Ótrúlega mikil gróska í nýsköpun

kristrún

Kristrún Kristjánsdóttir, hagfræðingur og sérfræðingur á viðskiptasviði Kauphallarinnar sem nú heitir Nasdaq Iceland, hefur starfað innan kauphallargeirans bæði hérlendis og erlendis í um 15 ár. Í starfi sínu hefur hún upplifað tvö hrun á markaði, annars vegar þegar upplýsingatæknibólan sprakk árið 2000 og svo þegar stóra fjármálahrunið varð árið 2008, sem lék íslenskt efnahagslíf grátt eins og allir þekkja.
Nú hillir undir betri tíma í efnahagslífi sem og á markaði og Kristrún vonar að smærri fyrirtæki muni skipa nokkuð stóran sess í þeim efnum.

Kristrún er fædd í Hafnarfirði 25. maí 1971. Foreldar hennar eru þau Jóna Hafsteinsdóttir húsmóðir og Kristján Tryggvason flugvirki hjá WOW Air. Jóna lést árið 2013. Kristrún á tvö systkini, þau Steinunni og Hrannar.
„Ég bjó í Hafnarfirði þar til ég varð sex ára gömul, þá fluttist ég til Lúxemborgar þar sem pabbi minn hóf störf sem flugvirki en hann hafði áður unnið hjá Icelandair. Í Lúx bjuggum við í tæp fjögur ár og þaðan á ég mínar helstu æskuminningar.
Þessi ár voru mjög skemmtileg, ég eignaðist marga góða vini og í skólanum lærði ég lúxembúrgísku, þýsku og frönsku.“

Vorum saman í bekk
„Við nýttum tímann vel þegar við bjuggum úti og ferðuðumst um alla Evrópu. Við keyrðum oft um helgar yfir til Þýskalands en lengsta ferðin okkar var til Spánar. Ég held að ég hafi smitast af ferðabakteríunni á þessum árum því mér finnst fátt skemmtilegra en að ferðast.
Frá Lúxemborg lá leiðin í Breiðholtið. Ég gekk í Seljaskóla og þar kynntist ég manninum mínum, Gunnari Fjalari Helgasyni, en við vorum saman í bekk í unglingadeild og höfum verið óaðskiljanleg síðan.“

Fluttu til New York
„Á menntaskólaárunum flutti fjölskyldan í Hlíðahverfið. Ég fór í Menntaskólann í Reykjavík og þaðan í Háskóla Íslands og útskrifaðist með BS gráðu í hagfræði.
Ég var búin að starfa í eitt ár hjá Spron þegar við hjónin fengum tækifæri til að flytja til New York og taka þátt þar í spennandi verkefni.
Eitt leiddi að öðru og áður en ég vissi var ég komin í nám í Pace University á Manhattan þaðan sem ég útskrifaðist með MBA-próf með áherslu á fjármál og alþjóðaviðskipti.
Á meðan á námi mínu stóð fékk ég vinnu hjá kauphöllinni, American Stock Exchange. Eftir útskrift var ég ráðin í fullt starf í greiningardeild og þar vann ég í sjö ár eða þangað til við fluttum heim til Íslands vorið 2004. Gunni fékk draumastarfið sitt þarna úti en hann fékk vinnu í fjárfestingabanka.“

Veitingastaðirnir stóðu upp úr
„Árin okkar í New York voru æðisleg og við reyndum að nýta okkur það sem borgin hafði upp á að bjóða. Okkur fannst veitingastaðirnir standa upp úr og svo fannst okkur líka frábært að fara á tónleika.
Við eignuðumst frumburðinn okkar, Daníel Darra, árið 2001. Ég ákvað að segja upp í vinnunni og vera með hann heima fyrsta árið. Mér var síðan boðið að koma aftur og ég þáði það. Ég fékk inni í leikskóla fyrir Daníel Darra á Wall Street sem var bara næsta hurð við vinnustaðinn minn.
Ég varð ófrísk aftur þremur árum síðar og þá ákváðum við hjónin að flytja heim til Íslands. Það getur verið ansi flókið að vera með mörg börn í stórborg.“

