145 nýjar íbúðir og aukið verslunar- og þjónusturými í miðbænum

Tölvugerð mynd sem sýnir nýjar íbúðir við framhaldsskólann. Horft er í átt að Lágafelli og Úlfarsfelli.

Tölvugerð mynd sem sýnir nýjar íbúðir við framhaldsskólann. Horft er í átt að Lágafelli og Úlfarsfelli.

Horft í átt að Krónunni. Við hliðina er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði með íbúðum á efri hæð.

Horft í átt að Krónunni. Við hliðina er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði með íbúðum á efri hæð.

Eins og fram hefur komið í Mosfellingi þá mun ásýnd miðbæjarins breytast mikið á næstu misserum.
Á síðastliðnu ári voru auglýstar til úthlutunar lóðir við Bjarkarholt og Háholt milli Framhaldsskólans í Mosfellsbæ og Krónuhússins. Í framhaldinu ákvað bæjarráð að ganga til samninga við Upphaf fasteignafélag um uppbyggingu á þessum reit.
Í deiliskipulagstillögu sem skipulagsnefnd hefur samþykkt til kynningar er gert ráð fyrir að byggja eigi bæði íbúðarhúsnæði og verslunarhúsnæði. Húsið sem stendur við Háholt 23 (gamla Mosraf-húsið) mun víkja og munu rísa íbúðir á þeirri lóð, sem og lóðinni næst framhaldsskólanum.
Á lóð nr. 21 við Háholt, næst Krónuplaninu, verður um 1.800 fm verslunar- og þjónustuhúsnæði með íbúðum á efri hæð. Á reitnum öllum er gert ráð fyrir um 145 íbúðum með um 105 bílastæðum neðanjarðar.

Býður upp á aukna verslun og þjónustu
Umræða hefur verið um það að undanförnu að fjölga þurfi íbúðum í miðbænum til að möguleiki væri á að auka við verslun og þjónustu þar. Þar að auki myndi svokölluð Borgarlína, hágæðakerfi almenningssamgangna, tengjast miðbænum.
Skipulagsnefnd bæjarins samþykkti m.a. ályktun þess efnis samhljóða nýverið.
Miðað við þær hugmyndir sem nú eru uppi varðandi uppbyggingu bæði á umræddum lóðum við Háholt og eins á kaupfélagsreitnum hillir undir breytingar þar á.

Ásýnd og skipulag skiptir máli
„Mosfellsbær er ört stækkandi bæjarfélag og það er mikilvægt að nýta skipulagið til að hvetja til aukinnar þjónustu við íbúa og atvinnusköpunar,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
„Deiliskipulagstillaga fer nú í auglýsingu og hvet ég íbúa til að kynna sér hana vel. Ásýnd og skipulag miðbæjarins skiptir máli fyrir samfélagið okkar hér í Mosfellsbæ.“

FMOS hlýtur Gulleplið

Gulleplið var afhent við hátíðlega athöfn í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ þann 1. mars. Á myndinni eru Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, Guðrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólameistari, Guðbjörg Aðalbergsdóttir skólameistari og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.

Gulleplið var afhent við hátíðlega athöfn í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ þann 1. mars. Á myndinni eru Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, Guðrún Guðjónsdóttir aðstoðarskólameistari, Guðbjörg Aðalbergsdóttir skólameistari og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.

Forseti Íslands afhenti á dögunum Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ Gulleplið, viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf á sviði heilsueflingar á framhaldsskólastiginu.
Í skólanum hefur markvisst verið unnið að bættri heilsu, bæði á sál og líkama. Hátíðleg athöfn fór fram í skólanum þann 1. mars og að henni lokinni kynnti forsetinn sér starfsemi og húsnæði skólans í fylgd stjórnenda hans.
Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ var stofnaður árið 2009 og er nú til húsa í sérhannaðri byggingu sem hefur víða vakið athygli og fer að ýmsu leyti óhefðbundnar og framsæknar leiðir í námi og kennslu. Gulleplið hefur verið afhent frá árinu 2011. Átak þetta um heilsueflingu innan framhaldsskólanna þykir hafa gefið góða raun en á síðastliðnu ári hefur Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ lagt áherslu á gerðrækt.

