lagafellslaug

Björguðu manni frá drukknun í lauginni

lagafellslaug

Karl­maður á þrítugs­aldri var hætt kom­inn í Lága­fells­laug á mánudagskvöld þegar hann fannst meðvitundarlaus á botni laugarinnar. Maðurinn hafði verið að synda kafsund. Atvikið átti sér stað um kvöldmatarleytið og var margt fólk í lauginni á þeim tíma. Sundlaugargestur kom auga á manninn og aðstoðaði við að koma honum að sundlaugarbakkanum. Í kjölfarið komu starfsmenn með hjartastuðtæki og annan viðeigandi búnað og hófu endurlífgun. Þeim til aðstoðar kom svo sjúkraflutningamaður sem var meðal gesta laugarinnar. Maðurinn var kominn til meðvitundar þegar sjúkrabíll kom á staðinn og er í dag á góðum batavegi. Ljóst er að starfsmenn og gestir brugðust hárrétt við aðstæðum auk þess sem sjúkrabíll var mættur á svæðið eftir tvær mínútur frá slökkvistöðinni á Skarhólabraut.

heilsa31jan19

Meir um mat

heilsa31jan19

Í síðasta pistli velti ég fyrir mér úrvali matsölustaða í Mosfellsbæ. Mér finnst vera svigrúm til bætinga á því sviði, fyrst og fremst vegna þess að við langflest borðum það sem á disk okkar er lagt. Þannig erum við alin upp og það er auðveldast og þægilegast að grípa það sem hendi er næst. Ég er staddur í mekka skyndibitastaðanna, Bandaríkjunum. Hér er allt morandi í ódýrum skyndimatarstöðum – KFC er áberandi, McDonalds er að gera góða hluti virðist vera og Tacostaðir eru áberandi. Svo eru hér ný nöfn (fyrir okkur gestina allavega) sem segjast ekki vera skyndibitastaðir, en eru það samt. Farmer Boys til dæmis. Hamborgarastaður stofnaður 1981 af hressum bræðrum á bóndabæ. Það kæmi mér ekki á óvart að sjá Farmer Boys í Mosfellsbæ, kynnta til leiks sem ferskan hamborgarastað sem afgreiddi borgarana sína hratt og seldi ódýrt, en væri samt ekki skyndibitastaður.

En þar sem við erum stödd má líka finna dæmi um hið gagnstæða, matsölustaði og sérstaklega matvörubúðir sem leggja mikla áherslu á hollustu og heilbrigði. Loma Linda Market er þannig matvöruverslun. Gott úrval af ferskum ávöxtum og grænmeti, mikið úr heimahéraði. Mjög lítið, nánast ekkert, af draslmat og nammi. Í staðinn fyrir að vera með nammibar eru í Loma Linda Market stórir hnetu og fræbarir. Mitt uppáhald þessir barir, mikið úrval og hver og einn ákveður sinn skammt sjálfur. Búðin er á háskólasvæðinu, tengd Loma Linda University, sem kennir fyrst og fremst heilbrigðistengdar greinar. Við erum búin að rölta um háskólasvæðið, hitta fólk og skoða okkur um. Það er áberandi að það eru engir nammisjálfsalar hérna, ekki verið að selja kók og pepsí. Matsölustaðirnir og búðirnar sem tengjast háskólanum bjóða upp á hollan og góðan mat, ekkert annað. Og hvað gerir fólk þá? Fær sér hollan og góðan mat. Þetta er ekki flókið.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 31. janúar 2019

mosíþrótta

Rafræn kosning um íþróttakarl og -konu Mosfellsbæjar

mosíþrótta

Búið er að tilnefna 22 einstaklinga til íþróttakarls og -konu Mosfellsbæjar 2018. 13 karlar eru tilnefndir og 9 konur. Íþróttafólkið er kynnt betur til sögunnar annars staðar í blaðinu. Bæjarbúum gefst kostur á, ásamt aðal- og varamönnum í íþrótta- og tómstundanefnd, að kjósa.

Kosningin fer fram á vef Mosfellsbæjar www.mos.is dagana 10.-15. janúar. Velja skal í 1., 2. og 3. sæti. Úrslit verða kynnt fimmtudaginn 17. janúar kl. 19 í íþróttamiðstöðinni að Varmá. Þangað eru allir velkomnir. Á myndinni hér að ofan má sjá íþróttamenn Mosfellsbæjar 2017, þau Guðmund Ágúst og Thelmu Dögg.

Smelltu hér til að kjósa!

mosfellingurinn_eva

Sameiginleg forsjá hefur mjög lítið gildi

mosfellingurinn_eva

Eva Björk Sveinsdóttir verkefnastjóri hjá KPMG lætur sig málefni fráskildra foreldra varða.
Barn getur aðeins átt eitt lögheimili og það telst eiga fasta búsetu þar sem það á lögheimili. Það getur því oft reynst erfið ákvörðun fyrir foreldra sem standa í skilnaði hvar skal skrá barnið eða börnin. Oftar en ekki eru foreldrar hvattir af fulltrúum Sýslumanns að fara út í sameiginlega forsjá.
Eva Björk Sveinsdóttir er ein af þeim sem fór þá leið er hún stóð í skilnaði. Hún á tvo syni og voru þeir skráðir hvor á sitt heimilið. Það sem Eva gerði sér ekki grein fyrir þá er að hún yrði ósýnileg í kerfinu og samfélaginu gagnvart syninum sem skráður var hjá föðurnum.

Eva Björk er fædd í Reykjavík 25. júní 1976. Foreldrar hennar eru þau Sigurbjörg Guðjónsdóttir fyrrv. starfsmaður í Varmárskóla og Sveinn Árnason fyrrv. verktaki.
Eva á tvö systkini, þau Brynjar Örn f. 1971 og Önnu Rún f. 1984.

