gauisörf

Flæði

gauisörf

Flæði er eftirsóknarvert ástand. Lykilatriði þegar kemur að vellíðan og hamingju. Flæði er þegar maður er að gera eitthvað sem manni finnst svo áhugavert, spennandi, gefandi eða skemmtilegt að maður gleymir öllu öðru. Spáir ekki í hvað klukkunni líður, hvað eigi að vera í matinn í kvöld eða hvað maður sé að fara að gera á morgun eða hinn. Það eina sem skiptir máli er það sem maður er að gera akkúrat núna.

Flæði er einstaklingsbundið. Það sem einn upplifir sem flæði getur öðrum fundist drepleiðinlegt. Það er eðlilegt, þótt við mannfólkið eigum margt sameiginlegt og séum félagsverur þá erum við um leið ólík. Brennum fyrir ólíkum hlutum. Vinnan okkar ætti að vera þannig að hún gæfi okkur kost á því að vera í flæði. Að við séum að sinna verkefnum sem okkur þykja áhugaverð og gefandi. Við höfum örugglega öll verið í vinnu þar sem tíminn virtist ekki líða. Stóð bara kyrr. Það er ekki flæði.

Því oftar sem við erum í flæði, því betur líður okkur. Best er að flæðislínur innan fjölskyldna séu að hluta sameiginlegar eða skarist á einhvern hátt þannig að einstaklingar innan þeirra upplifi gleði og hamingju við að gera hluti saman.
Lykilatriði er að velta þessu fyrir sér. Pæla í sjálfum sér og þeim sem standa manni næst. Hvað gefur okkur mest? Hvenær flýgur tíminn án þess að við tökum eftir því? Hvenær er ég svo niðursokkinn að ég tek ekki eftir neinu öðru?

Ég upplifði sjálfur magnað flæði í sjónum í síðustu viku. Á brimbretti, með fólkið mitt í kringum mig. Hvort ég náði öldu eða ekki skipti ekki máli. Það sem skipti máli var að vera úti í elementunum. Öldur, rigning, áskoranir, frelsi, samvera. Tíminn flaug, ekkert annað skipti máli eða komst að í þessa tvo klukkutíma. Mögnuð upplifun. Flæði.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 4. apríl 2019

Stjórn Hollvinasamtakanna: Bryndís Haraldsdóttir nýkjörinn formaður, Örn Kjærnested, Haukur Leósson, Sólrún Björnsdóttir, Jón Á. Ágústsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Birgir Gunnarsson forstjóri Reykjalundar.

Hollvinir gefa hjartaómtæki

Stjórn Hollvinasamtakanna: Bryndís Haraldsdóttir nýkjörinn formaður, Örn Kjærnested, Haukur Leósson, Sólrún Björnsdóttir, Jón Á. Ágústsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Birgir Gunnarsson forstjóri Reykjalundar.

Stjórn Hollvinasamtakanna: Bryndís Haraldsdóttir nýkjörinn formaður, Örn Kjærnested, Haukur Leósson, Sólrún Björnsdóttir, Jón Á. Ágústsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Birgir Gunnarsson forstjóri Reykjalundar.

Hollvinasamtök Reykjalundar gáfu á dögunum endurhæfingarmiðstöðinni á Reykjalundi hjartaómtæki af fullkomnustu gerð að verðmæti 8,3 milljóna. Aðalfundur samtakanna fór fram um síðustu helgi og var tækið formlega afhent auk þess sem kosið var nýtt fólk í stjórn Hollvinasamtakanna.
Hollvinasamtökin voru stofnuð í lok árs 2013 og hafa gefið Reykjalundi gjafir fyrir rúmlega 60 milljónir.
Í dag eru 364 félagar skráðir í samtökin en hægt er að ganga til liðs við þau á heimasíðu Reykjalundar og leggja þannig stærstu endurhæfingarmiðstöð á Íslandi lið.

eyrunlinda

Nauðsynlegt fyrir alla að huga vel að fótunum

eyrunlinda

Mosfellingurinn Eyrún Linda Gunnarsdóttir löggiltur fótaaðgerðafræðingur útskrifaðist með hæstu einkunn frá Keili í janúar. Í kjölfarið opnaði hún fótaaðgerðastofuna Heilir fætur í verslunarkjarnanum í Hvera­fold í Grafarvogi.
„Samkvæmt Félagi íslenskra fótaaðgerðafræðinga eru helstu störf fótaaðgerðafræðinga fyrst og fremst að viðhalda og upplýsa almenning um heilbrigði fóta. Þeir greina og meðhöndla algeng fótavandamál eins og sveppasýkingar, vörtur, líkþorn, inngrónar táneglur og siggmyndun. Einnig bjóða þeir upp á sérsmíðuð innlegg og hlífðarmeðferðir sem ætlað er að létta á hinum ýmsu svæðum fótanna og þannig draga úr verkjum eða meinamyndunum,“ segir Eyrún Linda.