Sigursælar handboltakempur

Jón Andri, Siggi Sveins, Þorkell Guðbrands, Gunnar Guðjóns, Einar Braga, Jóhannes, Bjarki Sig, Baldvin, Svanþór og Ástþór. Fyrir framan eru Sveinbjörn og Daði Hafþórs. Einhver kunnugleg andlit vantar þó á myndina.

Jón Andri, Siggi Sveins, Þorkell Guðbrands, Gunnar Guðjóns, Einar Braga, Jóhannes, Bjarki Sig, Baldvin, Svanþór og Ástþór. Fyrir framan eru Sveinbjörn og Daði Hafþórs. Einhver kunnugleg andlit vantar þó á myndina.

Eins og Mosfellingar þekkja þá hefur handbolti verið vinsæll í bænum frá því að Afturelding komst í efstu deild vorið 1992.
Sumarið 2007 ákváðu þeir Þorkell Guðbrandsson og Bjarki Sigurðsson sem báðir voru þá hættir með Aftureldingu að stofna utandeildarlið og smala öllum gömlu kempunum og nokkrum ungum saman í gott lið. Liðið fékk nafnið Júmboys eða breiðu strákarnir á íslensku.
Það er skemmst frá því að segja að liðið varð afar sigursælt og strax á fyrsta tímabili vann liðið Íslandsmeistartitil utandeildar sem taldi þá 18 lið samtals. Árið eftir vann liðið alla þá bikara sem í boði voru og samtals urðu titlarnir 10 á þessum 6 árum sem liðið spilaði í utandeildinni.
Liðsmenn voru á aldrinum 20 til 69 ára. Árið 2013 fannst liðsmönnum mál að linnti og leyfðu öðrum liðum að komast að.

Láttu vaða

Heilsumolar_Gaua_16mars

Við erum gjörn á að hugsa of mikið um hvað öðrum finnst um okkur. Hvað hópnum finnst. Hvað mömmu finnst. Stundum gerum við hluti mest til þess að geðjast öðrum. Hluti sem okkur langar ekkert til að gera og gera engum gott. Við höfum öll upplifað þetta. Sumir oftar en aðrir.

Ef þú ert á þessum stað í lífinu hvet ég þig til að gera uppreisn. Taka þér tíma í að greina hvað það er sem þig virkilega langar að gera við lífið og kýla svo á það. Með því ertu að bæta bæði þig og heiminn, svo lengi auðvitað sem þú ert heilbrigð sál sem vilt sjálfum þér og öðrum vel. Lykilatriði í þessu ferli er að hafa húmor fyrir sjálfum sér og velta sér ekki upp úr því hvað öðrum finnst. Aldur, kyn, menntun eða fæðingarstaður skiptir ekki máli. Ekki heldur uppáhaldsíþróttafélag. Það geta allir látið drauma rætast. Það er alltaf leið. Og það er ekkert eins gefandi og styrkjandi að koma draumum sínum í framkvæmd. Að þora.

Ég gaf út bók í lok síðasta árs. Lét bókardraum rætast. Margra ára gamlan draum. Það sem hafði stoppað mig var álit annarra á bókinni. Vill einhver lesa bók eftir mig? Og líka spurningin hvort einhver myndi kaupa hana. Það tók mig mörg ár að þora að gera þetta. Og tilfinningin er geggjuð. Sérstaklega þegar ég heyri frá einhverjum sem hefur lesið bókina. Næsti draumur tengdur bókinni er að þýða hana á mörg tungumál, gefa út rafrænt út um allan heim. Af hverju? Af því mig langar til þess. Það eflir mig að koma draumum í framkvæmd og mig langar að deila með öðrum því sem ég hef lært og er að pæla. Kíktu á www.njottuferda­lagsins.is ef þú vilt vita meira og fá stuðning til þess að láta vaða.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 16. mars 2017

