lisaskolastjori

Ráðin skólastjóri Lágafellsskóla

lisaskolastjori

Lísa Greipsson hefur verið ráðin í starf skólastjóra Lágafellsskóla. Lísa er með B.Ed. gráðu í menntunarfræðum, kennsluréttindi í grunnskóla og lauk MBA námi frá Háskóla Íslands árið 2018. Lísa hóf sinn kennsluferil árið 1994 á Akranesi en hefur starfað nær samfellt við í Lágafellsskóla frá 2001. Síðustu þrjú árin hefur hún sinnt stöðu deildarstjóra við skólann. Auk kennslustarfa og stjórnunarstarfa í grunnskóla vann Lísa á skrifstofu Norðuráls. Lísa tekur við starfi skólastjóra Lágafellsskóla 1. ágúst.

ærslabelgur

Ærslabelgur á Stekkjarflöt og sleðabrekka í Ævintýragarð

ærslabelgur

Ærslabelgur mun rísa á Stekkjarflöt og búið verður til skíða- og brettaleiksvæði í Ævintýragarðinum í Ullarnesbrekkum í kjölfar íbúakosninga um verkefni í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó. Íbúar kusu einnig meðal annars að fá flokkunarruslafötur, merkja toppa bæjarfella og fjalla og bætta lýsingu á göngustígum.
Metþátttaka var í kosningum sem stóðu frá 17. til 28. maí eða 19,1% sem er mesta þátttaka sem hefur verið í sambærilegum kosningum á Íslandi.
Alls hlutu 11 hugmyndir brautargengi en 35 milljónum verður varið í framkvæmd verkefnanna. Framkvæmd þeirra hefst í sumar en lýkur haustið 2020.

Kosningaþáttaka aukist töluvert
Tæplega 1.800 manns tóku þátt í kosningunni sem er 19,1% Mosfellinga 15 ára og eldri. Um 61% þátttakenda voru konur, tæplega 39% karlar. Þegar reiknað er út hlutfall þátttakenda innan hvers aldursbils sem kaus kemur í ljós að þátttakendur á aldrinum 31−40 ára voru fjölmennastir eða 32%.
Síðast þegar kosið var í Okkar Mosó árið 2017 tóku 14% íbúa 16 ára og eldri þátt í kosningunum. Síðan hefur bæði fjölgað talsvert í bæjarfélaginu en einnig voru fleiri á kjörskrá í ár vegna lækkaðs kosningaaldurs. Þátttaka hefur því aukist talsvert.

11 hugmyndir kosnar til framkvæmda
1 – Ærslabelgur settur upp á Stekkjarflöt.
2 – Skíða- og brettaleiksvæði í Ævintýragarðinum í Ullarnesbrekkum
3 – Flokkunarruslafötur settar upp á þremur stöðum við göngustíga
4 – Merkingar á toppum bæjarfella og fjalla
5 – Betri lýsing á göngustíg milli Hulduhlíðar 30−32
6 – Miðbæjartorgið gert skemmtilegt með leiktækjum
7 – Ungbarnarólur fyrir yngstu börnin í Hagaland og Leirvogstungu
8 – Hvíldarbekkir og lýsing meðfram göngustígum við Varmá
9 – Kósý Kjarni – notalegri aðstaða til samvista
10 – Lýsing sett upp á malarstíg frá Álafosskvos að brú við Ásgarð
11 – Fræðsluskilti með sögu Álafossverksmiðjunar sett upp í Kvosinni

Blikastaðalandið mun brátt glæðast lífi.

Nýr atvinnukjarni mun rísa á 15 hektara svæði í landi Blikastaða

Blikastaðalandið mun brátt glæðast lífi.

Blikastaðalandið mun brátt glæðast lífi.

Haraldur Sverrison bæjarstjóri og Friðjón Sigurðarson frá Reitum handsala viljayfirlýsingu.

Haraldur Sverrison bæjarstjóri og Friðjón Sigurðarson frá Reitum handsala viljayfirlýsingu.

Reitir fasteignafélag hf. og Mosfellsbær undirrituðu þann 6. júní viljayfirlýsingu um skipulag og uppbyggingu atvinnusvæðis í landi Blikastaða í Mosfellsbæ.
Um er að ræða 15 hektara svæði sem afmarkast af Vesturlandsvegi, Korpúlfsstaðavegi og sveitarfélagamörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar.
Samkvæmt aðalskipulagi Mosfellsbæjar er landnotkun svæðisins skilgreind sem blönduð landnotkun fyrir léttan iðnað, verslanir og þjónustustarfsemi. Svæðið liggur að fyrirhugaðri íbúðabyggð í Blikastaðalandi og gert er ráð fyrir að Borgarlínan liggi í gegnum svæðið í framtíðinni.

Af svipaðri stærð og Skeifan
„Í landi Blikastaða mun á næstu árum rísa nýr atvinnukjarni fyrir allt höfuðborgarsvæðið,“ segir Friðjón Sigurðarson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Reita.
„Þar verður skipulagt og byggt með umhverfi og sjálfbærni að leiðarljósi. Um er að ræða stórt svæði, aðeins lítillega minna en t.d. Skeifan í Reykjavík með þeim fjölbreytileika sem þar er að finna. Atvinnukjarninn mun njóta góðs af nálægð við gróin íbúðahverfi en ekki síður vegna góðra tenginga við gatnakerfið og öflugar almenningssamgöngur seinna meir.
Atvinnukjarni á Blikastöðum opnar nýjan möguleika í húsnæðismálum fyrir framsýn fyrirtæki og stofnanir. Viljayfirlýsingin rammar inn þá vegferð sem nú er hafin og hlökkum við til samstarfsins við Mosfellsbæ,“ segir Friðjón.