Allir gildir fyrir fótaaðgerð
„Ég tel að fótaumhirða sé mjög mikilvæg, sér í lagi hjá fólki með sykursýki, taugasjúkdóma, gikt, húðsjúkdóma, íþróttameiðsli eða sem einfaldlega á erfitt með að sinna fótunum sjálft. Svo eru auðvitað allir velkomnir sem vilja gera vel við sig.
Hægt er að fjárfesta í gjafabréfi á stofunni sem er að margra mati mjög sniðug gjöf fyrir þá sem eiga allt. Opið er á stofunni frá 9 á morgnana til 16 á daginn eða eftir samkomulagi og hægt er að bóka utan opnunartíma.“

Við eigum bara eitt sett af fótum
„Full meðferð í fótaaðgerð felur í sér fótabað, klipptar neglur og þynningu ef þess þarf ásamt snyrtingu niður með hliðum nagla. Einnig er sigg minnkað, líkþorn fjarlægð séu þau til staðar og fótanudd með góðu fótakremi í lokin.
Allir eru gildir fyrir fótaaðgerð hvort sem um er að ræða börn, unglinga, ungt fólk eða eldra. Við erum bara með eitt sett af fótum sem þarf að huga vel að,“ segir Eyrún Lind að lokum en hægt er að nálgast allar upplýsingar um stofuna á facebook síðunni Heilir fætur – fótaaðgerðastofa.

vallarhusid_mosfellingur

Vallarhúsið að Varmá fær yfirhalningu

vallarhusid_mosfellingur

Undanfarnar vikur hafa heilmiklar framkvæmdir átt sér stað í Vallarhúsinu að Varmá. Nokkrir vaskir sjálfboðaliðar úr röðum Aftureldingar hafa unnið að því hörðum höndum að taka húsnæðið í gegn sem hefur undanfarin ár þjónað sem félagsheimili Aftureldingar.
Þann 2. febrúar sl. var Aftureldingu úthlutað 1.000.000 kr. úr Samfélagssjóði Kaupfélag Kjalnesþings. Þeir fjármunir hafa verið nýttir til að endurnýja húsakostinn. „Þetta er mikil búbót fyrir félagið að geta endurnýjað þess aðstöðu, borð, stóla, eldhús og annað nytsamlegt. Öll vinna var unnin í sjálfboðavinnu. Við fengum svo frábæra viðbót frá bænum og gátum því skipt um gólfefni líka. Við nýttum tækifærið til að mála og breyta okkur til hagræðingar,“ segir Hanna Björk Halldórsdóttir íþróttafulltrúi Aftureldingar.
„Við hlökkum ákaflega til að klára vinnuna í vikunni og geta boðið iðkendum okkar og forráðamönnum upp á huggulegt húsnæði sem nýta má í félagsstarfið okkar.”

Á næstunni munu 19 ný 
hús bætast við Súluhöfða.

Framkvæmdir hafnar við Súluhöfða

Á næstunni munu 19 ný  hús bætast við Súluhöfða.

Á næstunni munu 19 ný hús bætast við Súluhöfða í Mosfellsbæ.

Hafnar eru framkvæmdir við gatnagerð við Súluhöfða 32–57. Um er að ræða nýja íbúðagötu milli núverandi neðsta botnlanga götunnar og golfvallarins við Leirvoginn. Gamli golfskálinn mun víkja á næstunni auk æfingaaðstöðu.
Samhliða gatnagerð er unnið að endurnýjun þrýstilagnar frá skólpstöðinni í Leirvogi. Reisa á 19 einbýlishús í þessari viðbót við Súluhöfðann.

Svava Ýr er skólastjóri
íþróttaskóla barnanna.

Forréttindi að vinna með börnum

Svava Ýr er skólastjóri íþróttaskóla barnanna.

Svava Ýr er skólastjóri Íþróttaskóla barnanna.

Íþróttaskóli barnanna hefur verið starfræktur að Varmá síðan árið 1992 og er það Svava Ýr Baldvinsdóttir sem stýrir skólanum og hefur gert frá upphafi.
Svava Ýr er íþróttakennari að mennt, hún hefur þjálfað handbolta hjá Aftureldingu um árabil og starfað sem einn af öflugustu sjálfboðaliðum félagsins til margra ára. Íþróttaskólinn fer fram á laugardagsmorgnum og er ætlaður 3, 4 og 5 ára börnum en námskeiðin standa yfir í 12 vikur bæði að hausti og vori.
Frá upphafi hefur verið mikil ásókn í skólann og oft hafa færri komist að en viljað.

Skemmtileg og heilbrigð samvera
„Ég hef stýrt íþróttaskólanum í 27 ár og hef alltaf jafn gaman af því. Með mér á þessu tímabili hefur starfað fjöldinn allur af frábæru, metnaðarfullu og skemmtilegu fólki. Ég hef ekki töluna á þeim fjölda barna sem hefur sótt skólann en það er gaman að segja frá því að það er ekki óalgengt að fólk sem var í íþróttaskólanum sem krakkar er að koma með sín börn, sem hlýtur að vera hrós,“ segir Svava hlæjandi.
Íþróttaskólinn hefur það að markmiði að efla bæði hreyfi- og félagsþroska, kynna reglur íþróttahússins og stuðla að skemmtilegri og heilbrigðari samveru á milli barna og foreldra.
„Tímarnir eru mjög fjölbreyttir og kynni ég markvisst allar þær íþróttagreinar sem Afturelding býður upp á. Börnin öðlast góðan grunn fyrir áframhaldandi íþróttaiðkun og ég legg mikla áherslu á að kenna jákvæð samskipti, samvinnu og held góðum aga.
Svo legg ég auðvitað áherslu á að foreldrar taki vikan þátt og leiki sér með börnunum í tímunum.“

Forvarnargildi hreyfingar er mikið
„Uppbygging tímana er alltaf sú sama, upphitun, aðalþáttur og slökun. Ég fer inn á margt og reyni að tengja almenna fræðslu inn í leikinn bæði hvað varðar líkamann, almenn samskipti og tillitssemi og aga svo eitthvað sé nefnt. Það eru allir sammála um að forvarnargildi hreyfingar er mikið og ég er stolt af íþróttaskólanum og því starfi sem þar fer fram.
Íþróttaskólinn er öllum opinn og þar ríkir alltaf gleði og kærleikur,“ segir Svava Ýr að lokum og tekur fram hversu gefandi og mikil forréttindi það séu að fá að vinna með börnunum og foreldrum þeirra.

Tölvugerð mynd af stækkuninni í átt að Baugshlíð.

Undirbúa stækkun World Class

Tölvugerð mynd af stækkuninni í átt að Baugshlíð.

Tölvugerð mynd af stækkuninni í átt að Baugshlíð.

Hafnar eru framkvæmdir á lóðinni við Lágafellslaug vegna fyrirhugaðrar stækkunar World Class.
Um er að ræða 924 fermetra hús á tveimur hæðum þar sem verða æfingasalir og búningsherbergi.
Nú stendur yfir færsla á fjarskipta-, vatns- og frárennslislögnum sem er undanfari þess að hægt verði að grafa fyrir viðbyggingunni.

wcmos2

 

Formenn Umfus, Birgir Grímsson og Óskar Ágústsson, ásamt Elíasi Níelssyni þjálfara og Ölfu Regínu systur Tobba.

Héldu kótilettukvöld til styrktar félaga sem glímir við veikindi

Formenn Umfus, Birgir Grímsson og Óskar Ágústsson, ásamt Elíasi Níelssyni þjálfara og Ölfu Regínu systur Tobba.

Formenn Umfus, Birgir Grímsson og Óskar Ágústsson, ásamt Elíasi Níelssyni þjálfara og Ölfu Regínu systur Tobba.

Þann 8. mars héldu UMFUS-menn sitt árlega kótilettu-styrktarkvöld. Undanfarin ár hafa þeir haldið þennan styrktarviðburð og gefið allan ágóða til verðugs málefnis.
Að þessu sinni rann styrkurinn til Mosfellingsins Þorbjörns Jóhannssonar eða Tobba eins hann er alltaf kallaður. Tobbi hefur glímt við erfið veikindi síðan 2006 en síðastliðið haust greindist hann með bráðahvítblæði.
Tobbi og Emilíu eiginkona hans hafa dvalið í Svíþjóð á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi síðan í janúar þar sem hann gengst undir mergskipti.
Von er á þeim heim eftir rúma tvo mánuði en þá tekur við meðferð og endurhæfing á Reykjalundi.

Nauðsynlegt að hafa jákvæðni að vopni
Það var systir Tobba, Alfa Regína Jóhannsdóttir, sem tók við styrknum fyrir hönd bróður síns og las upp fallega kveðju frá Tobba sem meðal annars talaði um að svona veikindi setji lífið algjörlega úr skorðum og að nauðsynlegt sé að fara í gegnum svona pakka með jákvæðni og æðruleysi að vopni.
UMFUS-menn vilja koma á framfæri þökkum til allra sem styrktu þetta góða málefni með nærveru sinni, framlögum og aðstoð. Það var Ragnar Sverrisson hjá Höfðakaffi sem sá um veitingarnar en aðrir styrktaraðilar voru m.a. Ölgerðin, 66° norður, Fóðurblandan, Margt smátt, Smart Socks, Blackbox og Jóhann Ólafsson & co.

Anna Björk Eðvarðsdóttir formaður Hringsins nýtur þess að starfa að líknar- og mannúðarmálum.

Aðbúnaður veikra barna er alltaf í forgangi

Anna Björk Eðvarðsdóttir formaður Hringsins nýtur þess að starfa að líknar- og mannúðarmálum.

Anna Björk Eðvarðsdóttir formaður Hringsins nýtur þess að starfa að líknar- og mannúðarmálum.

Anna Björk er stórglæsileg og geislandi og nýtur hversdagsleikans hvern einasta dag því hún veit af eigin reynslu að hann er ekki sjálfsagður hlutur. Árið 2002 veiktist Anna alvarlega og um tíma var henni ekki hugað líf. Hún var tvö ár að koma sér á fætur aftur og var heppin að skaðast ekki varanlega.
Í dag sinnir hún formannsstarfi hjá Hringnum. Hún segir að starf sitt þar sé hennar leið til að láta allt það góða sem hún naut í átt að betri heilsu ganga áfram til þeirra sem eiga um sárt að binda.

Anna Björk er fædd í rúmi afa síns á Eiríksgötunni í Reykjavík 29. júlí 1958. Foreldrar hennar eru Ingibjörg Jóhannesdóttir ritari og bankastarfsmaður og Cyril Edward Walter Hoblyn bankastarfsmaður.

Drullumölluðum á gangstéttunum
„Ég ólst upp fyrstu árin mín á Eiríksgötu en þar bjó hluti fjölskyldu minnar. Ég og vinkonur mínar, Ingibjörg og Maja, lékum okkur mikið saman á túninu við Landspítalann, þar drullumölluðum við á gangstéttunum.
Leið mín lá síðan vestur í bæ á Hjarðarhagann þegar ég var sjö ára, þá tók Ægi­síðan við, grásleppuskúrarnir, fjaran og stór hópur af krökkum sem léku sér saman í boltaleikjum. Báðir þessir staðir skilja eftir sig góðar minningar.“

Þetta voru mínir töfrastaðir
„Stundirnar í Svanahvammi, bústaðnum hjá afa og ömmu í Grímsnesinu, voru dásamlegar. Að leika mér að sprekinu sem afi hafði sagað í eldavélina hennar ömmu og lækurinn þar sem gamli mjólkurbrúsinn var í kælingu, þetta voru mínir töfrastaðir,“ segir Anna og brosir.
„Ég hafði ekki gaman af því að vera í skóla fyrr en ég fór í öldunginn í Menntaskólanum í Hamrahlíð en áður var ég í Austurbæjar-, Mela- og Hagaskóla. Enska hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér en ég er með Shakespeare blæti.
Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór ég að vinna í tískuverslun, sinnti fyrirsætustörfum og sýndi á tískusýningum með Karon-samtökunum.“

Ungfrú Ísland 1977
Árið 1976 var Anna valin fulltrúi ungu kynslóðarinnar og fór til Tókýó að keppa fyrir Íslands hönd á Miss Young International. Ári seinna var hún valin ungfrú Ísland og ferðaðist mikið það ár. Árið 1978 fór hún svo til Mexíkó og Acapulco til að taka þátt í keppninni Miss Universe.
„Þetta var virkilega skemmtilegur tími og skilur eftir sig margar góðar minningar. Þegar ég kom heim aftur fór ég að starfa hjá Húsameistara ríkisins. Ég var í námi með fullri vinnu og starfaði í bakaríi um helgar, allt til þess að geta keypt mína fyrstu íbúð.“

Stofnuðu arkitektastofu
Anna Björk kynntist eiginmanni sínum, Guðjóni Magnússyni arkitekt árið 1984 en þau kynntust hjá Húsameistara ríkisins þar sem þau voru bæði við störf. Þau eiga saman þrjár dætur, Aðalheiði Önnu f. 1989 og tvíburana Ingibjörgu Sigríði og Rut Margréti fæddar 1992. „Um það leyti sem við eignuðust tvíburana stofnuðum við hjónin arkitektastofu sem við höfum rekið síðan. Ég hef starfað þar ásamt því að sinna öðrum störfum.
Áður en við fluttum í Mosfellsbæ þá vorum við komin á fullt í hestamennsku og búin að kaupa okkur hesthús hér en við bjuggum áður á Seltjarnarnesi.“

Var ekki hugað líf
Árið 2002 veiktist Anna Björk alvarlega og þurfti að berjast fyrir lífi sínu. Hún hafði fengið bráða heilahimnubólgu og punktablæðingar um allan líkamann. Um tíma var henni ekki hugað líf og var haldið sofandi í tíu daga. Þegar hún vaknaði þá var hún svo illa farin að hún varð að læra alla hversdagslega hluti upp á nýtt eins og að sitja upprétt, ganga og bursta tennurnar.
„Það var full vinna hjá mér í tvö ár að koma mér á fætur aftur og ég þurfti að nota allt mitt hugrekki og þrek til að gera það því uppgjöf var ekki í boði. Ég var mjög heppin að skaðast ekki varanlega nema að mjög litlu leyti. Eftir veikindin er ég með aðeins skerta heyrn á öðru eyranu og svo er ég með viðkvæma liði. En það er ekkert mál, ég læt ekkert stoppa mig í því sem mig langar til að gera.“

50 milljónir í ýmis verkefni á síðasta ári
„Árið 2006 gekk ég í kvenfélagið Hringinn og hef verið starfandi sjálfboðaliði síðan. Á síðasta ári var ég kosin formaður félagsins sem var mikill heiður. Starf mitt í Hringnum er mín leið til að láta allt það góða sem ég naut í átt að betri heilsu ganga áfram til þeirra sem eiga erfitt.
Hringurinn er stærsti stuðningsaðili Barnaspítala Hringsins, vökudeildarinnar og Bugl auk ýmissa verkefna á LSH. Félagið var 115 ára í janúar sl. og um 400 konur eru starfandi í félaginu. Við héldum upp á afmælið með því að opna veitingastofuna eftir miklar breytingar. Gáfum Barnaspítalanum 30 milljónir í tilefni dagsins en aðbúnaður barna er alltaf í forgangi.
Á síðasta ári gaf Hringurinn nærri 50 milljónir í ýmis verkefni.“

Fær útrás fyrir sköpun og tjáningu
„Árið 2012 fór ég að blogga um mat á síðunni minni, annabjork.is. Ég hef mikinn áhuga á mat og öllu sem viðkemur matargerð. Ég hef líka mikinn áhuga á ljósmyndun svo ég er heppin að geta sameinað þetta tvennt og fá útrás fyrir sköpun og tjáningu. Við Guðjón erum dugleg að fara í gönguferðir, ég fer með myndavélina og hann með skissubókina en hann hefur mikinn áhuga á vatnslitun.“

