur í brekkunum á öllu sem rann. Ég var send í sveit á sumrin og maður fór norður um miðjan maí og kom ekki aftur fyrr en í september. Ég var mikið fyrir að passa börn bæði í sveitinni og með skólanum, svo vann maður í unglingavinnunni og í fiskbúð og fleira.“

Heimasmurt og mjólk í flösku
„Ég gekk í Kársnesskóla sem var þrísetinn þá, það var enginn skólabíll og ég man aldrei eftir því að hafa verið keyrð eða sótt í skólann. Það var heldur ekkert mötuneyti svo maður fór bara með heimasmurt og mjólk í flösku.
Leiðin lá síðan í Þingholtsskóla sem var splunkunýr skóli og þaðan fór ég í Iðnskólann í Hafnarfirði í almennt nám því ég vissi ekkert hvað ég vildi verða. Ég fór svo út á vinnumarkaðinn og starfaði við símsvörun hjá Geysi og Sláturfélagi Suðurlands.“

Byrjuðu að búa saman 17 ára
Júlí kynntist eiginmanni sínum, Þresti Sigurðssyni, mjög ung. Þau ólust bæði upp í vesturbæ Kópavogs og gengu saman í skóla. Þau trúlofuðu sig eftir að hafa verið saman í þrjú ár og byrjuðu að búa þegar þau voru 17 ára. Þröstur er verktaki með gröfur og vörubíla en hann er símsmiður að mennt. Þau hjónin hafa rekið verktakafyrirtækið í yfir 30 ár.
„Við Þröstur eigum þrjú börn, Hafdísi Huld tónlistarleikkonu f. 1979, hún er gift Alisdair Wright og þau eiga tvö börn, Ara­bellu Iðunni og Elíot Óðinn. Eiður Þorri er fæddur 1982, hann fetaði í fótspor föður síns og er verktaki með gröfur og vörubíla. Hann býr í Hveragerði með Margréti Þ. Magnúsdóttur og þau eiga tvær dætur, Örnu Sól og Ágústu. Fyrir átti hann Aþenu Sif sem býr hjá okkur og stundar nám í FMOS.
Yngst er Telma Huld f. 1984, hún er bílstjóri og hefur verið að vinna við akstur stórra bifreiða í kringum erlendar bíómyndir teknar hér heima. Hún á einn son, Júlían Aðils. Svo eigum við hundinn Mosa, kisur, hesta og hænur.“

Vann við akstur stórra bifreiða
„Ég tók verslunarpróf og meirapróf og vann við akstur stórra bifreiða með manninum mínum. Ég ákvað að hefja nám í Garðyrkjuskóla ríkisins, fór að læra blómaskreytingar og byrjaði 18 ára að vinna í blómabúð hjá Ringelbert í Rósinni.
Ég fann fljótt út að náttúran og blómin eru minn heimur og ég vann í mörgum blómabúðum eftir það en tók síðan að mér starf sem brautarstjóri blómaskreytingabrautar Garðyrkjuskólans frá 2001-2008.“

Dýfði blómunum í vax
„Áhugi á blómaskreytingum hefur lengi verið í minni fjölskyldu, langt aftur í ættir. Ein elsta heimild um blómaskreytingar á Íslandi sem ég hef heyrt um er frá langömmu minni sem bjó á Eskifirði en hún sá um brúðar- og útfararskreytingar.
Amma safnaði lyngi og jurtum yfir sumartímann og geymdi í strigapokum yfir veturinn. Hún bjó til blóm úr kreppappír og dýfði þeim í vax til að þau blotnuðu ekki í rigningu. Hún bankaði stundum upp á hjá fólki ef hún sá blóm út í glugga eða vissi af því að fólk ætti blómstrandi plöntur sem gætu nýst í skreytingar.“

Fékk draum minn uppfylltan
„Ég bjó í vesturbæ Kópavogs fyrstu 45 ár ævi minnar en fékk svo draum minn uppfylltan að flytja út fyrir bæinn. Við hjónin eltum Hafdísi dóttur okkar sem hafði fest kaup á húsi í Mosfellsdal ásamt manni sínum. Við fengum þau síðan til að flytja sig um set og kaupa með okkur Reykjahlíð sem síðar varð Suðurá.
Við endurbyggðum gróðurhúsin, þar hef ég komið mér upp góðri aðstöðu fyrir blómaskreytingar og svo er ég líka með námskeið og tek við bókunum símleiðis. Endurbyggingunni er ekki lokið og verður eflaust seint, við erum endalaust að breyta og bæta.”