100 þúsund fm af atvinnuhúsnæði
„Við vitum að svæðið hefur marga kosti fyrir fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Þau áform sem nú liggja fyrir falla vel að áherslum Mosfellsbæjar á sviði umhverfismála og atvinnukjarninn mun geta mætt þörfum ólíkra fyrirtækja.
Þegar svæðið verður að fullu uppbyggt má gera ráð fyrir að húsnæði fyrir atvinnustarfsemi hafi tvöfaldast í Mosfellsbæ en aðalskipulag gerir ráð fyrir að þarna geti risið allt að 100 þúsund fm af húsnæði fyrir þjónustu og verslun.
Þetta svæði er afskaplega vel í sveit sett og vel staðsett og verður án efa mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf í Mosfellsbæ sem og höfuðborgarsvæðið allt,“ segir Haraldur.

Deiliskipulagsvinnu ljúki 2020
Í kjölfar undirritunarinnar verða fyrstu skrefin að hefja vinnu við deiliskipulag svæðisins og er miðað við að þeirri vinnu ljúki um mitt ár 2020. Samhliða deiliskipulagsvinnu verður uppbyggingin útfærð nánar og tímasett. Væntingar standa til þess að framkvæmdir við gatnagerð gætu þannig hafist strax á næsta ári og byggingaframkvæmdir í ársbyrjun 2021.

annagretavarmarskoli

Anna Greta ráðin skóla­stjóri í Varmárskóla

annagretavarmarskoli

Anna Greta Ólafsdóttir hefur verið ráðin sem skólastjóri Varmárskóla tímabundið til eins árs. Anna Greta hefur kennaramenntun og leyfisbréf til kennslu á grunnskólastigi, hefur lokið meistaranámi á sviði stjórnunar og hefur þekkingu á áætlunargerð, fjármálstjórnun og stefnumótunarvinnu. Anna Greta hefur reynslu af stjórnun menntastofnana en hún hefur gegnt stöðu skólastjóra við tvo grunnskóla, starfað sem kennari og stýrt menningarviðburðum.

Anna Greta tekur við starfi skólastjóra yngri deildar Varmárskóla 1. ágúst nk. og mun gegna því starfi til 1. ágúst 2020. Þóranna Rósa skólastjóri Varmárskóla lætur af störfum í lok sumars og tekur við Rimaskóla.

gaui13juni

Betri orka á göngu

gaui13juni

Ég hef skrifað nokkra pistla í flugvélum. Hér er einn í viðbót. Er núna í flugvél á leiðinni frá Róm til London, þaðan fljúgum við eftir mjög stutt stopp heim til Íslands. Höfum verið á ferðalagi í fimm mánuði. Það verður gott að koma heim í íslenska sumarið. Ferðalagið hefur verið frábært en Ísland er líka frábært.

Ég rakst á viðtal við hinn norska Erling Kagge í flugblaði British Airways. Erling vinur minn – þekki hann reyndar ekki en sé fyrir mér að hitta á hann fyrr en síðar – er rithöfundur sem elskar að labba. Hann var að gefa út bókina, „Walking: One Step at a Time“ og samkvæmt viðtalinu talar hann í henni um allt það góða við að labba. Labba í vinnuna, í búðina, á Norðurpólinn og allt þar á milli. Hann talar um hvað tíminn líður öðruvísi þegar maður gengur, hvað maður meðtekur umhverfið miklu betur, hvað maður eykur sköpunargáfuna og skilning á lífinu með því að labba. Ganga er frábært mótvægi við hraðann í lífi okkar í dag, segir Erling.

Ég er á hans línu. Elska að labba. Er síðustu vikur og mánuði búinn að labba marga kílómetra á hverjum degi og finn sterkt hvað það gerir mér gott. Mér og mínum. Mér hefur nefnilega tekist að draga fjölskylduna með í labbið, svona oftast. Það er margt rætt á göngunni, orkan er öðruvísi en þegar maður ferðast á meiri hraða. Það er reyndar aðeins öfugsnúið að skrifa um hvað það er dásamlegt að ganga og fara þannig á rólegum hraða á milli staða þegar maður situr í flugvél sem færir mann á ofurhraða milli landa. En það er erfitt að labba frá Róm til Íslands, eiginlega ógerlegt, og ég tími hreinlega ekki að missa af íslenska sumrinu við að reyna það. Sjáumst hress á röltinu!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 13. júní 2019

Stephen og Edda skipuleggja hátíðina.

Metal-tónlistarhátíð í Hlégarði um helgina

Stephen og Edda skipuleggja hátíðina.

StephenLockhart og Gunnhildur Edda Guðmundsdóttir skipuleggja hátíðina.

Dagana 13.-15. júní fer fram metal-tónlistahátíðin Ascension MMXIX í Hlégarði í Mosfellsbæ. Á hátíðinni munu koma fram um 30 hljómsveitir, bæði erlendar og innlendar.
Það eru Mosfellingarnir Gunnhildur Edda Guðmundsdóttir og Stephen Lockhart sem standa fyrir viðburðinum. Þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin með þessu sniði en þau hafa þrisvar áður haldið sambærilega tónlistarhátíð undir nafninu Oration í Reykjavík við góðan orðstír.
Edda er menntaður hönnuður og hefur starfað mikið við verkefnastjórnun. Stephen starfar sem hjóðupptökumaður og rekur hljóðstúdíóið Studio Emissary í Mosfellsbæ.
„Upphafið að þessu tónleikahaldi má eiginlega rekja til þess að ég var að taka upp fyrir bæði erlendar og innlendar hljómsveitir og langaði að halda viðburð fyrir þær. Þetta var fjótt að vinda upp á sig og í ár koma um 30 hljómsveitir fram og við búumst við að það verði uppselt. Sérstaða okkar er að yfir 60% af tónlistargestum eru útlendingar,“ segir Stephen.

Hlégarður passar fullkomlega
„Við erum rosalega ánægð að halda tónlistahátíðina hér í Mosó. Hlégarður passar fullkomlega utan um viðburðinn. Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð bæði frá Mosfellsbæ og íbúum.
Við hlutum menningarstyrk frá Mosfellsbæ og það er okkar von að hátíðin setji skemmtilegan svip á bæinn. Það er mikið skipulag og utanumhald um viðburð sem þennan og til að mynda eru rútuferðir úr miðbænum alla dagana í tengslum við tónleikahaldið,“ segir Edda.

