Alhliða styrkur

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Líkamlegan alhliða styrk er hægt að mæla með nokkrum vel völdum æfingum með eigin líkamsþyngd. Þessar æfingar eru rödd sannleikans, segja þér nákvæmlega hvar þú stendur. Þær eru öruggar og ef þú getur ekki framkvæmt þær 100%, þá er einfalt að finna auðveldari útgáfur sem þú getur gert til þess að bæta þig og styrkja.

Byrjum á upphífingum. Við erum að tala um dauðar upphífingar, engar sveiflur. Þú hangir á slá, hendur beinar, lófar snúa að, togar þig upp þannig að hakan komist yfir slána. Ef þú getur eina ertu í góðum málum, ef fleiri í enn betri málum, ef enga, þá þarftu að vinna í því ná þessu markmiði. Kannski þarftu að létta þig, kannski auka gripstyrk, kannski að læra að nota stóru bakvöðvana. En þú getur þetta ef þú virkilega vilt.

Næsta æfing er handstaða við vegg. Þú getur bakkað upp vegginn ef hefðbundna leiðin er of erfið. Ein mínúta í handstöðu er gott takmark. Næsta takmark er að láta þig síga þannig að haus nemi við jörðu, þriðja takmarkið að pressa þig aftur upp í handstöðu.

Hnébeygjur með eigin líkamsþyngd segja manni margt. Ef þú kemst alla leið niður þannig að rass nemi nánast við jörðu ertu í góðum málum, ef hælar lyftast ekki frá jörðinni. Þetta krefst liðleika. Ef þú getur þetta, prófaðu hnébeygju við vegg, andlitið snýr að veggnum, þú stendur nokkra sentimetra frá veggnum. Byrjar í efstu stöðu, sígur niður í neðstu stöðu á 30 sekúndum, togar þig upp á 30 sekúndum og sígur svo aftur niður á 30 sekúndum. Án þess að slaka á á milli. Ef þú getur híft þig upp, pressað eigin líkamsþyngd upp í handstöðu og framkvæmt 30/30/30 hnébeygju, fullyrði ég að þú búir yfir alhliða líkamlegum styrk sem geti nýst þér á margan hátt í daglegu lífi.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 12. nóvember 2015