Bættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu

Haraldur Sverrisson

Haraldur Sverrisson

Töluverð umræða hefur verið að undanförnu um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.
Þessi umræða hefur snúist um ástandið eins og það er í dag en sífellt lengri tíma tekur að ferðast um höfuðborgarsvæðið á álagstímum. Einnig hefur umræðan snúist um hver stefnan eigi að vera til framtíðar og hverjir séu valmöguleikarnir í stöðunni.

Hágæða almenningssamgöngur eða einkabíll?
Staðan í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu er víða orðin óviðunandi. Ferðatími hefur aukist, biðraðir lengst og á þetta sérstaklega við á álagstímum, þ.e. á morgnana og síðdegis. Þetta ástand skapast fyrst og fremst vegna fjölgunar íbúa, stóraukinnar bílaeignar og fjölgunar ferðamanna.
Samkvæmt spám á íbúum á höfuðborgarsvæðinu eftir að fjölga mikið á næstu árum eða um 70 þúsund fram til ársins 2040. Ef ekkert verður að gert mun því ástandið í samgöngumálum íbúa höfuðborgarsvæðisins versna á næstu árum og áratugum. En hvað er til ráða? Einkum hafa tvennskonar lausnir verið nefndar til sögunnar, annars vegar hágæða almenningssamgöngur sk. Borgarlína og hins vegar að bæta þurfi vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu verulega.
Umræðan hefur litast af því að annaðhvort er talað fyrir borgarlínuverkefninu eða að það þurfi að bæta vegakerfið. En þetta er alls ekki svo, það þarf nefnilega hvoru tveggja til. Veruleg þörf er orðin á að leggja meira af vegafé ríkisins til að bæta stofnvegakerfið hér á höfuðborgarsvæðinu eftir áralangt svelti til þess að greiða fyrir umferð og gera hana öruggari. Samhliða er nauðsynlegt að hugsa almenningssamgöngukerfið upp á nýtt. Borgarlínuverkefnið sem öll sveitarfélög standa að er leið til þess. En Borgarlína er hágæða almenningssamgöngukerfi sem hefur mikla flutningsgetu, hátt þjónustustig og ferðast í sérrými, þ.e. kemst greitt milli staða óháð töfum í bílaumferð. Forsenda fyrir Borgarlínu til Mosfellsbæjar er að uppbygging í Blikastaðalandi og óbyggðum svæðum Reykjavíkurmegin eigi sér stað. Það verkefni mun taka þónokkur ár. Borgarlínan er því ekki að verða að veruleika í Mosfellsbæ á næstu árum. Mosfellsbær er þátttakandi í þessu verkefni og Borgarlínan verður hluti af þeim nauðsynlegu samgöngubótum sem þurfa að koma til á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum, ásamt því að byggja upp betra vegakerfi fyrir einkabílinn. Þetta tvennt þarf algjörlega að fara saman.

Nauðsynlegt er að bæta samgöngur í gegnum Mosfellsbæ
Vesturlandsvegur í gegnum Mosfellsbæ er einn umferðarmesti þjóðvegur landsins en þar aka um 30 þús. bílar að meðaltali á sólarhring. Hann er í dag 2+1 vegur að hluta og er orðinn farartálmi fyrir þá sem eru á leið út úr bænum eða í bæinn sem og Mosfellinga. Eins uppfyllir vegurinn ekki öryggiskröfur um umferðarmikinn veg eins og þennan. Tvöföldun vegarins er á samgönguáætlun en sú áætlun hefur ekki verið fjármögnuð að fullu af ríkissjóði. Brýnt er að ráðast í tvöföldun vegarins sem allra fyrst og ætti þessi framkvæmd að vera í fyrsta forgangi hvað varðar úrbætur á þjóðvegakerfi landsins.
Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ munu halda áfram að berjast fyrir því að þessi framkvæmd komist á koppinn sem allra fyrst því hún er afar nauðsynleg í öllu tilliti. Ég sem bæjarstjóri Mosfellsbæjar mun halda áfram að vinna í þessum málum og þrýsta á að aukið fjármagn fáist til samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu. Það á bæði við um bráðnauðsynlegar vegabætur og bættar almenningssamgöngur því ljóst er að verkefni eins og Borgarlína verður ekki að veruleika nema með verulegri kostnaðarþátttöku ríkisins.

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri