Burpees fyrir ferðalanga

Heilsumolar_Gaua_29

Ég var á Vík í Mýrdal um daginn. Flottur staður, á þaðan ýmsar góðar minningar. Það er magnað að standa á svörtu ströndinni og horfa út á hafið, lifandi öldur og drangarnir mynda saman töfrandi heild sem verður enn sterkari þegar hljóðið í öldunum bætist við.

Ég fékk þá flugu í höfuðið að gera burpees á ströndinni og leitaði ráða hjá sérstökum ráðgjafahópi sem ég tilheyri um fjöldann. Margar tillögur komu fram en mér leist best á þá sem vesturhúnverska dagmamman lagði í púkkið. Nefnilega að tengja saman staðsetningu, íslenska stafrófið og tölur. A/Á er 1, B er 2 og svo framvegis. Vík í Mýrdal þýðir samkvæmt þessu kerfi, 150 burpees. Ég tók þær snemma morguns, í hressandi Víkurroki á ströndinni. Notaði stigatalningu til að búta 150 niður í smærri einingar. Tók eina, labbaði nokkur skref, tók tvær, labbaði nokkur skref og þannig áfram koll af kolli þangað til 150 burpees voru komnar í hús. Labbaði til baka, kom við á tjaldstæðinu og tók nokkrar róðraæfingar á leikgrind – mótvægi við armbeygjurnar – og svo upp á hótel í ískalda sturtu. Hrikalega fín byrjun á degi.

Ráðgjafahópurinn hefur síðan stundað þetta á flakki sínu um landið og heiminn. Safnar saman burpeesum. Einn grjótharður heiðraði meðal annars Sveitarfélagið Hornafjörð með viðeigandi burpeesfjölda í síðustu viku. Það er áskorun! Fáið endilega hugmyndina lánaða í sumarfríinu. En munið að gera þetta vel, ekkert slugs. Góð æfingatækni er gulli betri.

P.s. Það má sleppa nokkrum armbeygjum af og til ef þið eruð mikið á flakki. Of margar armbeygjur gera engum gott.

P.s.s. Lýsing á burpee: Standið upprétt, niður í hnébeygju, hendur í gólf. Hoppa út í planka, gerið armbeygju, hoppið til baka. Standið upp og hoppið jafnfætis upp í loftið. Ein burpee komin. Njótið sumarsins á hreyfingu!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 29. júní 2017