Söngur, göngur og glaðleg börn
„Að ganga á fjöll og um landið okkar er dásemdin ein, við erum heppin að búa hér með náttúruna allt í kring. Ég þarf ekki annað en að koma mér í skó og viðeigandi fatnað og ganga af stað. Mín helsta heilsurækt er sú að ég geng hér daglega á Helgafellið eða Æsustaðafjall sem er hérna í bakgarðinum hjá okkur.
Ég hef líka alltaf haft gaman af að syngja og hef sungið í kórum síðan ég var í barnaskóla. Ég hef sungið með Samkór Kópavogs, Skagfirsku söngsveitinni, Álafosskórnum og Samstillingu en í dag syng ég með Léttsveit Reykjavíkur sem telur um 130 konur.
Er þá ekki óhætt að segja að áhugamál þín séu blóm, göngur og söngur? „Jú, svo sannarlega,“ segir Júlí brosandi og bætir við: „Og glaðleg börn.“ Með þeim orðum kveðjumst við.

Mosfellingurinn 3. október 2019
ruth@mosfellingur.is

 

 

Breyta banka í bar

sigmar vilhjálmsson og vilhelm einarsson standa í stórræðum

Sigmar Vilhjálmsson og Vilhelm Einarsson standa í stórræðum.

Miklar framkvæmdir standa yfir í húsinu sem áður hýsti Arion banka í miðbæ Mosfellsbæjar. Félagarnir Sigmar Vilhjálmsson og Vilhelm Einarsson ætla að breyta Arion í Barion.
„Hér mun opna sportbar, hverfisbar, veitingastaður eða hvernig sem við viljum orða það. Við erum að búa til félags­heimili fullorðna fólksins. Þetta verður ekki beint mathöll en alla vega tveir matsölustaðir á einum stað og Hlölli hluti af því. Við munum bjóða upp á steikur, salöt, rif, borgara og almennt góðan mat.“

Fjórir risaskjáir í tveimur rýmum
„Þetta verður skemmtilegur staður til að hittast á og horfa leiki eða stóra viðburði. Við verðum með fjóra risaskjái í tveimur hljóðrýmum. Þá verður svið á staðnum fyrir uppákomur. Hér verður líka hægt að koma með alla fjölskylduna og fara út að borða.
Við höfum stækkað rýmið til að koma öllu fyrir en alls munu komast 140 manns í sæti. Hér er ekki verið að tjalda til einnar nætur en stefnt er að því að opna Barion á næstu vikum.“
Þeir Sigmar og Vilhelm eru ekki alls ókunnugur veitingabransanum og hafa komið víða við en síðast ráku þeir saman Shake&Pizza í Keiluhöllinni.

Bankahvelfingin flóknust
Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað í húsinu en Sigmar segir gömlu bankahvelfinguna hafa verið flókna að vinna sig í gegnum. „Það voru hér sjö menn í fimm daga þegar mest lét að bora og brjóta niður. Það er ekki til steinsög sem ræður við þetta þannig að þetta var erfiðasta verkið hingað til. Við reynum þó að halda í einhverjar minningar sem gefa staðnum ákveðinn sjarma.“
Öll neðri hæðin er lögð undir nýja staðnum en á efri hæðinni eru íbúðir í langtímaleigu. Eigandi hússins er Mosfellingurinn Óli Valur Steindórsson.

Þrúður Hjelm hlýtur jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar

Linda Udengård framkvæmdastjóri fræðslu- og frístundasviðs, Þrúður Hjelm skólastjóri Krikaskóla og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri við afhendingu viðurkenningarinnar á Jafnréttisdegi Mosfellsbæjar.

Linda Udengård framkvæmdastjóri fræðslu- og frístundasviðs, Þrúður Hjelm skólastjóri Krikaskóla og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri við afhendingu viðurkenningarinnar á Jafnréttisdegi Mosfellsbæjar.

Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar var haldinn hátíðlegur í íþróttamiðstöðinni Kletti fimmtudaginn 19. september.
Dagskráin var einkar fjölbreytt en viðfangsefnið var kynjajafnrétti í íþróttum. Í lok dagskrár var veitt Jafnréttisviðurkenning Mosfellsbæjar 2019 en hana hlýtur Þrúður Hjelm skólastjóri Krikaskóla.

Karlmenn um 25% af starfsfólki
Frá því að Krikaskóli var stofnaður árið 2008 hefur Þrúður Hjelm unnið markvisst að því að jafna stöðu kynjanna með því að ráða konur jafnt sem karla í leik- og grunnskólastörf. Hún hefur sérstaklega lagt sig fram við að fjölga karlmönnum í starfsmannahópi sínum en í dag starfa 16 karlmenn í Krikaskóla og eru þeir nú um það bil 25% af starfsfólki skólans.
Að minnsta kosti einn karlkyns starfsmaður er starfandi í hverjum árgangi með tveggja til níu ára börnum og sinna karlar einnig íþrótta- og myndlistarkennslu.