Miðasala í fullum gangi
Allar upplýsingar um tónlistarhátíðina má finna á heimasíðunni www.ascensionfestivaliceland.com og kaupa miða á tix.is.
„Það er enn hægt að fá miða en við hvetjum þá sem hafa áhuga að tryggja sér miða sem fyrst. Það verður ekki hægt að kaupa miða á einstaka tónleika, einungis er hægt að kaupa passa sem gildir alla dagana,“ segir Edda sem er spennt og þakklát.

—–

30 hljómsveitir komar fram:
• Above Aurora (PL/IS)
• Akhlys (US)
• Akrotheism (GR)
• Antaeus (FRA)
• Almyrkvi (IS)
• Aoratos (US)
• Auroch (CAN)
• BÖLZER (CH)
• Carpe Noctem (IS)
• Common Eider, King Eider (US)
• Drab Majesty (US)
• Gost (US)
• Jupiterian (BRA)
• Kaleikr (IS)
• Kælan Mikla (IS)
• King Dude (US)
• Misþyrming (IS)
• Mitochondrion (CAN)
• Naðra (IS)
• NYIÞ (IS)
• THE ORDER OF APOLLYON (FR)
• Rebirth of Nefast (IRL/IS)
• Sinmara (IS)
• SÓLSTAFIR (IS)
• Svartidauði (IS)
• Treha Sektori (FR)
• Tribulation (Official) (SE)
• Vástígr (AT/IS)
• Wolvennest (BE)
• Zhrine (IS)

stúka

Framkvæmdum við gervigrarsvöll lokið

stúka

Í ár spila bæði meistaraflokkur kvenna og karla Aftureldingar í Inkasso-deildinni í knattspyrnu og því reyndist nauðsynlegt að hefja endurbætur á aðstöðu fyrir áhorfendur við gervigrasvöllinn að Varmá.
Allir heimaleikir fara fram á þeim velli á yfirstandandi leiktímabili samkvæmt ósk knattspyrnudeildarinnar
Alfarið hefur verið unnið eftir þeim kröfum sem KSÍ setur í þessum efnum og gott samstarf hefur verið milli Mosfellsbæjar, Aftureldingar og KSÍ um þær breytingar sem farið var í enda þurfti að bregðast skjótt við.

Helstu framkvæmdir
– Útbúin hefur verið 300 sæta stúka á 6 pöllum við gervigrasvöllinn. Heildarlengd stúkunnar er 34 metrar og var hluti sætanna fluttur af Varmárvelli í hina nýju stúku.
– Núverandi varamannaskýli voru stækkuð með því að framlengja þau og bæta þannig við 4 sætum þannig að þau rúmi 14 manns eins og kröfur gera ráð fyrir.
– Nauðsynlegt reyndist einnig að stækka öryggissvæðið við völlinn, það þarf að vera 4 metrar en var eingöngu 2 metrar. Þeirri framkvæmd er nú lokið og er viðbótin lögð í sambærilegu efni sem er gervigras án innfyllingar.
– Þá var komið upp salernisaðstöðu fyrir áhorfendur sem búa við fötlun og var það leyst með leigu á fyrsta flokks salernisgámi meðan unnið er að framtíðarlausn.
– Í vor hefur einnig verið unnið að endurnýjun og stækkun búningsklefa í kjallara sundlaugarinnar sem breytir aðstöðu knattspyrnunnar til batnaðar.

Fjölnota knatthús í notkun í haust
„Afturelding hefur náð frábærum árangri í knattspyrnu á síðustu árum og Mosfellsbær leggur áherslu á að styðja vel við íþróttastarf og erum við auðvitað stolt af okkar afreksfólki.
Samstarf bæjarins og Aftureldingar er gott og það að komast í Inkasso-deildina kallaði á bætta aðstöðu. Þeim aðgerðum er nú lokið og það var einkar ánægjulegt að sjá nýju stúkuna fulla af áhorfendum á fyrsta heimaleiknum hjá körlunum.
Ég treysti því að Mosfellingar muni fjölmenna á leikina í sumar hjá bæði konunum og körlunum. Síðan verður fjölnota knatthúsið tekið í notkun í haust þannig að það er mikið að gerast í aðstöðumálum að Varmá um þessar mundir,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.

ómarviðurkenning

Ómar hlaut heiðursverðlaun foreldrafélags Varmárskóla

ómarviðurkenning

kór1Á 40 ára afmælishátíð skólakórs Varmárskóla veitti foreldrafélag Varmárskóla Guðmundi Ómari Óskarsyni kórstjóra og tónmenntakennara sérstök heiðursverðlaun fyrir ötult og óeigingjarnt starf við tónlistarkennslu og eflingu tónlistar í skólastarfinu.

Órjúfanlegur hluti af skólastarfinu
Guðmundur Ómar eða Ómar eins og flestir kalla hann hóf störf sem tónmenntarkennari við Varmárskóla árið 1979 og sama ár hófst reglubundið kórstarf sem hefur alla tíð síðan verið undir hans stjórn. Tónlist Ómars hefur verið órjúfanlegur hluti af skólastarfinu og hann komið að tónlistaruppeldi fjölda Mosfellinga.
Í gegnum árin hefur skólakórinn komið fram víða bæði innanlands og utan en tónleikarnir í Guðríðarkirkju voru síðustu opinberu tónleikar kórsins undir stjórn Ómars þar sem hann lætur nú af störfum eftir 40 ára farsælan feril. Síðasta verkefni Ómars verður að leiða kórinn í söngferð til Spánar í júní.

Farsæll og árangursríkur ferill
Inga Elín Kristinsdóttir leirlistarkona og einn af bæjarlistamönnum Mosfellsbæjar var fengin til samstarfs um hönnun á heiðursverðlaunum foreldrafélagsins sem veitt eru starfsmanni skólans sem á að baki langan, farsælan og árangursríkan starfsferil. Sigríður Ingólfsdóttir afhenti Ómari verðlaunin fyrir hönd foreldrafélagsins á afmælishátíð skólakórsins og henni til aðstoðar voru kórfélagarnir Valgerður Kristín Dagbjartsdóttir og María Qing Sigríðardóttir. Er þetta í fyrsta sinn sem heiðursverðlaun foreldrafélags Varmárskóla eru veitt og er Ómari óskað innilega til hamingju með heiðurinn.

