Kári Sigurðsson gefur kost á sér í 4.-6. sæti

Kári Sigurðsson býður sig fram í 4.-6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ sem fram fer í janúar. Kári 30 ára gamall og uppalinn Mosfellingur frá blautu barnsbeini. Kári hefur starfað í félagsmiðstöðinni Bólinu og sem flokksstjóri og launafulltrúi í vinnuskóla Mosfellsbæjar á sínum yngri árum.

Unnusta Kára heitir Ásta Ólafsdóttir þjónustu og sölustjóri hjá Nova og eiga þau einn son. Kári starfar sem viðskiptastjóri. „Ég hef áhuga á því að nýta krafta mína til að styrkja innviði bæjarins hvort sem það eru skipulagsmál eða einföldun ferla.“

Undirbúningur Orkugarðs í Reykjahverfi hafinn

Veitur eiga lóð við Reyki, efst í Reykjahverfi.

Nýting á heitu vatni á Íslandi á sér sterka sögulega skírskotun til Reykjahverfis og þar er ennfremur upphaf nýtingar á heitu vatni á Íslandi en Stefán B. Jónsson bóndi á Reykjum leiddi fyrstur manna heitt vatn inn í íbúðarhús á Íslandi árið 1908.
Í því ljósi hafa vaknað hugmyndir um að reistur verði Orkugarður í Reykjahverfi á lóð í eigu Veitna ohf. Í viðræðum við Veitur hefur komið fram að mikill áhugi sé á hugmyndinni og hefur fyrirtækið lýst því yfir að það sé reiðubúið til þess að undirrita viljayfirlýsingu um verkefnið og setja fjármuni til uppbyggingar og frágangs árin 2023-2024.
Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur nú heimilað gerð viljayfirlýsingar milli Mosfellsbæjar og Veitna ohf. um Orkugarð í Reykjahverfi og falið skipulagsnefnd það verkefni að útfæra hugmyndina nánar og undirbúa deiliskipulag fyrir Orkugarð.

Þóra Björg býður sig fram í 5. sæti

Þóra Björg Ingimundardóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér í 5. sæti á lista í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem verður haldið 5. febrúar. Þóra Björg er viðskiptafræðingur og hefur sinnt ýmsum félagsstörfum innan stúdentafélaga bæði í menntaskóla og háskóla.

„Ég hef búið í Mosfellsbæ allt mitt líf og vil því leggja mitt af mörkum til að rækta þetta fallega og fjölbreytta bæjarfélag sem við búum í. Mosfellsbær fer ört stækkandi sem skapar nýjar áskoranir sem þarf að leysa ásamt nýjum tækifærum til að skara fram úr, hvort sem um er að ræða menntamál, menningarmál eða aðra málaflokka,“ segir Þóra.

Arna Hagalíns gefur kost á sér í 2. sæti

Arna Hagalíns býður sig fram í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Arna er með B.Ed frá Kennaraháskóla Íslands og MBA-gráðu með áherslu á mannauðsstjórnun frá háskólanum í Aberdeen í Skotlandi. Arna starfar sem rekstrar- og fjármálastjóri hjá E. Gunnarsson ehf. auk þess að þjálfa fólk í að auka eigið sjálfstraust hjá Dale Carnegie.

„Ég brenn fyrir mannlegu málunum, skóla-, íþrótta- og tómstundamálum. Er metnaðargjörn, jákvæð og lausnamiðuð og er þeirrar skoðunar að góður árangur sé afrakstur góðrar samvinnu. Á kjörtímabilinu hef ég starfað sem varabæjarfulltrúi, aðalmaður í fræðslunefnd, varamaður í menningar- og nýsköpunarnefnd og fulltrúi í Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis. „Ég veit að reynsla mín, þekking og menntun getur komið að gagni og óska ég eftir stuðningi til að halda áfram að efla og styrkja okkar framsækna samfélag.“

Hjörtur býður sig fram í 4. sæti

Hjörtur Örn Arnarson gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðismanna sem fer fram 5. febrúar 2022. Hjörtur er landfræðingur frá Háskóla Íslands og með framhaldsmenntun í kortagerð og landmælingum frá Danmörku. Hann er giftur Klöru Gísladóttur kennara í Helgafellsskóla og eiga þau saman 3 börn. Hjörtur hefur starfað í verkfræðigeiranum í hátt í 20 ár og komið að skipulagsmálum, landmælingum og kortagerð. Hjörtur hefur tekið þátt í starfi Aftureldingar í gegnum tíðina, bæði sem þjálfari og sjálfboðaliði.

