asgeir_sveins

Ásgeir býður sig fram á lista Sjálfstæðisflokksins

asgeir_sveins

Ásgeir Sveinsson hefur ákveðið að gefa kost á sér í forystusveit Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Ásgeir er framkvæmdastjóri hjá Halldóri Jónssyni ehf. auk þess sem hann hefur verið virkur í sjálfboðaliðastarfi innan handknattleiksdeildar Aftureldingar, m.a. sem formaður meistarflokksráðs karla. Hann hefur, ásamt öflugum hópi, stýrt uppbyggingu á sterku meistarflokksliði karla.
„Ég hef lengi haft brennandi áhuga á pólitík og fylgst vel með bæjarmálunum í Mosfellsbæ og því faglega og öfluga starfi sem hefur verið unnið undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Ég tel að víðtæk reynsla mín sem stjórnandi í atvinnulífinu til margra ára og í félagsmálum geti reynst vel innan bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.“
Ásgeir og fjölskylda hans hafa búið í Mosfellsbæ í 18 ár og er hann giftur Helgu Sævarsdóttur hjúkrunar- og lýðheilsufræðingi. Þau eiga þrjú börn, Elvar 23 ára, Ásu Maríu 19 ára og Hilmar 17 ára.

Heilsumolar_Gaua_9nov

Líkaminn í rúst

Heilsumolar_Gaua_9nov

Ég hlustaði á viðtal við athafnakonu á rúmlega miðjum aldri í gær. Hún var spræk í anda og ánægð með það sem hún hafði fengist við um ævina. Það tengdist mest þjónustu og rekstri veitingastaða.

En það stakk mig að heyra hana segja „Líkaminn er náttúrulega í rúst. Maður vann svo mikið og gerði ekkert til að sinna líkamanum þegar maður átti frí. Ég hefði auðvitað átt að gera það, fara í sund, liðka mig og svona“. En hún gerði það ekki. Eins og svo margir aðrir. Og þarf að taka afleiðingunum af því í dag.

Ég hitti fólk í hverri viku sem segir það sama. „Ég veit alveg að ég þarf að hreyfa mig, ég bara kem mér ekki í það.“ Hvaða rugl er þetta eiginlega? Af hverju gefa svona margir skít í eigin heilsu og heibrigði? Er betra að vinna yfir sig og eyða svo síðustu áratugum, já áratugum, ekki árum, ævinnnar í að gera ekki það sem manni langar til af því að heilsan leyfir það ekki. Og láta aðra sjá um sig, hjúkra sér og halda manni gangandi. Í mínum huga er þetta ábyrgðarleysi og langt frá því að vera til fyrirmyndar. Það er til fyrirmyndar að taka ábyrgð á eigin heilsu. Sinna sjálfum sér þannig að maður geti sinnt öðrum.

Ef þú ert í rugli í dag hvet ég þig til að rífa upp sokkana, henda þér í skó og fara út úr húsi. Farðu í langan göngutúr. Njóttu náttúrunnar. Klæddu þig vel ef veðrið er vont. Ekki detta í afsakanir og aumingjaskap þótt það sé kalt. Notaðu göngutúrinn til að hugsa um þig og þína heilsu. Hvernig þú ætlar að hreyfa þig reglulega. Koma þér í form. Njóta þessa að vera á lífi. Hraust/ur. Hress. Lifandi. Þú getur þetta!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. nóvember 2017

straeto_mosfellingur

Breytingar á leiðakerfi Strætó um áramótin

straeto_mosfellingur

Umtalsverðar breytingar verða á leiðakerfi Strætó um næstu áramót. Breytingarnar eru liður í að ná fram því markmiði sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að bæta þjónustu og fjölga þannig notendum.
Einföldun leiðakerfis og aukin tíðni ferða eru mikilvægt skref í þá átt að gera Strætó að ferðamáta sem er samkeppnishæfur við aðrar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
Þær breytingar sem snúa að Mosfellsbæ eru m.a. að leið 15 mun aka lengur á kvöldin og ekki verður lengur dregið úr ferðatíðni á sumrin eins og verið hefur síðustu ár.
Leið 6 mun hætta að keyra upp í Mosfellsbæ, en í staðinn mun leið 7 keyra frá Egilshöll og upp í Mosfellsbæ og tengjast Helgafellshverfi. Þannig verður unnt að tryggja þjónustu við það hverfi. Næturakstur á völdum leiðum um helgar

Akstur í nýjum hverfum Mosfellsbæjar
Að sögn Bryndísar Haraldsdóttur, fulltrúa Mosfellsbæjar í stjórn Strætó bs. er enn unnið að því að leggja mat á það hvernig væri unnt að auka þjónustu við íbúa Leirvogstungu. Þar eru þrír kostir í mati.
Í fyrsta lagi að leið 7 keyri inn í Leirvogs­tungu, í öðru lagi að leið 57 keyri í gegnum hverfið í stað þess að stoppa á gatnamótunum við Vesturlandsveg og í þriðja lagi að koma á svokallaðri pöntunarþjónustu. Niðurstaða þessarar skoðunar mun líta dagsins ljós á næstu vikum.

Stórt sameiginlegt verkefni
„Ég er afskaplega ánægð að það skuli hafa verið samþykkt í stjórn Strætó að auka þjónustuna hér í Mosfellsbæ. Við þurftum að hafa fyrir því að ná því fram. Efling og þróun almenningssamgangna er eitt af stóru sameiginlegu verkefnum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Mikill árangur hefur náðst á síðustu misserum og árið 2016 ferðuðust um 45 þúsund manns með Strætó daglega. Sá árangur sem við erum nú að ná við að efla strætisvagnasamgöngur í Mosfellsbæ eru hluti af góðu samtali okkar við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu innan stjórnar Strætó.” sagði Bryndís Haraldsdóttir.

karlakveannakvold

Halda herra- og kvennakvöld Aftureldingar

karlakveannakvold

Í nóvember mun Afturelding standa fyrir tveimur stórum viðburðum. Herrakvöld Aftureldingar fer fram 10. nóvember í Harðarbóli og degi síðar eða 11. nóvember fer Kvennakvöld Aftureldingar fram á sama stað. Meistaraflokkar félagsins í blaki, handbolta og knattspyrnu standa sameiginlega að þessum tveimur viðburðum. „Þetta verður frábær helgi fyrir Mosfellinga og stuðningsmenn Aftureldingar,“ segir Jón Júlíus Karlsson, framkvæmdastjóri Aftureldingar. „Við höfum horft með öfundaraugum á sambærilega viðburði hjá öðrum félögum. Meistaraflokkar félagsins ákváðu því að snúa bökum saman og vinna sameiginlega að því að skapa þessa hefð líka hér í Mosfellsbæ. Undirbúningur hefur gengið afar vel og við erum öll virklega spennt fyrir því að félagið sé nú að standa að þessum viðburðum sem ein heild.“ Miðasala er hafin og fer fram í afgreiðslu íþróttahússins að Varmá. Einnig er hægt að panta miða með því að senda póst á herrakvoldumfa@gmail.com eða kvennakvoldumfa@gmail.com.

Herrakvöld Aftureldingar á facebook

Kvennakvöld Aftureldingar á facebook

Helga Dögg og Nanna Guðrún eru með ljósmyndastúdíó í Kjarnanum.

Myndir skipta miklu máli

Helga Dögg og Nanna Guðrún eru með ljósmyndastúdíó í Kjarnanum.

Helga Dögg og Nanna Guðrún eru með ljósmyndastúdíó í Kjarnanum.

Þær Helga Dögg Reynisdóttir og Nanna Guðrún Bjarnadóttir hafa stofnað fyrirtækið Fókal sem sérhæfir sig í viðburða- og fyrir­tækjaljósmyndun. Þær starfa einnig sem sjálfstætt starfandi ljósmyndarar og eru með ljósmyndastúdíó í Kjarnanum.
„Við erum fjórir ljósmyndarar sem höfum aðstöðu hér í Kjarnanum. Hér erum við með fullbúið ljósmyndastúdíó og tökum að okkur alla vega verkefni.
Auk okkar Helgu eru hér Ása Magnea Vigfúsdóttir og Kolbrún María Ingadóttir. Við störfum allar sjálfstætt en svo erum við Helga saman með Fókal,“ segir Nanna.

Gaman að vinna saman
„Leiðir okkar Nönnu hafa legið saman í langan tíma, við vorum saman í ljósmyndanáminu og höfum báðar lokið námi í grafískri miðlun. Við höfum mikið myndað fjölskyldur og börn undanfarin ár og okkur langaði að gera eitthvað saman. Við sáum tækifæri í þessari hugmynd, því fáir að gefa sig út fyrir þessa þjónustu við fyrirtæki.
Við höfum fengið ótrúlega góðar viðtökur og fjölbreytt verkefni. Við myndum ráðstefnur, starfsdaga hjá fyrirtækjum, árshátíðir, ýmsa fundi, vöruframleiðslu og hefðbundnar starfsmannamyndir,“ segir Helga.

Myndir eru mikilvægar fyrir fyrirtæki
„Við leggjum áherslu á vönduð og fagleg vinnubrögð og skilum af okkur verkefnum á því formi sem viðskiptavinurinn óskar.
Á heimasíðunni okkar eru allar upplýsingar um fyrirtækið og sýnishorn af þeim verkefnum sem við höfum verið að fást við. Okkur finnst gott að vinna saman og fá faglegan stuðning hvor af annarri,“ segir Nanna.
„Það eru okkar sýn að góðar myndir skipti miklu máli í kynningar- og markaðsefni fyrirtækja. Það vantar öll fyrirtæki góðan ljósmyndara. Við bíðum sérstaklega spenntar eftir að þjónusta fyrirtæki í Mosfellsbæ,“ segir Helga að lokum.

steini

Hef alltaf haft áhuga á mótorsporti

steini

Steingrímur Bjarnason er þaulreyndur akstursíþróttamaður og hefur tekið þátt í torfæru- og sandspyrnukeppnum víða um land.

Það eru ekki margir sem keyra um á 12 metra langri rútu með torfærubíl í skottinu en það gerir aksturs­íþróttamaðurinn Steingrímur Bjarnason þegar hann leggur af stað í ferðir sínar út á land. Fjölskyldan er oftar en ekki með í för enda rútan innréttuð sem húsbíll með gistirými fyrir sex fullorðna.

Steingrímur, eða Steini eins og hann er ávallt kallaður, hefur unnið margar torfæru- og sandspyrnukeppnir í gegnum tíðina enda bera bikararnir hans áttatíu og ýmis önnur verðlaun þess merki.

Steingrímur er fæddur á Akureyri 11. ágúst 1967. Foreldrar hans eru Aðalheiður Valgerður Steingrímsdóttir frá Kroppi í Eyjafjarðarsveit og Bjarni Indriðason frá Víðigerði í Mosfellsdal en þau eru bæði látin.
Steingrímur á tvo bræður, þá Gunnlaug Indriða fæddan 1970 og Eyþór Má fæddan 1974.

Á skellinöðru í gryfjunum
„Ég er alinn upp í Mosfellsbæ og það var mjög gott að alast hér upp. Ég bjó í Álafosskvosinni þangað til ég var tólf ára en þá fluttum við fjölskyldan í Byggðarholtið. Maður var alltaf úti að leika í alls konar leikjum eða úti að hjóla en svo tóku skellinöðrurnar við og þá var farið í gryfjurnar við Gagnfræðaskólann eða í Ullarnesgryfjurnar. Er ég lít til baka þá held ég að torfæruáhugi minn hafi byrjað þarna.
Þegar ég var að alast upp þá þekktu allir alla hérna í sveitinni en nú hefur bærinn stækkað mikið. Hér er samt alltaf jafn rólegt og gott að vera.
Á sumrin í æsku var ég í sveit hjá afa mínum og ömmu í Eyjafirði. Þar var alltaf skemmtilegt að vera enda var maður innan um dýrin og tók þátt í heyskapnum.“

Fékk vinnu á Álafossi
„Ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskólann, í raun höfum ég og skólar aldrei átt samleið, en það var samt ágætt að vera þar. Helga Richter var minn uppáhaldskennari.
Eftir útskrift úr Gaggó fór ég að vinna í ullarverksmiðjunni á Álafossi þar sem foreldrar mínir störfuðu og þar var ég í fjögur ár. Ég byrjaði að vinna í tætaradeildinni við að tæta ullina, blanda saman litum og svo blés maður ullinni milli klefa en þetta var gert með höndunum. Síðar kom vél sem sá um þennan hluta og þá varð þetta allt mun léttara. Þetta var góður tími og ekki skemmdi fyrir að ég vann í sömu deild og pabbi.“

Hugsa til þeirra á hverjum degi
Foreldrar Steingríms kynntust í ullarverksmiðjunni og unnu þar alla tíð. Bjarni varð bráðkvaddur árið 1999 en sama ár greindist Heiða með krabbamein. Hún lést sjö árum síðar. „Þetta hafði gríðarleg áhrif á mann og skrítin tilfinning að hafa þau ekki lengur hér meðal okkar en ég hugsa til þeirra á hverjum degi,” segir Steini alvarlegur á svip er ég spyr hann út í foreldramissinn.
Eftir Álafossárin fór Steini að vinna á dekkjarverkstæði og smurstöð og er búinn að vera lengst af í þeim störfum. Í dag starfar hann hjá Kletti – sölu og þjónustu við þjónustu á dekkjalager og sér einnig um útkeyrslu.

Ferðalögin í uppáhaldi
Steini kynntist eiginkonu sinni Jóhönnu Hólmfríði Guðmundsdóttur lyfjafræðingi árið 1990 og þau giftu sig tíu árum seinna. Þau eiga þrjú börn, Ingimund Bjarna fæddan 2001 og tvíburana Aðalheiði Valgerði og Hlyn Bergþór fædd 2003.
„Við fjölskyldan höfum mjög gaman af því að ferðast, við förum til útlanda og eins höfum við gaman af að fara í útilegur um landið og förum þá á rútunni okkar.“

Bíllinn orðinn stór hluti af manni
„Ég hef haft áhuga á mótorsporti frá því ég man eftir mér. Ég keypti mér Willys jeppa árgerð 1964 í janúar 1990 og byrjaði að keppa á honum í júní sama ár. Ég skírði hann Strumpinn því það á vel við litinn á honum. Nú er ég búin að eiga hann í 27 ár og í gegnum tíðina hef ég breytt honum mikið. Það er óhætt að segja að bíllinn sé orðin stór hluti af manni eftir öll þessi frábæru ár saman.
Ég keppti í þrjú ár en svo tók ég hlé á keppnum og var aðstoðarmaður hjá félögum mínum á árunum 1993-2006. Eftir það byrjaði ég að keppa aftur á sama bílnum og geri enn í dag.“

Allir til í að hjálpa ef eitthvað bilar
Steini hefur unnið margar torfæru- og sandspyrnukeppnir í gegnum tíðina enda bera bikararnir hans áttatíu og ýmis önnur verðlaun þess merki. Hann varð Íslandsmeistari í torfæru árið 1991 og 2009 og varð Íslandsmeistari í sandspyrnu í jeppaflokki 2009.
Ég spyr Steina hvað sé skemmilegast við torfæruna? „Fyrir utan að keyra í brekkunum þá er það félagsskapurinn, allt þetta frábæra fólk sem er í þessu sporti. Það eru allir vinir þótt menn séu að keppa hver á móti öðrum, allir eru til í að hjálpa ef eitthvað bilar eða skemmist í veltu.“

Mosfellingurinn 19. október 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Tölvugerð mynd af útliti hússins.

Ráðist verður í framkvæmdir við fjölnota íþróttahús að Varmá

Tölvugerð mynd af útliti hússins.

Tölvugerð mynd af útliti hússins.

Fyrir bæjarráði Mosfellsbæjar liggur nú til samþykktar tillaga um byggingu 3.200 fermetra fjölnota íþróttahúss sem staðsett verði austan við núverandi íþróttamannvirki að Varmá.
Um er að ræða svokallað hálft yfirbyggt knatthús þar sem eldri gervisgrasvöllur að Varmá er nú.

Samræmist stefnumörkun UMFA
Undirbúningur málsins hefur staðið yfir frá árinu 2014 og fólst í upphafi í öflun og úrvinnslu gagna þar sem ólíkar útfærslur voru vegnar og metnar.
Í upphafi var t.d. skoðað hvaða leiðir önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hefðu farið í þessum efnum, fjallað um mögulega staðsetningu innan bæjarins, kostir og gallar ólíkra rekstrarforma voru reifaðir og loks kannað hvort að unnt væri að reisa slíkt hús í samstarf við Reykjavíkurborg.
Við þarfagreininguna var víða leitað fanga, m.a. til knattspyrnudeildar Aftureldingar, en sú tillaga sem nú liggur fyrir bæjarráði er í samræmi við stefnumörkun Aftureldingar um uppbyggingu knattspyrnusvæðis Aftureldingar.

Gert ráð fyrir hlaupabraut
Niðurstaða þessarar vinnu var sú að Mosfellsbær eigi og byggi sjálfur húsið og sú lausn sem varð ofan á hefur nú verið frumhönnuð og er áætlaður byggingarkostnaður um 308 m. kr.
Við undirbúnings verksins var jafnframt litið til þess að tryggja að fleiri aðilar í Mosfellsbæ en knattspyrnufólk geti nýtt húsið undir sína starfsemi og því er til að mynda gert ráð fyrir hlaupabraut í húsinu.

Bylting í aðstöðu íþróttafólks
„Það er ánægjulegt að nú sjái fyrir endann á þessari vinnu með þessari góðu niðurstöðu,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Það er ljóst að hér verður um byltingu að ræða í aðstöðu íþróttafólks í Mosfellsbæ og þá sérstaklega þeirra sem stunda knattspyrnu sem og foreldra sem fylgjast með börnum sínum í leik og keppni. Um leið gerir þetta okkur kleift að taka á móti nýjum iðkendum við fjölgun íbúa í stækkandi bæjarfélagi.“
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við húsið hefjist á næsta ári þegar hönnun hússins og deiliskipulagsferli er lokið.

Nýtt gervigras hefur verið lagt á stóra völlinn að Varmá. Nær íþróttahúsinu mun síðan rísa nýtt fjölnota íþróttahús eins og sést á yfirlitsmyndinni hér að ofan.

Nýtt gervigras hefur verið lagt á stóra völlinn að Varmá. Nær íþróttahúsinu mun síðan rísa nýtt fjölnota íþróttahús eins og sést á yfirlitsmyndinni hér að ofan.

Hreppaskjöldurinn eftirsótti
verður á Kiðafelli næsta árið.

Tugur frá Kiðafelli besti hrúturinn

Hreppaskjöldurinn eftirsótti verður á Kiðafelli næsta árið.

Hreppaskjöldurinn eftirsótti verður á Kiðafelli næsta árið.

stjórn sauðfjárræktarfélagsins: Ingibjörg, Ólöf ósk og hafþór

Stjórn Sauðfjárræktarfélagsins: Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir, Ólöf Ósk Guðmundsdóttir og Hafþór Finnbogason.

Hin geysivinsæla hrútasýning Sauðfjárræktarfélagsins í Kjós var haldin þriðjudaginn 17. október á Kiðafelli.
Í félaginu eru sauðfjárbændur í Kjós, Kjalarnesi, Mosfellsbæ og Mosfellsdal og kepptu þeir sín á milli um hver ætti besta hrútinn. Keppt var í nokkrum flokkum: veturgömlum hrútum, hyrndum lambhrútum, kollóttum lambhrútum og svo var besti misliti lambhrúturinn sérstaklega verðlaunaður.
Mæting á sýninguna var með besta móti og höfðu gestir á orði að féð liti sérlega vel út þetta árið.

Bestu hrútarnir voru eftirfarandi:
Hyrndir lambhrútar
1. Hrútur númer 87 frá Kiðafelli, 87 stig. Sérlega breiðvaxinn og fallegur samanrekinn köggull.
2. Hrútur númer 736 frá Morastöðum, 87 stig. Útlögumikill hrútur.
3. Hrútur númer 370 frá Kiðafelli, 85 stig. Sprækur mjög.

Kollóttir lambhrútar
1. Hrútur númer 778 frá Miðdal, 86 stig.
2. Hrútur númer 43 frá Kiðafelli, 85,5 stig.
3. Hrútur númer 2 frá Kiðafelli, 85,5 stig.
Besti misliti lambhrúturinn var Svartur frá Kiðafelli. Sá var seldur samstundis.

Veturgamlir hrútar
1. Tugur frá Kiðafelli, 85 stig. Holdugur, breiðvaxinn og útlögumikill hrútur.
2. Garður frá Morastöðum. Fallegur, holdmikill hrútur með gott skap.
3. Prins frá Kiðafelli. Kollóttur hrútur, feiknalega holdgóður en stuttur. Köggull!

Stjórn Sauðfjárræktarfélagsins óskar sigur­vegurum til hamingju, þakkar gestum fyrir komuna og bóndanum á Kiðafelli fyrir frábæra aðstöðu.

uganda

Mosfellsbær tekur við tíu flóttamönnum

uganda

Á fundi bæjarráðs þann 12. október var tekið fyrir erindi velferðarráðuneytisins þar sem óskað var eftir því að að Mosfellsbær taki á móti 10 flóttamönnum frá Úganda. Í afgreiðslu bæjarráðs segir að Mosfellsbær hafi áður lýst vilja sínum til að taka á móti flóttamönnum og sé því jákvæður gagnvart þessu erindi ráðuneytisins. Framkvæmdastjóra fjölskyldusviðs var falið að undirbúa umsögn um málið, ræða við velferðarráðuneytið og hefja undirbúning samnings um verkefnið. Fallist Mosfellsbær á að taka við fólkinu mun sveitarfélagið meðal annars útvega því húsnæði og veita því nauðsynlega þjónustu en fjármögnun kemur frá velferðarráðuneytinu.

handstaða

Handstaðan

handstaða

Um síðustu helgi fórum við æfingahópurinn á Strandir í æfingaferð. Nánar tiltekið á Hótel Laugarhól í Bjarnarfirði. Staðurinn er magnaður og hópurinn samsettur af lifandi og skemmtilegum einstaklingum. Ferðin var frábær og allir spenntir fyrir að fara aftur á Strandir haustið 2018. Helgin var af stútfull af æfingum, leikjum og þrautum. Allt á afslöppuðum nótum. Við krýndum Strandameistara í ketilbjöllukasti og bóndagöngu. Kepptum líka í drumbakasti, boðhlaupi, dýfingum, snapchati og mörgu öðru.

Mér finnst gaman að keppa, sérstaklega þegar ég vinn. Það er einhvern veginn skemmtilegra að vinna en að vinna ekki. Stundum er samt bara gaman að vera með, þannig séð. Mitt lið, appelsínugula liðið, stóð sig mjög vel í snapchat keppninni, enda með nokkra sérfræðinga í þeirri íþrótt innan liðsins. Við unnum líka drumbahlaupið sem lið mjög örugglega. Aðrar keppnir tókum við ekki eins alvarlega og unnum þær þar af leiðandi ekki.

Af öllum þeim keppnum og leikjum sem ég tók þátt í fannst mér erfiðast að tapa í Asna fyrir trommuleikaranum í Doors frá Laugarvatni. Mér fannst ég vera með þetta. Var bara með A þegar hann var kominn með Asni og vantaði bara tvo punkta. En auðveldu skotin mín geiguðu á meðan trommarinn mýktist með hverju skotinu og raðaði sínum niður án fyrirhafnar. Ég reyndi að láta á engu bera og óskaði honum auðvitað til hamingju með sigurinn en átti mjög erfitt inni mér.

Mér finnst reyndar gefandi að sjá fólk í kringum mig blómstra og ná árangri þannig að ég var ekki lengi tapsár. Einn af skemmtilegustu sigrum helgarinnar var síðan þegar ísfirska mærin okkar náði sinni fyrstu handstöðu. Eitthvað sem hana hefur lengi langað til að geta og hefur stefnt að lengi. Markmið sem náðist. Það var sigur sem skipti máli og mér fannst gaman að fá að upplifa það með henni. Njótum lífsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 19. október 2017

Sigurberg Árnason, Gústaf Guðmundsson, Jón Bjarni Þorsteinsson Lkl. Mosfellsbæjar, Dagný Finnsdóttir Lkl. Úa, Kristinn Hannesson Lkl. Mosfellsbæjar, Guðrún Björt Yngvadóttir verðandi alþjóðaforseti Lionshreyfingarinnar úr Lkl. Eik í Garðabæ, Anna María Einarsdóttir Lkl. Úa og Sigríður Skúladóttir Lkl. Úa.

Lionshreyfingin hvetur börn til lestrar

Sigurberg Árnason, Gústaf Guðmundsson, Jón Bjarni Þorsteinsson Lkl. Mosfellsbæjar, Dagný Finnsdóttir Lkl. Úa, Kristinn Hannesson Lkl. Mosfellsbæjar, Guðrún Björt Yngvadóttir verðandi alþjóðaforseti Lionshreyfingarinnar úr Lkl. Eik í Garðabæ, Anna María Einarsdóttir Lkl. Úa og Sigríður Skúladóttir Lkl. Úa.

Sigurberg Árnason, Gústaf Guðmundsson, Jón Bjarni Þorsteinsson Lkl. Mosfellsbæjar, Dagný Finnsdóttir Lkl. Úa, Kristinn Hannesson Lkl. Mosfellsbæjar, Guðrún Björt Yngvadóttir verðandi alþjóðaforseti Lionshreyfingarinnar úr Lkl. Eik í Garðabæ, Anna María Einarsdóttir Lkl. Úa og Sigríður Skúladóttir Lkl. Úa.

Lionshreyfingin á Íslandi tekur þátt í alþjóðlegu verkefni sem nefnt er Lestrarátak Lions og stendur yfir í 10 ár eða til ársins 2022. Meðal annars hefur Lionshreyfingin gefið út bókamerki sem hluta af þessu verkefni.
Hinn 25. ágúst heimsóttu Lionsklúbburinn Úa og Lionsklúbbur Mosfellsbæjar Varmárskóla í því skyni að afhenda börnum í 5. bekk bókamerki. Auk þess voru bæði yngri og eldri deildum skólans færðar bókagjafir.
Var þetta hin ánægjulegasta stund með börnunum og kennurum þeirra sem tóku á móti Lionsfélögunum á sal skólans. Skólastjórnendur og bókasafnsfræðingar fá bestu þakkir frá klúbbunum fyrir jákvæðar undirtektir við erindinu og góðar móttökur.

Heimsókn verðandi alþjóðaforseta
Í fylgd með klúbbfélögum í þessari skemmtilegu heimsókn var góður gestur, Guðrún Björt Yngvadóttir, sem fyrst kvenna í heiminum mun gegna embætti alþjóðaforseta Lions.
Hún gegnir nú þegar mikilvægu hlutverki innan Lionsheimsins, sem eru stærstu góðgerðar- og líknarsamtök í heimi. Eitt af fjölmörgum verkefnum Lions er að hvetja börn til lestrar og er það gert í samráði við kennara og skólastjórnendur.
Það var einmitt Guðrún Björt sem setti af stað lestrarátaksverkefnið hér á landi árið 2012 og var Lionsklúbburinn Úa fyrstur klúbba til að taka þátt í verkefninu. Það fór því vel á því að Guðrún Björt tæki þátt í afhendingu bókamerkjanna og bókanna.

sigurjon

Flugið togar endalaust í mig

sigurjon

Sigurjón Valsson flugrekstrarstjóri Air Atlanta Icelandic og formaður Íslenska flugsögufélagsins er mikill áhugamaður um flugsöguna og þekkir vel til sögu fyrstu flugvélarinnar sem kom til landsins. Sigurjón er vel þekktur innan fluggeirans enda búinn að fljúga frá því að hann var unglingur. Í dag stjórnar hann flugdeild Air Atlanta Icelandic sem sinnir flugi um allan heim.
Sigurjón hefur einnig brennandi áhuga á varðveislu flugsögunnar og hefur ansi mörg járn í eldinum hvað það varðar.

Sigurjón er fæddur á Selfossi 8. apríl 1973. Foreldrar hans eru Helga Sigurjónsdóttir og Valur Snorrason. Helga lést árið 2014. Sigurjón á þrjú systkini, Freyju fædda 1978, Snorra Jón fæddan 1979 og Fanneyju Guðrúnu fædda 1982.

Hveragerði hálfgerður smábær
„Foreldrar mínir bjuggu í Hveragerði þegar ég fæddist en fluttu svo að Hamars­hjáleigu í Gaulverjabæjarhreppi. Þegar ég var fjögurra ára þá fluttum við aftur í Hveragerði og þar ólst ég upp.
Hveragerði var á þessum tíma hálfgerður smábær þar sem flestir bæjarbúar könnuðust hver við annan sem var kostur en á sama tíma stundum galli.“

Hugsaði um skjáturnar hans Sæmundar
„Það var ýmislegt brallað á æskuárunum. Ég var nánast alinn upp á hestbaki eða frá því ég gat setið hest þar til ég var 16 ára. Þá tók flugið algerlega yfir, og þá meina ég algerlega, því ég fór ekki á hestbak næstu 20 árin. Það er fyrst núna síðustu ár sem ég hef skroppið á bak en þá eingöngu til þess að fara í göngur.
Þar sem foreldrar mínir voru bæði úr sveit og héldu hesta kom það einhvern veginn til að faðir minn var fenginn til að hugsa um kindur samstarfsmanns síns í ullarþvottastöðinni í Hveragerði um hver jól, til fjölda ára. Þetta varð til þess að í mínum huga eru jólin í „gamla daga“ ­all­­taf tengd því að hugsa um skjáturnar hans Sæmundar í Brekku og það voru engin jól nema að stússast í þessu með pabba.“

Kenndi sjálfum sér að lesa
„Ég gekk í Grunnskóla Hveragerðis og síðan í Gagnfræðaskólann. Í upphafi skólagöngu minnar var lestur ekki mín sterka hlið og þegar ég var 9 ára var ég ekki búinn að ná sömu færni og jafnaldrarnir. Það var eflaust um að kenna „dassi“ af lesblindu ásamt fullt af þrjósku.
Ég var sendur í sérkennslu í lestri og fór sú kennsla fram á bókasafninu. Einn daginn mætti kennarinn ekki svo ég fór eitthvað að ráfa um á milli hillanna. Þá rakst ég á bók sem átti eftir að breyta öllu fyrir mig. Ég tók bókina úr hillunni og opnaði hana. Á fremstu síðu var teikning af mikilli loft­­­­­­­­­o­rr­ustu. Þessi teikning höfðaði til mín á einhvern hátt þannig að mér fannst ég þurfa að lesa það sem stæði í bókinni. Ég fékk hana lánaða, las hana og kenndi þannig sjálfum mér að lesa, alveg óvart. Bókin hét Haukur í hættu.“

Stalst til að fara í flugtíma
„Eftir að ég útskrifaðist úr gaggó lá leiðin í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Einn daginn eftir að ég var byrjaður í skólanum stalst ég til þess að taka flugtíma hjá flugskólanum Flugtaki og greiddi fyrir hann með peningum sem ég var búinn að safna mér.
Ég sagði foreldrum mínum ekki frá tímanum vegna þess að þau voru algjörlega á móti því að ég lærði að fljúga, sérstaklega mamma. Eftir að þetta upplýstist allt saman var samið um að ég fengi að halda áfram í náminu. Ég kláraði einkaflugmannsprófið samhliða náminu í fjölbraut en ég útskrifaðist árið 1993. Yfir sumartímann vann ég við túnþökutínslu á Núpum í Ölfusi.“

Dró línu í sandinn
„Ég var búin að hugsa mér að fara í verkfræði í HÍ því útlitið í atvinnuflugi var frekar dökkt. Á þessum tíma hafði varla verið ráðinn flugmaður til Flugleiða í fjöldamörg ár.
Flugið togaði samt í mig og á endanum ákvað ég að skella mér í atvinnuflugmennsku en var búinn að draga línu í sandinn. Ef ég yrði ekki kominn með vinnu sem flugmaður þegar ég yrði þrítugur þá biði verkfræðin mín. Ég fékk síðan atvinnuflugmanns- og kennararéttindi vorið 1995 og í ágúst sama ár var ég byrjaður að kenna hjá Flugtaki.
Ég flutti frá Hveragerði haustið 1996 en þá flutti ég í höfuðborgina til að sleppa við að keyra svona langt í vinnuna.“

Klúbbur stofnaður af áhugamönnum
Frá Flugtaki lá leið Sigurjóns til Íslandsflugs þar sem hann flaug á ATR-42, Do-228 og Boeing 737. Eftir sameiningu Íslandsflugs og Air Atlanta Icelandic hefur hann starfað sem flugstjóri og þjálfunarflug­stjóri en er í dag flugrekstrarstjóri félagsins. Hann hefur flogið sem listflugmaður frá árinu 1997, mest á TF-UFO.
Sigurjón var lengi vel formaður Flugklúbbs Mosfellsbæjar eða í 10 ár en klúbburinn er með aðsetur á Tungubakkaflugvelli. Klúbburinn var stofnaður 29. maí 1981 af 14 flugáhugamönnum. Á vellinum eru 7 flugskýli, um 20 vélar og klúbbhús félags­manna.
Sigurjón er giftur Lucíu Guðnýju Jörundsdóttur sjúkraliða og á hann þrjár stjúpdætur, þær Steinunni Mörtu, Hrafnhildi Völu og Önnu Kolbrá.

Markmiðið er að varðveita flugsöguna
„Ég byrjaði að stunda vinnukvöld hjá Íslenska Flugsögufélaginu þegar ég var unglingur. Áhugi minn á gömlum flugvélum kemur eflaust til af því að Haukur flugkappi sem ég las um í denn var alltaf að fljúga gömlum flugvélum úr seinna stríði.
Flugsögufélagið er félag sem var stofnað árið 1977 af áhugamönnum um flugsögu og markmið félagsins er að varðveita flugsögu Íslands. Við erum að safna hlutum sem koma flugsögunni við, allt frá hnífapörum upp í flugvélar, og við þiggjum alla hluti sem tengjast henni með þökkum. Félagið hefur jafnframt gert upp nokkrar flugvélar í gegnum tíðina.
Við erum ávallt með mörg járn í eldinum hjá Flugsögufélaginu og okkur vantar alltaf fleiri félaga til þess að leggja okkur lið við varðveislu flugsögunnar.“

Hundrað ára afmæli flugsins
Árið 1919 kom fyrsta flugvélin til landsins og var hún af gerðinni Avro 504K. Þessi tegund af vél var töluvert notuð í fyrri heimsstyrjöldinni og þótti henta ljómandi vel til flugkennslu. Árið 2015 var Hið íslenska Avrof­élag stofnað. Að baki því standa nokkrir af flugköppum nútímans en Sigurjón er formaður þess. Þeir félagar ætla að kaupa Avro 504 og sjá til þess að hún fljúgi á hundrað ára afmælisdegi flugsins á Íslandi, 3. september 2019.

Mosfellingurinn 28. september 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Úlfar Darri, Björn, Embla Líf og Ásdís.

Ungmennahús Mosfellsbæjar opnar í Framhaldsskólanum

Úlfar Darri, Björn, Embla Líf og Ásdís.

Hluti af nýju húsráði Ungmennahússins: Úlfar Darri, Björn, Embla Líf og Ásdís.

Ungmennahús Mosfellsbæjar hefur verið opnað í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Þar er vettvangur fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára að hittast og byggja upp öflugt og fjölbreytt félagsstarf.
Markmið Ungmennahússins eru meðal annars að veita ungu fólki aðstöðu og aðstoð við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Bjóða upp á heilbrigðan og vímuefnalausan valkost til afþreyingar ásamt því að opna á tækifæri fyrir ungt fólk fyrir Evrópusamstarf.

Fundir aðra hverja viku
Nú þegar hefur verið stofnað húsráð sem hefur fjölbreytt hlutverk. Sem dæmi má nefna skipulagningu opnunartíma, umsjón viðburða ásamt því að hvetja ungt fólk til áhrifa í Mosfellsbæ.
Húsráðið er opið fyrir alla og fundar aðra hverja viku og eru fundir auglýstir á facebook-síðu Ungmennahússins. Allir sem hafa áhuga á að taka þátt í að móta og hafa áhrif á hvað er gert fyrir ungt fólk í Mosfellsbæ eru hvattir til að mæta.

Lasertag og hamborgarar
Fyrsti viðburður Ungmennahússins verður þann 4. október klukkan 18:00 í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Farið verður í lasertag og síðan verða grillaðir hamborgarar. Ef þú ert á aldrinum 16-25 og vilt vera með í að móta starfsemina þá hvetjum við þig til að mæta á þennan fyrsta viðburð þér að kostnaðarlausu.

SAMKEPPNI
Ákveðið hefur verið að efna til samkeppni um nafn og lógó fyrir Ungmennahúsið. Allar hugmyndir og tillögur sendist á hrafnhildurg@mos.is.

Hjá Mosfellsbæ starfa um 650 manns.

Ný framtíðarsýn og áherslur Mosfellsbæjar

Hjá Mosfellsbæ starfa um 650 manns.

Hjá Mosfellsbæ starfa um 650 manns.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Að veita þjónustu sem mætir þörfum, vera til staðar fyrir fólk og þróa samfélagið í rétta átt er leiðarljósið í stefnu og framtíðarsýn Mosfellsbæjar sem bæjarráð samþykkti á fundi sínum 20. júlí sl.
Stefnan er afrakstur vinnu sem stóð yfir frá því snemma í vor og skiptist stefnan í þrjá áhersluflokka og níu áherslur sem munu móta og stýra starfsemi Mosfellsbæjar til næstu ára.
Að sögn Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra var Mosfellsbær fyrst sveitarfélaga hérlendis til þess að marka sér heildstæða stefnu um það hvernig starfsmenn leysa sín verkefni í þágu íbúa og hvernig þeir styðja kjörna fulltrúa við að koma stefnu málaflokka í framkvæmd. Sú stefnumörkun átti sér stað árið 2007 og kominn var tími til þess að endurtaka leikinn.

Mosfellsbær er einn vinnustaður
„Gildi Mosfellsbæjar voru mótuð árið 2007 og hafa nýst okkur við að búa til einn vinnustað,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Við lítum á bæjarskrifstofurnar og stofnanir bæjarins sem heild og þá er gott að vinna með sameiginleg gildi. Við unnum saman að því að þróa gildin okkar áfram haustið 2016 og létum þau því halda sér í þeirri vinnu sem fram fór í vor en mótuðum í samvinnu við starfsmenn og stjórnendur framtíðarsýn og áherslur til ársins 2027.“

Snjöll, meðvituð og sjálfbær
„Áhersluflokkarnir í stefnu Mosfellsbæjar eru rétt þjónusta, flott fólk og stolt samfélag. Undir þessum flokkum setjum við fram níu áherslur. Við viljum vera persónuleg, skilvirk og snjöll. Einnig samstarfsfús, framsækin og meðvituð. Loks viljum við vera eftirsótt, heilbrigð og sjálfbær.
Þegar við segjumst vilja vera snjöll þá ætlum við að nýta snjallar lausnir og spara íbúum sporin með rafrænni þjónustu, auka þannig aðgengi að þjónustu og hafa um leið jákvæð umhverfisleg áhrif.
Við erum meðvituð um að mikilvægt sé að vera til fyrirmyndar varðandi rekstur og þróun starfseminnar og að sveitarfélagið sé rekið af ábyrgð og þannig afhendum við reksturinn til komandi kynslóða.
Með því að vera sjálfbær leggjum við þá áherslu að láta umhverfið okkur varða, sinna málaflokknum af kostgæfni og tryggja að nálægð okkar við náttúruperlur sé nýtt samfélaginu til góðs.“

Að mæta þörfum nýrra íbúa
Eitt af því sem þátttakendum í vinnunni var hugleikið var sú fjölgun íbúa sem mun verða næstu misserin og mikilvægi þess fyrir íbúa, kjörna fulltrúa og starfsmenn að vel takist til við að nýta það tækifæri.
„Við leggjum því áherslu í stefnunni á að vöxtur sveitarfélagsins hafi jákvæð áhrif á þjónustu og þjónustustig og það sé sameiginlegt verkefni íbúa, kjörinna fulltrúa og starfsfólks að svo verði,“ segir Haraldur að lokum.

Framtíðarsýn Mosfellsbæjar
Mosfellsbær er fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið
í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi.

æfingatæki

Útiæfingatæki tekin í notkun

æfingatæki

Okkar Mosó er samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ. Hugmyndasöfnun og kosning fóru fram fyrri hluta árs. Kosin voru 10 verkefni og eru þau öll komin af stað, ýmist lokið eða langt komin.
Stekkjarflöt útivistarparadís fékk flest atkvæði íbúa. Þar er búið að koma upp strandblakvelli og vatnsbrunni.
Útileikvöllur fyrir fullorðna var verkefni sem gerði ráð fyrir líkamsræktartækjum fyrir fullorðna. Tækin eru nú komin upp og tilbúin til notkunar á græna svæðinu við Klapparhlíð.
Meðal annarra verkefna má nefna að búið er að setja upp ungbarnarólur á opin leiksvæði við Víðiteig, Hrafnshöfða, Furubyggð og Rauðumýri. Þá eru komnir bekkir fyrir eldri borgara og aðra íbúa við Klapparhlíð, verið er að undirbúa göngustíg gegnum Teigagilið og endurbætur á göngubrúm við Varmá og við Eyri eru í undirbúningi. Búið er að lagfæra og snyrta gróður á göngugötunni fyrir aftan Þverholt og hönnun á fuglafræðslustíg meðfram Leirvoginum er langt komin.