Allir eigi jafna möguleika
Krikaskóli er með virka jafnréttis- og framkvæmdaáætlun sem fylgt er eftir og hún endurskoðuð með reglubundnum hætti. Þar kemur meðal annars fram að allir einstaklingar í Krikaskóla skuli eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði.
Með viðurkenningunni vill lýðræðis- og mannréttindanefnd Mosfellsbæjar hvetja íbúa og starfsmenn Mosfellsbæjar til að fylgja góðu fordæmi Krikaskóla og benda á mikilvægi þess að fylgja eftir þeim markmiðum sem sett eru á sviði jafnréttismála í samvinnu stjórnenda og starfsmanna.

Fólkið mitt

Heilsumolar_Gaua_3okt

Þegar maður spyr fólk hvað skipti það mestu máli í lífinu nefna flestir fjölskylduna og/eða nána vinir sem eitt af því mikilvægasta. Fólkið manns. Samt er raunveruleiki margra sá að þeir forgangsraða lífinu þannig að fólkið sem skiptir þá mestu máli verður útundan.

Mikil vinna og stundum tíma­krefjandi áhugamál eru á undan í forgangsröðinni. Fólkið manns er yfirleitt nánasta fjölskylda, en ekki alltaf. Fjölskylduaðstæður eru alls konar og í sumum tilvikum mynda góðir vinir þennan mikilvæga hóp, fólkið mitt.

Hópinn mynda einstaklingar sem standa með þér í blíðu og stríðu, taka þér eins og þú ert, bakka þig upp þegar á þarf að halda og fagna með þér á gleðistundum. Mér sjálfum líður best þegar ég er að gera eitthvað með mínu fólki, langbest finnst mér þegar við náum að sameina ferðalög, hreyfingu og samveru.

Ég upplifði svoleiðis stund um þarsíðustu helgi. Þá fórum við hjónin með alla okkar syni á Strandir í leitir og réttir. Við fengum frumburðinn (sem er enn ekki nema 22ja ára þrátt fyrir að einhverjir haldi að hann sé eldri) og kærustuna hans heim frá Danmörku og fórum með allt gengið okkar norður. Þetta var frábær helgi, mikið labbað, sund og náttúrupottur alla daga og góð samvera.

Um nýliðna helgi fengum við svo afa og ömmur og tengdafjölskylduna í heimsókn til okkar. Súpa, kaka og skemmtilegt spjall. Ég er að reyna að bæta mig í þessu, hef stundum verið í þeim hópi sem forgangsraðar í misræmi við eigin gildi. En finn skýrt þegar ég forgangsraða lífinu í samræmi við það sem mér finnst mikilvægast hvað það gefur mér mikið.

Svo má ekki gleyma fólkinu sem ekki tilheyrir innsta kjarnanum, en er samt hluti af stóra fólkið mitt menginu. Við erum félagsverur mannfólkið, þurfum hvert á öðru að halda til að líða vel.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 3. október 2019

Enduropnun Krónunnar eftir breytingar og betrumbætur

Baldur Jónasson verlsunarstjóri Krónunnar í Mosfellsbæ.

Baldur Jónasson verslunarstjóri Krónunnar í Mosfellsbæ.

Verslun Krónunnar í Mosfellsbæ hefur tekið miklum breytingum á síðustu vikum og má segja að um enduropnun sé að ræða.
Búið er að opna bæði kjúklingastað og sushivinnslu í búðinni og verslunin almennt tekin í gegn. Sjálfsafgreiðslukassar hafa verið teknir í notkun, nammibarinn fjarlægður og plastpokar á útleið.
Krónan er stór vinnustaður en þar eru um 80 manns á launaskrá og margt ungt fólk byrjar sinn starfsferil innan fyrirtækisins. Við hittum verslunarstjóra Krónunnar, Baldur Jónasson.

Nýr kjúklingastaður og sushivinnsla á staðnum
„Við höfum beðið spennt eftir þessum nýjungum sem nú eru komnar í gagnið. Við höfum lækkað alla rekka og tekið í notkun nýja og orkusparandi kæla. Anddyrið hefur verið opnað betur og yfirsýnin yfir búðina er miklu betri,“ segir Baldur. Sjálfsafgreiðslukassar eru nú í boði í versluninni og hefur þeim verið tekið framar vonum. „Þetta hefur hjálpað okkur að halda búðinni betri. Við höfum ekki sparað eina einustu vinnustund, heldur bætt þjónustuna. Við sjálfsafgreiðslukassana er alltaf starfsmaður sem er tilbúinn að aðstoða og kenna. Fólk hefur samt auðvitað val hvernig það gengur frá kaupunum.“
Tokyo Sushi hefur opnað í Krónunni ásamt kjúklingastaðnum Rotissiere. „Það gerir íbúum auðveldara að grípa með sér tilbúinn mat. Sushivinnsla er á staðnum og verður hægt að kaupa úr borði eða panta eftir óskum. Kjúklingastaðurinn á eftir að verða mjög vinsæll en þar er hægt að ná sér í eldgrillaðan kjúkling ásamt öllu helsta meðlæti sem til þarf.“

