Kraftur kolvetnanna

Kolvetnin hafa átt undir högg að sækja undanfarið. Það hefur verið sótt að þeim úr ýmsum áttum og mataræði á borð við Primal, Paleo og Ketó hafa farið sigurför um heimsbyggðina. Ég stökk á Primal-vagninn á sínum tíma. Mér leið ágætlega á því, þannig séð, en vantaði samt einhverja orku yfir daginn. Ég daðraði við Paleo-mataræðið en komst aldrei almennilega inn í það. Kannski af því að mér líður einfaldlega best þegar ég fæ kolvetnin mín.

Ég hef undanfarið verið að stúdera bæði langlífismataræði og keppnismataræði. Langlífismataræðið byggir á mörgum rannsóknum úr ýmsum geirum. Þær sýna að þau samfélög þar sem fólk lifir lengst – og heldur heilsunni lengi – eiga það sameiginlegt að fólk borðar mikið plöntufæði. Kolvetni fyrst og fremst. Úr nærumhverfi yfirleitt. Það sem hægt er að rækta á staðnum. Þeir langlífu borða yfirleitt ekki mikið af dýraafurðum, fá mest af próteinum sínum úr jurtaríkinu og fituna sömuleiðis. Ólívuolíu til dæmis.

Ef margar rannsóknir á langlífi og góðri heilsu sýna að kolvetni úr grænmeti, ávöxtum og öðrum plöntum hafi jákvæð áhrif á langtíma heilsu okkar, er þá ekki ástæða til að staldra aðeins við og velta fyrir sér hvort ekki sé ástæða til þess að sýna kolvetnunum virðingu og vinsemd og gefa þeim góðan sess í daglegu mataræði okkar? Við hjónin erum þessa dagana á kafi í Spartan Race þjálfaranámskeiði – það snýst um allt sem kemur að undirbúningi og þátttöku í þessum dásamlegu utanvegarhindrunarhlaupum. Næring er þar mikilvægur hluti.

Á námskeiðinu er útskýrt vel af hverju íþróttamenn verða að fá nóg af góðum kolvetnum til þess að komast í gegnum erfiðar keppnir á borð við Spartan Race. Prótein og fita eru ekki nóg. Sem sagt, kolvetnin eru okkur nauðsynleg bæði sem orka fyrir mikla hreyfingu og sem lykill að langlífi og góðri heilsu. Þau lengi lifi!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 30. janúar 2020

Rýmri opnun í Bókasafninu

Á nýju ári hefur verið tekið upp á þeirri nýbreytni í Bókasafni Mosfellsbæjar að opna dyrnar upp á gátt – án þjónustu – kl. 9 á morgnana virka daga.
Hefðbundinn afgreiðslutími með þjónustu er svo frá kl. 12-18 mánudaga og þriðjudaga, kl. 10-18 miðvikudaga, kl. 12-18 fimmtudaga og föstudaga og kl. 12-16 á laugardögum allt árið.

Nú þegar nýta margir námsmenn sér aðstöðu safnsins til lestrar á morgnana. Með rýmri opnun geta árrisulir gestir kíkt í bækur, tímarit og dagblöð, fengið sér kaffibolla, komist í tölvur, tekið að láni bækur í sjálfsafgreiðslu og skilað. Í safninu er ein sjálfsafgreiðsluvél og einnig leitartölva þar sem gestir geta flett upp safnkosti.

Á morgnana er oft líf og fjör í safninu, þó svo ekki sé boðið upp á hefðbundna afgreiðslu. Leik- og grunnskólahópar koma í heimsókn, leshópur eldri borgara hittist og fleira mætti nefna.
Með því að opna dyrnar kl. 9 er komið til móts við þá safngesti sem kjósa að sinna erindum fyrir hádegi, eða eru í vinnu eftir hádegi – eða bara þá sem eru á ferðinni í Kjarna af einhverjum ástæðum.
Fyrirkomulag af þessu tagi, opnun án þjónustu, þekkist víða annars staðar á Norðurlöndum og eins hefur það reynst vel í Bókasafni Kópavogs og Amtsbókasafninu á Akureyri.

Blakið á svo mikið inni

Sigurbjörn Grétar Eggertsson ráðgjafi og formaður Blaksambandsins segir mörg verkefni fram undan til að efla íþróttina.

Blaksamband Íslands var stofnað árið 1972 og á næsta áratug þróaðist blakið umtalsvert nær þeirri mynd sem við þekkjum í dag. Í kjölfar stofnunar sambandsins var landslið sett á laggirnar og voru fyrstu landsleikirnir spilaðir árið 1974, við Norðmenn.
Mosfellingurinn Sigurbjörn Grétar Eggertsson tók við formennsku Blaksambandsins sl. vor. Hann ásamt fjölda kraftmikilla einstaklinga eru að kortleggja stöðuna til að sinna þeim fjölda verkefna sem fram undan eru til að efla íþróttina og ná sem bestum árangri.

Sigurbjörn Grétar eða Grétar eins og hann er ávallt kallaður er fæddur í Reykjavík 19. september 1967. Foreldrar hans eru þau Sigurlaug Þorleifsdóttir sjúkraliði og Eggert Karlsson bifvélavirki.
Grétar á tvö systkini, Þorleif Karl f.1965 og Sesselju Kristínu f.1968.

Fljótur að aðlagast nýjum heimkynnum
„Fyrstu árin bjó ég á Eyrarbakka en fjölskylda mín fluttist síðan á Hjallholt á Vatnsnesi þar sem foreldar mínir tóku við búi afa míns. Ég fór í heimavist í Laugarbakkaskóla í Miðfirði og hugsa með hlýjum hug til þeirra ára.
Þegar ég var 10 ára fluttum við inn á Hvammstanga og ég var töluvert fljótur að aðlagast nýjum heimkynnum. Ég gekk í grunnskólann og uppáhaldsfögin mín voru íslenska, tungumál og saga. Ég var mikið í íþróttum og æfði margar íþróttagreinar, fótbolta, körfubolta, frjálsar íþróttir og hlaup. Ég var líka í leikhússtarfinu svo það var alltaf nóg að gera.
13 ára var ég farinn að taka að mér þjálfun yngri barna í fótbolta og svo starfaði ég í málningarvinnu hjá Erni Guðjónssyni.“

Fjölskyldan: Grétar, Thelma Dögg, Daníela, Guðrún.

Hafði aldrei farið til útlanda
Grétar var 15 ára þegar hann var valinn af Lionshreyfingunni á Íslandi til að fara utan í mánuð á þeirra vegum. Hann átti að búa með 90 öðrum unglingum frá 30 löndum í tvær vikur og vera síðan hjá fjölskyldu eftir það. Hann gat valið úr mörgum löndum og valdi Ítalíu.
„Sveitastrákurinn ég hafði aldrei farið til útlanda og hvað þá í flugvél svo það reyndi á að fara einn. Þessi ferð mótaði mig mikið og var gott veganesti út í lífið. Ég kynntist ungmennum frá ólíkum menningarheimum og fékk innsýn í þeirra líf sem var gaman.“

Langaði að prófa eitthvað nýtt
Árið 1983 hóf Grétar nám við Menntaskólann á Egilsstöðum en skólafélagar hans héldu í aðrar áttir. „Ég valdi þennan skóla því mig langaði að prófa eitthvað nýtt, ég hafði til dæmis aldrei komið til Egilsstaða. Tíminn á heimavistinni var mjög skemmtilegur, ég tók þátt í flestum liðum í íþróttum, uppsetningum á leikritum og var um tíma formaður nemendafélagsins. Samhliða náminu starfaði ég á Vonarlandi, þjónustumiðstöð fyrir þroskahamlaða.
Eftir tveggja ára dvöl fyrir austan fór ég að æfa knattspyrnu með Hetti.“

