Tekið við viðurkenningum. Ásta, Magne, Emma Sól Einar Karl og Anna Ólöf.

Þrjár viðurkenningar til þróunar og nýsköpunar

Tekið við viðurkenningum. Ásta, Magne, Emma Sól Einar Karl og Anna Ólöf.

Tekið við viðurkenningum. Ásta, Magne, Emma Sól, Einar Karl og Anna Ólöf.

Þróunar- og nýsköpunarviðurkenning Mosfellsbæjar var afhent í Listasalnum þriðjudaginn 23. maí.
Óskað var sérstaklega eftir hugmyndum eða verkefnum sem styrkja ímynd Mosfellsbæjar sem heilsubæjar.
Alls bárust sjö gildar umsóknir og lagði þróunar- og ferðamálanefnd til við bæjarstjórn að afhentar yrðu þrjár viðurkenningar sem sjá má hér að neðan.
„Öllum umsækjendum er þakkað fyrir þátttökuna og þeir hvattir til að halda áfram að koma á framfæri hugmyndum um eflingu nýrra verkefna í þágu samfélagsins og heilsubæjarins Mosfellsbæjar,“ segir Rúnar Bragi Guðlaugsson, formaður þróunar- og ferðamálanefndar Mosfellsbæjar.

HRINGURINN – Magne Kvam
Fjallahjólastígur um fellin í kringum Mosfellsbæ. Hægt væri að leggja um 40 km hring með því að nýta þá stíga sem fyrir eru með breytingum og bæta við nýjum sérhönnuðum leiðum.
Stígurinn yrði opinn allt árið. Fjallahjóla og hlaupastígur á sumrin. Skíðagöngu- og breiðhjólastígur á veturna. Hringurinn er bæði fjölskylduvænn afþreyingarmöguleiki og áfangastaður fjallahjólreiðarmanna.
Peningastyrkur alls 300 þúsund krónur.

LEIKUR AÐ LÆRA – Kristín Einarsdóttir
Kennsluaðferð þar sem börnum á aldrinum 2 – 10 ára eru kennd öll bókleg fög í gegnum leiki og hreyfingu á skemmtilegan og árangursríkan hátt. Ný hugsun og kennsluaðferð um hvernig hægt er að kenna börnum í gegnum hreyfingu og leiki. Þar sameinast mörg heilsueflandi og lýðheilsu markmið.
Heilsueflandi skóli nýtir góðs af kennsluaðferðinni enda samræmist hann aðalnámskrá leik- og grunnskóla.
Peningastyrkur alls 200 þúsund krónur.

HEILSUDAGBÓKIN MÍN – Anna Ólöf Sveinbjörnsdóttir
Hugmyndin að Heilsudagbókinni er byggð á áralangri viðleitni höfundar til að öðlast betri heilsu og meiri lífsgæði. Heilsudagbókin er heildræn nálgun á bættar lífsvenjur þar sem lögð er áhersla á hreyfingu, mataræði og ekki síst huglæga eða andlega vinnu.
Heilsudagbókin er ódagsett sex vikna dagbók sem hjálpar notandanum að bæta líf sitt með markmiðasetningu, áætlunargerð, verkefnalista og fleiru.
Peningastyrkur alls 200 þúsund krónur.

herdissigurjons

Var skugginn af sjálfri sér

herdissigurjons

Herdís Sigurjónsdóttir smitaðist af svínaflensu árið 2009 og hefur glímt við erfið veikindi síðan.

Herdís hefur frá unga aldri haft áhuga fyrir nærumhverfi sínu. Hún er menntuð í lífeinda-, umhverfis- og auðlindafræðum og er reynslumikill ráðgjafi á sviði neyðarstjórnunar vottað af Alþjóðasamtökum hamfarasérfræðinga IAEM.
Herdís hefur einnig látið stjórnmál sig varða og sat í bæjarstjórn Mosfellsbæjar í tæp 15 ár en baðst lausnar árið 2013.

Herdís Sigurjónsdóttir fæddist í heimahúsi á Siglufirði 8. desember 1965. Foreldrar hennar eru þau Ásdís Magnea Gunnlaugsdóttir húsmóðir og alþýðulistakona og Sigurjón Jóhannsson skipstjóri. Sigurjón lést árið 2010.
Herdís á þrjú systkini, þau Kristínu, Jóhann og Sigurjón, en hann lést árið 1973.

Léku sér á ruslahaugunum
„Ég ólst upp á Siglufirði sem var í þá tíð ævintýri líkast fyrir krakka. Síldin var farin og eftir stóðu ónýtar bryggjur, verksmiðjur og braggar sem var gaman að leika sér í. Okkur þótti líka gaman að leika okkur á ruslahaugunum og segi ég nú oft í gríni að það sé þess vegna sem ég hef svona mikinn áhuga á úrgangsmálum í dag.
Ég elskaði að vera í bústaðnum okkar við Miklavatn. Mamma var með okkur systkinin þar öll sumur á meðan pabbi var á sjónum, þarna lærði maður að lifa í núinu.
Við fjölskyldan fluttum yfir á Raufarhöfn og þar bjuggum við í eitt ár. Pabbi starfaði sem skipstjóri á Rauðanúpi.“

Er enn smá pönkari í mér
„Ég gekk í Barnaskóla Siglufjarðar og fór svo í gagnfræðaskólann. Það var gaman í skólanum, skemmtilegast þótti mér í raungreinum og listum.
Haustið 1981 fór ég í Héraðsskólann á Reykjum í Hrútafirði. Í skólanum var náinn hópur 100 nemanda og við vorum eins og fjölskylda, deildum sorg og gleði. Þarna eignaðist ég nokkra af mínum bestu og tryggustu vinum.
Á þessum tíma var ég svarthærð og burstaklippt og ég verð að játa að ég er enn smá pönkari í mér,“ segir Herdís og glottir.

Vann á togara í Alaska
Herdís flutti suður og fór í Kvennaskólann í Reykjavík og útskrifast þaðan vorið 1985.
„Eftir stúdenspróf fór ég til Ameríku til að vera bróður mínum og mágkonu til halds og traust þar sem þau áttu von á frumburði sínum. Mér var síðan boðin vinna á togara og ég sló til og var á sjó í Alaska einn vetur en þar voru einnig nokkrir aðrir Íslendingar við störf.
Ég sótti um inngöngu í Tækniskólann áður en ég fór heim því mér hafði borist til eyrna að heima vantaði meinatækna svo mér fannst það tryggur kostur. Í skólanum kynntist ég Ella mínum, Erlendi Fjeldsted, sem er héðan úr Mosfellsbænum. Hann byrjaði á sama tíma og ég og fór í byggingatæknifræði.
Á sumrin starfaði ég á sjúkrahúsinu á Siglufirði og sem barþjónn á ferjunni Norrænu. Það var frábær skemmtun, ekki síst þegar það þurfti að æfa björgunaræfingar á færeysku.”