KKÞ2

Úthlutað í annað sinn úr Samfélags­sjóði KKÞ

KKÞ2

Laugardaginn 18. maí fór fram önnur úthlutun úr samfélagssjóði KKÞ og var alls úthlutað tæpum 17 milljónum.
Sjóðurinn var stofnaður eftir félagsslit Kaupfélags Kjalarnesþings og er stofnfé sjóðsins 50 milljónir.
Hlutverk sjóðsins er að úthluta fjámunum til æskulýðs- og menningarmála, góðgerðar- og líknarmála og annarrar starfsemi til almenningsheilla á fyrrum félagssvæði KKÞ sem nær yfir Mosfellsbæ, Kjalarnes og Kjósarhrepp.
Alls bárust 27 umsóknir vegna annarrar auglýsingar samfélagssjóðsins. Stjórn sjóðsins hafði ákveðið og auglýst að sjónum yrði að þessu sinni sérstaklega beint að menningarmálum.
Af þessum 27 umsóknum hlutu 21 styrk en 6 bíða næstu auglýsingar eða féllu ekki að úthlutunarskilmálum.
Úthlutað var til níu kóra, tveggja leikfélaga, tveggja sögufélags og tveggja einstaklinga svo eitthvað sé nefnt.
Stórn sjóðsins nýtti sér frumkvæðisúthlutanir til tveggja aðila, þ.e. til barna- og unglingastarfs Golfklúbbs Mosfellsbæjar og til Björgunarsveitarinnar Kjalar á Kjalarnesi.

Kirkjukór Lágafellssóknar – 1.000.000 kr.
Karlakórinn Stefnir – 1.000.000 kr.
Vorboðar, kór eldri borgara – 1.000.000 kr.
Karlakór Kjalnesinga – 1.000.000 kr.
Kirkjukór Reynivallaprestakalls – 1.000.000 kr.
Skólakór Varmárskóla – 750.000 kr.
Álafosskórinn – 750.000 kr.
Mosfellskórinn – 750.000 kr
Kammerkór Mosfellsbæjar – 750.000 kr
Kvenfélag Mosfellsbæjar – 600.000 kr
Björgunarsveitin Kjölur – 750.000 kr
Stormsveitin – 750.000 kr
Leikfélag Mosfellssveitar – 1.000.000 kr.
Skógræktarfélag Mosfellsbæjar – 1.000.000 kr.
Miðnætti Leikhús – 600.000 kr
Golfklúbbur Mosfellsbæjar – 500.000 kr
Sigfús Tryggvi Blumenstein – 250.000 kr
Sögufélag Kjalarnesþings – 750.000 kr
Menningarfélög í Fólkvangi – 1.000.000 kr.
Sögufélagið Steini – 1.000.000 kr.
Karl Tómasson –  400.000 kr

ferdalangar

Alltaf dreymt um að kynnast ólíkum menningarheimum

ferdalangar

Mosfellingarnir Ása María Ásgeirsdóttir og Agnes Heiður Gunnarsdóttir eru komnar heim úr mikilli ævintýraferð. Þær deila hér með okkur ferðasögu af ævintýrum þeirra.

Fjórtán flugum, þremur næturlestum og óteljandi rútum síðar eru við reynslunni ríkari eftir þriggja mánaða ferðalag um heiminn.
Síðan við munum eftir okkur hefur okkur alltaf langað til þess að ferðast um heiminn, skoða mismunandi menningarheima og læra nýja hluti, svo við létum verða af því.
Við byrjuðum ferðina okkar í Dubai, skoðuðum allt það helsta þar og fórum í safaríferð sem er einn af uppáhaldsdögunum okkar úr ferðinni. Fórum í dagsferð til Abu Dhabi og sáum turnana úr Fast and the Furious og frægu moskuna (Sheikh Zayed Mosque).
Ferðinni var svo haldið til Maldíveyja þar sem við tókum köfunarréttindi niður í 18 metra í einum tærasta sjó í heimi, það var eitt það magnaðasta sem við höfum upplifað. Við sáum endalaust af fallegum og litríkum fiskum, m.a. hákarla, skjaldbökur og stingskötur (stingray).

Dagur í eyðimörkinni í Dubai.

Dagur í eyðimörkinni í Dubai.

Böðuðu fíla í Taílandi
Ferðinni var síðan heitið til Taílands þar sem við hittum hóp af fólki sem við ferðuðumst með ásamt leiðsögumanni í gegnum Taíland, Kambódíu, Víetnam og Laos í 30 daga. Þar kynntumst við frábæru fólki sem kom alls staðar að úr heiminum og erum við búnar að plana að hitta sum þeirra aftur fljótlega.
Við gerðum svo margt framandi og skemmtilegt með þessum hópi en það sem stendur mest upp úr var m.a. fjórhjólaferð um sveitir Kambódíu, hjólaferð um Hanoi sem er fallegasti bær Víetnam að okkar mati, bátsferð um Halong Bay, vatnshellaskoðun í uppblásnum kleinuhring í Laos og þegar við böðuðum fíla og gáfum þeim að borða í Taílandi.