Ný framtíðarsýn á knattspyrnusvæði

framtidarsyn

Aðalstjórn Aftureldingar hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna breyttrar framtíðarsýnar á uppbyggingu knattspyrnusvæðis Aftureldingar.
Um miðjan janúar kynnti knattspyrnudeild Aftureldingar nýja framtíðarsýn varðandi aðstöðumál hjá félaginu. Á haustönn 2016 voru skáðir 420 iðkendur í barna- og unglingaráði ásamt tæplega 40 iðkendur í meistaraflokkum félagsins.
Iðkendum knattspyrnudeildar hefur fjölgað um 30% frá árinu 2008 til dagsins í dag. Búast má við svipaðri fjölgun iðkenda á næstu árum í ljósi þess að mikil uppbygging er þegar hafin í sveitafélaginu. Knattspyrnudeildin leggur mikinn metnað í að öll börn í sveitafélaginu sem vilja æfa knattspyrnu fái að æfa og að gæði æfinganna og æfingaaðstaðan séu deildinni og sveitafélaginu til sóma.

Reisi hálft yfirbyggt knattspyrnuhús
Stjórn knattspyrnudeildar Aftureldingar samþykkti einróma nýja framtíðarsýn varðandi aðstöðumál deildarinnar á fundi sínum 2. janúar sl. Hún felur í sér breytta stefnu en samkvæmt nýrri framtíðarsýn er horfið frá þeim áformum að byggja knattspyrnuhús í fullri stærð á íþróttasvæðinu við Varmá.
Ný tillaga knattspyrnudeildar felur í sér að reist verði hálft yfirbyggt knattspyrnuhús, gervigras endurnýjað á núverandi velli, byggð upp stúka og félagsaðstaða við núverandi gervigrasvöll, gervigras lagt á Varmárvöll ásamt hitalögnum og flóðlýsingu.

Bregðast þarf strax við fjölgun iðkenda
Þar er mat stjórnar knattspyrnudeildar Aftureldingar að bregðast verði strax við fjölgun iðkenda. Það eru fyrst og fremst fleiri fermetrar sem vantar til að geta veitt viðunandi þjónustu við iðkendur og haldið uppi þeim gæðum á æfingum sem ætlast er til. Að ráðast í byggingu á knattspyrnuhúsi í fullri stærð leysir ekki þau vandamál sem knattspyrnudeildin glímir við á þessum tímapunkti.
Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur að tillögu bæjarstjóra falið honum að láta kostnaðargreina yfirbyggingu gamla gerfigrasvallarins ásamt því að skipta um gras á þeim nýja. Jafnframt að ræða við aðalstjórn félagsins um humyndirnar

Bókagjöf til foreldra nýfæddra barna

Sæunn Kjartansdóttir og Stefanía Arnardóttir frá Miðstöð foreldra og barna, Helga Sigurðardóttir og Ester Sveinbjörnsdóttir frá Soroptimistaklúbbnum og Kristrún Kjartansdóttir, Ingigerður Guðbjörnsdóttir og Lilja Dögg Ármannsdóttir frá Heilsugæslunni.

Sæunn Kjartansdóttir og Stefanía Arnardóttir frá Miðstöð foreldra og barna, Helga Sigurðardóttir og Ester Sveinbjörnsdóttir frá Soroptimistaklúbbnum og Kristrún Kjartansdóttir, Ingigerður Guðbjörnsdóttir og Lilja Dögg Ármannsdóttir frá Heilsugæslunni.

Soroptimistaklúbbur Mosfellssveitar afhenti á dögunumi Heilsugæslu Mosfellsbæjar höfðinglega gjöf.
Um er að ræða bókina Fyrstu 1000 dagarnir, barn verður til, eftir Sæunni Kjartansdóttur, jafnmörg eintök og fjöldi barna sem fæðist í umdæminu á ári. Stefnt er að því að allir foreldrar nýfæddra Mosfellinga fái bókina að gjöf við komuna í ungbarnaeftirlit.

Afgerandi áhrif á framtíðarheilbrigði barnsins
Á baksíðu bókarinnar stendur: Börn fæðast með alla burði til að verða skynsamar og góðar manneskjur og það er undir okkur fullorðna fólkinu komið að gera þeim það kleift.
Rannsóknir sýna að fyrstu þúsund dagarnir í lífi barns, frá getnaði til tveggja ára aldurs, hafa afgerandi áhrif á framtíðarheilbrigði þess. Ástrík og næm samskipti á þessum tíma leggja mikilvægan grunn að þroska barnsins sem vitsmuna-, tilfinninga- og félagsveru.

