Ákvarðanir og afstaða

Í gærmorgun (þetta er skrifað á mánudagsmorgni) sat ég við eldhúsborðið og skipulagði vorið og sumarið út frá þeirri heimsmynd sem þá blasti við mér. Dagatalið var stútfullt af fótboltaleikjum, æfingum og viðburðum sem tengdust þessu tvennu. Tilhlökkunin var mikil. Núna rétt rúmum sólarhring síðar eru blikur á sóttvarnarlofti vegna þess að örfáir einstaklingar höfðu ekki dug í sér til þess að fara eftir okkar einföldu sóttvarnarreglum.

Ég er venjulega geðgóður, bjart­sýnn og skilningsríkur en ég skil ekki hvað þeir sem ferðast og fylgja ekki sóttvarnarreglum eru að hugsa. Það eru sóttvarnarreglur í öllum löndum heims og þeir sem geta skipulagt ferðalög ættu að geta skipulagt sóttkví líka. Ef ekki, ættu þeir ekki að ferðast. Ég ferðaðist sjálfur í febrúar og fannst sjálfsagt að fara eftir sóttvarnarreglum, heima og heiman.

Það skín hugsanlega í gegn að ég er smá súr yfir þessu og ekki í skapi til að smella fram „allir geta nú gert mistök“ frasanum. Þetta eru einfaldlega mistök sem enginn ætti að vera að gera núna þegar covidið er búið að hefta okkur svona lengi. EN, ég ætla samt ekki að vera fúll lengi eða láta þetta eyðileggja fyrir mér sumarið. Það er ekki búið – þegar þetta er skrifað – að breyta sóttvarnarreglum, en ég er viðbúinn og klár með Plan B ef það verður gert. Ég ætla að hafa nóg að gera og vera mjög aktívur næstu mánuði, það er ekki nokkur einasti möguleiki að ég ætli að leggjast í covid-dvala þegar sól er hæst á lofti.

Tilveran er dugleg þessa dagana að bjóða okkur upp á áskoranir og gleðitíðindi til skiptis. Það sem við getum gert er að stýra eigin viðbrögðum og athöfnum. Finna leiðir, sjá tækifæri og skipuleggja okkur þannig að við getum bæði notið góðra stunda og brugðist hratt við breyttum aðstæðum.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 22. apríl 2021