„Ég býð fram krafta mína í bæjarpóli­tíkinni í Mosfellsbæ og óska eftir stuðningi í 4. sætið. Ég hlakka til að takast á við spennandi verkefni í þágu bæjarbúa í þeirri miklu uppbyggingu sem fram undan er í sveitarfélaginu.“

Markmið morgundagsins

Ég er að vinna með öflugu teymi þessa dagana. Verkefninu sem við erum að vinna að núna miðar vel áfram og það er mjög líklegt að við komumst mun lengra með það en gert var ráð fyrir í upphafi þess. Ein af ástæðum þess er að markmiðin eru skýr. Bæði aðalmarkmiðið og sömuleiðis markmið hvers dags. Þegar vinnudagurinn er að klárast tökum við stuttan fund, förum yfir hvað við fórum langt með markmið þess dags og setjum okkur markmið fyrir morgundaginn miðað við stöðuna í dag. Tökum svo vinnurispu, klárum daginn og höldum brattir heim – sérstaklega þegar við höfum komist lengra með verkefnið en við áttum von á.

Þetta vinnulag hentar mér mjög vel. Og það er einfalt að yfirfæra það yfir á lífið sjálft. Þú setur þér markmið og vinnur að því alla daga. Gerir eitthvað sem færir þig nær markmiði þínu á hverjum degi, sama hversu stórt eða smátt það er. Tekur stöðuna í lok dags, ákveður hvað þú getur gert á morgun til að komast nær stóra markmiðinu og framkvæmir það svo.

Stóra markmiðið getur verið hvað sem er, en það þarf að vera eitthvað sem þér finnst spennandi og þannig að þér finnist á þeim tímapunkti sem þú setur þér markmiðið að það sé alls ekkert mjög líklegt að þú náir því. Þannig verður markmiðið spennandi og hvetjandi. Og með því að vinna að því á hverjum degi, færist þú nær.

Það að setja markmið fyrir morgundaginn heldur manni á tánum og í fókus. Allt verður skýrara og það er miklu skemmtilegra að vinna á þennan hátt heldur en að mæta bara í vinnuna og sinna fyrirliggjandi verkefnum. Sama hver vinnan og verkefnin eru.

Talandi um skemmtileg markmið. Hið árlega utanvegarþrautahlaup, KB þrautin, verður haldin laugardaginn 21. maí 2022. Þið lásuð það fyrst hér!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. desember 2021

Kolbrún býður sig fram í 1. sæti

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir bæjarfulltrúi, varaformaður bæjarráðs og formaður fræðslunefndar býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðis­flokksins. Hún hefur setið í bæjarstjórn frá árinu 2014 og var áður fyrsti varabæjarfulltrúi 2010–2014. Auk þess hefur Kolbrún setið í stjórn skíðasvæðanna og situr nú fyrir hönd Mosfellsbæjar í stjórn Sorpu byggðasamlags. Kolbrún var formaður fjölskyldunefndar frá 2010–2016. Kolbrún er kennari og lýðheilsufræðingur að mennt og stundar nú nám í stjórnun menntastofnana við Háskóla Íslands.

„Ég hef búið í Mosfellsbæ með hléum í 45 ár og á þrjá syni. Mitt hjarta slær í Mosó og brenn ég fyrir þeim verkefnum sem ég tek að mér.
Ég hef mikla löngun til að vinna með góðu og jákvæðu fólki að málefnum Mosfellinga,“ segir Kolbrún.