Vann við fisksjúkdómarannsóknir
„Eftir útskrift 1989 fór ég að vinna við fisksjúkdómarannsóknir á Keldum. Við Elli fluttum í Mosó árið 1990 og giftum okkur með pompi og prakt sama ár. Frumburðurinn, Ásdís Magnea, leit dagsins ljós árið 1992, Sturla Sær árið 1995 og svo fæddist Sædís Erla árið 2003 og er sómi okkar og ljómi eins og eldri systkini hennar.
Um aldamótin byggðum við fjölskyldan okkur hús í Rituhöfðanum.“

Besti skóli sem ég hef farið í
Herdís hefur látið stjórnmál sig varða og sat í bæjarstjórn Mosfellsbæjar í tæp 15 ár. „Mér bauðst 3. sæti á lista Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ í bæjarstjórnarkosningum árið 1998 og tók þá fyrst sæti í bæjarstjórn. Ég hef gaman af því að umgangast fólk og gefa af mér og fyrir slíkt fólk eru bæjarmál, þátttaka í pólitík og félagsstörf yfir höfuð skemmtileg.
Það er náttúrulega dásamlegt að búa í Mosfellsbæ og ala hér upp börn. Það eru forréttindi að hafa fengið að taka þátt í uppbyggingu samfélagsins. Ég segi oft að þáttaka mín í sveitarstjórnarmálunum sé sá besti skóli sem ég hef farið í.“

Veiktist af svínaflensu
Herdís varð að hætta störfum á Keldum vegna ofnæmis. Hún byrjaði að vinna hjá Rauða krossi Íslands árið 1998 og starfaði þar til ársins 2007 við hin ýmsu störf. Hún fór í meistaranám í umhverfis- og auðlindafræðum í HÍ og útskrifaðist vorið 2009 og byrjaði síðan í doktorsnámi. Um haustið veikist hún og fjölskylda hennar öll af svínaflensu. Herdís var þá nýbyrjuð í starfi hjá VSÓ ráðgjöf.
„Ég hef aldrei náð mér eftir að ég veiktist. Fyrst á eftir hélt ég að breytingaskeiðið væri að kikka svona rosalega inn en svo var nú ekki. Ég fékk svo endalausar sýkingar og leið alltaf eins og ég væri með flensu. Mér fannst ég einhvern veginn vera bara skugginn af sjálfri mér.“

Átti mörg samtöl við Guð
„Pabbi minn lést árið 2010 og fékk það mikið á mig. Annað áfall reið yfir í fjölskyldunni þegar litli frændi minn lést 2012, eins og hálfs árs. Þetta var óskaplega erfiður tími og maður átti mörg samtöl við Guð á þessum tíma.
Árið 2013 fékk ég veirusýkingu í miðtaugakerfið sem ég hef ekki enn náð mér af. Ég varð viðkvæm fyrir hávaða og gekk með sólgleraugu jafnt inni sem úti. Ég sat í bæjarstjórn á þessum tíma en baðst lausnar vegna orkuleysis.“

Jákvæð og bjartsýn að eðlisfari
„Það var ekki fyrr en sumarið 2015 að ég var greind með taugasjúkdóminn ME eða síþreytu eins og hann er kallaður á íslensku. Ég kom mér strax í samband við forsvarsmenn ME félagsins en félagið var stofnað árið 2011. Ég gekk í vísindahóp og fór að afla mér upplýsinga um sjúkdóminn. Í dag er ég virk í félaginu sem er mjög gefandi.
Nú er verið að undirbúa ráðstefnu sem haldin verður á Grand Hótel 28. september n.k. Þar munu erlendir sérfræðingar fræða íslenskt heilbrigðisfólk og sjúklinga um ME sjúkdóminn. Þar verður einnig rætt um Akur­eyrarveikina sem gekk yfir árið 1950 og er skráð sem faraldur í ME sögunni.
Staða mín í dag er sú að ég er óvinnufær en nýti nú tímann minn í að vinna í doktorsritgerðinni minni sem ég hef ekki snert á í tvö ár.
Þessi ganga mín undanfarin ár hefur vissulega verið erfið og er mikil kúvending en ég reyni að nýta reynsluna mér til góðs og hjálpar því ég er jákvæð og bjartsýn að eðlisfari.“

Mosfellingurinn 8. júní 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

umfaevrópa

Afturelding tekur þátt í Evrópukeppni félagsliða

umfaevrópa

Ásgeir Sveinsson formaður meistaraflokksráðs.

Ásgeir Sveinsson formaður meistaraflokksráðs.

Ljóst er að meistaraflokkur Aftureldingar í handknattleik mun leika í EHF Evrópukeppni félagsliða í haust. Í keppninni taka þátt bikarmeistarar auk annarra toppliða í hverju landi sem vinna sér inn þátttökurétt. Því er um að ræða sterka keppni með öllum bestu liðum Evrópu.
„Þetta er gríðarlega spennandi verkefni og það eru allir klárir í slaginn,“ segir Ásgeir Sveinsson formaður meistaraflokksráðs Aftureldingar.

Hvernig öðluðumst við þátttökurétt?
„Við fáum keppnisrétt vegna þess að Afturelding lék í bikarúrslitum gegn Val í vetur. Valsararar fóru með sigur af hólmi en urðu jafnframt Íslandsmeistarar í vor og öðlast þannig rétt til að leika í keppni meistaraliða.“

Er þetta eitthvað í líkingu við Áskorendakeppni Evrópu?
„Nei, þetta er talsvert sterkari keppni en Valsararnir voru í um daginn.“

Fylgir þessu ekki mikill kostnaður?
„Jú, kostnaðurinn er gríðarlegur, 2-3 milljónir á hverja umferð, sem fer svolítið eftir því hvar við lendum. Við ætlum að borga hluta af þessu og strákarnir í liðinu ætla að borga 75 þúsund á mann í hverja umferð. Svo verður farið í miklar fjár­aflanir.
Við erum auðvitað ekkert atvinnumannalið en ætlum að láta þetta ganga upp. Til stóð að fara í æfingaferð til Danmerkur en við ætlum að taka slaginn um Evrópu í staðinn. Þetta er virkilega spennandi og þroskandi fyrir okkar unga og efnilega lið því hjá okkur eru margir ungir leikmenn sem stefna að atvinnumennsku.“

Hafa lið verið að nýta sér þátttökurétt í þessum keppnum?
„Það er allur gangur á því en er að byrja aftur núna. Haukarnir hafa verið duglegir í gegnum tíðina. Þetta er rosalega spennandi dæmi. Ef við komumst í 2. umferð getum við mætt toppliðum í Þýskalandi eða Skandinavíu sem væri algjör draumur.“

Skiptir þetta einhverju máli fyrir okkur?
„Já, þetta hefur mikla þýðingu og er stórt skref upp á við fyrir félagið.
Afturelding hefur tekið þátt í keppninni áður en það er orðið ansi langt síðan. Spilað var við Drammen rétt fyrir aldamótin og Bjarki Sig var seldur þangað í kjölfarið.“

Hvenær hefst svo keppnin?
„Það fer eftir því hvernig þetta raðast í styrkleikaflokka. Við gætum átt fyrsta leik í byrjun september.“

Útskrift vor 2017. Efsta röð frá vinstri: Gestur Ólafur Ingvarsson, Kristján Davíð Sigurjónsson, Stefán Fannar Jónsson, Berglind Sara Björnsdóttir, Árni Valur Þorsteinsson, Rúnar Sindri Þorsteinsson, Benedikt Svavarsson, Davíð Sigurjónsson, Anton Þór Sævarsson, Andrea Ósk Finnsdóttir og Rakel Anna Óskarsdóttir. Miðröð frá vinstri: Arnar Franz Baldvinsson, Brynhildur Sigurðardóttir, Lára Björk Jónsdóttir, Freyja Lind Hilmarsdóttir, Völundur Ísar Guðmundsson, Eggert Smári Þorgeirsson, Kristín Dís Gísladóttir, Sandra Rós Jónasdóttir, Magnea Ása Magnúsdóttir, Margrét Phuong My Du og Ársól Þöll Guðmundsdóttir.
Neðsta röð frá vinstri: Guðrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólameistari, Geir Gunnar Geirsson, Sigursteinn Birgisson, Brynhildur Þórðardóttir, Karen Sunna Atladóttir, Bryndís Sigurðardóttir, Ásgerður Elín Magnúsdóttir, Valgeir Bjarni Hafdal, Hafþór Ari Gíslason, Alída Svavarsdóttir og Guðbjörg Aðalbergsdóttir skólameistari. Á myndina vantar: Björn Bjarnarson og Hall Hermannsson Aspar.

33 nemendur brautskráðir frá framhaldsskólanum

Útskrift vor 2017. Efsta röð frá vinstri: Gestur Ólafur Ingvarsson, Kristján Davíð Sigurjónsson, Stefán Fannar Jónsson, Berglind Sara Björnsdóttir, Árni Valur Þorsteinsson, Rúnar Sindri Þorsteinsson, Benedikt Svavarsson, Davíð Sigurjónsson, Anton Þór Sævarsson, Andrea Ósk Finnsdóttir og Rakel Anna Óskarsdóttir. Miðröð frá vinstri: Arnar Franz Baldvinsson, Brynhildur Sigurðardóttir, Lára Björk Jónsdóttir, Freyja Lind Hilmarsdóttir, Völundur Ísar Guðmundsson, Eggert Smári Þorgeirsson, Kristín Dís Gísladóttir, Sandra Rós Jónasdóttir, Magnea Ása Magnúsdóttir, Margrét Phuong My Du og Ársól Þöll Guðmundsdóttir. Neðsta röð frá vinstri: Guðrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólameistari, Geir Gunnar Geirsson, Sigursteinn Birgisson, Brynhildur Þórðardóttir, Karen Sunna Atladóttir, Bryndís Sigurðardóttir, Ásgerður Elín Magnúsdóttir, Valgeir Bjarni Hafdal, Hafþór Ari Gíslason, Alída Svavarsdóttir og Guðbjörg Aðalbergsdóttir skólameistari. Á myndina vantar: Björn Bjarnarson og Hall Hermannsson Aspar.

Útskrift vor 2017. Efsta röð frá vinstri: Gestur Ólafur Ingvarsson, Kristján Davíð Sigurjónsson, Stefán Fannar Jónsson, Berglind Sara Björnsdóttir, Árni Valur Þorsteinsson, Rúnar Sindri Þorsteinsson, Benedikt Svavarsson, Davíð Sigurjónsson, Anton Þór Sævarsson, Andrea Ósk Finnsdóttir og Rakel Anna Óskarsdóttir. Miðröð frá vinstri: Arnar Franz Baldvinsson, Brynhildur Sigurðardóttir, Lára Björk Jónsdóttir, Freyja Lind Hilmarsdóttir, Völundur Ísar Guðmundsson, Eggert Smári Þorgeirsson, Kristín Dís Gísladóttir, Sandra Rós Jónasdóttir, Magnea Ása Magnúsdóttir, Margrét Phuong My Du og Ársól Þöll Guðmundsdóttir. Neðsta röð frá vinstri: Guðrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólameistari, Geir Gunnar Geirsson, Sigursteinn Birgisson, Brynhildur Þórðardóttir, Karen Sunna Atladóttir, Bryndís Sigurðardóttir, Ásgerður Elín Magnúsdóttir, Valgeir Bjarni Hafdal, Hafþór Ari Gíslason, Alída Svavarsdóttir og Guðbjörg Aðalbergsdóttir skólameistari. Á myndina vantar: Björn Bjarnarson og Hall Hermannsson Aspar.

Útskriftarhátíð Framhaldsskólans í Mosfellsbæ fór fram laugardaginn 27. maí við hátíðlega athöfn.
Að þessu sinni voru alls þrjátíu og þrír nemendur brautskráðir, sjö af félags- og hugvísindabraut og tíu af náttúru­vísindabraut. Af opinni stúdentsbraut brautskráðust fjórtán nemendur. Einnig brautskráðust tveir nemendur af starfsbraut skólans.
Útskriftarnemendum voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur:
Arnar Franz Baldvinsson fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í kvikmyndafræði og Valgeir Bjarni Hafdal fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í umhverfisfræði. Fyrir góðan árangur í sálfræði fékk Björn Bjarnarson viðurkenningu.
Fyrir góðan árangur í dönsku, íslensku, spænsku, og náttúrufræði fékk Kristján Davíð Sigurjónsson viðurkenningar. Viðurkenningar fyrir góðan árangur í dönsku og íslensku fékk Rakel Anna Óskarsdóttir. Mosfellsbær veitti jafnframt Kristjáni Davíð viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.

Svava Ýr Baldvinsdóttir tekur við lýðheilsuviðurkenningu Mosfellsbæjar úr höndum Ólafar Sívertsen verkefnastjóra Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ. Gulrótin var afhent í fyrsta sinn á Heilsudaginn 1. júní.

Svava Ýr hlýtur Gulrótina

Svava Ýr Baldvinsdóttir tekur við lýðheilsuviðurkenningu Mosfellsbæjar úr höndum Ólafar Sívertsen verkefnastjóra Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ. Gulrótin var afhent í fyrsta sinn á Heilsudaginn 1. júní.

Svava Ýr Baldvinsdóttir tekur við lýðheilsuviðurkenningu Mosfellsbæjar úr höndum Ólafar Sívertsen verkefnastjóra Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ. Gulrótin var afhent í fyrsta sinn á Heilsudaginn 1. júní.

Heilsudagurinn í Mosfellsbæ var haldinn fimmtudaginn 1. júní. Dagurinn hófst snemma með hressandi morgungöngu á Mosfellið. Um kvöldið fór síðan fram áhugavert málþing í framhaldsskólanum og Gulrótin afhent í fyrsta sinn.
Gulrótin er lýðheilsuviðurkenning Mosfellsbæjar sem veitt er fyrir brautryðjendastarf í þágu heilsueflingar og bættrar lýðheilsu íbúa.
Svava Ýr Baldvinsdóttir íþróttakennari hlaut viðurkenninguna en hún hefur í áratugi unnið ötullega að lýðheilsu og heilsueflingu allra aldurshópa í Mosfellsbæ. Svava hefur m.a. starfrækt Íþróttaskóla barnanna hjá Aftureldingu í 25 ár en skólinn nýtur mikilla vinsælda. Þá hefur hún þjálfað handbolta í fjölmörg ár og haft umsjón með æfingahópi Morgunhananna í World Class, svo fátt eitt sé nefnt.
„Svava hefur kennt, frætt og byggt upp stóra hópa með heilsueflingu að leiðarljósi,“ segir í rökstuðningi.