Smökkuðu froska í Kambódíu
Kambódía var algjört menningarsjokk og það var mjög erfitt að horfa upp á alla þessa fátækt. Fólk borðar líka mikið af furðulegum hlutum eins og engisprettur, maura og froska sem við smökkuðum. Laos kom okkur mest á óvart, náttúran þar var svo ótrúlega falleg, hún einkennist af fjöllum, fossum og hreinum lónum.
Í Laos gistum við í litlu þorpi þar sem 50 fátækar fjölskyldur búa, sem var mögnuð upplifun. Við gistum á gólfinu hjá æðsta manninum í þorpinu og eyddum kvöldinu með fólkinu þar sem þau komu öll saman að horfa á eina sjónvarpið í þorpinu sem var svipað og lítill tölvuskjár. Fólkið þarna trúði því að ef það væru teknar myndir af því myndi sálin þeirra festast inni í myndunum þannig við þurftum að biðja um sérstakt leyfi ef við vildum taka myndir.
Eina „klósettið“, sem var meira eins og hola ofan í jörðina, var í 5 mínútna fjarlægð frá húsinu sem við gistum í svo við héldum í okkur þessa nótt. Við eyddum seinustu dögunum okkar með hópnum í Bangkok og héldum svo á taílensku eyjurnar.

Eyjan Phiphi stendur upp úr
Við heimsóttum þrjár eyjur í Taílandi, Phiphi, Koh Lanta og Phuket. Phiphi stendur klárlega upp úr af þessum eyjum, eftir að hafa verið í Víetnam og Taílandi þar sem umferðin er brjáluð var gott að komast á stað þar sem hvorki bílar né vespur voru leyfðar.
Við hittum vini okkar á Phiphi og fórum í bátsferð í kringum eyjuna, fórum á apaströnd, snorkluðum og nutum lífsins. Næst fórum við til Kuala Lumpur þar sem við vorum búnar að leigja okkur íbúð þar sem við gátum slakað á eftir öll hostelin.

Brimbrettanámskeið á Balí
Balí var æðislegt, allt var 100%. Við byrjuðum á brimbrettanámskeiði og komum sjálfum okkur mikið á óvart hvað við stóðum okkur vel í því. Við kynntumst ennþá fleira æðislegu fólki. Eftir viku á brimbretta­námskeiði leigðum við okkur íbúð og vespu í Ubud. Önnur okkar klessti vespuna sem beyglaðist ansi mikið. Fólkið sem leigði okkur vespuna var alls ekki sátt en við getum hlegið að því núna.
Einmitt þegar við vorum þarna var svokallaður „silence day“ þar sem allir á Bali þurfa að vera inni hjá sér og helst hugleiða. Við fengum lista yfir hvernig maður ætti að haga sér þennan dag og það stóð að það væri bannað að hafa gaman. Við munum 100% fara aftur til Bali.

Lært að veiða að víetnömskum sið.

Lært að veiða að víetnömskum sið.

Tekið á móti okkur með söng
Næst fórum við til Sydney, hittum vinkonur aftur og áttum æðislegan tíma þar. Vorum algjörir túristar og skoðuðum allt það týpíska eins og óperuhúsið, Bondi Beach og stóru brúna. Fórum á „hop on hop off“ rútu um borgina og sáum allt það helsta.
Ferðinni var svo haldið til Fiji sem er akkúrat hinum megin á hnettinum. Þar fórum við á eyjahopp sem var magnað, eyjurnar voru svo fallega grænar og sjórinn var svo tær að þetta var næstum óraunverulegt. Við fórum á fimm eyjur og það var tekið svo vel á móti okkur á hverri einustu eyju, fólkið söng og spilaði á hljóðfæri fyrir okkur þegar við mættum. Ein eyjan var ekki nema 150 metrar, það var öðruvísi upplifun.

Út fyrir þægindarammann
Lokaáfangastaðurinn okkar var Los Angeles, við gistum í Hollywood og það kom okkur mikið á óvart hvað það var mikið af heimilislausu fólki þar.
Annars voru Beverly Hills, Santa Monica og Hollywood Hills mjög flottir staðir. Fórum í rúnt til þess að skoða hús fræga fólksins sem okkur fannst mjög áhugavert. Fórum í Universal Studios, sáum m.a. bílinn úr Back to the Future, húsin úr Grinch og Hogwarts kastalann.
Ferðin var æðisleg í alla staði. Við fórum margoft langt út fyrir þægindarammann og mælum með svona ferð fyrir alla, sama á hvaða aldri þú ert.

Vilhjálmur Bjarnason ekki fjárfestir og fasteignasali hefur lengi barist fyrir bættum hag heimilanna í landinu

Það er margt sem þarf að breytast

Vilhjálmur Bjarnason ekki fjárfestir og fasteignasali hefur lengi barist fyrir bættum hag heimilanna í landinu

Vilhjálmur Bjarnason ekki fjárfestir og fasteignasali hefur lengi barist fyrir bættum hag heimilanna í landinu

Það eru fáir sem hafa staðið jafn lengi í baráttu fyrir heimilin í landinu og Vilhjálmur Bjarnason, ekki fjárfestir. Hann gekk til liðs við Hagsmunasamtök heimilanna eftir stofnun þeirra árið 2009 og hefur verið einn af forsvarsmönnum samtakanna síðan. Sú barátta sem hefur staðið þar hæst er að farið sé eftir lögum í landinu og að réttur neytenda sé virtur en á þá kröfu hefur ekki verið nægilega hlustað í 10 ár.

Vilhjálmur er fæddur á Egilsstöðum 13. september 1963. Foreldrar hans eru þau Anna Kristín Vilhjálmsdóttir húsmóðir og þúsundþjalakona og Bjarni Ágúst Garðarsson rafvirkjameistari.
Systkini Vilhjálms eru Garðar Jón f. 1962, Haraldur Rúnar f. 1966, Bjarni Sindri f. 1970, Sigfríð Margrét f. 1972 og Svanur Þór f. 1974.