Þetta var oft mikið ævintýri
„Ég flutti í Mosfellssveitina fjögurra ára gömul, það var yndislegt að alast hér upp enda vil ég hvergi annars staðar búa. Foreldrar mínir, systkini og tengdaforeldrar búa hér líka svo hér er allt mitt fólk,“ segir Eva og brosir.
„Í æsku minni dvaldi fjölskyldan öll sumur úti á landi þar sem pabbi vann við að plægja niður símastreng út um allt land og svo síðar þegar ljósleiðarinn var lagður hringinn í kringum landið.
Mamma sá um að elda fyrir pabba og hina vinnumennina og við systkinin fylgdum með. Við bjuggum í hinum og þessum samkomuhúsum, skólum og gömlum bóndabæjum og þetta var oft mikið ævintýri.“

Keyptum gjafirnar í Mosraf
„Ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Ég var í frábærum bekk sem hélst alveg upp í 10. bekk. Kristín Sigsteinsdóttir kenndi okkur öll árin í Varmárskóla og bekkurinn var mjög samheldinn. Við áttum það t.d. til að safna reglulega í púkk og kaupa gjöf fyrir kennarann okkar en þá var Mosraf aðal gjafavöruverslunin. Þar fékkst hið fína úrval af kökudiskum og kisustyttum og einhverra hluta vegna held ég að hún hafi átt orðið mikið safn af þessu öllu saman,“ segir Eva og hlær.
„Það var líka virkilega skemmtilegur tími í Gaggó Mos og við æskuvinkonurnar höfum alltaf haldið góðu sambandi. Eftir Gaggó fór ég í Verzlunarskóla Íslands.“

Fjölbreytt og skemmtileg vinna
„Eftir stúdentinn tók ég mér frí frá námi og vann í eitt ár en fór svo í Tækniháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með BSc í alþjóðamarkaðsfræði. Mér fannst markaðs­fræðin mjög skemmtileg en tölur lágu betur fyrir mér og ég fór að vinna í bókhaldi í heildverslun foreldra minna. Við það kviknaði áhugi á frekara námi svo ég skellti mér í Háskóla Íslands og sótti svo um vinnu hjá KPMG og byrjaði þar á endurskoðunarsviði árið 2005. Ég starfaði við endurskoðun í sex ár en flutti mig svo á skatta- og lögfræðisvið árið 2011 og er þar enn. Ég hef sérhæft mig í tekjuskatti félaga og stýri verkefnum við gerð skattalegra áreiðanleikakannana. Þetta er mjög fjölbreytt og skemmtileg vinna.“

Allir fá að njóta sín í sínu
Eva á tvo syni með fyrrverandi eiginmanni sínum, þá Ísak Mána f. 2003 og Adam Orra f. 2006 en þau slitum samvistum árið 2008. Hún kynntist núverandi eiginmanni sínum, Valdimari Róberti Tryggvasyni, sölustjóra hjá Glerborg árið 2010 og þau gengu í hjónaband árið 2016.
„Þegar við Valdi fórum að vera saman þá græddi ég fjögur stjúpbörn í leiðinni, Breka f. 1997, Heklu f. 2000, Telmu f. 2003 og Viktor f. 2006. Við bjuggum hvort á sínum staðnum fyrstu tvö árin eftir að við kynntumst.
Það getur verið flókið að sameina tvær fjölskyldur, sérstaklega þegar þær búa í sitthvoru sveitarfélaginu og því tókum við okkur góðan tíma í þetta allt saman. Við keyptum okkur svo hús í Mosfellsbæ 2012.
Allir í fjölskyldunni eiga svo sín áhugamál og við höfum reynt að leyfa hverjum og einum að njóta sín. Við förum svo öll saman í sumarbústaði, útilegur og svo höfum við skroppið út fyrir landsteinana.“

Sorgleg staðreynd
„Við búum í þjóðfélagi þar sem blandaðar fjölskyldur eru orðnar normið. Þegar ég og barnsfaðir minn skildum ákváðum við eftir ráðleggingu frá fulltrúa sýslumanns að hafa sameiginlega forsjá yfir sonum okkar. Við skiptum þessu þannig að annar var með lögheimili hjá mér og hinn hjá pabba sínum enda áttum við þessa stráka saman og ætluðum að halda áfram að ala þá upp til jafns, annað kom aldrei til greina.
Við gerðum ráð fyrir við þessa ákvörðun að báðir foreldrar tækju jafna ábyrgð á uppeldi barnanna en annað átti svo eftir að koma í ljós. Reyndin er sú að sameiginleg forsjá hefur mjög lítið gildi fyrir það foreldri sem ekki er með barnið skráð með lögheimili hjá sér. Lögheimilisforeldrið er skráð í opinberar skráningar. Hitt foreldrið er einfaldlega ekkert tengt barninu hjá hinu opinbera og er kallað umgengnisforeldri.
Mér finnst það sorgleg staðreynd að sonur minn sem ég gekk með og kom í heiminn, hef fætt og klætt og alið upp til jafns við föður hans sé hvergi skráður sonur minn af því lögin eru gölluð og kerfið úrelt.“

Sárt að geta ekki sinnt sínu eigin barni
„Það er langt frá því að vera eðlilegt að maður geti ekki sinnt sínu eigin barni og gert einföldustu hluti fyrir það eins og að stofna bankareikning, skrá það í tómstundir, unglingavinnu eða mötuneytisáskrift í skólanum svo dæmi séu tekin.
Ég þarf oft og iðulega að segja við son minn þegar hann biður mig um eitthvað að því miður geti ég ekki gert það fyrir hann, hann verði að biðja pabba sinn. Þetta er ótrúlega sárt, bæði fyrir mig og hann.
Ég get ekki skoðað sjúkrasögu hans á netinu því ég hef ekki aðgang, eingöngu annar sonur minn er skráður á skattframtalið mitt og tryggingafélögin neita að tryggja þau börn sem búa á heimilinu hjá okkur aðra hverja viku, bara af því að þau eru ekki skráð með lögheimili. Til að kóróna allt þá barst bréf til okkar frá Sjúkratryggingum Íslands vegna heilsufarsmála sonar mins og var það stílað á stjúpföður hans en ekki mig, móðurina. Þegar ég leitaði upplýsinga hverju þetta sætti þá var mér tjáð að það væri regla að senda bréf á elstu kennitölu heimilisins.“

Það þarf að byggja upp nýtt kerfi
„Málefni fráskildra foreldra og skilnaðarbarna eru flókin. Það er löngu orðið tímabært að byggja upp kerfi þar sem báðir foreldrar eru skráðir forsjáraðilar og geta sinnt þörfum barna sinna jafnt. Þessu þarf að breyta hið fyrsta,” segir Eva að lokum er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 10. janúar 2019
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Mættir í Mosó: Jói Ásbjörns, Karl Viggó og Jón Gunnar.