Ógleymanleg upplifun
„Helsta áhugamál okkar hjóna eru skútusiglingar, við eigum Júlíu Önnu sem er 34 feta seglskúta. Við höfum siglt mikið um Faxaflóann, farið vestur á firði og í eina skiptið sem við höfum farið á Þjóðhátíð í Eyjum fórum við siglandi á skútunni. Það var ógleymanleg upplifun, við féllum alveg fyrir fólkinu, hvað allir voru hjálplegir og elskulegir. Stemningin í Eyjum var frábær og veðrið lék við okkur sem gerði allt svo yndislegt.“

Forréttindi að sjá fjölskylduna dafna
Við hjónin höfum eytt miklum tíma í sumarbústað okkar en þar náum við að slaka vel á. Í vetur byrjuðum við svo að fara í sjósund, sem er ágæt tenging við siglingarnar.
Mér var boðið að ganga í Rótarýklúbbinn hér í bæ síðasta vor og það var mjög skemmtilegt að kynnast öllu því góða fólki sem þar er. Síðast en ekki síst er ég orðin amma og nýt þess í botn að eiga tvo ömmudrengi en þeir heita Andri Hrafnar og Guðjón Freyr. Það eru algjör forréttindi að fá að njóta samvista við þá tvo og sjá fjölskyldu okkar Guðjóns stækka og dafna.“

Mosfellingurinn 14. mars 2019
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

ssss

Mosó kemur vel út í könnun Gallup

ssss

Mosfellsbær á fallegum sumardegi. Horft yfir Krikahverfi í átt að  Esju.

Gallup kannar árlega þjónustu sveitarfélaga og mælir þannig viðhorf íbúa til þjónustu í 19 stærstu sveitarfélögum landsins. Að venju er Mosfellsbær í efstu sætum og yfir landsmeðaltali utan eins málaflokks.
Á árinu 2018 var Mosfellsbær í þriðja sæti þegar lagt er mat á sveitarfélagið sem stað til að búa á og reyndust 91% aðspurðra frekar eða mjög ánægðir með Mosfellsbæ sem stað til að búa á.
Mosfellsbær er vel yfir landsmeðaltali í níu málaflokkum af tólf, á pari í tveimur málaflokkum en undir landsmeðal­tali í einum málaflokki. Sá málaflokkur er aðstaða til íþróttaiðkunar sem dalar milli ára. Í fyrra voru 77% íbúa frekar eða mjög ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar en 84% íbúa í Mosfellsbæ voru ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar árið 2017.
Þá niðurstöðu þarf væntanlega að rýna og nýta til þess að gera enn betur á nýju ári. Nú standa yfir miklar framkvæmdir á sviði íþróttamannvirkja hjá Mosfellsbæ þar sem er annars vegar bygging fjölnota íþróttahúss og hins vegar endurnýjun gólfa í sölum Varmár.

Mosfellsbær í fremstu röð
Spurðir um afstöðu til þjónustu Mosfellsbæjar í heild reyndust 82% mjög eða frekar ánægð en á milli ára hækkar Mosfellsbær í þremur málaflokkum en lækkar í tveimur.
Ánægja vex milli ára á sviði leikskólamála, grunnskólamála og því hversu vel íbúum þykir starfsfólk bæjarins hafa leyst úr erindum þeirra. Það dregur hins vegar úr ánægju milli ára á sviði aðstöðu til íþróttaiðkunar og hvernig sveitarfélagið sinnir menningarmálum.

Ánægjuleg tíðindi
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segist um margt ánægður með útkomuna og að könnun Gallup sé á hverjum tíma hluti af þeim gögnum sem nýtt eru til þess að vinna að umbótum í starfsemi Mosfellsbæjar.
„Það sem er ánægjulegt er að á heildina litið eru Mosfellingar mjög ánægðir með bæinn sinn. Við höfum alltaf verið í einu af þremur efstu sætunum þegar spurt er um Mosfellsbæ sem stað til að búa á og ég er nú sem fyrr stoltur af því.
Íbúafjölgun síðustu tveggja ára er mikil og að mínu mati eru það frábær tíðindi að okkar flotta starfsfólki hafi tekist að taka á móti um 1.000 nýjum íbúum tvö ár í röð og haldið áfram að veita íbúum framúrskarandi þjónustu.
Það er gott að sjá að ánægja með þjónustu grunnskóla og leikskóla eykst á milli ára og það sama gildir um það hversu vel íbúum þykir starfsfólk bæjarins hafa leyst úr erindum þeirra.
Eins og ávallt þá er svigrúm til að gera betur og ég vil huga vel að þeim þáttum sem koma síður út í könnuninni eða rísa hægar en metnaður okkar stendur til og vinna markvisst að umbótum á þeim sviðum.“

—–
Heildarúrtak í könnuninni er 9.861 manns, þar af 420 svör úr Mosfellsbæ. Nánari upplýsingar má finna á slóðinni mos.is/gallup2018.

okkarm

Hugmyndasöfnun hafin fyrir Okkar Mosó 2019

okkarm

Útivistarparadís á Stekkjarflöt hlaut flest atkvæði í Okkar Mosó árið 2017. Strandblakvöllur var meðal þess sem var framkvæmt á svæðinu.

Nú stendur yfir hugmyndasöfnun vegna Okkar Mosó 2019 sem er samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ.
Verkefnið byggir m.a. á þeim áherslum sem settar eru í lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar um samráð og íbúakosningar þar sem leitast skal við að hafa samráð við íbúa og hagsmunaaðila áður en ákvarðanir eru teknar í mikilvægum málefnum er varða hagsmuni þeirra. Einnig er markmið verkefnisins að virkja almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku umfram það sem gerist í hefðbundnu fulltrúalýðræði.