Frjálsræðið stendur upp úr
„Ég er alinn upp á Reyðarfirði og það var frábært að alast þar upp. Í minningunni var oftast sól og blíða. Þegar maður hugsar til baka þá stendur frjálsræðið upp úr. Við krakkarnir lékum okkur úti frá morgni til kvölds og það var enginn sem hafði áhyggjur. Við fórum í alls konar leiki og svo var farið niður á bryggju að veiða.
Við stukkum einnig á milli í árgilinu og reglulega var stríð á milli innbæjar, miðbæjar og útbæjar með sverðum og öllu tilheyrandi.
Á sumrin hjólaði maður út um allt en svo kom að því að maður fékk sér mótorhjól. Á veturnar renndum við okkur á uppblásnum veghefilsslöngum niður fjallið fyrir ofan bæinn og svo var skautað á tjörninni.“

Fann fjölina í sölumennsku
„Ég gekk í grunnskóla Reyðarfjarðar og mér gekk vel í skóla. Uppáhaldskennarinn minn hét Lára Jónasdóttir og öllum í bekknum þótti vænt um hana. Mér fannst skemmtilegast í smíði og í sjóvinnunni en boðið var upp á pungaprófið svokallaða, þ.e.a.s. 30 tonna skipstjórnarréttindi. Við fórum þrír 14 ára guttar saman á sjóinn á Snæfuglinn frá Reyðarfirði og eftir sumarið áttum við nóg af peningum.
Eftir grunnskóla fór ég í nám í rafvirkjun á Norðfirði og á sumrin vann ég við brúargerð, sprengdi fyrir staurum hjá Rarik og svo var ég á vertíð í Grindavík. Ég vann svo við bílatengda hluti í nokkur ár eða þangað til ég fann fjölina í sölumennsku. Fyrst í heildsölu við að selja barnavörur og leikföng en undanfarin 27 ár hef ég starfað sem fasteignasali.“

Una sér vel í Leirvogstungunni
Eiginkona Vilhjálms er Anna Thelma Magnúsdóttir viðskiptafræðingur og flugfreyja. Börn þeirra eru samtals sex, Arna Íris f. 1987, Magnús Þór f. 1989, Jón Arnar f. 1994, Anna María f. 1994, Mikael f. 2007 og Sara Lillý f. 2008.
Fjölskyldan flutti í Mosfellsbæ árið 2015 og unir sér vel í Leirvogstungunni. „Hér er bara dásamlegt að vera, stutt að fara út í náttúruna og við erum dugleg að fara í göngutúra með hundinn,“ segir Villi eins og hann er oftast kallaður.

Ákvað að láta ekki mitt eftir liggja
Á milli þess sem Vilhjálmur selur fasteignir hjá VB Eignum berst hann fyrir bættum hag heimila í landinu. Hann hefur veitt fjölda fólks ráðgjöf og hjálp í gegnum tíðina og gerir enn.
Hann kýs að kalla sig „ekki fjárfesti“, til að aðgreina sig frá alnafna sínum sem lengi vel var formaður Félags fjárfesta en þeir nafnar eru ósammála um ansi margt.
„Lítum til baka, það vita allir hvernig þetta var hérna eftir hrun,“ segir Vilhjálmur alvarlegur á svip. „Almenningur missti eigur sínar á grundvelli ólöglegra lána og fólk vissi ekkert hvert það átti að snúa sér. Þessar fjölskyldur hafa enn ekki fengið réttindi sín viðurkennd og munu búa við afleiðingar þess lengi.
Í janúar 2009 tóku nokkrir aðilar sig til og stofnuðu Hagsmunasamtök heimilanna sem eru frjáls og óháð samtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu. Ég heyrði af þessum samtökum og hugsaði með mér að ég gæti ekki látið mitt eftir liggja. Ég hef nú verið stjórnarmaður þarna sl. 10 ár, þar af formaður í 5 ár og í dag er ég varaformaður.
Eitt helsta baráttumál samtakanna í dag er að gerð verði óháð rannsóknarskýrsla á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun og áhrifum þeirra og afleiðingum fyrir heimilin. Við viljum að farið sé að lögum í landinu og að réttur neytenda sé virtur.“

Framtíð þeirra er ein aðalástæðan
„Ein af aðalástæðum þess að ég hef unnið þessa miklu sjálfboðavinnu í öll þessi ár hjá HH er að við Thelma konan mín eigum sex börn á aldrinum 10 til 32 ára og 4 barnabörn. Framtíðin er þeirra og ég vil ekki láta bjóða þeim upp á verðtryggt lánaumhverfi eða að þau búi við þá lítilsvirðingu sem viðgengst við neytendur hér á landi innan stjórn-, dóms- og embættismannakerfisins.
Ég hef lofað þeim því að ég muni gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að verðtryggð neytendalán verði bönnuð á Íslandi.
Það er margt sem þarf að breytast og við höfum burði og getu til að breyta þessu ef vilji væri fyrir hendi hjá þeim sem ráða í þessu landi.
Við erum ein ríkasta þjóð í heimi og nánast það eina sem skilur okkur frá öðrum þjóðum er verðtrygging lána heimilanna. Með því að afnema hana gætu allir lifað hér góðu og mannsæmandi lífi,“ segir Vilhjálmur að lokum.

Mosfellingurinn 23. maí 2019
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

okkarmosopna1

Kosið milli 30 hugmynda í Okkar Mosó

okkarmosopna2

Nú er rafræn kosning hafin í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó 2019 þar sem íbúum Mosfellsbæjar gefst kostur á að kjósa um verkefni til framkvæmda. Um er að ræða forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ.
Alls bárust 113 fjölbreyttar tillögur að verkefnum í hugmyndasöfnuninni. Hugmyndirnar voru metnar af sérfræðingum á umhverfissviði Mosfellsbæjar og lagt var mat á kostnað við hönnun og framkvæmd.
Afrakstur þeirra vinnu var rökstudd tillaga um 30 hugmyndir sem eftir kynningu í bæjarráði eru komnar í kosningu meðal íbúa Mosfellsbæjar á slóðinni kosning2019.mos.is

15 ára og eldri geta kosið
Í ár geta ungmenni sem verða 15 ára á árinu haft sín áhrif en ákveðið var að færa aldursmörkin þangað. Það þýðir að verðandi 10. bekkingar geta komið sínu áliti á framfæri.
Um er að ræða íbúakosningu sem er framkvæmd á grundvelli ákvæða sveitarstjórnarlaga þannig að allir kjósendur þurfa að búa yfir rafrænu skilríki eða Íslykli til þess að geta greitt atkvæði.
Forráðamenn barna geta ekki fengið Íslykil barns sendan í eigin heimabanka en ef barnið er með heimabanka á eigin kennitölu er hægt að senda Íslykilinn þangað. Annars þarf að láta senda Íslykilinn á lögheimili barnsins. Sjá nánar á island.is/islykill

Tvöfalt vægi með hjarta
Mikilvægt er að vita að þegar kosið er þarf ekki að fullnýta fjármagnið. Með því að kjósa eitt eða fleiri verkefni gefur þú þeim atkvæði þitt. Kjósendur geta líka sett hjarta við eina af þeim hugmyndum sem þeir kjósa og þannig gefið þeirri hugmynd tvöfalt vægi, tvö atkvæði í stað eins.

