Af afrekum annarra

Samson Bjarnar Harðarson

Samson Bjarnar Harðarson

Í bæjarstjórn Mosfellsbæjar sitja 9 kjörnir bæjarfulltrúar. Á kjörtímabilinu, sem er senn á enda, mynda 5 fulltrúar sjálfstæðismanna og einn fulltrúi Vinstri grænna meirihluta bæjarstjórnar.
Meirihluti bæjarstjórnar ákveður stefnu bæjarfélagsins og ræður að sönnu mestu um hvernig mál þróast og hvað hugmyndir fá brautargengi. En bæjarstjórn er skipuð fleirum. Samfylkingin hefur átt 2 bæjarfulltrúa á þessu kjörtímabili sem hafa unnið að framgangi áherslna jafnaðarmanna með málefnalegri umræðu og rökræðum og fengið fram ýmis af sínum áhersluatriðum.
Núna eru kosningar í nánd og áhugavert að skoða hvaða mál framboðin setja á oddinn. Sjálfstæðismenn eru ánægðir með sig eins og fyrri daginn og hreykja sér sérstaklega af góðum málum sem náð hafa í gegn á kjörtímabilinu. Kíkjum á nokkur:
Hækkun frístundaávísunar og hækkun tekjutengds afsláttar af fasteignagjöldum til eldri borgara. Hvort tveggja eru mál sem Samfylkingin gerði tillögur um og fékk samþykkt í bæjarstjórn með málefnalegri vinnu.
Aukið gegnsæi í stjórnsýslu með birtingu fylgiskjala og opnun bókhalds. Hvort tveggja mál sem allir fulltrúar í bæjarstjórn unnu að í sameiningu.

Jónas Þorgeir Sigurðsson

Jónas Þorgeir Sigurðsson

Þá taka sjálfstæðismenn lýðræðisverkefnið Okkar Mosó, sem Samfylkingin lagði til í bæjarstjórn, fastatökum og ætla að tryggja það í sessi. Það eru góð áform því verkefnið er mjög þarft og er þáttur í að auka íbúalýðræði í bænum. Þess vegna lagði Samfylkingin til að farið yrði í það verkefni.
Vinir okkar í Vinstri grænum telja sér sérstaklega til tekna í sínum kosningabæklingi ýmislegt sem vel hefur verið gert á kjörtímabilinu og öll framboð í bæjarstjórn hafa komið að. Einnig margt sem komist hefur á dagskrá og til framkvæmda að frumkvæði Samfylkingarinnar. Þar má nefna upphaf Meetoo-umræðu á vettvangi bæjarráðs, ungmennahús og hækkun frístundaávísunar.
Við látum hér staðar numið. Auðvitað verða tillögur flokka í minnihluta ekki að veruleika nema vilji þeirra sem sitja í meirihluta komi til. Þegar ákvörðun hefur verið tekin er ákvörðunin bæjarstjórnar allrar. En það er óneitanlega mjög sérstakt að sjá Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri græna stæra sig sérstaklega í þessari kosningabaráttu af árangri sem rekja má til flokka í minnihluta.
Líki fólki þau verkefni sem talin eru hér að ofan þá leggjum við til að það kjósi það framboð sem kom þeim málum á dagskrá á vettvangi bæjarstjórnar og setji X við S á kjördag.

Samson Bjarnar Harðarson
skipar 4. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar.
Jónas Þorgeir Sigurðsson
skipar 6. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar.