Aukin tannlækna­þjónusta í Mosfellsbæ

ragnar og birgir  í háholtinu

Ragnar Kr. Árnason og Birgir Björnsson í Háholtinu.

Nýverið lauk framkvæmdun við stækkun og breytingar hjá Tannlæknastofu Ragnars Kr. Árnasonar að Háholti 14.
Nú er boðið upp á þjónustu tveggja tannlækna á stofunni auk möguleika á lengri opnunartímum svo eitthvað sé nefnt. Mosfellingur leit við og hitti tannlækna.
Mosfellingurinn Ragnar Kr. Árnason opnaði glæsilega tannlæknastofu sína í febrúar 2010 eftir að hafa rekið stofuna í Kópavogi í 20 ár. Eftir farsæl ár í Mosfellsbænum hefur Ragnari nú borist liðsauki.

Metnaðarfullur með víðtæka reynslu
Birgir Björnsson tekur nú til starfa við við hlið Ragnars en Birgir er 38 ára gamall og hefur starfað sem tannlæknir undanfarin 10 ár. Birgir er fjölskyldumaður með tvö börn, alinn upp í Árbænum, en nýlega flutti fjölskyldan í Mosfellsbæ.
Fyrr á árum tók Birgir þátt í íþróttastarfi með Fylki í Árbænum og fimleikum með Ármanni og er fyrrum landsliðsmaður og svo síðar landsliðsþjálfari í fimleikum.
Birgir starfaði í sjö ár sem tannlæknir hjá Tannlæknastofum Akureyrar en söðlaði svo um og flutti til Danmerkur. Birgir tók þátt í að stýra uppbyggingu á nýrri stofu í Kaupmannahöfn.
Stofan fór upp í sex stóla á innan við tveimur árum, sem þykir nokkuð gott í Kaupmannahöfn. Birgir var yfirtannlæknir og bar ábyrgð á öllum aðgerðum framkvæmdum á stofunni.

Sveigjanlegri opnunartími
„Eitt af því sem við stefnum á að gera er að bjóða viðskiptavinum okkar upp á rýmri og sveigjanlegri opnunartíma, þ.e. hafa opið lengur 2-3 daga í viku eftir þörfum og eftirspurn,“ segir Birgir. „Þetta opnar fyrir þann möguleika að fólk geti komið til okkar eftir vinnu og þar með sparað sér oft á tíðum slítandi ferðir til og frá vinnu á miðjum vinnudegi.
Það er frábært að starfa hér á stofunni með Ragnari og að vera fluttur hingað í þetta fallega og góða bæjarfélag. Aðstaðan hér er öll alveg fyrsta flokks og hér er gott að vera“.