Íbúakosningin er hafin
Íbúar í Mosfellsbæ eru hvattir til þess að taka þátt í að velja hugmyndir og að hvetja aðra til þess að kjósa á síðunni kosning2019.mos.is.
Nánari upplýsingar er að finna á mos.is/okkarmoso og í kápunni sem hylur Mosfelling að þessu sinni.
Það er kjörið að losa kápuna af blaðinu til þess að virða allar hugmyndir fyrir sér á einni opnu og jafnvel hengja á ísskápinn til að minna heimilismenn á að kjósa.

—–
Nánari upplýsingar um lýðræðis­verkefnið Okkar Mosó 2019 er að finna á mos.is/okkarmoso.
Smelltu hér til að komast beint á kosningasíðuna!

Frá undirritun: Þorsteinn Sigvaldason deildarstjóri eigna og veitna hjá Mosfellsbæ, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn og Tómas Gíslason frá Neyðarlínunni.

Myndavélar við helstu aðkomuleiðir

Frá undirritun: Þorsteinn Sigvaldason deildarstjóri eigna og veitna hjá Mosfellsbæ, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn og Tómas Gíslason frá Neyðarlínunni.

Frá undirritun: Þorsteinn Sigvaldason deildarstjóri eigna og veitna hjá Mosfellsbæ, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn og Tómas Gíslason frá Neyðarlínunni.

Undirritað hefur verið samkomulag milli Mosfellsbæjar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Neyðarlínunnar um kaup, uppsetningu og rekstur á öryggismyndavélakerfi í Mosfellsbæ.
Öryggismyndavélakerfið þjónar eingöngu þörfum lögreglu og annarra neyðaraðila og fer um notkun þess og aðgang að gögnum úr kerfinu samkvæmt reglum lögreglu og Persónuverndar.

Ólík hlutverk samningsaðila
Mosfellsbær kaupir öryggismyndavélar til uppsetningar í Mosfellsbæ, sér um uppsetningu þeirra og er eigandi þeirra. Mosfellsbær merkir vélarnar skilmerkilega með viðvörunum um rafræna vöktun til samræmis við lög um persónuvernd.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu útvegar búnað vegna móttöku á merkjum úr öryggismyndavélunum, upptökubúnað og annast vörslu á upptökum samkvæmt gildandi reglum og fyrirmælum Persónuverndar. Lögreglan annast vöktun á myndefninu og tekur ákvörðun um aðgang annarra neyðaraðila að myndefni í rauntíma. Þá tekur lögreglan að sér að taka á móti öllum beiðnum um aðgang að myndefni og beiðnum er varða réttindi hinna skráðu og afgreiða slíkar beiðnir í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þá ákveður lögreglan staðsetningu myndavélanna á hverjum stað í samráði við Mosfellsbæ og Neyðarlínuna.
Neyðalínan ber ábyrgð á öllum samskiptum og samningum við eigendur fasteigna vegna uppsetningar á myndavélum á svæðinu og eru samningar um slíka aðstöðu gerðir í nafni Neyðarlínunnar.

Aukið öryggi íbúa og gesta Mosfellinga
„Það er frábært að þessi samningur sé í höfn og ekki síðra að um hann ríki breið samstaða í bæjarstjórn,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. „Við hjá Mosfellsbæ höfum um nokkurt skeið unnið að undirbúningi þessa verkefnis m.a. í samvinnu við íbúasamtök í hverfum Mosfellsbæjar. Á sínum tíma fagnaði bæjarráð Mosfellsbæjar því sérstaklega að áform væru uppi um að koma fyrir fleiri öryggismyndavélum í Mosfellsbæ og að slíkt fyrirkomulag, í samráði við lögreglu, væri til þess fallið að auka öryggi.
Við munum auðvitað gæta persónuverndar í hvívetna en tilgangur þessa eftirlits er fyrst og fremst að auka öryggi íbúa og gesta Mosfellinga og búa yfir sem bestum upplýsingum um atburði á hverjum tíma,“ segir Haraldur.

Innbrot algengari og skipulagðari en áður
Að undanförnu hefur uppsetning á öryggismyndavélum við helstu aðkomuleiðir innan sveitarfélaga aukist. Er það bæði vegna þess að innbrot eru nú algengari og skipulagðari en áður en einnig vegna þess að nýr myndavélabúnaðar hefur leitt til þess að upplýsingar nýtast betur en áður vegna aukinna myndgæða svo nokkuð sé nefnt.
Mikilvægt var talið að leggja heildstætt mat á hvar væri rétt að staðsetja slíkar myndavélar í Mosfellsbæ og var ráðgjafarstofunni Lotu, sem sérhæfir sig í öryggismálum, falið að vinna tillögu að staðsetningu myndavéla í Mosfellsbæ. Á þeim grunni verður verkefninu áfangaskipt m.t.t. mikilvægis einstakra svæða.

Heilsumolar_Gaua_23mai

Mosó eða Cagliari?

