Patrik Logi útskrifast úr 
krikaskóla 10 árum síðar

Á sama afmælisdag og Krikaskóli

Patrik Logi útskrifast úr krikaskóla 10 árum síðar

Patrik Logi útskrifast úr krikaskóla 10 árum síðar.

Þann 16. júní fagnaði Krikaskóli 10 ára afmæli. Nemendur og starfsfólk skólans héldu upp á daginn með dagskrá sem undirbúin var af krökkunum sjálfum.
„Börnin voru sammála um að þau vildu halda dagskrána utandyra með fjölbreyttum stöðvum sem endurspeglar áherslur skólans,“ segir Þrúður Hjelm skólastjóri.
„Það var þann 16. júní 2008 sem fyrstu börnin komu í aðlögun í Krikaskóla sem þá var staðsettur í Helgafellslandi meðan á byggingu skólans stóð í Sunnukrika. Flutt var í varanlegt húsnæði í Krikahverfinu vorið 2010.
Krikaskóli er samþættur leik- og grunnskóli fyrir börn á aldrinum tveggja til níu ára.“

Á fæðingardeildinni þegar eldri bróðirinn byrjaði
Skólaslit og útskriftir elstu barna skólans fór fram þann 25. júní. Patrekur Logi Vignisson var einn þeirra sem útskrifaðist þann dag en hann er einmitt fæddur 16. júní 2008 og er því jafngamall skólanum.
„Eldri sonur minn Hörður Óli byrjaði fyrsta daginn sinn í skólanum þennan dag. Amma hans þurfti að fylgja honum því ég var á fæðingardeildinni. Patti byrjaði svo í Krikaskóla þegar hann hafði aldur til. Við erum með tárin í augunum að kveðja skólann eftir allan þennan tíma.
Við fullyrðum að þetta sé besti skólinn,“ segir María Fjóla Harðardóttir móðir Patta.

gauiregn

Ráð við rigningu…

gauiregn

Sól slær silfri á voga, sjáðu jökulinn loga. Allt er bjart fyrir okkur tveim því ég er kominn heim. Það er fátt betra en að syngja um sólina sem slær silfri á voga með þúsundum Íslendinga nokkrum mínútum fyrir risastóran fótboltaleik. Fæ gæsahúð við tilhugsunina.

Sólin var í Rússlandi en hefur minna verið hér heima í sumar eins og einhverjir hafa tekið eftir. Mikil rigning á sumrin er ekki góð fyrir þjóðarsálina, en við getum ekki stýrt veðrinu og verðum því að finna aðrar leiðir til þess að halda okkur jákvæðum. Eitt það besta sem við getum gert er að byrja daginn vel. Koma okkur upp góðri morgunrútínu sem kemur okkur í gott hugarástand.

Ég mæli með blöndu af hreyfingu, útiveru og gefandi lærdómi. Þessi blanda hefur virkað vel fyrir mig undanfarna mánuði. Morgunrútínan er ekki alltaf eins, en ramminn er svipaður. Ég vakna á bilinu 5.45 – 6.15. Fer út í stutta morgungöngu í Reykjalundarskógi. Veðrið skiptir engu máli. Ég, eins og allir Íslendingar, á föt fyrir allt veður. Það er frábært að byrja daginn á því að labba úti í náttúrinni. Hlusta á fuglana, finna lyktina af gróðrinum, anda að sér ferska loftinu. Síðan tek ég liðleika- og líkamsæfingar. Eftir æfingarnar tek ég rispu í DuoLingo tungumálaforritinu. Fyrir Rússland lagði ég áherslu á rússnesku, nú er spænskan í aðalhlutverki. Útiveran, spriklið og tungumálastúdían tekur samtals 30 – 60 mínútur. Lengdin fer eftir því hvort ég er að þjálfa morgunsnillingana sem mæta til okkar á æfingar á þriðjudögum og fimmtudögum. Sá hópur gefur manni alltaf risa orkuskot inn í daginn. Málið er einfalt, ef maður velur að byrja daginn á hlutum sem gefa manni orku, þá er maður klár í hvað sem er, jafnvel haglél í júní.

Við byggjum saman bæ í sveit, sem brosir móti sól.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 28. júní 2018

sodlasmidur

Hefðbundinn starfsvettvangur ekki framtíðin

sodlasmidur

Guðrún Helga Skowronski ákvað að læra söðlasmíði svo hún gæti sameinað áhuga sinn á handverki og hestamennsku. Helga eins og hún er ávallt kölluð, lagði oft leið sína á sínum yngri árum í gegnum Mosfellsdalinn á leið í bústað fjölskyldunnar á Þingvöllum. Hún hugsaði oft um hvernig væri að eiga heima í dalnum en óraði ekki fyrir að einn daginn myndi hún setjast þar að en sú varð raunin.
Hún hóf störf á minkabúinu Dalsbúi árið 1999, giftist ábúandanum árið 2001 og ásamt því að sinna börnum og búi sinnir hún starfi sínu sem söðlasmiður og er með aðstöðu heima við.

Guðrún Helga Skowronski er fædd í Reykjavík 12. ágúst 1975. Foreldrar hennar eru þau Þorbjörg Skjaldberg skurðhjúkrunarfræðingur og Henry Val Skowronski tækniteiknari. Helga á fjögur systkini, Pálma f. 1978, Halldóru Maríu f. 1985, Margréti Þorgerði f. 1996 og Ásgeir f. 1997.

Bundu hestana fyrir utan heima
„Við fjölskyldan áttum heima í Ásgarði í Reykjavík rétt hjá Neðri-Fáki. Stundum komu karlar með sixpensara ríðandi og bundu hestana fyrir utan heima. Ég varð alveg sjúk því mig langaði svo á hestbak.
Af einhverri ástæðu beit ég það í mig að allir karlar með sixpensara væru hestamenn þannig að ég gerði í því að setjast við hliðina á þannig mönnum í strætó í von um að þeir myndu bjóða mér á bak en sú varð því miður ekki raunin,“ segir Helga og hlær.

Flutti til Svíþjóðar
„Ég flutti til Svíþjóðar þegar ég var sjö ára og bjó þar í átta ár. Ég kom alltaf til Íslands á sumrin og um helgar var farið upp í bústað fjölskyldunnar á Þingvöllum. Ég man þegar við keyrðum í gegnum Mosfellsdalinn, þá hugsaði ég oft hvernig væri að búa þarna.
Ég gekk í Hvassaleitisskóla, Uddaredsskolan, Hästhagenskolan, Alléskolan í Svíþjóð og fór svo í Menntaskólinn í Hamrahlíð.
Ég var langt komin með námið í MH þegar ég gerði mér grein fyrir því að að hefðbundinn starfsvettvangur væri ekki framtíðin fyrir mig. Ég ákvað að læra söðlasmíði þar sem ég gæti sameinað áhuga minn á handverki og hestamennsku.“

Stjörf af skelfingu með kort í höndunum
Helga fann skóla í London sem henni leist vel á og haustið sem hún varð 19 ára lagði hún land undir fót og flutti til London.
„Þegar ég hugsa til baka þá var þetta hin mesta firra. Þegar ég lenti var ég klyfjuð af farangri og ekki komin með stað til að búa á. Ég man ennþá eftir því að það fyrsta sem blasti við mér þegar ég steig út af lestarstöðinni var útprentað blað með mynd af ungum manni og undir myndinni var texti sem skrifaður var af móður hans þar sem hún auglýsti eftir vitnum að því hver hefði myrt son hennar. Ég man að ég gekk af stað stjörf af skelfingu með kort af London í höndunum og skimaði í kringum mig í leit að leiðinni í skólann.
Ég fékk síðan húsnæði í göngufjarlægð frá skólanum og hóf nám viku seinna.“

Kynntist öðruvísi vinnubrögðum
„Ég blómstraði í London enda var námið hnitmiðað og skemmtilegt. Þarna lærði ég ekki bara handbragðið sjálft heldur líka hvernig hönnunin og uppbyggingin öll væri á bæði aktygjum, beislisbúnaði og mismunandi hnökkum. Auk þess fengum við grunnþekkingu á svokölluðu „saddle fitting“ en það er listin að smíða og stilla hnakk svo að hann smellpassi á ákveðið hross.
Þegar fyrsta árið var liðið þá sendi ég bréf til nokkurra söðlasmiða á Íslandi og sótti um sumarvinnu. Valdimar Tryggvason, eigandi að Söðlasmiðnum í Nethyl réði mig í vinnu það sumarið og kynntist ég þar allt öðruvísi vinnubrögðum en kennd voru í skólanum.“

Búfræðingur og tamningamaður
„Ég útskrifaðist úr Cordwainers College með HND í söðlasmíði og tók svo sveinspróf eftir að ég flutti aftur heim. Ég fór að vinna tímabundið við viðgerðir í versluninni Reiðsporti.
Árið 1998 sótti ég um á tamningabraut á Hólum í Hjaltadal og komst inn. Þar átti ég eitt það skemmtilegasta ár sem ég hef upplifað.
Sumrinu eyddi ég við verknám að Hofi á Höfðaströnd og útskrifaðist svo um haustið sem búfræðingur með frumtamninga próf frá FT.“

Átti ekki von á umsókn frá Íslendingi
„Eftir útskrift fann ég aðstöðu fyrir hrossin mín í hesthúsahverfinu í Mosó og vann hlutastarf við þjálfun hrossa í Varmadal. Ég sá auglýsta stöðu á minkabúinu Dalsbúi í Mosfellsdal og sótti um með semingi. Ásgeir sem þar bjó átti alls ekki von á því að fá umsókn frá Íslendingi, hvað þá einhverri stelpu,“ segir Helga og brosir.
„Ég hóf störf árið 1999 og hef ekkert farið aftur. Við, Þorlákur Ásgeir Pétursson, eða Ásgeir í minkabúinu eins og hann er ávallt kallaður, giftum okkur í Mosfellskirkju 24. maí 2001. Við tóku ár af barneignum og uppeldi. Kristofer Henry f. 1996 átti ég fyrir en svo eigum við saman Pétur Þór f. 2001, Þorbjörgu Gígju f. 2007 og Þorgrím Helga f. 2010. Fyrir átti Ásgeir tvö börn, Sigríði Herdísi og Ólaf Pétur.“

Söðlasmiðurinn í Mosfellsdal
„Þegar við vorum búin að búa í Dalsbúi í einhvern tíma hafði kunningjakona mín samband við mig. Hún var farin að flytja inn hnakka frá Noregi og vantaði söðlasmið til að stoppa í. Þarna hafði ég ekki tekið upp verkfærin mín í langan tíma en ég tók að mér þetta verkefni. Þarna enduruppgötvaði ég gleðina við handverkið og var þetta fyrsta skrefið að því að ég opnaði Söðlasmiðinn í Mosfellsdal.
Fyrirtækið hefur stækkað og þróast smám saman í takt við eftirspurn. Fyrstu árin gerði ég alla vinnu í höndunum en keypti mér svo saumavél fyrir ágóða af hrossasölu.
Fyrir þá sem hafa áhuga á að sjá það sem ég er að gera þá má fylgjast með mér á Facebook.“

Rækta bæði grænmeti og ávexti
„Ásýnd Dalsbúsins hefur breyst mikið og hér eru komin falleg íbúðarhús. Minkabúið og fóðurstöðin hafa verið endurnýjuð og stækkuð, aðstaða er fyrir kindur og hross og Söðlasmiðjan er komin með aðstöðu.
Við erum búin að koma okkur upp gróðurhúsi og erum líka með ræktarlegan garð þar sem við getum ræktað bæði grænmeti og ávexti. Við erum bæði mjög áhugasöm um að geta boðið upp á hreinan og heilbrigðan mat og reynum því að rækta sem mest sjálf.
Við höfum áhyggjur af því hvernig nútíminn fer með jörðina og þá sem á henni búa. Við viljum að sumu leyti leita aftur til fortíðar og að hvert og eitt land sé sjálfu sér nægt með mat fyrir sig og sína í jafnvægi við náttúruna.“

Mosfellingurinn 7. júní 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Ingimundur, Birgir Haralds,
Birgir Nielsen og Sigurgeir.

Creedence tónlistin trekkir vel

Ingimundur, Birgir Haralds, Birgir Nielsen og Sigurgeir.

Ingimundur, Birgir Haralds, Birgir Nielsen og Sigurgeir eru væntanlegir í Bæjarleikhúsið laugardaginn 9. júní. 

Birgir Haraldsson og félagar hafa með reglulegu millibili þeyst um landið og spilað Creedence og John F. Fogerty lög.
Þeir hafa ferðast víða og fengið frábærar undirtektir. „Það er algerlega magnað hvað tónlist þessa manns er vel þekkt,“ segir Birgir. „Hún hefur síast inn í landann með móðurmjólkinni þannig að menn þekkja hvert einasta lag. Við höfum verið að reyna að breyta til og spila lög sem við höldum að séu minna þekkt en það breytir engu. Það er sungið með hverju einasta lagi,“ segir Birgir.
Valinn maður í hverju rúmi
Með Birgi er valinn maður í hverju rúmi. Á gítarnum er Sigurgeir Sigmundsson félagi Birgis til áratuga úr Gildrunni en bassann plokkar Ingimundur Óskarssson úr Dúndurfréttum og húðir lemur Birgir Nielsen sem starfað hefur með hljómsveitum á borð við Vini vors og blóma og Skonrokk.
Hægt er að nálgast miða í 566-7788. „Ljóst að það er að styttast í að það verði uppselt,“ segir rokkarinn geðþekki úr Mosfellsbænum að lokum.

Ketilbjölluhjónin Vala Mörk og Guðjón Svansson ásamt Snorra syni þeirra taka við viðurkenningunni.

Vala og Gaui hlutu Gulrótina 2018

Ketilbjölluhjónin Vala Mörk og Guðjón Svansson ásamt Snorra syni þeirra taka við viðurkenningunni.

Ketilbjölluhjónin Vala Mörk og Guðjón Svansson ásamt Snorra syni þeirra taka við viðurkenningunni.

Lýðheilsuviðurkenning Mosfellsbæjar, Gulrótin, var afhent þriðjudaginn 29. maí. Afhendingin fór fram í Listasalnum á árlegum Heilsudegi Mosfellsbæjar.
Viðurkenningunni er ætlað að hampa einstaklingi, hópi, fyrirtæki eða stofnun fyrir brautryðjendastarf í þágu heilsueflingar og bættrar lýðheilsu íbúa bæjarins.

Óhefðbundin æfingastöð á Engjavegi
Hjónin Guðjón Svansson og Vala Mörk eigendur Kettlebells Iceland hljóta viðurkenninguna í ár en þau reka óhefðbundna æfingastöð á Engjavegi. Í starfi sínu leggja þau áherslu á að fólk byggi upp alhliða styrk, úthald og liðleika á þann hátt að það nýtist vel í daglegu lífi.
Þau þykja hvetjandi, áhugasöm og fagleg og eru flottar fyrirmyndir þegar kemur að heilsusamlegum lífsstíl. Þau stuðla að heilbrigði, bæði líkamlegu og andlegu og segja góða heilsu skipta öllu máli.

Heilsa og hollusta fyrir alla
Heilsudagurinn var tekinn snemma þar sem farið var í morgungöngu með Ferðafélagi Íslands. Um kvöldið fór svo fram málþing undir yfirskriftinni Heilsa og hollusta fyrir alla. Lífskúnstnerarnir Bergþór Pálsson og Albert Eiríksson fóru þar á kostum auk þess sem fulltrúar frá skólum bæjarins héldu erindi. Síðast en ekki síst var Gulrótin afhent. Hér að neðan má sjá Albert og Bergþór ásamt Ólöfu Sívertsen.

undirskrift

Áframhaldandi samstarf Sjálfstæðisflokks og Vinstri-grænna

undirskrift

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Bjarki Bjarnason forseti bæjarstjórnar undirrita samninginn við Hlégarð.

Mál­efna­samn­ing­ur Sjálf­stæðis­flokks og Vinstrihreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs var formlega undirritaður við Hlégarð þriðjudaginn 5. júní. D- og V-listi fengu fimm af níu bæjarfulltrúa kjörna í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum og halda meirihlutasamstarfi sínu áfram sem hófst fyrst árið 2006.

Skólar í fremstu röð
D- og V- listar vilja að skólar bæjarins verði í fremstu röð og státi af öflugri kennslu, bæði í verklegum og bóklegum greinum. Lögð verður áhersla á að hlúa að góðri skólamenningu og félagslífi nemenda þar sem gildi bæjarins, virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja verði höfð að leiðarljósi.
Leikskólagjöld verða lækkuð um 25% á kjörtímabilinu án tillits til verðlagshækkana og miðað við að öll börn 12 mánaða og eldri eigi kost á leikskólaþjónustu. Áfram verður unnið að átaki á sviði upplýsingatæknimála allra skóla í bænum.

Fjölnota knatthús á Varmársvæðinu
Á næsta ári verður fjölnota knatthús á Varm­ársvæðinu tekið í notkun og áfram unnið að uppbyggingu íþróttamannvirkja bæjarins í samvinnu við Ungmennafélagið Aftureldingu. D- og V-listi munu kappkosta að styðja myndarlega við allt íþrótta- og tómstundastarf fyrir alla aldurhópa.
Á sviði velferðar og jafnréttis er lögð áhersla á að allir eigi rétt á lífsins gæðum. Flokkarnir vilja þrýsta á ríkisvaldið að stækka hjúkrunarheimilið Hamra og fjölga félagslegum íbúðum í samræmi við þarfir. Loks verði haldið áfram að hækka afslætti á fasteignagjöld til tekjulægri eldri borgara.

Umhverfisstefnan taki mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
Í umhverfismálum er m.a. lögð sú áhersla að uppbygging nýrra hverfa geri ráð fyrir umhverfisvænum lífsstíl með aðstöðu til sorpflokkunar og hleðslustöðvum fyrir rafbíla.
Þá verði vinnu lokið við gerð umhverfis­stefnu Mosfellsbæjar sem taki mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Á sviði skipulags- og samgöngumála verður m.a. unnið að þéttingu byggðar um leið og hvatt verði til þess að aukið fjármagn verði sett í samgöngur í samstarfi við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið er að Mosfellsbær verði áfram fyrsti valkosturinn til búsetu á höfuðborgarsvæðinu.

Hlégarður sem hús Mosfellinga
D- og V-listi vilja hvetja til nýsköpunar og frekari uppbyggingar atvinnulífs. Það verði m.a. gert með því að halda áfram að byggja upp miðbæinn með verslun, þjónustu og iðandi mannlífi. Það er einnig gert með því að hefja uppbyggingu öflugs atvinnusvæðis syðst á Blikastaðalandi.
Á sviði menningarmála er lögð sú áhersla að styðja dyggilega við skapandi starf, í samvinnu við félagasamtök, einstaklinga, fyrirtæki og skólasamfélagið. Mörkuð verði stefna fyrir Hlégarð með það að markmiði að nýta húsið betur í þágu bæjarbúa.

Snjallar lausnir
Á sviði fjármála, stjórnsýslu og lýðræðis er traustur fjárhagur sveitarfélagsins forsenda fyrir framkvæmdum og framförum. D- og V-listi hyggjast styrkja stoðirnar enn frekar svo vöxtur sveitarfélagsins hafi jákvæð áhrif á þjónustustigið.
Tryggja þarf bæjarbúum aðkomu að stefnumótun og ákvarðanatöku, til dæmis með opnum fundum, skoðanakönnunum og íbúakosningum eins og Okkar Mosó. Þá verði rafræn þjónusta og íbúagátt efld með snjöllum lausnum og íbúum þannig spöruð sporin.

