ungbarnasund

Fyrsta líkamsrækt barnsins

ungbarnasund

Í Mosfellsbæ er boðið uppá ungbarnasund á tveimur stöðum, hjá Snorra Magnússyni á Skáltúni og hjá Ólafi Ágústi Gíslasyni á Reykjalundi.
Þeir Snorri og Óli eru báðir menntaðir íþróttakennarar, Snorri sem er frumkvöðull á þessu sviði hefur verið með ungbarnasund frá árinu 1990 og Óli frá árinu 2001
„Það er talið að ungbarnasund hafi byrjað árið 1962 í Ástralíu en ég vil meina að það hafi byrjað í Mosfellsbæ.
Í Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxnes sem fyrst var gefin út 1934-5 er samtalskafli milli Ólafs í Ystadal og Guðnýjar ráðskonunnar frá Útirauðs­mýri. Þar segir Ólafur það kunni að vera sannað að ungbörn geti synt af sjálfsdáðum séu þau sett ofan í vatn. Sem segir okkur það að Halldór vissi ótrúlega margt sem hann lætur svo koma svona fram í bókum sínum,“ segir Snorri.

Eflir líkamlegan og andlegan þroska
Ungbarnasund nýtur mikilla vinsælda hjá foreldrum en helsti tilgangur og markmið með ungbarnasundi er að veita markvissa örvun barna á aldrinum 0-2 ára, aðlagast vatninu, efla líkamlegan og andlegan þroska og þjálfa ósjálfráð viðbrögð.
„Ég kynntist ungbarnasundi fyrst þegar ég fór með strákinn minn í sund til Snorra, en svo lærði ég í Noregi og hef starfað við kennslu á Reykjalundi frá árinu 2001,“ segir Óli Gísla. „Ég segi alltaf að ungbarnasund sé fyrsta líkamsrækt barnsins. Það er heil­mikil örvun sem fer fram bæði fyrir hjartað, lungun og æðakerfið. Æskilegasti aldurinn til að byrja með börn í ungbarnasundi er í kringum þriggja mánaða en það er alveg hægt að byrja bæði með eldri og yngri börn, nálgunin er þá bara öðruvísi.“

Unnið með tengslamyndun og traust
„Það er mjög gaman að fylgjast með börnunum í sundinu en við vinnum með fjölmarga þætti eins og jafnvægi, samhæfingu, eftirtekt og athygli,“ segir Snorri. „Við vinnum mikið með söng og tengslamyndum milli foreldra og barns og ekki síst traust.
Það sem er mikilvægast er vellíðan bæði foreldranna og barnanna í ungbarnasundinu, samveran og félagsskapurinn. Ég veit til þess að í sundlauginni hjá mér hafa myndast góð vináttusambönd. Ég er farin að fá til mín foreldra sem sjálfir voru hjá mér í ungbarnasundi, sem mér finnst mjög skemmtileg staðreynd.“

Slógu í gegn á samnorrænni ráðstefnu
Árið 1994 stofnuðu ungbarnasundkennarar félagið Busla en þar eru þeir Óli og Snorri báðir virkir félagsmenn.
„Það er gaman að segja frá því að annað hvert ár er haldin samnorræn ráðstefna ungbarnasundkennara. Árið 2006 héldum við þessa ráðstefnu hér á landi. Við Snorri töluðum við Ragnheiði Ríkharðs sem þá var bæjastjóri og spurðum hana hvort að Mosfellbær vildi með einhverjum hætti styrkja okkur. Það varð úr að framlag Mosfellsbæjar til þessarar ráðstefnu var að Diddú kom og söng ásamt undirleikara. Við slógum algjörlega í gegn og það er enn verið að tala um þetta atriði,“ segir Óli.

Mosfellsbær er með velli bæjarins til skoðunar.

Ekki öll kurl komin til grafar

Mosfellsbær er með velli bæjarins til skoðunar.

Mosfellsbær er með velli bæjarins til skoðunar.

Eins og kunnugt er tók Umhverfisstofnun sýni af gervigrasvöllum á höfuðborgarsvæðinu í vor og sendi utan til rannsóknar. Niðurstöður sýna ekki með óyggjandi hætti að gúmmíkurlið sé skaðlegt heilsu fólks og ekki er líklegt að leiðbeininga sé að vænta frá stofnuninni.
Umhverfisstofnun hefur horft til annarra umhverfisstofnana á Norðurlöndunum varðandi skaðsemi gúmmíkurls á sparkvöllum, en rannsóknir þeirra benda ekki til skaðsemi af völdum þess.
Mosfellsbær hefur notað grænhúðað SBR gúmmíkurl á gervigrasvellinum við Varmá. Húðunin veldur því að óæskileg efni losna síður úr því út í andrúmsloftið og hún bætir því gæði kurlsins.

Heilsa barna og ungmenna í fyrirrúmi
Samkvæmt upplýsingum frá Mosfellsbæ verða lagðar fram tillögur á næstunni. Þær munu fela í sér áherslu á að á öllum völlum í Mosfellsbæ verði gúmmíkurl sem innihaldi einungis ásættanleg efni með tilliti til heilsu barna og ungmenna sem stunda íþróttir á völlunum.
Metið verður ástand valla og lögð áhersla á að framleiðendur gúmmíkurlsins geti lagt fram fullnægjandi innihaldslýsingu sem tryggi að skaðleg efni sé ekki að finna í kurlinu. Þá stendur meðal annars til að ræða við KSÍ um endurnýjun kurls á þeim sparkvöllum sem sambandið hefur gefið.

heilsumolargaua_2juni

Sir David

heilsumolargaua_2juni

David Attenborough varð níræður í síðasta mánuði. Ég er næstum helmingi yngri en hann. Það er frábær tilhugsun að vita til þess að maður eigi möguleika á því að vera ferskur sem fiðla, flakkandi um allan heim, skapandi eitthvað nýtt, fræðandi og hvetjandi og njótandi lífsins í tugi ára til viðbóta við þau sem þegar eru að baki. Kallinn er enn að, ódrepandi í því að kenna okkur hinum hvernig heimurinn virkar og hvað við þurfum að gera til þess að bjarga jörðinni. Við þurfum að hlusta á hann og fara eftir ráðum hans. En við getum líka tekið hann okkur persónulega til fyrirmyndar, ef okkur langar til að lifa jafn gæfusömu og innihaldsríku lífi og hann.