Heilsumolar_Gaua_23mai

Eitt af því sem ég spái mikið í þegar ég ferðast er umhverfið. Hvernig umhverfi bæjar- eða sveitarfélagið sem ég er staddur í býður íbúum sínum upp á. Sum sveitarfélög eru þannig að mann langar lítið að koma þangað aftur. Önnur heilla mann strax. Núna er ég staddur í Cagliari á Sardiníu. Hér er margt til fyrirmyndar. Göngu- og hjólastígar eru víða og vel afmarkaðir. Það er mikið af almenningsgörðum, stórum og smáum. Við duttum niður á einn í gær, þar voru háværir og litskrúðugir páfuglar á vappi innan um gesti garðsins. Hér er mikið af íþróttamannvirkjum og borgin var kjörin Íþróttaborg Evrópu árið 2017.

Af öllum þeim stöðum sem við höfum sótt heim á ferðalaginu okkar höfum við hvergi séð eins marga íþróttasinnaða á götum úti. Fólk á öllum aldri. Bókstaflega. Það eru allir að hreyfa sig eða á leiðinni í hreyfingu. Fólk lítur vel út, ferskt að sjá og fáir í yfirvigt. Nánast engin börn eru hér of þung, ekki þau sem við höfum rekist á allavega. Það eina sem maður gæti kvartað yfir er aðgengið, gervigrasvellir eru til að mynda yfirleitt læstir og bara aðgengilegir þeim sem eru skráðir félagar hjá þeim sem reka viðkomandi völl. Þar stöndum við Mosfellingar mörgum skrefum framar, það er ómetanlegt fyrir okkar krakka og fullorðna að komast á gervigrasvellina okkar hvaða tíma dags sem er.

Þetta hangir saman, því betra umhverfi og aðstaða sem sveitarfélög bjóða íbúum upp á, því líklegra er fólk til þess að hreyfa sig. Það skilar sér þráðbeint til baka til sveitarfélagsins, heilsuhraustir og hamingjusamir íbúar skila meiru til samfélagsins og kosta minna en þeir sem hafa lent í köngulóarvef langvinna lífsstílsjúkdóma. Mosfellsbær stendur vel í samanburði við þau sveitarfélög sem við höfum verið að skoða, en að sjálfsögðu er svigrúm til bætinga á ýmsum sviðum.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 23. maí 2019

Höfundar bókarinnar: Jón Svanþórsson, Margrét Sveinbjörnsdóttir og Bjarki Bjarnason. Hundurinn heitir Kolur og fylgdi þremenningunum í fjölmörgum gönguferðum. Myndin er tekin við Helgufoss í Bringum, efst í Mosfellsdal. Þessi stæðilega varða til hliðar heitir Gluggavarða og stendur við Seljadalsleið á Mosfellsheiði.

Árbók FÍ fjallar um Mosfellsheiði

Höfundar bókarinnar: Jón Svanþórsson, Margrét Sveinbjörnsdóttir og Bjarki Bjarnason. Hundurinn heitir Kolur og fylgdi þremenningunum í fjölmörgum gönguferðum. Myndin er tekin við Helgufoss í Bringum, efst í Mosfellsdal. Þessi stæðilega varða til hliðar heitir Gluggavarða og stendur við Seljadalsleið á Mosfellsheiði.

Höfundar bókarinnar: Jón Svanþórsson, Margrét Sveinbjörnsdóttir og Bjarki Bjarnason. Hundurinn heitir Kolur og fylgdi þremenningunum í fjölmörgum gönguferðum. Myndin er tekin við Helgufoss í Bringum, efst í Mosfellsdal. Þessi stæðilega varða til hliðar heitir Gluggavarða og stendur við Seljadalsleið á Mosfellsheiði.

Hátt í öld hafa Árbækur Ferðafélags Íslands átt samleið með þjóðinni, sú nýjasta var að koma út og að þessu sinni er viðfangsefnið Mosfellsheiði – Landslag – leiðir og saga. Höfundarnir eru þrír: Bjarki Bjarnason, Margrét Sveinbjörnsdóttir og Jón Svanþórsson.
„Við höfum unnið að verkinu í nokkur ár, þetta hefur verið einstaklega ánægjulegt samstarf,“ segir Bjarki í viðtali við Mosfelling.
Hvernig skipulögðuð þið vinnu ykkar?
„Við gengum saman allar þær þjóðleiðir sem eru á heiðinni, þær eru hvorki fleiri né færri en um 20 talsins og flestar þeirra eru fornar. Sumar eru enn notaðar af hestafólki en margar eru ógreinilegar og voru jafnvel alveg týndar.
Á þessum göngum okkar huguðum við að öllu sem fyrir augu bar, hvort sem það tengdist jarðfræði, grasafræði, fuglum himinsins eða sögulegum fróðleik. Samhliða þessari grunnvinnu réðumst við í viðamikla heimildakönnun og skrif á árbókinni sem er prýdd fjölmörgum ljósmyndum og kortum.“
En hvernig tókst ykkur að finna allar þessar leiðir?
„Þær höfðu verið varðaðar í upphafi en áður við þremenningarnar hófum heiðargöngur okkar hafði Jón Svanþórsson gengið allar leiðirnar og hnitasett fjöldann allan af vörðum. Alls hafa fundist um 800 vörður á heiðinni og þar er um heilt samgöngukerfi að ræða. Í sumar kemur einnig út eftir okkur leiðabók um heiðina þar sem þjóðleiðunum verður lýst nákvæmlega. Sú bók mun bæði henta fólki sem ferðast á hestum, reiðhjólum og hestum postulanna.“
Koma þá út tvær bækur um Mosfellsheiði á þessu ári?
„Já, en árbókin er miklu stærri og viðameiri, þar er fjallað um allt sem viðkemur heiðinni, jafnt jarðfræði, dýralíf, raflínur, gömul sæluhús og fólk sem lenti þar í lífsháska.“
Eitthvað að lokum, Bjarki?
„Það er von okkar höfundanna að þessar bækur auki áhuga almennings á Mosfellsheiðinni. Hún er kjörin til útivistar og mikill sögulegur fróðleikur tengist henni. Okkur finnst heiðin vera falið leyndarmál á jaðri höfuðborgarsvæðisins og þess má geta að í tilefni af útgáfu árbókarinnar mun Ferðafélag Íslands skipuleggja þrjár gönguferðir um hana í sumar.“