Allir vegir færir
„Ég er afar ánægður með niðurstöðuna og samstarfið við VG,“ segir Haraldur Sverris­son bæjarstjóri. „Með okkar góðu gildi að leiðarljósi, virðingu – jákvæðni – framsækni og umhyggju eru okkur allir vegir færir.
D- og V- listi hafa verið við stjórnvölinn undanfarin 12 ár og á þeim tíma hefur samfélagið eflst og þjónustan tekið stakkaskiptum. Við ætlum að halda áfram á sömu braut, gera enn betur og sjá til þess að áfram sé best að búa í Mosfellsbæ.“

Lístvel á framhaldið
Bjarki Bjarnason oddviti Vinstri grænna tekur í sama streng:
„Okkur líst afar vel á starfið fram undan og málefnasamninginn sem var undirritaður við félagsheimilið Hlégarð í blíðskaparveðri.
Í samningnum er talað skýrt í öllum málaflokkum sem snerta alla bæjarbúa með einum eða öðrum hætti. Mosfellingum fjölgar ört um þessar mundir og við erum reiðubúin að takast á við verkefnin sem stækka með hverju árinu.“

 

Heilsumolar_Gaua_7juni

Takk fyrir…

Heilsumolar_Gaua_7juni

Heilsuna. Konuna. Börnin. Fjölskylduna. Ættingjana. Vinina. Kunningjana. Nágrannana. Æfingafélagana. Samstarfsfélagana. Keppinautana. Liðsfélagana. Þjálfarana. Aftureldingu. Fylki. Þrótt. ÍR (í körfu). Sjálfboðaliðana. Landsliðin okkar. Sigurleikinn í Amsterdam. HM í Rússlandi. Miðana á Argentínuleikinn – þú veist hver þú ert, meistari. Lars og Heimi. Fólk sem er opið fyrir hugmyndum og óhefðbundnum leiðum. Náttúruna. Mosfellsbæ. Strandir. Ísland. Ferðalög. Fluginnritun á netinu. Ódýr fargjöld. Booking.com. Frelsi. „Þetta reddast“ genið okkar. Þor og kjark. Hið góða í fólki. Traust sem aðrir sýna manni.

Ég er í flugvél á leið í stutta ferð til Stokkhólms. Skrifa þennan stutta pistil um borð. Ég hef áður skrifað um þakklæti, en það er svo sterk og mikilvæg tilfinning að það er aldrei of oft á hana minnst. Þakklæti kemur manni í gott skap, góðan fíling. Núllar út þörfina fyrir að koma auga á hið neikvæða, það sem maður getur kvartað yfir. Ég nota þakklæti mikið til þess að koma mér í rétt hugarástand.

Það er ekki flókið að vera þakklátur. Maður þarf bara að einbeita sér aðeins. Gefa sér nokkrar mínútur í að skanna lífið og leyfa svo öllu því sem maður er þakklátur fyrir að streyma til sín. Ég ákvað í morgun þegar ég var eldsnemma á leiðinni út á flugvöll að skipta yfir í þakklætisgírinn í stað þess að hugsa alltof langt fram í tímann um allt það sem ég þyrfti að muna, skipuleggja og framkvæma. Ég á það til að fara aðeins of langt fram úr mér í því. Gleyma augnablikinu.

Fyrir utan það sem ég nefndi hér að ofan er ég afar þakklátur fyrir Gulrótina sem við Vala fengum afhenda á dögunum. Gulrótin er lýðheilsuviðurkenning Mosfellsbæjar fyrir heilsueflingarstarf. Við erum þakklát fyrir viðurkenninguna, stolt af henni og tökum henni sem hvatningu fyrir okkur til þess að halda áfram á sömu braut og gera betur. Takk!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 7. júní 2018

Snorri Hreggviðsson stofnandi Margildis með nýjar vörur.

Hafa fengið einkaleyfi á nýrri framleiðsluaðferð

Snorri Hreggviðsson stofnandi Margildis með nýjar vörur.

Snorri Hreggviðsson stofnandi nýsköpunarfyrirtækisins Margildis með nýjar vörur.

Snorri Hreggviðsson er aðalhluthafi og stofnandi mosfellska nýsköpunarfyrirtækisins Margildi sem sérhæfir sig í framleiðslu bragðgóðs hágæða lýsis úr íslenskum uppsjávarfiski.
Fyrirtækið var stofnað af þeim Snorra og Erlingi Viðari Leifssyni og hóf starfsemi árið 2014. „Í dag eru 11 hluthafar í fyrirtækinu, þeir hafa bæði lagt okkur lið fjárhagslega en ekki síður með þekkingu, reynslu og góðu tengslaneti. Við kaupum hrálýsi frá fiskimjölsverkmiðjum á Íslandi og fullvinnum það til manneldis.
Við þróuðum nýja framleiðsluaðferð sem við höfum fengið einkaleyfi á sem stuðlar að nærri tvöfalt betri nýtingu hráefnisins. Lýsið okkar hefur verið selt til sjö landa og fleiri eru í bígerð,“ segir Snorri en Margildi framleiðir og pakkar lýsinu í verktökuframleiðslu hérlendis og í Noregi en undirbýr byggingu eigin lýsisverksmiðju hérlendis.

Markmiðið að gera lýsisneyslu að jákvæðri upplifun
„Síldarlýsi Margildis var fyrsta vara okkar á markað og fæst hérlendis undir merkjum Fisherman en nýverið kom einnig á markað Astalýsi sem Margildi þróaði í samstarfi við KeyNatura sem markaðssetur og selur það hérlendis. Astalýsi er einstök blanda síldarlýsis og astaxanthin, eins öflugasta andoxunarefnis í heimi. Styrkleikar okkar eru að við byrjum með ferskt og gott hráefni og getum þannig framleitt hágæða vöru.
Við höfum í tvígang fengið hin alþjóðlegu Superior Taste Award matvælagæðaverðlaun frá iTQi fyrir síldarlýsið okkar. Verðlaunin eru staðfesting á miklum bragðgæðum lýsisins og þau styðja það markmið Margildis að gera lýsisneyslu að jákvæðri upplifun á allan hátt.“

Öflug markaðssetning í Bandaríkjunum
Nýverið hófu Margildi og Icelandic Trademark Holding, eigandi vörumerkjanna Icelandic og Icelandic Seafood samstarf varðandi markaðssetningu í Bandaríkjunum. Áætlað er að sala og dreifing hefjist síðar á árinu. „Þetta verður einhver vandaðasta markaðssetning á íslenskri vöru frá upphafi. Það er gaman að taka þátt í þessari vinnu og bindum við miklar vonir við þennan samning.
Það er mikil vitundavakning neytenda á neyslu á hágæða lýsi. Við sjáum mikil tækifæri í sölu og markaðssetningu okkar hágæðaafurða undir merkjum Icelandic,“ segir Snorri að lokum. Þess má geta að Margildi hefur meðal annars hlotið nýsköpunarstyrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís, AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi, Íslandsbanka og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.

oddvitar_mosfellingur_bjarkibja

V-listinn gengur óbundinn til kosninga

oddvitar_mosfellingur_bjarkibja

Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Vinstri-grænna.

