90% bæjarbúa lesa Mosfelling

Gallup stóð fyrir lestrarmælingu í Mosfellsbæ í desember og voru 714 íbúar Mosfellsbæjar, 18 ára og eldri, í úrtaki.
Bæjarblaðið Mosfellingur kemur ákaflega vel út úr könnuninni og mælist með 89,3% lestur meðal bæjarbúa. Mest fer lesturinn upp í 96% hjá íbúum 55 ára og eldri. Þetta er í fyrsta sinn sem lestur er mældur á bæjarblaði í Mosfellsbæ svo vitað sé. Mosfellingur hefur verið gefinn út frá árinu 2002 og ávallt dreift frítt í öll hús.

Hilmar Gunnarsson, ritstjóri Mosfellings.

Pappírinn ekki á útleið
„Þetta eru virkilega ánægjulegar niðurstöður og gaman að sjá þetta svona svart á hvítu, segir Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings. „Þessar tölur eru í raun ótrúlegar og hvetja okkur til að halda áfram á sömu braut. Það eru jú viðbrögð Mosfellinga og væntumþykja um blaðið sem heldur okkur gangandi. Þetta segir okkur það að pappírinn er ekki á útleið, síður en svo. Fólk vill fá fréttir úr sínu nærsamfélagi og ég held að það hafi gaman af smá sveitastemningu.
Að blaðinu kemur frábær hópur en margir halda að við séum öll í fullri vinnu hjá blaðinu. Öll höfum við þó sinnt blaðinu meðfram okkar vinnu og stöðugildin afskaplega lág. Við segjum stundum að blaðið sé gefið út af hugsjón, enda höfum við öll áhuga á því sem er að gerast í bæjarlífinu.“

Jákvæðar og skemmtilegar fréttir
Hvaða þýðingu hefur svona góð niðurstaða? „Aðallega viðurkenning á okkar störfum og sýnir að Mosfellingar kunni að meta þessa þjónusta. Auðvitað sjá líka auglýsendur að þeirra boðskapur skilar sér best hjá okkur. Á sama tíma eru stórir prentmiðlar t.d. Morgunblaðið með 26% lestur og Fréttablaðið 45% á höfuðborgarsvæðinu.
Við munum halda áfram okkar striki og upplýsa bæjarbúa á jákvæðan og skemmtilegan hátt um það sem gerist í Mosó.
Fjölmiðlafrumvarpið mun ekki styðja við okkar útgáfu því gefa þarf út blað vikulega til að hljóta náð mennta- og menningarmálaráðherra. Við viljum frekar gefa sjaldnar út og hafa flottara og efnismeira blað.
Á meðan auglýsendur sjá hag sinn í því að auglýsa í blaðinu og bæjarbúar taka blaðinu svona vel þá höldum við ótrauð áfram.“

 


Öll tölublöð Mosfellings frá upphafi eru nú aðgengileg á timarit.is en það er Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem rekur vefinn. Um 300 blöð frá síðastliðnum 17 árum eru aðgengileg á stafrænu formi á vefnum.