Gefandi að vera innan um börnin
„Ein jólin þegar ég kom heim í frí þá var ég svo heppinn að fá vinnu á leikskólanum. Það þótti alveg nýtt að karlmaður tæki að sér starf þar en það var mjög gefandi að vera innan um börnin.
Eftir útskrift úr ME hélt ég á heimaslóðir og fór að vinna aftur við að mála ásamt því að vera í boltanum. Ég fékk síðan símtal þar sem mér var boðin íþróttakennarastaða í Laugarbakkaskóla sem ég þáði. Þaðan fór ég á Skagaströnd og kenndi þar fjóra daga í viku sem þýddi að þá voru langar helgar fram undan. Við félagarnir vorum því duglegir að fara til Reykjavíkur til að skemmta okkur. Í einni slíkri ferð hitti ég Guðrúnu Elvu Sveinsdóttur hárgreiðslumeistara. Guðrún er frá Egilsstöðum og við vissum hvort af öðru þar. Við eigum saman tvær dætur, Thelmu Dögg f.1997 og Daníelu f. 2002.“

Fluttu til Egilsstaða
„Ég flutti suður og hóf störf hjá Lækjarási, dagvistun fyrir þroskahamlaða. Síðan fór ég yfir til Hrafnistu og fór að huga að öldruðum ásamt því að þjálfa yngri flokka í knattspyrnu. Ég hef lært mikið á því að vinna með börnum, þroskahömluðum og öldruðum.
Árið 1993 fengum við Guðrún boð um að flytjast til Egilsstaða sem við þáðum. Ég fór að spila með Hetti og Guðrún sinnti hárgreiðslustörfunum. Við fluttum svo aftur suður og keyptum okkur íbúð í Árbænum og síðar í Grafarvogi. Ég starfaði við sölu og þjónustu hjá Málningu, Harðviðarvali og TVG Zimsen en frá árinu 2000 hef ég starfað sem ráðgjafi hjá Motus.
Ég skellti mér í fjarnám í viðskiptafræði og lauk því námi árið 2005 frá Háskólanum á Akureyri.“

Heppinn að fá að taka þátt í þessu
„Við fjölskyldan fluttum í Mosfellsbæ árið 2002 og hér líkar okkur vel að vera. Guðrún fór að taka þátt í blakinu hjá Aftureldingu og Thelma dóttir okkar líka. Ég hélt mig við fótboltann og spilaði með Umfus í dágóðan tíma.
Fljótlega fór ég svo að sinna yngri flokka starfinu í blakdeildinni. Þá var búið að ákveða að setja á fót meistaraflokk kvenna til að keppa í efstu deild. Ég var svo heppinn að fá að taka þátt í þessu verkefni ásamt fleirum.
Ég var í stjórn meistaraflokksins í um fimm ár og þetta var áhugaverður og krefjandi tími. Blakið var á þessum tíma að ná góðum árangri og hefur verið ein af sterkum stoðum Aftureldingar. Í gegnum árin hafa margir góðir einstaklingar unnið frábært starf í deildinni en það er óhætt að segja að Guðrún Kristín formaður deildarinnar hafi borið hitann og þungann af þessu frá upphafi og gert það með glæsibrag.“

Við eigum eftir að gera svo margt
Grétar ákvað að hætta í stjórn blakdeildar Aftureldingar vorið 2018 en um haustið var haft samband við hann og hann spurður að því hvort hann væri tilbúinn til að bjóða sig fram til formanns Blaksambands Íslands. Hann tók sér góðan umhugsunarfrest, sló til og var kosinn formaður á ársþingi BLÍ þann 30. mars 2019 til tveggja ára.
„Það eru mörg verkefni og áskoranir fram undan því blakið á svo mikið inni en það er einmitt meginástæða þess að ég tók þetta starf að mér. Við höfum verið að kortleggja núverandi stöðu og eigum eftir að gera margt til að efla íþróttina, keppnis­lega, útbreiðslulega og ekki síst kynna hana mun betur fyrir fólki.
Í hreyfingunni er fjöldi kraftmikilla einstaklinga sem eru tilbúnir að lyfta blakinu hærra og ná meiri árangri svo það eru bara spennandi tímar fram undan,“ segir Grétar brosandi er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 9. janúar 2019
ruth@mosfellingur.is

188 íbúðir verða reistar í 4. áfanga Helgafellshverfis

Mosfellsbær og Bakki ehf. hafa undirritað samkomulag um áframhaldandi uppbyggingu íbúabyggðar í Helgafellshverfi, svokallaðan fjórða áfanga þar sem 188 íbúðir verða reistar á næstu árum.
Bakki tekur með samningnum að sér allar framkvæmdir við gatnagerð, þar með talið Skammadalsveg, stíga og göngustíga, veitur og frágang opinna svæða og leikvallar en Bakki eignaðist allan byggingarrétt á svæðinu með kaupum á gildandi samningi af Landsbankanum þann 22. mars 2017.

Bakki ber alla ábyrgð á uppbyggingu
Samkvæmt samkomulaginu ber Bakki ábyrgð á allri uppbyggingu á svæðinu sem er hefðbundið í sambærilegum verkefnum. Frá þessu eru þó tvær undantekningar. Þær eru annars vegar að Mosfellsbær mun sjá um að veita ofanvatni af svæðinu þ.e. læki sem rigningar og leysingavatn flæðir um, þó þannig að Bakki mun skaffa veituskurði til lagningar umræddra lagna og loka þeim.
Þessi leið er farin í ljósi þess að Mosfellsbær hefur séð um slíkar framkvæmdir í öðrum áföngum hverfisins og mun tengja lagnir frá fimmta áfanga inn á umræddar lagnir og því best að þær séu á einni hendi. Hins vegar mun Mosfellsbær skaffa ljósastaura, lagnir þeirra og tengibúnað við Skammadalsveg enda er einungis um að ræða stuttan hluta lengri vegar og eðlilegt að tryggt verði að samskonar búnaður sé notaður meðfram öllum veginum.

Opin svæði byggist upp samhliða
Með samkomulaginu er lagt til að breyting verði gerð á kröfum í deiliskipulagi um íbúðir fyrir 55 ára og eldri og að þær verði 40 talsins. Á grunni almennra útboðsskilmála Mosfellsbæjar verður ýmsum kvöðum þinglýst á byggingarlóðir innan áfangans auk ákvæða um hraða framkvæmda sem skiptir íbúa í Helgafellshverfi miklu máli.
Í samkomulaginu er jafnframt gert ráð fyrir að framkvæmdum verði skipt í þrjá áfanga og að tryggt verði að opin svæði byggist upp samhliða annarri uppbyggingu. Mosfellsbær er og verður áfram eigandi alls lands á skipulagssvæðinu.

Aukin byggingarréttargjöld
Mosfellsbær mun leggja á gatnagerðargjöld vegna byggingarlóða í samræmi við gjaldskrá eins og hún verður á hverjum tíma. Þá mun Bakki greiða alls um 92 m.kr. í aukin byggingarréttargjöld vegna fjölgunar íbúða á svæðinu samkvæmt þeirri deiliskipulagstillögu sem fyrir liggur.
Greiðslum Bakka verður varið til fullrar greiðslu kostnaðar af uppbyggingu innviða samkvæmt samkomulaginu. Mosfellsbær mun því ekki bera markverðan kostnað af uppbyggingunni.