Þrjú börn á fimm árum
„Eftir mikla leit á fasteignavefum landsins enduðum við í Mosfellsbæ. Margir voru hissa á okkur að velja Mosfellsbæ, komandi úr stórborg. En það sem Ísland hefur fram yfir stórborg er einmitt víðáttan og náttúrufegurðin og það er einmitt það sem Mosfellsbær hefur upp á að bjóða.
Oliver Orri fæddist stuttu eftir að við fluttum heim og þegar hann var eins árs þá var ég orðin ófrísk að þriðja barninu okkar, henni Söru Sól, en hún fæðist 2006. Það var því nóg að gera á heimilinu, þrjú börn á fimm árum,“ segir Kristrún og brosir.
Ég hóf störf hjá Kauphöll Íslands 2007 og hef því eingöngu unnið í kauphöllum frá því ég útskrifaðist.“

Gaman að ferðast með fjölskyldunni
„Ég er í hlaupahópi í Mosfellsbæ sem heitir Mosóskokk. Ég er búin að taka þátt í tveimur maraþonhlaupum og hver veit nema maður taki fleiri. Ég hef dregið börnin mín í hlaup líka, fórum til dæmis í Color Run, Miðnæturhlaupið og í Kvennahlaupið.
Það er líka alltaf gaman að fara á skíði, sund og ferðast með fjölskyldunni. Strákarnir okkar eru báðir að æfa knattspyrnu hjá Aftureldingu. Við höfum varið miklum tíma í það að elta þá um landið á mót. Dóttirin er hins vegar í ballett og fimleikum.“

Nasdaq Iceland
Kauphöllin var stofnuð 1985 fyrir tilstilli Seðlabanka Íslands. Viðskipti hófust ári síðar á íslenskum ríkisskuldabréfum og viðskipti með hlutabréf hófust 1991.
Árið 2006 keypti norræna OMX kauphallarsamstæðan (Svíþjóð, Danmörk, Finnland) íslensku kauphöllina og tveimur árum síðar kom Nasdaq til skjalanna sem keypti OMX og allar kauphallirnar þrjár í Eystrasaltsríkjunum. Var íslenska kauphöllin þá orðin hluti af stærstu kauphallarsamstæðu í heimi og heitir því nú Nasdaq Iceland.
Helsta hlutverk Kauphallarinnar er að halda utan um þá umgjörð sem við þekkjum sem verðbréfamarkað þar sem fyrirtæki og fjárfestar eru leiddir saman.“

Kröfur um samkiptahæfni
Kristrún starfar á viðskiptasviði en í því felast mikil samskipti við þá aðila sem eiga viðskipti á markaði, sem eru helstu fjármálafyrirtæki landsins. „Við veitum þeim upplýsingar um nýjungar á markaði og vinnum líka með þeim að úrbótum á ýmsum málum. Ég sinni einnig greiningum á markaði, er líka í tölulegum útreikningum á mörkuðum og vísitölum.
Við hittum margt fólk í hinum ýmsu geirum atvinnulífsins í gegnum starfið, það má því segja að starfið geri ekki síður kröfur um mikla samskiptahæfni en þekkingu.“

Kostur að vinna á litla Íslandi
„Ég hef verið dugleg að kynna mér nýsköpunarumhverfið og heimsótt fjölmörg fyrirtæki þar sem við kynnum Kauphöllina og hennar hlutverk í efnahagslífinu. Það er mikil gróska í nýsköpun.
Það er kostur að vinna á litla Íslandi miðað við erlendis í stærri fyrirtækjum, fjölbreytnin verður meiri. Við í Kauphöllinni njótum þess besta, að fá að vera hluti af stóru alþjóðlegu fyrirtæki sem Nasdaq er en vinna á litlum markaði sem Ísland er.“

Myndir og texti: Ruth Örnólfs