Ávaxtamarkaður í stað nammibars
Krónan er hætt með nammibar og býður þess í stað upp á ávaxtamarkað þar sem hægt er að kaupa 5 ávexti á 220 kr. „Það er eini nammibarinn okkar í dag. Þú kemur aldrei fyrst að sykruðum vörum í versluninni, nammið er ekki nálægt kössunum og áherslan hjá okkur er fyrst á vatn og sódavatn. Fólk hefur tekið mjög vel í þetta.“
Baldur segir breytingum á versluninni lokið og eru nú allar verslanir Krónunnar svipað uppbyggðar.

Fagna 10 ára afmæli Sprey

Katrín Sif og Dagný Ósk  í afmælisveislunni þann 6. september.

Katrín Sif og Dagný Ósk í afmælisveislunni þann 6. september.

Hárstofan Sprey fagnaði á dögunum 10 ára afmæli með mikilli veislu. Hárstofan er staðsett í Háholti við hlið Krónunnar. Katrín Sif Jónsdóttir stofnaði fyrirtækið fyrir áratug, þá 21 árs, og á Sprey í dag með Dagnýju Ósk Dagsdóttur.
„Okkur líður vel hér og íbúum Mosfellsbæjar fjölgar ört. Tíminn hefur verið ótrúlega fljótur að líða og svo margt sem ég hef lært og upplifað ásamt því að stofan hefur dafnað og stækkað með dásamlegu fólki,“ segir Katrín Sif.
„Það var pabbi, Jón Jósef, sem ýtti mér út í þetta fyrir 10 árum og taldi mér trú um að best væri að vera sinn eigin herra. Þannig hófst þetta ævintýri en í dag erum við tíu sem vinnum hérna, allt algjörir snillingar. Sem betur fer greip ég tækifærið sem gafst á sínum tíma og lét drauminn rætast. Það eru miklir demantar sem hafa komið að Sprey, má þar nefna Unni Hlíðberg og Svövu Björk sem áttu stofuna með mér lengi og settu blóð, svita og tár í að byggja upp fyritækið.“
Við sama tilefni var því fagnað að Katrín Sif var á dögunum kosin Hármeistari Íslands 2019 á Nordic Hair Aw­ards & Expo sem fram fór í Kaup­manna­höfn í sumar.

Bjóða upp á íþróttatíma eftir vinnu

xxx

Starfsmenn Mosfellsbæjar eru hvattir til reglulegrar hreyfingar. Myndin er tekin í vatnsleikfimi í Lágafellslaug.

Mosfellsbær hefur keyrt þróunarverkefnið „Heilsueflandi samfélag“ í samvinnu við Heilsuvin og Embætti landlæknis í þónokkur ár og eins og áður miðar verkefnið að því að setja heilsueflingu í forgrunn í allri þjónustu sveitarfélagsins.
Í mannauðsstefnu Mosfellsbæjar er lagður metnaður í að skapa heilsueflandi vinnustaðamenningu fyrir starfsmenn og gera starfsmönnum aðgengilegra að huga að hreyfingu og auknu heilbrigði.
Til að framfylgja mannauðsstefnu bæjarins og með það að markmiði að ýta undir heilsueflingu starfsmanna hefur Mosfellsbær síðustu rúmu tvö árin boðið starfsmönnum sínum að sækja fjölbreytta íþróttatíma, þeim að kostnaðarlausu, í íþróttamiðstöð Lágafells.

Í anda heilsueflandi samfélags
„Tímarnir eru í boði eftir hefðbundinn vinnutíma starfsmanna og þarf að skrá sig áður en mætt er,“ segir Hanna Guðlaugsdóttir mannauðsstjóri hjá Mosfellsbæ.
„Er þetta liður í að hvetja alla starfsmenn til að hreyfa sig reglubundið, bæta heilsufar sitt, vellíðan og hreysti í anda heilsueflandi samfélags Mosfellsbæjar. Þeir starfsmenn sem kjósa geta skráð sig í tímana og mætt, óháð því hvort viðkomandi er með líkamsræktarkort eða ekki.“

Í átt að betri líðan
Fyrirkomulagið hófst veturinn 2017-2018 og var upphaflega hugsað sem tilraunverkefni en hefur frá upphafi verið tekið einstaklega vel.
„Með þessu teljum við Mosfellsbæ styðja við bakið á starfsmönnum og veita þeim fleiri tækifæri til að stunda reglubundna hreyfingu ásamt því að taka skrefin í átt að betri heilsu og líðan,“ segir Hanna.