Allt að 35 milljónir í pottinum
Okkar Mosó 2019 byggist á þeirri reynslu sem skapaðist í sambærilegu verkefni á árinu 2017 auk þess að byggja á reynslu annarra borga og bæja hérlendis og erlendis.
Gert er ráð fyrir að verja allt að 35 milljónum króna til framkvæmda á þeim hugmyndum að verkefnum sem hljóta brautargengi í kosningum sem fara fram dagana 17.– 28. maí.
Sem fyrr verður Mosfellsbær allur eitt svæði í hugmyndasöfnun og kosningu. Við úrvinnslu hugmynda verður hins vegar leitast við að tryggja að þau verkefni sem kosið verður um séu landfræðilega dreifð innan sveitarfélagsins.

Óskað eftir frumlegum hugmyndum
Óskað er eftir hugmyndum frá íbúum um smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefni í Mosfellsbæ til að kjósa um í íbúakosningu. Hugmyndin verður að falla að stefnu bæjarins og getur ekki verið háð samráði eða samningaviðræðum við aðrar stofnanir eða sveitarfélag.
Sérstaklega er hvatt til þess að þátttakendur setji fram frumlegar hugmyndir eða nýja nálgun við þekkt viðfangsefni. Hugmyndir geta t.d. varðað umhverfið almennt og möguleika til útivistar og samveru, s.s. bekkir, gróður, útilistaverk og fegrun. Bætta lýðheilsu þ.e. aðstöðu til leikja eða afþreyingar, s.s. að bæta leiksvæði og endurnýja leiktæki. Vistvænar samgöngur þ.e. betri aðstöðu til göngu, hjólreiða og notkun almenningssamgangna, s.s. stígatengingar, lýsingu og lagfæringu gönguleiða.

Greinargóð lýsing æskileg
Hugmyndir að verkefnum þurfa að mæta eftirfarandi skilyrðum til að eiga möguleika á að verða sett í kosningu:
• Nýtist hverfi eða íbúum bæjarins í heild.
• Vera til fjárfestinga en ekki rekstrar.
• Vera framkvæmanleg án mjög flókins undirbúnings.
• Varða umhverfi á bæjarlandi en ekki á landi í einkaeigu.
• Líftími fjárfestingar skal vera að lágmarki fimm ár.
• Falla að skipulagi Mosfellsbæjar og stefnu, sé í verkahring sveitarfélagsins og á landi í eigu þess.
Hugmyndin þarf að vera framkvæmanleg, skýr og lýsandi, þannig að aðrir eigi auðvelt með að átta sig á því sem um er að ræða. Koma þarf fram um hvað verkefnið snýst og hvar nákvæm staðsetning er. Greinargóð lýsing auðveldar mat og hvort hugmynd nái athygli annarra íbúa ef hún kemst í kosningu.

hamrarnet

Stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra

hamrarnet

Velferðarráðuneytið hefur samþykkt ósk Mosfellsbæjar um að stækka hjúkrunarheimilið Hamra um 44 rými og verða rými heimilisins þá alls 74. Stækkunin mun auka framboð á hjúkrunarrýmum auk þess að gera rekstrareininguna hagkvæmari. Undirbúningsvinna er þegar hafin í samvinnu ráðuneytisins og Mosfellsbæjar. Bæjarráð Mosfellsbæjar fagnar áformum um stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra og er til viðræðna um að byggja hjúkrunarheimilið ef viðunandi samningur næst en leggur til að rekstur heimilisins verði á hendi ríkisins enda er það lögbundið verkefni ríkisins.

Bæjarráð fól bæjarstjóra áframhaldandi viðræður við ríkið. Lögbundið er að sveitarfélög greiða 15% af stofnkostnaði hjúkrunarheimila en ríkið 85%. Hjúkrunarheimilið Hamrar var vígt 27. júní 2013. Þar eru 30 einstaklingsíbúðir en heimilið er 2.250 fermetrar. Hamrar eru á sama stað og öryggisíbúðir og þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara.

Heilsumolar_Gaua_14mars

Lægri skattur á hollustu?

Heilsumolar_Gaua_14mars

Ég get ekki hægt að hugsa um matsölustaðina í Mosfellsbæ. Líklega vegna þess að ég er á flakki um heiminn og upplifi sterkt hvað umhverfið hefur mikil áhrif á heilsufar íbúa. Ég hef farið í hverfi þar sem mikil leitun var að hollum munnbita. Nánast allt sem hægt var að kaupa í þeim var bæði ódýrt og óhollt. Og fólkið sem rölti um þessi hverfi endurspeglaði vöruframboðið. Allt of þungt og óheilbrigt að sjá. Ég hef líka verið í hverfum þar sem hollustan er í fyrirrúmi. Og verðið mannsæmandi.

Fólk sem býr í þannig hverfum lítur öðruvísi út. Hreyfir sig öðruvísi. Þetta skiptir máli. Mjög miklu. Að fólki standi til boða hollur og góður matur á verði sem það ræður við. Ég hef líka farið inn í búðir sem bara moldríkir hafa efni á að versla í. Flottar búðir með hollar og góðar vörur, maður lifandi. En það er ekki leiðin, að hollustan sé bara fyrir þá sem eiga sand af seðlum og að þeir sem búa ekki svo vel verði að sætta sig við óhollustu. Það leiðir bara til enn meiri ójöfnuðar í samfélögum.