Blackbox opnar í Háholti í vor

Mættir í Mosó: Jói Ásbjörns, Karl Viggó og Jón Gunnar.

Mættir í Mosó: Jói Ásbjörns, Karl Viggó og Jón Gunnar.

Í vor opnar Blackbox Pizzeria í hjarta Mosfellsbæjar þar sem veitingastaðurinn Hvíti Riddarinn hefur verið í mörg ár.
„Þetta er fullkomin staðsetning fyrir næsta Blackbox-stað í fjölskylduvænum bæ sem telur rúmlega ellefu þúsund íbúa og mikil vöntun á skemmtilegum veitingastöðum,“ segir Jón Gunnar Geirdal einn eigenda staðarins.
„Þessi nýi staður verður umkringdur frábærum nágrönnum en hér sækja sækja Mosfellingar sína helstu þjónustu. Hér höfum við Krónuna, Mosfellsbakarí, apó­tek, fiskbúð og ísbúð og einnig örstutt í Framhaldsskóla Mosfellsbæjar. Það er líka spennandi að fylgjast með þeirri uppbyggingu sem er í gangi hérna í miðbænum. Við sjáum mikla möguleika og hlökkum til að kynnast Mosfellingum.
Við munum bjóða upp á boltagláp og góðar pizzur. Sama módel og við erum með í Borgartúninu, ódýr bjór og léttvín og stærstu viðburðir á skjánum.“

Eldbakaðar pizzur á tveimur mínútum
Blackbox opnaði sinn fyrsta stað í janúar í fyrra í Borgartúni 26 og hefur notið mikilla vinsælda en Blackbox afgreiðir eldsnöggar, eldbakaðar, súrdeigsbotnspítsur með hágæða hráefnum, byltingarkenndur snúningsofninn nær gífurlegum hita og eldbakar pítsuna á aðeins tveimur mínútum.
Eigendur Blackbox eru stofnendur staðarins, Karl Viggó Vigfússon og Jón Gunnar Geirdal, ásamt Jóhannesi Stefánssyni og fjölskyldu í Múlakaffi og Jóhannesi Ásbjörnssyni en saman eiga þeir tveir síðastnefndu Gleðip­inn­a, rekstr­araðila Keilu­hall­ar­inn­ar og Ham­borg­arafa­brikk­unn­ar.
Athafnamennirnir fengu afhenta lykla af staðnum í vikunni og stefna á þónokkrar framkvæmdir og breytingar áður en dyrnar verða opnaðar á nýjum og fjölskylduvænum stað í Mosfellsbæ. „Við stefnum á að opna í mars ef allt gengur upp,“ segir Jón Gunnar lokum.

Óskar Vídalín Kristjánsson Mosfellingur ársins 2018.

Óskar Vídalín Mosfellingur ársins 2018

mosfellingurarsins2019_stærri

Mosfellingur ársins 2018 er Óskar Vídalín en hann hefur ásamt öflugum hópi stofnað Minningarsjóð Einars Darra og hrint að stað þjóðarátakinu Ég á bara eitt líf.
Óskar missti 18 ára gamlan son sinn Einar Darra í maí sl. eftir neyslu lyfseðilsskyldara lyfja. „Ég er ótrúlega þakklátur og tek á móti þessari viðurkenningu fyrir hönd okkar allra sem standa að Minningarsjóðnum. Við höfum fengið mikla hjálp og frábærar móttökur alls staðar, Mosfellingar hafa sýnt okkur mikinn stuðning og styrk og fyrir það erum við gríðarlega þakklát,“ segir Óskar.

Markmiðið að opna á umræðuna
Það eru foreldrar og systur Einars Darra, þau Óskar Vídalín, Bára Tómasdóttir, Andrea Ýr og Aníta Rún sem eru forsvarsmenn Minningarsjóðsins.
„Við ákváðum fljótlega eftir fráfall Einars Darra þegar við áttuðum okkur á hve neysla lyfseðilskyldra lyfja væri stórt vandamál meðal ungmenna að stofna minningarsjóð í hans nafni. Við vildum nálgast þetta verkefni í kærleika því það er alveg í anda Einars Darra. Markmiðið er að opna umræðuna og vekja athygli á vandamálinu því við uppgötvuðum hvað við vissum lítið og hvað þetta kom okkur mikið á óvart.“

mosfellingurarsinslistiForvarnafræðsla og þjóðfundur
„Við byrjuðum á að vekja athygli á málstaðnum með bleikum armböndum, hettupeysum, húfum og fleiru. Við vorum áberandi á útihátíðum og öðrum viðburðum í sumar. Við völdum bleika litinn af því að það var uppáhalds liturinn hans Einars Darra.
Við stofnuðum sjóðinn fyrst og fremst til að fara af stað með forvarnafræðslu. Við höfum fengið gríðarlega mikla aðstoð og góða styrki og hefjum fræðslu í grunnskólum í febrúar. Hún er gjaldfrjáls og verður beint að börnum, foreldrum og kennurum,“ segir Óskar.
Þau sem standa að Minningarsjóðnum eru greinilega bara rétt að byrja en fyrirhugað er að halda þjóðfund unga fólksins í apríl. „Við erum að skipuleggja ásamt góðu fólki fund þar sem hugsunin er að fá ungt fólk alls staðar að af landinu til að taka þátt í umræðum og lausnum á þeim vandamálum sem það stendur frammi fyrir eins og kvíða, vanlíðan og fleira.“

Héldu óhefðbundin jól
„Við ákváðum að halda aðfangadag á óhefðbundinn hátt. Við byrjuðum á að fara á Vog og á fíknigeðdeild Landspítalans með um 100 jólagjafir. Við borðuðum saman á heimili Báru og fjölskyldu á Akranesi og opnuðum pakkana snemma. Svo vorum við öll saman klukkan 18:00 í kirkjugarðinum við leiði Einars Darra.
Við höfum fengið sterk viðbrögð við þessari leið sem við völdum til að vinna úr sorginni. Við gáfum meðal annars út myndband þar sem birtar eru myndir af látnum einstaklingum og vekja athygli á því að bak við hvern einstakling situr eftir stór hópur, fjölskylda og vinir. Viðbrögðin við því hafa verið mjög sterk og við vonum að þetta skili sér og hjálpi öðrum.
Þegar maður verður fyrir svona áfalli þarf maður að taka ákvörðun og ég segi fyrir mig að starfið í kringum Minningarsjóðinn hjálpar mér að takast á við sorgina,“ segir Óskar að lokum.