Fjölbreyttir tímar
Í haust geta starfsmenn sótt tíma í jóga, vatnsleikfimi eða Tabata. Tímarnir verða í boði til 1. desember en það fer eftir ásókn og ástundun starfsmanna hversu langt inn í veturinn þeir halda áfram.
„Við hvetjum starfsmenn okkar að nýta sér þessa heilsueflandi viðbót við samgöngustyrk og ókeypis sundkort.“

Þátttökumet á Weetos-mótinu

Keppendur og skipuleggjendur ásamt góðum gestum á Tungubökkum.

Keppendur og skipuleggjendur ásamt góðum gestum á Tungubökkum.

Weetos-mótið í knattspyrnu var haldið við frábærar aðstæður á Tungubakkavelli lokahelgina í ágúst. Mótið er hluti af bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima, og var sett þátttökumet í ár.
Um 270 lið í 6. og 7. flokki karla og kvenna tóku þátt í mótinu í ár og komu lið hvaðan­æva af landinu til að taka þátt í þessu árlega móti sem Afturelding hefur staðið að um árabil.

Stærsta íþróttamót árins í Mosfellsbæ
Weetos-mótið er stærsta íþróttamót sem haldið er á hverju ári í Mosfellsbæ. Markmið mótsins er fyrst og fremst að leyfa okkar mikil­vægasta fótboltafólki að njóta sín, skemmta sér og hafa gaman af.
Í ár fengu krakkarnir frábæra heimsókn frá landsliðsfólkinu Birki Má Sævarssyni, Hallberu Gísladóttur og Sif Atladóttur.
Mótahald af þessari stærðargráðu er mikið púsluspil. Til að allt gangi upp treystir knattspyrnudeild Aftureldingar á sjálfboðaliða við skipulagningu mótsins, dómgæslu, sjoppuvaktir, bílastæðavaktir og ótal önnur verkefni sem fylgja móti sem þessu.
Afturelding vill koma á framfæri kærum þökkum til allra þeirra sjálfboðaliða sem tóku þátt í að gera mótið í ár að því stærsta frá upphafi.

Knattspyrnufólk framtíðarinnar
Ekki má gleyma aðalstyrktaraðila mótsins, Weetos, sem styrkir mótið myndarlega og hjálpar Aftureldingu við að taka myndarlega á móti framtíðarknattspyrnufólki okkar. Knattspyrnudeild Aftureldingar er í skýjunum með hvernig til tókst og hlakkar til að taka á móti knattspyrnufólki frá öllum landshornum í Mosfellsbæ á næsta ári.

Elskar að vera þar sem kátínan er

mosfellingurinnbadda

Bjarney Einarsdóttir eða Badda eins og hún er ávallt kölluð er mikill fagurkeri og leggur mikinn metnað í allt sem hún gerir. Heimili hennar ber þess sannarlega merki enda er þar fallegt um að litast.
Badda hefur lengi haft brennandi áhuga á öllu sem viðkemur tísku og förðun og fylgist ávallt með því nýjasta á markaðnum. Hún rak kvenfataverslunina Lady hér í bæ í mörg ár en í dag nýtur hún lífsins með fjölskyldu og vinum og veit ekkert skemmtilegra en að taka lagið með söngfélögum sínum í Vorboðunum, kór eldri borgara í Mosfellsbæ og Kirkjukór Lágafellssóknar.

Bjarney er fædd á Akranesi 13. júní 1943. Foreldrar hennar eru þau Elín Elíasdóttir húsmóðir og Einar Magnússon verkamaður. Systkini Böddu eru þau Georg f. 1940, Viðar f. 1942, Einar f. 1944 og Dröfn f. 1945.

Elskaði að vera búðarkona
„Ég er alin upp á Akranesi og það var dásamlegt að alast upp þar. Systkina- og frændsystkinahópurinn var stór svo það var alltaf nóg um að vera.
Æskuminningarnar eru ansi margar, þegar pabbi kom af sjónum og lék við okkur krakkana og svo jólin, þegar mamma sat og saumaði jólafötin á okkur öll.
Við lékum okkur oft á skautum á Petutúni og svo vorum við vinkonurnar duglegar að trampa á háum hælum á frosinni mold til að heyra hljóðið.
Búðarleikur í eldhúsinu var í miklu uppáhaldi og ég elskaði að vera búðarkona,“ segir Badda og brosir sínu fallega brosi.

