Börnin í Mosfellsbæ – Skítugu börnin hennar Evu?

Herdís Kristín Sigurðardóttir

Herdís Kristín Sigurðardóttir

Miðflokkurinn vill gæta barna ekkert síður en aldraðra og öryrkja. Miðflokkurinn leggur sérstaklega áherslu á snemmtæk úrræði fyrir börn með sérþarfir þar sem bið fyrir úrræði verði ekki aðeins stytt heldur hverfi.
Í dag er þessu svo við komið að hver silkihúfan á fætur annarri ásamt ágreiningi á milli stofnanna, ríkis og sveitarfélaga gerir það að verkum að börn þurfa ekki aðeins að bíða eftir úrræðum heldur fá þau ekki.

Biðin eftir greiningu
Í pistli á Bleikt.is frá því í september 2011 lýsir móðir ein, Kolbrún Reinhardtsdóttir Kvaran (Kolla Kvaran), hve vonlaust kerfið er þegar kemur að því að leitað sé eftir greiningu barna og úrræðum fyrir börn sem þola enga bið.
Foreldrar sem þurfa að komast í gegnum daginn rétt eins og við hin en hafa ekki tök, ráð eða þekkingu á skrifræðinu og vita ekki hve langan tíma það tekur að fá lausn brennur inni og barnið sem og öll fjölskyldan líður fyrir aðgerðarleysið.
Hve hversdagslega illt getur kerfið verið gagnvart börnum og hversu vonlaus barátta foreldra oft er fyrir börnin sín þarf að vera viðfangsefni okkar sem viljum breyta og bæta.

Örlygur Þór Helgason

Örlygur Þór Helgason

Snemmtæk úrræði
Í Mosfellbæ, rétt eins og víðast hvar annars staðar, eru börn sem þurfa á sértækum úrræðum af margvíslegum toga að halda. Þarna þarf að spyrða saman félags- og fjölskylduúrræði sveitarfélags, íþrótta- og tómstundafélög og síðast en ekki síst leik- og grunnskóla.
Snemmtæk úrræði eru ætluð til þess að áður en við missum barnið út af braut lífsins og hamingjunnar ber okkur, sem þekkjum til og höfum tækin, að skapa grundvöll fyrir foreldra að lausn, varanlegri lausn, sem miðast að því að unnið sé í þessum málum áður en vandinn er orðinn of stór.

Enga bið
Miðflokkurinn leggur gríðarlega áherslu á snemmtæk úrræði sem byrja eigi í leikskóla og svo fylgt eftir í grunnskóla. Tryggja þarf betri menntun og þverfagleg úrræði yfir svið bæjarfélagsins og nefnda með það að markmiði að allir í kerfinu viti af ferlinu og lausnum áður en vandinn ber foreldra yfirliði.
Látum ekki börn og foreldra bíða svo árum skiptir til að fá lausn fyrir barn sitt þar sem hver bendir á annan og ekkert gerist. Leysum vandann.
Miðflokkurinn er lausnamiðaður flokkur sem framkvæmir.

Herdís Kristín Sigurðardóttir er sjálfstætt starfandi og hrossaræktandi, skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Mosfellsbæ.
Örlygur Þór Helgason er kennari og þjálfari, skipar 3. sæti á lista Miðflokksins í Mosfellsbæ.
Heimild: Bleikt.is: (www.bleikt.pressan.is/lesa/skituguborninhennarevu)