nemendur fengu aðstoð bæjarfulltrúa 
og opnuðu skólann með formlegum hætti

Opnunarhátíð í Helgafellsskóla

nemendur fengu aðstoð bæjarfulltrúa og opnuðu skólann með formlegum hætti

Nemendur fengu aðstoð bæjarfulltrúa og opnuðu skólann formlega.

helgafellsskoli2helgafellsskoli3Komið er að því að hefja skólastarf í Helgafellsskóla tveimur árum eftir að skóflu­stunga var tekin að skólabyggingunni.
Í upphafi verður einn af fjórum áföngum skólans tekinn í notkun. Í sumar verður annar áfangi tilbúinn til notkunar og síðari tveir áfangarnir verða svo teknir í notkun í framhaldinu.
Þriðjudaginn 8. janúar var skrúðganga frá Brúarlandi yfir í Helgafellsskóla. Nemendur og starfsfólk skólans gengu fylktu liði og tóku með sér í krukkum hið góða og notalega andrúmsloft Brúarlands sem var svo sleppt út í Helgafellsskóla.

Bæjarfulltrúar og nemendur klipptu á borðann
Þegar í skólann var komið hófst opnunarathöfnin. Gestir voru nemendur og starfsfólk skólans, fulltrúar í ráðum og nefndum bæjarins og fulltrúar þeirra fyrirtækja sem komið hafa að byggingu skólans.
Við opnunina fluttu Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Kolbrún Þorsteinsdóttir formaður fræðsluráðs ávörp þar sem þau fóru yfir aðdragandann að stofnun skólans og þeirri hugmyndafræði sem skólinn mun byggja á.
Nemandi skólans, Katla Birgisdóttir, spilaði á þverflautu. Nemendur opnuðu svo skólann með formlegum hætti með aðstoð bæjarfulltrúa.

Opið hús sunnudaginn 13. janúar
Sunnudaginn 13. janúar verður opið hús í skólanum þar sem öllum bæjarbúum og öðrum þeim sem áhuga hafa á skólastarfinu er boðið að heimsækja skólann. Helgafellsskóli verður opinn frá kl. 13 til 15 og verða uppákomur og skemmtiatriði flutt af nemendum skólans.
Skólastarf hefst mánudaginn 14. janúar en í upphafi verða í skólanum um hundrað nemendur í 1. til 5. bekk en þeim mun fjölga ört á næstu misserum. Innan skamms hefst svo leikskólastarf en í upphafi verður um að ræða eina deild fyrir elstu árganga leikskólabarna.

helgafellsskoli4Listaskólinn með aðsetur á staðnum
Tómstunda- og tónlistarstarf verður fléttað inn í skólastarfið og mun Listaskóli Mosfellsbæjar hafa aðstöðu til kennslu í skólanum.
Frístundastarf verður í skólanum að lokinni kennslu fyrir yngstu nemendurna og einnig munu tómstundafræðingar koma að hópefli og kennslu í félagsfærni í samvinnu við kennara skólans.
Innan skamms tíma mun verða boðið upp á félagsmiðstöðvastarf í samvinnu við félagsmiðstöðina Ból fyrir elstu nemendur skólans, starfið verður í formi klúbbastarfs og skipulagðra viðburða.

Fjölbreyttar kennsluaðferðir
Stóru línurnar í skólastefnu Helgafellsskóla verða teymiskennsla og fjölbreyttar kennsluaðferðir þar sem allir nemendur fá nám við hæfi og geta blómstrað í leik og starfi.
Næsta haust verður skólinn gerður að 200 daga skóla fyrir yngri árganga í grunnskólanum þar sem samtvinnast kennsla og frístund. Samþætting verður á námsgreinum og samvinna milli árganga. Áhersla verður lögð á lýðræði og að undirbúa nemendur sem best undir þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun.
Skólastjóri Helgafellsskóla er Rósa Ingvarsdóttir.

þorrafrett

Risa þorrablót Aftureldingar haldið 26. janúar

þorrafrett

Þorrablót Aftureldingar 2019 fer fram laugardaginn 26. janúar í íþróttahúsinu að Varmá. Miðasala og borðaúthlutun fer fram föstudaginn 18. janúar á veitingastaðnum Blik. „Mikil stemning hefur myndast í forsölunni en eins og áður er eingöngu hægt að taka frá sæti gegn keyptum miða. Uppselt hefur verið á þorrablótið undanfarin ár. VIP borðin sem eru 10 manna hringborð eru komin í sölu en þeim fylgja fljótandi veigar og fleiri forréttindi,“ segir Ása Dagný nýkjörin vinnuþjarkur Aftureldingar og nefndarmaður í þorrablótsnefnd Aftureldingar.

Dagskráin verður með hefðbundnu sniði, Geiri í Kjötbúðinni sér um veislumatinn sem samanstendur af heitum og köldum þorramat ásamt heilgrilluðu lambalæri. Tríóið Kókos ábyrgist söng og almenna gleði og kynnir kvöldsins er Þorsteinn Hallgrímsson. Eurobandið með Regínu Ósk, Friðrik Ómar og Selmu Björns í fararbroddi leikur svo fyrir dansi fram á nótt. Blótið er stærsta fjáröflun barna og unglingastarfs handbolta- og knattspyrnudeildar Aftureldingar. Allar upplýsingar um blótið má finna á Facebook-síðu Þorrablóts Aftureldingar.

Salur 3 tilbúinn til notkunar á mánudaginn

Nýtt gólf komið á eldri íþróttasalinn að Varmá

Salur 3 tilbúinn til notkunar á mánudaginn

Salur 3 að Varmá verður tilbúinn til notkunar á mánudaginn.

Vinnu við endurnýjun gólfa í eldri íþróttasalnum að Varmá er nú að ljúka og hefur gengið eftir áætlun og verður salur þrjú tekinn í notkun að nýju mánudaginn 14. janúar.
Á. Óskarsson sér um verkið fyrir hönd Mosfellsbæjar og Aftureldingar. Þessa dagana er unnið að lokafrágangi eins og merkingu valla og gólflistum auk þess sem settar verða upp nýjar eldvarnarhurðir.
Endurnýjun gólfa í sal 3 mun hafa jákvæð áhrif á æfinga- og keppnisaðstöðu blakdeildar Aftureldingar.
Til stendur að endurnýja gólfin í sölum eitt og tvö í sumar en val gólfefna verður unnið í samvinnu við hagaðila.

Heilsumolar_10jan2019

Matur í Mos

Heilsumolar_10jan2019

Það er að koma nýr matsölustaður í Mosfellsbæ. Leysir Hvíta Riddarann af hólmi. Hvernig staður? Pizzustaður. Skemmtileg nýjung. Akkúrat það sem við þurftum, Mosfellingar. Staður sem afgreiðir pizzur og það mjög hratt. Ég er hrikalega spenntur fyrir þessu. Það hefði alls ekki passað að fá í miðbæ Mosfellsbæjar stað sem ekki leggur áherslu á skyndibita. Stað sem byði upp á nýmóðins hollustu. Það yrði líklega of mikið rót fyrir okkur. Blik Bistro & Grill er reyndar að hrista aðeins upp í okkur með því að bjóða upp á fjölbreyttari mat og það er vel, en miðbær Mosfellsbæjar hleypir engum nær sem ekki heldur sig við grunnatriðin í matarmenningu okkar. Pizzabær eins og skáldið orti. Sem rímar kannski ekkert sérstaklega vel við það heilsueflandi samfélag sem við segjumst vera. Pælum í þessu íbúar og látum í okkur heyra ef við viljum fá öðruvísi staði og starfsemi í bæinn. Þetta gerist ekki af sjálfu sér.

Nóg um mat. Minn draumur er að árið 2019 verði árið sem Mosfellsbær tekur risaskref í uppbyggingu á íþróttafélaginu sem sameinar okkur. Aftureldingu. Iðkendum félagsins fjölgar eins og kanínum í Reykjalundarskógi, sem er frábært, enda fátt eins gott og skipulagðar íþróttir þegar kemur að forvörnum. Afturelding með sínar ellefu deildir er vettvangurinn sem bæjaryfirvöld ættu leggja allt sitt stolt í að hlúa að og gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að félagið geti haldið áfram að vaxa og dafna. Það er ekki nóg að setja nokkra plástra á sár öðru hvoru. Það þarf að hugsa miklu stærra og bjóða í okkar ört vaxandi bæjarfélagi upp á fyrsta flokks íþróttaðstöðu – aðstöðu þar sem iðkendur geta skipt um föt, farið í sturtu eftir æfingar og tengst hver öðrum í notalegri félagsaðstöðu. Allar deildir félagsins vilja þetta, félagið vill þetta, bæjarbúar vilja þetta. Áfram veginn!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 10. janúar 2019

Í hljóðveri: Tryggvi Hubner, 
Jón Ólafs, Kalli Tomm og Ásmundur

Kalli Tomm gefur út Oddaflug

Í hljóðveri: Tryggvi Hubner,  Jón Ólafs, Kalli Tomm og Ásmundur

Í hljóðveri: Tryggvi Hubner, Jón Ólafs, Kalli Tomm og Ásmundur.

Kalli Tomm var að senda frá sér sína aðra sólóplötu, Oddaflug.
Örlagagaldur, fyrsta sólóplata hans, kom út fyrir þremur árum og féll hún í afar góðan jarðveg bæði hjá hlustendum og gagnrýnendum. Aðspurður sagðist Kalli Tomm hafa hafist handa við gerð Oddaflugs fljótlega eftir útkomu fyrri plötu sinnar.
„Ég nýt krafta og hæfileika margra sömu listamanna sem komu við sögu á Örlagagaldri og má þar nefna Tryggva Hubner, Jóhann Helgason, Guðmund Jónsson og upptökustjóra minn, Ásmund Jóhannsson. Allir hafa þessir frábæru listamenn reynst mér einstaklega vel eins og allir sem að plötunni koma með mér.

Mosfellingar í aðalhlutverkum
„Einnig er gaman að geta þess að þrjár mosfellskar söngkonur koma við sögu á plötunni. Það eru mæðgurnar Íris Hólm Jónsdóttir og Ingibjörg Hólm Einarsdóttir ásamt dóttur minni, Birnu Karls. Textahöfundar eru þrír og einnig allir Mosfellingar. Það eru Bjarki Bjarnason sem hefur unnið mikið með mér á báðum plötunum, vinkona mín Hjördís Kvaran Einarsdóttir og kona mín, Líney Ólafsdóttir. Hönnun umslags og textabókar er einnig í höndum rótgróins Mosfellings, Péturs Fjalars Baldvinssonar.“ Kalli Tomm sagðist að lokum einstaklega ánægður með fyrstu viðbrögð við plötunni og ekki síst hversu sveitungar hans hefðu tekið henni vel.

Hjónin Ragnheiður Gíslason og Þórarinn Jónasson hafa staðið vaktina á Hestaleigunni Laxnesi í 50 ár.

Lífið hefur verið dásamlegt í Laxnesi

Hjónin Ragnheiður Gíslason og Þórarinn Jónasson hafa staðið vaktina á Hestaleigunni Laxnesi í 50 ár.

Hjónin Ragnheiður Gíslason og Þórarinn Jónasson hafa staðið vaktina á Hestaleigunni Laxnesi í 50 ár.

Liðin eru 50 ár síðan Hestaleigan í Laxnesi í Mosfellsdal hóf starfsemi en hún er fyrsta hestaleigan hér á landi með skipulagðar ferðir og sú elsta sem er enn starfandi.
Saga fyrirtækisins er um margt merkileg og áhugaverð. Í fyrstu var starfsemin smá í sniðum en óx og dafnaði jafnt og þétt og er nú á dögum veigamikill þáttur í íslenskri ferðaþjónustu.
Ruth Örnólfsdóttir kíkti í heimsókn til Heiðu og Póra eins og þau eru ávallt kölluð. Þau renndu með henni yfir sögu fyrirtækisins, bæði í máli og myndum.