Byggð sem verði öllum til sóma
„Hér er um að ræða mikilvægan samning sem tryggir hagsmuni bæjarbúa í bráð og lengd. Það er mikill og jákvæður kraftur í samfélagi okkar Mosfellinga og mikilvægt að sú byggð sem þarna mun rísa verði öllum til sóma,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
„Bæjarstæðið er fallegt og mun tengja saman þétta byggð í nágrenni við útivistarperlur okkar. Nú þegar þessi uppbyggingarsamningur er í höfn tekur við lokahnykkur skipulagsvinnunnar og í kjölfarið ættu framkvæmdir að geta hafist.“

Vandaða skipulag með íbúa í fyrsta sæti
Eigendur Bakka hafa tekið virkan þátt í uppbyggingu í Mosfellsbæ á undanförnum 40 árum, áður sem Álftárós og nú sem Bakki. Þeir hafa t.d. byggt Kjarnann og fjölda verslana auk vel á annað þúsund íbúða og sérbýlishúsa í Mosfellsbæ.
„Félagið hefur haft þá stefnu að viðhalda einkennum Mosfellsbæjar með byggingu lítilla raðhúsa og hagkvæmra íbúða sem henta fólki sem vill búa börnum sínum áhyggjulítið líf í nánd við náttúruna,“ segir Örn Kjærne­sted hjá byggingafélaginu Bakka.
„Ein helsta rós í hnappagat fyrirtækisins er bygging Permaform-húsanna upp úr 1990 þegar ástandið á markaðnum var mjög erfitt og mikið atvinnuleysi. Þessi hús voru á um það bil 30% lægra verði en sambærileg stærð íbúða.
Með uppyggingu á 4. áfanga í Helgafelli er Bakki kominn í gamla gírinn og setur stefnuna á vandað skipulag með íbúana í fyrsta sæti. Vandaðar íbúðir og hagkvæmt verð.“

World Class í Mosfellsbæ stækkar um helgina

Líkamsræktarstöðin World Class í Mosfellsbæ mun taka í notkun nýja 940 m2 viðbyggingu á laugardaginn. Líkamsræktarstöðin, sem fyrst var opnuð í Lágafellslaug í desember 2007, mun því stækka um helming.

World Class mun bjóða upp á stærri tækjasal, infrared heitan sal, hjólasal með ic7 hjólum, fjölnota sal, tvo nýja búningsklefa, infrared gufu, þurrgufu og auðvitað aðgang að Lágafellslaug. Mosfellsbær og World Class undirrituðu samning vegna stækkunar á íþrótta- og líkamsræktaraðstöðu í Lágafelli sumarið 2017. Nánar verður fjallað um endurbætta stöð World Class í næsta blaði.

Hilmar Elísson valinn Mosfellingur ársins

Hilmar Elísson tekur við viðurkenningunni úr höndum Hilmars Gunnarssonar ritstjóra Mosfellings

Mosfellingur ársins 2019 er Hilmar Elísson. Hilmar sem er húsasmíðameistari og rekur fyrirtækið H-verk er meðlimur í karlaþrekinu í World Class og fastagestur í Lágafellslaug.
Þann 28. janúar 2019 ákvað Hilmar að fá sér sund­sprett eftir æfingu. Það má segja að hann hafi verið réttur maður á réttum stað því hann bjargaði sundlaugargesti frá drukknun sem hafði verið við köfun í lauginni.

Sá strax að þarna var ekki allt með felldu
„Þegar ég var að synda eftir æfinguna sá ég mann liggja á botninum, þetta var í dýpri enda laugarinnar og ég sá strax að þarna var ekki allt með felldu. Ég kafaði eftir manninum, það tókst ekki í fyrstu tilraun en í annari tilraun náði ég til hans. Ég náði svo að kalla á hjálp við að koma manninum upp á bakkann,“ segir Hilmar.
„Það var heppilegt að á staðnum var maður sem starfað hefur sem slökkviliðsmaður í fjöldamörg ár og kunni vel til verka í svona aðstæðum. Okkur tókst að koma manninum upp á bakkann og þá hófust strax lífgunartilraunir.“

„Það var strax farið að hnoða hann en það leið allavega mínúta þar til hann fór að sýna smá lífsmark. Sjúkraflutningamennirnir voru fljótir á staðinn enda gott að vita af þeim í nágrenninu.
Það er mjög skrítið að lenda í svona aðstæðum, maður framkvæmir bara ósjálfrátt eftir bestu getu en fær svo svolítið sjokk á eftir þegar maður áttar sig á hvað hefur gerst. Þetta er ekki skemmtileg upplifun en það var gott að allt fór vel en allir aðilar sem komu að þessu, starfsmenn og aðrir, stóðu sig með prýði. Ég var bara einn hlekkur í keðju sem vann gott verk,“ segir Hilmar að lokum og þakkar þann heiður sem honum er sýndur með nafnbótinni Mosfellingur ársins.

Ögraðu þér

Ég er búinn að lesa þrjá pistla um nýja árið, skrifaða af þekktum pennum Fréttablaðsins og Moggans. Allir pistlarnir snúast um þá algengu hjarðhegðun okkar Íslendinga að rífa sig í gang eftir allsnægtadesember þegar lífið snýst um að njóta og leyfa sér allar mögulegar og ómögulegar freistingar, sérstaklega þær sem hafa eitthvað með mat og drykk að gera.

Einn pistlahöfundurinn, ekki sá léttasti en skemmtilega kaldhæðinn og launfyndinn penni, gerir grín að veganúar og um leið þeirri staðreynd að flestir gefast upp á matar- og hreyfingarátaki áður en janúar er liðinni. Annar pistlahöfundur segist vera hætt að reyna að nota byrjun nýs árs í að skafa af sér þau fimm kíló sem hún bætir alltaf á sig í desember. Ætlar núna að fara sátt og sæl inn í nýja árið, fimm kílóum þyngri. Sá þriðji segir að allt snúist alltaf um mat á Íslandi, að svoleiðis þurfi það ekki að vera, en hann ætli samt ekki að standast freistingar eins og feitar kótilettur þegar þær bjóðast honum.

Ég held að þessir pistlar hafi átt að vera hvetjandi og kannski eru þeir það fyrir einhverja. Ég les úr þeim uppgjafarskilaboð. Hættið að reyna. Hættið að reyna að lifa heilbrigðu og lífi. Hættið að reyna að breyta og bæta. Gefist upp fyrir öllum freistinginum og gefið skít í afleiðingarnar. Leyfið ykkur að þyngjast ár eftir ár, leyfið ykkur að verða oftar veik og viðkvæmari fyrir sjúkdómum, leyfið ykkur að vera þreytt og hætta að geta hluti, leyfið ykkur allt sem ykkur langar í.

Ég er hinsvegar sammála pistlahöfundum um að brjálæðisátak í janúar (og svo aftur eftir sumarsukkið í september) skilar sjaldnast langtímaárangri. Hvað þá, hver er leiðin? Hún er einföld, borðaðu hollt og gott – ekki of mikið – allt árið. Hættu að borða óhollt sama hvaða mánuður er. Málið leyst.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. janúar 2020

páll helgason bæjarlista- maður mosfellsbæjar 2012

Stofna minningarsjóð um Pál Helgason

páll helgason bæjarlista- maður mosfellsbæjar 2012

Stofnaður hefur verið minningarsjóður um Pál Helgason, tónlistarmann. Sjóðurinn heitir Minningarsjóður Páls Helgasonar og er stofnaður af börnum Páls og eftirlifandi eiginkonu. Stofnframlag sjóðsins kemur frá eiginkonu Páls, Bjarneyju Einarsdóttur, auk innkomu af styrktartónleikum sem haldnir voru í Langholtskirkju 23. október.
Páll var afkastamikill í tónlistarlífi landsins, þó mest í Mosfellsbæ og kom að stofnun fjölda kóra. Þar má nefna Álafosskórinn, Mosfellskórinn, Vorboða – kór eldri borgara í Mosfellsbæ, Landsvirkjunarkórinn og Karlakór Kjalnesinga auk endurvakningu kóra eins og Karlakórsins Svana á Akranesi og Karlakórsins Stefnis í Mosfellsbæ.