Lykillinn er ástríða. Að vinna við það sem gefur manni tilgang í stað þess að festast í vinnu sem dregur úr manni kraft og orku. Peningar eru ekki það sem drífur Sir David áfram, það er þörfin fyrir að læra og miðla. Annað lykilatriði er jafnvægi. Hann hefur alla tíða flakkað mikið um heiminn, en þegar hann er spurður hvað sé það mikilvægasta í eigu hans, svarar hann, lykillinn að útidyrunum heima. Heimilið er hans friðarstaður, honum finnst alltaf gott að koma heima eftir ferðalög, hlaða batteríin í ró og næði. Þor og trú á eigin hæfileika skiptir líka miklu máli, án þess að vera rígmontinn og finnast maður yfir aðra hafinn.

Sir David hefur tekið mörg stökk um ævina. Hætt í „öruggum“ vinnum og tekið að sér verkefni sem hann vissi ekki nákvæmlega hvernig hann myndi ná að framkvæma. Alltaf trúað því að hlutirnir myndu ganga upp, alltaf elt hjartað. Þetta hefur haldið David Attenborough heilsuhraustum – lífsgleðin, forvitnin, þörfin til að miðla, opinn hugur fyrir tækifærum og leiðum. Frábær fyrirmynd fyrir kalla og kellingar og öllum aldri.

kvennahlaup

Kvennahlaupið í Mosó á laugardaginn

kvennahlaup

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ fer fram í Mosfellsbæ laugardaginn 4. júní. Hlaupið hefst kl. 11 á frjáls­íþróttavellinum að Varmá og hefst skráning kl. 10. Nú verður boðið upp á nýja vegalengd, 900 m, sem hlaupin eða gengin er í kringum íþróttavöllinn. Hinar vegalengdirnar sem í boði eru, eru 3, 5 og 7 km. Mikil þátttaka hefur verið í hlaupinu í Mosfellsbæ undanfarin ár og mikil stemning hefur skapast í kringum þennan árlega viðburð. Fimmtudaginn 2. júní er boðið upp á kvennahlaup eða göngu á Eirhömrum. Vegalengdin er þá miðuð við getu hvers og eins og hefst kl. 14.

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ 2016
Frjálsíþróttavöllurinn að Varmá laugardaginn 4. júní klukkan 11.00

• Skráning / bolasala hefst klukkan 10:00 við Varmá.
• Söngkonan María Ólafs tekur nokkur lög kl. 10:30
• Upphitun kl. 10:45 • Hlaupið hefst kl. 11:00.
• 1.000 krónur fyrir 12 ára og yngri en 2.000 krónur fyrir eldri en 12 ára.
• Forsala er hafin í World Class í Lágafellslaug og Egilshöll.
• Mosfellsbær býður upp á andlitsmálun fyrir börnin fyrir og eftir hlaup.
• Allir þátttakendur fá bol og verðlaunapening auk þess fá langömmur rós.
• Frítt í sund að Varmá í boði Mosfellsbæjar að hlaupi loknu.
• Næg bílastæði við íþróttamiðstöðina að Varmá, Hlégarð og Brúarland.
• Mætum tímanlega • Veldu þér vegalengd og njóttu þess að hlaupa/ganga á þínum hraða í góðum félagsskap.

hreyfispjold

Stuðla að hreyfingu eldri borgara

hreyfispjold

Íþróttafræðingarnir Gerður Jónsdóttir og Anna Björg Björnsdóttir hafa hannað einföld æfingaspjöld fyrir eldri borgara sem auka styrk, þol, liðleika og jafnvægi.
Æfingarnar eru framkvæmdar með eigin líkamsþyngd og án útbúnaðar. Þær standa nú fyrir söfnun á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund „Við vorum saman í námi í Háskólanum í Reykjavík. Einn áfanginn í Mastersnáminu snéri að hreyfingu eldri borgara, það má segja að hugmyndin að hreyfispjöldunum hafi kviknað þá,“ segir Gerður en hún starfar sem einkaþjálfari og Anna Björg sem íþróttakennari.

