Afturelding stykir liðið fyrir Inkasso-deildina

xxx

Magnús Már Einarsson aðstoðarþjálfari, Loic Ondo, Ragnar Már Lárusson, Viktor Marel Kjærnested, Sigurður Kristján Friðriksson, Kristján Atli Marteinsson, Trausti Sigurbjörnsson og Arnar Hallsson þjálfari.

Eftir að hafa unnið 2. deildina í sumar þá eru strákarnir í meistaraflokki Aftureldingar í fótbolta byrjaðir að undirbúa sig af krafti fyrir Inkasso-deildina næsta sumar. Liðið hefur hafið æfingar og framundan eru margir krefjandi æfingaleikir gegn Pepsi-deildar liðum fram að jólum.
Nýlega hafa tveir sterkir leikmenn gengið til liðs við félagið, markvörðurinn reyndi Trausti Sigurbjörnsson (28), sem var í úrvalsliði Inkasso-deildarinnar 2015, og kantmaðurinn öflugi Ragnar Már Lárusson (21). Báðir leikmennirnir eru ættaðir af Skaganum og uppaldir hjá ÍA. Trausti var lengi í röðum Þróttara í Reykjavík en kemur í Mosfellsbæinn úr Breiðholtinu frá Leikni R. Ragnar Már þótti einn allra efnilegasti knattspyrnumaður landsins og fór ungur til enska úrvalsdeildarfélagsins Brighton en lék með Kára í 2. deildinni að láni frá ÍA síðastliðið sumar.

Sterkir leikmenn framlengja
Þá hafa nokkrir af sterkustu leikmönnum félagsins framlengt samninga sína við félagið. Þeir eru: Bakvörðurinn sókndjarfi Sigurður Kristján Friðriksson sem var fastamaður í liði meistaraflokks á síðasta tímabili.
Sóknarmaðurinn efnilegi Viktor Marel Kjærnested sem er enn í 2. flokki félagsins og hefur tekið stórstígum framförum á liðnu ári. Miðjumaðurinn Kristján Atli Marteinsson sem kom af miklum krafti inn í lið meistaraflokks á miðju síðasta tímabili.
Síðastur en ekki sístur er Loic Ondo besti varnarmaður 2. deildarinnar á síðasta tímabili og fulltrúi félagsins í liði ársins sem valið var af þjálfurum og fyrirliðum liðanna í 2.deildinni.
Allir leikmennirnir hafa augljóslega mikla trú á því uppbyggingarstarfi sem í gangi er og skrifuðu undir tveggja ára samninga við félagið. Afturelding fagnar undirskriftum þessara öflugu leikmanna og er enn frekari frétta er að vænta af samningamálum á næstunni.