Breikkun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ

Ásgeir Sveinsson

Það er mikið ánægjuefni fyrir okkur Mosfellinga og reyndar landsmenn alla að framkvæmdir við breikkun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ séu loksins hafnar.
Þessi framkvæmd er búin að vera baráttumál bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ í mörg ár og hafa bæjarstjóri og starfsmenn bæjarins verið óþreytandi og lagt á sig mikla vinnu við að þrýsta á Vegagerðina til að koma þessari nauðsynlegu framkvæmd á koppinn.
Þolinmæði og þrautseigja er dyggð og nú er þetta loksins orðið að veruleika, með samstarfssamningi milli Vegagerðarinnar og Mosfellsbæjar.

Aukið umferðaröryggi
Þessi framkvæmd felur í sér miklar samgöngubætur og aukið umferðaröryggi fyrir Mosfellinga og alla þá sem keyra um Vesturlandsveg. Um er að ræða 1,1 km kafla frá hringtorgi við Skarhólabraut að Langatanga. Að framkvæmdum loknum verða þarna fjórar akreinar með vegriði á milli akstursstefna, auk þess sem settar verða upp hljóðmanir og biðstöð fyrir strætó.

Umferðartafir á framkvæmdatíma
Á meðan á framkvæmdatíma stendur verður ein akrein í hvora átt á vegakaflanum auk þess sem talsvert er búið að þrengja að umferð svo framkvæmdaaðilar geti athafnað sig. Hámarkshraði á þessum kafla verður 50 km og eru ökumenn minntir á þeirra umferðarhraða með ljósskiltum.
Nú á fyrstu dögum framkvæmda hefur umferðin gengið vel, en það er ljóst að á álagstímum mun umferðin í kringum framkvæmdasvæðið vera hæg og einhverjar raðir myndast í báðar áttir. Það er því skynsamlegt að reikna með aðeins lengri ferðatíma í gegnum svæðið á háannatíma meðan framkvæmdir eru í gangi.
Það er fórnarkostnaður sem við Mosfellingar ættum að taka á okkur með bros á vör, enda verður um mikla breytingu fyrir okkur að ræða að framkvæmdum loknum sem er áætlað 1. desember 2020.

Förum varlega og verum tillitsöm
Ég hvet Mosfellinga og alla vegfarendur til að virða 50 km hámarkshraða á framkvæmdasvæðinu, fara varlega og taka tillit til aðstæðna meðan á framkvæmdum stendur. Með því drögum við úr slysahættu og tryggjum að allir komist heilir að heiman og heim aftur.

Gleðilegt umferðarsumar.

Ásgeir Sveinsson, formaður bæjarráðs
og skipulagsnefndar Mosfellsbæjar