Skemmtilegt að vinna með eldri borgurum
„Í náminu fengum við mikinn áhuga á hreyfingu eldri borgara og komumst að því að lítið er til af aðgengilegu efni fyrir þennan hóp í samfélaginu. Því teljum við þörfina mikla og nauðsynlegt að koma þessu verkefni á fót.
Öll eldumst við og einn óumflýjanlegur þáttur öldrunar er að öll líkamsstarfsemi okkar skerðist, sem hægt er að koma í veg fyrir með reglubundinni hreyfingu,“ segir Gerður. „Rannsóknir hafa sýnt að með því að hreyfa sig má draga verulega úr heilbrigðiskostnaði í landinu. Hreyfing stuðlar m.a. að lækkun blóðþrýstings, styrkur eykst, aukinn liðleiki og jafnvægi sem hefur í för með sér að aldraðir geta lifað sjálfstæðara lífi mun lengur en ella.“

Allir geta nýtt sér hreyfi­spjöldin
Hreyfispjöldin eru í hentugri stærð og ekki nauðsynlegt að hafa reynslu af hreyfingu þar sem á spjöldunum eru myndir og fullnægjandi útskýringar.
Hvert spjald tilgreinir ítarlega hvaða líkamshluta sú æfing eigi við, s.s. háls, herðar, kvið eða læri. Einstaklingar geta þannig auðveldlega valið æfingu fyrir þann líkamshluta sem þeir telja þörf á að þjálfa hverju sinni. Spjöldin nýtast einnig við að efla hugmyndaflug og hvetja til æfinga. Spjöldin eru án útbúnaðar og auðvelt er að ferðast með þau. Það geta allir nýtt sér hreyfispjöldin, jafnt ungir sem aldnir.
„Við höfum lagt mikla vinnu í að búa til þessi spjöld. Við biðlum til ykkar að styrkja þetta verkefni svo við getum lagt lokahönd á það og stuðlað að heilsueflingu eldri borgara.“ Allar upplýsingar má finna á Karolina Fund undir Hreyfispjöld fyrir eldri borgara.

mosfellingurinn_allirúts

Lesblindan hefur oft hjálpað mér

mosfellingurinn_allirúts

Það er ekki hægt að segja annað en að Albert Sigurður Rútsson sé litríkur einstaklingur enda hefur hann víða komið við á sinni lífsleið. Hann er mikið snyrtimenni, ávallt smekklega klæddur og gengur stundum um með hatt á höfði.
Hann var áberandi í íslensku skemmtanalífi á sjöunda áratugnum en síðar einna þekktastur fyrir bílasölur, fornbíla og hótel- og veitingahúsarekstur.
Albert var kosinn Mosfellingur ársins 2008 en í september það ár opnaði hann ásamt fjölskyldu sinni Hótel Laxnes sem telur 26 herbergi.

Albert Sigurður fæddist á Sigríðarstöðum í Fljótum í Skagafirði 14. maí 1946. Foreldrar hans eru Svanfríður Guðrún Stefánsdóttir verkakona og Rútur Kr. Hannesson harmonikkuleikari og hljómsveitarstjóri. Rútur lést árið 1984. Albert er einkabarn en hann á ellefu hálfsystkini.

Veiddi dúfur og seldi
„Ég ólst upp hjá móður minni á Siglufirði. Ég kynntist föður mínum lítið en hann bjó í Hafnarfirði. Mamma vann mikið og á meðan hafði ég skjól hjá afa og ömmu og móðursystur minni, Sigrúnu, og Ástvaldi eiginmanni hennar, sem var mér eins og faðir.
Ég tók mér ýmislegt fyrir hendur á mínum yngri árum, ég tíndi upp sígarettustubba fyrir afa en hann notaði þá í pípuna sína og fyrir það fékk ég smá pening. Ég hjálpaði mömmu í síldinni og svo mokaði ég snjó frá bíódyrunum og fékk frítt inn í staðinn.
Ég veiddi líka dúfur og seldi en þær komu alltaf til mín aftur svo ég seldi alltaf sömu dúfuna og stórgræddi,“ segir Alli og hlær.

Látinn sitja eftir og fékk oft skammir
„Ég gekk í barnaskóla á Sigló en mér gekk illa í skóla, aðallega vegna lesblindu, en lesblindan hefur oft hjálpað mér í seinni tíð. Ég var kallaður tossi, látinn sitja eftir og fékk oft skammir. Ég held að ég hafi verið ofvirkur unglingur, ég vildi helst vera að gera eitthvað allt annað en að læra.
Ég gerði upp bát þegar ég var fjórtán ára, keypti í hann utanborðsmótor og leigði hann svo út. Tveimur árum seinna eignaðist ég Willis jeppa, sem ég leigði líka út í sambandi við snjómokstur í Siglufjarðarskarði. Fóstri minn, Friðgeir Árnason, var vegaverkstjóri á þessum tíma.“

Hitaði pylsurnar á prímus
„Þegar maður fór að fara á sveitaböllin þá lét ég vini mína sem voru komnir með bílpróf keyra bílinn minn. Við tókum með okkur farþega sem greiddu fyrir farið og þar með var bíllinn minn orðinn aðal­leigubíllinn á Sigló.
Í skottinu var ég með pylsur og prímus, ég hitað pylsur eftir böllin og seldi grimmt. Þetta var skemmtilegur tími.
Eftir að ég fékk bílpróf keypti ég mér vörubíl og fékk starf á Vörubílastöðinni. Þar var brjálað að gera, enda síldarár. Þegar vinnan minnkaði á Sigló náði maður í möl í Fljótin eða í sand til Ólafsfjarðar.
Seinna keypti ég mér annan vörubíl og fór þá til Þórshafnar og vann þar í smá tíma.“

Var eftirsóttur skemmtikraftur
Alli ákvað að flytja til Reykjavíkur og byrjaði að troða upp á skemmtunum á sjöunda áratugnum. Hann vakti fljótlega athygli fyrir skemmtilega framkomu og varð eftirsóttur sem kynnir á skemmtunum.
Hann fór einnig með gamanmál og söng gamanvísur, oft með öðrum skemmtikröftum eins og Ómari Ragnarssyni, Bessa Bjarnasyni og Gunnari Eyjólfssyni að ógleymdum Karli Einarssyni en þeir félagar komu oft fram sem Gøg og Gokke.
Alli var einnig eftirsóttur sem jólasveinn. Hann var einmitt í jólasveinagírnum þegar barnaplatan hans, Kátir voru krakkar, var gefin út af Fálkanum árið 1973. Á henni er að finna fjögur lög.