Heilsumolar_Gaua_8juni

Kuldinn

Heilsumolar_Gaua_8juni

Ég er búinn að vera að vinna með kuldann í vor. Kaldar sturtur og sjóböð eru í uppáhaldi. Köldu kerin í sundlaugunum eru líka hressandi. Mér finnst þetta hafa haft mjög góð áhrif á mig. Ég finn sérstaklega mun þegar ég er búinn að vera að puða og púla. Það er eins og þreyttur líkaminn endurnærist í kalda vatninu, lifni einhvern veginn við aftur.

Best finnst mér að enda á kaldri sturtu og finna líkamann hita sig upp aftur, hægt og rólega. En maður þarf að fara að rólega af stað og venja sig við kuldann. Það er mjög mikilvægt. Byggja upp kuldaþol. Æfa sig. Verða smám saman betri í að vinna með kuldann.

Það er mikilvægt að stýra önduninni, anda hægt og rólega og slaka á, annars á maður ekki möguleika í kalda vatninu. Maður þarf líka að stýra hugsunum sínum. Hugsa um hvað þetta sé gott fyrir mann, að kuldinn geri mann hraustari og hressari. Hafi góð áhrif á mann. Þannig hugsanir hjálpa manni að ná stjórn á önduninni. Það hjálpar ekki hugsa um hvað þetta sé nú hrikalega kalt og eigi eftir að verða erfitt og vont. Jafnvel þótt þetta sé erfitt til að byrja með. Eins og með allt sem er erfitt en gott fyrir mann, þá tekur líkaminn smám saman stjórnina og hvetur mann til dáða.

Daglegu köldu sturturnar voru ekki auðveldar fyrst en núna hlakka ég til þeirra. Hlakka til þess að finna ískalt og hressandi vatnið skella á mér. Tilfinning er góð á meðan ég er í kalda vatninu og frábær eftir á.

Sjórinn er svo alltaf bestur. Stútfullur af lífi og orku. Ég hlakka til að stinga mér í spegilslétta íslenska firði í sumar. Fyrir sunnan, austan, norðan og vestan. Njóta þess að svamla í ferskri náttúrunni í sumarsólinni. Njótum ferðalagsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 8. júní 2017

Ævar Aðalsteinsson í hlíðum Helgafells.

Fjölbreyttar gönguleiðir við allra hæfi

Ævar Aðalsteinsson í hlíðum Helgafells.

Ævar Aðalsteinsson í hlíðum Helgafells en búið er að stika um 90 km af gönguleiðum í Mosfellsbæ.

Farsælt samstarf á milli Mosfellbæjar og skátafélagsins Mosverja, um að auðvelda Mosfellingum að nýta sér útivistasvæði í kringum bæinn til útivistar og gönguferða, hefur staðið yfir í nokkurn tíma.
„Þetta byrjaði á árunum 2004-2005 en þá fengu skátarnir fyrirspurn frá Íþrótta- og tómstundanefnd þar sem óskað var eftir hugmyndum að útivistaverkefnum,“ segir Ævar Aðalsteinsson sem hefur haft yfirumsjón með þessu verkefni frá byrjun.
„Stikaðar gönguleiðir um fellin og dalina í kringum Mosfellsbæ var ein af þeim hugmyndum. Það var svo árið 2008 sem undirritaður var samstarfssamningur milli þessara aðila en þá lá fyrir bæði verkefnaáætlun og kostnaðaráætlun fyrir þetta verkefni.“

Góð verkáætlun í byrjun
„Landsvæðið var skipulagt þannig í byrjun að við hefðum yfirsýn yfir svæðið. Fyrsta sumarið fór í skipulagningu og meðal fyrstu verkefna var að ræða við landeigendur og fá heimild til að fara yfir þeirra eignalönd. Hannað var göngukort fyrir heildarsvæðið, hönnuð voru skilti, vegprestar, girðingastigar og göngubrýr. Sótt var um leyfi fyrir bílastæðum og fleiru sem fylgdi verkefninu. En sumarið 2009 voru fyrstu 10 km stikaðir,“ segir Ævar og vill meina að ein af ástæðunum fyrir að fólki finnst gott að búa í Mosfellsbæ sé nálægðin við ósnerta náttúru.

Stikaðar gönguleiðir 90 km
„Þetta verkefni hefur gengið mjög vel og ég held að allir séu sammála um að það er aukin umferð göngufólks á svæðinu. Staðan er þannig í dag að búið er að stika um 90 km af gönguleiðum, útbúa um 10 bílastæði, fjöldan allan af girðingastigum og göngubrúm.“
„Á svæðinu eru um 30 vegprestar og 30 upplýsinga- og fræðsluskilti. Á þessum skiltum eru staðarheiti, vegalengdir og ýmsar fróðlegar upplýsingar, bæði landfræðilegar og sögulegar. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar og því ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Við skipulögðum göngurnar með það í huga að teyma göngufólkið á fallega staði á svæðinu.“

Úlfarsfellið fjölfarnasta útivistarsvæðið
„Verkáætluninni, eins og hún var gerð í upphafi, fer að ljúka og nú tekur við viðhaldsstig. Svo er það spurningin hvert viljum við fara með þetta verkefni og það eru þegar komnar nokkrar hugmyndir að næstu skrefum.“
„Nú í sumar ætlum við að leggja stíg á gönguleiðina frá Skarhólabraut upp á Úlfarsfellið, sem er að verða eitt fjölsóttasta útivistarsvæðið á höfuðborgarsvæðinu. Reykjvíkingar eru að hugsa um að gera svipað sín megin og skógræktin í Hamrahlíðarskógi ætlar að gera stíg frá sínu svæði. Þetta er jákvæð þróun og við höfum fengið mikinn meðbyr frá almenningi,“ segir Ævar að lokum og tekur fram að umgengnin á gönguleiðunum sé alveg til fyrirmyndar og hvetur Mosfellinga til að nýta sér gönguleiðirnar í kringum bæinn okkar.

Hér er hægt að skoða kort af stikuðum gönguleiðum í Mosfellsbæ.
(
Einnig er hægt að nálgast göngukort í þjónustuveri Mosfellsbæjar, sundlaugunum, bókasafninu og víðar)

mosfellingurinn_bara+

Flug og skotfimi eiga vel saman

mosfellingurinn_bara+

Bára Einarsdóttir framkvæmdastjóri og eigandi Bílaparta ehf. er Íslands- og bikarmeistari í 50 metra liggjandi riffli.