Héraðsskjalasafnið fagnar 20 ára afmæli

Birna Sigurðardóttir héraðsskjalavörður og Sólveig Magnúsdóttir fyrsti héraðsskjalavörður Mosfellsbæjar við hluta af sýningu sem sett var upp í Kjarna í tilefni afmælis safnsins. Mynd/Magnús Guðmundsson

Blásið var til afmælisfagnaðar Héraðsskjalasafns Mosfellsbæjar í Kjarna hinn 22. október. Þess var minnst að Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar var stofnað hinn 24. október 2001 þegar Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður kom og veitti heimild til stofnunar þess.
Áður hafði Sögufélag Kjalarnesþings hvatt bæjarstjórn Mosfellsbæjar til að koma á legg héraðsskjalasafni. Af þessu tilefni voru fluttar ræður og saga safnsins rakin. Að loknu erindi Birnu Sigurðardóttur héraðsskjalavarðar og ávarpi Sólveigar Magnúsdóttur fyrsta héraðsskjalavarðarins sagði Bjarki Bjarnason forseti bæjarstjórnar frá því hvernig safnið hafi komið að miklum notum þegar ákveðið var að skrifa sögu Mosfellsbæjar, en hún kom út árið 2005.
Auk þess sem safnið varðveitir eldri og yngri skjöl bæjarfélagsins gegnir það mikilvægu hlutverki við söfnun og geymslu skjala frá félögum, fyrirtækjum og einstaklingum. Slíkar heimildir komu einnig að miklu gagni þegar aldarsaga Aftureldingar var skráð árið 2009.
Upplýsingaskilti sem sjá má víða í bæjarfélaginu eru prýdd ljósmyndum sem héraðsskjalasafnið átti þátt í að safna. Hrafn Sveinbjarnarson héraðsskjalavörður í Kópavogi flutti heillaóskir og tíundaði lýðræðislegt hlutverk safnsins. Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður færði safninu bókargjöf. Kristbjörn Egilsson líffræðingur færði héraðsskjalasafninu frumheimildir um býlið Meltún sem hann notaði við samningu bókar um býlið og ábúendur þess, en hann var í sveit í Meltúni sem unglingur.
Þjóðfræðingarnir Ólafur Ingibergsson og Valgerður Óskarsdóttir unnu með Birnu Sigurðardóttur héraðsskjalaverði að uppsetningu á sýningu á torginu í Kjarna og í anddyri turnsins í Kjarna. Þar má sjá gamlar ljósmyndir og upplýsingar um mannvirki sem sett hafa svip á Mosfellssveitina síðustu áratugi. Héraðsskjalasafnið er til húsa í Kjarna.

KALEO styður við stelpurnar

Mosfellska hljómsveitin KALEO hefur komist að samkomulagi við Aftureldingu um að styðja myndarlega við meistaraflokk kvenna í knattspyrnu. Áður hefur hljómsveitin stutt við strákana með sögulegum samningi og nú bætist í hópinn. Gengið var frá samningi á fjölmennu styrktarkvöldi á dögunum sem fram fór í Félagsgarði í Kjós. Meðlimir KALEO voru þar heiðursgestir en hljómsveitin undirbýr nú tónleikaferðina Fight or Flight sem hefst strax í byrjun janúar á næsta ári.
KALEO-treyjur Aftureldingar hafa vakið verðskuldaða athygli að undanförnu og eru nú fáanlegar á www.afturelding.is.

Börn vilja reglur og mörk

Það er óhætt að segja að Gróa Karlsdóttir þekki ungviðið í Mosfellsbænum betur en margur annar enda hefur hún starfað lengi sem skólaliði eða í 25 ár.
Gróa aðstoðar nemendur í leik og starfi og leiðbeinir þeim í umgengni og samskiptum þeirra við aðra nemendur og starfsmenn skólans. Hún segir starfið fjölbreytt og gefandi og það sé mikið ríkidæmi að fá tækifæri til að starfa með unglingum, sjá þau vaxa og dafna og takast á við lífið.

Gróa fæddist að Hálsi í Kjós 22. nóvember 1959. Foreldrar hennar eru þau Hulda Sigurjónsdóttir og Karl Andrésson, þau eru bæði látin.
Systkini Gróu eru Gestur Ólafur f. 1948, Sigurjón f. 1950, Ragnar f. 1953 d. 2000, Andrés f. 1961, Sólveig f. 1965 og Ævar f. 1971.