Gríðarlegt áfall
„Ég starfaði í fasteignabransanum en færði mig svo yfir í bílabrask. Fékk vinnu á Bílasölu Guðmundar og vann þar í 10 ár.
Á þessum tíma var ég búinn að kynnast stúlku, Lilju Sveinsdóttur. Við keyptum okkur íbúð við Sporðagrunn og framtíð okkar var björt. Lilja varð ófrísk og þegar hún var komin sjö mánuði á leið vaknaði hún eina nóttina og leið ekki vel. Við köllum á lækni sem tók þá ákvörðun að leggja Lilju inn á spítala. Á meðan á rannsóknum stóð skrapp ég í vinnuna og hringdi svo til að kanna með hana en var þá sagt í símann að hún væri látin.
Þetta var gríðarlegt áfall og ég var lengi að ná mér,“ segir Alli alvarlegur á svip.
„Ég minnkaði að skemmta og hætti á bílasölunni.“

Stofnaði sína eigin bílasölu
„Ég fór síðar að vinna á bílasölu sem hét Bílahúsið og var þar í nokkur ár. Stofnaði síðan mína eigin bílasölu, Bílasölu Alla Rúts, í Borgartúni. Ég seldi svo fyrirtækið en ekki nafnið og byggði svo 700 fm bílasölu uppi á Höfða. Eftir það ævintýri fór ég til Þýskalands með góðum mönnum til að kaupa vinnuvélar og vörubíla sem við ætluðum að selja og ég garfaði í því í nokkur ár.“

Vinsælt að koma við og fá sér hóstasaft
„Ég kynntist góðri konu, Erlu Haraldsdóttur, og á með henni þrjú börn. Íris Ósk er fædd 1972, Jónas Svanur er fæddur 1978 og Anna Mæja fædd 1985. Fyrir átti ég Katrínu Þóru fædda 1967. Ég á sex barnabörn. Við Erla slitum samvistir.
Ég var í hestamennsku í mörg ár og var með þeim fyrstu sem byggði hesthús í Víðidal. Ég flutti í Mosfellsbæ í hús sem heitir Klöpp og var með hesthús heima. Það var nokkuð vinsælt að koma við hjá mér og fá sér smá hóstasaft,“ segir Alli og brosir.

Hótelið fengið mjög góða einkunn
„Ég seldi húsið þegar ég keypti veitingahúsið Áslák sem ég hef nú rekið í 16 ár. Ég sá möguleika á að byggja við og fékk leyfi til að byggja hótel.
Margir höfðu ekki trú á mér en ég seldi nokkra bíla og var í fjögur ár að byggja hótelið sem fékk nafnið Hótel Laxnes. Ég og fjölskylda mín eigum og rekum það saman. Við erum með tólf starfsmenn í vinnu.
Við áætlum að stækka hótelið á næstu misserum og erum byrjuð að teikna. Hótelið hefur fengið mjög góða einkunn og er það starfsfólki okkar að þakka.“

Gefur út ævisögu
„Það er gaman að segja frá því að ég er að fara að gefa út ævisögu mína. Ég fékk Helga Sigurðsson sagnfræðing til að skrifa bókina sem er langt komin.“
Albert á sjötugsafmæli þann 14. maí og ég spyr hann hvað hann ætli að gera í tilefni dagsins? „Ætli ég fari ekki bara í göngutúr í Kolaportinu og horfi svo á Eurovision um kvöldið.“
Með þeim orðum kveð ég afmælisbarnið með kossi á kinn.

Mosfellingurinn 12. maí 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

styrkirungmenna

Styrkir til ungmenna

styrkirungmenna

Styrkþegar ásamt fulltrúum íþrótta- og tómstundanefndar.

Íþrótta- og tómstundanefnd Mosfellsbæjar veitti á dögunum styrki til efnilegra ungmenna á aldrinum 14-20 ára.
Markmiðið er að gefa einstaklingum sömu tækifæri og jafnöldrum þeirra til að njóta launa á sama tíma og þau stunda list sína, íþrótt eða tómstund yfir sumartímann. Styrkurinn er fólginn í launum frá vinnuskóla Mosfellsbæjar og er einstaklingum þannig gefið tækifæri til að einbeita sér frekar að sinni grein og ná meiri árangri.

Að þessu sinni hlutu 10 ungmenni styrk frá Mosfellsbæ, 5 stúlkur og 5 strákar.
Andri Már Guðmundsson (golf)
Birkir Benediktsson (handbolti)
Bjarkey Jónasdóttir (sund)
Eydís Embla Lúðvíksdóttir (knattspyrna)
Freyja Gunnarsdóttir (píanó)
Hlynur Sævarsson (saxófón)
Kristófer Karl Karlsson (golf)
Sandra Eiríksdóttir (frjálsíþróttir)
Sverrir Haraldsson (golf)
Þóra María Sigurjónsdóttir (handbolti)

Arndís, Þórhildur, Ragnheiður og Rut.

Arndís sett í embætti

Arndís, Þórhildur, Ragnheiður og Rut.

Arndís, Þórhildur, Ragnheiður og Rut.

