Álfyssingar koma upp Samfélagsgarði

alafossgardur

Íbúar í Álafosskvos hafa tekið sig saman í samstarfi við Mosfellsbæ og tekið í notkun svokallaðan Samfélagsgarð efst í Kvosinni.
Garðurinn er hugsaður fyrir íbúana til að rækta sitt eigið grænmeti og vera saman úti í náttúrunni. Garðurinn er hringlaga og hefur hver íbúi sína sneið til ræktunar.
„Samfélagslegur ávinningur af verkefni sem þessu getur verið töluverður, segir Guðrún Ólafsdóttir íbúi í Kvosinni. „Garðurinn mun auka tengsl okkar við náttúruna og samvinnu íbúanna ásamt því að auka samveru fjölskyldunnar. Börnin okkar læra í verki að virða og njóta náttúrunnar og rækta sína eigin næringu.“

Í anda heilsueflandi samfélags
Íbúarnir í Álafosskvos leituðu til Mosfellsbæjar þar sem svæðið er í eigu bæjarins. „Okkur fannst þetta í anda Heilsueflandi samfélags, stuðlar að góðum samskiptum, hvetur fólk til að borða hollt og rækta líkama og sál,“ segir Berglind, einn af ræktendunum.
Svæðið sem var áður þakið lúpínu hentar einkar vel til ræktunar, sólríkur blettur og skjólsælt er úr öllum áttum. Mosfellsbær aðstoðaði við að standsetja ræktunarsvæðið og útvegaði mold. Þá var Jón Júlíus hjá Garðmönnum og íbúi í Kvosinni liðtækur og lagði sitt af mörkum.

Þjappar íbúunum saman
Íbúarnir segjast mjög þakklátir fyrir hversu vel bærinn tók í hugmyndina og þá aðstoð sem þeir fengu.
Nafnið Samfélagsgarður kom til vegna hversu mikið hann gerir fyrir samfélagið og þjappar íbúum saman. „Svo dreymir okkur auðvitað um að svona verði í hverju einasta hverfi bæjarins, að íbúar rækti grænmetið sitt, kannski með nokkrar hænur og svona,“ segja ánægðir samfélagsþegnar í Kvosinni.