Kynntist æskuástinni á Akureyri
„Ég gekk í barnaskóla Akraness og svo Gagnfræðaskólann og mér fannst mjög gaman í skólunum. Var meira að segja kladdastjóri allan Gagnfræðaskólann. Uppáhaldsfögin mín voru leikfimi og kristinfræði og uppáhaldskennarinn minn var Þórunn Bjarnadóttir, en hún var tignarleg kona með flott og sítt hár.
Eftir útskrift fór ég að vinna hjá Slátur­félagi Akraness þar sem ég starfaði í tvö ár en árið 1962 lá leið mín til Akureyrar þar sem ég hóf störf á Hótel Kea. Þetta átti að verða 3 mánaða dvöl en varð að 8 árum því ég kynntist æskuástinni minni og eiginmanni til 50 ára þar.“

Bjuggu í vinnuskúr á Álafossi
Badda giftist Páli Helgasyni tónlistarmanni 8. maí 1965 en hann lést úr krabbameini árið 2016. Þau eignuðust þrjú börn, Helga f. 1963, Einar f. 1966 og Anítu f. 1967. Barnabörnin eru 13 og barnabarnabörnin 4.
Fjölskyldan flutti í Mosfellsbæ árið 1973 og bjó fyrst í vinnuskúr á Álafossi í eitt ár á meðan þau byggðu sér raðhús í Byggðarholti. Badda starfaði í barnafataversluninni Anítu í Álfheimum og síðar á Álafossi, Apótekinu í Mosfellsbæ, Kaupfélagssjoppunni, Varmárskóla og leikskólanum Kátakoti á Kjalarnesi.
Badda og Palli voru ákaflega samrýnd hjón, tónlist, söngur og dans voru sameiginleg áhugamál þeirra. Badda söng í öllum blönduðu kórunum sem Palli stjórnaði, Álafosskórnum, Kirkjukór Kjalarness, Kirkjukór Kjósverja, Mosfellskórnum, Landsvirkjunarkórnum og Vorboðunum. Palli spilaði einnig á heimili eldri borgara í Hæðargarði í mörg ár með sveitungum sínum, þeim Úlfhildi og Guðbjörgu.
Badda er þekkt fyrir að vera alltaf með mörg járn í eldinum, hún er mjög listræn og nýtur þess að mála myndir. Hún hefur einnig verið í glerlist, línudansi, spilað boccia, starfað í pólitík, hún söng með sönghópnum Hafmeyjunum í 10 ár og situr nú í menningarnefnd FaMos.

Dugleg að ferðast með fjölskylduna
„Fyrir utan tónlistina þá var hestamennska sameiginlegt áhugamál okkar hjóna en við byrjuðum í hestamennsku þegar Aníta dóttir okkar fékk hest í fermingargjöf.
Palli söng með karlakórnum Stefni og ég var þá formaður Stefnanna, eiginkvenna kórdrengjanna. Við fórum í margar utanlandsferðir með kórfélögum og í útilegur. Við vorum líka dugleg að ferðast með fjölskylduna, þvældumst mikið til Akureyrar og á Akranes. Við hjónin elskuðum að fá til okkar gesti og vinaboðin voru mörg.
Árið 2010 fengum við Palli okkur hjólhýsi og í því áttum við okkar bestu stundir svona á seinni árum, þvældumst víða um landið.“

Lofaði Palla að halda áfram veginn
„Að missa Palla var mér mjög erfitt, það tók tíma að átta sig á hlutunum og vinna úr þessum stóra missi. Ég lofaði Palla að halda áfram veginn og hlúa að öllu okkar og hef gert það, ég er ákveðin í því að njóta lífsins til fulls.
Veistu, mér leiðist aldrei, ég á yndislega fjölskyldu sem er mér allt og stóran og góðan vinahóp sem er mér mjög kær. Ég fer mikið erlendis og skoða mig um með öllu þessu góða fólki í kringum mig.“

Dásamlegur staður fyrir fólk eins og mig
„Í ágúst sl. fór ég til Gdansk í Póllandi ásamt syni mínum og tengdadóttur. Gdansk er dásamlegur staður fyrir fólk eins og mig sem elskar að vera í fólksmergð, fara á markaði, kaffihús, matsölustaði og verslunarmiðstöðvar.
Nú í september er ég að leggja í ferð til Ítalíu með vinum mínum í Vorboðunum þar sem við ætlum að halda tónleika. Í desember ætla ég svo aftur til Gdansk til að njóta aðventunnar en ég ætla að halda jólin hér heima.
Fyrir tveimur árum hélt ég jólin með dóttur minni og fjölskyldu hennar á Tenerife og það var mjög skemmtilegt upplifelsi. Við fórum út að borða á aðfangadag og allir fengu jólapakka.“