Séra Arndís G. Bernhardsdóttir Linn var sett í embætti í Mosfellsprestakalli sunnudaginn 1. maí. Þórhildur Ólafs, prófastur Kjalarnessprófastsdæmis, setti Arndísi í embættið í sérstakri innsetningarmessu.
Sr. Ragnheiður Jónsdóttir sóknarprestur þjónaði fyrir altari og Arndís Linn predikaði. Rut G. Magnúsdóttir djákni sóknarinnar las bænir og Helga Kristín Magnúsdóttir og Karl Loftsson lásu ritningarlestra.
Kirkjukór Lágafellssóknar og Skólakór Varmárskóla sungu undir stjórn Guðmundar Ómars Óskarssonar. Að athöfninni lokinni bauð sóknarnefnd í súpu og brauð í safnaðarheimili Lágafellssóknar.
Biskup Íslands skipaði Arndísi G. Bernhardsdóttur Linn í embætti prests í Mosfellsprestakalli að afloknum kosningum sem fóru fram í marsmánuði.

Heilsumolar_Gaua12mai

Lífið

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Ég er að lesa athyglisverða bók. Hugmyndafræði hennar er að við ættum að hætta að reyna að stýra öllu í kringum okkur og vera opin fyrir því sem lífið færir okkur. Ekki segja nei við tilboðum eða beiðnum, sama þótt þær passi ekki við það sem við höfðum ætlað okkur að gera í lífinu. Mér finnst þetta áhugaverð nálgun enda finnst mér oft ég hafa einhvern veginn lent í hlutverkum sem ég hafði ekki séð fyrir.

Ég sá ekki fyrir þegar ég var á Gildrutímabilinu mínu, fastagestur á Fimmunni sálugu, að ég ætti eftir að vakna eldsnemma á morgnana og fara með hóp af fólki út að æfa í náttúrunni. Ég sá ekki fyrir þegar ég var að reyna að sleppa sem léttast frá dönsku- og þýskuverkefnum í MS að ég myndi flytja til Danmerkur og læra þýsku í háskóla. Mér datt ekki í hug þegar ég eyddi mínum frítíma í að hlusta á Metallica og lesa Hemingway að ég myndi vinna við að halda fyrirlestra og námskeið. En svona er lífið, það færir manni alltaf eitthvað. Stundum eitthvað sem maður á von á, stundum eitthvað óvænt. Alltaf eitthvað spennandi, ef hugur manns er opinn og maður venur sig á að segja já, frekar en nei. Svo getur maður líka kallað tækifærin til sín. Hugsað um eitthvað sem mann langar að gera eða upplifa og þannig aukið líkurnar á að það gerist.

Ég var að vinna með karli föður mínum um helgina, sagði honum frá því að ég hefði verið að lesa ferðasögu eftir íslenska konu og að ég þyrfti endilega að hitta hana til að heyra meira um hennar flakk og upplifanir. Skemmtilegt, sagði sá gamli, ég fékk einmitt sms frá henni í gær og er á leið á fund með henni í vikunni. Þú kemur bara með.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 12. maí 2016

blakstelpur1

Frábært tímabil hjá blakstelpunum

Bikar-, deildar og Íslandsmeitarar í blaki. Mynd/RaggiÓla

Bikar-, deildar og Íslandsmeitarar í blaki. Mynd/RaggiÓla

Frábæru keppnistímabili er lokið hjá stelpunum í úrvalsdeildarliði Aftureldingar í blaki en Aftureldingarstelpur eru þrefaldir meistarar og unnu alla titla sem í boði voru.
Veturinn hefur verið langur en auk þess að taka þátt í mótum á Íslandi, tók liðið þátt í riðlakeppni NEVZA (Norður-Evrópukeppni félagsliða) en leikið var í Bröndby í Danmörku í nóvember. Liðið lék við tvö bestu lið Danmerkur og Noregsmeistarana og átti mjög góða leiki á mótinu. Reynslan af þessu móti átti eftir að nýtast liðinu mjög vel á keppnistímabilinu.
Úrslitahelgin í Bikarkeppni Blaksambands Íslands var leikin í marsmánuði og lék Afturelding við lið KA í undanúrslitum og vann öruggan sigur 3-0. Í úrslitum léku þær við lið Þróttar frá Neskaupsstað og vann Afturelding 3-0 sigur þar sem Afturelding hafði yfirhöndina allan tímann en Þróttarar voru aldrei langt undan. Að leik loknum var Thelma Dögg Grétarsdóttir valin leikmaður úrslitaleiksins og fékk að launum Gullbolta Mizuno.

Hörð barátta í deildinni
Deildarkeppnin var jöfn í Mizunodeild kvenna og fyrir lokaumferðina áttu þrjú lið tækifæri á að verða meistarar. Með sigri á Þrótti Neskaupsstað tryggðu Aftureldingarkonur sér deildarmeistaratitilinn og um leið heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni.
Í úrslitakeppninni vann Afturelding lið Stjörnunnar í tveimur leikjum og lék við HK, en þær höfðu náð að sigra Aftureldingarkonur árið áður í keppninni um Íslandsmeistaratitilinn.
Afturelding hóf úrslitaeinvígið með góðum sigri að Varmá en tapaði síðan leik 2 sem leikinn var í Fagralundi. Leikur 3 var eign Aftureldingar frá upphafi og auðveldur 3-0 sigur. Úrslitin réðust í leik 4 í Fagra­lundi, Aftureldingarkonur komust í 2-0 en HK jafnaði í 2-2. Úrslitin réðust því í oddahrinu, líkt og árið á undan, en núna voru það Aftureldingarkonur sem stóðu uppi sem sigurvegarar.