Aðgengileg handbók fyrir foreldra og fagfólk
Fyrstu 1000 dagarnir er aðgengileg handbók fyrir foreldra og fagfólk sem byggir á sálgreiningu, tengslakenningum og nýjustu rannsóknum í taugavísindum.
Sæunn sem er sálgreinir og rithöfundur er ein af stofnendum Miðstöðvar foreldra og barna, ásamt þeim Önnu Maríu Jónsdóttur geðlækni, Helgu Hinriksdóttir hjúkrunarfræðingi og ljósmóður og Stefaníu B. Arnardóttur sérfræðingi í fjölskylduhjúkrun. Miðstöðin fékk starfsleyfi frá Embætti Landlæknis 2008 til að sinna geðheilsuvernd á meðgöngu og eftir fæðingu með sérhæfðri tengslaeflandi meðferð fyrir foreldra og börn.

Tónlistarupplifun fyrir alla fjölskylduna

Greta Salóme og Alexander Rybak.

Greta Salóme og Alexander Rybak.

Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar og Euro­visionfarinn Greta Salóme blæs til stórtónleika ásamt norska Euro­vision sigurvegaranum Alexander Rybak.
Boðið verður upp á tónlistarupplifun fyrir alla fjölskylduna í Eldborg og Hofi.
Þar mæta þau ásamt rokkbandi, strengjasveit og dönsurum og má búast við því að öllu verði tjaldað til.
Hópurinn mun flytja helstu smelli Gretu Salóme og Alexanders auk þess spennandi bræðing af klassískum verkum, poppi og rokki, flugeldasýningum á hljóðfærin, Disney, Eurovision og ýmislegt fleira.
Tónleikarnir fara fram í Hofi 17. mars og í Eldborg 18. mars.

Miðasala fer fram á www.tix.is.

Tvö ný hringtorg áætluð í Dalnum

Þingvallavegur í Mosfellsdal.

Þingvallavegur í Mosfellsdal.

Vegagerðin áformar að gera tvö hringtorg á Þingvallavegi í Mosfellsdal til að draga úr umferðarhraða á veginum og þar með auka umferðaröryggi og draga úr umferðar­hávaða.
Engin áform eru uppi um að tvöfalda veginn eða búa til 2+1 veg. Aftur á móti verður hvor akrein breikkuð um 20 sentímetra og vegöxlin breikkuð úr 30 sentímetrum í 1 metra til að auka öryggi hjólandi vegfarenda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Hraðalækkandi „aðkomuhlið”
Helstu framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru er gerð tveggja hringtorga á Þingvallavegi, annars vegar við gatnamót Helgadalsvegar og hins vegar við Æsustaðaveg og Mosfellsveg (eða aðeins vestar) og að í kjölfarið verði hægt að fækka tengingum við Þingvallaveg á þessum vegkafla.
Auk hringtorganna er gert ráð fyrir hraðalækkandi „aðkomuhliðum“ á þeim stöðum þar sem hraðaviðvaranir hafa verið settar upp undanfarin ár.
Þá er gert ráð fyrir undirgöngum vestan við hringtorgið við Helgadalsveg fyrir umferð gangandi, ríðandi og hjólandi vegfarenda. Einnig verður fyllt upp í skurð sem er meðfram Þingvallavegi, sem gerir mögulegt að færa göngustíginn fjær veginum.

Starfrækja sjónvarpsstöð á Facebook

Róbert Douglas og Gestur Valur.

Róbert Douglas og Gestur Valur.

MosTV er sjálfstætt starfandi vefsjónvarpsstöð sem starfrækt er á Facebook. Það eru Mosfellingarnir Gestur Valur Svansson og Róbert Ingi Douglas sem standa á bak við MosTV.
„Við erum báðir Mosfellingar og þekkjum bæinn okkar eins og handarbakið á okkur og brennum af ástríðu fyrir því að vekja athygli á því mikla lífi og fjöri sem er í gangi í Mosó. Við einbeitum okkur að því að segja frá öllu því skemmtilegasta og áhugaverðasta sem er að gerast í þessu ótrúlega líflega bæjarfélagi okkar. Og þar er sko af nógu að taka,“ segir Gestur.

