Arnór Gauti til liðs við Aftureldingu

Arnór Gauti ásamt þjálfurunum Magnúsi Má og Enesi Cogic.

Afturelding hefur fengið sóknarmanninn öfluga Arnór Gauta Ragnarsson til liðs við sig fyrir átökin í Lengjudeildinni í fótbolta í sumar.
Arnór Gauti er að snúa aftur á heimaslóðir í Mosfellsbæ en hann kemur á lánssamningi frá Fylki. Arnór Gauti er 24 ára gamall og hefur spilað 68 leiki í Pepsi Max-deildinni á ferli sínum með Breiðabliki, ÍBV og Fylki.
„Það hefur verið uppgangur hjá Aftureldingu síðustu ár. Það er margt nýtt og mjög spennandi tímar fram undan. Liðið spilar virkilega skemmtilegan fótbolta og ég held að ég eigi eftir að smellpassa inn í þetta,“ sagði Arnór Gauti eftir að hafa skrifað undir hjá Aftureldingu.

Hjálpar okkur mikið í baráttunni í sumar
Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar fagnar komu Arnórs Gauta. „Við höfum lengi viljað fá Arnór Gauta aftur í rauðu treyjuna og nú loksins er það orðið að veruleika. Það er mikið fagnaðarefni að góðir leikmenn úr Mosfellsbæ hafi trú á því sem við erum að gera og vilji koma aftur á heimaslóðir og taka þátt í því. Ég er ekki í vafa um að Arnór Gauti á eftir að hjálpa okkur mikið í baráttunni í sumar.“
Það styttist í að fótboltasumarið hefjist en fyrsti leikur Aftureldingar er gegn Kórdrengjum á Fagverksvellinum við Varmá föstudagskvöldið 7. maí næstkomandi.