Handahafar allra titlana
Frábært tímabil hjá stelpunum okkar á enda þar sem þær eru nú handhafar allra titlanna á Íslandi.
Auk þess að að ná þessum frábæra árangri þá voru þær Fjóla Rut Svavarsdóttir, Kristín Salín Þórhallsdóttir, Kristina Apostolova og Thelma Dögg Grétarsdóttir valdar í Úrvalslið Mizunodeildarinnar.
Thelma Dögg Grétarsdóttir var einnig kjörin besti leikmaður Mizunodeildar kvenna en hún átti frábært tímabil þar sem hún varð stigahæst í uppgjöfum og sókn ásamt því að vera stigahæsti leikmaður deildarinnar.

heilsueflandiopna

Heilsueflandi samfélag í Mosfellsbæ

heilsueflandiopna

hvaderBæjarstjórn Mosfellsbæjar tók ákvörðun um að verða Heilsueflandi samfélag á 25 ára afmæli sveitarfélagsins í ágúst 2012. Heilsueflandi samfélag er viðamikið lýðheilsu- og samfélagsverkefni og er markmið þess í stuttu máli að auðvelda fólki að taka heilsusamlegar ákvarðanir og lifa heilbrigðu lífi.
Um er að ræða þróunarverkefni þar sem Mosfellsbær hefur, sem forystusveitarfélag, rutt brautina fyrir önnur samfélög sem taka þátt í verkefninu. Verkefnið tekur á öllum hliðum heilsu, þ.e. líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu og vellíðan. Til að ná utan um þetta viðamikla verkefni var því skipt í fjóra áhersluþætti. Þeir eru: næring, hreyfing og útivist, líðan og geðrækt og lífsgæði. Þessir áhersluþættir eru taldir geta náð yfir þau atriði sem er mikilvægt að velta fyrir sér þegar kemur að heilsu og lífsstíl. Lögð er áhersla á einn þátt á ári. Nú þegar er búið að fara yfir næringu og á síðastliðnu ári hefur áherslan verið á hreyfingu og útivist.
Ávinningurinn af verkefni sem þessu getur m.a. verið sá að tekið er mið af heilsu og heilsueflingu við alla stefnumótun og ákvarðanatöku í samfélaginu („Health in all policies“). Að sparnaður náist vegna minni veikinda og hættu á lífsstílssjúkdómum og heilsuvitund íbúa eykst. Takmarkið er einfaldlega bætt heilsa og betri lífsgæði allra í samfélaginu okkar.

Heilsueflandi verkefni eru víða
Alls kyns heilsueflandi verkefni og viðburðir hafa verið í gangi síðustu ár og má þar m.a. nefna árlega Heilsudaginn okkar, þátttöku í Hreyfivikunni „Move Week“, samstarf við Ferðafélag Íslands, stofnun heilsueflandi skólahóps þvert á skólastig, kynningu á útivistarsvæðum bæjar­ins, Kærleiksvikuna, gjaldfrjálsa fjölskyldutíma í íþróttahúsinu að Varmá, málþing í samvinnu við Umhverfisstofnun, virka þátttöku í Evrópsku samgönguvikunni, dreifingu á fjölnota innkaupapokum á öll heimili í Mosfellsbæ og svo mætti lengi telja.

Heilsuefling fyrir alla aldurshópa
Félag eldri borgara og félagsstarf þeirra hefur ekki látið sitt eftir liggja og tekið virkan þátt í verkefninu. Meðal annars hefur Anna Sigríður Ólafsdóttir doktor í næringarfræði haldið fyrirlestur um næringu eldri borgara. Dansleikfimi var kynnt inn í félagsstarfið árið 2014 sem nýjung í hreyfingu og hefur verið afar vel sótt. Einnig hefur íþróttanefnd Famos boðið upp á opnar æfingar í Hreyfivikunni svo eitthvað sé nefnt. Í samvinnu við félag sjúkraþjálfara voru settir upp bekkir víða í kringum miðbæinn til að hvetja til hreyfingar þeirra sem eiga erfitt með gang.

Hér fyrir neðan má sjá opnu úr nýjasta tölublaði Mosfellings sem er tileinkuð  kynningu á þróunarverkefninu Heilsueflandi samfélag.

hallafroda

Góð samskipti læknis og sjúklings eru lykilatriði

hallafroda

Lýtalæknar takast á við afleiðingar slysa og sjúkdóma. Þeir hjálpa fólki vegna útlitslýta hvort sem þau eru meðfædd eða áunnin og geta einnig aðstoðað við að draga úr ótímabærum öldrunareinkennum.
Halla Fróðadóttir er ein af þeim sem starfar sem lýtalæknir. Hún ákvað ung að aldri að leggja læknavísindin fyrir sig en veit ekki hvaðan sú köllun kom. Halla opnaði nýverið sína eigin læknastofu í Klíníkinni Ármúla þar sem hún framkvæmir bæði lýta- og fegrunaraðgerðir en hún sinnir einnig störfum á lýta- og brunadeild Landspítalans.

Halla fæddist í Dalsgarði í Mosfellsdal 9. febrúar 1973. Foreldrar hennar eru þau Steinunn Björk Guðmundsdóttir ritari og Fróði Jóhannsson garðyrkjubóndi en þau eru bæði látin.
Systkini Höllu eru: Högni fæddur 1969, járningameistari og tamningamaður í Þýskalandi, Ragna fædd 1970, textíl- og fatahönnuður og Birta fædd 1980, arkitekt.