Stofnaður á 75 ára afmæli Páls
Páls er minnst með hlýju og virðingu. Það er börnum og ekkju Páls mikils virði að sjóður helgaður minningu hans skuli stofnaður nú, á 75 ára afmæli Páls.
Stjórn sjóðsins skipa fjórir einstaklingar. Tveir stjórnarmanna eru börn Páls Helgasonar og fer annað þeirra með formennsku í sjóðnum, þriðji stjórnarmaður er ekkja Páls Helgasonar en formaður Karlakórs Kjalnesinga er fjórði.

Verkefni sem lúta að námi í kórstjórnun
Í reglum sjóðsins segir meðal annars: „Tilgangur og markmið sjóðsins er að styrkja verkefni sem lúta að námi í kórstjórnun. Einnig er sjóðnum heimilt að veita styrki til þeirra sem fjalla vilja um líf og starf Páls Helgasonar tónlistarmanns og stuðla að því að halda nafni hans á lofti. Þar getur verið um að ræða hvers konar nýja úrvinnslu eða nálgun á útsetningum, útgáfu, rannsóknir, kynningar og skrif eða önnur þau verkefni sem gera lífi hans og starfi skil.“
Í undirbúningi er að setja upp heimasíðu um Pál Helgason og verk og útsetningar hans. Búið er að stofna síðu á facebook þar sem hægt er að finna nánari upplýsingar þangað til.

Ég hræðist ekki sorgina

mosfellingurinn_annasig

Anna Sigurðardóttir sálfræðingur hjá Heilsuborg segist hafa fengið tækifæri til að endurskoða gildi sín og lífsviðhorf eftir barnsmissi.

Anna er þekkt fyrir að vera orku­­mikil, jákvæð og bros­mild og ekki vantar upp á húm­orinn. Í maímánuði árið 2013 tók líf hennar u-beygju er hún fæddi andvana dóttur. Krufning leiddi í ljós að hún hefði látist innan við sólarhring fyrir fæðingu. Í einlægu viðtali við Ruth Örnólfs­dóttur ræðir hún um æskuárin, líkamræktina, dansinn, starf sitt og hvernig hún tekst á við sorgina.

Anna er fædd í Keflavík 22. september 1973. Foreldrar hennar eru þau Hjördís Ólafsdóttir leikskólakennari og Sigurður Einar Björn Karlsson málarameistari.
Anna á tvo bræður, Karl f. 1967 og Gunnar f. 1971.

Lærði fljótt að leika mér utandyra
„Ég ólst upp í Búðardal fyrstu tíu árin og á einungis frábærar minningar þaðan. Ég gekk í Grunnskóla Búðardals og eignaðist þar góða vini. Að alast upp í litlu samfélagi í nálægð við náttúruna var gott og nærandi og ég lærði fljótt að leika mér utandyra. Faðir minn var duglegur að kenna mér á dýralífið og móðir mín kenndi mér nöfnin á blómunum.
Við fjölskyldan höfum alltaf verið hreyfiglöð og vorum mjög dugleg að ferðast. Þegar ég var 7 ára þá fórum við í viku gönguferð um Hornstrandir sem var mjög gaman.“

Dönsuðum á göngum skólans
„Við fjölskyldan fluttum í Garðabæinn og áttum þar góð ár. Ég gekk í Flata- og Garðaskóla og mér leið vel í skólanum. Ég átti fáa en góða vini enda var ég mjög upptekin á þessum tíma við að sinna dansæfingum.
Maður var alltaf dansandi á þessum árum og mjög oft tókum við skólasysturnar okkur til og dönsuðum á göngum skólans sem okkur fannst nú ekkert leiðinlegt,“ segir Anna og hlær.

Margir Íslandsmeistaratitlar
Anna var einungis sextán ára þegar hún byrjaði að starfa sem þolfimikennari og tvítug sem einkaþjálfari. Hún hefur keppt í freestyle og suður-amerískum dönsum víða um heim og náði mjög góðum árangri á heimsmælikvarða. Hún hefur einnig unnið marga Íslandsmeistaratitla í dansi, þolfimi og fitness.
Anna var líka í ýmsum danshópum hér á landi og sýndi m.a. á Broadway, í Hollywood, Casablanca, Tunglinu og stærri uppfærslum á Hótel Íslandi. Einnig kom hún reglulega fram í þættinum Á tali hjá Hemma Gunn.
18 ára flutti hún til London ásamt dansfélaga sínum og bjó þar í tæpt ár. Þar stunduðu þau nám ásamt því að taka þátt í danskeppnum. Frá London fóru þau til Hollands.
„Ég reyndi að fara í framhaldsnám samhliða flakki mínu um heiminn en ég fann fljótt út að það gekk ekki upp. Dansinn tók of mikinn tíma, kostaði líka mikið og maður þurfti oft að dvelja langdvölum erlendis.“

Fékk kvörtun yfir hressleika
Anna flutti til Svíþjóðar árið 1997 og starfaði í þrjú ár á líkamsræktarstöð. Hún tók einkaþjálfararéttindi og starfaði síðan eitt sumar í Þýskalandi. Eftir að hún flutti heim aftur tók hún að sér stöðu framkvæmdastjóra líkamsræktarstöðvar.
Hún minnist þess að í einum morgunleikfimitímanum fékk hún kvörtun yfir því hversu hress hún væri svona að morgni og gat hún ekki annað en brosað yfir því en Anna og systkini hennar eru þekkt fyrir mikla orku, jákvæðni og húmor.

Vildi ekki óþroskaðan dreng
Anna kynntist eiginmanni sínum, Elíasi Víðissyni framkvæmdastjóra og eiganda Múr og mál og Stoð pallaleigu, þegar hún var 29 ára. Þau eiga fimm börn, Elías Karl 15 ára, Óðinn 12 ára, Mána 10 ára, Mörtu Marín fædda andvana 2013 og Bjart 5 ára.
„Við hjónin kynntumst í gegnum Erlu systur Elíasar en við unnum saman. Erla sagðist vita um góðan mann handa mér en þegar ég frétti að hann væri þremur árum yngri þá leist mér ekkert á blikuna, vildi sko ekki vera með einhverjum óþroskuðum dreng,“ segir Anna og skellir upp úr.
„Ég samþykkti að hitta hann og sé ekki eftir því, ég kolféll fyrir þessum glaðværa og umhyggjusama orkubolta.“

Lifum enn á minningunum
„Fyrstu fimm árin okkar saman var nóg að gera, ég fór í sálfræðinám, við eignuðumst þrjú börn, giftum okkur og byggðum okkur einbýlishús. Það hefur aldrei verið lognmolla í kringum okkur svo manni leiðist aldrei þótt það hafi stundum tekið á að hafa svona mikið fyrir stafni.
Við fluttum í Mosfellsbæ 2007 og gætum ekki hugsað okkur betri stað til að búa á. Árið 2010 fluttum við til Danmerkur og bjuggum þar í eitt ár þar sem ég fór í nám í klínískri sálfræði. Elli minn var heimavinnandi húsfaðir á meðan og stóð sig vel, það var loksins allt í röð og reglu á heimilinu. Þetta ár var yndislegt í alla staði og við lifum enn á minningunum. Eftir að heim var komið fór ég í starfsnám á Reykjalundi sem var mjög lærdómsríkt.“

