Andlegt ferðalag

andlegtÍ lífi manna gengur mismikið á en hjá flestum safnast upp, með tímanum, atvik og tilfinningar sem erfitt getur verið að vinna úr. Sumt er meðvitað en annað ómeðvitað og því oft mjög erfitt að átta sig á því.

Ég er þarna engin undantekning og eftir því sem leið á, fann ég að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Eitthvað hafði slökknað innra með mér. Ég hélt samt áfram því ég þurfti að sjá fyrir mér og mínum! Það kom svo að því að ég varð algerlega uppgefinn. Ég var orðinn ómeðvitaður um eigin tilfinningar og þarfir, mér leið eins og ég væri tilfinningalaus! Gleðin var horfin úr lífi mínu og ég vissi ekki hvað ég vildi eða þurfti. Mér fannst fólk ráðskast með mig, bæði persónulega og í vinnu. Þó ég hefði einhverjar skoðanir stóð ég ekki á þeim heldur flaut bara með. Ég hafði lítið sjálfsálit og dæmdi mig hart ef eitthvað gekk ekki eins og ég vildi. Mér leið ekki vel og einangraði mig og sinnti í engu mínum eigin þörfum. Mér fannst ég hafa misst stjórnina á lífinu.

Dag einn hitti ég gamlan vin sem greinilega tók eftir breytingu á mér og kannaðist við ástandið því hann fór að segja mér frá hvernig hann hafði endurskoðað líf sitt með aðferðum 12 sporanna. Með því hafði hann náð tökum á lífi sínu á ný. Hann lýsti því hvernig það að skoða líf sitt á þennan hátt, fékk hann til að koma auga á ýmislegt sem betur mátti fara. Á einum vetri hefði hann náð góðum tökum á lífi sínu á ný. Hann hafði tileinkaði sér nýjan lífsstíl þar sem hann notar aðferðir 12 sporanna til að tækla lífið og tilveruna. Með því var hann nú orðinn sáttur við líf sitt, sig og sína.
Vinur minn hvatti mig til að koma með sér á sporafund hjá Vinum í bata og athuga hvort ég finndi þar leið fyrir mig. Ég varð hissa því ég hélt að 12 sporin væru eingöngu fyrir þá sem ættu við áfengis- eða fíkniefnavanda að stríða.
Það er skemmst frá því að segja að ég sló til og fór í 12 sporin og get nú ekki hugsað mér lífið án þeirra. Með hjálp sporanna tileinkaði ég mér nýjan lífsstíl sem gerði mér kleift að ná tökum á lífinu, finna gleðina á ný og lifa í sátt við sjálfan mig og aðra.

Vinir í bata er hópur karla og kvenna á öllum aldri sem hafa tileinkað sér Tólf sporin til að vinna úr sínum málum, hvort sem er úr fortíð eða í nútíð.

Kynningar fundurinn verður í safnaðarheimili Lágafellskirkju að Þverholti 3, í kvöld fimmtudag kl. 19 og fimmtudagskvöldið 25. október, kl. 19. Það er síðasta tækifærið til að slást í hópinn þennan veturinn því eftir það verður hópnum lokað og hin eiginlega 12 spora vinna hefst.

Bestu kveðjur
Vinur í bata