Foreldrar mínir voru bóhemar
„Ég fæddist heima í Dalsgarði og ólst þar upp. Ég tilheyri einni af þessum stóru fjölskyldum sem hafa búið í Mosfellsbæ frá miðri síðustu öld. Dalsgarðsfjölskylduna þekkja margir, hún hefur þótt sérstök og fer sínar eigin leiðir. Stór hluti fjölskyldunnar býr í Dalnum og er gott samband manna á milli.
Foreldrar mínir voru bóhemar og settust hér að 1969. Þau héldu listrænt heimili og það var mikið um tónlist. Þau voru skapandi og litríkir einstaklingar og mjög hvetjandi sama hvað við systkinin tókum okkur fyrir hendur. Þau létust bæði árið 2012 langt fyrir aldur fram og við söknum þeirra mikið.
Í Dalsgarði hefur verið rekin gróðrarstöð frá árinu 1950, fyrst af afa mínum Jóhanni, svo tók Fróði faðir minn við. Nú rekur Gísli, föðurbróðir minn stöðina.“

Bjuggum til leynifélag
„Þegar ég var að alast upp var mikið af krökkum á sama aldri og ég í Dalnum og oft var mikið stuð. Við spiluðum fótbolta, vorum upp í fjalli og bjuggum til leynifélag. Það var frábært að alast hér upp með öllu því frelsi sem því fylgdi, svo við tölum ekki um nálægðina við náttúruna.
Ég gekk í Varmárskóla og var bekk á undan alla mína skólagöngu. Ég var stundum ofvirk, talaði mikið og var oft í miklu stuði. Mamma heyrði eitt sinn útundan sér að einn kennarinn hefði sagt: „Hún er óskaplega músíkölsk hún Halla en mikið er hún óhamin.“ Ég var nú samt ekki til mikilla vandræða,“ segir Halla með afsökunartón og brosir.

Dansaði í Gleðibanka myndbandinu
„Ég mátti aldrei missa af neinu og varð að vera með í öllu. Ég spilaði á fiðlu, æfði handbolta, fór á skíði, var í hestaklúbbnum og gott ef ég var ekki að vinna á Western Fried líka.
Ég fór mikinn í freestyle dansi og keppti mörg ár í röð í Tónabæ með vinkonum mínum. Hápunktur ferilsins var þegar hópurinn var fenginn til að dansa í Gleðibanka myndbandinu.
Ég var mjög sjálfstæð á mínum yngri árum, kannski einum of. Ég held að ég hafi jafnvel fengið of mikið frelsi, mig skorti stundum aga og aðhald.
Frá Gaggó Mos fór ég í Menntaskólann við Hamrahlíð og útskrifaðist vorið 1992. Ég naut mín vel í MH og þar eignaðist ég margar af mínum bestu vinkonum í dag.“

Giftu sig í fallegum lundi
Halla var aðeins 14 ára þegar hún kynntist manninum sínum, Hákoni Péturssyni. Hann er smiður og rekur sitt eigið fyrirtæki. „Ég greip hann glóðvolgan þegar hann flutti í Dalinn,“ segir Halla og glottir. „Við giftum okkur í fallegum lundi í Laxárnesi í Mosfellsdal árið 2000. Við eigum þrjá stráka, Mána fæddan 2002, Bjart fæddan 2004 og Fróða fæddan 2012.
Við fjölskyldan búum á æskuheimili mínu og erum sjö í heimili og svo erum við líka með landnámshænur, hesta, hund og kött. Bróðursonur minn býr hér hjá okkur núna og svo erum við með au pair frá Nepal en hann hefur verið hjá okkur síðan 2014.
Við erum mikið sveitafólk og viljum hvergi annars staðar vera. Við erum mikið úti í náttúrunni og erum dugleg að ferðast. Svo erum við í skot- og stangveiði sem er að verða nýja fjölskyldusportið.“

Með óstöðvandi útþrá og ferðaveiki
„Eftir menntaskóla tók ég mér árs leyfi frá námi og fór til Ameríku. Ég lærði ensku og tók nokkur fög í háskóla í Kaliforníu til að undirbúa mig undir nám í læknisfræði. Ég ætlaði mér alltaf að verða læknir, veit svo sem ekki hvaðan sú köllun kom en þetta stendur víst í stjörnukortinu mínu.
Ég útskrifast frá læknadeild HÍ 2001. Ég tók mér ársfrí frá náminu veturinn 1997-1998 þegar við Hákon skelltum okkur í heimsreisu sem tók átta mánuði. Það var ekki aftur snúið, við höfum verið með óstöðvandi útþrá og ferðaveiki síðan.“

Fluttu til Svíþjóðar
„Vorið 2003 fluttum við til Svíþjóðar þar sem ég fór í sérnám í lýtalækningum. Árin í Svíþjóð voru frábær og þarna var virkilega gott að búa. Ég verð nú samt að viðurkenna að mér þótti Svíarnir vera stundum óttalega ferkantaðir og ég saknaði stundum óreiðunnar á Íslandi. Við fluttum aftur heim til Íslands sumarið 2010.“
Sérhæfð í uppbyggingu brjósta
Halla starfar á lýta- og brunadeild Landspítalans við almennar lýtalækningar ásamt því að starfa á sinni eigin læknastofu. „Það eru mjög mismunandi ástæður þess að einstaklingar leita til lýtalækna. Við sjáum um ýmiss konar aðgerðir, vegna alvarlegra brunasára, gerum aðgerðir á lýtum, meðferð á sortuæxlum og öðrum húðkrabbameinum. Ég hef sérhæft mig í uppbyggingu brjósta eftir krabbamein.
Ég opnaði nýverið mína eigin stofu þar sem ég geri allar almennar fegrunaraðgerðir sem og minni lýtaaðgerðir. Ég legg mikið upp úr góðum samskiptum við mína sjúklinga. Væntingar sjúklinga í lýtalækningum eru oft miklar og stundum þarf að draga úr þeim.
Í langflestum tilvikum gengur allt vel en það geta komið upp fylgikvillar sem getur verið erfitt fyrir sjúklinga að takast á við og er því nauðsynlegt að fylgja þeim vel eftir og hjálpa þeim að takast á við þau vandamál sem síðar geta komið upp.“

