Alltaf verið að breyta og bæta

Hákon Örn Bergmann heldur um taumana á Hvíta Riddaranum.

Hákon Örn Bergmann heldur um taumana á Hvíta Riddaranum.

Hákon Örn Bergmann er annar eigenda og rekstrarstjóri á Hvíta Riddaranum sem er veitingastaður í hjarta Mosfellsbæjar.
„Ég hef rekið staðinn frá áramótum og á þeim tíma hafa orðið þó nokkrar breytingar. Nú nýlega breyttum við opnunartímanum, nú opnum við kl. 11 og eldhúsið er opið til kl. 22. Staðurinn sjálfur er opinn til kl. 23:30 alla daga og til kl. 3:00 um helgar.
Þróunin frá áramótum hefur verið sú að við höfum lagt aukna áherslu á veitingastaðinn og matseðilinn frekar en að staðurinn sé bara bar og reynt að vera með fjölbreytta viðburði. Það hefur aukist mikið að fjölskyldufólk sæki staðinn og erum við bæði með barnamatseðil og sérstakt barnahorn sem hefur mælst vel fyrir,“ segir Hákon sem er ánægður með hve kúnnahópurinn er fjölbreyttur.

Hlaðborð í hádeginu
„Það er margt fram undan hjá okkur og nú erum við að byrja með hádegisverðarhlaðborð þar sem hægt verður að fá súpu, salat og fleira. Það er þörf fyrir þessa þjónustu og við erum að bregðast við því. Á næstu mánuðum ætlum við líka að gefa staðnum smá andlitslyftingu þ.e. nýtt gólfefni, skipta yfir í þægilegri stóla, uppfæra borðbúnað og þróa matseðilinn. Við ætlum að bæta inn á matseðilinn kjötréttum og einhverju fleira sem ekki hefur verið hægt að fá hjá okkur áður.“

Helgarleikirnir og meistaradeildin
„Það er alltaf stemning hjá okkur í kringum boltann, hér er góð aðstaða til að taka helgarleikina og meistaradeildina og eru allir velkomnir.
Við reynum að styðja vel við íþróttastarfið í bænum og tökum vel í allar beiðnir frá deildunum hvort sem það er með beinum stuðningi eða góðum tilboðum af matseðlinum hjá okkur,“ segir Hákon að lokum og vonar að Mosfellingar taki vel í þessar breytingarnar á Hvíta Riddaranum.