Það er ekki hægt að segja annað en að Bára Einarsdóttir fari óhefðbundnar leiðir þegar kemur að vali á áhugamálum. Dagsdaglega starfar hún innan um bíla og bílaparta, á góðviðrisdögum skreppur hún í flugtúr á sinni eigin flugvél og þess á milli meðhöndlar hún riffla og skammbyssur.
Hún veit ekkert skemmtilegra en að skella sér í veiðitúr erlendis í góðra vina hópi og síðastliðið haust var haldið til Eistlands þar sem veiddir voru elgir og rádýr.

Bára fæddist í Hafnarfirði 4. maí 1972. Hún er dóttir hjónanna Þóru M. Sigurðardóttur fv. bankastarfsmanns og Einars D.G. Gunnlaugssonar, tækniteiknara. Systkini Báru eru þau Sonja Sól og Einar Sigurður.

Með þeim fyrstu í Grafarvoginn
„Ég bjó í Reykjavík til þriggja ára aldurs en árið 1974 flutti fjölskyldan búferlum til Hafnar í Hornarfirði þar sem við bjuggum í átta ár. Móðurafi minn og amma bjuggu á Höfn og afi rak bakaríið hjá Kaupfélagi Austur-Skaftfellinga.
Móðir mín vann við verslunarstörf og faðir minn við hin ýmsu störf. Síðustu tvö árin okkar á Höfn vann hann í Síldarsöltunarstöðinni en við byggingu nýrrar söltunar­stöðvar varð hann fyrir alvarlegu vinnuslysi sem olli því að við þurfum að flytja til Reykjavíkur.
Við fluttum í Breiðholtið og ég gekk tvo vetur í Fellaskóla. Við fluttum svo yfir í Grafarvoginn og vorum með þeim fyrstu sem fluttu þangað. Fyrsta veturinn minn þar gekk ég í Laugarnesskóla en þegar Foldaskóli var tilbúinn þá færðist ég yfir. Síðasta veturinn í gagnfræðaskólanum var öllum bekkjunum skipt upp og ég valdi að fara í Ölduselsskóla og sé ekki eftir því.“

Fórum á hestbak á Keldum
„Það var skemmtilegt að búa í Grafarvogi. Þetta var fyrst um sinn lítið samfélag og við sem bjuggum þarna vorum mjög náin.
Vinahópurinn var nú ansi oft uppátækjasamur og við vorum ekki eftirlæti kennaranna. Við fórum stundum á hestbak á hestunum hjá Tilraunastöðinni á Keldum og höfðum mikið gaman af.
Eftir grunnskóla fór ég að vinna en með skólanum hafði ég verið að vinna í Kólus­ lakkrísgerð og í Miklagarði og í fiski á sumrin.“

Fluttu fyrirtækið til Mosfellsbæjar
„Í mars 1988 kynntist ég eiginmanni mínum, Ásgeiri Jamil Allanssyni. Við Jamil eigum tvo syni, Atla fæddan 1990 og Andra fæddan 1994. Atli og kona hans Ágústa eiga einn son, Alex Jamil, sem er fæddur 2010.
Við Jamil unnum saman fyrst í sjoppu og í Bílaþjónustunni í Dugguvogi en faðir Jamils rak það fyrirtæki. Við opnuðum Bílapartasöluna við Rauðavatn í júní 1989 en fluttum svo fyrirtækið að Grænumýri í Mosfellsbæ þar sem við erum í dag. Við fjölskyldan fluttum svo hingað árið 2003 og hér finnst okkur gott að vera.
Atli og Ágústa starfa með okkur á Bíla­partasölunni en Andri Jamil er í flugvirkja­námi í Grikklandi. Fjölskyldan skiptir mig mestu máli, við erum mjög samrýmd enda vinnum við öll saman og erum góðir vinir.“

Lærði arabísku í Egyptalandi
Bára fór í Skrifstofu- og ritaraskólann, Tölvu- og viðskiptaskólann og lærði líka svæðanudd. Í 12 ár sýndi hún hunda á sýningum hjá HRFÍ og var einnig formaður Spaniel-deildarinnar.
Bára er löggildur bílasali og fór á Cabas­námskeið og plastsuðunámskeið hjá Iðunni. Hún hefur farið á nokkur tungumálanámskeið og hefur meðal annars lært arabísku. Hún lagði leið sína til Egyptalands í nokkrar vikur til að læra arabískuna betur.
Jamil keppti í torfæru í sex ár og átti það hug þeirra hjóna allan þann tíma.

Fóru til Eistlands í veiðiferð
„Það var árið 2013 sem Jónas Hafsteinsson lögreglumaður kynnti mig fyrir skotfimi hjá Skotíþróttafélagi Kópavogs. Það var ekki aftur snúið því ég kolféll fyrir þessu og byrjaði að æfa um haustið.
Ég varð Íslandsmeistari í loftskammbyssu 2014 og hef síðan þá náð nokkrum titlum og sett nokkur Íslandsmet í liðakeppni í hinum ýmsu skotgreinum. Ég var valin skotíþróttakona ársins hjá félaginu árið 2015 og 2016.
Ég varði Íslands- og bikarmeistaratitilinn minn á dögunum í 50 metra liggjandi riffli og er að sjálfsögðu ánægð með það. Í dag er ég varaformaður Skotíþróttafélagsins.
Stöllur mínar, Guðrún Hafberg og Margrét Linda, hafa líka sett nokkur Íslandsmet þetta keppnisbilið en það er gaman að segja frá því að við erum allar úr Mosfellsbæ.
Ég hef mjög gaman af því að veiða og síðast­liðið haust fórum við nokkrar vinkonur saman til Eistlands í veiðiferð. Þar hittum við fleiri konur sem voru í sama tilgangi og við.
Ég veiddi þrjú rádýr í þessari ferð og stefni á að fara aftur út í haust ásamt því að fara á gæs hér heima.“

Keyptu sér flugvél í Bandaríkjunum
„Ég fór að læra að fljúga í Flugskólanum Geirfugli árið 2015 og útskrifaðist með einkaflugmannspróf sumarið 2016. Skotfimi og flug eiga vel saman, maður er í skotfiminni inni á veturna og svo tekur flugið við á sumrin.
Við Jamil keyptum okkur flugvél frá Bandaríkjunum sl. haust en hann flýgur einnig mikið. Ég flaug á sjóflugvél í fyrsta skipti um páskana á Flórída og mun ég reyna að fara sem oftast til þess.
Það er ekkert sem jafnast á við listflug. Sigurjón Valsson fráfarandi formaður Flugklúbbs Mosfellsbæjar náði að smita mig af þessari bakteríu áður en ég tók við formennsku af honum í mars sl. og ég get sagt þér að þetta er algjör snilld.
Ég fer út í sumarið full af áhuga og ætla að reyna að fljúga sem mest og njóta sumarins og ætla jafnvel að skella mér á salsanámskeið,“ segir Bára brosandi að lokum er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 18. maí 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Hér má sjá vinningshafa ásamt Ólöf Kristínu Sívertsen, verkefnisstjóra Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ. Verðlaunaafhendingin fór fram á Fyrirmyndardeginum sl. laugardag. Frá vinstri: Eva María 
(3. sæti), Elsa Björg (aukaverðlaun), Ólöf, Elmar (4. sæti), Dagbjört Lára (1. sæti) og Tjörvi (2. sæti).

