Áframhaldandi árangur

Hafsteinn Pálsson

Hafsteinn Pálsson

Mosfellsbær er ört vaxandi bæjarfélag og hér er gott að búa. Ég hef haft mikla ánægju af virkri þátttöku í bæjarlífinu sem bæjarfulltrúi og eiga skoðanaskipti við bæjarbúa. Ég hef sinnt þessu starfi af áhuga og alúð og býð mig fram til áframhaldandi góðra verka fyrir bæjarfélagið.

Áherslur
Það er mikilvægt að þjónusta bæjarins haldist í hendur við þá miklu fjölgun bæjarbúa sem átt hefur sér stað og allt bendir til að eigi sér stað á næstu árum. Þjónusta við barnafjölskyldur og sífellt stækkandi hóp eldri Mosfellinga er mikilvægur hluti af starfsemi bæjarfélagsins og gerir það eftirsóknarvert að búa í Mosfellsbæ.
Áherslur mínar eru að efla og styrkja það framsækna samfélag sem við höfum búið okkur hér í bænum. Mér er umhugað um að bæjarfélagið sé fjölskylduvænt og þá bæði umhverfið og sú þjónusta sem er veitt með virðingu fyrir þörfum allra aldurshópa.
Áhugasviðin eru fræðslumál, skipulagsmál, íþrótta- og æskulýðsmál og sú grunnþjónusta sem veita þarf af umhyggju í fjölskylduvænu umhverfi.

Reynsla
Ég er formaður bæjarráðs og hef áður á kjörtímabilinu meðal annars verið forseti bæjarstjórnar og formaður fræðslunefndar. Áður gengdi ég m.a. formennsku í íþrótta- og tómstundanefnd.
Samstarf við bæjarfulltrúa, nefndarmenn, starfsmenn bæjarins og ekki síst við bæjarstjóra hefur verið ánægjulegt. Sá stöðugleiki sem ríkt hefur við stjórn bæjarins og samstarf við bæjarbúa hefur verið bænum farsælt. Ég tel mikilvægt að haldið sé áfram á sömu braut með þátttöku reynslumikils fólks við stjórnun bæjarins.

3. sæti
Ég gef kost á mér til áframhaldandi setu í bæjarstjórn og sækist eftir 3. sæti á listanum. Ég býð mig fram með mína reynslu og á sömu forsendum og áður að leggja góðum málum lið.
Sjálfstæðismenn veljum reynslu og stöðugleika til farsældar fyrir bæjarfélagið.

Hafsteinn Pálsson
formaður bæjarráðs