Jörðin Laxnes stendur ofarlega í Mosfellsdal norðan Þingvallavegar. Árið 1967 fluttu ung hjón úr Reykjavík, Ragnheiður og Þórarinn, að Laxnesi. Þeirra beið mikil vinna þar sem íbúðarhúsið á staðnum var í mikilli niðurníðslu, rúður brotnar og jafnvel gekk sauðfé þar um gólf. Eftir að þau fluttu inn létu þau timburklæða húsið. Enginn hiti var á því þar sem heitavatnsleiðslan hafði verið fjarlægð svo þau kyntu húsið í fyrstu með olíu. Köldu vatni var hins vegar dælt úr brunni skammt frá Köldukvísl.

Ævintýri handan við hornið
Þessir nýju Dalbúar höfðu miklar og nýstárlegar hugmyndir um nýtingu jarðarinnar en draumurinn var að opna sveitaklúbb. Þau hugðust útbúa útivistarsvæði með alls kyns afþreyingu, svo sem sundlaug, gufubaði, golfi, gönguferðum og hestaleigu.
Farið var í að leggja níu holu golfvöll á heimatúninu og var starfræktur golfklúbbur í Laxnesi í rúm fimm ár. Meðfram rekstri golfklúbbsins þróaðist annars konar starfssemi sem þá þótti mikil nýlunda.
Tímar golf og næturklúbbs í Laxnesi runnu sitt skeið og golfvöllurinn breyttist í beitarhaga. Ekkert varð úr annarri afþreyingu ef undan er skilin hugmyndin um hestaleiguna. Mörgum þótti hún fáránleg í fyrstu, meðal annars vegna þess að Laxnes væri of langt frá Reykjavík og holóttur malarvegur var alla leið. Fáa grunaði þá hvaða hestaævintýri beið manna í Laxnesi handan við hornið.

laxnesveturKeypti bókina um járningar
„Það má segja að starfsemi okkar hafi byrjað fyrir slysni þegar við vorum að byrja á þessu árið 1968,“ segir Póri. „Fyrrum blaðafulltrúi hjá Loftleiðum, Sigurður Magnússon, sem starfaði með mér þar hafði samband við mig og bað mig um að taka á móti hópi fólks og fara með upp eftir á hestbak sem ég og gerði og þannig byrjaði boltinn að rúlla.
Í fyrstu voru aðeins sex hestar hér á leigunni og um langt skeið var eingöngu opið á sumrin en þó ekki daglega. Það þurfti að járna hestana og engir járningamenn á þessum tíma svo það var ekkert annað að gera í stöðunni en að kaupa sér bókina um járningar og lesa sér til.
Við vinirnir Flosi Ólafsson og Jóhann í Dalsgarði fórum oft í hestaferðir saman um landið. Ég lærði mikið af þeim sem kom sér mjög vel síðar í lengri hestaferðum mínum með erlenda gesti.“

Riðið upp að Tröllafossi
„Viðskiptavinir okkar voru bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn. Þeir voru sóttir til Reykjavíkur og svo höfðum við unglinga til aðstoðar í ferðunum.
Mest var riðið upp að Tröllafossi í Leirvogsá en þar er stórfenglegt gil og margbreytilegt landslag sem mætir manni hvarvetna. Fossinn er líka merkilegur fyrir þær sakir að hann er á náttúruminjaskrá.
Þegar fram liðu stundir bættust aðrar reiðleiðir við, allt eftir getu, tíma og óskum viðskiptavinanna. Það eru í raun hægt að segja að það séu óteljandi reiðleiðir frá Laxnesi. Á meðan á uppbyggingu fyrirtækisins stóð störfuðum við Heiða líka annars staðar, ég var við kennslu í Gagnfræðaskólanum í Mosfellsbæ og Heiða á Tjaldanesi.“

Hestamannafélagið Neisti
Meðfram hestaleigunni var starfrækt tamningastöð um skeið og einnig voru hross á fóðrum. Stóru fjósi var breytt í hesthús og hin geysistóra hlaða nýttist einnig vel fyrir þessa nýju starfsemi.
Hægt var að fara í hestakaup á staðnum. Þá komu menn með eigin hest og gátu fengið hentugri hest í staðinn en hinn var þá tekinn upp í. Starfsemi þessi fór fram undir nafninu Hestamannafélagið Neisti sem nefnt var eftir fyrsta hestinum sem Póri eignaðist. Hugsunin með þessu var svona svipuð eins og að reka bílasölu þar sem hægt væri að koma með gamla bílinn og fá sér einn kraftmeiri í staðinn.
Þetta var virðingarverð þjónusta fyrir þá sem unnu hestaíþróttinni en höfðu ekki tök á að sinna henni á annan hátt, en þurftu á þessari fyrirgreiðslu að halda.
Undir lok 8. áratugarins lögðu tamningastöðin og hestasalan upp laupana en hestaleigan var komin til að vera og er enn í dag starfrækt af miklum krafti.

Með reiðskóla í Viðey
Hestaleigan Laxnesi hefur einnig verið með starfsemi utan heimabyggðar. Um hríð var boðið upp á fastar ferðir til Þingvalla og þegar nær dró aldamótum var reiðskóli á vegum leigunnar í Viðey sem skapaði mikið líf í eynni. Í nokkur sumur voru einnig í boði sex daga langferðir. Í þessum ferðum voru 6-10 knapar en vistir fluttar á 2-3 trússhestum.
Einnig hefur verið leitað til leigunnar þegar mikið stendur til, til dæmis riðu meðlimir hljómsveitarinnar Skriðjökla á hestum frá frá Laxnesi árið 1986 þegar útvarpsstöðin Bylgjan var opnuð. Eins hafa hestar frá Laxnesi birst í nokkrum bíómyndum eins og Game of Thrones.
Hestaleigan varð að ævistarfi Heiðu og Póra og hafa börn þeirra, Dísa f. 1962 tölvunarfræðingur og kennari, Þórunn Lára f. 1968 dýralæknir og Haukur Hilmar f. 1975 framkvæmdastjóri hestaleigunnar öll komið mikið við sögu í uppbyggingu fyrirtækisins.