Oft líflegt á bæjarhlaðinu
„Ár bernskunnar í Kjósinni voru góð. Á Hálsi bjuggu pabbi og bræður hans tveir með fjölskyldum sínum, krakkaskarinn var því stór og oft líflegt á bæjarhlaðinu.
Ég flutti 7 ára að Eyrarkoti þar sem foreldrar mínir tóku við þjónustu Pósts og síma. Það var ávallt mannmargt í eldhúsinu í Eyrarkoti, mikill gestagangur. Í minningunni var allan daginn verið að elda, baka og vaska upp.
Ég var ekki gömul þegar ég fór að aðstoða þar við hin ýmsu verkefni. Eitt sinn var ég ein heima á meðan mamma og pabbi skruppu í bæinn, þá var pantaður matur fyrir tvo veghefilsstjóra en mamma sá um mat fyrir Vegagerðina og fleiri fyrirtæki þegar á þurfti að halda. Ég var ekkert að malda í móinn, náði í kjötbollur í frystinn og reddaði hádegismatnum.“

Skólastýran bað með okkur bænirnar
„Í Eyrarkoti var fjaran spennandi leikvöllur og sauðburðurinn skemmtilegasti tíminn. Eitt vorið var pabbi á sjúkrahúsi, ég og Addi bróðir vorum að reyna að bjarga okkur og þurftum að sækja kind með lömb niður á tún, hún var ansi stygg þannig að við tókum með okkur hlera sem við höfðum fyrir framan okkur svo hún myndi ekki stanga okkur og heim fór hún.
Ég var í barnaskólanum Ásgarði frá 7-12 ára og var í heimavist öll árin en í skólanum voru um 40 nemendur. Það var oft erfitt fyrir lítil hjörtu en starfsfólkið hugsaði vel um okkur og ég man að skólastýran kom alltaf á kvöldin og bað með okkur bænirnar.
Eftir skólatíma tóku við leikir bernskunnar sem sjaldan sjást núna. Fallin spýta, stórfiskaleikur, yfir, parís og teygjutvist. Þegar Laxáin var ísilögð skelltum við okkur á skauta. Endalaus ævintýri milli fjalls og fjöru.“

Frábær vetur að Varmalandi
„Í 7. og 8. bekk var ég í Álftamýrarskóla og bjó þá hjá Gesti bróður, þar aðstoðaði ég við að passa frændur mína. Síðan lá leiðin í Gaggó Mos og ég útskrifast þaðan 1976. Þar eignaðist ég mína bestu vinkonu, Helgu Guðjónsdóttur, það líður varla sá dagur að við heyrumst ekki eða hittumst yfir góðum kaffibolla.
Eftir grunnskóla lá leiðin í Húsmæðraskólann að Varmalandi og var það frábær vetur. Þar eignaðist ég margar góðar vinkonur og höfum við verið saman í saumaklúbbi síðan.“

Skelltu sér í heimsókn til Kína
Gróa er gift Lárusi E. Eiríkssyni rafverktaka en þau fluttu í Mosfellsbæ 1982. Börn þeirra eru Ólafía f. 1979, Karl Már f. 1982, Eiríkur f. 1983 og Magnús f. 1987.
„Ömmugullin mín eru orðin fimm, Ísmey, Leópold, Bjartur, Tómas, Már og Muni. Þau eiga stóran part í mínu hjarta og ég veit ekkert betra en að hafa þau hjá okkur. Við erum svo heppin að öll börnin okkar eru búsett í Mosfellsbæ,“ segir Gróa og brosir.
Gróa nýtur þess að eiga góðar samverustundir með fjölskyldu og vinum á ferðalagi um landið eða í sumarbústaðnum í Kjósinni og hún segir handavinnu líka notalegt áhugamál. Eftirminnilegasta ferð þeirra hjóna á erlendri grundu er heimsókn þeirra til vinahjóna í Shanghai í Kína. Þar skoðuðu þau meðal annars hinn sögufræga borgarmúr í Peking og hinn stórkostlega Terrakottaher í Xiam.
Gróa er líka í skemmilegum hópi kvenna sem nefnist Vatnadísirnar, þær stunda vatnsleikfimi tvisvar í viku undir stjórn Sigrúnar Másdóttur. Hún segist endurnærð á sál og líkama eftir hvern tíma.

