145 nýjar íbúðir og aukið verslunar- og þjónusturými í miðbænum

Tölvugerð mynd sem sýnir nýjar íbúðir við framhaldsskólann. Horft er í átt að Lágafelli og Úlfarsfelli.

Tölvugerð mynd sem sýnir nýjar íbúðir við framhaldsskólann. Horft er í átt að Lágafelli og Úlfarsfelli.

Horft í átt að Krónunni. Við hliðina er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði með íbúðum á efri hæð.

Horft í átt að Krónunni. Við hliðina er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði með íbúðum á efri hæð.

Eins og fram hefur komið í Mosfellingi þá mun ásýnd miðbæjarins breytast mikið á næstu misserum.
Á síðastliðnu ári voru auglýstar til úthlutunar lóðir við Bjarkarholt og Háholt milli Framhaldsskólans í Mosfellsbæ og Krónuhússins. Í framhaldinu ákvað bæjarráð að ganga til samninga við Upphaf fasteignafélag um uppbyggingu á þessum reit.
Í deiliskipulagstillögu sem skipulagsnefnd hefur samþykkt til kynningar er gert ráð fyrir að byggja eigi bæði íbúðarhúsnæði og verslunarhúsnæði. Húsið sem stendur við Háholt 23 (gamla Mosraf-húsið) mun víkja og munu rísa íbúðir á þeirri lóð, sem og lóðinni næst framhaldsskólanum.
Á lóð nr. 21 við Háholt, næst Krónuplaninu, verður um 1.800 fm verslunar- og þjónustuhúsnæði með íbúðum á efri hæð. Á reitnum öllum er gert ráð fyrir um 145 íbúðum með um 105 bílastæðum neðanjarðar.

Býður upp á aukna verslun og þjónustu
Umræða hefur verið um það að undanförnu að fjölga þurfi íbúðum í miðbænum til að möguleiki væri á að auka við verslun og þjónustu þar. Þar að auki myndi svokölluð Borgarlína, hágæðakerfi almenningssamgangna, tengjast miðbænum.
Skipulagsnefnd bæjarins samþykkti m.a. ályktun þess efnis samhljóða nýverið.
Miðað við þær hugmyndir sem nú eru uppi varðandi uppbyggingu bæði á umræddum lóðum við Háholt og eins á kaupfélagsreitnum hillir undir breytingar þar á.

Ásýnd og skipulag skiptir máli
„Mosfellsbær er ört stækkandi bæjarfélag og það er mikilvægt að nýta skipulagið til að hvetja til aukinnar þjónustu við íbúa og atvinnusköpunar,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
„Deiliskipulagstillaga fer nú í auglýsingu og hvet ég íbúa til að kynna sér hana vel. Ásýnd og skipulag miðbæjarins skiptir máli fyrir samfélagið okkar hér í Mosfellsbæ.“