 

Nafn:
Bjarki Bjarnason.

Aldur:

65 ára.

Gælunafn:

Í Mosfellsdal var ég stundum kallaður Bjarkmundur eftir að við Guðmundur bróðir minn gerðumst áskrifendur að Þjóðviljanum undir nafninu Bjarkmundur Bjarnason.

Starf:

Rithöfundur og forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.

Fjölskylduhagir:

Ég er kvæntur Þóru Sigurþórsdóttur leirlistakonu, börnin okkar eru Bjarni sem er gullsmiður, Vilborg þjóðfræðingur og Guðmundur húsasmiður. Við Þóra eigum fjögur yndisleg barnabörn.

Hvar býrðu?

Á Hvirfli í Mosfellsdal.

Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?

Ég hef búið hér í sveitarfélaginu frá árinu 1954 þegar foreldrar mínir fluttu að Mosfelli og faðir minn gerðist sóknarprestur Mosfellinga.

Hvað áttu marga vini á Facebook?

2.864.

Um hvað snúast kosningarnar 2018?

Í grunninn snúast þær um það sem skiptir alla máli, jafnt Mosfellinga sem aðra:
– Aukin lífsgæði og félagslegt réttlæti, öllum til handa.
– Umhverfið okkar og Móður jörð.
– Heiðarleika og gegnsæi.

Hver er merkasti Mosfellingurinn?

Allir Mosfellingar eru merkir, hver á sinn hátt, ég hvorki get né vil gera upp á milli þeirra.

Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
Kynjahlutfallið er hnífjafnt. Elst er kjarnakonan Elísabet Kristjánsdóttir en yngstur er Bjartur Steingrímsson heimspekinemi.

Hefur þú komist í kast við lögin?

Já, umferðarlögin.

Er pólitík skemmtileg?

Hún er líkt og lífið sjálft: Fjörleg, stundum óvægin, en umfram allt spennandi og full af fyrirheitum.

Uppáhaldsviðburður í Mosó?

Þegar kveikt er á kyndlunum við setningu bæjarhátíðarinnar í Álafosskvos og þeir lýsa upp þéttsetna brekkuna.

Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag?

2-3 bolla.

Fallegasti staður í Mosfellsbæ?

Lengst inni á Mosfellsheiði
er lítil hringlaga seftjörn.
Á bakkanum verpir himbrimi;
sperrtur óðinshani á sundi
kinkar til mín kolli og segir:
Hér er fallegasti staðurinn
og hann þarf ekkert nafn.

Besti matur í Mosó?
Ýsa í raspi, beint úr fiskbúðinni okkar.

Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?

Ég kenndi einu sinni á blokkflautu við Grunnskóla Grímseyjar.

Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?

Róbinson Krúsó og Frjádagur yrðu efstir á gestalistanum.

Hvað finnst þér vanta í Mosó?

Kaffihús.

Síðasta SMS sem þú fékkst?

Gangi þér vel í kosningunum, Bjarki minn.

Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?

Markmiðið er að gera okkar besta í kosningabaráttunni – síðan spyrjum við að leikslokum.

Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar?

V-listinn gengur óbundinn til kosninga, við metum stöðuna þegar úrslitin liggja á borðinu.

Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó?

Það er ekki gott að segja; vegir atkvæðanna eru ­órannsakanlegir.

Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista?

Við erum með markvissa stefnu í öllum málaflokkum og frambjóðendur sem eru reiðubúnir að fylgja henni eftir af fullri einurð. Kjósum V-listann!

—–

Kynning á framboðslista Vinstri-grænna í Mosfellsbæ– Reiðubún að láta gott af okkur leiða í samfélaginu

VG í Mosfellsbæ í Mosfellsbæ á Facebook

oddvitar_mosfellingur_annasigríður

Höfum sýnt ábyrgð og staðfestu í störfum okkar

oddvitar_mosfellingur_annasigríður

Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Samfylkingarinnar.

Nafn:
Anna Sigríður Guðnadóttir.

Aldur:
58 ára.

Gælunafn:
Kölluð Anna Sigga.

Starf:
Verkefnastjóri á Heilbrigðisvísindabókasafni LSH og HÍ.

Fjölskylduhagir:
Gift Gylfa Dýrmundssyni og eigum við 4 uppkomin börn. Von á fjölgun, ekki ég samt :)

Hvar býrðu?
Í Barrholti.

Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?
19 ár.

Hvað áttu marga vini á Facebook?
694.

Um hvað snúast kosningarnar 2018?
Þær snúast um áherslu á skólastarf og framtíðarsýn í skólamálum, betri þjónustu við ungbarnafjölskyldur, opnari og gegnsærri stjórnsýslu, lýðræðislegt samráð, félagslega samhjálp á grunni virðingar og mannréttinda. Þær snúast um að sjónarmið jafnaðarstefnunnar fái aukið vægi við stjórn bæjarins.

Hver er merkasti Mosfellingurinn?
Halldór Laxness.

Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
Konur eru 10 og karlar 8. Elstur er Andrés, 68 ára og yngst er Andrea, að verða tvítug

Hefur þú komist í kast við lögin?
Já. Braut stöðvunarskyldu og var staðin að verki.

Er pólitík skemmtileg?
Já, langoftast, því viðfangsefnin eru svo margvísleg og svo nálægt okkur. Snerta nánasta umhverfi og þjónustu fyrir bæjarbúa.

Uppáhaldsviðburður í Mosó?
Bókmenntakvöld bókasafnsins fyrir jólin.

Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag?
Ætli þeir séu ekki svona 5-6 á virkum dögum en 2-3 um helgar.

Fallegasti staður í Mosfellsbæ?
Hm … erfitt! Núna er það Blikastaðanes.

Besti matur í Mosó? Heima hjá mér :)

Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?
Hekla af miklum móð.

Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?
Ég tæki með mér sagnaþul, smið, veiðimann og verkfræðing. Ég sæi um að rækta grænmeti og að elda.

Hvað finnst þér vanta í Mosó?
Fjölbreyttari matsölustaði og verslanir.

Síðasta SMS sem þú fékkst?
Takk :) frá mágkonu dóttur minnar.

Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?
Langtímamarkmiðið er 6 fulltrúar, skammtímamarkmiðið er 3 :)

Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar?
Með þeim sem við náum mestri samstöðu með um þau málefni sem við leggjum áherslu á.

Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó?
Já, ég hugsa að landsmálin geti haft áhrif að einhverju marki.

Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista?
Af því að við erum jafnaðarfólk sem vinnum að jöfnuði og jöfnum tækifærum fyrir alla með sjálfbærni og hagsmuni kynslóða framtíðarinnar í huga, félagslegri samhjálp á grunni virðingar og mannréttinda og skiljum engan eftir. Einnig vegna þess að við höfum sýnt ábyrgð og staðfestu í störfum okkar í bæjarstjórn og náð árangri með málefnalegu starfi.

—–

Kynning á framboðslista Samfylkingarinnar – Mikið tilhlökkunarefni að hefja kosningabaráttuna

Samfylkingin í Mosfellsbæ á Facebook

 

oddvitar_mosfellingur_sveinnoskar

Kosningarnar snúast um að skipta um meirihluta

oddvitar_mosfellingur_sveinnoskar

Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Miðflokksins.

Nafn:
Sveinn Óskar Sigurðsson.

Aldur:
49 ára.

Gælunafn:
Óskar.

Starf:
Ráðgjafi og sjálfstætt starfandi.

Fjölskylduhagir:
Giftur Danith Chan, lögfræðingi. Við eigum tvær dætur, Sylvíu Gló Chan, sem stundar nám við Menntaskólann í Reyjavík og Ingridi Lín Chan, sem stundar grunnskólanám við Varmárskóla í Mosfellsbæ.

Hvar býrðu?
Ég bý að Barrholti í Mosfellsbæ.

Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?
Frá 2003 eða í 15 ár.

Hvað áttu marga vini á Facebook?
Síðast var talan 1.793.

Um hvað snúast kosningarnar 2018?
Um velferð, börnin, barnafólk, aldraða og öryrkja, um hreyfingu og gjaldfrjálsar máltíðir fyrir grunnskólabörn, svo að öll börn setið við sama borð, óháð fjárhag foreldra. Kosningarnar snúast um að skipta um meirihluta í Mosfellsbæ enda hefur sá sem nú ríkir komið fjármálum bæjarins í svo mikið óefni að grunnstoðum stafar ógn af.

Hver er merkasti Mosfellingurinn?
Halldór Laxness en sá sem á lífi er og að öðrum ólöstuðum, söng- og listakonan Sigrún Hjálmtýsdóttir, sópran.

Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
Það eru 8 konur og 10 karlar en í 8 efstu sætunum eru 5 konur en aðeins 3 karlar. Því er þetta eiginlega kvennalisti með smávegis af körlum í bland aftast í þessum glæsilega hestvagni. Jakob Máni er yngstur, tvítugur og Magnús Jósepsson er elstur, 73 ára. Hann skipar heiðurssætið.

Hefur þú komist í kast við lögin?
Nei, en get samt sungið með herkjum.

Er pólitík skemmtileg?
Já, annars væri maður ekki að gefa sig í þetta síðustu 35 árin.

Uppáhaldsviðburður í Mosó?
Opnun á nýrri sýningu í Listasalnum.

Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag?
1-4 en aðeins meira fyrir kosningar og fer í kaffipásur stundum í nokkra mánuði. Drekk þá austurlenskt te af bestu sort.

Fallegasti staður í Mosfellsbæ?
Það er Leirvogurinn. Hann er afar fallegur og fuglarnir gefa lífinu lit. Að ganga með sjónum er yndislegt og að sjá norðurljósin að hausti sem og um vetur, fuglana að vori sem á sumri.

Besti matur í Mosó?
Hann er ótvírætt að finna á grænmetismörkuðunum í Mosfellsbæ. Þar má nefna markaðinn að Mosskógum og að Reykjum. Án þessara markaða væri Mosfellsbær allt annar og ekki samur. Við verðum standa vörð um landbúnað hér í bænum og víðar um land.

Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?
Ég hef verið konsúll frá því árið 2003 en ég tók þá við ræðismannsstöðu fyrir Afríkuríkið Namibíu. Þar dvel ég oft og er það yndislegt land. Að hafa kynnst konunni í Pekingháskóla, hún ættuð frá Kambódíu, og vera ræðismaður Namibíu er dálítið spes. En þetta er allt líf mitt og yndi.

Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?
Konuna auðvitað!

Hvað finnst þér vanta í Mosó?
Nýjan meirihluta.

Síðasta SMS sem þú fékkst?
,,Vííí takk :)“ frá Þórunni Magneu Jónsdóttur, sem skipar 4. sæti á lista Miðflokksins eftir að ég hrósaði henni fyrir frábæra frammistöðu.

Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?
Ég tel raunhæft að ná 5 ef allir mæta á kjörstað.

Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar?
Það er ekki gefið upp að svo stöddu enda ekki klókt að úttala sig um það. En það byggir á því að við náum að láta lausnir okkar fyrir Mosfellbæ ná fram að ganga.

Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó?
Þarf ekki að vera. Sveitastjórnarmál lúta öðrum lögmálum en landsmálin og hafa gert lengi.

Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista?
Við erum lausnamiðaður flokkur. Flokksmenn Miðflokksins eru þekktir fyrir að leysa mál en ekki flækja þau fyrir kjósendum. Það þekkjum við öll frá lánaleiðréttingunum sem komu mörgum vel og aðgerðum til losunar fjármagnshafta. Íslendingar urðu betur staddir sökum aðgerða flokksmanna Miðflokksins og við stöndum við gefin fyrirheit. Við höfum kjark til að ganga hreint til verks.

—–

Kynning á framboðslista Miðflokksins – Ætla að ná fram hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins

Miðflokkurinn Mosfellsbæ á Facebook

oddvitar_mosfellingur_stefanomar

Kosningarnar snúast um fólk en ekki flokka

oddvitar_mosfellingur_stefanomar

Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Vina Mosfellsbæjar.

Nafn: Stefán Ómar Jónsson.

Aldur: 63 ára.

Gælunafn: Stebbi
(en bara gamlir skólafélagar úr Gaggó Mos :)

Starf: Stjórnsýsluráðgjafi og verkefnastjóri rafrænnar stjórnsýslu.

Fjölskylduhagir: Einstæður, þrjú uppkomin börn og átta barnabörn.

Hvar býrðu?
Ég bý í Teigahverfinu.

Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?
Ég kom í Mosfellssveit tveggja ára og hef búið hér síðan með nokkrum hléum inn á milli.

Hvað áttu marga vini á Facebook?
Ég á 255 vini … abb það var einn að bætast við akkúrat núna, 256 vinir.

Um hvað snúast kosningarnar 2018?
Þær snúast um fólk en ekki flokkana.

Hver er merkasti Mosfellingurinn?
Heimsþekktastur og merkur er auðvitað Halldór Laxness. Merkastir eru nokkrir sem ég get ekki gert upp á milli. Minnist þó eins þeirra, Jóns heitins á Reykjum, fyrir það hvað hann sagði við mig þegar hann óskað mér, þá 24 ára gömlum, til hamingju með ráðningu mína sem sveitarstjóri í Garði. „Stefán, vertu alltaf heiðarlegur og samkvæmur sjálfum þér.“ Þetta hefur verið greypt í huga mér allar götur síðan.

Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
Átta konur og tíu karlar. Þar af þrjár konur í efstu fimm sætunum. Úlla er elst og Lilja er yngst.

Hefur þú komist í kast við lögin?
Já, hraðasekt á Kjalarnesinu fyrir margt löngu. Sagði lögreglumönnunum að ég hefði verið að taka fram úr bíl og þá mætti auka hraðann. Þeir keyptu ekki þessa afsökun :(

Er pólitík skemmtileg?
Fer eftir hugarfari þeirra sem taka þátt. Já, hún á að vera það.

Uppáhaldsviðburður í Mosó?
Í túninu heima og aftansöngur í Lágafellskirkju á aðfangadagskvöld.

Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag?
Tvo bolla.

Fallegasti staður í Mosfellsbæ?
Að ganga meðfram Varmánni á góðviðrisdegi, frá Reykjum og niður í Álafosskvos og upplifa í leiðinni sögu hitaveitunnar, heilsutengdrar starfssemi að Reykjalundi og ullarvinnslu í Mosfellssveit á árum áður, o.fl. o.fl.

Besti matur í Mosó?
Yam í Kjarna, ekki spurning.

Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?
Það veit ábyggilega ekki að ég var í raun fyrsti trommari Stuðmanna sem þá hét Skólahljómsveit Menntaskólans í Hamrahlíð. Grunar samt að Hafsteinn viti þetta :)

Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?
Engan. Ég færi einn og tæki með mér gervihnattarsíma svo ég geti láti sækja mig þegar ég er orðinn leiður á einverunni. Úbbs, er batteríið búið :(

Hvað finnst þér vanta í Mosó?
Lyftukláf upp á Úlfarsfellið svo allir komist auðveldlega upp og geti þaðan virt fyrir sér fallega bæinn okkar.

Síðasta SMS sem þú fékkst?
„Jú það geri ég ráð fyrir, annars græja ég það.“

Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?
Við stefnum á þrjá.

Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar?
Allir sem vilja starfa af einlægni, eru tilbúnir að hlusta, skiptast á rökum og aðhyllast opna og gagnsæja stjórnsýslu eiga samleið með Vinum Mosfellsbæjar.

Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó?
Vinir Mosfellsbæjar er óháð framboð sem á sér ekki rætur í hinum hefðbundnu stjórnmálaflokkum. Framboðið sækir styrk sinn til einstaklinga úr ýmsum áttum, með fjölbreytta þekkingu og bakgrunn, sem eiga það sameiginlegt að vilja efla hag bæjarins og allra íbúa hans.
Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista? Vegna þess að við erum eina algerlega óháða framboðið og án tenginga við hina hefðbundnu stjórnmálaflokka. Í sveitarstjórnarmálum eru það aðeins hagsmunir sveitarfélagsins sem eiga að ráða för og ekkert annað. Í Vinum Mosfellsbæjar býr sú þekking og reynsla sem þarf við stjórn Mosfellsbæjar.

—–

Kynning á framboðslista Vina Mosfellsbæjar – Óháð framboð sem býður fram í fyrsta sinn

Vinir Mosfellsbæjar á Facebook

oddvitar_mosfellingur_sigrún

Pólitík getur verið mjög skemmtileg

oddvitar_mosfellingur_sigrún

Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Íbúahreyfingarinnar og Pírata.

Nafn:
Sigrún H. Pálsdóttir.

Aldur:
Á besta aldri.

Gælunafn:
Sigrún.

Starf:
Bæjarfulltrúi og leiðsögumaður.

Fjölskylduhagir:
Gift og tveggja barna móðir.

Hvar býrðu?
Í Lágafellshverfi.

Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?
15 ár.

Hvað áttu marga vini á Facebook?
560.

Um hvað snúast kosningarnar 2018?
Gegnsæi, lýðræðisumbætur og velferð Mosfellinga.

Hver er merkasti Mosfellingurinn?
Jón Kalman.

Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
10 konur, 8 karlar. Yngst 30 ára/elstur 68 ára.

Hefur þú komist í kast við lögin?
Nei.

Er pólitík skemmtileg?
Pólitík er mjög verðugt viðfangsefni og getur verið mjög skemmtileg.

Uppáhaldsviðburður í Mosó?
Jólabókakynningin í Bókasafni Mosfellsbæjar og bæjarhátíðin Í túninu heima.

Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag? 2.

Fallegasti staður í Mosfellsbæ?
Gönguleiðin eftir bökkum Varmár.

Besti matur í Mosó?
Kalkúnn frá Reykjabúinu, grænmeti úr heimabyggð og konfekt úr Mosfellsbakaríi.

Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?
Hvað mér finnst gott að vinna að næturlagi.

Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?
Hengirúmið, góðar bækur og þjón.

Hvað finnst þér vanta í Mosó?
Menningarhús með góðum matsölustað.

Síðasta SMS sem þú fékkst?
Frá vinkonu á ferð um Kína.

Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?
4.

Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar? Fólki sem brennur fyrir því að auka gegnsæi og knýja fram stjórnsýslubreytingar í Mosfellsbæ.

Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó?
Nei, ekki beint, en við hlökkum til að eiga bakland í Pírötum á þingi.

Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista?
Vegna þess að við vinnum af krafti og heilindum að velferð Mosfellinga.

—–

Kynning á framboðslista Íbúahreyfingarinnar og Pírata – Endurnýjun tímabær – Valkostur í boði

Íbúahreyfingin og Píratar á Facebook

oddvitar_mosfellingur_haraldur

Viljum að áfram verði best að búa í Mosfellsbæ

oddvitar_mosfellingur_haraldur

Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Sjálfstæðismanna.

 

Nafn: Haraldur Sverrisson.

Aldur: 56 ára.

Gælunafn: Halli.

Starf: Bæjarstjóri.

Fjölskylduhagir:
Giftur Ragnheiði Gunnarsdóttur viðskiptafræðingi. Á þrjú börn: Steinunni Önnu 36 ára, Valgerði 26 ára og Sverri 17 ára. Svo eru komin þrjú barnabörn Áróra, Árni Hrafn og Ársól Ella.

Hvar býrðu?
Skálahlíð 46.

Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?
Í 49 ár.

Hvað áttu marga vini á Facebook?
1.242 sýndist mér áðan.