En hvað er hægt að gera, hvernig fáum við holla og ekki of dýra matsölustaði í Mosfellsbæ? Getum við prófað nýjar leiðir til þess að fá slíka staði í bæjarfélagið okkar? Leiðir sem ekki hafa verið farnar áður. Ættum við kannski að bjóða hollustustöðum lægri leigu, lægri fasteignagjöld, skattaafslátt eða eitthvað annað sem skiptir máli fyrir reksturinn? Þetta er gert á ýmsum stöðum í heiminum, af hverju ekki í Mosfellsbæ?

Hvað segir þú, kæri lesandi? Lumar þú á einhverjum hugmyndum? Ef svo, máttu endilega senda mér línu á gudjon@njottuferdalagsins.is og ég skal koma þeim á framfæri. Minni svo alla á að taka eftir litlu hlutunum í lífinu, ekki æða í gegnum það í stresskasti. Hamingju – og heilsukveðjur!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 14. mars 2019

Nýjar skólareglur 
tóku gildi í eldri deild Varmárskóla um áramótin.

Snjallsímabann hefur gengið vonum framar

Nýjar skólareglur tóku gildi í eldri deild Varmárskóla um áramótin.

Nýjar skólareglur tóku gildi í eldri deild Varmárskóla um áramótin.

Um áramótin tóku í gildi nýjar skólareglur um notkun snjall­síma á skólatíma í eldri deild Varmárskóla. Ákvörðunin var tekin í samráði við nemendafélag skólans og er hluti af verkefninu Betri skólabragur.
„Þegar þessi hugmynd kom upp þá funduðum við með nemendaráði skólans. Þau voru tilbúin að koma með okkur í þetta verkefni og við unnum þetta í raun með þeim. Þau gengu svo í allar stofur og kynntu nýju reglurnar fyrir samnemendum sínum,“ segir Þórhildur Elfarsdóttir skólastjóri Varmárskóla.

Hafa keypt borðtennisborð og fótboltaspil
Nýju símareglurnar eru þær að ekki má vera í síma á göngum skólans eða í kennslustofum nema að kennari gefi til þess sérstakt leyfi. Brjóti nemandi símareglurnar er síminn tekinn og afhentur aftur í lok skóladags.
„Þetta hefur gengið ljómandi vel, eiginlega betur en við þorðum að vona. Skólinn hefur komið til móts við nemendur í þessu verkefni og keypt inn ný leiktæki eins og borðtennisborð og fótboltaspil. Auðvitað hefur þetta reynst nemendum miserfitt en ég held að í heildina séu allir ánægðir með þetta, bæði nemendur, kennarar og foreldrar.“

Líf á göngunum í frímínútum
„Skólabragurinn hefur breyst mikið og nota krakkarnir tímann í að leika, spila og lesa. Ein ástæðan fyrir því að við fórum í þessar breytingar var að við upplifðum að í frímínútum voru allir í sínum síma og einu samskiptin voru kannski þegar þau voru að sýna hvert öðru eitthvað í símanum. Núna er meira líf á göngunum og meiri hávaði sem er jákvætt í þessu samhengi,“ segir Þórhildur að lokum.

mosfellingurinn_maria

Aldrei of seint að byrja að æfa

mosfellingurinn_maria

María Guðrún Sveinbjörnsdóttir vélaverkfræðingur í þróunardeild Össurar er fremsta taekwondo-kona landsins.

Taekwondo er ævaforn kóresk bardaga- og sjálfsvarnaríþrótt þar sem fæturnir leika aðalhlutverkið. María Guðrún Sveinbjörnsdóttir byrjaði að æfa taekwondo fyrir níu árum og hefur náð frábærum árangri. Hún er margfaldur Íslands- og bikarmeistari og hefur keppt á mörgum mótum fyrir Íslands hönd.
María leggur mikið af mörkum við uppbyggingu á taekwondo-íþróttinni á Íslandi og hefur verið máttarstólpi í allri þeirri vinnu.

María Guðrún er fædd í Reykjavík 28. júní 1980. Foreldrar hennar eru þau Halldóra Jóna Guðmunda Sölvadóttir íþróttaþjálfari og Sveinbjörn Guðjón Guðjónsson bifvélavirki en hann er látinn.
Systkini Maríu eru þau Laufey Jakobína f. 1959 d. 2018, Guðbjörg Sveinfríður f. 1962, Viðar Örn f. 1963 og tvíburasystirin Halla Sigrún f. 1980.