Vinningshafar í heilsueflandi samfélagsmiðlaleik

Hér má sjá vinningshafa ásamt Ólöf Kristínu Sívertsen, verkefnisstjóra Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ. Verðlaunaafhendingin fór fram á Fyrirmyndardeginum sl. laugardag. Frá vinstri: Eva María (3. sæti), Elsa Björg (aukaverðlaun), Ólöf, Elmar (4. sæti), Dagbjört Lára (1. sæti) og Tjörvi (2. sæti).

Hér má sjá vinningshafa ásamt Ólöf Kristínu Sívertsen, verkefnisstjóra Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ. Verðlaunaafhendingin fór fram á Fyrirmyndardeginum sl. laugardag. Frá vinstri: Eva María (3. sæti), Elsa Björg (aukaverðlaun), Ólöf, Elmar (4. sæti), Dagbjört Lára (1. sæti) og Tjörvi (2. sæti).

Heilsueflandi samfélag í Mosfellsbæ stóð á dögunum fyrir samfélagsmiðlaleik fyrir nemendur í 8.-10. bekk í grunnskólum bæjarins.
Tilgangur verkefnisins var sá að vekja ungmennin til umhugsunar um mikilvægi og ábyrgð á eigin heilsu og vellíðan. Jafnframt var mikilvægt að koma því til skila að þótt næring og hreyfing séu mjög mikilvægir þættir þegar kemur að heilsueflingu þá skipti félagslegi þátturinn ekki síður máli, það að vera með fólki og eiga góða vini og fjölskyldu.

Hugmyndaríkir krakkar
„Þátttakan í leiknum fór fram úr björtustu vonum og skiluðu ungmennin inn hverri glæsimyndinni á fætur annarri,“ segir Ólöf Sívertsen verkefnastjóri. „Fjölbreytni myndefnis gaf það svo sannarlega til kynna að þau hefðu áttað sig á mikilvægi allra fyrrnefndra þátta, þ.e. líkamlegra, andlegra og félagslegrar vellíðunar.
Það var ekki einfalt verk að finna vinningshafana en í störfum dómnefndar var horft til ýmissa þátta s.s. frumleika, heildarhugsunar, fjölda mynda, hugmyndauðgi og skilaboða.“

Glæsileg verðlaun afhent
Verðlaunin voru ekki af verri endanum en fyrir 1. sætið var það iPhone 7 sími og gjafakort í Intersport að upphæð 50.000 kr. Fyrir 2.-4. sæti voru einnig gjafabréf frá Inter­sport ­og tveir aðilar fengu aukaverðlaun frá Keiluhöllinni í Egilshöll.
Hér má sjá nokkrar af myndum vinningshafanna en hægt er að skoða allar myndir á Instagram undir merkinu #mosoheilsa.

#mosoheilsa

A post shared by Dagbjört Lára Bjarkadóttir (@_dagbjort_lara) on

🌊🌊 #bmx #mosoheilsa

A post shared by Tjörvi Arnarsson (@tjxrvi_arnarsson) on

#mosoheilsa

A post shared by Eva María (@eva_maria03) on

5 á dag, hvern dag🥕🍐🍋🥑🌶 #mosoheilsa

A post shared by Dab (@djemmixd) on

Magnús Ólason framkvæmdastjóri lækninga, Birgir Gunnarsson forstjóri, Guðbjörg Gunnarsdóttir mannauðs­stjóri og Lára M. Sigurðardóttir fram­kvæmdastjóri hjúkrunar. Mynd/Heiða

Reykjalundur stofnun ársins

Magnús Ólason framkvæmdastjóri lækninga, Birgir Gunnarsson forstjóri, Guðbjörg Gunnarsdóttir mannauðs­stjóri og Lára M. Sigurðardóttir fram­kvæmdastjóri hjúkrunar. Mynd/Heiða

Magnús Ólason framkvæmdastjóri lækninga, Birgir Gunnarsson forstjóri, Guðbjörg Gunnarsdóttir mannauðs­stjóri og Lára M. Sigurðardóttir fram­kvæmdastjóri hjúkrunar. Mynd/Heiða

Reykjalundur hlaut á dögunum titilinn Stofnun ársins 2017 samkvæmt árlegri könnun sem gerð er á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins í samstarfi við SFR og VR.
Á Reykjalundi fer fram alhliða endurhæfing sem miðar að því að bæta lífsgæði, færni og sjálfsbjargargetu þeirra sem þangað leita. Könnunin er framkvæmd af Gallup og nær til yfir 50 þúsund starfsmanna á almennum og opinberum vinnumarkaði. Könnunin gefur stjórnendum upplýsingar um hvað vel sé gert og hvað megi bæta frá sjónarhóli starfsfólksins. Þátttakendur eru spurðir út í ýmsa þætti í starfsumhverfinu þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti.
„Þessi niðurstaða endurspeglar viðhorf til vinnustaðarins og nær til ýmissa samverkandi þátta. Þetta er mikil viðurkenning og staðfesting á að við erum á réttri leið,“ segir Birgir Gunnarsson forstjóri Reykjalundar.
Niðurstöðurnar voru kynntar miðvikudaginn 10. maí.

heilsumolar_18maí

Heilsubærinn

heilsumolar_18maí

Ég ætlaði að skrifa kjarnyrtan upp-með-sokkana pistill til þeirra sem taka sér þriggja mánaða frí frá öllum æfingum á sumrin, borða allt sem hönd á festir og gleyma að sofa. Ranka svo móðir og andstuttir við sér einhvern tíma eftir verslunarmannahelgi með bullandi samviskubit og kaupa sér árskort í ræktina. En ég nenni því ekki. Fólk veit þetta alveg sjálft. Það er ekkert vit í því að taka sér margra mánaða frí frá heilbrigðu líferni og það er sáraeinfalt, alls ekki tímafrekt og mjög skemmtilegt að halda sér í góðu formi á sumrin. Lykillinn er að koma sér út úr húsi, hreyfa sig og æfa utandyra. Ná sér í birtu og súrefni. Borða alvöru mat og sofa á nóttunni.

En mig langar miklu frekar að skrifa um heilsubæinn Mosfellsbæ. Ég er dagsdaglega í samskiptum við sveitarfélög víðsvegar um landið og upplifi í gegnum þau samskipti hvað það er mikið litið til Mosfellsbæjar sem leiðandi sveitarfélags þegar kemur að heilsu. Það sem mestu máli skiptir, að mínu mati, er að gjörðir fylgja orðum. Mosfellsbær til dæmis hefur tekið þá ákvörðun að vera Heilsueflandi samfélag og fylgt þeirri ákvörðun eftir með ýmis konar jákvæðum framkvæmdum. Okkar Mosó er frábært verkefni og eitthvað sem önnur sveitarfélög eru og munu taka sér til fyrirmyndar. Lykilatriðið í því verkefni er að bærinn mun á næstu mánuðum koma í framkvæmd heilsueflandi hugmyndum íbúa bæjarfélagsins. Okkar hugmyndum. Íbúakosning án framkvæmda myndi litlu skila. Hafa þveröfug áhrif.