Viljum vekja athygli á bænum okkar
„Ég er náttúrlega með sjúklegan áhuga á kvikmyndagerð eins og margir Mosfellingar vita. Ég byrjaði með MosTv en svo hefur þetta legið í dvala í um það bil ár. En þegar Róbert Douglas, einn af týndu sonum Mosó, kom heim frá Kína ákváðum við að blása lífi í þetta.
Þótt ég sé alveg góður þá munar rosalega um að fá mann eins og Róbert inn í þetta. Mann sem hefur gert nokkrar bíómyndir í fullri lengd og kann vel til verka í tökum og klippingum. Við erum „team“ en fyrst og fremst strákar úr Mosó sem elskum bæinn okkar og viljum vekja athygli á honum.“

Segja sögur af fólki
„Við reynum að höfða til allra Mosfellinga og þá skiptir engu hvort þeir eru ungir eða gamlir, rótgrónir eða nýbúar. Það er hins vegar okkar trú að Mosó sé svo skemmtilegt bæjarfélag og mikið líf hérna að MosTV höfði í raun til allra.
Það er okkar einlæga von að með því að vekja athygli á lífinu í bænum muni fleiri kveikja á því að Mosó er staður sem allir verða að kynnast betur.
MosTV er þess vegna fyrir alla. Við segjum sögur af fólki sem er að skapa og skemmta sér,“ segir Gestur að lokum og bætir við að allar ábendingar um áhugaverð málefni séu vel þegnar.

Hér er að finna Facebook-síðu MosTV

Bætt aðstaða til líkamsræktar í þjónustumiðstöð eldri borgara

Félagar úr Lions ásamt fulltrúum Mosfellsbæjar.

Félagar úr Lions ásamt fulltrúum Mosfellsbæjar.

Ný tæki hafa verið tekin í notkun í hreyfi­sal þjónustumiðstöðvar eldri borgara að Eirhömrum. Mosfellsbær keypti fjölþjálfa (Cross Trainer) af gerðinni Nustep T4r í byrjun ársins.
Tækið gefur góða þol- og styrktarþjálfun og hentar flestum, einnig þeim sem eru með skerta færni. Notkun þess gefur mjúka og eðlilega hreyfingu þar sem lágmarksálag er á liðum og það er auðvelt í notkun. Öldungaráð Mosfellsbæjar beitti sér ötullega fyrir kaupum á tækinu.

Lionsklúbburinn dyggur stuðningsaðili
Þá bætti Lionsklúbbur Mosfellsbæjar um betur og gaf hlaupabretti og þrekhjól í salinn. Við val á tækjunum var sérstaklega horft til notendahópsins og þess að tækin væru þægileg og auðveld í notkun.
Lionsklúbburinn hefur verið dyggur stuðningsaðili öldrunarþjónustu bæjar­félagsins undanfarna áratugi. Árið 1980 gaf klúbburinn sex þjónustuíbúðir, auk fjölda annarra gjafa sem hann hefur gefið síðan til öldrunarþjónustunnar.

Reglubundin hreyfing mikilvæg
Líkamsþjálfun eldra fólks er mikilvæg og sýna rannsóknir að með reglubundinni hreyfingu er hægt að hægja á öldrunarbreytingum sem verða í líkamanum með hækkandi aldri.
Þá er sýnt að reglubundin hreyfing gagnast bæði líkama og sál. Hreyfisalur í þjónustumiðstöðvarinnar er fyrst og fremst ætlaður þeim eldri borgurum sem geta ekki nýtt sér almenningsaðstöðu íþróttamiðstöðvanna í Mosfellsbæ.
Sú stefna bæjaryfirvalda að tryggja þessum einstaklingum möguleika á reglubundinni hreyfingu er í samræmi við stefnu bæjarfélagsins sem Heilsueflandi samfélags.

Að skapa gefur lífinu lit

katasprey

Katrínu Sif Jónsdóttur þekkja margir innan hárgreiðslu- og tískubransans en hún er einn af eigendum Sprey hárstofu. Katrín starfar einnig við að greiða fyrirsætum fyrir tískusýningar og módelmyndatökur og hefur komið víða við bæði hér heima og erlendis.
Það sem henni finnst mest heillandi við starfið er að geta skapað miðað við mismunandi þarfir viðskiptavina sinna.

Katrín Sif er fædd í Reykjavík þann 28. janúar 1988. Foreldrar hennar eru þau ­Emilía Helga Þórðardóttir þjónustufulltrúi hjá Happdrætti Háskóla Íslands og Jón Jósef­ Bjarnason ráðgjafi. Katrín á tvö systkini,­ þau Bjarka og Elísabetu Ýrr.

Verklegu fögin skemmtilegust
„Mér fannst frábært að alast upp í Mosfellsbæ. Við bjuggum í Barrholtinu en þegar ég var sex ára þá fluttum við til Svíþjóðar í tvö ár þar sem foreldrar mínir fóru í nám. Ég náði góðum tökum á sænskunni og eignaðist góða vini þarna sem ég er enn í sambandi við.
Ég hóf nám í Varmárskóla eftir að við fluttum heim. Ég man að mér fannst mest gaman í öllum verklegu fögunum eins og heimilisfræði, myndmennt og handavinnu. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á listgreinum og fór í Myndlistaskólann í Álafosskvosinni. Þar fór ég líka á leirnámskeið.
Ég lærði á þverflautu í Tónlistarskólanum í níu ár og sé enn eftir því í dag að hafa hætt en það er aldrei að vita nema maður byrji aftur einn daginn.
Við krakkarnir í hverfinu lékum okkur mikið saman. Nokkrum sinnum héldum við systurnar og vinkonur mínar tónleika úti í garði, mamma poppaði og svo seldum við krökkunum inn. Þetta er ótrúlega skemmtileg minning,“ segir Katrín og brosir.

Tók þátt í hárkeppnum erlendis
Eftir útskrift úr Gaggó Mos fór Katrín í Fjölbrautaskólann í Breiðholti á félagsfræðibraut. „Ég áttaði mig fljótlega á því að ég átti engan veginn heima á bóklegu brautinni enda kom það í ljós. Ég fékk fall­einkunn eftir fyrsta árið.
Ég sagði við foreldra mína að ég vildi fara í Iðnskólann í Reykjavík að læra hárgreiðslu og það varð úr. Á meðan ég var í skólanum tók ég þátt í hárkeppnum og lenti m.a. í þriðja sæti í alþjóðlegri hárgreiðslukeppni á Englandi.“

Besta ákvörðun sem ég hef tekið
„Þegar leið að útskrift fékk ég boð um að kaupa hlut í hárgreiðslustofu í Mosfellsbæ sem ég þáði. Sprey hárstofa opnaði síðan í byrjun árs 2009. Þetta er besta ákvörðun sem ég hef tekið. Það er dásamlegt að vera sjálfstæður atvinnurekandi, ráða tíma sínum sjálfur og starfa við það sem maður elskar.
Síðan hafa fleiri eigendur bæst í hópinn, Svava Björk og Dagný Ósk eiga stofuna með mér í dag og með okkur starfa fimm aðrar konur.“

Fá útrás fyrir sköpunargleðina
Starfsfólk Sprey ásamt öðru fagfólki gerir hárlínur tvisvar á ári. „Við hittumst og búum til línurnar saman. Förðunarfræðingar, stílistar og ljósmyndarar hafa komið að þessu með okkur. Tilgangurinn er að fá útrás fyrir sköpunargleðina og láta hugmyndaflugið ráða.
Ég hafði leitað lengi eftir að komast í tengsl við hárbransann erlendis og fékk eftir þriggja ára leit boð um að greiða á tískuviku í Prag. Nú hef ég farið tvisvar þangað, eins til Danmerkur og Parísar og er nú á leiðinni til Eistlands.
Þessar tískuvikur gera manni kleift að fylgjast með nýjustu tískustraumunum og það er einstaklega gaman að hitta allt þetta fagfólk sem maður lærir svo margt af.
Ég held úti lífsstílsbloggi, pigment.is, þar sem ég skrifa um ferðalög, tísku, matargerð og margt fleira.“