Þræddum allar bílasölur
„Ég ólst upp í Kópavoginum og þar var fínt að alast upp. Þegar maður rifjar upp æskuna þá eru minningarnar ansi margar en eftirminnilegir voru nú sunnudagsbíltúrarnir með pabba og tvíburasystur minni. Pabbi þræddi allar bílasölur á höfuðborgarsvæðinu og svo lá leiðin út á Granda til að skoða bátana. Áður en haldið var heim á leið var komið við á Bæjarins bestu.
Hvert einasta sumar fórum við fjölskyldan vestur því mamma er frá Aðalvík á Hornströndum og pabbi frá Hesti í Önundarfirði. Það skemmtilegasta sem ég veit er að vera á þessum stöðum, að njóta náttúrunnar og ganga á fjöll. Tvö af systkinum mínum bjuggu á Ísafirði þegar ég var barn og ég fékk oft að verða eftir hjá þeim yfir sumartímann og það fannst mér nú ekki leiðinlegt.“

Lesblinda háði mér alla tíð
„Ég gekk í Hjallaskóla og fór svo í Menntaskólann í Kópavogi. Ég var svona eins og sumir segja, lúði eða nörd og var ekki vinsælasti krakkinn í skólanum.
Ég var mjög samviskusöm og góð í raungreinum en lesblinda háði mér alla tíð og ég átti erfitt með tungumálin. Ég skammaðist mín fyrir að vera lesblind og reyndi að halda því leyndu eins lengi og ég gat. Í dag er staða mín allt önnur og ég læt ekkert stoppa mig.
Ég vann alla tíð með skóla en ég vann hjá mömmu við að baka kleinur á morgnana, svo skúraði ég á kvöldin og var stuðningsfulltrúi um helgar.“

Pantaði pizzu á Dominos
„Ég starfaði á Dominos á menntaskólaárunum og þar kynntist ég eiginmanni mínum, Eyjólfi Bjarna Sigurjónssyni viðskiptafræðingi á endurskoðandasviði hjá Deloitte, en hann var að panta sér pizzu. Við trúlofuðum okkur ári seinna þegar hann var að útskrifast úr Verzló en þá átti ég ár eftir í námi. Hann fór síðan í nám á Bifröst og kom til mín um helgar. Ég ákvað að taka mér ársfrí frá námi eftir útskrift og flutti upp á Bifröst og fékk vinnu á leikskólanum. Ég varð fljótlega ófrísk og dóttir okkar, Vigdís Helga, fæddist árið 2001 og árin á Bifröst urðu tvö.“

Flutti til Danmerkur
Árið 2002 eða eftir dvölina á Bifröst flutti fjölskyldan til Danmerkur og María Guðrún fór í vélaverkfræðinám í háskólanum í Álaborg. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tækni og þá vélum sérstaklega, rífa þær í sundur og sjá hvernig þær virka. Það lá alltaf vel fyrir mér að læra vélaverkfræðina og ég var orðin góð í að handreikna stærðfræðina. Eyjólfur var heima með dóttur okkar til að byrja með en fór síðan í nám í alþjóðaviðskiptum.
Við eignuðumst svo aðra dóttur árið 2005, Iðunni Önnu, og ég rétt náði að verja ritgerðina mína áður en hún kom í heiminn.“

Smábær í stórborg
„Þegar ég var búin með eitt ár af tveimur í mastersnáminu varð pabbi minn bráðkvaddur. Við fluttum þá skyndilega heim til Íslands til að hjálpa mömmu og vera nær fjölskyldunni. Við fluttum í Mosó því maðurinn minn tók ekki annað í mál enda alinn hér upp frá 12 ára aldri. Ég sé alls ekki eftir því að hafa flutt hingað því þetta er svona smábær í stórborg.
Ég samdi við stoðtækjafyrirtækið Össur um að fá að klára mastersritgerðina hjá þeim og var þá nemi í eitt ár. Ég útskrifast svo 2008 og hef starfað þar síðan. Það er dásamlegt að vera þarna og ég starfa við þróun í fótateyminu.
Við Eyjólfur eignuðumst yngsta barnið okkar, Sigurjón Kára, árið 2010. Við erum dugleg að ferðast fjölskyldan og förum á árlega á mínar heimaslóðir fyrir vestan.“

Það var ekki aftur snúið
„Einn daginn skutlaði ég dóttur minni á taekwondo-æfingu og ákvað að bíða eftir henni og horfa á æfinguna. Ég hafði lengi vel verið í karate og jujitsu en aldrei taekwondo­ og eftir æfinguna hugsaði ég með mér að þetta gæti verið skemmilegt. Ég skráði mig á æfingu og það var ekki aftur snúið, þetta var svo gaman og félagsskapurinn frábær. Það er aldrei of seint að byrja að æfa, ég hvet alla til að koma og prófa.
Ég hef lært ansi margt frá því ég byrjaði í taekwondo, þrautseigju, sjálfstraust og vera ekki hrædd við að mistakast.“

Sumir eru hissa og trúa okkur ekki
„Ég hef verið svo heppin að börnunum mínum finnst einnig skemmtilegt að æfa taekwondo og það hefur fært mig nær þeim. Að vera með dætrum mínum í landsliðinu, æfa og ferðast saman, er algjörlega ómetanlegt. Sumir eru mjög hissa og trúa því ekki að við séum mæðgur, halda að ég sé þjálfarinn eða systir þeirra.“
María Guðrún hefur keppt á mörgum mótum fyrir Íslands hönd og unnið til fjölda verðlauna. Hún var valin íþróttakona Mosfellsbæjar og íþróttakona Aftureldingar árið 2018 og hefur verið valin tae­kwondo-kona ársins hjá TKÍ tvö ár í röð.
En hvert skyldi María stefna í íþróttinni? „Ég stefni á að verða heimsmeistari þó að það taki mig mörg ár að komast þangað,” segir María og brosir er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 21. febrúar 2019
Myndir og texti: Ruth Örnólfs