Allt í gríni sagt
„Nú er ég að láta mig dreyma um að fara eitthvað á næsta ári, hvert veit ég ekki en það kemur í ljós. Ég elska að vera í margmenni og þar sem kátínan er. Ég hef sagt í gamni mínu við börnin mín að þegar ég kveð þetta jarðríki væri hægt að letra á steininn okkar Palla: Hér hvíla hjónin, Páll Helgason tónlistarmaður og Bjarney Einardóttir gleðikona. En þetta er auðvitað allt í gríni sagt,“ segir Badda og brosir er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 12. september 2019
ruth@mosfellingur.is

 

Fyrirmynd og innblástur fyrir konur í tónlist

gdrnlistamadur

bæjarlistamennlistiÁ sérstakri hátíðardagskrá bæjarhátíðarinnar Í túninu heima var tónlistarkonan Guðrún Ýr Eyförð, betur þekkt sem GDRN, útnefnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2019.
Menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar sér um val bæjarlistamanns ár hvert og veitti Björk Ingadóttir formaður nefndarinnar Guðrúnu verðlaunagrip eftir listakonuna Ingu Elínu ásamt viðurkenningarfé sem fylgir nafnbótinni.

Með sinn eigin feril í þrjú ár
„Þetta er mikill heiður og kom mér virkilega á óvart,“ segir Guðrún Ýr. „Ég er ekki búin að vera með minn eigin feril sem GDRN nema í þrjú ár en ég hef verið að læra tónlist í um tuttugu ár og ég stæði ekki hérna í dag ef ekki væri fyrir allt frábæra tónlistarfólkið og tónlistarkennarana sem eru búnir að miðla af sinni reynslu til mín. Mig langar því að tileinka þeim þessi verðlaun, af því ég væri ekki hér í dag ef það væri ekki fyrir þau.
Það væri gaman að geta nýtt nafnbótina til að hjálpa ungu fólki í Mosfellsbæ sem vill fara í listnám. Þar myndi ég glöð vilja veita einhverjum innblástur og halda áfram að gefa af minni þekkingu sem mér var gefin frá öðru tónlistarfólki.“

Hóf fiðlunám í Listaskóla Mosfellsbæjar
Guðrún Ýr er uppalin í Mosfellsbæ og hefur verið í tónlist frá unga aldri. Hún hóf fiðlunám í Tónlistarskóla Mosfellsbæjar fimm ára, flutti sig síðar í Suzuki skólann og stundaði námið í ellefu ár. Eftir fiðlunámið færði hún sig í djasssöng og djasspíanó í FÍH meðfram námi í menntaskóla.
Hún gaf fyrst út tónlist árið 2017 og sló í gegn með laginu Lætur mig sumarið 2018. Á Íslensku tónlistarverðlaununum fyrr á þessu ári hlaut Guðrún fern verðlaun. Plata Guðrúnar Hvað ef var valin poppplata ársins, lagið Lætur mig sem hún syngur með Flóna var valið popplag ársins. Að auki var Guðrún Ýr valin söngkona ársins í flokki popp-, rokk-, raf- og hiphopptónlistar og hlaut verðlaun fyrir tónlistarmyndband ársins við lagið Lætur mig.

Magnaður mosfellskur listamaður
GDRN vinnur nú að nýrri plötu sem kemur út á næstu vikum. „Annars hefur verið meira en nóg að gera í sumar. Framundan er vinna í Þjóðleikhúsinu þar sem ég verð hluti af tónlistinni í vetur og svo styttist auðvitað í jólaösina,“ segir Guðrún Ýr sem verður ein af jólagestum Björgvins.
Í rökstuðningi menningar- og nýsköpunarnefndar segir: „Guðrún Ýr er fyrirmynd og innblástur fyrir konur í tónlist, upprennandi stjarna og magnaður mosfellskur listamaður.“

Nýjum lóðum úhlutað til hæstbjóðenda

suluhofdi_mosfellingur

Framkvæmdir við gatnagerð í Súluhöfða hafa staðið yfir í sumar. Mikil eftirspurn hefur verið eftir lóðunum en þær eru nú klárar til úthlutunar. Lóðirnar 19 eru allar skipulagðar fyrir nokkuð stór einbýlishús. Lóðirnar eru með góðu útsýni og neðstar í hverfinu.
Eingöngu einstaklingum verður heimilað að sækja um lóðir og getur hver umsækjandi einungis fengið einni lóð úthlutað. Lágmarksverð fyrir lóðirnar er á bilinu 13,5-18 milljónir. Úthlutun lóða samkvæmt úthlutunarskilmálum fer fram á grundvelli hæsta tilboðs í hverja lóð fyrir sig og eru öll tilboð skuldbindandi.
Stefnt er að því að auglýsa 15 fyrstu lóðirnar á næstu vikum.