Dvöldu í mánuð í Asíu
Kærasti Katrínar heitir Bárður Fannar Lúðvíksson og er frá Vogum á Vatnsleysuströnd. Hann starfar hjá Granítsteinum í Hafnarfirði. Þau eiga litla sæta kisu, hana Mínu, en Bárður gaf Katrínu hana í afmælisgjöf.
„Við Bárður stundum bæði snjóbretti og reynum að komast í fjöllin eins oft og mögulegt er. Eins finnst mér gaman að skella mér í köfun af og til en líkamsrækt stunda ég daglega.
Við elskum að ferðast og skoða heiminn og erum nýkomin frá Asíu þar sem við dvöldum í mánuð. Þar vorum við að kafa, „surfa“ og skoða okkur um.
Það var gaman að hjóla í gegnum hrísgrjónaakrana og sjá hvað fólkið þarna er ótrúlega nægjusamt. Eitthvað sem við öll mættum kannski temja okkur,“ segir Katrín að lokum er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 23. febrúar2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Knattspyrnufélagið Álafoss stofnað

alafoss_fotbolti

Á dögunum stofnuðu nokkrir galvaskir Mosfellingar nýtt knattspyrnulið sem taka mun þátt í 4. deildinni í sumar. Flestir hafa komið við sögu í yngriflokkastarfi Aftureldingar. „Stanslausar vinsældir móður allra íþrótta hafa valdið því að fjölgun þeirra sem stunda fótbolta í Mosfellsbæ er slíkur að færri komast að en vilja í meistaraflokksliðum Aftureldingar og Hvíta riddarans.“ Þetta segir Patrekur Helgason formaður hins nýstofnaða félags. „Þá var ekki nema eitt til ráða, stofna nýtt lið og skrá það til leiks. Fyrir ofan má sjá merki félagsins og hóp félaga að lokinni erfiðri æfingu.

Guðrún Ýr gefur út sitt fyrsta lag

gudrunyr

Mosfellingurinn Guðrún Ýr, 21 árs, gaf á dögunum út sitt fyrsta lag sem ber titilinn Ein.
„Ég byrjaði að læra jazzsöng fyrir um fjórum árum, en hef samt verið í tónlist frá því að ég man eftir mér og lærði á fiðlu í mörg ár. Vinir mínir, þeir Bjarki Sigurðsson og Teitur Helgi Skúlason, sem mynda bandið Ra:tio sömdu lagið en ég samdi textann. Textinn er mjög persónulegur og er saminn út frá líðan minni á ákveðnu tímabili, ég hafði þörf fyrir að koma þessu frá mér.
Við erum rosalega ánægð með viðbrögðin við laginu en hægt er að nálgast það á Spotify. Við erum nú þegar farin að vinna að stærri verkefnum og áætlum að gefa út meira efni fyrir sumarið,“ segir Guðrún Ýr en vert er að fylgjast vel með þessari efnilegu söngkonu.

https://open.spotify.com/track/2uWHEdjgsF6KkP76drkbdT

Senda matinn heim að dyrum

Hvíti riddarinn bætir enn við þjónustuna við Mosfellinga.

Hvíti Riddarinn bætir enn við þjónustuna við Mosfellinga.

Hákon Örn Bergmann eigandi Hvíta Riddarans er ánægður með viðtökurnar við breytingum á matseðlinum og heimsendingarþjónustu sem staðurinn fór nýverið að bjóða upp á.
„Það eru komnir nýir réttir á seðilinn, steikur og fleira sem gerir okkur að meiri veitingastað. Að sjálfsögðu eru ennþá allir vinsælustu réttirnar okkar líka á sínum stað. Við leggjum mikla áherslu á að maturinn og þjónustan hjá okkur sé góð, ánægður viðskiptavinur er besta auglýsinginn,“ segir Hákon og bætir við að staðurinn fái góð ummæli á Tripadvisor.