Skólinn fékk nýtt nafn í haust
Fyrstu árin í Mosfellsbæ var Gróa heimavinnandi húsmóðir og dagmamma, hún segir að það hafi verið dásamlegt að hafa haft tækifæri til að vera heima með börnin fyrstu árin. Þá voru nokkrar nágrannakonur hennar einnig heima og úr varð náinn vinahópur sem heldur saman enn í dag.
Gróa hóf störf í eldri deild Varmárskóla árið 1994 en frá árinu 1996 hefur hún starfað samfellt sem skólaliði eða í 25 ár. „Í eldri deildinni eru 4 bekkjardeildir, 7.– 10. bekkur. Skólinn fékk nýtt nafn í haust og heitir nú Kvíslarskóli en yngri deildin hélt Varmárskólanafninu. Ég hef unnið þarna í gegnum tíðina með frábæru samstarfsfólki sem heldur hópinn í leik og starfi.“

Hafragrauturinn er vinsæll
Ég spyr Gróu í hverju starf hennar felist. „Starf mitt er mjög fjölbreytt, ég mæti fyrst á morgnana og helli upp á kaffi fyrir samstarfsfólkið. Síðan tek ég á móti börnunum ásamt stuðningsfulltrúum sem sjá um gæsluna með mér. Við aðstoðum einnig í matsalnum og hafragrauturinn er afar vinsæll get ég sagt þér. Það er frábært að allir hafi aðgang að góðum mat því þá líður öllum betur.
Ég sé líka um gæslu og eftirlit á göngum skólans og hef auga með nemendum sem lenda í eyðu. Ég veiti fyrstu hjálp ef slys eða óhöpp ber að höndum, sé um allan þvott og er kennurum innan handar og svo er margt fleira sem fellur til, hér er alltaf nóg að gera,“ segir Gróa og brosir.

Það þarf oft að líma plástra á sálir
„Ríkidæmið í þessu öllu saman er að fá tækifæri til að starfa með dýrmætu unglingunum okkar, fylgjast með þeim vaxa og dafna og takast á við lífið.
Börn vilja reglur og mörk en fyrst og fremst ást og umhyggju. Það þarf oft að líma plástra á sálir og sár og sárast af öllu er þegar einhver villist af leið og fetar ranga braut. Það þarf nefnilega heilt þorp til að ala upp börn, það er nú bara þannig,“ segir Gróa að lokum er við kveðjumst.

Gert ráð fyrir rekstrarafgangi 2022

Horft í átt að Helgafelli.

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2022 ber merki aukinna efnahagslegra umsvifa eftir það högg sem heimsfaraldur kórónuveirunnar er og þeirrar viðspyrnu sem Mosfellsbær hefur náð, segir í tilkynningu frá Mosfellsbæ.
Á næsta ári verður unnið að hönnun og framkvæmd nýs leikskóla í Helgafellshverfi, byggingu nýs íþróttahúss í Helgafellsskóla og nýrrar þjónustubyggingar við íþróttamiðstöðina að Varmá.
Þá verður að nýju hægt að halda viðburði í endurnýjuðum Hlégarði en húsið verður tilbúið í byrjun nýs árs. Árið 2022 verður fyrsta heila starfsár Úlfsins frístundaklúbbs fyrir fötluð börn og ungmenni, en áætlað er að starfsemin eigi sér stað allt árið um kring með heilsdagsplássum þegar um skólafrí er að ræða. Nú er þessi mikilvæga þjónusta komin heim en áður var þjónustan veitt utan sveitarfélagsins með tilheyrandi akstri.

Lækkun leikskólagjalda um 5%
Samkomutakmarkanir síðustu mánaða hafa skapað aðstæður hjá sveitarfélögum til þess að stuðla að aukinni notkun rafrænna leiða í þjónustu og Mosfellsbær mun nýta þau tækifæri í samvinnu við íbúa. Í heild verður framkvæmt fyrir um þrjá milljarða til að byggja upp innviði og efla samfélagið. Íbúar eru nú rúmlega 13.000 og mun fjölga um allt að 3,5% á næsta ári.
Í upphafi faraldursins var mörkuð sú stefna að tryggja óbreytta eða aukna þjónustu og byggja upp innviði án þess að ganga of langt í lántöku. Því er áformað að bæjarsjóður verði rekinn með 171 m.kr. afgangi á næsta ári og á sama tíma lækka bæði leikskólagjöld og álagningarprósentur fasteignagjalda. Lækkun leikskólagjalda nemur um 5% á árinu 2022.
Nú stendur yfir vinna við endurskoðun á skólastefnu Mosfellsbæjar sem við munum sjá í byrjun næsta árs. Þá er unnið að því að endurskoða aðalskipulag Mosfellsbæjar og mun þeirri vinnu ljúka fyrir lok yfirstandandi kjörtímabils. Loks er unnið að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með þátttöku í verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Loks er lýðheilsu- og forvarnastefna í samþykktarferli.