Stekkjarflötin

stekkjarflot

Við „týndum“ yngsta syni okkar í gær. Eða þannig. Hann stökk út úr húsi um miðjan dag, hafði verið að leika inni með vini sínum. Kallaði til okkar að þeir væru farnir út að hjóla. Allt í góðu lagi með það. En svo fór okkur að lengja eftir þeim vinunum. Þeir höfðu ekkert gefið upp um hvert leið lægi eða hvað þeir ætluðu að vera lengi.

Skipulagður var leitarflokkur, við keyrðum um hverfið, löbbuðum um nágrennið og heyrðum í foreldrum vina. Það skilaði litlu. Ég hjólaði síðan nokkrar leiðir sem ég hef hjólað með þeim týnda. Ég fann hann að lokum, skælbrosandi og glaðan, hoppandi á ærslabelgnum á Stekkjarflötinni. Þarna var frábær stemning, seinni partinn á sunnudegi. Fullt af krökkum að leika sér í bland við fjölskyldur með minni börn. Allir í góðum fíling.

Það var ótrúlega gaman að upplifa þetta, þessa góðu orku. Og mig langar að hrósa bæjaryfirvöldum fyrir að koma á fót lýðræðisverkefninu „Okkar Mosó“ en ærslabelgurinn vinsæli er einmitt tilkominn á Stekkjarflöt vegna þess að við, íbúar bæjarins, kusum hann þangað.

Það er frábært að við fáum að taka þátt í að skapa umhverfi okkar í beinum kosningum og enn betra að það sem verður ofan á í kosningunum sé notað svona mikið. Ég held að skíða- og brettaleiksvæðið í Ullarnesbrekku sem fékk líka góða kosningu verði tilbúið í vetur, hlakka sjálfur mikið til að prófa það.

En aftur að týnt og fundið sögunni, við feðgar tókum rólegt og gott spjall um mikilvægi upplýsingagjafar og hjóluðum svo saman heim. Hann hafði gjörsamlega týnt tímanum, það hafði verið svo gaman hjá þeim vinum að hjóla, stússast og svo hoppa á belgnum. Og er það ekki akkúrat það sem við erum alltaf að kalla eftir, að börnin okkar séu glöð úti að leika sér með vinum sínum.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 12. september 2019

„Við hættum ekki fyrr en við komumst á toppinn“

ulfarfellpokar

Skátafélagið Mosverjar vinnur nú að bættri gönguleið, Skarhólamýri eins og þeir kalla hana, upp á Úlfarsfellið frá Skarhólabraut.
Margir hafa velt því fyrir sér hvað þeir sjái hér hvítt í fellinu, hvort þetta sé listaverk eða einhver gjörningur. „Ég var farinn að hallast að því að þetta væru rollur sem stæðu í röð og biðu eftir sláturtíðinni. Þetta eru hinsvegar 600 pokar fullir af möl sem við vinnum nú úr,“ segir Ævar Aðalsteinsson verkefnastjóri Mosverja.
„Verkefnið er unnið í samstarfi við Mosfellsbæ og er leiðin farin upp norðanvert Úlfarsfellið. Þetta er þriðja sumarið sem við vinnum í þessu fyrir alvöru.
Göngustígurinn verður framhald af 202 tröppum sem gerðar voru í fyrra. Við hættum ekkert fyrr en við komumst á toppinn,“ segir Ævar.

Margir farnir að uppgötva gönguleiðina
„Tilgangurinn er að reyna stýra umferðinni inn á stíginn og koma í veg fyrir skemmdir á umhverfinu, slóðinn var orðinn of breiður og víða var farið að myndast flag. Árangurinn er þegar farinn að sjást og fólk tekur þessum stíg fagnandi.
Utanvegahlauparar eru til að mynda búnir að uppgötva leiðina og farnir að nýta tröppurnar í þolþjálfun, hlaupa upp og niður og berjast um besta tímann og maður hefur heyrt að Tommi umhverfisráðherra sé einn þeirra,“ segir Ævar.
Úlfarsfellið er frábært útivistarsvæði og er greinilegt að fólk er búið að uppgötva þessa nýju leið. Margir hafa klórað sér í höfðinu yfir því hvernig pokarnir komumst upp á fjallið en Guðmundur Sverrisson, Gúndi húsvörður, á sinn þátt í því og sá um að koma þeim upp, en enginn veit hvernig,“ segir Ævar léttur í bragði.