Ýmsir þættir voru ekki athugaðir
„Árið 2013 hóf ég störf á sálfræðistofu í Skeifunni. Ég var ófrísk á þessum tíma og við fjölskyldan biðum spennt eftir nýja fjölskyldumeðlimnum sem átti að fæðast þetta sama ár en von var á lítilli stúlku.
Í fæðingunni eða eftir 42 vikna meðgöngu kom í ljós að dóttir okkar var andvana. Þetta var mikið reiðarslag þar sem ég hafði oft beðið um ítarlegri athugun á meðgöngunni því ég var farin að léttast í lok hennar og eins voru ýmsir aðrir þættir ekki athugaðir.
Í krufningu kom í ljós að hún hefði látist 12-24 klukkustundum fyrir fæðinguna vegna vanstarfsemi fylgjunnar, en dóttir okkar var alveg heilbrigð.
Við kærðum ljósmóðurina til Landlæknis sem fékk áminningu um vanrækslu í starfi. Einnig voru nokkrir starfsferlar skerptir er varða umsjón með konum eldri en 40 ára.“

Náðum illa að stilla strengi okkar
„Þegar við vorum að reyna að vinna úr sorginni vegna dóttur okkar varð ég ólétt og var það mikið lán. Við hjónin vorum búin að eiga erfitt tímabil, náðum illa að stilla strengi okkar saman enda upplifðum við sorgina á gjörólíkan hátt. Sem betur fer fengum við aðstoð og gátum unnið vel úr því sem er ekki sjálfgefið því meirihluti para sem missa barn slíta samvistum.
Móðurhlutverkið er eitthvað sem mér hefur fundist svo verðmætt. Það er ekki sjálfgefið að eignast börn og því lít ég alltaf á okkur sem múltí milljónera að eiga fimm börn. Móðurhlutverkið er eitt fallegasta og besta hlutverk sem ég hef tekið að mér en jafnframt það erfiðasta. Það er krefjandi en um leið svo gefandi og gott.“

Leikur sér með ímyndunaraflið
Ég spyr Önnu út í sorgina. „Ég er ekki hrædd við sorgina, hún er fyrir mér ást og söknuður til þeirra sem ég elska eins og dóttur minnar og föður. Ég hugsa um sorgina eins og gest sem kemur í heimsókn. Ég finn á líkama mínum þegar hún kemur því ég verð orkulaus, döpur og á erfitt með samskipti en ég tek á móti henni með væntumþykju og kærleika.
Til að lifa betur með sorginni hef ég leikið mér með ímyndunaraflið. Ég hef ákveðið að ýmislegt í náttúrunni eins og vindurinn og sólargeislar séu kossar og kveðja frá dóttur minni. Ég hef fundið sterkt fyrir því að þegar sólin skín á mig þá ímynda ég mér að elskuleg dóttir mín sé að faðma mig eins og ungbörn gera, alveg upp við hálsakotið og ég get fundið hlýjuna. Svona stundir láta mér líða vel, þetta er mín leið til að halda áfram með lífið.“

Fleiri áföll dundu yfir
Síðustu sex ár hafa verið fjölskyldunni ansi erfið en fleiri áföll hafa dunið yfir. Faðir Önnu greindist með MND sjúkdóminn daginn fyrir jarðarför Mörtu Marínar. Hann lést árið 2015.
Annað skelfilegt slys varð innan fjölskyldunnar er ungur maður lést 2016 og svo greindist móðir Önnu með mergæxli árið 2017 og hefur tíminn síðan þá verið henni ansi erfiður en hún er þó á uppleið. Önnur erfið áföll hafa komið upp sem einnig hafa tekið sinn toll.
„Við höfum verið ótrúlega heppin með stuðningsnet,“ segir Anna. „Við höfum fengið mikla aðstoð frá fjölskyldum okkar, vinum, nágrönnum og skólaumhverfinu. Það er verðmætt að fá svona hjálp þegar maður missir alla getu til að sinna sér og öðrum eins og þegar dóttir okkar lést, fyrir það erum við óendanleg þakklát.“

Naut þess að miðla góðum ráðum
„Ég skellti mér í sérfræðinám í hugrænni atferlismeðferð sem var tveggja ára nám með starfi. Ég var með mikið af fyrirlestrum fyrir ýmsa aldurshópa og um ýmis málefni. Ég naut mín í vinnunni við að miðla góðum ráðum um vellíðan fólks og fór því hægt og rólega að vinna meira við það, sem gaf mér mikið.
Ég starfa nú sem sálfræðingur og hóptímaþjálfari hjá Heilsuborg en svo hef ég einnig verið að taka að mér heilsuferðir til Ungverjalands. Þar fer ég með hóp kvenna í vikuferð á heilsuhótel þar sem fram fer dagleg dagskrá.“

Hægara sagt en gert að vera heima
Árið 2017 lenti Anna á vegg, eins og sagt er, en hún var hætt að geta gengið vegna verkja. Hún var búin að finna fyrir streitueinkennum í þó nokkurn tíma en hafði hunsað þau.
Veikindi hennar stafa af áfallastreitu og krónískum verkjum en í ljós komu útbunganir í mjóbaki og hálsliðum sem valda taugaverkjum í útlimum. Hún ákvað að minnka starfshlutfall sitt niður í 50% en það var hægara sagt en gert. Þá fór hugur hennar á fullt og hún átti erfitt með að vera heima og hvílast. Það tók hana hálft ár að venjast nýjum aðstæðum en til þess notaði hún ýmsar leiðir.

Nýr dagur ber með sér nýja von
„Þegar ég horfi til baka yfir ævina þótt ég sé ekki háöldruð þá sé ég að ég hef verið virkilega heppin í lífinu. Ég hef verið lánsöm með heilsu mína, fjölskylduna, engin alvarleg áföll eða sjúkdómar og fyrir það get ég verið þakklát. Að fá að mæta erfiðum áföllum svona seint á ævinni þegar maður er kominn með meiri þroska til að takast á við krefjandi verkefni er lán í sjálfu sér.
Ég er nú í fullu starfi við að hlúa að líkamlegri og andlegri heilsu minni ásamt því að sinna heimili og börnum. Sú uppbygging heldur að sjálfsögðu áfram út ævina. Í gegnum veikindi mín og við að minnka vinnuna hef ég einnig fengið tækifæri til að endurskoða gildi mín og lífsviðhorf. Ég hef alltaf átt auðvelt með að vera jákvæð og bjartsýn og það hjálpar til í svona ferli. Ég hef alltaf notað hreyfingu til að vinna með líðan mína en nú þarf ég að draga úr henni og auka uppbyggingu á andlegu hliðinni.
Ég er búin að sættast við stöðu mína því ég finn að bataferlið er að virka þótt það sé á hraða snigilsins. Ég hef lært það af foreldrum mínum að mæta því sem upp á kemur í lífinu sem verkefni sem þurfi að takast á við og það hjálpar mér að hugsa þannig. Móðir mín kenndi mér að taka einn dag í einu og gera sitt besta miðað við aðstæður. Nýr dagur ber svo með sér nýja von.
Það sem hefur líka hjálpað mikið í gegnum þessi erfiðu verkefni síðastliðin ár eru börnin okkar, þau hjálpa okkur að vera þakklát með hversdagslega hluti í gegnum barnslega gleði þeirra í einfaldleikanum. Við erum lánsöm með drengina okkar, þeir eru hjálpsamir, umhyggjusamir og hafa verið ótrúlega duglegir í gegnum þessi síðustu ár þótt mikið hafi verið á þá lagt.“

Ætlar að njóta jólanna
„Í fyrsta sinn í sex ár hlakka ég til jólanna. Áður en við misstum dóttur okkar átti ég svo auðvelt með að gleðjast yfir jólunum og öllu sem þeim fylgdi. En síðustu ár hafa jólin verið erfiður tími þar sem söknuðurinn hefur tekið yfir. En maður lærir að lifa með þessari erfiðu reynslu, sýna sér skilning og þetta tekur allt sinn tíma.
Mér þætti vænt um að fá að nota tækifærið og óska öllum Mosfellingum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.“

Mosfellingurinn 19. desember 2019
ruth@mosfellingur.is

Stofna styrktarsjóð í nafni Kötlu Rúnar sem lést 2007

rúna birna, kristjana og arna

Mæðgurnar Rúna Birna, Kristjana og Arna hafa stofnað styrktarsjóðinn Kraftur Kötlu.

