Aldrei of seint að byrja að æfa

mosfellingurinn_maria

María Guðrún Sveinbjörnsdóttir vélaverkfræðingur í þróunardeild Össurar er fremsta taekwondo-kona landsins.

Taekwondo er ævaforn kóresk bardaga- og sjálfsvarnaríþrótt þar sem fæturnir leika aðalhlutverkið. María Guðrún Sveinbjörnsdóttir byrjaði að æfa taekwondo fyrir níu árum og hefur náð frábærum árangri. Hún er margfaldur Íslands- og bikarmeistari og hefur keppt á mörgum mótum fyrir Íslands hönd.
María leggur mikið af mörkum við uppbyggingu á taekwondo-íþróttinni á Íslandi og hefur verið máttarstólpi í allri þeirri vinnu.

María Guðrún er fædd í Reykjavík 28. júní 1980. Foreldrar hennar eru þau Halldóra Jóna Guðmunda Sölvadóttir íþróttaþjálfari og Sveinbjörn Guðjón Guðjónsson bifvélavirki en hann er látinn.
Systkini Maríu eru þau Laufey Jakobína f. 1959 d. 2018, Guðbjörg Sveinfríður f. 1962, Viðar Örn f. 1963 og tvíburasystirin Halla Sigrún f. 1980.

Þræddum allar bílasölur
„Ég ólst upp í Kópavoginum og þar var fínt að alast upp. Þegar maður rifjar upp æskuna þá eru minningarnar ansi margar en eftirminnilegir voru nú sunnudagsbíltúrarnir með pabba og tvíburasystur minni. Pabbi þræddi allar bílasölur á höfuðborgarsvæðinu og svo lá leiðin út á Granda til að skoða bátana. Áður en haldið var heim á leið var komið við á Bæjarins bestu.
Hvert einasta sumar fórum við fjölskyldan vestur því mamma er frá Aðalvík á Hornströndum og pabbi frá Hesti í Önundarfirði. Það skemmtilegasta sem ég veit er að vera á þessum stöðum, að njóta náttúrunnar og ganga á fjöll. Tvö af systkinum mínum bjuggu á Ísafirði þegar ég var barn og ég fékk oft að verða eftir hjá þeim yfir sumartímann og það fannst mér nú ekki leiðinlegt.“

Lesblinda háði mér alla tíð
„Ég gekk í Hjallaskóla og fór svo í Menntaskólann í Kópavogi. Ég var svona eins og sumir segja, lúði eða nörd og var ekki vinsælasti krakkinn í skólanum.
Ég var mjög samviskusöm og góð í raungreinum en lesblinda háði mér alla tíð og ég átti erfitt með tungumálin. Ég skammaðist mín fyrir að vera lesblind og reyndi að halda því leyndu eins lengi og ég gat. Í dag er staða mín allt önnur og ég læt ekkert stoppa mig.
Ég vann alla tíð með skóla en ég vann hjá mömmu við að baka kleinur á morgnana, svo skúraði ég á kvöldin og var stuðningsfulltrúi um helgar.“

Pantaði pizzu á Dominos
„Ég starfaði á Dominos á menntaskólaárunum og þar kynntist ég eiginmanni mínum, Eyjólfi Bjarna Sigurjónssyni viðskiptafræðingi á endurskoðandasviði hjá Deloitte, en hann var að panta sér pizzu. Við trúlofuðum okkur ári seinna þegar hann var að útskrifast úr Verzló en þá átti ég ár eftir í námi. Hann fór síðan í nám á Bifröst og kom til mín um helgar. Ég ákvað að taka mér ársfrí frá námi eftir útskrift og flutti upp á Bifröst og fékk vinnu á leikskólanum. Ég varð fljótlega ófrísk og dóttir okkar, Vigdís Helga, fæddist árið 2001 og árin á Bifröst urðu tvö.“

Flutti til Danmerkur
Árið 2002 eða eftir dvölina á Bifröst flutti fjölskyldan til Danmerkur og María Guðrún fór í vélaverkfræðinám í háskólanum í Álaborg. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tækni og þá vélum sérstaklega, rífa þær í sundur og sjá hvernig þær virka. Það lá alltaf vel fyrir mér að læra vélaverkfræðina og ég var orðin góð í að handreikna stærðfræðina. Eyjólfur var heima með dóttur okkar til að byrja með en fór síðan í nám í alþjóðaviðskiptum.
Við eignuðumst svo aðra dóttur árið 2005, Iðunni Önnu, og ég rétt náði að verja ritgerðina mína áður en hún kom í heiminn.“

Smábær í stórborg
„Þegar ég var búin með eitt ár af tveimur í mastersnáminu varð pabbi minn bráðkvaddur. Við fluttum þá skyndilega heim til Íslands til að hjálpa mömmu og vera nær fjölskyldunni. Við fluttum í Mosó því maðurinn minn tók ekki annað í mál enda alinn hér upp frá 12 ára aldri. Ég sé alls ekki eftir því að hafa flutt hingað því þetta er svona smábær í stórborg.
Ég samdi við stoðtækjafyrirtækið Össur um að fá að klára mastersritgerðina hjá þeim og var þá nemi í eitt ár. Ég útskrifast svo 2008 og hef starfað þar síðan. Það er dásamlegt að vera þarna og ég starfa við þróun í fótateyminu.
Við Eyjólfur eignuðumst yngsta barnið okkar, Sigurjón Kára, árið 2010. Við erum dugleg að ferðast fjölskyldan og förum á árlega á mínar heimaslóðir fyrir vestan.“

Það var ekki aftur snúið
„Einn daginn skutlaði ég dóttur minni á taekwondo-æfingu og ákvað að bíða eftir henni og horfa á æfinguna. Ég hafði lengi vel verið í karate og jujitsu en aldrei taekwondo­ og eftir æfinguna hugsaði ég með mér að þetta gæti verið skemmilegt. Ég skráði mig á æfingu og það var ekki aftur snúið, þetta var svo gaman og félagsskapurinn frábær. Það er aldrei of seint að byrja að æfa, ég hvet alla til að koma og prófa.
Ég hef lært ansi margt frá því ég byrjaði í taekwondo, þrautseigju, sjálfstraust og vera ekki hrædd við að mistakast.“

Sumir eru hissa og trúa okkur ekki
„Ég hef verið svo heppin að börnunum mínum finnst einnig skemmtilegt að æfa taekwondo og það hefur fært mig nær þeim. Að vera með dætrum mínum í landsliðinu, æfa og ferðast saman, er algjörlega ómetanlegt. Sumir eru mjög hissa og trúa því ekki að við séum mæðgur, halda að ég sé þjálfarinn eða systir þeirra.“
María Guðrún hefur keppt á mörgum mótum fyrir Íslands hönd og unnið til fjölda verðlauna. Hún var valin íþróttakona Mosfellsbæjar og íþróttakona Aftureldingar árið 2018 og hefur verið valin tae­kwondo-kona ársins hjá TKÍ tvö ár í röð.
En hvert skyldi María stefna í íþróttinni? „Ég stefni á að verða heimsmeistari þó að það taki mig mörg ár að komast þangað,” segir María og brosir er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 21. febrúar 2019
Myndir og texti: Ruth Örnólfs