Frí heimsending til kl. 3 um helgar
„Við erum nýfarin að bjóða upp á heimsendingarþjónustu á öllum matseðlinum okkar. Við bjóðum upp á þessa þjónustu hér í Mosfellsbæ til að byrja með, en erum jafnvel að skoða að bjóða Kjalnesingum upp á heimsendingar ákveðna daga í viku.
Heimsendingin er frí ef pantað er fyrir meira en 2.500 kr. Ég veit ekki til þess að það séu fleiri staðir að senda heim allt það sem er á matseðlinum hjá þeim. Enn sem komið er eru pítsurnar vinsælastar í heimsendingu en þess má geta að við erum með heimsendingu á þeim til kl. 3 á föstudags- og laugardagskvöldum.“

Heimilismatur í hádeginu
Hvíti Riddarinn býður upp á heimilismat í hádeginu og hlaðborð á föstudögum. „Það er yfirleitt þétt setið hjá okkur í hádeginu og við leggjum mikinn metnað í að vera með góðan heimilismat á góðu verði. Á föstudögum erum við með lambalæri, pítsur og fleira og svo kaffi og kökur í eftirrétt.“
Það er heilmikið fram undan á Hvíta Riddaranum. „Við reynum að vera með fjölbreytta dagskrá hjá okkur. Næstu stóru viðburðir eru kvennakvöld í byrjun mars, FIFA-mót, Pubquiz, bingó og fleira,“ segir Hákon að lokum.
Matseðil Hvíta Riddarans er hægt að finna á Facebook-síðu staðarins.

Þremur lóðum í Sunnukrika úthlutað undir hótelbyggingu

Lóðum 3,5 og 7 við Sunnukrika hefur verið úthlutað.

Lóðum 3,5 og 7 við Sunnukrika hefur verið úthlutað.

Lóðum við Sunnukrika 3-7 hefur verið úthlutað undir hótelbyggingu og aðra þjónustu er tengist ferðamönnum.
Lóðirnar við Sunnukrika eru vel staðsettar með tilliti til sýnileika og samgangna og þar er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði. Það er félagið Sunnubær sem er í eigu verðbréfafyrirtækisins Virðingar hf. sem fékk lóðunum úthlutað.
Hafin er vinna við frumhönnun í samræmi við gildandi skipulag sem samþykkt var árið 2005.

Eignir Kaupfélagsins hafa verið seldar.

Eignir Kaupfélags Kjalarnesþings hafa verið seldar.

Uppbygging að hefjast á kaupfélagsreit
Nýlega hafa verið gerðir samningar sem munu hafa mikil áhrif á ásýnd miðbæjarins. Kaupfélag Kjalarnesþings hefur selt eignir sínar á svokölluðum kaupfélagsreit og kaupendur gert samkomulag við Mosfellsbæ um uppbyggingu á íbúðarhúsnæði.
Íbúðirnar bætast við það framboð sem nú þegar er gert ráð fyrir í miðbænum og er í skipulagsferli. Alls munu því rísa um 200 íbúðir á næstu misserum við Háholt, Bjarkarholt og Þverholt.
Meðal annars er gert ráð fyrir því að kaupfélagshúsið sem staðið hefur ónotað í nokkurn tíma víki. Þess í stað verði byggðar 65 íbúðir fyrir 50 ára og eldri.
Samningurinn gerir ennfremur ráð fyrir því að Mosfellsbær fái yfirráð yfir lóðum við Háholt 16-18 þar sem núverandi skipulag gerir ráð fyrir kirkju og menningarhúsi.

Aukin verslun og þjónusta
„Af þessu má vera ljóst að ásýnd miðbæjarins mun breytast til hins betra á allra næstu árum,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Byggingar sem hafa verið áberandi á svæðinu eins og Háholt 23 og áðurnefnt kaupfélagshús við Háholt 24 munu víkja og þess í stað rís íbúðarhúsnæði. Ég held að við getum gert ráð fyrir því að aukin verslun og þjónusta muni fylgja þéttingu íbúðabyggðarinnar og stækkandi bæjarfélagi.“