Af hverju ertu að æfa?

ÞHeilsumolar_Gaua_5april

essi pistill er skrifaður með ykkur í huga sem þjálfið líkamann reglulega. Hafið þið velt því vel fyrir ykkur af hverju þið eruð að þjálfa/æfa? Snúast æfingarnar um líkamlegt heilbrigði, andlega vellíðan, keppni við klukkuna, samkeppni við nágrannann, hópefli, komast í kjólinn eða eitthvað annað? Það er mikilvægt að velta þessu vel fyrir sér og æfa síðan samkvæmt þeirri niðurstöðu sem maður kemst að. Þeir eru í keppnisíþróttum æfa til þess að vinna. Þeir æfa mikið, fara eins langt og líkaminn leyfir, oft lengra. Ná oft árangri í sinni íþrótt, ekki allir, það er ómögulegt. Borga svo margir fyrir árangurinn síðar með ónýtum öxlum, hnjám og öðru lítt spennandi. En þeir sem stunda keppnisíþróttir eru flestir meðvitaðir um þessa áhættu og eru tilbúnir að taka hana. Við sem höfum gaman af því að horfa á keppnisíþróttir getum ekki kvartað yfir því.

Ég velti því hins vegar oft fyrir mér afhverju fólk sem ekki er í keppnisíþróttum vill æfa eins og keppnisíþróttafólk. Æfa miklu grimmar, harðar og oftar en það hefur þörf fyrir. Jaska sér út viku eftir viku og borga fyrir það með lúnum og slitnum líkama. Pældu í þessu, þú sem ert enn að lesa. Ég hef sjálfur æft af mismunandi ástæðum, misgáfulegum. Ég fann til dæmis einu sinni NavySeals armbeygjuprógramm á Netinu og ákvað að prófa það.

Á nokkrum vikum gerði ég jafn margar armbeygjur og meðalmaður ætti að gera á einni ævi. Ég var alltaf að gera armbeygjur. Ég náði markmiðinu, kláraði prógrammið eins og atvinnuhermennirnir. Hvað fékk ég í staðinn? Aðallega verki í olnboga og axlir af allt of miklu álagi. Það tók mig marga mánuði ef ekki ár að vinda ofan af því. Í dag æfi ég til þess að vera hraustur og heilbrigður í dag og út lífið. Punktur.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 5. apríl 2018