Við erum á góðum stað, Mosfellsbær, og erum í kjörstöðu til þess að fara alla leið. Við getum orðið Heilsubær Íslands. Fyrirmynd á heimsvísu. Kjörstaður þeirra sem vilja lifa heilbrigðu lífi og þeirra sem vilja vinna við heilsu og hollustu. Tækifærin eru til staðar. Grunnurinn hefur verið lagður og bærinn er stútfullur af fólki með góðar hugmyndir á þessu sviði.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 18. maí 2017

Magnús Þór, Cecelía Rán, Arnór Daði, Kristín Sól, Hlynur Logi, Arna Karen og Ragnar Már. Á myndina vantar Arnór Gauta, Ólaf Má, Ernu Sóleyju og Dagmar Ýri.

Styrkir til efnilegra ungmenna

Magnús Þór, Cecelía Rán, Arnór Daði, Kristín Sól, Hlynur Logi, Arna Karen og Ragnar Már. Á myndina vantar Arnór Gauta, Ólaf Má, Ernu Sóleyju og Dagmar Ýri.

Magnús Þór, Cecelía Rán, Arnór Daði, Kristín Sól, Hlynur Logi, Arna Karen og Ragnar Már. Á myndina vantar Arnór Gauta, Ólaf Má, Ernu Sóleyju og Dagmar Ýri.

Íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar veitir árlega styrki til efnilegra ungmenna á aldrinum 14-20 ára.
Markmiðið með styrkjunum er að gefa styrkþegum sömu tækifæri og jafnöldrum gefast til að njóta launa, á sama tíma og þau stunda af kappi sína list, íþrótt eða tómstund yfir sumartímann.
Styrkurinn er fólginn í launum frá vinnuskóla Mosfellsbæjar og er einstaklingum þannig gefið tækifæri til að einbeita sér frekar að sinni grein og ná enn meiri árangri. Að þessu sinni sóttu 36 ungmenni um styrkinn en 11 hlutu styrk.
Arna Karen Jóhannsdóttir badminton, Arnór Daði Rafnsson gítar, Arnór Gauti Jónsson knattspyrna/handbolti, Cecelía Rán Rúnarsdóttir knattspyrna, Dagmar Ýr Eyþórsdóttir rafgítar, Erna Sóley Gunnarsdóttir frjálsar, Hlynur Logi Ingólfsson körfubolti, Kristín Sól Guðmundsdóttir golf, Ólafur Már Einarsson, knattspyrna, Magnús Þór Sveinsson rytmískt píanónám, Ragnar Már Ríkarðsson, golf.

sveinbjorn_mosfellingur

Í boltanum í 50 ár

sveinbjorn_mosfellingur

Sveinbjörn Sævar Ragnarsson eigandi Silkiprents er brautryðjandi í framleiðslu á útifánum á Íslandi.

Hann ber það ekki með sér að vera kominn yfir sjötugt enda ávallt í fullu fjöri. Ef hann er ekki í vinnunni þá er hann í útreiðatúr, í golfi eða að spila handbolta. Hann segir það skemmtilegasta við boltann, sem hann hefur stundað í yfir 50 ár, sé að vera í marki og verja 15 bolta í leik.
Maðurinn sem um ræðir heitir Sveinbjörn Sævar, ávallt kenndur við Silkiprent.

Sveinbjörn Sævar Ragnarsson er fæddur 24. ágúst 1944. Foreldrar hans eru þau Lilja Steinunn Guðmundsdóttir húsmóðir og Ragnar Breiðfjörð Sveinbjörnsson matreiðslumaður en hann lést árið 1972. Sveinbjörn á tvo bræður, þá Pál og Guðmund.

Gerði bara eins og hinir
„Ég er alinn upp í Reykjavík og var snarofvirkur prakkari á mínum yngri árum. Ég vaknaði snemma á morgnana og kom ekki heim fyrr en undir kvöldmat alla daga. Ég fór í sund á hverjum degi um sex ára aldurinn og einn daginn kom ég heim með miða sem á stóð að ég hefði synt 200 m sund í Norrænu sundkeppninni. Mamma spurði hvernig ég hefði farið að því þar sem ég kynni ekki að synda og ég svaraði, ég gerði bara eins og hinir.
Ég spilaði fótbolta með Val til tólf ára aldurs og það var mjög skemmtilegur tími en svo uppgötvaði ég stelpurnar og þá fækkaði nú æfingunum aldeilis,“ segir Sveinbjörn og hlær.

Útskrifaðist úr prentiðn
„Ég gekk í Laugarnes-, Langholts- og Austurbæjarskóla. Mér fannst ekki gaman í skóla og fannst leiðinlegt að læra. Mottóið­ hjá mér var bara að ná prófunum og láta það duga og það gerði ég nema í eitt sinn. Kennarinn minn í heilsufræði sagði eitt sinn við mig að ef ég kæmi þrisvar sinnum ólesinn í tíma þá þyrfti ég ekki að mæta meira. Ég lærði þá eins og enginn væri morgundagurinn og fékk 9 á prófinu.
Þegar ég var 12 ára talaði ég mjög mikið í tíma og hafði truflandi áhrif á bekkinn. Kennarinn fékk nóg af mér einn daginn, tók kennaraprikið og sló mig í rassinn og við það brotnaði það. Ég þagði það sem eftir lifði dags.
Eftir útskrift úr gaggó fór ég í Iðnskólann í Reykjavík að læra prentun. Ég komst svo á samning hjá Prentsmiðjunni Eddu og var þar í fjögur ár. Árið 1963 fór ég að læra setningu á Morgunblaðinu og starfaði þar í níu ár.“

Skemmtilegur félagsskapur
„Á Morgunblaðsárunum plataði Magnús Ólafsson skemmtikraftur mig á handboltaæfingu hjá Þrótti en hann starfaði einnig á blaðinu. Hjá Þrótti var ég alveg þangað til ég færði mig yfir til Aftureldingar. Ég spilaði með Júmboys og má segja að það tímabil sé það efirminnilegasta á ferlinum.
Í dag spila ég með Hvíta Riddaranum. Mér finnst alveg ótrúlega gaman í handbolta og missi aldrei af æfingu. Félagsskapurinn er nú heldur ekki til að skemma fyrir, allt saman frábærir strákar. Það skemmtilegasta við boltann er að vera í marki og verja 15 bolta í leik.“
Ég spyr Sveinbjörn hver sé galdurinn við að vera í góðu formi fram eftir aldri og hversu lengi hann ætli að halda áfram? „Það sem hjálpar mér er að ég verð aldrei veikur og get alltaf mætt á æfingar. Svo hleyp ég upp og niður stigann í vinnunni, þannig held ég mér í ágætis formi. Ég ætla að vera í boltanum eins lengi og ég get og ætla ekki að hætta fyrr en ég verð að gera það eða strákarnir henda mér út af æfingu.
Það eru tíu ár síðan ég byrjaði fyrir alvöru í golfi en ég var að fikta við það öðru hverju fram að þeim tíma. Það er býsna erfitt að verða góður í golfi og það krefst mikilla æfinga. Ég vildi sannarlega hafa meiri tíma til að sinna því.“