Hugmyndin rann út í sandinn
Á 9. áratugnum þegar Póri hugði á hrossaútflutning rak hann sig á veggi. Hann fékk fyrirspurn frá Belgíu um útflutning á um 400 hestum á fæti til kjötvinnslu en þá skarst Samband íslenskra samvinnufélaga í leikinn og gerði athugasemdir við að aðrir en Sambandið flyttu út hesta. Þeir kváðust vera með einkaleyfi á útflutningi á öllu kjöti svo ekkert varð úr þessari hugmynd að sinni.
Seint á áratugnum hugði Póri á útflutning á um 40 hestum til Bandaríkjanna en aftur skarst Sambandið í leikinn og hugmyndin rann út í sandinn.

Flutti út sýningarhesta til Hollywood
Póri var þó ekki af baki dottinn varðandi útflutninginn og árið 1992 flutti hann út sýningarhesta til Bandaríkjanna en þar var tiltölulega fátt um íslenska hesta. Fyrirhugað var að að taka þátt í hestasýningu í útjaðri Hollywood eða „The L.A. Agent Equestrian center“ sem er eins konar Víðidalur Los Angeles borgar. Knaparnir voru ekki af verri endanum og sumir þeirra skipuðu íslenska landsliðið á þeim tíma.
Aðdragandi sýningarinnar var sá að maður að nafni Michael Solomon forstjóri Warner Bros kvikmyndafyrirtækisins hafði verið við laxveiðar hér á landi. Í einni af ferðum sínum kynntist hann íslenska hestinum í gegnum hestaleiguna í Laxnesi. Kunningsskapur Michaels og Póra leiddi síðar til þess að vegna áhrifa Michaels var fengið inni á sýningum sem voru haldnar á nokkrum stöðum og vöktu athygli fjölmiðla. Póri var m.a. tekinn í viðtal hjá sjónvarpsstöðvunum CBS og CNN.
Íslenski hesturinn vakti alls staðar óskipta athygli og var jafnan hápunktur sýningarhaldsins. Í kjölfarið hófst mikill útflutningur á hestum til Bandaríkjanna.

Reyndi á samspil manns og hests
Þol og þrek íslenska hestsins hefur ávallt verið áhugamál Póra og skipulagði hann þolreiðarkeppni að erlendri fyrirmynd í samvinnu við Helga Sigurðsson dýralækni.
Fyrst var efnt til þolreiðar árið 1988 og fór hún þannig fram að knapar riðu einhesta frá Laxnesi til Þingvalla sem er um 30 km leið. Daginn eftir var haldið tilbaka um Almannagjá og að Laxnesi.
Hjartsláttur hestanna var mældur á áfangastað. Ef hann reyndist of hár gilti það sem refsistig og gat leitt til þess að knapi og hestur féllu úr keppni. Þolreiðin reyndi því mikið á samspil manns og hests.
Þolreiðarhugmyndin hefur skotið rótum allvíða í Evrópu, bæði á Norðurlöndum og í Þýskalandi og kom Póri að þeirri skipulagningu í samvinnu við Icelandair. Vegalengdin var ævinlega 20 km. Hestaleigan Laxnes gaf verðlaunabikara en Icelandair farmiða í verðlaun.

Fólk með mismikla reynslu
„Að reka hestaleigu er ekkert ósvipað og eiga fataverslun, það þarf að eiga allar mögulegar stærðir og gerðir,” segir Póri og brosir. „Við erum með 120 hesta og hingað kemur fólk með mismikla reynslu og oft eru börn með í för svo það þarf að eiga hesta sem henta öllum. Það koma um 15 þúsund gestir að Laxnesi á ári, 85% þeirra eru erlendir ferðamenn, alls staðar að úr heiminum.“
„Við sækjum viðskiptavini okkar til Reykjavíkur ef óskað er eftir því,“ segir Heiða. „Það eru farnar tvær skipulagðar ferðir á dag, ein á morgnana og svo önnur eftir hádegi. Þetta eru um tveggja tíma útreiðartúrar og leiðirnar liggja um fallegt og stórbrotið landslag. Í hádeginu er svo boðið upp á súpu og brauð og ilmandi gott kaffi á eftir.
Við bjóðum líka í samvinnu við önnur fyrirtæki ferðir um gullna hringinn, köfun í Silfru, hellaskoðun, hvalaskoðun og lundaskoðun.“

Ræktunin tekið miklum breytingum
Tal okkar berst að ræktun á íslenska hestinum sem þekktur er fyrir sínar fimm ólíku gangtegundir, fet, brokk, stökk, tölt og skeið. „Ræktunin hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og áherslum hefur verið breytt, einstaklingar hafa komið þar inn með fjármuni og kunnáttu,“ segir Póri.
„Ég hef séð miklar framfarir og er ánægður með það starf sem unnið er, sérstaklega hjá ungviðinu á Hólum í Hjaltadal. Þetta unga fólk hefur skarað fram úr og hefur unglingastarf átt stóran þátt í uppbyggingu á þróun og ræktun á íslenska hestinum.“

Hlöðupartý í tilefni stórafmælis
Í júní síðastliðnum var haldið upp á 50 ára afmæli Hestaleigunnar í Laxnesi og mættu á annað hundrað manns í hlöðupartý og var mikil gleði við völd. Grillvagninn mætti á svæðið, Dísella Lárusdóttir söng nokkur vel valin lög og KK lék fyrir dansi.
Veislustjóri var skemmtikrafturinn og eftirherman Jóhannes Kristjánsson. Meðal gesta voru þeir Ólafur Ragnar Grímsson og Guðni Ágústsson.

Forréttindi að vinna við áhugamál sitt
Ég spyr þau hjónin að lokum hvað standi upp úr þegar þau horfi til baka þessi 50 ár sem þau hafa rekið ferðaþjónustu. „Því er fljótsvarað, það er að hafa getað starfað við áhugamál sitt í allan þennan tíma og kynnst öllu þessu góða fólki sem hefur komið hingað til okkar í gegnum tíðina,“ segir Póri og Heiða var fljót að taka undir það.
„Lífið hefur verið dásamlegt hérna í Laxnesi og við höfum verið einstaklega heppin með starfsfólk sem hefur staðið sig vel og verið boðið og búið að fara með viðskiptavini í útreiðatúra hvernig sem viðrar.
Við sjáum fram á góða tíma. Íslenski hesturinn og náttúra Íslands er svo stórbrotin að það kemur ekki á óvart að fólk sæki okkur Íslendinga heim allt árið um kring og ekki má gleyma að norðurljósin eiga stóran þátt í því.“

Mosfellingurinn 20. desember 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

UMFUS-félagar með þjálfarann og ritstjórana fremsta í flokki.