Fæ mikla hugarró við lestur
Ég er núna að vinna í því að huga betur að sjálfri mér, hreyfa mig meira og svo er ég líka að reyna að temja mér hugleiðslu. Ég les mikið og fæ mikla hugarró við lestur.
Ég nýt þess líka að hitta fjölskyldu mína og vini. Uppáhaldskonurnar í lífi mínu eru systur mínar Ragna og Birta, þær eru mér ótrúlega mikilvægar og við erum mjög nánar.“

Mosfellingurinn 20. apríl 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

umfus1

UMFUS lætur gott af sér leiða

umfus2

UMFUS ákvað á dögunum að halda kóte­lettu-styrktarkvöld fyrir sína menn í ungmennafélaginu Ungir sveinar. Um 40 karlar í karlaþrekinu voru saman komnir þann 1. apríl þar sem fólk gæddi sér á smjörsteiktum kótelettum með öllu tilheyrandi í golfskálanum í Mosfellsbæ.
Ákveðið var að ágóðinn rynni í gott málefni og varð fyrir valinu ung fjölskylda í Litlakrika. Ísfold Kristjánsdóttir, Þórður Birgisson og synir þeirra þrír eru nýflutt heim frá Danmörku en Ísfold hefur barist við krabbamein að undanförnu.

Kemur sér vel í baráttunni
Það er því von UMFUS-manna að ágóðinn komi sér vel í komandi baráttu en alls söfnuðust 310.000 kr. á kvöldinu. Þeir vilja koma sérstökum þökkum til Kjötbúðarinnar, Ölgerðarinnar og Golfklúbbs Mosfellsbæjar fyrir þeirra framlag. Öll innkoma rann því beint í málefnið.
Elías Níelsson er þjálfari hópsins og skoraði á formennina að standa fyrir kótelettukvöldi sem síðar var breytt í styrktarkvöld og hópurinn lét gott af sér leiða.
Á myndinni má sjá formennina Guðleif Kristinn Stefánsson og Gísla Pál Davíðsson afhenda fjölskyldunni styrkinn. Fyrir framan ungu hjónin standa synirnir þrír, Vésteinn, Ævar og Þrándur.

hlidavollur

Skóflustunga á Hlíðavelli

hlidavollur

Það var stór stund fyrir Golfklúbb Mosfellsbæjar þegar tekin var fyrsta skóflustungan að nýrri íþróttamiðstöð GM sem mun standa miðsvæðis á Hlíðavelli.
Það var myndarlegur hópur ungra kylfinga klúbbsins sem fékk það verkefni að taka sameiginlega fyrstu skóflustunguna að nýju mannvirki undir handleiðslu þjálfara síns, Sigurpáls Geirs Sveinssonar, íþróttastjóra GM.
Þegar húsið verður allt komið í gagnið mun verða til aðstaða fyrir börn og ungmenni í Mosfellsbæ að æfa sína íþrótt alfarið í heimabyggð við bestu mögulegu aðstöðu.
Jarðavegsframkvæmdir eru nú þegar hafnar og mun verða líflegt um að litast á svæðinu í vor. Gert er ráð fyrir því að eiginlegar byggingarframkvæmdir hefjist í vor en klúbburinn stefnir að því að flytja inn í fyrsta hluta hússins vorið 2017.

sumarpistill

Sumarpistill

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Það er allt að gerast þegar þessi pistill er skrifaður. Axl Rose var rétt í þessu að taka að sér söngvarahlutverkið í AC/DC og Ólafur Ragnar er búinn að boða blaðamannafund seinna í dag, örugglega til að bjóða okkur að vera forsetinn okkar áfram. Axl og ÓRG eiga það sameiginlegt að fara sínar eigin leiðir og vera frábærir sviðsmenn. Þeir hafa báðir náð miklum árangri og þegar þeir opna munninn þá hlustar fólk. Ég veit ekki hvort þeir þekkjast, en er viss um að ef þeir hittust myndu þeir finna ýmislegt að spjalla um. Sviðsframkomu og hlýnun jarðar til dæmis. Og hvað hvað hafa þeir félagar með sumarið að gera? Alveg heilan helling.

Sumarið er tíminn! Tíminn til að láta vaða, gera það sem mann langar til. Láta hluti gerast. Ekki pæla í hvað öðrum finnst, fólk hefur svo margar og mismunandi skoðanir á hlutunum að maður gerði ekkert annað en að snúast í hringi ef maður ætlaði að fara eftir öllu því sem aðrir vilja að maður geri. Ef þig langar að bjóða þig fram í forsetann, syngja á sviði með AC/DC, labba berfættur upp á Reykjafell, skrá þig í Hvíta Riddarann, ferðast á mótorhjóli um landið eða klifra í trjám fyrir sólarupprás, láttu vaða. Ekki láta okkur hin stoppa þig.

Ég er sjálfur mjög spenntur fyrir íslenska sumrinu, ætla að fá sem mest út úr því. Ég ætla að ferðast með mínu fólki, labba á fjöll, synda í ám og sjó, grilla silung sem ég hef sjálfur veitt með berum höndum, sjá fótboltaliðin mín sigra leiki í sól og blíðu, æfa utandyra, slá gras, rækta jarðarber, laga tröppurnar, byggja pall og skýli. Hugsanlega eitthvað fleira. Toppurinn væri svo að fara á tónleika í Álafosskvosinni og sjá Axl Rose á sviði. Hilmar, getur þú ekki gengið í það mál?

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 20. apríl 2016