Hesthúsahverfið innan seilingar
„Ég giftist Grétu Sigurðardóttur um tvítugsaldurinn og við eignuðumst fjögur börn: Lilju fædda 1964, Sigríði 1965, Rögnu 1971 og Sveinbjörn fæddan 1978. Við byrjuðum okkar búskap í Reykjavík en fluttum í Mosfellssveit árið 1974.
Við hjónin byrjuðum saman í hestamennskunni en hesthúsahverfið var innan seilingar en við bjuggum þá í Dvergholtinu. Ég hef keppt bæði á fjórðungs- og landsmótum og átti landsfrægan hest, Muna, en hann vann A-flokkinn árið 1990. Ég er enn í hestastússinu og hef mikið gaman af.
Við Gréta slitum samvistir árið 1997.“

Fundu frábært efni í fánana
Sveinbjörn Sævar stofnaði fána- og skiltagerðina Silkiprent árið 1972 en fyrirtækið byrjaði í litlu húsnæði vestur á Granda. Silkiprent er fyrsta fyrirtækið til að framleiða útifána á Íslandi.
„Við erum brautryðjendur í framleiðslu á útifánum og er það enn okkar stærsti framleiðsluþáttur,“ segir Sveinbjörn. Leitast var við að þróa fánana og finna bestu lausn fyrir íslenskar aðstæður og fannst frábært efni í þá sem er flutt inn frá Frakklandi. Einnig er hægt að fá borðfána, hátíðarfána, strandfána og alla heimsins þjóðfána ásamt ýmsu öðru þar á meðal skilti.
„Það er fátt sem er ekki leyst hér, það er meira að segja hægt að afgreiða fána samdægurs,” segir Sveinbjörn brosandi er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 27. apríl 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

okkarmosó_heimasida

Okkar Mosó: Niðurstöður íbúakosningar

okkarmosó_heimasida

Kosningu í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó er lokið. Alls bárust 1.065 atkvæði sem nemur um 14% kosningaþátttöku. Það er meiri kosningaþátttaka en mælst hefur í sambærilegum verkefnum í Reykjavík og Kópavogi.
Mosfellsbær er eina sveitarfélagið sem hefur slegist í hópinn með þeim tveimur fyrrnefndu og framkvæmt lýðræðislegt samráðsverkefni eins og Okkar Mosó sem felur í sér bæði hugmyndasöfnun meðal íbúa og einnig kosningu um þær hugmyndir sem fram komu.

24 milljónir í framkvæmdir sem hefjast fljótlega
Á kjörskrá voru um 7.700 einstaklingar en það voru 16 ára og eldri íbúar í Mosfellsbæ sem gátu tekið þátt í kosningunni. Faghópur á vegum Mosfellsbæjar vann úr öllum innsendum hugmyndum og alls var kosið um 25 hugmyndir. Þar af voru 10 sem hlutu brautargengi og framkvæmd þeirra mun kosta um 24 milljónir.
Allar innsendar hugmyndir hafa fengið málefnalega umfjöllun. Sumar voru sendar í framkvæmd strax og aðrar verða sendar til frekari umfjöllunar í nefndum og ráðum bæjarins. Yfirlit um afdrif hugmyndanna verður aðgengilegt og uppfært á vef Mosfellsbæjar.
Til stendur að endurtaka verkefnið Okkar Mosó. Þá er tilvalið fyrir hugmyndasmiði að senda sínar hugmyndir inn aftur hafi þær ekki náð í gegn í þetta sinn. Framkvæmdir hefjast fljótlega og hægt verður að fylgjast með þeim í sumar á vef Mosfellsbæjar.

Nafn Kostnaður Atkvæði
Stekkjarflöt útivistarparadís 3,5 m. 476
Aðgengi að göngu- og hjólastígum 2,5 m. 466
Bekkir fyrir eldri borgara við Klapparhlíð 1 m. 462
Vatnsbrunnar og loftpumpur 2,5 m. 378
Ungbarnarólur á róluvelli bæjarins 1,5 m. 375
Útileikvöllur fyrir fullorðna 4,5 m. 370
Göngustígur gegnum Teigagilið 1,5 m. 344
Göngugatan: Laga bekki og gróður 1,5 m. 311
Bæta aðgengi á göngustíg við trjágöngin 3,5 m. 281
Fuglafræðslustígur með fram Leirvoginum 2 m. 255
Öldungamót Blaksambands Íslands haldið í Mosfellsbæ 28.-30. apríl.

Mosöld fer fram um helgina – bærinn fyllist af blökurum

Öldungamót Blaksambands Íslands haldið í Mosfellsbæ 28.-30. apríl.

Öldungamót Blaksambands Íslands haldið í Mosfellsbæ 28.-30. apríl.

Um helgina er Blakdeild Aftureldingar gestgjafi á einu stærsta fullorðinsmóti sem haldið er á Íslandi, öldungamótinu í blaki eða Mosöld 2017 eins og mótið heitir í ár.
Mótið er fyrir þá sem eru 30 ára og eldri og er um að ræða mjög stóran viðburð þar sem 167 lið eru skráð til leiks og reikna má með um 2.000 manns sem koma í Mosfellsbæinn þessa helgina til að spila og fylgjast með mótinu.
Mikill undirbúningur hefur verið fyrir þetta stærsta öldungamót Blaksambands Íslands af hálfu blakdeildar Aftureldingar en þetta er 42. öldungamótið í röðinni. Öldungur mótsins er Guðrún K. Einarsdóttir, formaður blakdeildar Aftureldingar en öldungur mótsins ber ábyrgð á mótinu og framkvæmd þess.
Leikið verður á 10 völlum að Varmá en einnig verður leikið í Lágafelli og á Reykjalundi. Fjöldi leikja á mótinu verða rúmlega 500 og verður leikið frá morgni til kvölds. Undirbúningur hefur í rauninni staðið yfir í heilt ár og eru öll íþróttamannvirki í Mosfellsbæ undirlögð ásamt Varmárskóla sem nýttur er undir gistingu.

Þúsund manns á lokahófi
Fjölbreytt skemmtun verður einnig í gangi þá daga sem mótið er og lýkur mótinu sunnudaginn 30. apríl með glæsilegu lokahófi en reiknað er með að um 1.000 manns verða að Varmá það kvöld.
Blakdeild Aftureldingar er mótshaldari og mikil vinna er búin að vera í gangi í allan vetur við skipulagningu og undirbúning mótsins.
Það er því alveg ljóst að bærinn mun fyllast af blökurum um helgina.
Mótið mun hafa áhrif vítt og breitt um bæinn og á fleiri deildir innan Aftureldingar. Þá verður dagskrá í Hlégarði og á Hvíta Riddaranum alla helgina.
Blakdeild Aftureldingar hvetur bæjarbúa til að koma í íþróttahúsin og kíkja á keppendur og aðstöðuna og upplifa stemninguna sem fylgir þessu skemmtilega móti en umtalað er hversu skemmtilegir og glaðlegir blakarar eru og leikgleðin sem einkennir þetta mót.