Betri stjórnmál

Ólafur Óskarsson

Ólafur Óskarsson

Þann 26. maí n.k. verður kosið til sveitarstjórnar í Mosfellsbæ eins og annars staðar á landinu.
Fyrir réttum fjórum árum tók ég 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ og steig þar með mín fyrstu pólitísku skref. Það gerði ég eftir að sóst hafði verið eftir kröftum mínum af fólki sem taldi að ég gæti gert eitthvert gagn þeim hugsjónum sem ég hef brunnið fyrir undir merki jafnaðarmanna.
Á því kjörtímabili sem þá var að ljúka hafði Samfylkingin átt einn fulltrúa í bæjarstjórn. Það fór svo í síðustu kosningum, þrátt fyrir nokkurt andstreymi, að Samfylkingin náði að bæta við sig töluverðu fylgi og þar með öðrum bæjarfulltrúa í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Þetta tel ég að megi rekja til þess að mjög samhentur og öflugur hópur sterks hugsjónafólks stóð að framboðinu og svo þess að góður hljómgrunnur var fyrir þeim áherslum sem við lögðum í kosningabaráttunni.
Því miður dugði kjörfylgið þó ekki til þess að Samfylkingin hefði afl til þess að leiða meirihluta á þessu kjörtímabili. Það varð hins vegar hlutskipti Sjálfstæðisflokksins, sem að venju tók Vinstri græna með sér inn í meirihlutann.

Þrátt fyrir að sitja í minnihluta tel ég að við fulltrúar Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Mosfellsbæjar getum að mörgu leyti vel við unað hvað varðar okkar árangur við að þoka stefnumálum okkar áfram. Við höfum einbeitt okkur að því að vera málefnaleg í okkar gagnrýni og tillögugerð með heildarhagsmuni samfélagsins í huga. Lagt áherslu á bætt vinnubrögð í þágu íbúanna og meðvitað tekið þá ákvörðun að nýta ekki hvert tækifæri til hrópa á torgum til að fella ódýrar pólitískar keilur.
Við höfum stutt við góð mál og reynt að bæta önnur sem frekast má, ef annað var ekki í boði. Það þýðir þó alls ekki að við höfum skorast undan því að taka slaginn þegar þörf hefur verið á. Meðal þess sem við höfum náð fram af kosningastefnumálum okkar er: Lækkun leikskólagjalda, hækkun frístundastyrks í tvígang og fengið rýmkuð tekjuviðmið tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega til útreiknings á afslætti fasteignagjalda svo eitthvað sé nefnt.

Nú styttist í næstu sveitarstjórnarkosningar og undirbúningur okkar í Samfylkingunni er þegar hafinn. Skipað hefur verið á framboðlista og næst liggur fyrir að móta áherslur okkar fyrir komandi kosningar. Sú vinna hefst með stefnuþingi sem boðað er til þann 24. mars næst komandi og þangað eru allir velkomnir sem tilbúnir eru til þess að taka þátt í að móta okkar stefnu undir merkjum jafnaðarstefnunnar.
Ég vil því hvetja alla jafnaðarmenn í Mosfellsbæ til þess að leggja okkur lið í starfinu fram undan með því að taka virkan þátt með okkur í þeirri vinnu.

Ólafur Ingi Óskarsson,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