Ungu sveinarnir orðnir tvítugir og gefa út afmælisrit

UMFUS-félagar með þjálfarann og ritstjórana fremsta í flokki.

UMFUS-félagar með þjálfarann og ritstjórana fremsta í flokki.

Ungmennafélagið ungir sveinar, UMFUS, er 20 ára um þessar mundir. Í tilefni þess hafa þeir Hallur Birgisson og Jón Guðmundur Jónsson sett saman glæsilegt rit um sögu félagsins sem kemur út á aðalfundi UMFUS þann 29. desember.
„Afmælisritið er byggt á frásögnum formanna félagsskaparins í gegnum tíðina, tveir formenn eru fyrir hvert ár og þeir segja sína sögu. Þetta eru því alls 40 formenn sem hafa verið við völd frá upphafi. Við erum aðeins heimildaaflarar sem skrásetjum söguna,“ segir Hallur.

Þrír þrektímar í viku í 20 ár undir handleiðslu Ella Níelsar
„Þetta byrjaði árið 1998 í Toppformi að Varmá þar sem Elías Níelsson stýrði Karlaþreki og voru það þeir Sigurður Borgar og Halldór Jökull sem stofnuðu félagsskapinn UMFUS. Árið 2000 var komið gott form á þetta hjá okkur og farnar voru bæði vor og haust keppnisferðir. En síðan þá höfum við brallað ýmislegt saman bæði innanlands og erlendis. Í 20 ár hafa verið þrír þrektímar í viku og er gaman að segja frá því að Elli Níelsar er búinn að vera með hópinn frá upphafi,“ segir Jón Guðmundur og tekur fram að tímarnir eru opnir og allir velkomnir.

Allur ágóði til góðra málefna í heimabyggð
„Við höldum alltaf aðalfund í lok hvers árs þar sem nýir formenn eru kjörnir og árið gert upp. Við veitum þar viðurkenningar fyrir ýmis afrek ársins.
Við ætlum að gefa afmælisritið út á aðalfundinum í ár. Ritið verður selt og allur ágóði mun renna til góðs málefnis í Mosfellsbæ,“ segja þeir félagar að lokum en þess má geta að UMFUS hefur einnig staðið fyrir svokölluðum Kótilettukvöldum þar sem ágóðinn hefur verið gefinn til verðugra málefna í heimabyggð.

helgafellsskolides

Helgafellsskóli tekinn í notkun í janúar

helgafellsskolides

Stefnt er að því að skólahald í nýjum Helgafellsskóla í Helgafellshverfi hefjist í janúar 2019. Bygging skólans er stærsta einstaka framkvæmd sveitarfélagsins um þessar mundir en skóflustunga var tekin í desember 2016. Í vor var ákveðið að flýta framkvæmdum en byggt er í fjórum áföngum og verður sá fyrsti tekinn í notkun í janúar.

Flytja úr Brúarlandi í Helgafellsskóla
Þeir nemendur sem hefja skólagöngu í Helgafellsskóla eru í dag í Brúarlandi, útibúi frá Varmárskóla. „Nemendur og kennarar úr Brúarlandi munu allir fara yfir í Helgafellsskóla en í dag eru 92 nemendur í Brúarlandi í 1. – 5. bekk. Á svipuðum tíma verður opnuð ein deild í leikskólanum fyrir elstu nemendurna,“ segir Rósa Ingvarsdóttir skólastjóri Helgafellsskóla.
Spár gera ráð fyrir að þegar skólinn verði fullsetinn stundi þar nám um 600 grunnskólanemendur og 110 leikskólanemendur á aldrinum 1–16 ára.

Húsnæði skólans „hálfopið”
„Í skólanum er stórt kennslurými og þrjú minni á hverju kennslusvæði auk þess sem hver tvö svæði hafa sameiginlega lítinn sal til kennslu. Næsta haust verður leikskólahluti hússins tilbúinn og svo innan fárra ára fleiri kennslusvæði, þar með talið fyrir list- og verkgreinar.
Kennsluaðferðir í skólanum verða fjölbreyttar þar sem nám og vellíðan nemenda verður í fyrirrúmi. Kennarar vinna í teymum með hvern árgang, honum verður ekki skipt upp í bekki heldur verður skipt í minni hópa út frá því verkefnum.“

Áhersla lögð á lýðræði
„Áhersla verður lögð á lýðræði þar sem allir í skólanum hafi rödd og verða nemendur virkjaðir í að hafa skoðanir meðal annars á skólastarfinu, rökstyðja þær og koma þeim í framkvæmd.
Helgafellsskóli stendur á fallegum stað og verður útinám ein af grunnstoðum skólans. Jafnframt verður heilbrigði og hollusta útgangspunktar í skólastarfinu þar sem horft verður til aukinnar hreyfingar og heilsusamlegs matar í skólanum.
Lagt verður upp með samþættingu námsgreina og að frístunda- og tónlistarstarf fléttist inn í skólastarfið. Tómstundafræðingar vinna að hópefli og aukinni félagsfærni nemenda í samstarfi við kennara skólans,“ segir Rósa.

mosfellingurársinshomepage

Hver er Mosfellingur ársins 2018?

mosfellingurársinshomepage

Val á Mosfellingi ársins 2018 stendur nú yfir. Lesendum gefst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykja verðugir að bera nafnbótina. Þetta er í fjórtánda sinn sem valið fer fram á vegum bæjarblaðsins Mosfellings. Íbúar eru hvattir til að taka virkan þátt og senda inn tilnefningar. Gjarnan má fylgja með stuttur rökstuðningur fyrir tilnefningunni og hvað viðkomandi hefur lagt til samfélagsins.

Áður hafa þessi hlotið nafnbótina: Sigsteinn Pálsson, Hjalti Úrsus Árnason, Jóhann Ingi Guðbergsson, Albert Rútsson, Embla­ Ágústsdóttir, Steindi Jr., Hanna Símonardóttir, Greta Salóme, Kaleo, Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir, Sigrún Þ. Geirsdóttir, Guðni Valur Guðnason og Jón Kalman Stefánsson.

Útnefningin verður kunngjörð í fyrsta blaði ársins 2019, fimmtudaginn 10. janúar.