Mæðgurnar og Mosfellingarnir Kristjana Arnardóttir, Arna Hagalínsdóttir og Rúna Birna Hagalínsdóttir hafa stofnað styrktarsjóðinn Kraftur Kötlu. Markmið sjóðsins er að styðja við börn í þróunarlöndum til uppeldis og menntunar.
„Hugmyndin að sjóðnum kviknaði fyrir nokkrum árum þegar okkur mæðgum langaði til að hefja einhvers konar styrktarstarfsemi í nafni Kötlu Rúnar, dóttur Rúnu, sem lést í janúar 2007.
Katla gaf okkur öllum ótrúlegan kraft, kraft til að standa saman, kraft til að miðla og hjálpa og æðri skilning á því að allir fá ekki sömu tækifærin,“ segir Arna en hugmyndin hefur verið í mótun í nokkur ár.

Öll börn hafi möguleika á menntun
Undir lok árs 2014, þegar Rúna var búsett ásamt fjölskyldu sinni í litlum bæ í suðurhluta Eþíópíu, bankaði upp á hjá þeim sárafátæk ung stúlka og óskaði eftir að fá að vinna hjá þeim. Rúna hafnaði stúlkunni og sagðist því miður ekki vera með neina vinnu en þessi áræðna stúlka lét ekki segjast og stóð fyrir utan hús fjölskyldunnar í tvo daga. Að lokum fór svo að Rúna og sótti hana og bauð henni starf við þrif.
„Stúlkan kunni ekkert til þrifa, enda alin upp og bjó sjálf í moldarkofa en hún lagði sig hins vegar alla fram við að læra tökin, mætti daglega til starfa og varð fljótt ómissandi partur af fjölskyldunni. Eftir því sem á leið tók ég eftir því að þegar stúlkan var að fara heim í lok dags laumaði hún alltaf ávöxtum og öðrum afgöngum í poka og tók með sér. Kom í ljós að hún var að taka sér mat til að fara með heim því að maðurinn hennar var mjög veikur. Þau áttu fjögurra ára gamlan dreng sem heitir Eybo.
Eftir þetta var hún alltaf send heim með mat í lok dags og var hvött til að hafa drenginn sinn með sér í vinnuna, enda nóg af börnum á heimilinu til að leika sér við. Til að gera langa sögu stutta þá varð þessi litla fallega fjölskylda ómissandi hluti af heimilislífinu. Okkur fannst ómögulegt að Eybo hefði ekki sömu tækifæri og okkar eigin börn til að sækja góðan skóla,“ segir Rúna.

Auðvelt að rétta hjálparhönd
Þarna kviknaði krafturinn og Rúna hafði samband heim til Íslands og bað nánastu fjölskyldumeðlimi um að taka höndum saman og stofna smá sjóð til að tryggja skólagöngu Eybo. Í fimm ár hefur Eybo núna sótt góðan skóla og fær þá menntun sem hann á skilið, ritföng og fatnað.
„Nú er svo komið að við viljum nýta þennan kraft og gefa fleiri börnum sömu tækifæri og Eybo hefur fengið. Kraftur Kötlu styrkir börn til skólagöngu sem búa hjá foreldrum sínum sem hafa ekki efni á að mennta þau.
Markmiðið er að veita þessum börnum aðgang að skólum í sínu landi til að þau menntist og eflist sem einstaklingar innan sinnar þjóðar. Við erum í góðu sambandi við aðra foreldra nú þegar sem bíða þess spenntir að börnin þeirra komist í góða skóla,“ segir Kristjana.

—-

Kraftur Kötlu þiggur frjáls framlög og sá sem vill gerast styrktaraðili velur sjálfur hversu mikið eða hversu oft viðkomandi styrkir börnin. Allir sem gerast styrktaraðilar fá reglulega upplýsingar um börnin, námsárangur þeirra og fjölskyldur. Hafa má samband við þær mæðgur með því að senda póst á kotlukraftur@gmail.com.

Hver er Mosfellingur ársins 2019?

mosfellingurársinshomepage

Val á Mosfellingi ársins 2019 stendur nú yfir. Lesendum gefst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykja verðugir að bera nafnbótina. Þetta er í fimmtánda sinn sem valið fer fram á vegum bæjarblaðsins Mosfellings. Íbúar eru hvattir til að taka virkan þátt og senda inn tilnefningar. Gjarnan má fylgja með stuttur rökstuðningur fyrir tilnefningunni og hvað viðkomandi hefur lagt til samfélagsins.

Áður hafa þessi hlotið nafnbótina: Sigsteinn Pálsson, Hjalti Úrsus Árnason, Jóhann Ingi Guðbergsson, Albert Rútsson, Embla­ Ágústsdóttir, Steindi Jr., Hanna Símonardóttir, Greta Salóme, Kaleo, Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir, Sigrún Þ. Geirsdóttir, Guðni Valur Guðnason, Jón Kalman Stefánsson og Óskar Vídalín Kristjánsson.

Útnefningin verður kunngjörð í fyrsta tölublaði ársins 2020, fimmtudaginn 9. janúar.

Samvinna

Heilsumolar_Gaua_19des

Ég er ekki pólitískur. Ég veit ekki hvort ég myndi passa inn í neinn flokk þar sem ég er annars vegar á þeirri skoðun að við sem einstaklingar berum mikla ábyrgð á okkur sjálfum og hins vegar á þeirri skoðun að við sem samfélag eigum að hlúa á þeim sem þurfa á því að halda.

Mér finnst þetta eigi að haldast í hendur. Ég vil sjá sterka og sjálfstæða einstaklinga hugsa um heildina, samfélagið. Hegða sér þannig að þeir séu fyrst og fremst að gera hluti sem gagnist öðrum. Ekki bara þeim sjálfum. Svona eins og Hanna Sím hugsar fyrst og fremst um fótboltann í Aftureldingu og kemur hlutum í framkvæmd sem gagnast félaginu og fjöldanum.

Á sama hátt vil ég að samfélagið gefi einstaklingnum frelsi til þess að blómstra og hvetji hann til dáða um leið og það passar upp á okkur öll, sérstaklega þá sem minna mega sín. Ef þessar forsendur eru til staðar eru okkur allar leiðir færar.

Opinn hugur og vitund um að við erum sterkari saman er annað sem mér finnst mikilvægt. Ég elska verkefni, sjálfboðaliða eða launuð, sem ganga út á að tengja fólk og samfélög saman. Búa til eitthvað stærra og sterkara saman en við gætum í sitt hvoru lagi.

Akkúrat núna, í þessari viku eru íþróttafélögin Afturelding og Liverpool F.C. saman í því verkefni að styrkja ungan Mosfelling sem þarf á stuðningi að halda. Félögin eru búin að vinna saman í 10 ár og þrátt fyrir að vera afar ólík í stærð og uppbyggingu þá ná þau vel saman – eða öllu heldur einstaklingarnir sem eiga í samskiptum fyrir hönd félaganna. Eitt af því sem ég er að vinna með núna er að tengja saman aðila í Mosfellsbæ sem vita lítið hver af öðrum, en gætu gert magnaða hluti saman.

Gleðileg jól!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 19. desember 2019

Þurfum stundum að finna upp hjólið

emil_mosfellingurinn

Emil Pétursson húsasmíðameistari hefur fengist við að smíða leikmyndir fyrir sviðsverk og kvikmyndir í þrjá áratugi.

Emil Pétursson og starfsfólk hans á Verkstæðinu ehf. sérhæfa sig í að hanna og smíða leikmyndir fyrir kvikmyndir, leikhús, auglýsingar, sjónvarpsþætti og söfn auk annarra viðburða. Þau taka einnig að sér að gera upp gömul hús, innrétta verslanir og veitingastaði og sjá um smíði á hinum ýmsu skúlptúrum.
Fyrirtækið var stofnað árið 2008 og er í 900 fermetra húsnæði að Völuteigi í Mosfellsbæ. Þar inni er járnsmiðja, trésmíðaverkstæði og málningaraðstaða enda eru verkefnin sem þau útfæra ansi margvísleg.

Emil er fæddur í Reykjavík 18. septem­ber 1968. Foreldrar hans eru þau Guðbjörg Emils­dóttir kennari og Pétur Karl Sigurbjörnsson rafmagnstæknifræðingur.
Emil á tvær systur, Kristínu f. 1971 og Maríu f. 1972.

Póstkortið barst ekki í tæka tíð
„Fyrstu þrjú æviár mín bjó ég á Egilsstöðum þaðan sem pabbi er ættaður en eftir það bjuggum við í Kópavoginum með tveggja og hálfs árs stoppi í Danmörku þar sem foreldrar mínir fóru í nám. Ég var átta ára þegar við fluttum út en foreldrar mínir fluttu á undan mér en ég átti svo að koma í flugi með afa og ömmu og móðursystur minni. Það var búið að senda þeim póstkort um hvenær væri von á okkur.
Þegar við lentum þá fóru þau með mig yfir í aðra flugvél sem átti að fljúga yfir til Billund en sjálf ætluðu þau áfram til Svíþjóðar. Ég var í fylgd flugfreyju og fékk þennan líka fína miða um hálsinn með nafninu mínu á.
Þegar við lentum í Billund þá kom enginn að sækja mig. Ég sat ofan á ferðatöskunni minni með bangsann í fanginu og horfði á fólkið sem var að reyna að hafa upp á foreldrum mínum. Það kom svo í ljós að póstkortið hafði ekki borist til þeirra í tæka tíð og þau höfðu ekki hugmynd um að ég væri á leiðinni en allt bjargaðist þetta nú,“ segir Emil og brosir.

Kristnihald undir jökli
Emil gekk í Digranesskóla og Víghólaskóla en fór síðan í Fjölbrautaskólann í Breiðholti að læra húsasmíði. Þaðan fór hann beint í Meistaraskólann í Hafnarfirði og var orðin húsasmíðameistari 22 ára gamall.
„Í FB kynnist ég góðum vini, Högna Fróðasyni frá Dalsgarði í Mosfellsdal, og hefur vinskapur okkar haldið alla tíð. Við unnum saman á okkar yngri árum, í garðyrkju, uppskipun á salti og við smíðar. Á þessum tíma kynnist ég mörgu fólki í Dalnum og urðu þau kynni m.a. til þess að ég fór að vinna í minni fyrstu bíómynd, Kristnihald undir jökli, fyrir Kvikmyndafélagið Umba sem var virkilega gaman að fá að taka þátt í.“

Smíðuðu leikmyndir fyrir Latabæ
Emil stofnaði ásamt vini sínum fyrirtækið Meistaraverk árið 1995. Þeir félagar voru í því að byggja hús og selja en enduðu oftast í einhverju listrænum verkefnum eins og fyrir bíómyndir og sjónvarpsþætti.
„Einn daginn árið 2001 hringdi Magnús Scheving í mig, hann var eitthvað að vesenast með einhvern sjónvarpsþátt sem hann vildi gera. Vantaði einn stól fyrir brúðu og einn vegg sem við gerðum fyrir hann en veggurinn varð síðan þungamiðjan í öllum þáttunum. Þannig hófst samstarf okkar við Latabæjarævintýrið og við smíðuðum leikmyndir fyrir Latabæ allt til ársins 2006 en þá skildu leiðir okkar félaganna en ég hélt áfram störfum þar til framleiðslu var hætt.“

Fluttu í Mosfellsdalinn
Emil kynntist eiginkonu sinni Ólafíu Bjarnadóttur fjármálastjóra árið 2005. Þau eiga tvær dætur, Emilíu Rán f. 2007 og Rakel Ylfu f. 2009. Fyrir átti Emil synina Pétur Axel f. 1995 og Úlf f. 1996 með fyrrverandi sambýliskonu sinni.
Árið 2006 fluttu Emil og Ólafía saman að Lækjarnesi í Mosfellsdal sem þá var lítill sumarbústaður. Þau fengu leyfi til að byggja hús á landinu og eru nú á lokametrunum við að klára það. Þau segjast ansi heimakær enda sé nóg að gera með hænur, svín, hesta, hunda og ketti.

Starfið er fjölbreytt og skemmtilegt
Þau hjónin stofnuðu fyrirtækið Verkstæðið ehf. árið 2008 og þar starfa þau bæði og eru með átta manns í vinnu.
„Við vorum fyrst til húsa í gömlu kartöflugeymslunum í Ártúnsbrekku en árið 2015 keyptum við húsnæði í Mosfellsbæ og gerum út þaðan í dag. Við erum orðin nokkuð tæknivædd, við notum laserskurðartæki, 3D skönnum hluti og gerum eftirmyndir með stórum tölvufræsara. Einnig notum við siliconefni til mótagerðar sem við flytjum inn sjálf.
Starfið er vissulega fjölbreytt og skemmtilegt,“ segir Emil „en það getur líka verið erfitt og streituvaldandi enda þurfum við oft að finna upp hjólið og höfum bara stuttan tímaramma til að leysa verkefnin.“

Settum bátinn á hvolf í höfninni
Undanfarin ár hafa mörg verkefna þeirra verið fyrir stórmyndir frá Hollywood og hafa verkefnin oft verið ansi snúin. Þau hafa verið að vinna við myndir eins og Interstellar, The Secret Life of Walter Mitty, Star Wars, Contraband og íslensku myndirnar Djúpið og Málmhaus.
Ég spyr Emil hvað sé eftirminnilegast af þeim verkefnum sem þau hafa tekið að sér?
„Ætli það sé ekki þegar við vorum að vinna í Djúpinu í kvikmynd Baltasars Kormáks. Við sáum um að taka 80 tonna eikarbát og setja hann á hvolf í höfninni í Helguvík. Þetta var mjög óvenjulegt því algengara er að reynt sé að snúa skipum í hina áttina en þetta var skemmtilegt verkefni.“

Ævintýri á Atlantshafi
Þegar Emil er ekki að smíða þá siglir hann um á skútum ásamt félögum sínum en hann hefur stundað kappsiglingar frá árinu 1990 og er margfaldur Íslandsmeistari. Þeir félagar hafa átt fjórar mismunandi skútur, 26, 38 og 42 feta en sigla núna um á 26 feta skútu sem ber nafnið Besta.
Emil hefur siglt þrisvar sinnum yfir Atlantshafið og veit ekkert skemmtilegra. Ég spyr hann hvort hann hafi komist í hann krappann? „Já, við fengum brot aftan á okkur að nóttu til sunnan við Írland. Ég heyrði eitthvað fyrir aftan bátinn og sá svo hvítan vegg hátt fyrir ofan hann. Ég stóð upp og reyndi að loka lúgunni en endaði í fanginu á Úlfi vini mínum og lá þar á meðan brotið gekk yfir. Maður getur alltaf átt von á einhverju í svona ferðum því það eru ekki alltaf jólin,“ segir Emil að lokum.

Mosfellingurinn 5. desember2019
ruth@mosfellingur.is

Veislubókin er þarfaþing veisluhaldarans

veislubókin

Mosfellingurinn Berglind Hreiðarsdóttir sem heldur úti vinsælu vefsíðunni Gotterí.is er að gefa út veglega veisluhandbók nú fyrir jólin. Berglind hefur tekið saman allt það helsta sem þarf að vita þegar haldnar eru veislur.
„Þessi bók er ómissandi handbók fyrir alla þá sem eru að fara að halda veislur. Ég skipti bókinni niður í sex mismundandi kafla, brúðkaup, útskrift, ferming, skírn/nafngjafarathöfn, barnaafmæli og fullorðinsafmæli,“ segir Berglind sem hefur lagt mikinn metnað í þessa fallegu bók.

Gagnlegir gátlistar
Berglind hefur í gegnum tíðina fengið óteljandi spurningar varðandi skipulag og framkvæmd á veislum og fannst tilvalið að setja það saman í eina bók.
„Þetta er miklu meira en bara uppskriftir, þetta er handbók sem leiðir þig í gegnum veisluhaldið frá A-Ö. Bókin er byggð þannig upp að það eru gátlistar fyrir hvern kafla um allt það sem þarf að huga að þegar halda skal veislu. Ég kem með hugmyndir að framsetningu, leiðbeiningar um útreikning á magni veitinga ásamt ýmsum góðum ráðum.
Gátlistarnir eru ýtarlegri, til dæmis er í brúðkaupskaflanum allt frá dagsetningu og veislustjóra að kostnaðaráætlun og margt fleira.“

Fallegar myndir
Bókin er fallega myndskreytt en Berglind tók allar myndirnar sjálf en hún fékk góða hjálp frá vini sínum varðandi myndvinnsluna.
„Þetta er búið að vera rosalega skemmtilegt ferli. Ég skrifaði bókina í sumar og hélt í raun allar þessar veislur sem ég set fram í bókinni hér á pallinum í Laxatungunni. Nágrannarnir fengu að njóta góðs af því og voru duglegir að koma og smakka og gefa góð ráð,“ segir Berglind hlæjandi og vonar að bókin eigi eftir að nýtast Mosfellingum og öðrum landsmönnum vel í veisluhöldum um ókomna tíð.

Gefa út fimm barnabækur fyrir jólin

bokautgafa2

Frænkurnar Ásrún Magnúsdóttir og Eva Rún Þorgeirsdóttir standa í ströngu um þessar mundir en þær skrifuðu báðar barnabækur fyrir þessi jól. Það er Bókabeitan sem gefur bækurnar út og þess má geta að þær eru allar Svansvottaðar. Frænkurnar, sem búsettar eru í Mosfellsbæ, hafa báðar gefið út barnabækur áður en segja það tilviljun að þær hafi báðar ratað inn á þennan vettvang. Blaðamaður Mosfellings, Anna Ólöf, hitti frænkurnar og fór yfir jólaútgáfuna.

Framhald af Korkusögum

Ásrún er að gefa út þrjá bækur en fyrir hefur hún gefið úr bókina Korkusögur. „Ég er sem sagt að gefa út Fleiri Korkusögur sem er sjálfstætt framhald af fyrri bókinni.
Hún fjallar um Korku sem er hress og uppátækjasöm ung stúlka sem framkvæmir það sem henni dettur í hug um leið og henni dettur það í hug. Korka er mikill dýravinur og lendir í ýmsum skemmtilegum ævintýrum ásamt ferfættum félögum,“ segir Ásrún.

Ef jólasveinarnir ættu hunda
„Hinar tvær bækurnar eru Ævintýri Munda Lunda og Hvuttasveinar. Hvuttasveinar eru ljúf ljóðabók þar sem ég ímyndaði mér hvernig hunda jólasveinarnir ættu ef þeir ættu hunda. Ég sótti innblásturinn í Jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum og líkt og sveinarnir þá koma hvuttarnir einn og einn til byggða og telja niður til jóla. Þetta eru Pissa-á-staur, Geltigaur og fleiri skemmtilegir hvuttar. Það er svo vinkona mín Iðunn Arna sem myndskreytir.“

Ævintýri Munda Lunda
„Ævintýri Munda Lunda er lauslega byggð á raunverulegum atburðum en ég var með blindan lunda í minni umsjá í eitt ár. Ég á líka tvo hunda og einn kött og í sögunni ímynda ég mér hvað dýrin gætu verið að gera á meðan ég var ekki heima. Hundarnir vingast við köttinn og kötturinn reynir að veiða lundann og úr verða skemmtilegar smásögur af þessum samskiptum þeirra.
Iðunn Arna sér einnig um myndskreytinguna á Ævintýrum Munda Lunda.

Mundi vinsæll á samfélagsmiðlum
„Mundi bjó hérna í Mosó í mjög góðu yfirlæti, það má eiginlega segja að hann hafi verið samfélagsstjarna en fólk út um allan heim fylgdist með honum. Hann var með yfir 10.000 fylgjendur á Instagram og Facebook.
Ég byrjaði að skrifa þessa bók stuttu áður en hann féll frá og fann fyrir miklum áhuga frá fylgjendum og ákvað þá að gefa bókina út bæði á íslensku og ensku,“ segir Ásrún.

Gefur út tvær ólíkar bækur

Eva Rún er að gefa út tvær ólíkar bækur, annars vegar Stúfur hættir að vera jólasveinn og hins vegar hugleiðslubókina Ró.
Eva Rún hefur áður gefið út jógabókina Auður og gamla tréð og spennusagnaseríu um Lukku og hugmyndavélina.
„Bókin Ró er byggð á reynslu minni af því að kenna börnum jóga, slökun og hugleiðslu. Í kennslunni langaði mig alltaf að kenna út frá svona bók en ég fann aldrei bókina sem ég var að leita að þannig að ég bjó hana bara til,“ segir Eva Rún hlæjandi.

Fjölskyldubókin Ró
„Við Bergrún Íris Sævarsdóttir teiknari unnum bókina Ró saman og köllum hana fjölskyldubók því að í henni eru einfaldar æfingar fyrir bæði krakka og fullorðna um öndun, slökun og hugleiðslu. Þetta er ekkert endilega bók sem lesin er frá a-ö heldur er þetta verkfæri sem nýtist á margan hátt.
Það er eðlilegt að upplifa allan skalann af tilfinningum í lífinu og lestur bókarinnar opnar einmitt á umræðu um tilfinningar og líðan.“

Fallegar vatnslitamyndir
„Bergrún Íris myndskreytir bókina með dásamlegum vatnslitamyndum. Við ákváðum að nota myndefni úr íslenskri náttúru og unnum mikið með samspil mynda og texta. Aftast í bókinni er svo pláss til að teikna og skrifa niður hugleiðingar og líðan. Bókin er einföld, falleg og að sjálfsögðu róandi.“

Bók skrifuð út frá hljómplötu
„Bókin um Stúf er síðan fjörug saga um Stúf sem fær nóg af því að vera jólasveinn. Jólin nálgast og miklar kröfur eru gerðar til hans. Hann ákveður að stinga af til borgarinnar ásamt jólakettinum og finna sér nýtt starf. Þar lendir hann í ýmsum ævintýrum.
Þessi bók er skrifuð út frá hljómplötunni Hurðaskellir og Stúfur staðnir að verki, sem Bjartmar Guðlaugsson og pabbi minn, Þorgeir Ástvaldsson, gerðu árið 1982. Bókin er skrifuð út frá textum á plötunni. Það má því finna fjölmargar tilvísanir í lagatexta í bókinni,“ segir Eva Rún að lokum.