Um hvað snúast kosningarnar 2018?
Að áfram verði best að búa í Mosfellsbæ. Við Sjálfstæðisfólk höfum haldið utan um stjórnartaumana hér í okkar góða samfélagi undanfarin ár. Á þeim tíma hefur bærinn okkar tekið miklum stakkaskiptum til hins betra á flestum sviðum. Kosningarnar snúast um það að halda áfram þessu góða starfi og til þess þurfum við Sjálfstæðisfólk að vera áfram forsvari fyrir framþróun bæjarins og velferð íbúanna.

Hver er merkasti Mosfellingurinn?
Halldór Kiljan Laxness.

Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
9 konur og 9 karlar. Yngstur Unnar Karl Jónsson, 19 ára, og elstur Hafsteinn Pálsson, 65 ára.

Hefur þú komist í kast við lögin?
Mér hefur orðið það á að aka of hratt.

Er pólitík skemmtileg?
Oftast nær mjög skemmtileg og gefandi.

Uppáhaldsviðburður í Mosó?
Í túninu heima.

Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag?
Misjafnt, fer eftir vikudeginunum.

Fallegasti staður í Mosfellsbæ?
Útivistarsvæðið við Leiruvog.

Besti matur í Mosó?
Blik Bistro, frábær nýi matseðillinn þar og ekki skemmir útsýnið.

Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?
Er kominn af listamönnum og kommúnistum.

Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?
Björgunarsveitina Kyndil og skátana.

Hvað finnst þér vanta í Mosó?
Lifandi og skemmtilegan miðbæ sem reyndar er núna verið að vinna hörðum höndum að þessi misserin að verði að veruleika.

Síðasta SMS sem þú fékkst?
Frá kosningastjóranum um að ég ætti að hringja.

Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?
Sjálfstæðisflokkurinn er nú í meirihluta í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Við stefnum ótrauð að því að svo verði áfram.

Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar?
Við Sjálfstæðisfólk getum unnið með öllum. Höfum verið í formlegu meirihlutasamstarfi við VG þrátt fyrir hreinan meirihluta okkar í bæjarstjórn. Auk þess höfum við verið í góðu samstarfi við aðra bæjarfulltrúa sem hafa viljað vera í samstarfi við okkur.

Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó?
Hef ekki mikla trú á því.

Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista?
Á lista Sjálfstæðisfólks í Mosfellsbæ er blanda af reynslumiklu fólki sem og fólki sem er að hefja sinn bæjarmálaferil. Ungt fólk í bland við eldra og konur jafnt sem karlar. Allt er þetta fólk sem brennur fyrir bæinn sinn og vill leggja sig allt fram um að gera frábæran bæ enn betri. Við munum vinna af heiðarleika og eljusemi fyrir alla Mosfellinga með gildin okkar góðu að leiðarljósi: Virðingu, jákvæðni, framsækni og umhyggju.

—–

Kynning á framboðslista Sjálfstæðisflokksins – Töluverð endurnýjun á lista Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðismenn í Mosfellsbæ á Facebook

oddvitar_mosfellingur_valdimar

Innleiðum nútímalegri stjórnun á bæjarfélaginu

oddvitar_mosfellingur_valdimar

Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Viðreisnar.

 

Nafn: Valdimar Birgisson

Aldur: 55

Gælunafn: Ég var alltaf kallaður Valli Bigga Vald á Ísafirði, en Valdi hér fyrir sunnan.

Starf: Auglýsingasérfræðingur.

Fjölskylduhagir:
Kvæntur Sigríði Dögg Auðunsdóttur fréttamanni og eigum við hjónin sex börn. Að auki á ég tvö barnabörn.

Hvar býrðu? Akurholti 17.

Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?
Hef búið hér með einu hléi frá 2008.

Hvað áttu marga vini á Facebook?
Rúmlega 2.000

Um hvað snúast kosningarnar 2018?
Kosningarnar snúast um hvort við viljum innleiða nútímalegri stjórnun á bæjarfélaginu eða halda okkur við það gamla.

Hver er merkasti Mosfellingurinn?
Það er Halldór Laxness en af núlifandi Mosfellingum er það Jökull í Kaleo.

Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
Við erum með fléttulista þannig að það er jafnt hlutfall kynja á listanum. Hrafnhildur Jónsdóttir er elst 59 ára, Tamar Klara Lipka Þormarsdóttir og Ari Páll Karlsson eru bæði 21 árs. Fimm af fyrstu 9 eru 30 ára eða yngri.

Hefur þú komist í kast við lögin?
Ég er nýbúinn að fá sekt fyrir að leggja ólöglega í Skaftahlíð. Mjög neyðarlegt.

Er pólitík skemmtileg?
Hún getur verið það, já, og ætti ekki að vera skemmandi ef við gætum þess að fara í málefnin en ekki manninn. Það er ekkert að því að takast á um málefni en um leið verður að gæta þess að bera virðingu fyrir fólki.

Uppáhaldsviðburður í Mosó?
Það er Í túninu heima. Gaman að sjá hvernig sú hátíð hefur vaxið og íbúar taka þátt í henni.

Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag?
Ég drekk opinberlega tvo bolla á dag.

Fallegasti staður í Mosfellsbæ?
Það fyrsta sem ég féll fyrir þegar ég bjó á Ökrum voru bakkar Varmár frá dælustöðinni og uppúr. Núna get ég talið upp fleiri, svo sem Leiruvogurinn og strandlengjan þar, og svo er Mosfellsdalurinn allur fallegur.

Besti matur í Mosó?
Það er Osso Bucco sem konan mín eldar af stakri snilld eins og svo margt annað. Það er eiginlega besti matur í heimi að mati sérfræðinga.

Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?
Örugglega fullt. Til dæmis var ég í unglingalandsliðinu á skíðum, ég var sjómaður í mörg ár og svo vann ég við að selja snyrtivörur um hríð.

Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?
Konuna mína, Sigríði Dögg, því að ég myndi vilja upplifa eyðieyjudvöl með henni, Gordon Ramsay, til að elda fyrir mig góðan mat, Ricky Gervais til að stytta mér stundir, og Elon Musk til að koma mér heim aftur.

Hvað finnst þér vanta í Mosó?
Það væri gott að hafa góðan matsölustað í bænum. Það vantar meiri þjónustu í Mosfellsbæ.

Síðasta SMS sem þú fékkst?
Tveir fyrir einn á Bergsson …

Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?
Markmiðið er að ná tveimur inn.

Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar?
Góðu fólki. Það er fullt af því í öllum flokkum í Mosfellsbæ og við sjáum bara tækifæri en ekki vandamál þar.
Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó? Eflaust eitthvað en sveitarstjórnarkosningar snúast um þær áskoranir sem eru hér en ekki annars staðar.

Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista?
Vegna þess að það er kominn tími á breytingar og við erum fólkið sem getur komið þeim breytingum á.

—–

Kynning á framboðslista Viðreisnar– Viðreisn ætlar að gera betur

Viðreisn í Mosfellsbæ á Facebook