Markmiðið var að ná viðspyrnu
„Markmið okkar í Mosfellsbæ við upphaf heimsfaraldursins var að ná viðspyrnu og verja þjónustu við íbúa,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Fjárhagsáætlunin ber þess skýr merki að þeim markmiðum er náð sem endurspeglar sterka stöðu sveitarfélagsins til að mæta tímabundnum fjárhagslegum áföllum.
Í fjárhagsáætlun ársins 2022 er gert ráð fyrir um 171 m.kr. afgangi af rekstri sveitarfélagsins. Þessi árangur næst ekki fyrir tilviljun heldur vegna þess að starfsfólki undir forystu bæjarstjórnar hefur tekist að laga rekstur sveitarfélagsins að breyttu fjárhagslegu umhverfi án þess að skerða þjónustu og jafnframt hefur verið bætt í þjónustuna í nokkrum tilfellum.
Vegna þessa árangurs getum við farið í frekari uppbyggingu m.a. á sviði fræðslumála og íþróttamála eins og fjárhagsáætlunin ber með sér þegar kemur að hönnun og byggingu nýs leikskóla í Helgafellshverfi, byggingu íþróttahúss við Helgafellsskóla og nýrrar þjónustubyggingar við íþróttamiðstöðina að Varmá,“ segir Haraldur.

 


HELSTU ÁHERSLUR:

  • Að afgangur verði af rekstri bæjarins þrátt fyrir að tekjur hafi lækkað vegna kórónuveirufaraldursins.
  • Að álagningarhlutföll fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði og atvinnurekstur lækki.
  • Að nýjum lóðum í Helgafellshverfi og á miðbæjarsvæði verði úthlutað fyrir fjölbreyttar íbúðargerðir.
  • Að gjaldskrár breytist í samræmi við breytingar á verðlagi og hækki því ekki að raungildi. Leikskólagjöld lækki um 5%.
  • Að hafin verði bygging nýs leikskóla í Helgafellshverfi og íþróttahúss við Helgafellsskóla.
  • Að hafin verði bygging þjónustubyggingar við íþróttamiðstöðina að Varmá.
  • Að dagvistunargjöld allra barna frá 12 mánaða aldri verði þau sömu óháð vistunarformi.
  • Að skuldir sem hlutfall af tekjum muni lækka og skuldaviðmiðið verður 100,8% af tekjum í árslok.
  • Að félagslegum íbúðum fjölgi.
  • Að hafnar verði framkvæmdir við stækkun hjúkrunarheimilisins Hamra.

Ljós í nýjum jólagarði tendruð

„Jólaskreyttur garður á Hlégarðstúni þar sem fólk gerir sér ferð til að heimsækja staðinn og eiga góðar stundir.“
Þannig hljómaði ein af þeim hugmyndum sem kosnar voru til framkvæmdar í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó á árinu 2021.

Frábær hugmynd sem vekur hlýju
Jólagarðurinn var formlega opnaður þegar Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og börn í 4. bekk í Varmárskóla tendruðu ljósin í fyrsta sinn. Andlit barnanna ljómuðu ekki síður en garðurinn enda er fátt ævintýralegra en falleg jólaljós. „Við vonum að jólagarðurinn við Hlégarð veki hlýju í brjóstum bæjarbúa og þökkum kærlega fyrir þessa frábæru hugmynd,“ segir í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Samráðsverkefni íbúa og bæjarins
Okkar Mosó er samráðsverkefni íbúa og bæjarins um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda og viðhaldsverkefna í Mosfellsbæ. Hugmyndirnar geta tengst því að gera Mosfellsbæ betri, skapa eitthvað nýtt, efla hreyfingu, hafa jákvæð áhrif á umhverfi og íbúa til útivistar og samveru, bættrar lýðheilsu eða aðstöðu til leikja og skemmtunar.

Jana gefur kost á sér í 2. sæti

Jana Katrín Knútsdóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri sem fer fram 5. febrúar nk. Jana er hjúkrunarfræðingur að mennt með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands. Jana hefur starfað innan heilbrigðis­kerfisins í um 13 ár og þar af 8 ár á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Í dag starfar hún sem sölu- og markaðsstjóri hjá Icepharma og var á lista Sjálfstæðis­flokksins í Suðvesturkjördæmi í Alþingiskosningunum fyrr á þessu ári. Jana er fædd og uppalin í Mosfellsbæ, er gift Magnúsi Pálssyni lögreglumanni hjá Ríkislögreglustjóra og saman eiga þau tvö börn, Anítu 11 ára og Loga Pál 6 ára. „Mig langar til að vera þátttakandi í áframhaldandi uppbyggingu í bæjar­félaginu ásamt öflugri liðsheild og er full af krafti og vilja til góðra verka í þágu bæjarbúa.“

Rúnar Bragi sækist eftir 3. sæti

Rúnar Bragi Guðlaugsson bæjarfulltrúi óskar eftir áframhaldandi stuðningi á lista Sjálfstæðismanna í prófkjöri sem fer fram 5. febrúar 2022 fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. „Hef ég mikinn áhuga og metnað á að starfa áfram að sveitarstjórnar­málum og fylgja eftir þeim fjöl­mörgu góðu málum sem hafa áunnist á þessu kjörtímabili. Ég tel að kraftar mínir og reynsla geti áfram nýst í þeirri miklu og spennandi uppbyggingu sem hefur verið og fram undan er í Mosfellsbæ.“ Rúnar er bæjarfulltrúi, formaður fjölskyldunefndar og öldungaráðs, ásamt því að sitja fyrir hönd Mosfellsbæjar í stjórn Strætó BS. Rúnar starfar sem framkvæmdastjóri Redder ehf. og er giftur Bylgju Báru Bragadóttur og saman eiga þau tvö börn.

Súrefni

Ég var úti í morgun með æfingahópnum. Við tökum daginn snemma tvisvar í viku og æfum úti, sama hvernig viðrar. Mér líður vel þegar ég æfi, bæði sjálfur og með öðrum og hvort sem ég er inni eða úti. Þessi tilfinning að hreyfa sig, liðka og styrkja er svo öflug, bæði fyrir líkama og sál.

En það er best að vera úti. Það gefur mér mesta orku. Og orkuskammturinn stækkar í góðum félagsskap. Margfaldast.

Núna þegar kóvidið heldur áfram að djöflast í okkur og okkur er reglulega kippt niður á jörðina og send í smitgát, sóttkví eða einangrun er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að finna leiðir til þess ná okkur í endurnýjanlega orku. Endurnýjanlega orku fyrir okkur sjálf, það er ekki nóg að hugsa bara um bílinn.

Ég ætla ekki að skrifa hér að það sé ekki í boði núna að vera fúll og hengja haus. Það er auðvelt að segja það þegar maður þarf ekki að hafa áhyggjur af afkomu sinni heldur getur einbeitt sér að því að hafa vit fyrir öðrum. Ég ætla frekar að segja að ég sjálfur eins og aðrir sem hafa þurft endurskipuleggja (vinnu)lífið og tilveruna vegna kóvid og alls þess sem því fylgir, verðum að gera allt sem í okkar eigin valdi stendur til þess að passa upp á eigin heilsuhreysti og vellíðan. Það tekur enginn frá mér æfingarnar mínar, útiveruna mína, súrefnið mitt, orkuskammtinn minn. Enginn.

Það er misjafnt hvað gefur okkur orku. Hver og einn veit best hvað gefur mest. En við eigum það öll sameiginlegt mannfólkið að við þurfum hreyfingu og ferskt loft til þess að líða vel. Á hverjum degi. Prófaðu að fara – án símans – aðeins út á morgnana, í hádeginu og seinni partinn. Hreyfðu þig, kíktu í kringum þig, njóttu þess að vera frjáls og fá stóran orkuskammt.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 18. nóvember 2021